Hæstiréttur íslands

Mál nr. 273/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Fimmtudaginn 24. maí 2007.

273/2007:                         B

                         (Eva B. Helgadóttir hdl.)

gegn

A

                         (enginn)

Kærumál. Lögræði.

Úrskurður Héraðsdóms um að B skyldi svipt sjálfræði á grundvelli a. liðar  4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2007, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissvipting verði tímabundin. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda sóknaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda sóknaraðila, Evu B. Helgadóttur héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2007.

  Með beiðni, sem dagsett er 25. apríl sl. og þingfest var 26. sama mánaðar krafðist sóknaraðili, A, [kt. og heimilisfang], þess að móðir hans, B, [kt. og heimilisfang], verði svipt sjálfræði vegna geðveiki.  Um aðild sóknaraðila vísast til a- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71,1997.  Varnaraðili mótmælir kröfunni.

   Fyrir liggur að varnaraðili er samkvæmt formlegri sjúkdómsgreiningu haldin geðveikinni hugvilluröskun (delusional disorder).  Hefur hún tvisvar áður verið svipt sjálfræði tímabundið vegna þessa sjúkdóms en henni hefur slegið niður aftur þegar sjálfræðissviptingin hefur tekið enda.  Með bréfi dómsmálaráðuneytisins 4. apríl sl. var varnaraðili vistuð nauðug á sjúkrahúsi með heimild í 19. gr. lögræðislaga.  Tveir geðlæknar sem stundað hafa varnaraðila hafa komið fyrir dóminn og gefið skýrslu um geðheilsu hennar. 

  Nanna Briem sem var læknir hennar frá því í júlí 2004 þegar hún var lögð fyrst inn á geðdeild, segir að þá hafi hún verið búin að ganga með ofsóknarranghugmyndir í a.m.k. 10 ár.  Var hún svipt sjálfræði í sex mánuði í framhaldi af þessu þar sem hún hafi verið algerlega innsæislaus í sjúkdóm sinn.  Hafi hún svarað lyfjameðferð mjög vel og ávallt verið samvinnuþýð.  Hins vegar hafi verið ljóst frá upphafi að hún ætlaði sér ekki að halda áfram lyfjameðferð eftir að sviptingartíminn rynni út og það orðið reyndin.  Ári síðar hafi B verið lögð inn á spítalann aftur en þá fengið sömu lyfjameðferð.  Hafi hún verið svipt sjálfræði í eitt ár og meðferðin gengið mjög vel.  Hafi hún farið að vinna fyrir sér á ný og keypt sér íbúð.  Þegar sviptingartíminn var liðinn hafi sótt í sama horf hjá henni, eins og reyndar hafi mátt sjá fyrir því hún hafi verið innsæislaus í veikindi sín.  Kveðst læknirinn hafa séð fram á það að varnaraðili myndi veikjast aftur innan árs frá því að hún hætti að taka lyfin og hafi það gengið eftir.  Segir læknirinn að nauðsynlegt sé að svipta varnaraðila sjálfræði ótímabundið enda sé fullreynt að hún taki ekki lyfin sé hún sjálfráða því hana skorti innsæi í veikindi sín.  Varnaraðili sé annars mjög samvinnuþýð en aðeins meðan hún veit að hún þurfi að vera það.

  Guðrún Geirsdóttir geðlæknir, hefur stundað varnaraðila frá því hún var nú lögð inn nauðug 4. apríl sl.  Hún hefur sagt frá því að varnaraðili hafi hætt að taka lyf sl. haust og versnað af því sem hafi svo leitt til þess að hún var lögð inn á geðdeild nú í vor.  Sé nauðsynlegt að svipta hana sjálfræði því hún hafi ekkert innsæi í sjúkdóminn og skilji ekki tilgang lyfjameðferðarinnar.  Hún hafi hins vegar sýnt góðan bata þegar hún taki lyfin og getað unnið og lifað eðlilegu lífi.  Sé þörf á því að hún verði svipt sjálfræði ótímabundið enda sé það sýnt að hún hætti að taka lyf um leið og hún sé sjálfráða.    

  Dómarinn álítur alveg vafalaust af því sem rakið er hér að framan að varnaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi og að hún sé alls ófær um að ráða högum sínum. Þá álítur hann að skilyrði a- liðar 4. gr. lögræðislaga eigi við um varnaraðila og að þörf sé á því að svipta hana sjálfræði.  Ber að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli svipt sjálfræði. 

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þ.m.t. þóknun til talsmanna aðilanna, Sifjar Torlacius hdl., 100.000 krónur, og Evu B. Helgadóttur hdl., 80.000 krónur, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, B, [kt. og heimilisfang], er svipt sjálfræði.

Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun til talsmanna aðilanna, Sifjar Torlacius hdl., 100.000 krónur, og Evu B. Helgadóttur hdl., 80.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.