Hæstiréttur íslands

Mál nr. 7/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


         

Miðvikudaginn 16. janúar 2008.

Nr. 7/2008.

Anna Jónsdóttir og

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Halldóru Sif Jóhannesdóttur

(enginn)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. janúar 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2007, þar sem fellt var niður mál, sem varnaraðili höfðaði gegn sóknaraðilum og þeim gert að greiða í ríkissjóð 477.625 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að niðurstöðu hins kærða úrskurðar um málskostnað verði breytt á þann veg að hann falli niður og gjafsóknarkostnaður varnaraðila, 477.625 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að við fyrirtöku málsins 20. nóvember 2007 hafi aðilar lýst því yfir að þeir væru sammála um að fella málið niður. Af gögnum málsins má hins vegar ráða að varnaraðili hafi ákveðið að fella það niður án þess að sóknaraðilar hefðu greitt neinn hluta af kröfu hennar. Eins og atvikum málsins er háttað verður í samræmi við meginreglu 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að fallast á kröfu sóknaraðila um að málskostnaður verði felldur niður.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað kemur ekki til endurskoðunar og stendur það því óraskað.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað er staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2007.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 20. nóvember 2007.

Stefnandi er Halldóra Sif Jóhannesdóttir.

Stefndu eru Anna Jónsdóttir og Vátryggingafélag Íslands.

Dómkröfur stefnanda í málinu eru að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur, kr. 14.645.600 með vöxtum og dráttarvöxtum.

Við fyrirtöku málsins 20. nóvember 2007 kom fram að sátt hefði orðið með aðilum utan réttar og þeir væru sammála um að fella málið niður. 

Lögmaður stefnanda krafðist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og lagði í úrskurð dómsins.

Stefnandi hefur gjafsókn samkvæmt gjafsóknarleyfi dagsettu 25. ágúst 2006.

Eftir niðurstöðu málsins verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda kr. 477.625 í málskostnað sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda samtals kr. 477.625 greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar að meðtöldum virðisaukaskatti, samtals kr. 466.561 og útlagður kostnaður kr. 11.065.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð:

             Mál þetta er fellt niður.

Stefndi greiði stefnanda kr. 477.625 í málskostnað, sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 477.625 krónur greiðist úr ríkissjóði.