Hæstiréttur íslands
Mál nr. 611/2011
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Dómari
- Skýrslugjöf
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2012. |
|
Nr. 611/2011.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Sif Vilhjálmsdóttur (Brynjar Níelsson hrl.) |
Fíkniefnalagabrot. Dómarar. Skýrslugjöf.
S var sakfelld í héraði og dæmd í 15 mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa í ágóðaskyni lagt á ráðin um innflutning á samtals 464,66 g af kókaíni. S neitaði sök en héraðsdómur taldi framburð hennar mjög ótrúverðugan. Í Hæstarétti var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu S, að frádreginni gæsluvarðhaldsvist hennar, og áréttað að reikull framburður sakbornings hjá lögreglu og fyrir dómi geti fellt á hann grun, ekki síst ef það sem hann hefur borið stangast á við skýrslugjöf annarra fyrir dómi og önnur sönnunargögn sem lögð hafa verið fram í máli, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu og eignaupptöku, en að refsing verði þyngd.
Ákærða krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu að refsing hennar verði bundin skilorði.
I
Krafa ákærðu um ómerkingu er á því reist að ljóst hafi verið við upphaf meðferðar málsins í héraði að niðurstaða þess, að því er hana varðaði, myndi ráðast af sönnunargildi framburðar meðákærðu þar, X og Y. Með hliðsjón af 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hafi því þrír héraðsdómarar átt að skipa dóm í málinu.
Í tilvitnuðu ákvæði segir að neiti ákærði sök og telji dómari sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi geti dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu. Samkvæmt þessu er dómstjóra heimilt, en ekki skylt, að ákveða að þrír dómarar sitji í dómi þegar svo stendur á sem að framan greinir. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 er svo fyrir mælt að einn dómari skipi dóm í hverju máli nema svo standi á sem í 3. mgr. til 5. mgr. segir. Frá þeirri meginreglu verður ekki vikið nema þörf krefji, en það ræðst af aðstæðum hverju sinni. Í máli því, sem til úrlausnar er, reyndi ekki einungis á mat dómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, heldur studdust sakargiftir á hendur ákærðu við margvísleg sýnileg sönnunargögn, svo sem upptökur úr eftirlitsmyndavélum og upplýsingar úr tölvum. Að þessu virtu verður ekki fallist á ómerkingarkröfu ákærðu.
II
Í málinu er ákærðu gefið að sök stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa í ágóðaskyni lagt á ráðin um innflutning á samtals 464,66 g af kókaíni til söludreifingar, „þar með talið fjármögnun og ferðatilhögun,“ og fengið meðákærðu, X og Y, til verksins. Ákærða hefur neitað sök, en héraðsdómari mat framburð hennar mjög ótrúverðugan, meðal annars sökum þess að hann hafi breyst við rannsókn málsins hjá lögreglu í takt við upplýsingar, sem fram komu meðan á rannsókninni stóð, þar á meðal myndir úr eftirlitsmyndavélum. Reikull framburður sakbornings hjá lögreglu og fyrir dómi getur fellt á hann grun, ekki síst ef það, sem hann hefur borið, stangast á við skýrslugjöf annarra fyrir dómi og önnur sönnunargögn, sem lögð hafa verið fram í máli, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sakfelling ákærðu fyrir að hafa í ágóðaskyni lagt á ráðin um innflutning á fyrrgreindu magni af kókaíni til söludreifingar. Gæsluvarðhaldsvist hennar kemur til frádráttar refsingu eins og fram kemur í dómsorði.
Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldsvist ákærðu, Sifjar Vilhjálmsdóttur, frá 31. ágúst til 10. september 2010 kemur til frádráttar refsingu hennar.
Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 414.350 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2011.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 9. júní 2011, á hendur:
,,X, kennitala [...]
[...],
Sif Vilhjálmsdóttur, kennitala [...],
[...], og
Y, kennitala [...],
[...], öllum búsettum í [...],
Gegn ákærðu öllum fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 24. ágúst 2010, í ágóðaskyni staðið saman að innflutningi á samtals 464,66 g af kókaíni til söludreifingar hér á landi. Ákærða Sif lagði á ráðin um innflutning fíkniefnanna, þar með talið fjármögnun og ferðatilhögun, og fékk meðákærðu X og Y til verksins. Efnin sem unnt er að framleiða 2039 g af kókaíni úr, fluttu ákærðu X og Y, innvortis og innanklæða, til Íslands frá Alicante á Spáni til Íslands, sem farþegar með flugi AEU-184 og fundu tollverðir fíkniefnin við leit á ákærðu báðum við komu þeirra til Keflavíkurflugvallar. Ákærði X faldi 160,44 g af kókaíni innvortis og ákærða Y faldi 304,22 g af kókaíni innvortis og innanklæða.
Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þess er krafist að ofangreind 464,66 g af kókaíni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.“
Verjandi ákærðu Y krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist verði skilorðsbundin og gæsluvarðahald komi til frádráttar refsivist ef dæmd verður. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða X krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist ef dæmd verður. Málsvarnarlauna er krafist fyrir vinnu á rannsóknarstigi og undir dómsmeðferð málsins.
Verjandi ákærðu Sifjar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar. Málsvarnarlauna er krafsist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Málavextir eru í stuttu máli þeir að ákærðu X og Y voru stöðvuð í Leifsstöð 24. ágúst 2010 við komu til landsins frá Alecante á Spáni. Við rannsókn kom í ljós að þau fluttu til landsins fíkniefnin sem lýst er í ákærunni. Ákærði X flutti 160,44 grömm af kókaíni sem hann faldi innvortis og ákærða Y 304,22 grömm af kókaíni sem hún faldi innvortis og innanklæða.
Undir rannsókn málsins játuðu ákærðu X og Y aðild sína að málinu, en ákærða Sif neitaði sök.
Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi auk þess sem framburður ákærðu hjá lögreglu verður reifaður að hluta.
Ákærði X játar sök. Hann kvaðst hafa verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þeim tíma sem í ákæru greinir og verið skuldugur vegna fíkniefnaskulda. Hann kvað einu leiðina til að losna við skuldirnar hafa verið þá að fara í ferðina sem í ákæru greinir. Hann neitaði að tjá sig um það hver hefði verið viðsemjandi sinn vegna ferðarinnar og að losna við skuldirnar eins og rakið var. Aðspurður hvort hlutur meðákærðu væri réttur samkvæmt ákærunni, neitaði ákærði að tjá sig um það. Ákærði kvað afstöðu sína óbreytta frá því sem var undir rannsókn málsins, en þá neitaði hann að tjá sig um ætlaðan hlut meðákærðu Sifjar. Sú afstaða væri óbreytt.
Meðal gagna málsins eru ljósmyndir af öllum ákærðu í banka og í bókasafni í Kringlunni skömmu fyrir brottför ákærðu af landinu. Ákærði neitaði að tjá sig um þennan þátt málsins. Hann lýsti því hvernig ákveðið var að hann myndi afhenda fíkniefnin eftir komuna til landsins. Hann kvaðst þó ekki hafa vitað hvort efnin hefðu verið ætluð til söludreifingar, en ákærði hefði ekki ætlað að taka þátt í því. Hann kvað þau meðákærðu Y hafa verið saman er þau fengu fíkniefnin afhent ytra. Allt hafi verið í einum pakka en þau skipt efninu á milli sín til flutnings. Ákærði kvaðst hafa ráðið skiptingu efnanna. Hann kvaðst hafa ákveðið framkvæmdina ytra en það hafi allt verið samkvæmt tilmælum sem hann fékk hér á landi og vildi ekki tjá sig um. Hann kvaðst hafa greitt fyrir ferðina fyrir bæði ákærðu með greiðslukorti sínu, en ferðin hefði verið keypt í gegnum tölvu á Borgarbókasafni í Kringlunni 13. ágúst 2010. Hann kvað manninn sem hann skuldaði peninga hafa útvegað peninga fyrir ferðinni og kvaðst hann hafa fengið peninga um viku fyrir utanferðina. Auk þess að losna við fíkniefnaskuldina kvaðst ákærði hafa átt að fá 500.000 krónur fyrir ferðina. Fyrir liggja ljósmyndir úr eftirlitsmyndavélum sem sýna ákærða í banka í Kringlunni sama dag og ferðin var keypt í bókasafninu. Aðspurður kvaðst ákærði telja að hann hafi þarna verið að leggja inn á reikning sinn peninga sem nota átti til að greiða utanferðina. Í lok aðalmeðferðarinnar kom ákærði X aftur fyrir dóminn og þá kvað hann meðákærðu Sif ekki hafa afhent peninga fyrir utanferðina eða skipulagt ferðina. Hann skuldi henni ekki peninga.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 24. ágúst 2010 var ákærði spurður að því hver hefði greitt fyrir utanferðina. Ákærði kvað þann sem fjármagnaði ferðina einnig hafa greitt flugfar út. Hann staðfesti þetta fyrir dóminum. Við sömu skýrslutöku kom fram að ákærði hefði við handtöku sagt að kona hefði átt að bíða eftir sér og sækja á flugvöllinn. Ákærði kvaðst ekki vita hver konan væri, en hún átti að þekkja þau ákærðu Y. Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 1. september 2010. Þar var hann spurður út í bókun flugferðarinnar. Hann kvað hana hafa verið bókaða er hann hitti viðsemjandann, en þessu lýsti ákærði svo ,,nei það var gert þegar við hittumst það er ég og þessi manneskja sem bað mig um að fara í ferðina.“ Hann staðfesti þetta fyrir dóminum og bar að hið rétta væri að ekki hefði verið greitt fyrir ferðina í tölvu á Borgarbókasafninu þar sem peningar hefðu ekki verið komnir inn á reikning hans á þeim tíma. Við skýrslutökuna 1. september kvað hann ferðina hafa verið greidda með greiðslukorti sínu og það hafi verið gert á heimili aðilans sem bað hann um ferðina. Ákærði staðfesti þetta fyrir dóminum. Við skýrslutöku hjá lögreglunni 1. og 9. september 2010 var X spurður fjölda spurninga sem hann svaraði greiðlega utan að hann neitaði að tjá sig er hann var spurður um meðákærðu Sif og ætluð tengsl hennar við málið.
Ákærða Y játar sök. Hún kvað aðdraganda ferðarinnar hafa verið þann að hún hefði kynnst meðákærðu Sif sumarið 2010 og umgengist hana sem vinkonu. Þær hefðu stundað samkvæmislífið og verið mikið saman í partýum eins og ákærða lýsti. Ákærða kvað meðákærðu Sif hafa hringt í sig og beðið sig um að hitta sig. Í framhaldinu hefði Sif komið á heimili móður ákærðu þar sem hún bað ákærðu um að fara út gegn 100.000 króna greiðslu. Erindið var að sækja fíkniefni. Ákærða kvaðst hafa samþykkt þetta og þá hefði hún fengið að vita með hverjum hún færi út, en það var meðákærði X. Meðákærða Sif hefði lofað öllu fögru, dvöl á góðum hótelum ytra, peningum og þau meðákærðu X áttu að líta út eins og par. Ákærða kvað sig hafa vantað peninga á þessum tíma, auk þess sem hún kvaðst hafa verið hrædd við meðákærðu Sif. Þar að auki hafi fundist þetta spennandi. Hún kvað meðákærðu Sif hafa annast skipulag ferðarinnar og fjármögnun. Ákveðið var að þau meðákærðu X dveldu í íbúð Sifjar fram að utanförinni og það hafi þau gert. Ákærða lýsti því að hún hafi átt að máta sambærilegar umbúðir þeim sem hún átti að flytja til landsins. Þetta átti að gerast í íbúð Sifjar sem hefði útskýrt hlutina fyrir sér. Ákærða kvað öll þrjú ákærðu hafa farið í Kringluna og ljósmyndir úr eftirlitsmyndavélum þaðan sýni þau í Kringlunni að sinna erindum tengdum utanferðinni 13. ágúst 2010. Ákærða kvað Sif hafa afhent peninga sem lagðir voru á bankareikning hennar sem hún síðan millifærði yfir á reikning meðákærða X. Eftir þetta fóru þau á bókasafnið í Kringlunni þar sem farmiðar í ferðina voru pantaðir en eitthvert vesen hefði fylgt því og hún mundi ekki hvort tókst að bóka ferðina í bókasafninu. Þetta fyrirkomulag var viðhaft samkvæmt tilmælum meðákærðu Sifjar. Hún kvað meðákærðu Sif hafa ekið þeim meðákærða X í Leifsstöð er þau fóru í utanferðina, en áður lánaði ákærða meðákærðu Sif bíl sinn. Hún lýsti því að hvorugt þeirra meðákærða X hefði mátt hafa farsíma meðferðis út og bæði hefðu skilið símann eftir í bílnum hjá Sif. Hún lýsti utanferðinni og samskiptum við mann ytra, en sá hefði sagt þeim að þau mættu ekki láta mikið á sér bera. Ákærða kvað ekkert af því sem lofað var hafa staðist og lýsti hún því. Hún kvað peninga, sem hún fékk, ekki hafa nægt til að komast til baka og hefði hún þurft að fá yfirdráttarlán í banka og lán hjá ömmu sinni og afa til að komast á flugvöllinn fyrir heimferðina. Maðurinn sem þau meðákærði X hittu ytra hefði komið með pakkningar sem flytja átti til landsins og hefði meðákærði X afhent henni þær og hún komið þeim fyrir og flutt til landsins eins og greinir í ákærunni. Hún hefði ekki vitað hvort meðákærði X flutti fíkniefni til landsins. Hún kvað ekki hafa verið rætt um efnistegund, en rætt var um að hún flytti 300 grömm af fíkniefnum til landsins og taldi hún að um væri að ræða amfetamín eða kókaín. Hún kvað hafa hvarflað að sér fyrir heimferðina að skilja fíkniefnin eftir en af því varð ekki. Hún kvað hafa verið ákveðið að meðákærða Sif sækti þau á flugvöllinn við heimkomu. Hún lýsti því að henni hefði verið gefið í skyn að hún ætti að ,,halda kjafti“ ef hún yrði tekin með fíkniefnin.
Ákærða Sif neitar sök. Hún kveðst þekkja meðákærða X og hún þekki meðákærðu Y en þær hefðu hist í partýum og lýsti hún því. Hún kvaðst hafa lánað meðákærða X íbúð sína. Hún kvað öll ákærðu sjást á upptöku úr eftirlitsmyndavél í Kringlunni 13. ágúst 2010. Þau hafi farið þar í banka og í bókasafn eins og sést á upptökunum. Þau hafi verið á fylleríi í Kringlunni og hún hafi ekki munað eftir bókasafnsferðinni þar sem hún hefði verið í ,,annarlegu ástandi“. Ákærðu var kynntur framburður meðákærðu um tilefnið ferðarinnar í Kringluna tilgreindan dag. Ákærða neitaði því að frásögn meðákærðu Y þar um væri rétt. Hún kvaðst hafa fyrir tilviljun verið með meðákærðu í Kringlunni á þessum tíma. Ástæðan hefði verið sú að meðákærðu X og Y voru ekki í ástandi til að aka og hafi hún því keyrt þau í Kringluna, en hún kvað þau meðákærða X hafa verið búin að vera í óreglu í þrjár vikur á þessum tíma.
Fyrir liggur að gerðar voru tvær árangurslausar tilraunir til að bóka utanferð ákærðu í tölvu í bókasafni í Kringlunni þennan dag. Ákærða kvaðst ekki hafa átt þátt í þessu þótt hún hafi farið með ákærðu á bókasafnið. Ákærða vissi ekki hvers vegna meðákærða bæri sig sökum. Helst taldi hún að ástæðan væri sú að meðákærða væri að reyna að ,,bjarga sér“. Ákærða hafi verið nærtækust.
Við skýrslutöku af ákærðu Sif hjá lögreglu 30. ágúst 2010 var hún spurð hvort hún vissi til þess að meðákærði X ætlaði til útlanda. Kvaðst hún þá halda að svo væri ekki. Síðar í sömu skýrslu greindi hún frá því að hún hafi ekið ákærðu í Leifsstöð nokkru fyrr. Við skýrslutöku hjá lögreglunni 2. september 2010 var Sif spurð um ferðir sínar og meðákærðu í banka í Kringlunni og í bókasafnið þar skömmu fyrir för meðákærðu til Spánar. Framburður Sifjar um þetta er mjög á reiki. Fyrst neitaði hún að hafa farið í Kringluna á þessum tíma, en síðar mundi hún atvik mjög óljóst. Í upphaflegri skýrslutöku ákærðu Sifjar hjá lögreglu var hún spurð hvort hún þekkti meðákærðu Y. Hún kvaðst í fyrstu ekki þekkja hana. Aðspurð kvað ákærða skýringuna þá að þau meðákærði X hefðu verið á fylleríi í nokkurn tíma og meðákærða Y hafi ekki verið eina stelpan sem hafi verið í kringum hana á þessum tíma og hún hefði ekki munað eftir henni.
Vitnið, A lögreglufulltrúi, lýsti vinnu sinni við rannsókn málsins og staðfesti skýrslu, dagsetta 10. febrúar 2011, sem hann ritaði vegna málsins. Hann lýsti því hvernig grunur beindist að ákærðu Sif undir rannsókninni. Upphaflega hefði hún verið nefnd við yfirheyrslur í málinu. Hann kvað framburð Sifjar hafa verið mjög misvísandi og ekki passað miðað við framburð ákærðu Y og X og lýsti hann því. Nefndi hann að í upphafi hefði ákærða Sif ekki viljað kannast við meðákærðu Y yfir höfuð. Í upphafi hafi Sif ekki kannast við ferðina í Kringluna 13. ágúst, en eftir að myndir úr eftirlitsmyndavélum komu fram breytti Sif framburði sínum og sagðist hafa verið að sækja bætur Y. Grunsemdir á hendur henni hafi aukist við hverja yfirheyrslu þar sem einföld atriði eins og hvort hún þekkti ákærðu, hefðu vafist fyrir henni og lýsti hann því.
Vitnið skýrði og staðfesti upplýsingaskýrslu sem rituð er 2. september 2010. Þar er svofelldur kafli í kjölfar spurningar sem B lagði fyrir lögregluna varðandi hvernig hann tengdist þessu máli: ,,ég trúi ekki að hún Sif sé að klína þessu á mig hún veit betur.“ B vildi ekki ræða þessi orð sín frekar eins og segir í skýrslunni. Fram kemur að skýrslan er rituð eftir samtal við B sem lögreglan flutti á Litla-Hraun 31. ágúst 2010.
Vitnið kvað ekkert hafa komið fram undir rannsókninni sem benti til þess að ákærðu Y eða X hafi skipulagt og fjármagnað ferðina sem hér um ræðir, en framburður þessara beggja hafi verið í samræmi við gögn sem lágu fyrir undir rannsókninni. Hann kvað framburð ákærðu Y hafa verið mjög mikilvægan við að upplýsa málið.
Vitnið C rannsóknarlögreglumaður staðfesti skýrslu sem hann ritaði 6. september 2010. Í ljós kom að hinn 13. ágúst 2010 voru lagðar inn 202.000 krónur á bankareikning Y í Íslandsbanka í Kringlunni. Samkvæmt gögnum málsins voru öll ákærðu í bankaútibúinu á sama tíma og þetta átti sér stað.
Vitnið D lögreglumaður staðfesti skýrslu sína, dagsetta 2. september 2010, en skýrsluna ritaði hann eftir upplýsingum frá starfsmanni Valitor. Í skýrslunni er lýst tveimur tilraunum til að gjaldfæra 191.194 krónur sem á gögnum málsins má ráða að er greiðslukort ákærða X í gegnum Iceland Express. Báðar tilraunirnar voru gerðar á þeim tíma er öll ákærðu voru stödd á bókasafni í Kringlunni. Ekki fékkst heimild til að millifæra fyrr en klukkan 19:02 að kvöldi sama dags, en þá var bókunin gerð. D lýsti vinnu sinni við að fá gögn úr eftirlitsmyndavél í Kringlunni. Hann lýsti því að þar sjáist hvenær ákærðu fóru í bankann sem lýst var og síðar í bókasafnið. Tíminn sem fram komi á upptökunum komi heim og saman við tímann sem ákærðu voru í bankanum og hvenær reynt var að bóka flugmiða í tölvu bókasafnsins.
Vitnið B varpaði ekki ljósi á málavexti og verður framburður hans ekki reifaður hér, utan að hann kannaðist við að hafa sagt við A lögreglufulltrúa að hann tryði því ekki að Sif væri að reyna að klína þessu á sig eins og rakið var að ofan. Hann kannaðist ekki við að Sif ætti hlut að máli.
Jakob Kristinsson prófessor skýrði og staðfesti matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði sem liggur fyrir eftir rannsókn hluta fíkniefnanna sem í ákæru greinir.
Vitnisburðir E, F og G varpa ekki ljósi á málavexti og verða ekki raktir hér.
Niðurstaða
Ákærðu er gefið að sök að hafa í ágóðaskyni staðið saman að innflutningi á 464,66 g af kókaíni til söludreifingar hér á landi.
Ákærðu X og Y játa sök. Ráða má af framburði þessara tveggja ákærðu að báðum var ljóst frá upphafi hver var tilgangur utanferðarinnar, en bæði hafa borið um meðferð fíkniefnanna ytra og aðdraganda ferðarinnar. Bæði hafa borið um það sem hvort um sig átti að fá fyrir utanferðina og var þar um að ræða bæði beinar fjárgreiðslur og niðurfellingu fíkniefnaskulda. Af þessu og öðrum gögnum málsins er sannað að þessi ákærðu vissu að fíkniefnin voru flutt til landsins í ágóðaskyni og þau voru ætluð til söludreifingar hér á landi.
Ákærða Sif neitar sök. Framburður hennar er mjög ótrúverðugur og undir rannsókn málsins breyttist hann í takt við upplýsingar sem fram komu undir rannsókninni, m.a. myndir úr eftirlitsmyndavélum í Kringlunni eins og rakið var.
Ákærða Y hefur borið efnislega á sama veg frá upphafi og fær trúverðugur framburður hennar stoð í nánast öllu því sem fram er komið í málinu. Hið sama á við um framburð ákærða X sem hefur borið efnislega á sama veg um flest, utan hann neitaði að mestu að svara spurningum að því leyti sem þær vörðuðu ætlaðan hlut ákærðu Sifjar í málinu. Framburður ákærða X er trúverðugur svo langt sem hann nær.
Að öllu ofanrituðu virtu er sannað með skýlausri játningu ákærðu Y og X að þau hafi gerst sek um háttsemi þá sem í ákæru greinir og er vísað til ofanritaðs um það að sannað er að þessi ákærðu vissu að fíkniefnin voru flutt til landsins í ágóðaskyni og til söludreifingar. Þá er sannað með framburði Y og með stuðningi af framburði ákærða X og með öllum öðrum gögnum málsins sem rakin hafa verið, en gegn ótrúverðugum framburði og neitun ákærðu Sifjar, að hún hafi gerst sek um háttsemi þá sem í ákæru greinir.
Verknað ákærðu ber að virða sem verkskiptan samverknað og ber hvert um sig fulla refsiábyrgð á þætti sínum eins og honum er lýst í ákærunni.
Brot ákærðu eru rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni en við mat á heimfærslu til refsiákvæða er auk efnismagns og efnistegundar tekið mið af því að styrkur efnisins sem um ræðir var mikill.
Ákærði X hefur frá árinu 2009 gengist undir fjórar lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot, þar af eru tvær lögreglustjórasáttanna gerðar sama dag, hinn 6. maí 2011. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum og hann hefur játað brot sitt hreinskilnislega og er það virt til refsilækkunar. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 10 mánuði en að ofanrituðu virtu þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði.
Ákærða Sif hlaut skilorðsbundinn fangelsisdóm á árinu 2005 fyrir þjófnað. Hún gekkst undir lögreglustjórasátt á árinu 2005 fyrir fíkniefnabrot og árið eftir fyrir umferðarlagabrot. Hún hlaut hinn 16. desember 2010 sektardóm fyrir umferðarlagabrot. Nú ber að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða Sif lagði á ráðin um fíkniefnainnflutninginn og var vilji hennar til verksins styrkur og einbeittur. Er tekið mið af þessu við refsiákvörðun, sbr. 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að ofanrituðu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði, en skilorðsbinding refsingarinnar í heild eða hluta kemur ekki til álita eins og á stendur.
Ákærða Y hefur ekki áður gerst brotleg við lög. Hún hefur játað brot sitt hreinskilnislega og er það virt til refsilækkunar. Þá hefur hún með framburði sínum upplýst um aðild annarra á brotinu og er tekið mið af þessu, sbr. 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákvörðuð fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar eins og í dómsorði greinir.
Komi til afplánunar refsivistar ákærðu X og Y skal draga gæsluvarðhald sem hvort um sig sætti vegna málsins frá refsivistinni með fullri dagatölu og frá refsivist ákærðu Sifjar komi gæsluvarðhald sem hún sætti vegna málsins. Vísast í þessu sambandi til 76. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru dæmd upptæk 464,66 grömm af kókaíni.
Ákærði X greiði Guðmundi St. Ragnarssyni héraðsdómslögmanni 401.600 krónur í málsvarnarlaun og 43.680 krónur í aksturskostnað.
Ákærða Sif greiði 225.900 króna málsvarnarlaun til Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns.
Ákærða Y greiði Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 502.000 króna málsvarnarlaun og 31.200 krónur í aksturskostnað. Þóknun verjendanna Guðmundar og Sveins Andra er fyrir vinnu beggja undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.
Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.
Hulda María Stefánsdóttir, settur saksóknari, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærða, Sif Vilhjálmsdóttir, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærða, Y, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Fullnustu refsivistar ákærðu X og Y er frestað skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hvors um sig niður að þeim tíma liðnum haldi hvort um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Komi til afplánunar refsivistar þessara tveggja ákærðu skal draga frá henni gæsluvarðhald sem hvort um sig sætti með fullri dagatölu. Frá refsivist ákærðu Sifjar skal draga gæsluvarðhald sem hún sætti vegna málsins.
Upptæk eru dæmd upptæk 464,66 grömm af kókaíni.
Ákærði X greiði Guðmundi St. Ragnarssyni héraðsdómslögmanni 401.600 krónur í málsvarnarlaun og 43.680 krónur í aksturskostnað.
Ákærða Sif greiði Snorra Sturlusyni héraðsdómslögmanni 225.900 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærða Y greiði Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 502.000 krónur í málsvarnarlaun og 31.200 krónur í aksturskostnað.
Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.