Hæstiréttur íslands
Mál nr. 261/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Matsgerð
|
|
Miðvikudaginn 16. maí
2012. |
|
Nr. 261/2012. |
A1988
hf. (Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.) gegn Samskipum hf. (Gísli Hall hrl.) |
Kærumál. Matsgerð.
Staðfestur var
úrskurður héraðsdóms um að S hf. fengi að afla mats dómkvaddra matsmanna, áður
en munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu A hf. færi fram, í máli sem S hf.
hafði höfðað gegn A hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál
þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og
Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili
skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2012, sem barst héraðsdómi sama
dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður
Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2012, þar sem tekin var til greina krafa
varnaraðila um að afla mats dómkvaddra manna áður en málflutningur fer fram um
kröfu sóknaraðila um frávísun málsins frá héraðsdómi. Kæruheimild er í c. lið
1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess
að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreindri kröfu
varnaraðila hafnað. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili
krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með
vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila
verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn
kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili,
A1988 hf., greiði varnaraðila, Samskipum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2012.
Mál
þetta var þingfest 18. október 2011. Hinn 29. febrúar 2012 var málið tekið til
úrskurðar um þá kröfu stefnanda að honum verði heimilað að afla mats dómkvaddra
matsmanna um það, hvort og þá hversu miklu tjóni hann varð fyrir vegna ætlaðra
samkeppnisbrota stefnda, og að hann fái að afla dómkvaðningarinnar áður en
málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fari fram. Þá krefst stefnandi
málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Stefndi
krefst þess að kröfu stefnanda verði hafnað og að farið verði að meginreglu 2.
mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um að fyrst fari fram
málflutningur um frávísunarkröfu stefnda áður en aflað verður matsgerðar.
I.
Í
málinu gerir stefnandi þá dómkröfu aðallega að stefndi verði dæmdur til að
greiða honum skaðabætur að fjárhæð 3.686.743.433 krónur með vöxtum og
dráttarvöxtum, til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur
að fjárhæð 1.154.497.189 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum og til þrautavara
að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að mati dómsins með
vöxtum og dráttarvöxtum. Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefnda
verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
Stefndi
krefst aðallega frávísunar málsins frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af
öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega
lækkaðar. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II.
Stefnukröfum
sínum til stuðnings vísar stefnandi til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr.
70/2007 frá 17. desember 2007 um að sekta Eimskip vegna samkeppnislagabrota á
tímabilinu 1999-2002 á mörkuðum fyrir reglubundnar áætlunarsiglingar milli
Íslands og Evrópu annars vegar og Íslands og Norður-Ameríku hins vegar. Hafi
áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfest þá ákvörðun að mestu leyti með úrskurði
nr. 3/2008, dagsettum 12. mars 2008, en sektarfjárhæð hafi þó verið lækkuð.
Byggir stefnandi kröfur sínar á því að með niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar
hafi verið staðfest að brot Eimskipa hafi falist í svo kallaðri markaðsatlögu,
sem beinst hafi gegn stefnanda, og jafnframt að samningar Eimskipa við
viðskiptamenn með ákvæðum um einkakaup og/eða tryggðarafslætti hafi falið í sér
misnotkun á markaðsráðandi stöðu samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga. Stefnandi
byggir á því að tjón hans vegna markaðsatlögunnar hafi bæði falist í
viðskiptamissi og því, að hann hafi neyðst til að lækka gildandi verð til að
halda samningum. Hið sama eigi við um samninga um einkakaup og
tryggðarafslætti, enda sé ómögulegt að keppa við markaðsráðandi fyrirtæki þegar
viðskiptamenn séu bundnir með slíkum ólögmætum hætti. Stefndi sé bótaskyldur
gagnvart stefnanda samkvæmt almennu skaðabótareglunni, auk þess sem stefndi
beri ábyrgð á brotum eldra rekstrarfélags Eimskipa samkvæmt sérreglum
samkeppnislaga. Þá byggir stefnandi á meginreglum íslensks skaðabótaréttar um
virka samsömun, sem feli í sér að einn aðili geti borið bótaábyrgð á háttsemi
annars vegna náinna tengsla þeirra. Stefnandi gerir í stefnu grein fyrir
útreikningum á tjóni sínu vegna ætlaðra samkeppnislagabrota stefnda, eins og
þær eru settar fram í aðalkröfu og varakröfu. Þá áskilur hann sér í stefnu m.a.
allan rétt til þess að óska dómkvaðningar matsmanna til að meta hvort og þá hve
miklu tjóni hann hafi orðið fyrir, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð
einkamála.
Stefndi byggir frávísunarkröfu
sína í fyrsta lagi á því að málatilbúnaður stefnanda sé verulega vanreifaður og
sé því erfitt fyrir stefnda að taka til varna með fullnægjandi hætti. Þannig sé
ætlað tjón stefnanda ekki stutt fullnægjandi gögnum og vanreifað, enda sé vísað
ósundurgreint til framlagðra skjala sem aðeins innihaldi innri, órökstudda
útreikninga stefnanda. Segir í greinargerð stefnda að svo virðist sem
útreikningur stefnanda sé frekar byggður á huglægum forsendum en gögnum eða
staðreyndum. Sé erfitt að átta sig á samhengi þeirra, auk þess sem
undirliggjandi gögn um forsendur, s.s. flutt magn, séu ekki lögð fram. Þá sé
horft til áætlaðs tekjutaps en hvorki litið til kostnaðar á móti né örra
breytinga á markaði.
Vísar
stefndi til þess að umfjöllun í stefnu um skilyrði skaðabótaskyldu sé verulega
takmörkuð og uppfylli ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 en ekki sé
nægjanlegt að vísa almennt um málsástæður til úrskurðar stjórnvalds sem ekki sé
lagður fram. Gera verði grein fyrir því á hvaða málsatvikum krafa stefnanda sé
byggð, hvaða gögn liggi henni til grundvallar og hvernig málsástæður renni
stoðum undir þær. Auk þess verði að gera skýrlega grein fyrir því hvernig
grundvallarskilyrði skaðabótaábyrgðar eigi við, s.s. orsakatengsl, reglur um
sennilega afleiðingu og verndarhagsmunir. Þá bendir stefndi á að stefnandi
byggi ætlaða skaðabótaskyldu nær eingöngu á reglum Evrópuréttar. Loks vísar
stefndi til þess að ætlað tjón stefnanda sé vanreifað og einungis stutt
einhliða gögnum frá stefnanda, sem ekki séu frumgögn, auk þess sem forsendur
fyrir útreikningi stefnanda séu verulega vanreifaðar og kröfur með öllu
óskiljanlegar. Útreikningur stefnanda sé í raun marklaus og hafi hvorki verið
lögð fram matsgerð né sannanir um undirliggjandi forsendur kröfunnar.
Stefndi
byggir frávísunarkröfu sína í öðru lagi á því að samkvæmt 6. mgr. 7. gr.
innheimtulaga nr. 95/2008 sé heimilt að bera ágreining um réttmæti kröfu undir
dómstóla, án þess að fyrst sé gætt ákvæða 7. gr., ef skuldari hefur sannanlega
hreyft mótbárum gegn peningakröfu. Stefndi hafi ekki áður hreyft mótbárum gegn
kröfu stefnanda, enda hafi hún aldrei verið gerð, og sé því, samkvæmt
gagnályktun frá framangreindu ákvæði innheimtulaganna, ekki heimilt að bera
ágreining um réttmæti kröfu stefnanda undir dómstóla, án þess að fyrst sé gætt
ákvæða 7. gr. sömu laga.
III.
Við
fyrstu fyrirtöku hjá dómara málsins eftir framlagningu greinargerðar af hálfu
stefnda var lögð fram bókun stefnanda og þess óskað að málinu yrði frestað til
framlagningar matsbeiðni af hálfu stefnanda. Var því mótmælt af hálfu stefnda
að málflutningur um frávísunarkröfu hans færi ekki fram fyrr en eftir að
matsgerðar dómkvaddra matsmanna hefði verið aflað. Er jafnframt bókað eftir
stefnda að hann telji að „ekki verði bætt úr ágöllum á málatilbúnaði stefnanda
með matsgerð eins og stefnandi virðist byggja bókun sína á“.
Í
framangreindri bókun stefnanda kemur fram að málatilbúnaður hans í stefnu
byggist m.a. á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2008 og ákvörðun
Samkeppniseftirlitsins í sama máli, nr. 70/2007. Grundvallarupplýsingar, þ.e.
texti og tölur, um efni stjórnvaldsákvarðananna hafi verið afmáðar úr báðum
skjölunum fyrir opinbera birtingu þeirra og afhendingu til stefnanda vegna
trúnaðar samkeppnisyfirvalda við stefnda. Gögn að baki ákvörðuninni hafi þannig
hvorki verið birt opinberlega né afhent stefnanda. Í stefnu hafi verið gerð
tilraun til að setja fram bótaútreikning án þeirra upplýsinga en jafnframt hafi
verið skorað á stefnda að leggja fram úrskurð áfrýjunarnefndarinnar, ákvörðun
Samkeppniseftirlitsins og önnur gögn, samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr.
91/1991, um meðferð einkamála. Stefndi hafi hins vegar ekki orðið við
áskoruninni, heldur gert í greinargerð ýmsar athugasemdir við ónóga gagnaframlagningu
og bótaútreikning. Þá vísar stefnandi í bókuninni jafnframt til þess að hann
hafi í stefnu áskilið sér rétt til að óska dómkvaðningar matsmanna til að meta
hvort og þá hve miklu tjóni hann hefði orðið fyrir, yrði gerður ágreiningur um
málsástæður eða útreikning kröfufjárhæða. Telur stefnandi skilyrði til að víkja
frá meginreglu 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 þar sem frávísunarkrafa
stefnda sé reist á málsástæðum, sem varða einnig efni máls, og nægilegar
upplýsingar þykja ekki komnar fram að því leyti. Hafi stefnandi þannig hagsmuni
af því að matsmenn verði dómkvaddir og matsgerð lögð fram áður en héraðsdómur
fellir úrskurð um frávísunarkröfu stefnda.
Eins
og áður hefur verið tæpt á er í 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð
einkamála, að finna þá meginreglu að mál skuli flytja um frávísunarkröfu og
leysa úr henni í úrskurði áður en fjallað verður frekar um efni þess. Í sömu
málsgrein er hins vegar einnig mælt fyrir um undantekningu, sem heimilar að
vikið sé frá meginreglunni, ef frávísunarkrafan byggist á ástæðum sem varða
einnig efni máls og nægilegar upplýsingar þykja ekki komnar fram að því
leyti.
Áður
er rakið að stefndi byggir frávísunarkröfu sína einkum á því að tjón stefnanda
sé vanreifað í stefnu og að umfjöllun í stefnu um skilyrði skaðabótaskyldu sé
verulega takmörkuð og uppfylli ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991, m.a. að
því er varðar orsakatengsl, reglur um
sennilega afleiðingu og verndarhagsmuni. Fyrir liggur að stefnandi gerði í
stefnu sérstakan áskilnað um rétt til að óska dómkvaðningar matsmanna til að
meta „hvort og hve miklu tjóni hann varð fyrir skv. 9. kafla eml. nr. 91/1991“ ef gerður yrði ágreiningur um málsástæður
eða útreikning kröfufjárhæða. Er því ljóst að með ósk sinni um dómkvaðningu
matsmanna miðar stefnandi að því að renna stoðum undir útreikning á fjárhæðum
skaðabótakrafna sinna og treysta grundvöll málsástæðna um skilyrði
skaðabótaskyldu stefnda, m.a. að því er varðar orsakatengsl. Hefur stefnandi
hagsmuni af því að matsmenn verði dómkvaddir og að matsgerð þeirra verði lögð
fram áður en úrskurðað verður um frávísunarkröfu stefnda.
Í
greinargerð stefnda er rakið að sýknukrafa hans byggi m.a. á því að stefnandi
hafi ekki orðið fyrir tjóni eða að tjónið sé í öllu falli ósannað. Segir síðan
að stefndi byggi sýknukröfuna að stórum hluta „á sömu röksemdum og sjónarmiðum
og fram hafa komið hér að framan, annars vegar í umfjöllun um frávísunarkröfu
vegna vanreifunar og hins vegar umfjöllun um orsakatengsl og sennilega
afleiðingu í skilyrðum skaðabótaskyldu“. Er því ljóst að frávísunarkrafa
stefnda byggist að hluta til á ástæðum sem varða einnig efni máls.
Að
öllu framanrituðu virtu er það niðurstaða dómsins að beita beri
undantekningarreglu 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um
ágreining aðila í þessum þætti málsins. Verður því að fallast á kröfu stefnanda
eins og nánar greinir í dómsorði. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.
Arnfríður
Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Stefnanda,
Samskipum hf., er heimilað að afla mats dómkvaddra matsmanna áður en
málflutningur fer fram um kröfu stefnda, A1988 hf., um frávísun málsins frá
héraðsdómi.
Ákvörðun
um málskostnað bíður efnisdóms.