Hæstiréttur íslands

Mál nr. 193/2014

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
X (Oddgeir Einarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Brot gegn lyfjalögum
  • Upptaka
  • Sératkvæði

Reifun

X var sakfelldur fyrir lyfjalagabrot með því að hafa selt einstaklingi 10 stykki af Ritalini og átt 109 stykki af Ritalini í sölu- og dreifingarskyni, án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar. Með broti X rauf hann skilorð samkvæmt eldri dómi og samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga var skilorðsdómurinn því tekinn upp og X dæmd refsing í einu lagi fyrir bæði málin eftir reglum 77. gr. sömu laga. Var refsing X því ákveðin sjö mánaða fangelsi. Þá voru gerð upptæk 119 stykki af Ritalini sem lögregla hafði lagt hald á við rannsókn málsins.

   
   
Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Ákærði er í máli þessu sakaður um að hafa selt nafngreindri konu 10 stykki af Ritalini og ,,átt 109 stykki af Ritalini í sölu- og dreifingarskyni, án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar.“ Er háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 með áorðnum breytingum.

Í 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga segir að leyfi til lyfjasölu hafi þeir aðilar einir sem til þess hafi hlotið leyfi Lyfjastofnunar. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðu tveir lögreglumenn afskipti af ákærða og ofangreindri konu 15. október 2013, en þau voru þá stödd á bifreiðastæði við [...] í [...]. Hafði ákærði þá í fórum sínum 109 töflur af Ritalini og 6.000 krónur í reiðufé. Lögreglumennirnir tóku skýrslur af ákærða og konunni á vettvangi. Játaði hann að hafa selt konunni 10 töflur af Ritalini og kvaðst hafa ætlað sér að gefa, nota og selja töflurnar sem hann var með og undirritaði skýrslu þess efnis. Konan játaði einnig á vettvangi að hafa keypt 10 töflur af Ritalini af ákærða og undirritaði skýrslu þess efnis. Fyrir dómi hurfu þau bæði frá játningu sinni. Fyrrgreindir lögreglumenn komu báðir fyrir dóm og staðfestu að atvik hefðu verið með þeim hætti sem greindi í skýrslum sem teknar voru á vettvangi. Er fallist á með hinum áfrýjaða dómi að afturhvarf frá fyrri framburði sé ótrúverðugt og sannað sé að ákærði hafi selt ofangreindri konu 10 stykki af Ritalini. Er ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi. Jafnframt er sannað með játningu ákærða á vettvangi og framburði ofangreindra lögreglumanna fyrir dómi að ákærði hafi ætlað sér að selja hluta þess Ritalins sem hann var með í fórum sínum umrætt sinn. Með framangreindri háttsemi braut hann gegn 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga, sbr. 1. mgr. 49. gr. laganna. Með vísan til framangreinds verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða, ákvörðun refsingar, upptöku Ritalin taflna og ákvörðun málsvarnarlauna.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 262.162 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

 

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara

Í máli þessu er ákærða annars vegar gefið að sök að hafa 15. október 2013 selt nafngreindum einstaklingi 10 stykki af Ritalini og hins vegar að hafa „átt 109 stykki af Ritalini í sölu og- dreifingarskyni, án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar.“ Telur ákæruvaldið þetta varða við 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr., sbr. 49. gr., lyfjalaga nr. 93/1994 með áorðnum breytingum.

Ákvæði 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga er upphafsákvæði IV. kafla þeirra sem ber heitið: Markaðsleyfi lyfja. Mat á lyfjum. Klínískar lyfjaprófanir. Í ákvæðinu segir: „Fullgerð lyf (lyf, tilbúin eða sem næst tilbúin til notkunar) er einungis heimilt að flytja til landsins, selja eða afhenda að fengnu markaðsleyfi eða leyfi til samhliða innflutnings.“ Ákvæði 1. mgr. 20. gr. laganna er í upphafi VII. kafla þeirra, sem ber heitið: Um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi. 1. málsliður 1. mgr. 20. gr. laganna hljóðar svo: „Leyfi til lyfjasölu hafa þeir aðilar einir sem til þess hafa hlotið leyfi Lyfjastofnunar.“ Síðari málsliðir ákvæðisins hafa ekki þýðingu við úrslausn þessa máls. Loks er í 1. mgr. 49. gr. lögð refsing við að brjóta gegn ákvæðum laganna og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Ég er samþykkur rökstuðningi og niðurstöðu meirihluta dómenda fyrir því að sannað sé að ákærði hafi umrætt sinn selt 10 töflur af Ritalini. Lyfið seldi ákærði án heimildar til þess samkvæmt 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga. Með því hefur hann unnið sér til refsingar eftir 1. mgr. 49. gr. laganna.

Eins og áður greinir er ákærða í síðari hluta ákærunnar gefið að sök að hafa átt umrætt lyf í sölu- og dreifingarskyni. Ekki verður séð að ákvæði lyfjalaga, sem að framan eru rakin og vísað er til í ákæru, lýsi eftir orðanna hljóðan refsiverða vörslu á lyfinu sem fylgir markaðsleyfi, sbr. 7. gr. lyfjalaga. Skiptir þá ekki máli þótt talið verði að vilji ákærða hafi staðið til þess að selja einhverjum nokkurn hluta af því, sjá til samanburðar að þessu leyti 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem snýr að ávana- og fíkniefnum. Skortir viðhlítandi lagastoð fyrir því að ákærði hafi unnið til refsingar með þessari háttsemi, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum verður að sýkna hann af síðari hluta ákærunnar.

Hvað sem framangreindu líður er ég sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um viðurlög á hendur ákærða. Þó tel ég að skipta beri sakarkostnaði hér fyrir dómi í samræmi við ákvæði 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. febrúar 2014, er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru dagsettri 17. desember 2013, á hendur X, kt. [...],[...],[...], fyrir lyfjalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 15. október 2013, í bifreiðinni [...] á bifreiðastæði við [...] í [...],selt nafngreindum einstakling 10 stykki af Ritalini, og átt 109 stykki af Ritalini í sölu- og dreifingarskyni, án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar.

                Er talið að þetta varði við 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, með áorðnum breytingum. 

                Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á samtals 119 stykkjum af Ritalini, með vísan til 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.

                Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

                Samkvæmt skýrslu lögreglu frá þriðjudeginum 15. október 2013 hafði lögregla þann dag kl. 16.57 afskipti af ákærða. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að lögreglu hefðu borist ábendingar um að ákærði væri að selja Ritalin. Af þeim ástæðum hafi þótt ástæða til að fylgjast með ákærða þar sem hann hafi setið í bifreið á bifreiðastæði við Lóuhóla. Skömmu síðar hafi bifreið verið ekið upp að bifreið ákærða og [...], ökumaður þeirrar bifreiðar, farið yfir í bifreið til ákærða. Er [...] hafi stigið út úr bifreið ákærða hafi lögregla haft afskipti af ákærða og [...]. Hafi ákærði verið með 6.000 krónur í annarri hendi og Ritalin í hinni. Ákærði hafi játað fyrir lögreglu að hafa selt [...] 10 töflur af Ritalini. Þá hafi ákærði framvísað 109 öðrum töflum af Ritalini er hann hafi verið með innan klæða. Töflurnar hafi allar verið haldlagðar af lögreglu. Tekin hafi verið skýrsla af  ákærða og [...] og þau verið frjáls ferða sinna að því loknu. Á meðal rannsóknargagna málsins eru skýrslur sem teknar voru af ákærða og [...] á vettvangi umrætt sinn.

                Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar lögreglu var efni það er lögregla lagði hald á umrætt sinn lyfið Ritalin.

                Ákærði hefur fyrir dómi synjað fyrir að hafa selt [...] lyfið Ritalin umrætt sinn. Hann hafi hitt hana fyrir tilviljun á bifreiðastæðinu og þau rætt saman. Ákærði kvaðst hafa játað fyrir lögreglumönnum að hafa selt [...] 10 töflur af Ritalini og að hafa ætlað selja og gefa þær 109 töflur er hann hafi verið með innanklæða. Hafi ákærði játað þessa háttsemi undir þvingunum frá lögreglu, sem hafi hótað ákærða því að fara heim til hans og haldleggja tölvu og farsíma ákærða. 

                [...] kvaðst fyrir dómi hafa hitt ákærða umrætt sinn fyrir tilviljun á bifreiðastæði við [...] í [...]. Hafi hún ekki keypt lyf af ákærða. Lögreglumenn á vettvangi hafi hins vegar hótað [...] því að fara heim til hennar og taka frá henni tölvu og síma játaði hún ekki að hafa keypt af ákærða lyfin. Þá hafi hún heyrt lögreglumenn hóta ákærða því hinu sama, játaði hann ekki að hafa selt [...] lyf.

                Lögreglumennirnir Stefán Sveinsson og Andri Fannar Helgason staðfestu fyrir dómi þátt sinn í rannsókn málsins. Synjuðu þeir báðir fyrir að hafa beitt ákærða eða [...] þvingunum við játningar þeirra á vettvangi. Í ljósi greiðlegrar játningar þeirra hafi verið ákveðið að taka af þeim skýrslur af vettvangi, til að ljúka þeim þætti málsins.

Niðurstaða:

                Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki hafa selt [...]10 töflur af Ritalini þriðjudaginn 15. október 2013 á bifreiðastæði við [...] í [...]. Þá kvaðst ákærði ekki hafa átt þær 109 töflur aðrar af lyfinu í sölu- og dreifingarskyni. Samkvæmt rannsóknargögnum málsins játaði ákærði fyrir lögreglu á vettvangi að hafa selt [...] 10 töflur af Ritalini. Hafði lögregla þá fylgst með ákærða þar sem grunur hafi leikið á um ólöglega lyfjasölu af hans hálfu. Er lögregla hafði afskipti af ákærða þennan dag var hann með 6.000 krónur af reiðufé í annarri hendi og töflur með Ritalini í hinni. Er breyttur framburður ákærða fyrir dómi í þessu ljósi ótrúverðugur sem og framburður hans um þvinganir af hálfu lögreglu. Sama gildir um breyttan framburð [...]. Verður lögð til grundvallar greiðleg játning ákærða á vettvangi, þar sem hann játaði að hafa selt [...] 10 töflur af lyfinu og að hafa átt 109 töflur aðrar í sölu- og dreifingarskyni. Með samsvarandi hætti verður lagður til grundvallar framburður [...] á vettvangi um að hún hafi keypt 10 töflur af Ritalini af ákærða. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði er fæddur í júlí árið 1962. Ákærði á að baki langan brotaferil. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2013 var ákærði sakfelldur m.a. fyrir sambærilegt brot gegn lyfjalögum og hér er til meðferðar. Var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára. Ákærði áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar, sem með dómi 6. febrúar sl. í máli nr. 457/2013 staðfesti dóm héraðsdóms með þeirri breytingu að skilorðstími var ákveðinn fimm ár frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar. Brot ákærða í þessu máli var framið 15. október 2013 og því skilorðsrof á dómi héraðsdóms frá 19. júní 2013. Verður sá dómur tekinn upp eftir ákvæðum 60. gr. laga nr. 19/1940 og málin dæmd í einu lagi. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði, sem ekki er ástæða til að skilorðsbinda. 

Með vísan til ákvæða í ákæru skal upptækt gert til ríkissjóðs samtals 119 stykki af Ritalini, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda, svo sem í dómsorði greinir.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 7 mánuði.

Upptækt skal gert til ríkissjóðs 119 stykki af Ritalini, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 100.400 krónur.