Hæstiréttur íslands
Mál nr. 567/2007
Lykilorð
- Skuldabréf
- Vottur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 19. júní 2008. |
|
Nr. 567/2007. |
Lífeyrissjóðurinn Stafir(Ragnar Baldursson hrl.) gegn Guðrúnu Þorsteinsdóttur og Guðnýju Ingibjörgu Rúnarsdóttur (Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.) |
Skuldabréf. Vottur.Sératkvæði.
Gefið var út veðskuldabréf til L 3. ágúst 2001 að upphæð 1.255.211 krónur. HG, faðir Ó, skrifaði undir bréfið sem veðsali, K móðir hans sem maki veðsala og HM, eiginkona hans sem maki lántaka. GÞ og GR skrifuðu, að beiðni K, undir sem vottar að réttri undirskrift þinglýsts eiganda veðsins og lántaka og það án þess að nein undirritun hefði verið færð inn í reitinn “Undirskrift lántaka”. HM falsaði síðar undirskrift Ó á veðskuldabréfið sem lántakanda. L krafði GÞ og GR um greiðslu 1.255.211 króna á þeirri forsendu að þær hefðu með saknæmri háttsemi sinni valdið L fjárhagslegu tjóni. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að við mat á því hvort háttsemi GÞ og GR yrði metin þeim til gáleysis yrði að skoða í heild allar aðstæður og aðdraganda vottunar þeirra. Fyrir lægi að þegar þær undirrituðu skuldabréfið höfðu foreldrar Ó, HG og K, þegar undirritað bréfið auk maka hans HM. Þá væri komið fram að K og HM hefðu verið viðstaddar undirritun GÞ og GR. Við þessar aðstæður máttu þær því ætla að Ó og þau þrjú stæðu sameiginlega að lánsumsókninni, en ekki er óalgengt að foreldrar gangi í ábyrgð vegna skuldbindinga fjárráða barna sinna og alvanalegt er að fólk taki lán í samráði við maka sinn. Ekkert væri fram komið sem veittu GÞ og GR ástæðu til að ætla að þessi skyldmenni Ó hefðu ekki verið í samráði við hann um lántökuna. Eins og aðstæður allar voru var ekki talið að háttsemi þeirra yrði metin þeim til gáleysis í skilningi skaðabótaréttar. Voru þær því sýknaðar af kröfu L.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. október 2007. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 1.255.211 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.242.734 krónum frá 1. mars 2002 til 21. júlí 2004, en frá þeim degi af 1.255.211 krónum til 12. janúar 2006, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefjast þær málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fallist er á heildarmat héraðsdómara á aðstæðum þegar stefndu vottuðu skuldabréf það sem krafa áfrýjanda er reist á og er hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjandi skal greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lífeyrissjóðurinn Stafir, greiði stefndu, Guðrúnu Þorsteinsdóttur og Guðnýju Ingibjörgu Rúnarsdóttur, sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram rituðu stefndu tvisvar sinnum hvor sem vottar á umrætt veðskuldabréf, annars vegar í sérstakan reit sem „vottar að réttri undirskrift þinglýsts eiganda“ og hins vegar sem „vottar að réttri undirskrift lántaka“. Óumdeilt er að þegar vottun átti sér stað hafði ekkert verið ritað í reit bréfsins sem ætlaður var fyrir undirskrift lántaka. Hins vegar ritaði Hróðný Mjöll Tryggvadóttir síðar nafn Ólafs Helgasonar í umræddan reit. Í gögnum málsins er yfirlýsing lögmanns Ólafs 9. janúar 2003 þar sem hafnað er með öllu að Ólafur vilji gangast undir þá skuldbindingu sem fólst í veðskuldabréfinu og tekið fram að um fölsun á nafni hans hafi verið að ræða. Hróðný Mjöll Tryggvadóttir var svo með dómi Héraðsdómi Suðurlands 22. apríl 2005 fundin sek um að hafa falsað nafn Ólafs sem lántaka á þar til gerðan reit veðskuldabréfsins. Þá er fram komið að áfrýjandi greiddi lánsfjárhæðina samkvæmt veðskuldabréfinu á bankareikning Ólafs. Hróðný Mjöll mun hins vegar hafa haft aðgang að bankareikningnum og náð peningunum þaðan. Samkvæmt þessu hefur áfrýjandi bæði sýnt fram á að vilji skráðs skuldara á bréfið til skuldbindingar samkvæmt því hafi ekki verið til staðar og að eðlilega hafi verið staðið að framkvæmd greiðslu áfrýjanda til lántaka samkvæmt efni bréfsins. Þá er óumdeilt að skuld samkvæmt bréfinu hefur ekki verið greidd.
Um er að ræða vottun á viðskiptabréf, nánar tiltekið veðskuldabréf. Tilgangur vottunar á bréfið var að tryggja gagnvart lánveitanda að undirritanir skuldara og veðsala á skjalið væru réttar, eins og berlega er greint í viðeigandi reitum skuldabréfsins. Mátti stefndu því vera ljóst að undirritun þeirra á bréfið um rétta undirskrift lántaka við þær aðstæður sem að framan er lýst var andstæð tilgangi vottunar og ef misfarið yrði með skjalið í kjölfarið gæti það leitt til tjóns fyrir áfrýjanda. Þá er nægilega fram komið að hin ranga vottun var ein af ástæðum þess að áfrýjandi greiddi út fjárhæð samkvæmt bréfinu. Af þessum sökum tel ég að fallast verði á skaðabótaskyldu stefndu gagnvart áfrýjanda. Hvorki eru efni til að verða við kröfu stefndu um lækkun bóta á grundvelli eigin sakar áfrýjanda né samkvæmt 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Því tel ég að dæma beri stefndu til að greiða áfrýjanda kröfu hans og jafnframt málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 31. júlí 2007.
Mál þetta sem dómtekið var 11. júní sl., var höfðað af Samvinnulífeyrissjóðnum, kt. 430269-0389, Stórhöfða 31, Reykjavík með birtingu stefnu þann 8. febrúar sl. fyrir Guðjóni Ægi Sigurjónssyni, hrl. fyrir hönd stefndu, Guðrúnar Þorsteinsdóttur, kt. 210648-4539, Þóristúni 22, Selfossi og Guðnýjar Rúnarsdóttur, kt. 160469-4989, Þrastarima 5, Selfossi.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdar in soldum til að greiða stefnanda kröfu að fjárhæð 1.255.211 krónur ásamt vöxtum af skaðabótakröfum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.242.734 krónum frá 1. mars 2002 til 21. júlí 2004 en frá þeim degi af 1.255.211 krónum til 12. janúar 2006 en frá þeim degi ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.255.211 krónum til greiðsludags. Þá krefst stefnandi vaxtareiknings í samræmi við 12. gr. vaxtalaga. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Málsatvik.
Málsatvik eru óumdeild. Gefið var út veðskuldabréf til Lífeyrissjóðsins Lífiðn þann 3. ágúst 2001 að fjárhæð 1.250.000 krónur. Bréfið átti að endurgreiða á 30 árum með 60 afborgunum og til tryggingar greiðslu kröfunnar var sett að veði með 5. veðrétti fasteignin Sigtún 17, Selfossi. Skráður útgefandi bréfsins var Ólafur Helgason og var bréfið undirritað af Helga Garðarssyni sem veðsala, Kristínu Ólafsdóttur sem maka veðsala og Hróðnýju Mjöll Tryggvadóttur sem maka lántaka. Helgi Garðarsson og Kristín Ólafsdóttir eru foreldrar Ólafs Helgasonar. Í reitinn ,,Undirskrift lántaka á bréfinu var færð inn nafnundirritun Ólafs Helgasonar. Stefndu skrifuðu undir sem vottar að réttri undirskrift þinglýsts eiganda veðsins og lántaka að beiðni Kristínar Ólafsdóttur eftir að hún, Helgi Garðarsson og Hróðný Mjöll höfðu skrifað undir en án þess að nein undirritun hefði verið færð inn í reitinn ,,Undirskrift lántaka. Vanskil urðu á greiðslu 2. gjalddaga skuldabréfsins þann 1. mars 2002. Innheimtubréf var sent til skuldara og veðsala þann 6. nóvember 2002 og greiðsluáskorun var send til veðsala þann 7. janúar 2003. Þann 9. janúar var bréfinu svarað af lögmanni Ólafs Helgasonar og Helga Garðarssonar sem sagði að Hróðný Mjöll hefði falsað undirritun Ólafs og hefði það verið kært til lögreglu. Var greiðsluskyldu Ólafs hafnað og þess krafist að aflýst yrði veðsetningu í Sigtúni 17 til tryggingar kröfunni. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands þann 22. apríl 2005 var Hróðný Mjöll fundin sek um fölsun undirritunar Ólafs á veðskuldabréfið. Í kjölfarið var veðinu aflýst af Sigtúni 17 þann 30. september 2005. Bú Hróðnýjar Mjallar var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2003.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveðst byggja dómkröfu sína á almennu skaðabótareglunni (sakarreglunni). Stefndu hafi með saknæmri háttsemi valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni með því að votta að Ólafur Helgason hafi undirritað veðskuldabréfið sem lántaki án þess að nokkuð hafi verið ritað í reitinn ,,Undirskrift lántaka. Stefnandi kveður háttsemi stefndu ásamt háttsemi Hróðnýjar Mjallar hafa valdið tjóni hans þar sem hann hefði ekki greitt út lánið samkvæmt veðskuldabréfinu ef stefndu hefðu ekki undirritað bréfið. Stefnandi hefði ekki orðið fyrir tjóni ef undirritanir stefndu hefði vantað. Stefndu hefði mátt vera ljóst að háttsemi þeirra gæti valdið stefnanda tjóni. Eini tilgangur vottunar skuldabréfsins væri að tryggja gagnvart stefnanda að lántaki og veðsali hafi sjálfir undirritað skjalið og að þeir væru hæfir til að gangast undir skuldbindingu. Vottun sé því einkum yfirlýsing vottanna um að skjalið hafi verið undirritað af tiltekinni persónu í þeirra viðurvist. Stefndu hafi hlotið að vera ljóst að vottun þeirra á undirritun sem ekki var til staðar væri í andstöðu við tilgang vottunar og að þær væru að votta mikilvæga undirritun sem þær gætu ekki vitað hvort eða af hverjum yrði færð á skjalið. Þær hafi mátt vita að háttsemi þeirra gæti valdið því að skjalið yrði misnotað til tjóns fyrir stefnanda. Það hafi gerst og því beri stefndu ábyrgð gagnvart stefnanda á því tjóni sem þær hafi valdið honum með háttsemi sinni sem verði að meta sem verulegt gáleysi af þeirra hálfu ef ekki stórkostlegt gáleysi. Stefnandi kveðst telja að skilyrði almennu skaðabótareglunnar séu fyrir hendi. Háttsemi stefndu hafi verið saknæm og hafi verið meðorsök að tjóni stefnanda og þar sem eini tilgangur vottunar á skuldabréf sé að tryggja gagnvart skuldara að lántaki hafi sjálfur undirritað bréfið séu skilyrði um sennilega afleiðingu uppfyllt. Stefnandi rökstyður dómkröfuna svo að 1.242.734 krónur séu vangoldinn höfuðstóll veðskuldabréfsins þann 1. mars 2002 þegar það hafi farið í vanskil og að 12.477 krónur sé útlagður kostnaður stefnanda vegna innheimtuaðgerða. Stefnandi kveðst hafa tekið við réttindum og skyldum Lífeyrissjóðsins Lífiðnar þegar hann hafi sameinast Samvinnulífeyrissjóðnum.
Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar. Kröfur um dráttarvexti byggir stefnandi á reglum III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Stefnandi styður kröfu um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt af málskostnaði við lög nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu reisa sýknukröfu sína á þeim grundvelli að ekki séu uppfyllt skilyrði almennu skaðabótareglunnar fyrir því að fella skaðabótaábyrgð á þær á grundvelli sakar. Þá séu önnur skilyrði sakarreglunnar ekki til staðar, eins og ólögmæti, orsakatengsl og sennileg afleiðing. Stefndu hafi ekki vitað eða mátt vita að vottun skuldabréfsins gæti leitt til hugsanlegs fjártjóns fyrir stefnanda. Þegar stefndu vottuðu skuldabréfið hefðu veðsalar bréfsins þegar undirritað það og maki aðalskuldara var viðstödd og undirritaði bréfið. Við mat á sök stefndu verði ekki litið fram hjá því að fjölskylda aðalskuldara stóð að öðrum undirritunum á skuldabréfið. Vottun stefndu hafi a.m.k. náð til undirritunar þeirra sem höfðu þegar undirritað skuldabréfið. Stefndu hafi mátt ætla að aðalskuldari hafi átt aðild að lánsumsókn enda hafi móðir aðalskuldara óskað eftir því við stefndu að þær vottuðu skuldabréfið og þær hafi því mátt telja að bréfið hefði hefði verið gefið út með vitund og samþykki aðalskuldara og aðeins væri formsatriði að afla undirritunar hans. Telja verði með hliðsjón af aðstæðum að fölsun skuldabréfsins hafi verið afar fjarlægur möguleiki og stefndu hafi hvorki vitað né mátt vita að svo gæti farið. Stefndu hafi mátt telja að samþykki aðalskuldara hafi verið fyrir lántökunni. Háttsemi stefndu geti því ekki talist saknæm.
Stefndu byggja einnig á því að undirritun þeirra á skuldabréfið sem vottar hafi ekki skipt máli fyrir fjártjón stefnanda. Nauðsynleg skilyrði um vávæni séu því ekki til staðar. Tilviljun hafi ráðið því að stefndu vottuðu skuldabréfið. Ásetningur Hróðnýjar Mjallar hafi ráðið því að undirritun aðalskuldara var fölsuð. Gera yrði ráð fyrir því að hún hafi sótt um lánið samkvæmt fyrirmælum stefnanda. Ljóst sé að ekki skipti máli þótt stefndu hefðu ekki undirritað skuldabréfið því Hróðný hefði auðveldlega getað falsað nöfn tveggja votta á skuldabréfið. Við afgreiðslu skuldabréfsins hafi stefnandi ekki gert neina tilraun til að fá staðfestingu stefndu að aðalskuldari hafi raunverulega undirritað skuldabréfið. Vottunin hafi því ekki verið könnuð og hafi hún ein og sér engu breytt um fjártjón stefnanda. Því séu ekki fyrir hendi orsakatengsl og sennileg afleiðing á milli háttsemi stefndu og fjártjóns stefnanda.
Stefndu telja ljóst að fjárhagsleg ábyrgð hvíli á Hróðnýju Mjöll. Aðrir sem með sannanlegum hætti hafi tekið á sig fjárhagslega ábyrgð með undirritun sinni á skuldabréfin kunni að bera ábyrgð gagnvart stefnanda. Í dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 22. apríl 2005 komi fram að andvirði skuldabréfsins hafi líklega verið nýtt til framfærslu Hróðnýjar Mjallar og aðalskuldara. Ekki verði séð að gengið hafi verið að framangreindum aðilum til fullnustu kröfunnar.
Jafnframt byggja stefndu á því að eigin sök stefnanda valdi því að ekki komi til álita að stefndu beri skaðabótaábyrgð gagnvart honum. Líta verði til þess að stefnandi sé fjármála- og lánastofnun með sérfræðinga í vinnu sem meðal annars sinni á hverjum degi útgáfu veðskuldabréfa af þeirri tegund sem um ræði í máli þessu. Gera verði ríkar kröfur til stefnanda sem sérfróðs aðila á þessu sviði. Ekkert liggi fyrir um að starfsmenn stefnanda hafi hitt aðalskuldara bréfsins. Það sé sérkennilegt að stefnandi hafi aldrei reynt að hafa samband við aðalskuldara, einkum þar sem ekkert umboð hafi legið fyrir til Hróðnýjar Mjallar um að annast lántökuna fyrir hönd lántaka. Stefnandi virtist hafa afhent skuldabréfið til maka skuldara sem skyldi afla undirritana skuldara og veðsala. Stefnandi verði sjálfur að bera ábyrgð á þessari afgreiðslu, en með henni hafi stefnandi ekki haft neina stjórn á undirritunum á skuldabréfið né haft nein samskipti við aðalskuldara eða veðsala. Ljóst sé að gáleysisleg afgreiðsla stefnanda á skuldabréfinu sé eina ástæðan fyrir fjártjóni hans.
Stefnandi geti ekki komið þeirri ábyrgð yfir á stefndu, sem séu ekki í samningssambandi við stefnanda né aðra þá sem stóðu að gerð skuldabréfsins. Þeir sem votti skuldabréf eigi ekki að eiga á hættu að verða krafðir um greiðslu skuldar samkvæmt viðkomandi bréfi komi í ljós misferli af hálfu þeirra sem taka á sig skuldbindingu samkvæmt viðkomandi bréfi. Krafa stefnanda þýði að að stefndi beri ábyrgð á hugsanlegu fjártjóni stefnanda á hlutlægum grundvelli en fyrir slíkri ábyrgð sé engin lagastoð. Stefndu segja að sönnunarbyrði um saknæma háttsemi, orsakasamband og sennilega afleiðingu hvíli á stefnanda. Stefnanda hafi ekki tekist slík sönnun og liggi þvert á móti fyrir að fjártjón stefnanda hefði orðið án tillits til aðkomu stefndu að skuldabréfinu.
Stefndu rökstyðja varakröfu sína svo að verði fallist á að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefndu beri að lækka þá kröfu verulega. Um rök fyrir þeirri kröfu vísa stefndu til rökstuðnings fyrir aðalkröfu, einkum til röksemdafærslu um eigin sök stefnanda. Við blasi af gögnum málsins að meginþorri sakar liggi hjá stefnanda. Stefndu telja dómkröfu stefnanda alltof háa og því beri að lækka hana verulega. Þá byggja stefndu á því að heimilt sé að lækka skaðabótakröfu stefnanda á grundvelli 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Augljóst sé að skaðabótaskylda yrðu stefndu afar þungbær og ósanngjarnt verði að telja að láta stefndu bera greiðsluskyldu vegna hátternis Hróðnýjar Mjallar. Loks mótmæla stefndu dráttarvaxtakröfu stefnanda sem rangri.
Um lagarök vísa stefndu til skaðabótareglu skaðabótaréttar. Þá er byggt á reglum skaðabótaréttar um eigin sök. Til stuðnings kröfu um lækkun dómkröfu stefnanda er vísað er til 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Málskostnaðarkrafa stefndu er reist á 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða.
Viktor Guðmundsson, framkvæmdastjóri stefnanda, kom fyrir dóminn og lýsti meðferð lánsumsókna hjá stefnanda. Ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans frekar.
Stefndu undirrituðu umrætt skuldabréf í þeim tilgangi að votta undirritanir þinglýsts eiganda veðs og lántaka. Með vottun sinni staðfestu stefndu að þessir aðilar hefðu undirritað bréfið eða kannast við undirritun sína í þeirra viðurvist. Fyrir liggur að reiturinn ,,Undirskrift lántaka á skuldabréfinu var auður þegar stefndu undirrituðu bréfið sem vottar. Vottun stefndu var því ekki í samræmi við tilgang vottunar. Við mat á því hvort háttsemi stefndu verði metin þeim til gáleysis verður að skoða í heild allar aðstæður og aðdraganda vottunar þeirra. Fyrir liggur að þegar stefndu undirrituðu skuldabréfið höfðu foreldrar Ólafs Helgasonar, Helgi Garðarsson og Kristín Ólafsdóttir, þegar undirritað bréfið, auk Hróðnýjar Mjallar Tryggvadóttur. Þá er fram komið að Kristín og Hróðný Mjöll voru viðstaddar undirritun stefndu. Við þessar aðstæður máttu stefndu því ætla að Ólafur og þau þrjú stæðu sameiginlega að lánsumsókninni, en ekki er óalgengt að foreldrar gangi í ábyrgð vegna skuldbindinga fjárráða barna sinna og alvanalegt er að fólk taki lán í samráði við maka sína. Ekkert er fram komið sem veitti stefndu ástæðu til að ætla að þessi skyldmenni Ólafs hefðu ekki haft samráð við hann um lántökuna. Eins og aðstæður allar voru er ekki hægt að meta háttsemi stefndu þeim til gáleysis í skilningi skaðabótaréttar. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu og er því ekki ástæða til að fjalla um aðrar málsástæður stefndu fyrir sýknu. Í samræmi við þessa niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan. Uppkvaðning dómsins hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mikilla embættisanna dómarans en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
D ó m s o r ð :
Stefndu, Guðrún Þorsteinsdóttir og Guðný Rúnarsdóttir, eru sýknaðar af kröfum stefnanda, Samvinnulífeyrissjóðsins.
Stefnandi greiði stefndu 450.000 krónur í málskostnað.