Hæstiréttur íslands
Mál nr. 94/2016
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Vextir
- Sveitarfélög
Reifun
Dómar Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2016. Þeir krefjast þess að viðurkennt verði að lánssamningur 30. nóvember 2007 milli stefnda sem lánveitanda og áfrýjanda Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf. sem lántaka og áfrýjanda Fljótsdalshéraðs vegna sjálfskuldarábyrgðar sveitarfélagsins sé lánssamningur í íslenskum krónum bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í niðurlagi hins áfrýjaða dóms er ranglega staðhæft að framangreindur lánssamningur aðila hafi að geyma ákvæði um gengistryggingu. Með þessari leiðréttingu en að öðru leyti með vísan til forsendna dómsins verður hann staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjendum gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Hitaveita Egilsstaða og Fella ehf. og Fljótsdalshérað, greiði stefnda, Lánasjóði sveitarfélaga ohf., 1.000.000 krónur óskipt í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 18. desember 2015
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 29. október sl. að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf., Einhleypingi 1, Fellabæ, og Fljótsdalshéraði, Lyngási 12, Egilsstöðum, á hendur Lánasjóði sveitarfélaga ohf., Borgartúni 30, Reykjavík, með stefnu þingfestri 8. janúar 2014.
Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær að viðurkennt verði að lánssamningur nr. 33/2007 milli stefnda sem lánveitanda og stefnanda Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf., sem lántaka, og stefnanda Fljótsdalshéraðs, sem sjálfskuldarábyrgðaraðila, dagsettur 30. nóvember 2007, sé lánssamningur í íslenskum krónum bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Þess er jafnframt krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Stefnandi Hitaveita Egilsstaða og Fella ehf. er einkahlutafélag í eigu sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs. Stefndi er opinbert hlutafélag og starfar sem fjármálafyrirtæki.
Stefnandi, Hitaveita Egilsstaða og Fella ehf., ákvað árið 2007 að afla lánsfjár. Í tengslum við þann undirbúning var bókað af stjórn hitaveitunnar, á fundi 28. september 2007 um ákvörðun um lántökuna. Þá var óskað eftir því að Fljótsdalshérað staðfesti sjálfskuldarábyrgð sveitarfélagsins og að tekjur sveitarfélagsins stæðu til tryggingar ábyrgðinni, sbr. 3. og 6. mgr. 73. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Bókun þess efnis var staðfest í bæjarráði 10. október 2007 og bæjarstjórn 17. október 2007.
Með bréfi, dagsettu 8. október 2007, óskaði stefnandi eftir því að stefndi gerði tilboð í lánveitingu til stefnanda. Samhljóða erindi var sent nokkrum öðrum fjármálafyrirtækjum. Í bréfinu var tilgreint að umbeðin lánsfjárhæð væri 235.000.000 króna, og lánstími væri 25 ár. Óskað var eftir tilboðum í þrenns konar lánsform, þ.e. lán í íslenskum krónum, lán í erlendri mynt eða öðrum lánsformum.
Með bréfi, dagsettu 15. október 2007, var opnunartíma tilboða seinkað til 31. október 2007.
Stefndi gerði stefnanda tilboð um lánsfjármögnun vegna 235.000.000 króna, með bréfi dagsettu 31. október 2007. Í bréfinu kom fram tilboð miðað við verðtryggt lán í íslenskum krónum, lán í erlendum myntum, þ.e. evrum og/eða Bandaríkjadölum, auk þess sem fjallað var um aðra valkosti. Undir liðnum aðrir valkostir var undir lið B, bent á möguleika að blanda saman fyrri kostum. Þá var undir liðnum C, sem bar heitið „Gengistryggð Lán“, kynnt að stefndi byði ekki fjölmyntalán að svo stöddu. Undir þeim lið var jafnframt fjallað um gengisáhættu sem fylgdi slíkum lánum.
Á grundvelli þessa ræddi framkvæmdastjóri hitaveitunnar við tilboðsgjafa, þ.m.t. stefnda. Með tölvupósti til framkvæmdastjóra hitaveitunnar um miðjan nóvember 2007, var kynnt að stefndi gæti boðið myntkörfulán, en þar kom m.a. fram að Lánasjóður sveitarfélaga væri að kanna leiðir til að auka framboð sitt varðandi gengistryggð lán, m.a. hvort veita ætti lán í myntkörfu sem tækju mið af vægi erlendra mynta í íslenskum krónum.
Í kjölfar þess sendi framkvæmdastjóri hitaveitunnar tölvupóst, dagsettan 19. nóvember 2007, þar sem vísað var til símtals aðila og það kynnt að hitaveitan óskaði eftir tiltekinni „samsetningu á körfu“, í hlutföllunum 15% Bandaríkjadalir, 5% bresk pund, 40% evrur, 25% svissneskir frankar og 15% japönsk jen.
Nokkur tölvuskeyti fóru milli aðila um lánsfyrirkomulagið. Í tölvuskeyti frá 20. nóvember 2007 kemur fram: „Lánið er eins og tilboð LS, til 25 ára með endurskoðun álags/uppgreiðslumöguleika á 5 ára fresti, fyrsta afborgun 2010, 46 afborganir á 6 mánaða fresti. Í stað EUR og/eða USD er boðin karfa, 1m EUR er um 40% af 235. ISK. Restin af körfunni kæmi þá á næsta ári (USD GBP CHF JPY). Þú athugar að þú verður í öllu falli að taka lán í fimm myntum þó að það heiti körfulán. 3ja mán EURIBOR vextir fyrir EUR eru nú 4,63% og 6 mán EUR vextir 4,62%.“
Í tölvuskeyti, dagsettu 22. nóvember 2007, kemur fram ósk af hálfu hitaveitunnar um að heimild verði til myntbreytingar í lánssamningi. Í svarpósti sama dag er sú ósk samþykkt af hálfu stefnda og tilgreint að það verði gegn gjaldtöku.
Stjórnarfundur hitaveitunnar var haldinn 22. nóvember 2007. Á fundinum var bókað að gengið yrði til samninga við stefnda með vísan til lánatilboðs sjóðsins frá 31. október og tölvuskeytum stefnda, dagsettum 20. og 22. nóvember 2007.
Með tölvuskeyti starfsmanns stefnda, dagsettu 26. nóvember 2007, voru hitaveitunni sendar tillögur að bókunum fyrir stjórn hennar vegna lántökunnar og bókunum bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs vegna ábyrgðar sveitarfélagsins á láninu.
Stefnandi, Hitaveita Egilsstaða og Fella, hafði þá þegar óskað eftir gerð slíkra bókana af bæjarstjórn og var því aflað staðfestingar á bókunum bæjarráðs frá 10. október og bæjarstjórnar frá 17. október 2007, sbr. staðfestingu dagsetta 30. nóvember 2007. Staðfestingin var send til stefnda. Í staðfestingunni er vísað til ábyrgðar sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs á lántöku að upphæð 235.000.000 króna til 25 ára.
Með tölvuskeyti, dagsettu 27. nóvember 2007, óskaði framkvæmdastjóri hitaveitunnar eftir því að lánið yrði greitt út þann dag. Í svarskeyti starfsmanns stefnda, dagsettu sama dag, kemur fram að unnt sé að greiða lánið út fimmtudaginn 29. nóvember. Þar segir m.a.: „EUR/ISK gengið er 93,70 þannig að HEF fær 93.700.000 kr. á fimmtudaginn 29. nóvember miðað við bókanir og samningur sé klár.“ Síðar sama dag var afrit lánssamningsins ásamt fylgiskjölum sent. Fylgiskjal varðandi útborgun væntanlegs lánssamnings, fylgdi þá með í sérstakri útgáfu.
Hinn 30. nóvember 2007 var skrifað undir lánssamning milli aðila. Yfirskrift samningsins er Lánssamningur nr. 33/2007 milli Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. sem lánveitanda og Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf. sem lántaka. Samhliða undirritaði framkvæmdastjóri stefnanda undir beiðni um útborgun lánsins. Í beiðninni er vísað til láns samtals að fjárhæð 235.000.000 króna. Þá er vísað til lánshluta í íslenskum krónum 93.700.000 krónur og veittar upplýsingar um framkvæmd útgreiðslu lánsins.
Lánsfjárhæðin er tilgreind í grein 2.1 í samningnum með eftirgreindum hætti:
„Lántaki lofar að taka að láni og lánveitandi lofar að lána jafnvirði ISK 235.000.000- tvöhundruðþrjátíuogfimmmilljónir í erlendum myntum til 25 ára, nánar tiltekið:
EUR 1.000.000 -einmilljón-
USD 600.000 -sexhundruð þúsund-
GBP 100.000 -eitthundraðþúsund-
CHF 1.000.000 -einmilljón-
JPY 63.500.000 -sextíuogþrjármilljónirogfimmhundruðþúsund-.“
Í grein 2.2 í samningnum kemur m.a. fram að lánið komi til útborgunar í hverri mynt eigi síðar en fimm bankadögum eftir að beiðni lántaka um útborgun lánshluta berist lánveitanda samkvæmt fyrirmynd í viðauka I.
Í grein 2.3 í samningnum kemur m.a. fram að tilgangur lánsins sé að fjármagna hita- og vatnsveituframkvæmdir. Þá kemur fram að lánið sé endurlánað lánsfé frá Þróunarbanka Evrópuráðsins og að lántaki skuldbindi sig til að veita upplýsingar um þau verkefni sem fjármögnuð séu og að þau þurfi að rúmast innan skilyrða Þróunarbankans, sbr. viðauka II með lánssamningnum.
Í grein 3 í lánssamningnum er lánstími, endurgreiðsla og uppgreiðsla skilgreind. Í ákvæðinu er ekki tilgreint í hvaða mynt skuli endurgreiða lánið eða einstaka lánshluta.
Í grein 4 í lánssamningi eru vextir tilgreindir annars vegar EURIBOR + 0,23% álag á evrulánið og LIBOR + 0,23% álag á aðrar myntir. Vextir eru sagðir breytilegir.
Í grein 4.3 í samningnum er að finna ákvæði um breytingu á myntsamsetningu lánsins. Í ákvæðinu er fjallað um fyrirvara en ekki tilgreint að kostnaður falli til vegna slíkra breytinga.
Í grein 5 í samningum er kveðið á um tryggingu. Þar var nýtt heimild þágildandi 73. gr. laga nr. 45/1998, sbr. nú 68. gr. laga nr. 138/2011, til að veðsetja tekjur sveitarfélags sem eiganda lánveitanda. Í samningstextanum er vísað til þess að Fljótdalshérað taki á sig sjálfskuldarábyrgð gagnvart stefnda. Ábyrgð samkvæmt samningnum er staðfest með undirritun bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs.
Í 6. gr. í samningnum er fjallað um kostnað lántaka og í grein 6.3 í samningnum er ákvæði um dráttarvexti og þar tilgreint að þeir séu samningsvextir láns í hinni erlendu mynt að viðbættu 0,5% stiga álagi.
Í 7. gr. í samningnum er ákvæði um skilyrði fyrir útgreiðslu lánsins. Beiðni um útborgun lánsins var send með lánsskjölum til stefnda hinn 30. nóvember 2007. Útborgun evruhluta lánsins fór fram samdægurs, sbr. staðfestingu þar um. Í staðfestingunni er vísað til fjárhæðar láns í evrum. Útborgun lánsins er þar tilgreind „Útborgun-gengislán“. Þar er fjárhæð lánshluta tilgreind og gengi tilgreint 93,7.
Stefnandi fékk útborgunina greidda inn á tékkareikning í íslenskum krónum. Stefnandi kveðst ekki hafa greitt fyrir gjaldmiðlaskipti og ekki fengið upplýsingar um það hvort gjaldmiðlaviðskipti hefðu átt sér stað við útborgun lánsins.
Sölugengi evru hinn 27. nóvember 2007 hafa verið 93,62 íslenskar krónur, samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands. Hinn 30. nóvember 2007 var sölugengi evru 90,26 íslenskar krónur.
Stefnandi kveður útgreiðslu annarra lánshluta ekki hafa verið gerða með skjallegri tilkynningu þar um.
Útgreiðsla fór fram á fjórum lánshlutum hinn 16. apríl 2008, sbr. kvittanir þar um. Á kvittunum er fjárhæð tilgreind í erlendri mynt. Þá er tilgreint að til útborgunar sé gengislán og gengi tilgreint.
Stefnandi kveðst engar upplýsingar hafa fengið um hvort gjaldmiðlaviðskipti hafi átt sér stað í tengslum við útborgunina og hann hafi engan kostnað borið af gjaldmiðlaviðskiptunum.
Upplýsingar um gengi gjaldmiðla í reitnum Útborgun-Gengislán á kvittunum við útgreiðslu láns eru samhljóma skráðu kaupgengi Seðlabanka Íslands hinn 16. apríl 2008.
Heildarútborgun láns til stefnanda var 273.403.300 krónur.
Fyrsta afborgun af vöxtum af lánshluta sem greiddur var út 30. nóvember 2007 fór fram í október 2008. Á greiðsluseðlinum er staða láns tilgreind bæði í evrum og íslenskum krónum. Lánsfjárhæð er tilgreind 1.000.000 evrur. Þá segir þar undir liðnum Verðtrygging/Mynt: EUR, liðurinn Gengi við stofnun láns: 93,7, liðurinn Gengi á gjalddaga: 123,31. Í liðnum sundurliðun greiðslu er fjárhæðum lýst bæði í EUR og ISK. Í liðnum til greiðslu er einungis tilgreind fjárhæð í íslenskum krónum. Tilkynningar lánveitanda um afborganir af vöxtum voru sambærilegar fyrstu árin.
Fyrstu gjalddagar af vöxtum vegna lánshluta sem greiddir voru út hinn 16. apríl 2008, voru í október 2008. Uppsetning greiðsluseðla og upplýsingar eru sambærilegar.
Stefnandi greiddi vaxtagreiðslur af láninu á gjalddögum. Stefnandi kveður greiðslur af láninu hafa orðið verulega þungar í kjölfar gengisfalls krónunnar haustið 2008. Eingöngu voru þó greiddir vextir til að byrja með. Afborgun af höfuðstól lánanna hófst í apríl 2010. Endurgreiðslur hafa í öllum tilvikum verið inntar af hendi í íslenskum krónum.
Stefnandi kveður að við gerð ársreikninga stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella, hafi verið kallað eftir upplýsingum um stöðu lána hjá stefnda vegna ársins 2007. Upphafleg fjárhæð er þar tilgreind 93.700.000 krónur (1.000.000 EUR). Þá er gerð grein fyrir stöðu láns eingöngu í íslenskum krónum, og með verðbótum. Í ársreikningi vegna ársins 2007 hafi verið gerð grein fyrir láni hjá stefnda sem gengistryggðu láni.
Í ársreikningi stefnda á árinu 2007 er í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra vísað til lánveitinga sjóðsins sem gengistryggðra lána. Í ársreikningnum er jafnframt kynnt að stefndi veiti lán til fyrirtækja í eigu sveitarfélaga á grundvelli ábyrgða viðkomandi sveitarfélags á lántöku.
Í tilkynningum stefnda til stefnanda við gerð ársreikninga hitaveitunnar vegna áranna 2008 og 2009 var vísað til gengis mynta við útborgun lána til útreiknings verðbóta.
Fyrirkomulag á útsendingu greiðsluseðla breyttist við gjalddaga lánssamningsins í apríl 2010. Frá þeim tíma bárust stefnanda tilkynningar með yfirskriftinni: Tilkynning um gjalddaga láns í erlendri mynt, og kveður stefnandi það hafa verið vegna umræðu um ólögmæti gengistryggingar.
Stefnendur telja að lánssamningur nr. 33/2007 hafi í raun verið samningur um lán í íslenskum krónum sem bundið hafi verið gengi erlendra gjaldmiðla, enda hafi með útboði lánsfjár í október 2010 verið óskað eftir íslenskum krónum. Af hálfu stefnanda, Fljótsdalshéraðs, hafi bókanir verið afdráttarlausar um veitingu sjálfskuldarábyrgðar vegna skuldbindingar í íslenskum krónum.
Hinn 22. mars 2012 skrifaði stefnandi, Hitaveita Egilsstaða og Fella, bréf til stefnda þar sem hann kynnti afstöðu sína. Stefndi hafnaði því að um ólögmætt gengislán væri að ræða, sbr. bréf dagsett 17. apríl 2012.
Stefnendur kveðast hafa beðið með að höfða mál þetta þar til niðurstaða í máli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stefnda væri til lykta leitt. Eftir að dómur Hæstaréttar í því máli, mál nr. 94/2014, lá fyrir sendi stefnandi stefnda bréf, dagsett 14. október 2014.
Með bréfi stefnda, dagsettu 14. nóvember 2014, hafnaði stefndi því að umdeildur lánssamningur fæli í sér ólögmæta gengistryggingu.
III
Stefnendur byggja á því að lánssamningur nr. 33/2007 sé lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 13. gr. sömu laga. Samkvæmt 14. gr. laga 38/2001 sé eingöngu heimilt að verðtryggja lán í íslenskum krónum með vísitölu neysluverðs. Þá sé í 2. mgr. 14. gr. laganna undanþága frá þessu ákvæði, þar sem heimilað sé að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem mæli breytingar á almennu verðlagi. Í þessu tilviki hafi hvorugt verið gert, heldur hafi lánssamningurinn verið verðtryggður miðað við gengi þeirra fimm mynta sem tilgreindar eru í lánssamningnum.
Stefnendur vísa til athugasemda við 13. og 14. gr. frumvarps sem varð að vaxtalögum nr. 38/2001, en þar segir: „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi“.
Í almennum athugasemdum í sama frumvarpi segir: „Heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður“.
Byggja stefnendur á því að höfuðskyldur hvors aðila, þ.e. annars vegar lánveiting stefnda og hins vegar endurgreiðsla stefnanda, séu í íslenskum krónum, þó að reynt hafi verið að klæða þær í annan búning við skjalagerð. Stefndi hafi annast gerð lánssamninganna. Samkvæmt áralangri dómaframkvæmd skipti ekki máli hvaða nafn menn gefi gerningum sínum heldur hvert sé raunverulegt inntak þeirra. Málsástæður um raunverulegt inntak samnings aðila komi því sérstaklega til skoðunar óháð því hvernig orðalag samnings hafi verið háttað. Vísar stefnendur til 32. gr. samningalaga nr. 7/1936 og meginreglna um málamyndagerninga.
Í ljósi útboðsgagna stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella, og tilboðs stefnda í lánsfjármögnun hafi stofnast samningur um lánveitingu í íslenskum krónum, áður en lánssamningur nr. 33/2007, hafi verið undirritaður. Stefnandi, Hitaveita Egilsstaða og Fella, hafi óskað eftir tilboði vegna lántöku 8. október 2007, þar sem lánsfjárhæð hafi verið tilgreind í íslenskum krónum 235.000.000 króna. Í tilboði stefnda, dagsettu 31. október 2007, sé ítrekað að tilboð sé gert í lánveitingu á 235.000.000 króna. Í lið tvö í tilboði sé vísað til láns í EUR og/eða USD. Virðist þar um samskonar lánskjör að ræða og fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 94/2007, og sem lánssamning nr. 20/2007 hjá sjóðnum. Þau kjör hafi talist fela í sér ólögmæta gengistryggingu.
Við umfjöllun um tilboðshluta þrjú komi fram af hálfu stefnda vegna skammtímafjármögnunar (liður A), að unnt sé að veita skammtímalán sem síðar sé unnt að breyta í verðtryggt eða gengistryggt lán eða blanda saman verðtryggðu og gengistryggðu láni, sbr. lið B.
Undir lið 3 C sé vísað til fjölmyntalána undir fyrirsögninni: Um gengistryggð lán. Fram komi að fjölmyntalán séu ekki í boði hjá stefnda á þeirri stundu. Á því hafi orðið breyting og ljóst að stefndi hafi átt frumkvæði að því að bjóða fjölmyntalán, sbr. m.a. tölvupóstsamskipti aðila 15. nóvember 2007, þar sem vísað sé til gengistryggingar. Tilboð stefnda um lánveitingu, sbr. tölvuskeyti, dagsett 20. nóvember 2007, hvíli beinlínis á upphaflegu tilboði stefnda þar sem einnig hafi verið vísað til gengistryggingar, sbr. orðalag um að lánið sé eins og tilboð LS. Þá felist í tilboðinu að lánstilboð sé sem fyrr einungis miðað við lánveitingu á 235 milljónum íslenskra króna og hlutfall erlendra mynta.
Á stjórnarfundi stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella, hinn 22. nóvember 2007 hafi tilboð stefnda verið samþykkt. Sýnt sé að samskipti aðila fram að undirritun lánssamnings hinn 30. nóvember 2007 hafi hvílt á því að tilboð stefnda væri samþykkt þótt endanlegur frágangur samnings væri eftir. Þá þegar hafi legið fyrir að lán yrði veitt í íslenskum krónum og það gengistryggt, hvað sem liði frágangi skjala um útfærslu gengistryggingarinnar.
Stefnendur byggir á því að ákvæði umþrætts lánssamnings beri með sér að hann sé um skuldbindingu í íslenskum krónum. Í fyrsta lagi vísi höfuðstólsákvæði samningsins til loforðs um að Hitaveita Egilsstaða og Fella taki að láni og stefndi lofi að lána jafnvirði 235.000.000 íslenskra króna í erlendum myntum til 25 ára. Myntirnar séu þá nánar tilgreindar með ákveðinni fjárhæð. Ákvæðið vísi þannig til skuldbindingar í íslenskum krónum sem hefði verið tilgangslaust ef lánveitingin væri í raun í erlendum myntum. Forsaga samningsgerðar staðfesti að lánsfjárhæð hafi átt að vera 235.000.000 íslenskra króna. Allt að einu sé slíkt höfuðstólsákvæði misvísandi og ekki sé við yfirskrift samnings að styðjast til frekari skýringar. Yfirskrift samninganna hafi reyndar verið sambærileg og í fyrri skipti sem stefnandi, Hitaveita Egilsstaða og Fella, hafi tekið verðtryggð lán hjá stefnda.
Stefnendur byggja á því að tilgreining fjárhæða mynta hafi verið gerð til samræmis við samþykkt lánstilboð stefnda til þess að vera grundvöllur að gengistryggingu hvers af fimm lánshlutum í ákveðnum hlutföllum.
Í öðru lagi vísa stefnendur til liðar 4.3 í samningnum um heimild til breytinga á myntsamsetningu lánsins án gjaldtöku. Styðji það að þýðing erlendra mynta hafi fyrst og fremst verið til að skapa hlutfall til að reikna hvern lánshluta, þ.e. gengistryggingu.
Í þriðja lagi vísa stefnendur til þess að skjálfskuldarábyrgð Fljótsdalshéraðs varði ábyrgð láns í íslenskum krónum. Stefndi hafi haft bókun sveitarstjórnar, dagsetta 17. október 2007, um sjálfskuldarábyrgð, undir höndum og talið hana í samræmi við lánssamning, sbr. höfuðstólsákvæði og ákvæði í 5. grein í samningi, þegar ritað hafi verið undir samninginn og útborgun láns hafi hafist hinn 30. nóvember 2011.
Í fjórða lagi benda stefnendur á að viðauki I við samninginn, sem sé hluti hans, vísi til þess að lánið sé skuldbinding í íslenskum krónum. Í viðaukanum sé tilgreint að lánið sé samtals að fjárhæð 235.000.000 íslenskar krónur.
Stefnendur vísa og til þess að þættir varðandi útborgun láns og fyrirkomulag greiðsluseðla séu sambærilegir og í Hæstaréttardómi í máli nr. 70/2014.
Stefnendur benda og á að í yfirliti um stöðu láns við árslok sé höfuðstóll lána aðallega tilgreindur í krónum, gengi mynta sé skráð sem vísitala og fjárhæð láns með verðbótum, vegna áhrifa gengistryggingar.
Stefnendur vísa og til greiðsluáætlunar sem stefndi hafi sent stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella, um mitt ár 2010. Þar sé gerð grein fyrir stöðu fimmta lánshluta láns nr. 33/2007. Greiðsluáætlunin sé einungis í íslenskum krónum. Þá sé gerð grein fyrir afborgunum af höfuðstól sem afborgun nafnverðs og afborgun verðbóta, en með því sé átt við verðbætur sem skapist vegna gengistryggingar skuldbindingar í íslenskum krónum vegna hvers lánshluta.
Byggja stefnendur á því að stefndi hafi sjálfur litið svo á að um gengistryggð lán væri að ræða, sbr. ársreikninga stefnda, t.d. ársreikning 2007, þar sem fram komi í skýrslu stjórnar umfjöllun um útlán gengistryggðra lána.
Stefnandi, Hitaveita Egilsstaða og Fella, vísar til þess að grundvöllur sjálfskuldarábyrgðar feli í sér að byggt hafi verið á því af hálfu stefnda að lánsskuldbindingin væri í íslenskum krónum. Stefnandi, Fljótsdalshérað sem sjálfskuldarábyrgðaraðili, hafi beina hagsmuni af því að skorið verði úr um stöðu láns nr. 33/2007 og feli aðalkrafa í sér að viðkennt verði að sjálfskuldarábyrgð sé skuldbinding í íslenskum krónum. Þýðing sjálfskuldarábyrgðar Fljótsdalshéraðs og veðs í tekjum sveitarfélagsins á inntaki lánssamnings nr. 33/2007 sé verulegt í ljósi þess að ákvörðunin hvíli á skýrum lagaramma, sbr. 3. og 6. mgr. 73. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. einnig reglugerð nr. 123/2006, um tryggingar Lánasjóðs sveitarfélaga í tekjum sveitarfélaga.
Stefnendur byggja á því að bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs 17. október 2007 feli bersýnilega í sér að vera skuldbinding í íslenskum krónum og hafi stefndi talið bókunina fullnægjandi.
Stefnda hafi verið kunnugt um efni bókunarinnar fyrir undirritun samnings og hafi lagt til grundvallar að hún væri í samræmi við eðli lánsskuldbindingar aðalskuldara. Með vísan til þess og samskipta aðila við tilurð samnings sé ljóst að byggt hafi verið á því að sjálfskuldarábyrgð væri á láni í íslenskum krónum. Hluti orðalags ákvæðis 2.1 í lánssamningnum, sem stefndi haldi fram að styðji að lánið hafi verið skuldbinding í erlendri mynt, hafi því ekki þýðingu, sbr. 32. gr. samningalaga, sjónarmið um skýringu samninga og meginreglur um málamyndagerninga.
Stefnendur vísa jafnframt til ákvæða 5. greinar í samningnum varðandi tryggingar. Í ákvæðinu sé þess getið að sjálfskuldarábyrgð nái til verðbóta. Með því sé skuldbinding samkvæmt lánssamningi verðtryggð. Verðtrygging sem um ræði hafi einungis verið í formi gengistryggingar á hvern af fimm lánshlutum samningsins miðað við hverja mynt.
Loks verði ekki litið fram hjá þeirri undantekningarreglu að stefndi hafi samkvæmt lögum rétt til að fá veð í tekjum sveitarfélaga, sem ella séu beinum orðum undanskildar sem lögleg veðandlög, sbr. 2. og 3. mgr. 73. gr. laga nr. 45/1998. Þessi aukna réttarvernd stefnda sem fjármálastofnunar, sem óhjákvæmilega veiti stefnda forskot á aðrar fjármálastofnanir þegar komi að kjörum lánasamninga, leiði til þess að gera verði enn ríkari kröfur en ella til stefnda sem sérfræðings í gerð lánasamninga.
Kröfu um málskostnað byggja stefnendur á 130. gr. og annarra ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að lánssamningur aðila sé í erlendum gjaldmiðlum og falli því ekki undir gildissvið VI. kafla laga nr. 38/2001 og 32. gr. laga nr. 7/1936 og tilteknar óskráðar meginreglur um málamyndagerninga fái því ekki breytt.
Stefndi kveðst taka undir það með stefnendum að það sé meginregla íslensks samningaréttar að það hverju nafni aðilar kjósi að nefna gerninga sína víki fyrir raunverulegu efni þeirra, efni framar formi. Því beri að líta til raunverulegs innraks samninganna fremur en hvaða nafni aðilar kunni að nefna þá. Að sama skapi sé það meginregla íslensks samningaréttar að aðilum sé að meginstefnu til frjálst um hvað þeir semji sín á milli, meginreglan um samningafrelsið. Af þeim ástæðum geti það ekki ráðið úrslitum í málinu þó að orðin „gengistrygging“ eða „gengislán“ hafi komið fyrir í skýringum við ársreikninga Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf. eða öðrum gögnum. Raunar sé það svo að hugtökin erlend lán og gengistryggð lán hafi verið notuð jöfnum höndum í þessum gögnum og í samfélaginu almennt.
Raunverulegt inntak samnings aðila komi fram í grein 2.1 í samningnum, þar sem stefnandi, Hitaveita Egilsstaða og Fella ehf., skuldbindi sig til að taka að láni og stefndi að lána tilgreindar fjárhæðir í tilteknum erlendum gjaldmiðlum. Lánsfjárhæðin hafi þannig verið tilgreind í þeim erlendu gjaldmiðlum, þ.e. stefnandi hafi gengist undir skuldbindingu í erlendum myntum.
Við úrlausn á því hvort í lánssamningi felist skuldbinding í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli hafi Hæstiréttur fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggi til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi hafi rétturinn talið að það skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í þeim. Hafi þetta einnig verið orðað svo í dómum Hæstaréttar að lagt sé til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hafi gengist undir. Þegar sú textaskýring hafi ekki verið talin taka af skarið um hvers efnis skuldbindingin sé að þessu leyti hafi verið litið til atriða sem lúti að því hvernig skuldbindingin hafi verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.
Í máli þessu sé ljóst að texti þeirrar skuldbindingar sem stefnendur hafi gengist undir sé afdráttarlaus um það að lánið sé í erlendum myntum. Virðist það raunar ekki umdeilt í málinu. Hvergi sé í samningi aðila fjallað um að lánið sé gengistryggt og hvergi sé í samningnum ákvæði sem nýst geti til gengistryggingar eða annarrar bindingar höfuðstóls við einhvers konar viðmið. Tilvísun sem fram komi í 5. grein í samningnum til verðbóta geti ekki ein og sér, andstætt skýru orðalagi samningsins að öðru leyti, orðið til þess að lánið teljist vera gengistryggt lán og hnekki ekki skýrri tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar í erlendum myntum. Um staðlað tryggingarákvæði sé að ræða og alkunn venja að orða ákvæði um ábyrgð þriðja aðila með þeim hætti sem gert sé þegar tryggja eigi að hún taki til allra þeirra viðbótargreiðslna sem skuldara geti mögulega verið gert að greiða á grundvelli þess skuldaskjals sem ábyrgðinni sé ætlað að tryggja hverju sinni. Þegar svo hátti til skipti aðdragandi lántökunnar eða tilgangur hennar engu máli. Þannig hafi ekki þótt skipta máli þó að orðið „gengistrygging“ komi fram undir einhverjum kringumstæðum áður en lánssamningur sé undirritaður. Þá geti texti sem unnt sé að misskilja í tilkynningum um útborganir og á fyrstu greiðsluseðlum engu breytt um þetta. Þá skipti engu hvernig vísað sé til lánsins í ársreikningum stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf., og breyti engu um efni skuldbindingar lántaka. Jafnframt hafi ekki þótt skipta máli þó að jafnvirði fjárhæðarinnar í íslenskum krónum hafi verið tilgreint auk erlendu myntanna og höfuðstólsákvæði hafi ekki verið talið misvísandi þó svo hátti til. Hafi höfuðstólsákvæði sem þessi ítrekað í dómum Hæstaréttar verið talin skýr um að skuldbindingin sé í hinum erlendu gjaldmiðlum. Þá gefi yfirskrift samningsins með engu móti til kynna að um sé að ræða lán í íslenskum krónum fremur en lán í erlendum gjaldmiðlum.
Ljóst sé af gögnum málsins að vilji stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf., hafi staðið til þess að taka lán í erlendum myntum og vilji stefnanda, Fljótsdalshéraðs, hafi staðið til að ábyrgjast það lán, og ljóst af hálfu stefnda að um hafi verið að ræða lánveitingu í erlendum myntum, enda algjört grundvallaratriði í málinu að um endurlánað erlent lánsfé hafi verið að ræða. Stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf. hafi mátt vera þetta ljóst. Byggir stefndi á því að allan vafa um túlkun á lánssamningnum verði að skýra til samræmis við þennan vilja aðila.
Í lánssamningi sem deilt var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 94/2014 hafi erlendar myntir ekki verið tilgreindar í lánssamningi aðila. Þá hafi hlutföll þeirra heldur ekki verið nefnd. Það hafi því ekki verið þau kjör sem boðin hafi verið sem hafi talist fela í sér ólögmæta gengistryggingu heldur hafi fjárhæðir erlendu gjaldmiðlanna eða hlutföll þeirra ekki komið fram í lánssamningi.
Í umdeildum lánssamningi aðila máls þessa komi skýrt fram að um endurlán sé að ræða, sbr. grein 2.3 í samningnum, en þar komi fram að lánið sé af endurlánsfé frá Þróunarbanka Evrópuráðsins og hafi stefnandi undirgengist sérstakar skuldbindingar af því tilefni, er varði upplýsingagjöf til hins upphaflega lánveitanda og skilyrði hans fyrir útgreiðslu lánsins. Í viðauka II við lánssamninginn sé þessum skyldum og skilyrðum nánar lýst og ítrekað sé að lánveitingin sé fjármögnuð með lántöku frá Þróunarbankanum. Skuldbindingar stefnda samkvæmt lánssamningi hans við Þróunarbanka Evrópuráðsins sé óumdeilanlega í erlendum myntum.
Jafnframt hafi það ekki þótt skipta máli, þegar fjárhæð erlendra mynta sé tilgreind í samningi, hvernig ráðgert hafi verið í samningi að skyldur aðila yrðu efndar og hvernig efndir þeirra hafi orðið í raun. Það hafi verið ósk stefnanda sjálfs að fá lánið greitt út í íslenskum krónum, en sjá megi í fyrirmynd að beiðni um útborgun í viðauka I við lánssamninginn að augljóslega hafi verið gert ráð fyrir því að útborgun færi fram í erlendum myntum. Þá hafi stefndi litið svo á að aðalskylda stefnanda hafi ávallt verið að inna af hendi greiðslur í þeim erlendu myntum sem lánaðar hafi verið, en hafi þó boðist til að mynda greiðsluseðla í íslenskum krónum ef það hentaði. Þannig hafi stefndi ávallt fyrir hvern gjalddaga, að undanskildum fyrsta gjalddaga lánsins, beint sérstakri tilkynningu til stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf., þar sem því sé lýst hvernig skuli að því staðið að greiða vexti og afborganir í þeim erlendu myntum sem lánað sé í. Stefnandi hafi hins vegar kosið að láta mynda greiðsluseðla í íslenskum krónum. Stefndi hafi tekið við íslenskum krónum og keypt fyrir þær þá erlendu gjaldmiðla sem stefnandi hafi tekið að láni, enda hafi stefnda borið að endurgreiða það lán sem endurlánað hafi verið af í hinum sömu erlendu gjaldmiðlum. Móttaka stefnda á íslenskum krónum hafi því eingöngu verið til hægðarauka fyrir stefnanda en ekki til merkis um að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Hæstiréttur hafi almennt litið svo á að það skipti meira máli hvernig efndir hafi verið fyrirhugaðar í samningi aðila frekar en hver raunin hafi orðið.
Einnig sé til þess að líta, að vextir samkvæmt samningnum hafi verið tilgreindir LIBOR og EURIBOR-vextir, til samræmis við það að um erlent lán hafi verið að ræða. Þar að auki hafi lántaka verið heimilt að óska eftir breytingu á myntsamsetningu lánsins. Ekki hefði verið þörf á því að kveða á um myntbreytingu í samningnum ef lánið hefði verið í íslenskum krónum og samkvæmt grein 4.3 í samningnum sé ljóst að hinir erlendu gjaldmiðlar hafi ekki einungis verið til viðmiðunar eða útreiknings.
Stefndi bendir og á að kerfi hans bjóði einungis upp á að skrá lán í íslenskum krónum þrátt fyrir að honum hafi verið heimilt og hafi sannanlega lánað út erlenda mynt.
Í samræmi við d-lið 7. gr. í lánssamningnum hafi það verið skilyrði fyrir útborgun lánsins að lántaki legði fram staðfest afrit fundagerðar sveitarstjórnar þar sem samþykkt væri ábyrgð viðkomandi sveitarfélags, veðsetning tekna og umboð til að staðfesta ábyrgðina. Í tilefni þess hafi stefndi sent fulltrúa stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf., drög að bókunum þar sem mjög greinilega hafi komið fram að um væri að ræða lántöku í erlendum myntum. Þrátt fyrir að umrædd drög hafi að endingu ekki verið notuð sýni þau fram á svo ekki verði um villst að það hafi verið afstaða stefnda að lánið væri í erlendum myntum. Þá séu bókanir sveitarstjórnar alls ekki afdráttarlausar hvað þetta varði.
Þrátt fyrir að stefnendur vísi til ógildingarástæðna samningaréttar sé ekki gerð krafa um að lánssamningurinn verði ógiltur á þeim grundvelli. Deila aðila snúist þvert á móti eingöngu um það hvort samningurinn sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundinn með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Komi 32. gr. laga nr. 7/1936 og meginreglur um málamyndagerninga ekki til skoðunar í þeim efnum enda sé lánssamningurinn að öllu leyti í því formi og með því efni sem gengið hafi verið út frá af hálfu stefnda við samningsgerðina. Málamyndagerningur sé löggerningur sem sé því marki brenndur að báðir aðilar sem upprunalega hafi staðið að löggerningnum séu samhuga um að leggja aðra merkingu í löggerninginn en leiða megi af orðalagi hans eða formi samkvæmt almennum túlkunarreglum. Sama gildi einnig þegar ætlun annars aðilans sé önnur en almennt megi ráða af orðalagi gerningsins og hinn aðilinn viti um það og gangi að gerningnum með þá vitneskju í huga. Löggerningnum sé þannig ekki ætlað að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu og aðilum gerningsins sé það ljóst. Stefndi hafnar því að aðilar hafi verið samhuga um að leggja þá merkingu í lánssamninginn að hann hafi verið gengistryggður í íslenskum krónum eða þá að ætlun stefnanda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf., hafi verið önnur en ráða megi af orðalagi gerningsins og stefnda hafi mátt vera það ljóst.
Af forsögu málsins verði ekki annað ráðið en að ætlun aðila hafi verið að semja um lántöku í erlendri mynt. Ekki verði séð hvaða ástæðu stefnendur eða stefndi hafi haft til þess að klæða samninginn í búning erlends láns þegar aðilar hafi ekki vitað á þeim tíma sem hann hafi verið gerður að ólögmætt væri að gengistryggja íslensk lán. Hafi það verið ætlun aðila að eiga viðskipti um íslenskt gengistryggt lán hefði ekkert verið því til fyrirstöðu á þessum tíma að undirritaður yrði samningur þess efnis.
Stefndi byggir kröfu sína um málskostnað á 129. gr., sbr. 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort lánssamningur aðila frá árinu 2007, nr. 33/2001, sé um lán í erlendum myntum eða í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001, sbr. dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.
Krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði að lánssamningurinn sé lánssamningur í íslenskum krónum bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Stefndi heldur því fram að lánið hafi verið löglegt lán í erlendum gjaldmiðlum.
Af orðalagi fyrrgreindra lagaákvæða og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim. Fjöldi dóma liggur fyrir þar sem reynt hefur á framangreint álitaefni. Hefur Hæstiréttur í dómum sínum, í samræmi við framangreint, fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingunni sem lántaki tekst á hendur. Koma önnur atriði tengd samningsgerðinni þá fyrst til skoðunar ef samningsákvæðin sjálf taka ekki af vafa um þetta atriði.
Ákvæðum umdeilds samnings hefur verið lýst hér að framan, en í samningnum er lánið sagt vera í tilgreindum erlendum myntum og fjárhæð þeirra tilgreind í þeim myntum þótt vísað hafi verið til jafnvirðis lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum. Þá voru vextir samkvæmt láninu til samræmis við að um erlent lán væri að ræða. Samkvæmt þessu bar meginefni samningsins ótvírætt með sér að lán þetta hafi verið gilt lán í hinum erlendu gjaldmiðlum og fá fyrrnefnd ákvæði samningsins um gengistryggingu þar engu breytt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 51/2015. Þá er ekki fallist á það með stefnendum að samskipti aðila í aðdraganda samningsgerðarinnar sýni fram á að ætlunin hafi verið að taka lán í íslenskum krónum, eða að skilyrði 32. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, séu fyrir hendi. Í þessu sambandi skiptir tilgangur lántökunnar ekki máli en umdeilt lán er samkvæmt framansögðu lán í erlendum myntum og breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum eða að greitt hafi verið af láninu í íslenskum krónum. Með vísan til framanritaðs verður stefndi sýknaður af kröfum stefnenda.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnendur in solidum til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Lánasjóður sveitarfélaga ohf., er sýkn af kröfum stefnenda, Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf. og Fljótsdalshéraðs.
Stefnendur greiði stefnda in solidum 700.000 krónur í málskostnað.