Hæstiréttur íslands
Mál nr. 57/2014
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 11. september 2014. |
|
Nr. 57/2014. |
Hurðarbak
ehf. (Skúli Sveinsson fyrirsvarsmaður) gegn Hildu
ehf. (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.) |
Lánssamningur. Gengistrygging.
H ehf. krafðist
þess að viðurkennt yrði að lán sem bar yfirskriftina fjölmyntalán sem
fyrirtækið hafði tekið hjá S hf. og D hf. tók síðar yfir og framseldi til HI
ehf., væri í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu. Að virtri
yfirskrift lánsins og texta þess auk texta þeirra skilmálabreytinga sem gerðar
höfðu verið lagði Hæstiréttur til grundvallar að um hefði verið að ræða gilt
lán í erlendum gjaldmiðlum og staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu HI ehf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2014. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný, en til vara að viðurkennt verði að skuldabréf nr. 1150-74-048939, frá 21. júlí 1998, upphaflega að fjárhæð 15.000.000 krónur sé skuldabréf í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og
málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir áfrýjun héraðsdóms fékk stefndi framselda kröfuna sem mál þetta varðar frá Dróma hf. sem var stefnandi þess í héraði.
I
Af gögnum málsins verður ráðið að aðilar telja skuldaskjal það sem um er deilt í málinu vera skuldabréf en ekki lánssamning og var um það bókað í þingbók héraðsdóms 9. október 2013 að beiðni lögmanns áfrýjanda. Áfrýjandi reisir ómerkingarkröfu sína á því að dómur héraðsdóms hafi ekki tekið mið af breytingum á kröfugerð við flutning málsins fyrir héraðsdómi sem orðið hefðu þegar hann hafi fallist á þann skilning stefnda að umþrætt skuldaskjal væri ekki lánssamningur, heldur skuldabréf. Einnig reisir hann kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á því að hinn áfrýjaði dómur hafi verið kveðinn upp átta vikum eftir að aðalmeðferð málsins fór fram.
Við aðalmeðferð málsins 22. nóvember 2013 var bókað í þingbók héraðsdóms að sömu dómkröfur væru gerðar og í stefnu, þar sem umþrætt skjal er nefnt ,,lánasamningur“ en ekki breytir nokkru um niðurstöðu máls þessa hvort hið umþrætta skuldaskjal teljist skuldabréf eða lánssamningur. Verður málið því ekki ómerkt af þeim sökum að skjalið sé nefnt lánssamningur í dómi héraðsdóms og að forsendur dómsins hafi tekið mið af því.
Mál þetta var tekið til dóms 22. nóvember 2013. Dómur var kveðinn upp í héraðsdómi 17. janúar 2014, en áður hafði verið gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem ekki liðu meira en átta vikur frá því að málið var dómtekið og þar til dómur var upp kveðinn í því verður hinn áfrýjaði dómur ekki ómerktur, sbr. til hliðsjónar meðal annars dóm réttarins 20. janúar 2005 í máli nr. 304/2004.
II
Svokallað skuldabréf sem mál þetta snýst um ber yfirskriftina ,,Fjölmyntalán“. Undir fyrirsögninni lánsupphæð segir að heildarfyrirgreiðsla SPRON til lántaka í formi fjölmyntaláns nemi samtals 15.000.000 íslenskum krónum, eða jafngildi þeirrar upphæðar í svissneskum frönkum og/eða japönskum jenum eða í öðrum myntum sem Seðlabanki Íslands skrái, sem á hverjum tíma megi ekki vera fleiri en þrjár. SPRON láni á útgáfudegi, 21. júlí 1998, ofangreinda fjárhæð í íslenskum krónum og sé upphafs myntsamsetning lánsins samsett af eftirfarandi myntum, miðað við kaupgengi SPRON sama dag, 158.498,70 svissneskum frönkum og 14.654.161,78 japönskum jenum. Vextir voru tilgreindir LIBOR vextir.
Með skuldskeytingu 24. ágúst 1998 tók áfrýjandi að sér sem nýr skuldari í stað Húsakaupa ehf. greiðslu á láninu sem var tilgreint „upphaflega að fjárhæð“ 158.498,70 svissneskir frankar og 14.654.161,78 japönsk jen. Skilmálum lánsins var fyrst breytt 21. júlí 2004. Í þeirri skilmálabreytingu segir að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis samþykki eftirfarandi breytingu á erlendum myntum skuldabréfs, upphaflega að fjárhæð 158.498,70 svissneskir frankar og 14.654.161,78 japönsk jen. Eftirstöðvar lánsins voru tilgreindar í fyrrgreindum gjaldmiðlum. Þá segir í skilmálabreytingunni að eftirstöðvar lánsins breytist í eftirfarandi myntir, 55.641 bandaríkjadal, 9.904 bresk pund, 22.803,00 svissneska franka, 2.012.686 japönsk jen og 59.740 evrur. Í skilmálabreytingunni er ekki getið jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum.
Skilmálum lánsins var öðru sinni breytt 4. febrúar 2005. Eftirstöðvar þess voru þar tilgreindar í bandaríkjadölum, breskum pundum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum, en breytt í svissneska franka, japönsk jen og evrur. Ekki var getið jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum.
Þriðja skilmálabreytingin var gerð 2. mars 2009 og bar yfirskriftina ,,breyting á greiðsluskilmálum fjölmyntareiknisláns nr. 140.“ Eftirstöðvar höfuðstóls lánsins voru tilgreindar í svissneskum frönkum, evrum og japönskum jenum. Vanskil að fjárhæð 1.381.086 krónur skyldu bætast við höfuðstól láns í evrum.
Eins og að ofan er rakið bar lán það sem um er deilt í málinu yfirskriftina fjölmyntalán. Síðasta skilmálabreyting sem gerð var á því bar yfirskriftina breyting á greiðsluskilmálum fjölmyntareiknisláns. Lánsfjárhæð var upphaflega tilgreind 15.000.000 íslenskra króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í tveimur erlendum gjaldmiðlum, þar sem fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla var tilgreind. Vextir samkvæmt láninu voru til samræmis við að um erlent lán væri að ræða tilgreindir LIBOR vextir. Í fyrrgreindum skilmálabreytingum var jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum ekki getið, einungis eftirstöðva í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum. Hvað sem líður heimildum til gengistryggingar skuldbindinga í íslenskum krónum á þeim tíma er umrætt lán var veitt, verður í ljósi alls framangreinds lagt til grundvallar að lán þetta hafi verið gilt lán í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum og niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hurðarbak ehf., greiði stefnda, Hildu ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17.
janúar 2014.
Mál þetta, sem dómtekið
var að lokinni aðalmeðferð 22. nóvember 2013, var höfðað fyrir dómþinginu af
Hurðarbaki ehf., Ármúla 15, Reykjavík, á hendur Dróma hf., Lágmúla 6,
Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 24. júní 2013.
Dómkröfur stefnanda eru
þær, að viðurkennt verði með dómi að fjölmyntalán samkvæmt lánasamningi aðila
nr. 1150-74-048939, dagsettum 21. júlí 1998, upphaflega að fjárhæð 15.000.000
króna, sé lánasamningur í íslenskum krónum bundinn ólögmætri
gengistryggingu. Stefnandi krefst einnig
málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru
þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði
gert að greiða honum málskostnað, að skaðlausu.
Gætt var ákvæða 115. gr.
laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir, að
hinn 21. júlí 1998 gaf félagið Húsakaup ehf. út skuldabréf vegna lántöku hjá
Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., að fjárhæð 15.000.000 króna, eða
jafngildi þeirrar fjárhæðar í CHF og/eða JPY eða í öðrum myntum sem Seðlabanki
Íslands skráir, sem á hverjum tíma megi þó ekki vera fleiri en þrjár. Lánið var yfirtekið af stefnanda, samanber
skuldskeytingu, dagsetta 24. ágúst 1998, og hefur stefnandi verið greiðandi af
láninu frá þeim tíma. Til tryggingar
skuldinni var lagt fram veðtryggingarbréf, útgefið 8. júlí 1998, að fjárhæð
15.000.000 króna, með veði í hluta fasteignarinnar að Ármúla 15, Reykjavík. Um var að ræða svokallað fjölmyntalán og var
upphafsmyntsamsetning lánsins 158.498,70 svissneskir frankar og 14.654.161,78
japönsk jen. Lánið var veitt til þriggja
mánaða frá útborgunardegi lánsins en lántaka var heimilt að framlengja það 80
sinnum á þriggja mánaða fresti. Lánið
bar millibankavexti hlutaðeigandi myntar, LIBOR-vexti, auk 2% álags. Í skilmálum lánsins segir að ef vanskil vari
lengur en 15 daga teljist lánið allt í gjalddaga fallið. Þá er einnig kveðið á um það í skilmálum
lánsins að kæmi til vanskila yrði vanskilafjárhæðin umreiknuð í íslenskar krónur
á gengi á gjalddaga.
Hinn 24. ágúst 1998 fór
fram svokölluð skuldskeyting og varð stefnandi, Hurðarbak ehf., skuldari
lánsins. Í skuldskeytingunni var
tiltekið hverjar eftirstöðvar lánsins voru í erlendri mynt, það er, 158.498,70
svissneskir frankar og 14.654.161,78 japönsk jen. Samkvæmt skuldskeytingunni skuldbatt stefndi
sig til að greiða af láninu LIBOR-vexti, auk 2% álags.
Skilmálum skuldabréfsins
var í þrígang breytt, 21. júlí 2004, 4. febrúar 2005 og 2. mars 2009. Með skilmálabreytingunni 21. júlí 2004 var
myntsamsetningu lánsins breytt. Þar
segir að lánið hafi upphaflega verið að fjárhæð 158.498,70 svissneskir frankar
og 14.654.161,78 japönsk jen. Eftirstöðvar
þess á þeim tíma væru 110.824 svissneskir frankar og 10.247.104 japönsk jen. Með skilmálabreytingunni var höfuðstól
lánsins breytt þannig að eftirstöðvar þess yrðu í eftirfarandi myntum: 55.641 Bandaríkjadalur,
9.904 sterlingspund, 22.803 svissneskir frankar, 2.012.686 japönsk jen og
59.740 evrur.
Með skilmálabreytingunni
4. febrúar 2005 var myntsamsetningu lánsins breytt í 65.803,41 svissneska
franka, 5.748.643 japönsk jen og 57.606,42 evrur.
Í skilmálabreytingunni 2.
mars 2009 voru eftirstöðvar lánsins 27. febrúar 2009 sagðar vera 46.306,10
svissneskir frankar, 40.537,86 evrur og 4.045.341 japanskt jen. Endurgreiðsluskilmálum lánsins var breytt á
þann hátt að greiða átti 1/40 af höfuðstól lánsins á þriggja mánaða fresti, í
fyrsta sinn 21. apríl 2010. Vexti átti
að greiða á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn hinn 21. apríl 2009. Lokagjalddagi lánsins átti að verða 21. apríl
2012, þó þannig að framlengja mætti lánið tvisvar sinnum til þriggja ára í senn
og einu sinni til eins árs, með sama greiðslufyrirkomulagi, næðist samkomulag um
kjör þess. Að öðru leyti áttu skilmálar
að haldast óbreyttir.
Stefnandi kveðst á
undanförnum árum hafa greitt afborganir lánsins með því að greiða inn á
reikning sinn hjá lánveitanda nr. 201341.
Starfsfólk lánveitanda hafi síðan fært afborganir af nefndum reikningi
og inn á lánið. Við rekstrarstöðvun Sparisjóðs
Reykjavíkur og nágrennis hf. hafi því fyrirkomulagi lokið án þess að gert væri
nýtt samkomulag um tilhögun endurgreiðslu lánsins. Síðan hafi komið í ljós að áðurnefndur
reikningur hafi verið færður til Arion banka hf. og
þangað hafi stefnandi greitt um skeið.
Síðan hafi stefnanda verið vísað á stefnda en ekki hafi náðst samkomulag
um greiðslufyrirkomulag þar sem aðilar hafi ekki verið sammála um hverjar
eftirstöðvar lánsins væru.
Stefnandi greiddi ekki af
láninu innan fimmtán daga frá gjalddaga þess, 21. apríl 2010, og gjaldfelldi
stefndi þá lánið. Stefnandi hefur
mótmælt gjaldfellingu skuldabréfsins og telur hana óheimila. Verulega hafi verið ofgreitt af láninu þar
sem lánið sé ólögmætt gengistryggt lán.
Með ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 tók stefndi yfir allar eigur og önnur
réttindi SPRON hf., þar með talin kröfuréttindi samkvæmt umdeildum
lánssamningi. SPRON hf. er nú í slitameðferð samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga
nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Ágreiningur aðila lýtur
að því hvort umrædd skuldbinding stefnanda sé í íslenskum krónum og þá
gengistryggð með ólögmætum hætti samkvæmt ákvæðum þágildandi vaxtalaga nr.
25/1987 og núgildandi laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eða hvort hún
sé í erlendri mynt og lánið þar með lögmætt erlent lán.
III
Stefnandi
byggir kröfu sína á því að umþrættur lánssamningur sé skuldbinding í íslenskum
krónum og fjárhæð hans hafi verið verðtryggð miðað við gengi erlendra
gjaldmiðla. Slíkt fyrirkomulag sé í
mótsögn við ákvæði 20. gr., sbr. 21. gr., þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987 og
13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi
byggir á því að gengistrygging sú sem fyrir hendi sé í umþrættum lánssamningi
sé ólögmæt og hafi verið það allt frá öndverðu.
Um slíkar gengistryggingar hafi, á þeim tíma sem lánið var tekið, hinn
21. júlí 1998, gilt vaxtalög nr. 25/1987.
Með lögum nr. 13/1995 hafi verið sett ákvæði um gengistryggingar
fjárskuldbindinga í íslenskum krónum í vaxtalög nr. 25/1987, þar sem þeim hafi
verið skipað í nýjan V. kafla laganna.
Rekja megi forsögu reglna um verðtryggingu í þágildandi vaxtalögum nr.
25/1987 og núgildandi lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 allt aftur
til laga nr. 4/1960, um efnahagsmál. Í
lögum um efnahagsmál nr. 4/1960 hafi 6. gr. þeirra kveðið á um að ekki væri
heimilt að stofna til skuldar í íslenskum krónum með ákvæði þess efnis að hún
eða vextir af henni breyttust í samræmi við gengi erlends gjaldeyris, nema um
væri að ræða endurlánað erlent lánsfé, sbr. umfjöllun í dómum Hæstaréttar
Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010.
Í
20. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 hafi sagt að ákvæði kaflans giltu um
skuldbindingar um sparifé og lánsfé í íslenskum krónum, þar sem skuldari lofaði
að greiða peninga og áskilið væri að greiðslurnar skyldu breytast í hlutfalli
við verðvísitölu eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli, sbr. 21. gr.
laganna. Í þeirri lagagrein hafi sagt að
það væri skilyrði verðtryggingar sparifjár og lánsfjár samkvæmt 20. gr.
laganna, að grundvöllur hennar væri annaðhvort vísitala neysluverð, sem
Hagstofa Íslands reiknaði samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilti og birti
mánaðarlega í Lögbirtingablaði, eða vísitala gengis á erlendum gjaldmiðli eða
samsettum gjaldmiðlum, sem Seðlabanki Íslands reiknaði og birti mánaðarlega í
Lögbirtingablaði. Um sé að ræða tæmandi
talningu á þeim tilvikum þar sem gengistrygging hafi verið heimil samkvæmt
þágildandi vaxtalögum nr. 25/1987.
Viðskiptaráðherra hafi verið heimilað að setja nánari ákvæði um
gengisvísitölur í reglugerð að fenginni tillögu Seðlabankans. Með stoð í þessari heimild hafi verið sett
reglugerð nr. 151/1995, um almenna heimild til að binda inn- og útlán við
gengisvísitölur SDR og ECU. Umþrætt
gengistrygging sé hvorki bundin við gengisvísitölur SDR eða ECU né uppfylli hún
önnur skilyrði laganna þar að lútandi og hafi því gengistrygging lánsins verið
ólögmæt er það var tekið 21. júní 1998.
Hinn
1. júlí 2011 hafi lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, tekið gildi og
hafi þá samhliða fallið brott vaxtalög nr. 25/1987. Í lögum nr. 38/2001 hafi fortakslaust verið
kveðið á um bann við að gengistryggja fjárskuldbindingar gengi erlendra
gjaldmiðla. Samkvæmt 14. gr. laganna sé
einungis heimilt að verðtryggja skuldbindingar sem varði lánsfé í íslenskum
krónum við vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reikni samkvæmt lögum sem
um vísitöluna gildi. Þá sé einnig
heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda sem erlenda, eða safn slíkra
vísitalna sem ekki mæli breytingar á almennu verðlagi.
Lög
nr. 38/2001 heimili því ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því
að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.
Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr.
laganna, og þar með sé jafnframt ekki heimilt að semja sérstaklega um grundvöll
slíkrar verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Gengistrygging hins umþrætta láns hafi því
verið ólögmæt er lánið var tekið hinn 21. júlí 1998 og sé enn, fyrst á
grundvelli vaxtalaga nr. 25/1987 og síðar á grundvelli laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001.
Stefnandi
byggir kröfu sína á því að umþrættur lánssamningur sé skuldbinding í íslenskum
krónum. Byggist það á eftirgreindu:
Fyrirsögn
lánssamningsins sé „Fölmyntalán“, sem bendi til þess að um ólögmætt
gengistryggt lán sé að ræða, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr.
155/2011, nr. 30/2011 og nr. 31/2011.
Í
málum þar sem Hæstiréttur Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu að um lán í
erlendri mynt væri að ræða hafi fyrirsögn skuldaskjals ýmist kveðið skýrt á um
að lánið væri í erlendum gjaldmiðli eða að um svokallað „Fjölmyntareikningslán“
væri að ræða, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í máli nr. 520/2011, þar sem
fyrirsögn skuldabréfsins sem þar hafi verið deilt um hafi verið „Skuldabréf í
erlendum gjaldmiðlum“, í málinu nr. 551/2011, þar sem fyrirsögn skuldabréfs
hafi verið „Lánssamningur í erlendri mynt“, mál nr. 524/2011, þar sem fyrirsögn
skuldabréfs hafi verið „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“, nr. 127/2013, þar
sem fyrirsögn skuldabréfs hafi verið „Veðskuldabréf í erlendri mynt“ og í máli
nr. 552/2011, þar sem fyrirsögn lánssamnings hafi verið
„Fjölmyntareikningslán“.
Í
umþrættu skuldabréfi sé lánsfjárhæðin fyrst tilgreind í íslenskum krónum. Í fyrsta málslið kafla lánsins „lánsfjárhæð“
segi: „Heildarfyrirgreiðsla SPRON til lántaka í formi fjölmyntaláns nemur
samtals ISK 15.000.000/ ISK Fimmtánmilljónir 00/100 eða jafngildi þeirrar
upphæðar í CHF og/eða JPY eða öðrum myntum sem Seðlabanki Íslands skráir, sem á
hverjum tíma mega þó ekki vera fleiri en þrjár.“ Lánsfjárhæðin sé því tilgreind í íslenskum
krónum, en þess svo getið að hún jafngildi fjárhæð í erlendum myntum, þeim sem
tilgreindar séu í framhaldinu. Þó að
fjárhæðir séu síðar í lánasamningnum einnig tilgreindar í erlendri mynt séu þær
fyrst tilgreindar í íslenskum krónum og það eigi að hafa áhrif á það hvort um
lán í íslenskum krónum sé að ræða eða erlendum myntum, sbr. dóm Hæstaréttar
Íslands í málinu nr. 524/2012.
Lánsfjárhæðin
sé aðeins tilgreind í bókstöfum fyrir lánsfjárhæðina í íslenskum krónum,
þ.e.a.s. „Fimmtánmilljónir“, en ekki með bókstöfum fyrir hinar erlendu myntir
sem sé getið sem jafngildi þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum. Meginregla kröfuréttar sé að ef fjárhæð er
tilgreind í bókstöfum gildi það framar tölustöfum. Þessa meginreglu megi m.a. finna í 1. mgr. 6.
gr. laga um víxla nr. 93/1933. Sú
staðreynd að fjárhæð lánsins sé aðeins tiltekin í bókstöfum fyrir
lánsfjárhæðina í íslenskum krónum gefi óneitanlega til kynna að lánið hafi
verið veitt í íslenskum krónum og aðeins gengistryggt þeim viðmiðunarmyntum sem
getið sé í töflu að neðan í lánasamningnum.
Í
öðrum málslið kafla lánasamningsins: „Lánsfjárhæð“ segi að „SPRON lánar á
útgáfudegi, þann 21. júní 1998 ofangreinda fjárhæð í ISK og er
upphafsmyntsamsetning lánsins samsett af eftirfarandi myntum. m.v. kaupgengi
SPRON sama dag“. Þetta ákvæði
lánasamningsins kveði með skýrum orðum á um að lánið sé veitt í íslenskum
krónum og beri lánasamningurinn þannig klárlega með sér að um lán í íslenskum
krónum sé að ræða. Þetta ákvæði
lánasamningsins taki því af öll tvímæli um að lánið hafi verið veitt í
íslenskum krónum þar sem sérstaklega sé tekið fram að lánveitandi láni
lánsfjárhæðina í íslenskum krónum og aðeins í framhaldinu sé getið um með hvaða
hætti lánið í íslenskum krónum greinist upp í ákveðnar viðmiðunarmyntir, sem sé
þá tilvitnuð myntsamsetning lánsins og þar með vísitölugrunnur.
Í
lánasamningnum sé stimpilgjald og lántökukostnaður reiknaður af höfuðstól
lánsins í ákveðnum hlutföllum af lánsupphæð, þ.e. 1% lántökugjald og 0,5%
stimpilgjald. Stimpilgjald og
lántökugjald séu bæði tilgreind undir liðnum „Lánsupphæð“ í íslenskum krónum og
bendi það til þess að lánsupphæðin sjálf hafi verið í íslenskum krónum.
Kafli
lánasamningsins undir fyrirsögninni: „Upphafstími vaxta“ kveði á um að lánið
hafi verið greitt út í íslenskum krónum á reikning í íslenskum krónum, sem
bendi til þess að um lán í íslenskum krónum sé að ræða. Lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum
og endurgreiðsla lánsins hafi einnig farið fram í íslenskum krónum. Gæta verði að því hvernig háttað hafi verið
ákvæðum samningsins um efndir aðilanna og hvernig að þeim hafi í raun verið
staðið. Báðir aðilar hafi efnt
skuldbindingar sínar í íslenskum krónum og ekki hafi verið kveðið á um það á
nokkurn hátt að hægt væri að efna þær með öðrum hætti. Við mat á því hvort um lán í íslenskum
krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, hafi verið að ræða eða lögmætt erlent
lán verði að líta til þess hvernig aðilar hafi efnt skuldbindingar sínar með
sama hætti og gert hafi verið í dómum Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 3/2012
og nr. 155/2011. Engin ákvæði sé að
finna í umþrættum lánsamningi um að lántaka hafi verið heimilt eða mögulegt að
endurgreiða lánið í þeim gjaldmiðlum sem lánsfjárhæðin, í íslenskum krónum, sé
bundin við. Ef í raun hefði verið um að
ræða lán í erlendum gjaldmiðlum verði að telja að a.m.k. hefði verið gert ráð
fyrir að lántaki gæti efnt skuldbindingar sínar í þeim myntum sem lánið hafi þá
verið veitt í. Það hafi hins vegar ekki
verið gert og aðeins hafi verið mögulegt að greiða með íslenskum krónum, enda
hafi sérstaklega verið tekið fram í lánasamningnum að lánið væri veitt í
íslenskum krónum.
Trygging
hafi verið sett fyrir láninu í formi tryggingarbréfs í íslenskum krónum, sem
bundið hafi verið lánskjaravísitölu.
Umrædd trygging sé aðeins tilgreind í íslenskum krónum en ekki erlendri
mynt.
Ef
horft sé heildstætt á þau atriði sem að framan séu rakin verði ekki annað ráðið
en að um lán í íslenskum krónum sé að ræða, með ólögmætri gengistryggingu.
Stefnandi
rökstuddi málskostnaðarkröfu sína sérstaklega með því að ósanngjarnt yrði að
teljast að hann þyrfti að bíða tjón af því að standa undir málskostnaði sínum
sjálfur vegna þessa máls ef niðurstaða málins yrði á þá leið að fallist yrði á
kröfur hans. Stefnandi hafi allt frá því
að dómar Hæstaréttar Íslands féllu, um ólögmæti gengistryggingar í sambærilegum
málum, krafist þess að lánið yrði endurreiknað í samræmi við niðurstöður dóma
Hæstaréttar. Stefndi hafi ekki orðið við
þeirri beiðni heldur ýmist ekki svarað erindum stefnanda, krafist greiðslu að
fullu á grundvelli dómafordæma, sem ekki standist skoðun að mati stefnanda, og
gjaldfellt umþrætt lán hans. Stefnandi
kveðst hafa gefið stefnda fullt tækifæri til að viðurkenna að um lán í
íslenskum krónum sé að ræða með ólögmætri gengistryggingu og fullnægjandi
svigrúm til að endurreikna umþrættan lánasamning, lögum samkvæmt. Stefnanda hafi því verið nauðugur einn kostur
að fara með ágreininginn fyrir dóm.
Um
lagarök vísar stefnandi til brottfallinna vaxtalaga nr. 25/1987, laga um vexti
og verðtryggingu nr. 38/2001, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og
meginreglna kröfu- og samningaréttar.
Kröfu
um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr.
91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.
Kröfu
um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum um
virðisaukaskatt nr. 50/1988. Stefnandi
sé hvorki með virðisaukaskattsskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 50/1988 né
með opið virðisaukaskattsnúmer.
Lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af málflutningsþóknun,
sbr. lög nr. 50/1988, sem stefnandi geti ekki nýtt sér í rekstri sínum sökum
þess að hann stundi ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi og beri því nauðsyn
til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
IV
Stefndi
byggir sýknukröfu sína á því, að umdeild skuldbinding stefnanda á grundvelli
skuldabréfs, sem hafi verið stimplað í samræmi við stimpilskyldu skuldabréfa
samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, sé lögmætt lán í erlendri mynt. Skuldabréf teljist til viðskiptabréfa og
gildi því reglur viðskiptabréfaréttar við úrlausn málsins. Viðskiptabréf hafi að geyma tæmandi lýsingu á
réttindum sem það veiti og þeim takmörkunum sem á þeim réttindum kunni að vera.
Skuldabréf
hafi verið skilgreind sem skrifleg yfirlýsing þar sem útgefandi viðurkenni
einhliða og skilyrðislaust skyldu sína til að greiða ákveðna
peningagreiðslu. Skuldabréf sé því
einhliða yfirlýsing skuldara en ekki gagnkvæmur samningur. Áskilnaður framangreindrar skilgreiningar um
að skuldabréf þurfi að hljóða upp á ákveðna peningagreiðslu snúi að því að í
bréfinu þurfi að koma afdráttarlaust fram hver höfuðstóll skuldarinnar sé. Ekki sé unnt að komast að þeirri niðurstöðu
að skuldabréf, sem skilmerkilega tilgreini skuld í erlendum myntum, sé skuld í
íslenskum krónum, þvert gegn orðalagi þess.
Slík niðurstaða stríði gegn meginreglum viðskiptabréfaréttar.
Stefndi
kveður að af dómafordæmum Hæstaréttar verði ráðið að þegar metið sé hvort lán
eða skuldbinding á grundvelli skuldabréfs sé í erlendri mynt eða íslenskum
krónum skipti fyrst og fremst máli hvernig sjálf lánsfjárhæðin sé tilgreind í
skuldabréfinu, sbr. einkum dóma réttarins í málum nr. 524/2011, nr. 127/2013,
nr. 715/2012, nr. 757/2012 og nr. 3/2013.
Dómafordæmi
Hæstaréttar séu í fullu samræmi við efni og orðalag 13. og 14. gr. laga nr.
38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í
13. gr. laganna sé fjallað um heimildir til að verðtryggja „skuldbindingar sem
varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum“.
Augljóst sé að forsenda þess að skuldbinding verði talin verðtryggð sé
að hún sé samkvæmt orðalagi ákvæðisins ákveðin og tilgreind í íslenskum krónum,
enda falli skuldbindingar í erlendri mynt ekki undir VI. kafla laga nr.
38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr.
92/2010 og 153/2010.
Hæstiréttur
Íslands hafi aldrei komist að þeirri niðurstöðu að lán, þar sem lánsfjárhæð sé
tilgreind í erlendri mynt í skuldabréfi og síðar í skilmálabreytingum, eins og
í máli þessu, sé lán í íslenskum krónum sem sé gengistryggt með ólögmætum
hætti. Það sama eigi við um lán á
grundvelli lánssamninga. Í þeim dómum
Hæstaréttar Íslands þar sem lán hafi verið talin gengistryggð, en ekki lögmæt
erlend lán, hafi skuldbindingin aðeins verið tilgreind í íslenskum krónum í
skuldaskjali og gjarnan sögð jafnvirði erlendra mynta í tilteknum
prósentuhlutföllum.
Stefndi
telur ljóst að skuldbinding stefnanda hafi frá upphafi verið í erlendri
mynt. Í upphaflegu skuldabréfi segi að
„upphafleg lánsfjárhæð“ sé 158.498,70 CHF og 14.654.161,78 JPY. Þegar skuldskeyting hafi farið fram hafi
upphafleg lánsfjárhæð verið tilgreind með sama hætti og jafnframt tekið fram að
eftirstöðvar lánsins væru þær sömu.
Stefndi kveðst leggja áherslu á að stefnandi hafi yfirtekið
skuldbindingu sem tilgreind sé í skuldskeytingunni. Í skuldskeytingunni sé nákvæmlega tiltekið
hver hafi verið staða lánsins í hinum erlendu myntum, sem staðfesti að lánið
hafi frá upphafi verið í erlendri mynt.
Stefnandi geti enda ekki borið því við að lánið hafi verið í íslenskum
krónum þegar hann hafi undirritað yfirlýsingu um skuldskeytingu, þar sem hvort
tveggja, upphafleg lánsfjárhæð og eftirstöðvar lánsins, sé tilgreint í erlendum
myntum.
Skilmálum
skuldabréfsins hafi tvívegis verið breytt og skuldabréfið áritað um þær, og sé
skuldbinding stefnanda þar tilgreind í fjárhæðum hinna erlendu mynta lánsins í
báðum tilvikum. Hvergi sé minnst á
fjárhæð lánsins í íslenskum krónum. Öll
þessi skjöl séu gefin út af stefnanda og séu skýr og ótvíræð um skuldbindingu
stefnanda. Sú regla gildi um
skilmálabreytingar skuldabréfa að ef getið er breytinga á höfuðstól bréfsins í
skilmálabreytingu miðist eftirstöðvar þess við þann höfuðstól, sbr. dóm
Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 332/2013.
Um þá þætti skuldabréfsins sem ekki sé getið um í skilmálabreytingu
gildi upphaflegur texti bréfsins.
Stefndi
áréttar sérstaklega að lokagjalddagi lánsins hafi verið 21. apríl 2012. Þann dag hafi stefnanda borið að greiða CHF
46.306.10, EUR 40.537,86 og JYP 4.045.341 auk LIBOR-vaxta og álags. Þetta séu þeir skilmálar sem í gildi hafi
verið milli aðila á lokagjalddaga lánsins og hafi tilgreining skuldbindingar
stefnanda verið skýr og afdráttarlaus í erlendum myntum.
Stefndi
kveðst hafna því að inntak og eðli skuldbindingarinnar geti ráðist af því í hvaða
mynt aðalskyldur aðila hafi verið, þ.e. í hvaða mynt lánsfjárhæðin hafi
upphaflega verið greidd af lánveitanda eða í hvaða mynt hafi verið miðað við að
lánið yrði endurgreitt. Slíkt hafi enga
þýðingu í málum þar sem lánsfjárhæð sé skýrlega tilgreind í erlendum myntum í
skuldabréfi, sbr. áðurnefnda dóma Hæstaréttar Íslands og einkum þó dóm
réttarins í máli nr. 715/2012. Auk þess
sé á það bent að aðalskyldur aðila hafi enga þýðingu í þeim málum þar sem
lánsfjárhæð sé skýrlega tilgreind í erlendri mynt í skuldaskjali, sbr. dóm
Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 50/2012.
Auk
þess vísar stefndi til þessa að lán stefnanda hafi borið LIBOR-vexti, sem
óumdeilt sé að eigi aðeins við um erlend lán, enda hafi LIBOR-vextir aldrei
verið skráðir á lán í íslenskum krónum, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum
nr. 92/2010 og 153/2010.
Stefndi
byggir kröfur sínar á því til vara, að heimilt hafi verið í lögum að
gengistryggja skuldbindingar í íslenskum krónum á árinu 1998 þegar lánveitingin
hafi farið fram. Í 20. gr. vaxtalaga nr.
25/1987, sem þá hafi verið í gildi, eins og þeim hafi verið breytt með lögum
nr. 13/1995, hafi sagt að ákvæði V. kafla laganna gilti um skuldbindingar um
sparifé og lánsfé í íslenskum krónum, þar sem skuldari lofaði að greiða peninga
og áskilið væri að greiðslurnar skyldu breytast í hlutfalli við verðvísitölu
„eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli“.
Samkvæmt 21. gr. laganna hafi skilyrði verðtryggingar verið að
grundvöllur hennar væri vísitala neysluverðs, vísitala gengis á erlendum gjaldmiðli
eða samsettum gjaldmiðlum sem Seðlabanki Íslands reikni og birti.
Seðlabanki
Íslands hafi reiknað gengi á þeim erlendu gjaldmiðlum sem lánið hafi upphaflega
staðið saman af a.m.k. allt frá árinu 1981, samkvæmt heimasíðu Seðlabanka
Íslands. Hafi það verið gert á
grundvelli laga nr. 36/1986 sem þá hafi gilt um starfsemi Seðlabankans, sbr.
einkum 15. gr. laganna, og þeirra reglugerða sem settar hafi verið með stoð í
greininni. Því hafi verið heimilt að
lögum að gengistryggja skuldbindingar stefnanda.
Um
lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfu- og samningaréttar, og samningalaga
nr. 7/1936. Jafnframt vísar stefndi til
laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. laganna. Stefndi vísar og til brottfallinna laga um
Seðlabanka Íslands nr. 36/1986 og þeirra reglugerða og reglna sem settar hafi
verið á grundvelli þeirra.
Kröfu
um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð
einkamála.
V
Í máli þessu greinir
aðila á um hvort lán, sem Húsakaup ehf. tók hinn 21. júlí 1998, og stefnandi
varð skuldari að með skuldskeytingu 24. ágúst 1998, hjá Sparisjóði Reykjavíkur
og nágrennis, og sem stefndi leiðir rétt sinn frá, hafi verið í íslenskum
krónum bundið ólögmætri gengistryggingu, eða hvort um hafi verið að ræða lán í
erlendum myntum.
Eins og að framan hefur
verið lýst ber lánssamningur aðila vegna þessarar lánveitingar yfirskriftina
„Fjölmyntalán“, þar sem segir um lánsupphæð: „Heildargreiðsla SPRON til lántaka
í formi fjölmyntaláns nemur ISK 15.000.000,00/ISK. Fimmtánmilljónir 00/100 eða jafngildi þeirrar
upphæðar í SHF og/eða JPY eða í öðrum myntum sem Seðlabanki Íslands skráir, sem
á hverjum tíma mega þó ekki vera fleiri en þrjár. SPRON lánar á útgáfudegi, þann 21. júlí 1998
ofangreinda fjárhæð í ISK og er upphafs myntsamsetning lánsins samansett af
eftirfarandi myntum, m.v. kaupgengi SPRON sama dag.“ Í skjalinu var þar fyrir neðan tafla þar sem
tilgreindar voru myntirnar CHF og YPY, lánsfjárhæð í hvorri þeirra, kaupgengi
hvorrar þeirra, hverjir væru LIBOR-vextir af hvorri mynt og 2% álag á þá
vexti. Þá kemur þar fram að samtals til
útborgunar komi 14.775.000 krónur, þ.e. lánsfjárhæðin í íslenskum krónum að
frádregnu stimpilgjaldi og lántökukostnaði.
Samkvæmt lánssamningnum skyldi lánsfjárhæðin verða greidd út í íslenskum
krónum og ráðstafað inn á tilgreindan reikning stefnanda, sem óumdeilt er að
var í íslenskum krónum. Þá var kveðið á
um það í samningnum að greiðsla af láninu yrði skuldfærð af sama reikningi á
gjalddaga og stefnandi ábyrgðist að næg innstæða væri á reikningnum. Í fyrrgreindum skilmálum lánssamningsins
kemur fram að lánstími sé til þriggja mánaða frá útborgunardegi lánsins, en
lántaka sé heimilt að framlengja það áttatíu sinnum á þriggja mánaða fresti. Hins vegar segir einnig í samningnum , að
óski samningsaðili að ljúka uppgjöri samningsins fyrir gjalddaga, 21. júlí
2018, áskilji SPRON sér rétt til að hækka álag sitt á þriggja mánaða
útlánsvexti erlendra mynta, samkvæmt LIBOR úr 2% í 3%.
Þegar leyst er úr því
hvort samningur hafi verið gerður um lán í erlendri mynt eða um sé að ræða lán
í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta verður fyrst og fremst lagður
til grundvallar texti lánssamnings, þar sem lýst er þeim skuldbindingum sem
aðilarnir takast á hendur. Þegar
framangreint er virt ber form og efni umdeilds lánssamnings ekki ótvírætt með sér
hvort um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum eða hinum tilgreindu erlendu
myntum. Tilgreining fjárhæðar lánsins
var þannig í íslenskum krónum að jafnvirði hinna erlendu mynta miðað við kaupgengi
SPRON á útgáfudegi þess. Hins vegar
bendir hvort tveggja, yfirskrift samningsins „Fjölmyntalán“ og það að lánið átti
að bera LIBOR-vexti, til þess að lánið sé í erlendum myntum. Samkvæmt samningnum, sem liggur til
grundvallar láninu sem hér um ræðir, var gert ráð fyrir að það yrði greitt inn
á bankareikning stefnanda, sem er í íslenskum krónum, og skuldfært af sama
reikningi á gjalddaga. Þannig var miðað
við að skyldur beggja samningsaðila yrðu efndar með greiðslu í íslenskum krónum,
sem og varð raunin. Með áðurgreindri
skuldskeytingu 24. ágúst 1998 var fjárhæð lánsins hins vegar einungis tilgreind
í hinum erlendu myntum.
Skilmálum framangreinds
láns var breytt 21. júlí 2004 þannig að höfuðstól þess var myntbreytt og skyldi
hann nú greinast í fimm myntir, Bandaríkjadali, sterlingspund, svissneska
franka, japönsk jen og evrur, og var fjárhæð höfuðstóls lánshlutans í hverri
þessara mynta tilgreind í tölustöfum.
Skilmálum lánsins var aftur breytt hinn 4. febrúar 2005 þannig að
höfuðstól þess var myntbreytt og skyldi hann nú greinast í þrjár myntir,
svissneska franka, japönsk jen og evrur, og var fjárhæð höfuðstóls lánshlutans
í hverri þessara mynta tilgreind í tölustöfum.
Skilmálum lánsins var enn á ný breytt hinn 2. mars 2009, þar sem
eftirstöðvar lánsins í hinum erlendu myntum voru tilgreindar og
endurgreiðsluskilmálum þess breytt. Með
tveimur þessara skilmálabreytinga sömdu aðilar að lánssamningnum um breytingu á
tilgreiningu þeirra gjaldmiðla sem mynduðu höfuðstól lánsins. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar verður að meta
sjálfstætt efni og orðalag samningsins um skilmálabreytingar, hvort sá hluti
lánsins sem í skilmálabreytingunni var tilgreindur í erlendum myntum teldist
eftirleiðis vera gild skuldbinding í þeim myntum eða skuldbinding í íslenskum
krónum, sem bundin hefði verið gengi erlendra gjaldmiðla. Í texta skilmálabreytinganna kemur fjárhæð
skuldbindingar skuldara skýrt fram. Þar
er fjárhæð höfuðstóls skuldar í hinum erlendu myntum tilgreind án nokkurrar
tilvísunar til íslenskrar krónu eða jafnvirðisviðmiðunar við hana. Að því virtu verður lagt til grundvallar að um
hafi verið að ræða gilda skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum í öndverðu, sem
og eftir skilmálabreytingarnar, en ekki skuld í íslenskum krónum sem háð hafi
verið gengistryggingu. Haggar það ekki
þeirri niðurstöðu að skuldin sé í erlendri mynt þótt greiðslur samkvæmt
samningnum hafi farið fram í íslenskum krónum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í
málinu nr. 715/2012. Ber því þegar af
þeirri ástæðu að hafna kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að lán þetta sé í
íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu.
Með hliðsjón af
framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991,
um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað
sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir
héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Hafnað er
viðurkenningarkröfu stefnanda, Hurðarbaks ehf.
Stefnandi,
Hurðarbak ehf., greiði stefnda, Dróma hf., 500.000 krónur í málskostnað.