Hæstiréttur íslands

Mál nr. 492/2010


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Fyrning


                                                        

Þriðjudaginn 19. apríl 2011.

Nr. 492/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Líkamsárás. Fyrning.

X var ákærður fyrir líkamsárás, sbr. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa skallað og slegið A í andlitið með þeim afleiðingum að tvær tennur losnuðu. Í héraði var X sakfelldur samkvæmt ákæru og Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms um að ákærðu hefði gerst sekur um þá háttsemi sem lýst var í ákæru. Hæstiréttur vísaði meðal annars til þess að rannsókn málsins hefði hafist sama dag og brotið var framið, 10. febrúar 2008, og verið haldið fram óslitið til 24. júní 2008. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en 4. maí 2010 og hún birt 20. sama mánaðar. Upphaf fyrningarfrests miðaðist við upphaf rannsóknar og tilraunir lögreglu til sáttaumleitunar á tímabilinu breyttu þar engu um. Var brot ákærða fyrnt er málið var höfðað og yrði honum því ekki refsað fyrir háttsemi sína. Þá var skaðabótakröfu A vísað frá héraðsdómi.  

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd. 

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins og skaðabótakröfu A. Til vara krefst hann þess að refsing falli niður en að því frágengnu að hún verði milduð. Til vara krefst hann einnig lækkunar á skaðabótakröfunni.

Af hálfu A hefur ekki verið krafist endurskoðunar á úrlausn héraðsdóms um skaðabætur.

Í héraðsdómi kemur fram að vitnið B hafi borið að ákærði hafi skallað A, en vitnið bar einnig að ákærði hefði í framhaldi af því slegið A hnefahögg. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru.

Háttsemi ákærða er heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot samkvæmt því ákvæði varðar sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum eða 1 ári ef háttsemin er sérstaklega vítaverð. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna fyrnist sök manns á 2 árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 1 árs fangelsi eða refsing sú, sem til er unnið, fer ekki fram úr sektum.

Brot ákærða var framið 10. febrúar 2008. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu komu tveir lögreglumenn á vettvang eftir tilkynningu um líkamsárásina. Þar skýrði A frá því að ákærði hefði verið árásarmaðurinn og sýndi hann lögreglu áverka sína. Lögregla hafði upp á ákærða skömmu síðar. Um samskipti ákærða og lögreglu bókar sá lögreglumaður sem skýrsluna gerði: „Ég gaf mig á tal við hann og ræddi við hann í lögreglubifreiðinni. Ég kynnti X ástæðu afskipta okkar og spurði hann út í málið. X sagðist ekki kannast við manninn og að hann hefði ekki kýlt í andlit hans eins og hann héldi fram. Eftir að hafa fengið persónuupplýsingar frá X var honum sleppt ....“ Í skýrslunni er X nefndur árásaraðili.   Þar segir einnig að A muni leggja fram kæru til lögreglu. A fékk fyrstu læknismeðferð þennan sama dag samkvæmt vottorði Rolfs Hanssonar tannlæknis 12. febrúar 2008. A kærði til lögreglu 7. apríl 2008 og var ákærði yfirheyrður 24. júní 2008 auk þess sem þann dag voru teknar skýrslur af vitnum gegnum síma. Lögregla hafði svo símsamband við ákærða 2. september 2008 og innti hann eftir því hvort hann væri fús til að „leysa málið í sáttamiðlun“, sbr. nú b. lið 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði kvaðst fús til þess og hafði lögregla í kjölfarið símsamband við A sem lýsti einnig vilja sínum til slíkrar afgreiðslu málsins, en þó ekki fyrr en hann hefði fengið mat tannlæknis um hugsanlegar varanlegar tannskemmdir. Samkvæmt skýrslu lögreglu 15. október 2008 var ítrekað gengið eftir því að A skilaði þessum gögnum, svo unnt væri að halda sáttafund, en án árangurs. Var þá litið svo á að hann væri ekki samþykkur því að málið færi í þennan farveg. Samkvæmt skýrslu lögreglu 8. janúar 2010 var þó 8. desember 2009 enn á ný reynt að koma á sáttafundi en ákærði hafnaði alfarið framkominni skaðabótakröfu A. Ákæra var svo gefin út 4. maí 2010 og hún birt 20. sama mánaðar.

Fyrningarfrestur brots ákærða telst frá þeim degi, er refsiverðum verknaði hans lauk, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 82. gr. laganna rofnar fyrningarfrestur þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Í málum, sem lögreglan má samkvæmt lögum ljúka með sátt, rofnar fyrningarfrestur þegar lögreglan sakar mann um brot og kynnir honum sáttaboð. Samkvæmt 2. málslið 5. mgr. greinarinnar rýfur rannsókn samkvæmt 4. mgr. ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hættir henni eða hún stöðvast um óákveðinn tíma með þeim fyrirvara að sakborningur hafi ekki komið sér undan rannsókninni. Eins og að framan er rakið hófst rannsókn sama dag og brot var framið, eða 10. febrúar 2008 er lögregla bar sakargiftir undir ákærða. Ekki varð hlé á rannsókninni fram til 24. júní 2008. Eftir þann dag og þar til ákæra var birt telst rannsókn málsins hafa stöðvast í skilningi 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Hvorki eru lagaskilyrði fyrir því að líta svo á að framangreindar tilraunir við að koma á sátt milli ákærða og brotaþola breyti þessari niðurstöðu né verður ráðið að ákærði hafi reynt að koma sér undan rannsókn. Samkvæmt framansögðu miðast því upphaf fyrningarfrests við 10. febrúar 2008 og var brot ákærða fyrnt er málið var höfðað rúmlega tveimur árum síðar. Verður ákærða því ekki refsað fyrir háttsemi sína, sbr. 6. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður skaðabótakröfu A vísað frá héraðsdómi samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, sbr. og 1. mgr. 220. gr. laganna, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af refsikröfu ákæruvalds.

Skaðabótakröfu A er vísað frá héraðsdómi.

Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óröskuð þó þannig að kostnaðurinn skal greiðast úr ríkissjóði.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 15. júní sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 4. maí 2010, á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 10. febrúar 2008, utandyra við veitingastaðinn Sólon, Ingólfsstræti í Reykjavík, skallað og slegið A í andlitið með þeim afleiðingum að tvær tennur losnuðu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur að fjárhæð 1.192.975 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá árásardegi, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá 19. apríl 2009 til greiðsludags.

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, til vara að refsing verði látin niður falla, en til þrautavara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að bótakrafa verði lækkuð verulega. Loks er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málsatvik

Mánudaginn 7. apríl 2008 mætti A til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar sem hefði átt sér stað laust fyrir klukkan 6 að morgni 10. febrúar utan við veitingastaðinn Prikið í Bankastræti. Sagðist A hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum og verið utandyra að reykja. Þar hefði hann hitt ákærða og sagt við hann að „Breiðholt væri alvöru, en Árbærinn væri hálfvegis“, en hann hefði vitað að ákærði byggi í Árbæjarhverfi. Rétt eftir að hann hefði sagt þetta hefði ákærði orðið brjálaður. Sagðist hann hafa gengið á brott frá ákærða, en ákærði fylgt honum eftir og náð honum í Ingólfsstræti. Hefði hann sagt við ákærða að hann væri á leiðinni heim og „vildi ekkert kjaftæði“. Ákærði hefði þá þrifið í bringu hans, dregið hann að sér, skallað hann og slegið hann eitt högg í andlitið. Hefði skallahöggið verið svo þungt að hann hefði hálfvankast á eftir. B, sem þarna var staddur, hefði fjarlægt ákærða eftir þetta, en síðan hefði lögreglumenn borið að og rætt við þá ákærða. A hefði verið ekið á slysadeild, en þar hefði honum verið bent á að leita til tannlæknis, sem hann hefði gert í framhaldinu.

Í vottorði Rolfs Hanssonar tannlæknis, dagsettu 12. febrúar 2008, kemur fram að A hafi leitað til hans 10. febrúar vegna áverka á tönnum sem hann hefði hlotið fyrr um daginn. Hefði A verið aumur í framtönnum vinstra megin í efri gómi og framtönnum neðri góms. Röntgenmyndir hefðu sýnt víkkað rótarslíður tanna #21 og #22 og hefði klínísk skoðun gefið til kynna að tennurnar væru lausar. Tönn #22 hefði gengið niður og inn svo að bit var ekki eðlilegt. Hefði tönnum verið komið fyrir á réttan stað og þær spengdar, en tíminn myndi leiða í ljós hverjar varanlegar afleiðingar yrðu. Ekki væri ósennilegt að nauðsynlegt yrði að rótfylla báðar tennurnar. 

Í skýrslu sem Ingólfur Már Ingólfsson lögreglumaður, sem kom á vettvang í umrætt sinn, hefur ritað kemur fram að tilkynning hafi borist kl. 5:51 um að maður hefði verið laminn fyrir utan veitingastaðinn Sólon í Bankastræti. Á vettvangi hefði A gefið sig fram við lögreglumenn og hefði hann verið með sár í munni eða munnvikum. Hefði hann nefnt ákærða sem hann sagði hafa slegið sig í andlitið án nokkurs tilefnis. Hefði A sagt að ákærði væri tónlistarmaður, „rappari“, og hefðu þeir verið að ræða eitthvað sem því tengdist inni á veitingastaðnum Prikinu þegar árásin átti sér stað. Lögreglumenn hefðu komið auga á ákærða þar sem hann var á gangi ásamt fleira fólki neðarlega í Bankastræti. Ræddu lögreglumenn við ákærða sem sagðist ekki kannast við A og hefði hann ekki kýlt hann í andlit. Hefði ákærði verið látinn laus eftir þetta, en A ekið á slysadeild.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 24. júní 2008. Sagðist hann hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Prikinu nóttina sem um ræðir. Hann hefði farið út af veitingastaðnum og beðið eftir unnustu sinn, sem einnig var á leið út. Þarna fyrir utan hefði hann hitt pilta sem hann hefði ekki þekkt neitt og hefðu þeir farið að rífast við hann, en ekki myndi hann tildrög þess. Á meðan á rifrildinu stóð hefði annar piltanna skyndilega kýlt hann í andlitið og hefði hann þá kýlt piltinn til baka. Ákærði sagðist ekki minnast þess að hafa skallað piltinn. Þetta hefði atvikast mjög hratt. Vel gæti verið að hann hefði skallað hann, en það hefði þá gerst í hita leiksins.

Samkvæmt skýrslu lögreglu, dagsettri 15. október 2008, samþykktu ákærði og A að málinu yrði vísað til sáttameðferðar, en A gerði fyrirvara um að áður yrði fengið mat tannlæknis á endanlegum afleiðingum tannáverka. Gögn um þetta bárust hins vegar ekki frá A og var þá litið svo á að hann væri ekki reiðubúinn að taka þátt í sáttafundi. Samkvæmt skýrslu lögreglu 8. janúar 2010 var á ný reynt að vísa málinu til sáttameðferðar. Er ákærða var kynnt að krafist yrði 600.000 króna í skaðabætur hafnaði hann hins vegar að ljúka málinu með þeim hætti.

Ákærði neitaði sök fyrir dómi. Við aðalmeðferð málsins sagðist hann hafa verið á veitingastaðnum Prikinu í umrætt sinn. Hefði hann verið á heimleið og beðið eftir samferðarfólki sínu utan dyra þegar til hans hefðu komið tveir menn sem hann þekkti ekki, en vissi nú að voru A og B. Hefðu þeir veist að honum með orðum og hann svarað fyrir sig. Þá hefði A slegið hann hnefahögg í auga svo að hann hlaut glóðarauga. Eftir þetta hefðu orðið áflog á milli þeirra A og hefðu þeir „glímt eitthvað“, en B hefði svo gripið í A og fært hann frá. Ákærði lýsti áflogunum nánar þannig að hann hefði verið kýldur og hefði hann slegið hnefahögg til baka. Eftir það hefði þeim lent saman, en hann teldi ekki að fleiri högg hefðu gengið á milli. Spurður hvort hann hefði skallað A sagði ákærði að ef svo væri hefði það gerst á meðan á glímutökum þeirra stóð, en ekki eins og lýst væri í ákæru.    

Vitnið A sagðist hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Prikinu. Hann hefði verið utan dyra á reykingasvæði og þá sagt í gríni við ákærða eitthvað á þá leið að „Árbærinn væri hálfvegis, en Breiðholt væri málið“. Ákærði hefði tekið þessu illa og starað á sig. A sagðist hafa gengið í burtu og verið að tala í farsíma, þegar hann hefði veitt því athygli að ákærði stóð hinum megin við götuna og starði á hann. Sagðist hann hafa kallað til ákærða: „Hvað viltu maður – ég er ekki með neitt vesen við þig“, eða eitthvað í þeim dúr. Hann hefði svo snúið sér við, en ekki vitað fyrr en ákærði kom að honum, greip í brjóst hans og skallaði hann og kýldi í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Hefði ákærði verið færður á brott eftir þetta. A sagðist hafa hlotið nokkra áverka á tönnum við atlöguna. Vinstri framtönn í efri gómi hefði gengið inn í næstu tönn við hliðina og framtönn í neðri gómi losnað og skekkst. Þá hefði hann fengið skurð á augabrún.

A neitaði alfarið að hafa slegið ákærða áður en hann veittist að honum. Hann hefði borið hendur upp fyrir höfuð þegar þetta gerðist til að sýna að hann vildi ekki slást. A sagðist kannast við ákærða, sem væri tónlistarmaður og tók fram að hann væri sjálfur úr Breiðholtshverfi og vissi að ákærði væri úr Árbænum.

Vitnið C sagðist hafa verið á veitingastaðnum Prikinu með A, B og fleirum. Hann hefði komið að A þar sem hann var staddur úti í reykingaporti og hefðu þeir ákærði verið að rífast. Skömmu síðar hefðu þeir yfirgefið veitingastaðinn og hefði ákærði þá komið að, rifið í öxlina á A, sem hefði snúið sér við og hefði ákærði þá skallað hann í andlitið og kýlt hann einu sinni eða tvisvar. Hefði A fallið upp að vegg við þetta. Ákærði hefði verið rifinn frá A og hefði lögreglan komið á vettvang skömmu síðar. C sagðist ekki hafa heyrt orðaskipti milli ákærða og A í reykingaportinu.

Vitnið B sagði ákærða og A hafa verið að rífast inni á veitingastaðnum Prikinu og hefði það snúist eitthvað um Árbæ og Breiðholt. A hefði ætlað að ganga í burtu, en ákærði þá kallað til hans. Hefði A snúið sér við, en ákærði þá gripið í hann og skallað hann niður svo að hann féll upp að vegg veitingastaðarins. Hann hefði dregið ákærða í burtu áður en hann næði að kýla A aftur. B sagði A hafa haldið höndum sínum á lofti þegar ákærði gekk að honum og hefði hann spurt ákærða hvað hann ætlaði að gera, en þá verið skallaður. Hann hefði aldrei séð A slá frá sér á meðan á þessu stóð.

Vitnið D sagðist hafa verið á veitingastaðnum Prikinu og hefði hann komið að ákærða þar sem hann stóð við innganginn og var að þræta við tvo menn. Hefðu mennirnir gengið að ákærða og veist að honum, en verið stíað í sundur af viðstöddum. Þetta hefði gerst mjög hratt og lögreglan fljótlega komið á vettvang. D sagðist ekki hafa séð nákvæmlega hvað gerðist þegar mennirnir stóðu saman eins og hann hefði lýst. Hann hefði séð þá hvorn ofan í öðrum og síðan séð að ákærði var blóðugur. Þar sem ákærði stóð neðar í götunni en mennirnir hefði hann talið að þeir hefðu átt frumkvæði að átökunum.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök. Hann viðurkennir að hafa slegið A einu hnefahöggi í andlit, en hefur borið að A hafi slegið hann fyrst. Þá hefur ákærði borið að hann muni ekki eftir því að hafa skallað A, en ef eitthvað slíkt hafi gerst hafi það verið á meðan þeir tókust á í glímutökum, en ekki með þeim hætti sem lýst er í ákæru. A hefur lýst því að ákærði hafi skallað hann og slegið í andlit hans í umrætt sinn. Vitnið C sagðist hafa séð ákærða skalla A í andlitið og slá hann einu eða tveimur hnefahöggum. Þá bar B að hann hefði séð ákærða skalla A og sagðist vitnið hafa fjarlægt ákærða áður en hann næði að veita A frekari högg. Vitnunum þremur bar saman um að A hafi ekki slegið ákærða, eins og ákærði hefur borið um. Sem fyrr greinir játar ákærði að hafa slegið A hnefahöggi í andlit. Með því og að öðru leyti með vísan til framburðar framangreindra vitna telst sannað að hann hafi veist að A með þeim hætti sem lýst er í ákæru og valdið honum þeim áverkum sem þar greinir og staðfestir eru með vottorði tannlæknis. Framburður ákærða um að A hafi slegið hann í aðdraganda atlögunnar fær ekki stoð í framburði vitna eða gögnum málsins að öðru leyti og er honum hafnað. Breytir vætti C engu þar um, en fram kom hjá vitninu að hann hefði ekki séð nákvæmlega hvað gerðist á milli mannanna, sem hefðu staðið þétt saman. Telst háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði krefst aðallega sýknu vegna þess að sök á hendur honum sé fyrnd. Brot samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga varða fangelsi allt að einu ári og fyrnast því á tveimur árum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Verður talið að fyrningarfrestur hafi, samkvæmt 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, rofnað þegar ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 24. júní 2008 vegna gruns um að hafa framið brotið. Ákæra var gefin út á hendur ákærða 4. maí 2010 og málið þingfest  26. sama mánaðar. Var sök ákærða þá ófyrnd samkvæmt framansögðu og verður ekki fallist á sýknukröfu ákærða af þessari ástæðu. Þá krefst ákærði sýknu þar sem háttsemi hans hafi réttlæst af neyðarvörn, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til þess atlaga ákærða hafi verið nauðsynleg til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, svo sem í 12. gr. almennra hegningarlaga greinir og er hafnað vörn ákærða á þeim grunni. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru.

Ákærði er fæddur í [...]. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að árás hans á A var harkaleg, þar sem hann veitti A skalla- og hnefahögg í andlit svo að hann hlaut allnokkra áverka af. Þótt fram sé komið að áður hafi komið til einhverra orðaskipta á milli ákærða og A var aðdragandi atlögunnar engan veginn með þeim hætti að til málsbóta horfi fyrir ákærða samkvæmt 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn verður litið til þess að langt er liðið frá því er brotið var framið og hafa ekki fengist viðeigandi skýringar á þeim drætti sem orðið hefur á lögreglurannsókn málsins. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en rétt þykir að ákveða að fresta skuli framkvæmd refsingarinnar og að hún falli niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

A hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.192.975 krónur með vöxtum, sem sundurliðast þannig:

  1. Miskabætur                                                                                        500.000 krónur
  2. Lögfræðikostnaður                                                                           192.975 krónur
  3. Áætlaður tannlæknakostnaður                                                      500.000 krónur

Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, sem þykja hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Jafnframt verða brotaþola dæmdar bætur vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu sinni, en í samræmi við viðmiðunarreglur dómstólaráðs er fjárhæð þeirra ákveðin 125.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Meðal gagna málsins er staðfesting á greiðslu brotaþola til AB tannlæknastofu 13. nóvember 2009, vegna röntgenmyndatöku o.fl., að fjárhæð 9.650 krónur. Kröfu um skaðabætur vegna áætlaðs tannlæknakostnaðar fylgja ekki önnur gögn og verða brotaþola ekki dæmdar frekari bætur en sem útlögðum kostnaði nemur. Skaðabætur beri vexti sem í dómsorði greinir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Helgasonar hdl., 351.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragna Bjarnadóttir aðstoðarsaksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 385.150 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2008 til 26. júní 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Helgasonar hdl., 351.400 krónur.