Hæstiréttur íslands
Mál nr. 332/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 11. júní 2012. |
|
Nr. 332/2012.
|
Íslandsbanki hf. (Stefán A. Svensson hrl.) gegn Asknesi ehf. (Valtýr Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Lánssamningur. Gengistrygging. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Í hf. höfðaði mál gegn A ehf. til innheimtu eftirstöðva gjaldfallins lánssamnings. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi vegna vanreifunar, þar sem málatilbúnaður Í hf. hefði verið reistur á því eingöngu að um erlent lán væri að ræða en það væri ekki í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum. Aðilar deildu um hvort lánið hefði verið í íslenskum krónum og gengistryggt með ólögmætum hætti eða í erlendum myntum. Með vísan til heitis lánssamningsins, tilgreiningar lánsfjárhæðarinnar og vaxta auk beiðni A ehf. um útborgun lánsins og kvittana vegna útborgunar lánsfjárhæðar og gjaldeyriskaupa var fallist á með Í hf. að lánið hefði verið í erlendum myntum. Felldi Hæstiréttur hinn kærða úrskurð úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. maí 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Glitnir banki hf. og varnaraðili gerðu 30. október 2007 með sér lánssamning til tveggja ára að jafnvirði 60.000.000 krónur „í íslenskum krónum og/eða erlendum myntum“ með nánar tilgreindum skilmálum samkvæmt samningnum. Sóknaraðili yfirtók lánssamninginn 14. október 2008 samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Í 1. gr. samningsins, sem ber yfirskriftina „Lánsfjárhæð og útborgun“, sagði að lántaki skyldi senda lánveitanda beiðni um útborgum með að minnsta kosti tveggja virkra „bankadaga fyrirvara“. Þá sagði að í útborgunarbeiðni skyldi tilkynna lánveitanda í hvaða myntum lántaki hygðist taka lánið og í hvaða hlutföllum, þó að lágmarki 25% fyrir einstakan gjaldmiðil, en fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig skyldi þó ekki ákveðin fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki yrðu fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðis upp frá því, þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum. Lánið yrði þá eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum, samkvæmt heimildum samningsins.
Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi lántaki endurgreiða lánið með eingreiðslu 1. október 2009 í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af. Í 3. gr. samningsins voru ákvæði um vexti, vaxtabreytingar og greiðslu vaxta. Sagði þar meðal annars að lánshlutar í erlendum myntum, öðrum en evrum, skyldu bera vexti sem væru eins mánaðar LIBOR vextir eins og þeir væru ákveðnir fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, að viðbættu vaxtaálagi, 2,25%. Með LIBOR (London Inter Bank Offered Rate) vöxtum væri átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir væru auglýstir kl. 11 að staðartíma í London „á BBA-síðu Reuters.“ Þá sagði að lánshluti í evrum skyldi bera eins mánaðar EURIBOR vexti eins og þeir væru ákveðnir hverju sinni, að viðbættu 2,25% vaxtaálagi. Með EURIBOR (European Inter Bank Offer Rate) vöxtum væri átt við vexti á millibankamarkaði í aðildarríkjum Evrópska myntbandalagsins eins og þeir væru auglýstir kl. 11 að staðartíma í Brüssel „á EURIBOR01-síðu Reuter.“
Um vanefndir lántakanda sagði í f. lið 3. gr. samningsins að ef um þær yrði að ræða væri lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags „á þeim myntum sem lánið samanstendur af.“ Bæri þá að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslanda á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags.
Í beiðni varnaraðila um útborgun lánsins var þess óskað að það yrði greitt út í evrum og fjárhæðin lögð inn á tilgreindan gjaldeyrisreikning hans. Á skjali, sem ber yfirskriftina „Kaupnóta lánssamnings“, kom fram að heildarlánsfjárhæð væri 680.040 evrur að meðtöldu lántökugjaldi, 3.400.20 evrur, og væru 676.639,80 evrur lántakanda til ráðstöfunar. Þá liggur fyrir í málinu „Gjaldeyrispöntun“ þar sem heildarfjárhæð láns var tilgreind 680.040 evrur. Voru 676.639,80 evrur lagðar inn á gjaldeyrisreikning varnaraðila og hafði þá verið tekið tillit til kostnaðar að fjárhæð 3.400,20 evrur.
Að virtu því, sem rakið hefur verið, verður lagt til grundvallar að hér hafi verið tekið gilt lán í erlendri mynt. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að ákvörðun um málskostnað í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms, en um kærumálskostnað fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Asknes ehf., greiði sóknaraðila, Íslandsbanka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 27. mars sl., er höfðað 4. júní 2010 af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2 í Reykjavík, gegn Asknesi ehf., Langadal 10 á Eskifirði.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 123.661.411 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2009 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 681.592,96 evrur, auk dráttarvaxta skv. d-lið 3. gr. lánssamnings frá 1. október 2009 til greiðsludags, nánar tiltekið eins mánaðar Euribor vaxta auk 2,25% vaxtaálags og 5% vanskilaálags, þ.e. 7.688% dráttarvaxta frá 1. október 2009 til 1. nóvember 2009, 7,676% dráttarvaxta frá 1. nóvember 2009 til 1.desember 2009, 7,716% dráttarvaxta frá 1.desember 2009 til 1. janúar 2010, 7,709% dráttarvaxta frá 1. janúar 2010 til 1. febrúar 2010, 7,676% dráttarvaxta frá 1. febrúar 2010 til 1. mars 2010, 7,668% dráttarvaxta frá 1. mars 2010 til 1. apríl 2010, 7,648% dráttarvaxta frá 1. apríl 2010 til 1. maí 2010 og 7,661% dráttarvaxta frá 1. maí 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk virðisaukaskatts af honum.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.
Málavextir
Þann 30. október 2007 gerðu stefndi, Asknes ehf., og Glitnir banki hf. með sér samning um lán til stefnda. Stefnandi hefur nú tekið yfir lánssamninginn af Glitni banka hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Með samningnum, sem ber heitið „Lánssamningur (lán í erlendum gjaldmiðlum) milli Asknes ehf. sem lántaka og Glitnis banka hf. sem lánveitanda“, var samið um lán að jafnvirði 60.000.000 íslenskra króna. Lánasamningur er númer 5053-13693. Í 1. mgr. samningsins segir m.a. að lántaki skuli senda lánveitanda beiðni um útborgun lánsins með að minnsta kosti tveggja virkra bankadaga fyrirvara á sérstöku formi sem fylgir með samningnum. Þar skuli tilkynna lánveitanda í hvaða myntum lántaki hyggst taka lánið. Síðar segir að lánið verði eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum, samkvæmt heimildum samningsins. Í beiðni um útborgun láns, merkt viðauki 1, sem dagsett er 7. nóvember 2007, óskar lántaki eftir að lánið verði greitt út í „EUR“ en fjárhæðin ekki tilgreind. Andvirði lánsins var greitt inn á gjaldeyrisreikning stefnda hjá stefnanda nr. 0569-38-710060 að frádregnum kostnaði að fjárhæð 3.400,20 evrur, alls 676.639,80 evrur.
Samkvæmt 2. gr. samningsins bar að endurgreiða lánið í einu lagi þann 1. október 2009 í sama gjaldmiðli og það var tekið en samkvæmt b-lið 3. gr. samningsins skyldi greiða vexti af láninu mánaðarlega frá 1. desember 2007. Þó var lántaka heimilt að greiða lánið að hluta eða að fullu á gjalddögum vaxta gegn greiðslu uppgreiðslugjalds. Vextir af láninu skyldu vera „1-mánaða EURIBOR-vextir, eins og þeir ákvarðast hverju sinni“ að viðbættu 2,25% vaxtaálagi samkvæmt 3. gr. samningsins. Með EURIBOR vöxtum er átt við vexti á millibankamarkaði í aðildarríkjum Evrópska myntbandalagsins eins og þeir eru auglýstir kl. 11 að staðartíma í Brussel á EURIBOR01-síðum Reuters samkvæmt sömu grein samningsins.
Ráðstafa skyldi láninu til kaupa á fasteigninni Strandgötu 4 á Eskifirði. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins framseldi stefndi lánveitanda sölurétt sinn gagnavart Eskju hf. á framangreindri fasteign. Þá skuldbatt stefndi sig til að ráðstafa öllum greiðslum vegna leigu fasteignarinnar inn á handveðsettan reikning sinn nr. 569-26-1860 í útibúi stefnanda á Reyðarfirði. Þá skyldi stefndi, samkvæmt samningnum, gefa út tryggingarbréf til stefnanda að fjárhæð 65.000.000 króna, tryggt með veði í framangreindri fasteign.
Í d-lið 1. mgr. 3. gr. lánssamningsins segir að ef vanefndir verði á lánssamningi þessum í erlendum myntum beri lántaka að greiða dráttarvexti sem skulu vera vaxtagrunnur að viðbættu álagi skv. a eða b lið greinarinnar, að viðbættu vanskilaálagi sem er 5% af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Í a-lið er fjallað um vexti af lánum í erlendum myntum öðrum en evrum en í b-lið er fjallað um lánshluta í evrum svo sem að ofan er lýst.
Í f-lið 1. mgr. 3. gr. lánssamningsins kemur fram að við vanefndir sé lánveitanda jafnframt heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags, á þeim myntum sem lánið samanstendur af. Beri þá að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags.
Óumdeilt er að stefndi greiddi vexti af láninu á umsömdum gjalddögum frá desember 2007 til september 2009. Greiðslufall varð hins vegar á höfuðstól kröfunnar á gjalddaga hennar, 30. október 2009,og er sú skuld það sem um er deilt í málinu. Stefnandi gjaldfelldi lánið, án sérstakrar tilkynningar þar um, sama dag.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefandi byggir dómkröfur sínar á því að samningur aðila sé samningur um lán í erlendri mynt að jafnvirði 60.000.000 íslenskra króna, eins og orðalag samningsins beri með sér. Stefndi hafi óskað eftir því að lánið yrði í evrum, svo sem fram komi í viðauka 1 við samning aðila og stefnandi hafi orðið við þeirri ósk. Stefnandi kveður lánssamning aðila ekki fela í sér lán í íslenskum krónum með verðtryggingu miðað við gengi erlendrar myntar og því eigi 14. gr. laga nr. 38/2001 ekki við um samninginn. Stefnandi kveður stefnanda hafa fengið 676.639,80 evrur greiddar inn á gjaldeyrisreikning sinn 12. nóvember, sem er lánsfjárhæðin að frádregnum lántökukostnaði upp á 3.400,20 evrur og hafi virði þess á gengi útborgunardags verið 60.006.730 krónur. Ef lánið hefði verið í íslenskum krónum hefði útborguð fjárhæð orðið 59.700.000 krónur, þ.e. lánsfjárhæðin að frádregnum 0.5% lántökukostnaði. Þegar af þessu atriði sé augljóst að um erlent lán hafi verið að ræða. Þá beri heiti lánasamningsins skýrlega með sér að um lán í erlendum gjaldmiðli var að ræða. Stefndi hafi fengið tiltekna fjárhæð að láni í evrum og borið að endurgreiða lánið í sömu mynt. Við munnlegan málflutning vísaði stefnandi til tveggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. apríl 2011, í málum númer E-2071/2010 og E-2072/2010, sem hann kvað einu dómana þar sem reynt hefði á sama álitaefni varðandi þýðingu þess að greiðslur samkvæmt samningi hefðu verið í erlendri mynt. Niðurstaða þeirra mála, sem ekki hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar, væru þær að á slíka samninga bæri að líta sem samninga í erlendri mynt.
Stefndi kveður stefnanda hafa staðið við greiðslu vaxta af umræddu láni fram að gjalddaga 1. október 2009 en sá gjalddagi hafi ekki verið greiddur. Því hafi eftirstöðvar samningsins verið gjaldfelldar þann dag án sérstakrar tilkynningar. Ekki hafi verið þörf á sérstakri tilkynningu um gjaldfellingu þar sem heimild til fyrirvaralausrar gjaldfellingar hafi verið í 11. gr. samningsins.
Í samræmi við f-lið 3. gr. lánssamningsins hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á þeim myntum sem lánið samanstóð af. Samkvæmt heimild í f-lið 3.gr. lánssamningsins hafi dráttarvextir, í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands, verið reiknaðir á skuldina frá gjaldfellingardegi.
Stefnufjárhæðin í aðalkröfu, 123.661.411 krónur, sé þannig fundin að á gjaldfellingardegi samningsins hafi eftirstöðvar samningsins verið færðar yfir í íslenskar krónur með vísan til heimildar stefnanda í f-lið 3. gr. samningsins en á þeim degi hafi eftirstöðvar samningsins verið 680.040,00 evrur, áfallnir vextir frá 1. september hafi verið 1.549,93 evrur og kostnaður 3,03 evrur. Samtals hafi eftirstöðvar samningsins því verið 681.592,96 evrur. Umreiknað í íslenskar krónur miðað við gengi evru á gjaldfellingadegi, sem hafi verið 181,43, nemi því 123.661.411 krónum sem sé stefnufjárhæð málsins.
Varakröfu sína byggir stefnandi á sömu málsástæðum og aðalkröfu, þ.e. að gildur samningur um lán í erlendri mynt liggi að baki skuldaskiptum aðila en að útreikningur dráttarvaxta í varakröfu byggist á d-lið 3. gr. samningsins en ekki heimild í f-lið sömu greinar. Fjárhæð varakröfunnar kveður stefnandi þannig fundna að 1. október 2009 hafi eftirstöðvar samningsins verið 680.040,00 evrur, áfallnir vextir frá 1. september hafi verið 1.549,93 evrur og kostnaður 3,03 evrur. Samtals hafi því eftirstöðvar samningsins verið 681.592,96 evrur. Í samræmi við heimild í 11. gr. samningsins sé stefnanda heimilt við greiðslufall að gjaldfella án viðvarana allar eftirstöðvar lánsins ásamt áföllnum vöxtum og öðrum greiðslum sem lántaka sé skylt að greiða. Jafnframt beri lántaka þá að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð samkvæmt 3. gr. samningsins. Samkvæmt d-lið 3. gr. beri lántaka að greiða dráttarvexti sem skulu vera vaxtagrunnur að viðbættu álagi skv. a- og b-lið 3. gr., að viðbættu vanskilaálagi sem skuli vera 5%, af gjaldfallinni/gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags, svo sem stefnandi hafi sundurliðað í varakröfu sinni. Í varakröfu er krafist 7,661% dráttarvaxta frá 1. maí 2010 til greiðsludags, enda sé ekki hægt að tilgreina nákvæmlega hverjir dráttarvextir samkvæmt ákvæði lánasamningsins verði í framtíðinni.
Stefnandi segir allar innheimtutilraunir hafa verið árangurslausar og því sé málssókn nauðsynleg.
Við munnlegan málflutning hélt stefnandi því fram að ef niðurstaða dómsins yrði sú að stefndi teljist hafa tekið lán í íslenskum krónum standist það ekki að sýkna stefnda á þeim forsendum. Ljóst sé að stefndi hafi fengið lán að fjárhæð 680.040 evrur, gengi evrunnar á greiðsludegi hafi verið 88,24 og því hafi andvirði lánsins í íslenskum krónum verið 60.006.730 krónur. Lánið hafi borið að endurgreiða í einu lagi þann 1. okt. 2009, ekkert hafi verið greitt af höfuðstól þess og því eigi stefnandi rétt á endurgreiðslu þessarar fjárhæðar, auk vaxta frá síðasta gjalddaga þeirra, samtals 281.203 krónur. Stefnandi eigi því rétt á að krefja stefnda um þá fjárhæð, þ.e. 60.287.933 krónur að viðbættum dráttarvöxtum skv. 5 og 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Þá kröfu telur stefnandi rúmast innan aðalkröfu sinnar, enda sé um lækkun kröfufjárhæðar að ræða og auk þess í samræmi við varakröfu stefnda og hún sé því ekki of seint fram komin.
Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefnandi til afdráttarlausra ákvæða lánasamningsins um skuldbindingar stefnda, meginreglna kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og þeirrar meginreglu samningaréttar að samningar skuli standa. Við munnlegan málflutning mótmælti stefnandi því að reglur um brostnar forsendur gætu leitt til þess að samningurinn teldist óskuldbindandi. Breytingar á gengi gjaldmiða eða almennar aðstæður í efnahagslífi geti ekki talist forsendur samningsgerðar aðila enda hefðu slíkar aðstæður getað þróast í hvora áttina sem var og samningsaðilum báðum verið ljós sú áhætta sem í því fólst. Það hafi því ekki verið forsenda lánasamningsins að gengi evru gagnvart íslenskum krónum héldist óbreytt á samningstímanum. Vísaði stefnandi í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 81/2011 þar sem því hafi verið hafnað að forsendur hafi brostið vegna breytinga á gengi hlutabréfa. Þá hafnar stefnandi því að aðrar ástæður, svo sem háttsemi starfsmanna eða eigenda bankanna, geti breytt nokkru um forsendur samnings aðila eða skuldbindingargildis hans. Engin atvik máls eða aðstæður haggi skuldbindingargildi samningsins og skyldu stefnda til að endurgreiða umrætt lán.
Dráttarvaxtakröfu í aðalkröfu byggir stefnandi á 6. gr., sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um varnarþing vísar stefnandi til 42. gr. sömu laga og málskostnaðarkrafa styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sé stefnandi ekki virðisaukaskattskyldur aðili. Því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi krefst sýknu og byggir aðal- og varakröfu sína á því að stefndi hafi með samningnum frá 30. október 2007 tekið lán í íslenskum krónum. Stefndi bendir á því til stuðnings að fjárhæð lánsins sé tilgreind í íslenskum krónum og engu skipti þótt tekið sé fram í samningnum að sú fjárhæð sé að jafnvirði. Öll framkvæmd lánveitingarinnar og greiðsla vaxta beri þess merki að lánið sé í íslenskum krónum enda hefði verið hægur vandi að tilgreina fjárhæð í evrum í lánasamningum ef staðið hefði til að taka lán í þeirri mynt. Þá sé tryggingarbréf það sem þinglýst var á fasteignina Strandgötu 4 í Fjarðarbyggð í íslendum krónum að fjárhæð 65.000.000 króna. Að auki greiddi stefndi vaxtagjöld fram til 1. október 2009 í íslenskum krónum. Þá hafi stefnandi verið fullmeðvitaður um að stefnda var ómögulegt að greiða vaxtagjöld eða höfuðstól lánsins í evrum enda tekjur félagsins í formi leigutekna í íslenskum krónum sem runnu inn á reikning stefnda sem var handveðsettur stefnanda á grundvelli 2. mgr. 6. gr. samningsins. Að þessu gættu telur stefndi að með samningnum hafi höfuðstóll lánsins verið verðtryggður miðað við gengi evru gagnvart íslensku krónunni. Enn fremur telur stefndi að gengistrygging lánsins í krónum miðað við erlenda mynt verði ráðin af fjölda ákvæða lánasamningsins, m.a. því sem heimili lántaka að óska eftir myntbreytingu, og upp frá því sé lánið miðað við aðra erlenda mynt. Heimild til að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum sé að finna í VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, en þau ákvæði séu ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laganna. Þar sé tæmandi talið hvernig skuldir verði verðtryggðar og enga heimild sé að finna til að binda fjárhæðir í krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þvert á móti sé áréttað í athugasemdum með frumvarpi til laganna að verðtrygging með því móti sé óheimil. Þetta hafi einnig verið staðfest með nýlegum dómum Hæstaréttar. Af skýrum fordæmum Hæstaréttar megi ráða að megináhersla sé lögð á efni lánaskjalanna sjálfra, einkum það atriði hvort lánsfjárhæð sé tilgreind í íslenskum krónum eða erlendri mynt og önnur atvik komi því aðeins til skoðunar að þessi þáttur samningsgerðarinnar sé óljós, sbr. meðal annars hæstaréttardóm í máli nr. 153/2010 og nr. 603/2010. Þá sé í máli nr. 155/2011 um efnislega sambærilegan samning að ræða; sama orðalag á forsíðu, lán með sama hætti tilgreint í íslenskum krónum en hins vegar einnig tilgreint hlutfall hinna erlendu mynta. Þá hafi útborgun lánsins í því tilviki einnig verið í erlendri mynt en allar afborganir, utan einnar, í íslenskum krónum. Á sömu sjónarmiðum byggist dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. mars 2011 í máli nr. E-3209/2011. Af þessum dómafordæmum megi álykta að það skipti höfuðmáli við úrlausn ágreinings í máli þessu hvernig lánasamningurinn sé úr garði gerður og jafnframt að útborgun lánsins í evrum hafi ekki þýðingu í því sambandi. Í öllum tilvikum þar sem dómar hafi fallið á gagnstæðan veg hafi samningurinn sjálfur kveðið á um lán í erlendri mynt og fjárhæð lánsins í þeirri mynt skýrlega tekin fram í lánaskjalinu sjálfu, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 551/2011.
Þá hafi ekki verið staðið rétt að innheimtu kröfunnar og í gögnum málsins sé ekkert að finna um að innheimtubréf hafi verið send til stefnda svo sem skylt sé að gera á grundvelli innheimtulaga nr. 95/2008. Fyrst í greinargerð hafi stefnda verið mögulegt að koma að rökum um ólögmæti lánsins og slík framkvæmd innheimtu sé í andstöðu við ákvæði nefndra laga.
Verði ekki fallist á að lánið hafi verið tekið í íslenskum krónum byggir stefndi kröfu sína á því að samningurinn sé að þessu leyti, þ.e. að því er tengingu höfuðstólsins við gengi evru varðar, óskuldbindandi samkvæmt reglum samningaréttar um brostnar forsendur og 36. gr. og 36. gr. a-d laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936. Lánið hafi nær tvöfaldast á tæpum tveimur árum. Þegar samningurinn hafi verið gerður hafi verið gengið út frá þeirri forsendu að ástand á fasteigna- og fjármálamarkaði yrði með eðlilegum hætti. Hrun íslensku bankanna, sem meðal annars verði rakið til stjórnenda þeirra, hafi raskað íslensku atvinnulífi þannig að forsendur lánasamningsins hafi brostið. Stefnandi hafi átt stærstan þátt í því að forsendur brustu. Því sé ósanngjarnt af hálfu stefnanda að krefjast endurgreiðslu lánsins við þessar aðstæður, sbr. nánar grunnreglur um forsendubrest og II. kafla laga nr. 7/1936.
Varðandi varakröfu sína um lækkun á dómkröfum vísar stefndi til þess að ákvæði lánasamningsins um „jafnvirði“ 60.000.000 IKR beri að túlka þannig að krafan nemi ekki hærri fjárhæð í hinni erlendu mynt en sem því nemur. Í því sambandi verði að virða allan vafa stefnda í hag. Þá vísar stefndi til sjónarmiða um óréttmæta auðgun en aðalkröfu stefnanda telji stefndi byggjast á meintri heimild til að umreikna lánið í íslenskar krónur við vanefnd lántaka á grundvelli f-liðar 3. gr. samningsins. Miðað sé við lok gjaldfellingardags en engin gögn hafa verið lögð fram um gjaldfellingu lánsins eða að stefndi hafi verið krafinn um greiðslu á andvirði lánsins fyrr en með útgáfu og birtingu stefnu þann 4. júní 2010. Það sé bersýnilega ósanngjarnt að stefnandi geti geymt heimild sína til þess að umbreyta kröfunni í íslenskar krónur í lengri tíma og ákveðið kröfufjárhæðina eftir þróun gjaldmiðla eftir lokadag samnings. Stefndi hafi fyrst fengið tilkynningu um gjaldfellingu lánsins með birtingu á stefnu þann 4. júní 2010. Þann dag hafi gengi evrunnar gagnvart íslensku krónunni verið 155,94 en ekki 181,43 líkt og miðað sé við í stefnu. Gjaldfellingardagur sé því sá dagur er stefnan var birt stefnda og miða eigi umreikning á evrum yfir í íslenskar krónur á grundvelli f-liðar 3. gr. samningsins við þann dag sem jafnframt geti verið fyrsti mögulegi upphafsdagur dráttarvaxta samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi telur óréttmæta auðgun stefnanda felast í því að stefnandi geri bæði kröfu um gengismun og dráttarvexti fyrir sama tímabil, þ.e. frá þeim tíma sem stefnandi telur vera gjaldfellingardag kröfunnar fram til útgáfu stefnu þann 4. júlí sem sé sá dagur þegar fyrst er hægt að krefjast dráttarvaxta þar sem þá fyrst hafi stefnda verið ljóst að stefnandi hygðist nýta sér heimild til gjaldfellingar lánsins.
Stefndi mótmælir sérstaklega varakröfu stefnanda og kveður engin gögn hafa verið lögð fram er varpi ljósi á þá fjárhæð sem greidd var og í hvaða gjaldmiðli hún var greidd. Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu í varakröfu stefnanda sérstaklega með sama hætti og gert er í aðalkröfu.
Í greinargerð krafðist stefndi enn fremur frávísunar dráttarvaxtakröfunnar þar sem í dómkröfum stefnanda í stefnu sé einvörðungu vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 en hvorki getið vaxtafótar né vísað sérstaklega til 1. mgr. 6. gr. laganna. Við munnlegan málflutning féll stefndi frá þessari málsástæðu.
Þá mótmælti stefndi kröfum stefnanda, sem komu fram við munnlegan málflutning og lúta að fjárhæð kröfu ef litið yrði svo á að um lán í íslenskum krónum væri að ræða. Slíkur málatilbúnaður feli í sér nýjar málsástæður, sem ekki sé getið um á fyrri stigum máls og því of seint fram komnar. Nýjum málsstæðum beri að hafna í samræmi við fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 153/2010.
Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar stefndi til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins en varðandi málskostnaðarkröfuna til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða
Í málinu deila aðilar um hvort líta beri á lán sem stefndi tók hjá forvera stefnanda 30. október 2007 sem lán í íslenskum krónum, verðtryggt miðað við gengi evru, eða lán í evrum. Samkvæmt lögum nr. 38/2001 er óheimilt að semja um annan grundvöll verðtryggingar lánsfjár en þann sem sérstaklega er heimilaður í lögunum. Í lögunum er ekki heimilað að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, aðeins við vísitölur neysluverðs, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna eða hlutabréfavísitölu, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Aftur á móti fara lánveitingar í erlendum gjaldmiðli ekki í bága við ákvæði laga nr. 38/2001. Um þessi atriði vísast einkum til dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 og dóma réttarins frá 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010. Þá fjalla dómar Hæstaréttar frá 8. mars 2011 í málum 30/2011 og 31/2011 og dómur frá 9. júní sl. í máli nr. 155/2011 einnig um hliðstæð álitaefni.
Stefnandi leggur áherslu á að frá upphafi hafi verið gengið út frá því að lánið væri í erlendum gjaldmiðli þótt lánsfjárhæðin hafi verið ákveðin sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Heiti samningsins kveði á um lán í erlendum gjaldmiðli. Hvaða erlendi gjaldmiðill það var hafi hins vegar verið ákveðið eftir að gengið hafi verið frá lánasamningnum sjálfum þar sem lántaki hafði um það val sem hann upplýsti lánveitanda um áður en kom að útborgun lánsins. Í tilkynningu sem lántaki sendi bankanum hafi hann óskað eftir að lánið yrði í evrum og við því hafi verið orðið. Stefnandi telur það ekki síst vera til marks um að lánið hafi í raun verið í evrum að stefndi hafi fengið lánið greitt út í evrum.
Stefndi telur á hinn bóginn að efni lánasamningsins sjálfs sé sá þáttur sem mesta þýðingu hafi í málinu og telur fyrirliggjandi dóma Hæstaréttar sýna að höfuðáhersla sé lögð á það hvaða mynt lánasamningur sjálfur kveði á um og það hafi ekki úrslitaþýðingu í hvaða mynt lán sé greitt út.
Samningurinn sem liggur til grundvallar viðskiptum aðila er óljós í veigamiklum atriðum sem lúta að því í hvaða gjaldmiðli lán á grundvelli hans var veitt. Samningsformið ber með sér að vera staðlað form fyrir lán í ýmsum myntum, þar á meðal íslenskum krónum. Þannig segir í 1. gr. samningsins, þar sem kveðið er á um fjárhæð lánsins og lánstíma, að um sé að ræða lánssamning til 2 ára „að fjárhæð jafnvirði ISK 60.000.000 sextíumilljónir 00/000 íslenskra króna í íslenskum krónum og/eða erlendum myntum með þeim skilmálum sem greinir í samningi þessum.“ Síðar í 1. mgr. er kveðið á um það að lántaki skuli tilkynna lánveitanda með tveggja daga fyrirvara í hvaða mynt eða myntum hann hyggst taka lánið og eftir atvikum hlutfall þeirra. Jafnframt segir þar að endanlegar fjárhæðir erlendra gjaldmiðla ákvarðist á þeim tíma. Tilkynning sú sem stefndi sendi stefnanda á grundvelli þessa ákvæðis er sömuleiðis í stöðluðu formi þar sem gert er ráð fyrir að færðar verði inn í eyðuákvæði upplýsingar um nafn lántaka, dagsetningu samnings, gjaldmiðil láns og fjárhæð þess. Ekkert af ofangreindu var fyllt inn í tilkynninguna. Hins vegar er gert ráð fyrir að lántaki fylli út fyrir neðan þennan texta upplýsingar um það í hvaða mynt lántaki óski eftir að fá lánið greitt út. Þar er handskrifað „EUR“ og tilgreint númer á bankareikningi og nafn og kennitala lántaka þar fyrir aftan.
Hvergi í samningi aðila er fjárhæð lánsins tilgreind í evrum og eini staðurinn þar sem þeirrar myntar er getið, er í ofangreindum handskrifuðum texta þar sem óskað er eftir útgreiðslu lánsfjár í evrum. Þá bendir ákvæði samningsins um myntbreytingarheimild til þess að verðtrygging miðað við gengi tiltekins gjaldmiðils sé meginmarkmið samningsins auk þess sem vaxtagreiðslur voru inntar af hendi í íslenskum krónum. Gefur þetta vísbendingu um að lánið hafi í raun verið í íslenskum krónum.
Á hinn bóginn gefur það vísbendingu um að aðilar hafi samið um lán í evrum að lánsfjárhæðin var greidd út í evrum, útreikningur lánsins miðaðist við gengi evru gagnvart krónu á útborgunardegi lánsins og til grundvallar útreikningum vaxta af láninu lágu ákvæði samnings um lán í evrum. Þá bendir heiti samningsins á forsíðu hans til þess að um lán í erlendri mynt hafi verið að ræða.
Af því sem að ofan er rakið má sjá að það skortir nokkuð á að samningur aðila sé skýr hvað þetta atriði varðar og framkvæmd samningsins gefur heldur ekki skýra vísbendingu um það í hvaða mynt aðilar sömdu um lánveitingu. Það stendur stefnanda nær að gera lánasamninga sína, sem byggja á stöðluðum skilmálum sem samdir eru af hans hálfu, þannig úr garði að ekki leiki vafi á grundvallaratriðum í samningsskilmálum. Verður hann að bera hallann af því að það verður ekki með vissu ráðið af samningnum sjálfum hvort honum hafi verið ætlað að vera grundvöllur láns í íslenskum krónum, verðtryggðs miðað við gengi evru, eða í evrum.
Við úrlausn málsins verður fyrst og fremst að horfa til forms og meginefnis samningsins sem liggur til grundvallar skuldbindingu stefnda. Einkum hefur það þýðingu í málinu hvernig skuldbindingin sjálf er tilgreind í lánasamningnum. Í samningi aðila segir að lánið sé til 2 ára „að fjárhæð jafnvirði ISK 60.000.000“. Þetta bendir til þess að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða og hefur það ekki úrslitaþýðingu hér þótt heiti samningsins gefi til kynna að um lán í erlendum gjaldmiði sé að ræða, svo sem fram kemur m.a. í dómum Hæstaréttar frá 14. febrúar 2010 í málum nr. 603/2010 og 604/2010. Með hliðsjón af ofangreindu verður niðurstaða dómsins sú að um lán í íslenskum krónum sé að ræða. Leiðir það jafnframt af þessari niðurstöðu að ákvæði samningsins um verðtryggingu miðað við gengi evru gagnvart íslensku krónunni eru andstæð ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.
Að þessari niðurstöðu fenginni verður að leysa úr því hvaða þýðingu hin ólögmæta gengistrygging hefur á skuldbindingargildi samningsins og efni hans. Svo sem ráða má af dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 frá 16. september 2010, verður að líta svo á að hvorki verði byggt á gengistryggingarákvæði samningsins né ákvæðum um vaxtagreiðslur sem tengd eru gengistryggingarákvæðinu. Hins vegar er samningurinn í heild sinni ekki ógildur. Verður því ekki fallist á það að sýkna beri stefnda af greiðslu skuldarinnar svo sem aðalkrafa stefnda kveður á um. Ljóst er að samningur aðila fól í sér að höfuðstól lánsins bar að endurgreiða í heild á gjalddaga og ekki er um það deilt að sú greiðsla fór ekki fram. Á hinn bóginn voru greiddir vextir af láninu mánaðarlega á lánstímanum miðað við að um lán með gengistryggingu við evrur væri að ræða. Í gögnum málsins er ekki að finna upplýsingar um það hver heildarfjárhæð greiddra vaxta hafi verið á umræddu tímabili í íslenskum krónum. Þá er ekki gerð grein fyrir því hvort eða hvaða vexti stefnandi telur að stefndi hafi átt að greiða á samningstímanum, miðað við þá forsendu að lánið sé í íslenskum krónum. Ekki eru heldur lagðir fram útreikningar sem sýna fram á hver fjárhæð eftirstöðva lánsins er miðað við slíkar vaxtagreiðslur, að teknu tilliti til greiddra vaxta. Stefnandi hafði ekki uppi varakröfu í málinu, sem byggist á því að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða, fyrr en við munnlegan málflutning. Stefndi mótmælti því þá að málsástæða þessi fengi komist að, enda þótt aðalkrafa hans sjálfs í málinu sé á henni byggð. Svo sem að framan er rakið hefur stefnandi hins vegar ekki gert neina grein fyrir áhrifum þessarar málsástæðu á útreikning fjárhæðar skuldar stefnda. Krafan er því vanreifuð að þessu leyti og verður ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi af þessari ástæðu.
Eftir þessum úrslitum máls ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað á grundvelli 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 svo sem greinir í úrskurðarorði.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi. Stefandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.