Hæstiréttur íslands

Mál nr. 223/2017

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (enginn)
gegn
X (enginn) og Y (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Einkaréttarkrafa
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Staðfest var ákvæði héraðsdóms um að vísa einkaréttarkröfu A frá dómi vegna vanreifunar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. 

Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. apríl sama ár. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Suðurlands 29. mars 2017, þar sem einkaréttarkröfu brotaþola var vísað frá dómi. Kæruheimild er í u. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brotaþoli krefst þess að felld verði úr gildi ,,ákvörðun“ Héraðsdóms Suðurlands um að vísa frá dómi fyrrgreindri einkaréttarkröfu og lagt verði fyrir dóminn að taka kröfuna til efnismeðferðar.

Hvorki sóknaraðili né varnaraðilar hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest ákvæði hans um að vísa einkaréttarkröfu brotaþola frá dómi.

Dómsorð:

Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur  Héraðsdóms Suðurlands 29. mars 2017.

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 9. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 24. janúar sl., á hendur X, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík; Y, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík og Z, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík,

I.              gegn ákærða X fyrir þjófnað:

með því að hafa aðfararnótt [sic] fimmtudagsins 8. október 2015, farið inn í bifreiðina [...] er þá stóð við [...] í Reykjavík og stolið þaðan verkfærasetti af gerðinni Hitachi og svartri hettupeysu, að óþekktu verðmæti.

([...])

Telst háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.                  gegn ákærðu X og Y [sic] fyrir nytjastuld:

með því að hafa í samverknaði aðfararnótt [sic] fimmtudagsins 8. október 2015, í heimildarleysi og óleyfi tekið bifreiðina [...] þaðan sem hún stóð á bifreiðastæði við [...] í Reykjavík og hagnýtt sér bifreiðina í kjölfarið til aksturs þangað til lögregla hafði afskipti af för ákærðu á bifreiðinni á þeim tíma er greinir í X. lið ákæru.

([...])

Telst háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

III.                    gegn ákærðu X og Y [sic] fyrir innbrot og þjófnað:

með því að hafa í kjölfar atvika þeirra er lýst er í II. lið ákæru, í samverknaði brotist inn í húsnæði Orkugerðarinnar ehf. að Heiðargerði 5 í Flóahreppi og stolið þaðan tveimur tölvuturnum, einum flatskjá af gerðinni Finlux og sjúkrakassa, allt að óþekktu verðmæti.

([...])

Telst háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

IV.                     gegn ákærðu X og Y [sic] fyrir innbrot og þjófnað:

með því að hafa í kjölfar atvika þeirra er lýst er í III. lið ákæru, í samverknaði brotist inn í Söluskálann við Landvegamót í Rangárþingi ytra, og stolið þaðan 54,5 kartonum af sígarettum og vindlingum, að áætluðu verðmæti kr. 639.800,-    

([...])

Telst háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

V.                      gegn ákærðu X og Y [sic] fyrir innbrot og þjófnað:

með því að hafa í kjölfar þeirra atvika er greinir í IV. lið ákæru, í samverknaði brotist inn í húsnæði Apótekarans, Suðurlandsvegi 3 á Hellu og stolið þaðan tveimur 50 stykkja lyfjaglösum af lyfinu Stesolid 5 mg í töfluformi og tveimur 10 stykkja pakkningum af Stesolid 5 mg endaþarmsstílum, samtals að áætluðu verðmæti kr. 7.976,-    

([...])

Telst háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

VI.                    gegn ákærðu X og Y [sic] fyrir þjófnað:

með því að hafa í kjölfar þeirra atvika er greinir í V. lið ákæru í þjófnaðarskyni farið inn í gestamóttöku gistiheimilis Ferðaþjónustu bænda að [...] í Rangárþingi eystra og í samverknaði rótað þar í hirslum, spennt upp sjóðsvél í afgreiðslu og stolið þaðan skiptimynt, sjö flöskum af 330 ml. Víking Gylltum bjór úr kæli sem þar stóð og í kjölfarið stolið einni fartölvu af gerðinni Dell sem var í áðurnefndri gestamóttöku, allt að óþekktu verðmæti.   

([...])

Telst háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

VII.                 gegn ákærðu X og Y [sic] fyrir þjófnað:

með því að hafa í kjölfar þeirra atvika er greinir í VI. lið ákæru í samverknaði brotist inn í húsnæði Kaffihúss Arcanum Jöklakaffi að [...] í Mýrdalshreppi, og stolið þaðan svörtum peningakassa með reiðufé, umslagi í skúffu í afgreiðslu sem innihélt þjórfé starfsmanna kaffihússins, kaffivél af gerðinni Scharer Siena 2, hvítum sjúkrakassa, óþekktum fjölda af  330 ml. Pepsi dósum, og 24 flöskum af 330 ml. óáfengum Sommersby gosbjór,  samanlagt að áætluðu verðmæti kr. 253.728,-; og með því að hafa um sama leyti farið inn í rými innan kaffihússins á vegum Arcanum fjalla og jökla-leiðsögumanna, og stolið þaðan tveimur bakpokum sem innihéldu fjallaklifurbúnað að áætluðu verðmæti kr. 288.750,-      

([...])

Telst háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

VIII.               gegn ákærðu X og Y [sic] fyrir þjófnað:

með því að hafa um svipað leyti og atburðir þeir er greinir í VII. lið ákæru áttu sér stað á bifreiðastæði að [...] í Mýrdalshreppi, í samverknaði brotist inn í óskráða bifreið af gerðinni Renault, sem þá var í eigu Íslenskra Fjallaleiðsögumanna ehf. og stolið þaðan loftdælu, sjúkrakassa, tveimur sjúkratöskum, útivistarfatnaði, sjúkrabörum, níu ísöxum, peningakassa og 20 pörum af ísbroddum til notkunar á gönguskó, samanlagt að áætluðu verðmæti kr. 1.206.183,-     

([...])

Telst háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

IX.                   gegn ákærðu X, Y [sic] og Z fyrir húsbrot:

með því að hafa í kjölfar atburða þeirra er greinir í VIII. lið ákæru í heimildarleysi og óleyfi, farið inn í sumarhús að Hæðargarði í Skaftárhreppi þar sem ákærðu X og Y héldu til í ótilgreindan tíma og ákærða Z hélt til uns lögregla kom að henni sofandi í rúmi inni í sumarhúsinu síðdegis fimmtudaginn 8. október 2015.   

([...])

Telst háttsemi ákærðu varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

X.                      gegn ákærða Y [sic] fyrir umferðalagabrot:

með því að hafa um hádegisbil fimmtudaginn 8. október 2015 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti austur Suðurlandsveg yfir Skaftárbrú, þaðan vestur Klausturveg í Skaftárhreppi og í kjölfarið inn á bifreiðastæði við veitingastaðinn Systrakaffi að [...] á Kirkjubæjarklaustri, óhæfur til þess að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínóls og deyfandi/slævandi lyfjanna Alprazólam, Díazepam, Klónazepam og Nordíazepam.     

([...])

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og að ákærði Y verði auk þess dæmdur til að sæta sviptingu ökuréttar frá 27.10.2019 að telja samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum.“

                Í ákæru er tilgreind svofelld einkaréttarkrafa:

„Vegna ákæruliðar II. gerir Ómar R. Valdimarsson hdl. kröfu fyrir hönd A, kt. [...] um að sakborningar verið dæmdir, in solidum, til greiðslu bóta vegna skemmda sem unnar voru á ökutæki hans af tegundinni Toyota Hilux 4WD, árgerð 2001, með skráningarnúmerið [...], að fjárhæð 699.531.- króna, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi þann 8. október 2015 til þess dags er mánuður er liðinn frá því sakborningum er kynnt bótakrafa þessi, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laganna.“

Við þingfestingu málsins mætti ákærði X, ásamt Snorra Sturlusyni hdl., sem skipaður var verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði X viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Aðspurður um afstöðu til framkominnar bótakröfu kvaðst ákærði viðurkenna bótaskyldu, en mótmælti bótakröfunni sem of hárri. Þá mætti ákærða Z við þingfestingu málsins, en hennar þáttur var, með vísan til 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, skilinn frá í mál S-32/2017, sem bíður nú aðalmeðferðar. Ákærði Y mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 13. febrúar sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Var þáttur ákærða Y því tekinn til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða X og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með hans þátt málsins í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Í matsgerð frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna lögreglu, kemur fram að tetrahýdrókannabínólsýra hafi fundist í þvagi ákærða. Þá hafi í blóði hans mælst tetrahýdrókannabínól 3,1 ng/ml, alprazólam 7,7 ng/ml, díazepam 505 ng/ml, klónazepam 5,0 ng/ml og Nordíazepam 60 ng/ml. Um málavexti að öðru leyti vísast til ákæruskjals. Samkvæmt gögnum málsins kom fram krafa af hálfu eiganda sumarbústaðar þess sem getið er í IX. lið ákæru, þess efnis að sakborningum verði gerð refsing vegna húsbrots, með bréfi dags. 28. desember 2016, en samkvæmt skýrslu lögreglu var húseiganda tilkynnt um brotið strax þann 8. október 2015. Framangreind krafa um málshöfðun barst ekki innan lögbundins frests, skv. 3. mgr. 144. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og verður ákærulið IX því vísað frá dómi. Að öðru leyti þykir sannað að ákærðu X og Y hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærðu hafa með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða X hefur hann ellefu sinnum áður sætt refsingu, þar af níu sinnum vegna auðgunarbrota. Þann 23. mars 2012, var ákærði fundinn sekur meðal annars um þjófnað, tilraun til þjófnaðar og nytjastuld. Þann 8. júní 2012 var ákærði meðal annars fundinn sekur um gripdeild, þjófnað og tilraun til þjófnaðar. Þann 27. júní 2012, var ákærði fundinn sekur um rán. Þann 20. febrúar 2013, var ákærði meðal annars fundinn sekur um þjófnað. Þann 27. sama mánaðar var ákærði fundinn sekur um þjófnað og fjársvik. Þann 4. júní 2013, var ákærði meðal annars fundinn sekur um þjófnað. Þann 11. júní 2014, var ákærði meðal annars fundinn sekur um þjófnað, fjársvik og hylmingu. Þann 5. september 2014, var ákærði meðal annars fundinn sekur um fjársvik. Loks var ákærði þann 3. júní 2016, fundinn sekur um umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot, þjófnað og eignarspjöll og honum gert að sæta fangelsi í átta mánuði. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Brot þau sem ákærði X er nú fundinn sekur um eru framin fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms og verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki.

Refsing ákærða X er hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga. Að virtum sakaferli ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, dregst frá framangreindri refsivist gæsluvarðhald það sem ákærði sætti undir rannsókn málsins, frá 9. október 2015 til 23. október 2015, í samtals 14 sólarhringa.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði Y fimm sinnum áður gerst sekur um refsivert athæfi. Þann 30. september 2014, var ákærði meðal annars fundinn sekur um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þann 20. júlí 2015, var ákærði fundinn sekur um líkamsárás og ólögmæta nauðung, og honum gert að sæta fangelsi í níu mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til þriggja ára. Þann 28. október 2016, var ákærði meðal annars fundinn sekur um akstur undir áhrifum fíkniefna. Var þá fyrrgreindur skilorðsdómur dæmdur upp og ákærða gert að sæta fangelsi í tólf mánuði, auk þess sem hann var sviptur ökurétti í þrjú ár. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Brot þau sem ákærði er nú fundinn sekur um eru framin fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms og verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki.

 Refsing ákærða Y er hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga. Að virtum sakaferli ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, dregst frá framangreindri refsivist gæsluvarðhald það sem ákærði sætti undir rannsókn málsins, frá 9. október 2015 til 23. október 2015, í samtals 14 sólarhringa.

Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að svipta ákærða Y ökurétti í fimmtán mánuði, frá 27. október 2019 að telja.

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærðu til greiðslu þess sakarkostnaðar sem hlaust af þætti hvors um sig. Samkvæmt framlögðu yfirliti lögreglu nam kostnaður vegna ákæruliðs X, samtals 192.062 kr., sem fellur á ákærða Y. Undir rannsókn málsins var ákærða Y skipaður verjandi, Jón Bjarni Kristjánsson hdl., og er þóknun hans hæfilega ákveðin 497.240 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk ferðakostnaðar 26.448 kr. Þá er þóknun skipaðs verjanda ákærða X hæfilega ákveðin 580.000 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk ferðakostnaðar 39.600 kr.

Í gögnum málsins er að finna skjal með bótakröfu vegna ákæruliðar II. Framangreint skjal uppfyllir að mati dómsins skilyrði 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008, um greinargerð kröfuhafa. Kröfu bótakrefjanda til stuðnings er lögð fram samantekt skoðunarmanns á réttingarverkstæði, þar sem tjón bifreiðarinnar er metið. Öðrum gögnum er ekki til að dreifa um ætlað tjón bótakrefjanda. Er það mat dómsins að framangreint skjal sé ekki fullnægjandi sönnun um fjárhagslegt tjón bótakrefjanda og er krafa hans vanreifuð að þessu leyti. Verður henni því vísað frá dómi ex officio.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærulið IX er vísað frá dómi.

Ákærði, X, sæti fangelsi í 90 daga. Frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 9. október 2015 til 23. október 2015, samtals 14 daga.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 90 daga. Frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 9. október 2015 til 23. október 2015, samtals 14 daga.

Ákærði, Y, er sviptur ökurétti í fimmtán mánuði, frá 27. október 2019 að telja.

Ákærði, X, greiði sakarkostnað samtals að fjárhæð, 619.600 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda, Snorra Sturlusonar hdl., 580.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, og ferðakostnað verjanda 39.600 krónur.

Ákærði, Y, greiði sakarkostnað samtals að fjárhæð 715.750 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda, Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl., 497.240 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, og ferðakostnað verjanda 26.448 krónur.

Einkaréttarkröfu Ómars R. Valdimarssonar hdl., f.h. A, er vísað frá dómi.