Hæstiréttur íslands
Mál nr. 134/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
|
|
Föstudaginn 24. mars 2006. |
|
Nr. 134/2006. |
Stefán Stefánsson(Sif Konráðsdóttir hrl.) gegn Veiðifélagi Blöndu og Svartár (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Lögbann.
S, félagsmaður í V, krafðist lögbanns við byggingu veiðihúss á vegum félagsins. Talið var að þau réttindi, sem S hugðist verja með beiðni sinni um lögbann, væru nægilega tryggð með rétti til skaðabóta úr hendi V, ef þau yrðu talin fyrir hendi, og því ætti við regla 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Var kröfu S um lögbann því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 15. febrúar 2006, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Blönduósi 20. desember 2005 um að hafna kröfu sóknaraðila um að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili héldi áfram byggingu veiðihúss á óskiptri jörð Hólabæjar og Gunnsteinsstaða í Langadal, Austur-Húnavatnssýslu. Jafnframt var staðfest sú niðurstaða sýslumanns að hafna því að leggja lögbann við að varnaraðili stofni til fjárskuldbindinga eða annarra skuldbindinga í tengslum við nefnda byggingu. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eins og henni var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumanninn á Blönduósi að leggja lögbann við fyrrgreindum athöfnum varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili aðallega málskostnaðar í héraði en til vara að málskostnaður í héraði verði felldur niður. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú ályktun dómsins að réttindi, sem sóknaraðili hyggst verja með beiðni sinni um lögbann, séu nægilega tryggð með rétti til skaðabóta úr hendi varnaraðila, ef þau yrðu talin fyrir hendi, og því eigi við regla 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Þegar af þessari ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Stefán Stefánsson, greiði varnaraðila, Veiðifélagi Blöndu og Svartár, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 15. febrúar 2006.
I
Mál þetta barst dóminum 22. desember sl. og var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutning þann 25. janúar sl.
Sóknaraðli er Stefán Stefánsson, Fjóluhvammi 2, Egilsstöðum.
Varnaraðili er Veiðifélag Blöndu og Svartár, Geitaskarði, Austur-Húnavatnssýslu.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi synjun sýslumannsins á Blönduósi frá 20. desember 2005, um að leggja lögbann við því að varnaraðili haldi áfram byggingu veiðihúss í óskiptri jörð Hólabæjar og Gunnsteinsstaða í Langadal, Austur-Húnavatnssýslu, skv. deiliskipulagi samþykktu af hreppsnefnd Bólstaðar-hlíðarhrepps hinn 18. ágúst 2005 og byggingarleyfi útgefnu hinn 23. nóvember 2005. Jafnframt að felld verði úr gildi synjun sýslumanns á að lagt verði lögbann við því að varnaraðili stofni til fjárskuldbindinga eða annarra skuldbindinga í tengslum við nefnda byggingu. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir sýslumanninn á Blönduósi að leggja lögbann við því að varnaraðili haldi áfram byggingu veiðihúss í óskiptri jörð Hólabæjar og Gunnsteinsstaða í Langadal, Austur-Húnavatnssýslu, skv. deiliskipulagi samþykktu af hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps hinn 18. ágúst 2005 og byggingarleyfi útgefnu hinn 23. nóvember 2005. Jafnframt verði lagt fyrir sýslumann að leggja lögbann við því að varnaraðili stofni til fjárskuldbindinga eða annarra skuldbindinga í tengslum við nefnda byggingu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila og þess að við ákvörðun hans verði tekið tillit til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
II
Sóknaraðili er eigandi jarðarinnar Æsustaða, Langadal, Austur-Húnavatnssýslu og samkvæmt 44. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði er honum skylt að vera félagsmaður í varnaraðila. Líkt og aðrir félagsmenn í varnaraðila fer sóknaraðili með eitt atkvæði af 89 á fundum í félaginu. Eignarhlutur sóknaraðila samkvæmt arðskrá félagsins er 4,65%. Sóknaraðili fékk greiddar 360.000 krónur í arð frá félaginu vegna ársins 2004. Félagssvæði varnaraðila nær yfir vatnasæði Blöndu og Svartár. Á undanförnum árum hafa veiðiréttindi í þessum ám verið leigð í tvennu lagi þ.e. veiðiréttur í Blöndu sérstaklega og veiðiréttur í Svartá sérstaklega og ekki til sama aðila.
Sóknaraðili bendir á að í aðdraganda máls þessa hafi komið í ljós að á árinu 2004 hafi stjórnarmenn í varnaraðila fundað með núverandi leigutaka Blöndu um hugsanlega byggingu veiðihúss. Í október 2004 hafi stjórn varnaraðila verið gerð grein fyrir fundi sem haldinn var um málið. Í bókun stjórnarfundarins komi fram að gert væri ráð fyrir að húsið yrði um 400 fermetrar að stærð og kostnaður við byggingu þess um 80 milljónir króna. Fyrirhuguð bygging var síðan rædd á stjórnarfundi í nóvember 2004 og þá var byrjað að ræða staðsetningu og fjármögnun byggingarinnar en á þessum tíma hafi verið gert ráð fyrir að núverandi leigutakar árinnar kæmu að fjármögnun. Var um það rætt að fjármögnunin yrði þá í formi fyrirframgreiðslu á leigu. Telur sóknaraðili þetta benda til þess að ekki eigi að bjóða út veiðiréttinn eins og tíðkast hefur. Eftir þetta var bygging veiðihúss rædd á nokkrum stjórnarfundum.
Sóknaraðili heldur því fram að hann eða aðrir félagsmenn hafi ekki fengið að vita af þessum viðræðum fyrr en á aðalfundi félagsins þann 9. apríl 2005. Á þessum fundi var samþykkt með 35 atkvæðum gegn 4 svofelld tillaga; ,,Aðalfundur Veiðifélags Blöndu og Svartár, haldinn í Húnaveri 09.04.2005 felur stjórn félagsins að hefja nú þegar undirbúning að byggingu veiðihúss við Blöndu. Jafnframt er stjórninni falið að leita eftir sem hagkvæmustum samningum um smíði hússins.” Sóknaraðili var einn þeirra sem voru á móti tillögunni og gerði hann grein fyrir andstöðu sinni á fundinum.
Almennur félagsfundur var haldinn í varnaraðila þann 25. apríl 2005. Á fundinum lét sóknaraðili bóka að hann gerði fyrirvara um lögmæti fundarins. Sóknaraðili lét einnig bóka athugasemdir sínar við dagskrá fundarins. Samkvæmt dagskrá hafi átt, undir 6. lið, að taka ákvörðun um staðsetningu veiðihússins en ekkert hafi verið skráð undir þessum lið. Þá voru einnig bókaðar athugasemdir sóknaraðila varðandi viðræður stjórnar félagsins við núverandi leigutaka um framhald leigusamnings. Á fundinum var samþykkt með 30 atkvæðum gegn 7 tillaga um að kosin yrði nefnd þriggja manna til að vinna með stjórninni og gera tillögu um staðsetningu veiðihúss, byggingarstíl og stærð.
Þann 16. júní 2005 var haldinn almennur félagsfundur í varnaraðila og var bygging veiðihúss til umræðu. Á fundinum var kosið um staðsetningu veiðihússins og varð niðurstaðan að húsið yrði byggt á Gunnsteinsstaðahólum. Sóknaraðili gerði sem fyrr grein fyrir andstöðu sinni og efaðist um lögmæti byggingarinnar. Í framhaldi af þessu voru haldnir fundir í stjórn félagsins svo og svokölluðum húsbyggingarhópi.
Hinn 18. ágúst 2005 samþykkti hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps deiliskipulag sem gerði ráð fyrir veiðihúsi í óskiptu landi Gunnsteinsstaða og Hólabæjar í Langadal. Þann 23. nóvember 2005 var gefið út byggingarleyfi fyrir húsinu.
Þegar krafa um lögbann var sett fram í lok síðasta árs var búið að leggja veg að veiðihúsinu og búið að steypa botnplötu þess. Framkvæmdir voru ekki stöðvaðar eftir að lögbannsbeiðni kom fram og mun nú vera búið að reisa húsið og loka því.
III
Málsástæður og lagarök
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að verulegur vafi sé á því að bygging veiðihússins sé lögmæt. Fyrir byggingunni skorti lögmæta ákvörðun félagsfundar þar sem ekki hafi fengist samþykki allra félagsmanna fyrir byggingunni og þá sé ekki heimild fyrir slíkri byggingu í lax- og silungsveiðilögum eða öðrum lögum.
Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðila hafi verið eða honum hafi mátt vera ljóst að sterk andstaða einhverra félagsmanna var gegn byggingunni og málsmeðferð stjórnar félagsins. Andmæli hafi verið höfð uppi og færð til bókar bæði um formlegar og efnislegar heimildir í fundargerðir.
Varnaraðili byggir kröfur sínar einnig á því að verkefni veiðifélags séu lögbundin. Veiðifélag hafi lögbundnu eftirlitshlutverki að gegna samkvæmt lögum nr. 76/1970. Í 2. mgr. 44. gr. sé mælt fyrir um skyldu félagsins til að stunda fiskirækt. Í 1. mgr. nefndrar 44. gr. sé talið upp í 4 liðum þau verkefni sem veiðifélagi sé rétt að sinna. Í fyrsta lagi beri veiðifélagi að ákveða að veiða skuli með tilteknum veiðitækjum, eftir því sem fyrir sé mælt í lögum. Í öðru lagi að láta stunda veiði. Í þriðja lagi að leigja út stangveiðirétt í hluta fiskihverfis eða öllu. Í fjórða lagi að skipta veiði milli félagsmanna og úthluta veiðihlutum þeirra. Í lögum sé ekki gert ráð fyrir öðrum verkefnum veiðifélags. Sóknaraðili leggur sérstaka áherslu á að honum er líkt og öðrum á vatnasvæðinu skylt að vera í veiðifélaginu. Slíkt skylduaðildarfélag geti ekki ákveðið að gera það sem meirihluta kann að þóknast á hverjum tíma ef það tengist ekki beinlínis lögbundnu hlutverki félagsins og með því skuldbundið alla félagsmenn. Lög þau sem starfsemi félagsins byggir á geri ekki ráð fyrir annarri mannvirkjagerð en greinir í VII. kafla laga nr. 76/1970. Bygging gistihúss geti ekki talist meðal hlutverka veiðifélags með þeim hætti að sóknaraðili verði að hlíta ákvörðun meirihluta um slíkt. Heldur sóknaraðili því fram að ekki sé heimilt að víkja frá lögbundnu hlutverki félagsins á hans kostnað án þess að samþykki hans liggi fyrir. Slíkt samrýmist ekki félagafrelsis- og eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar sbr. 72. og 2. mgr. 74. gr. laga nr. 33/1944 og 11. gr. og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísar sóknaraðili til þess að samþykktir varnaraðila sem í gildi voru á þessum tíma hafi ekki heimilað slíka byggingu.
Sóknaraðili heldur því fram að á aðalfundinum sem haldinn var 9. apríl 2005 hafi verið óheimilt að ákveða gegn atkvæðum minnihluta að ráðast í byggingu veiðihúss. Sóknaraðili heldur því fram að stjórn varnaraðila hafi ekki haft umboð til að ráðast í framkvæmdirnar og stofna til skuldbindinga vegna hennar fyrir hönd sóknaraðila. Sóknaraðili bendir á að fjárhagslegir hagsmunir hans séu verulegir en honum beri lögum samkvæmt að greiða hlutfall af kostnaði við félagið í samræmi við arðskrárhlut hans eða 4,65%. Ætla megi að byggingin muni kosta á bilinu 85 til 140 milljónir króna og þar af leiðandi verði hans hlutur 4 til 6,5 milljónir króna. Reisir sóknaraðili kröfu sína m.a. á því að til að skuldbinda hann með þessum hætti þurfi beina lagaheimild. Heimildir meirihluta í skylduaðildarfélagi geti ekki náð svona langt. Sóknaraðili heldur því fram að í gildi séu og hafi verið á þeim tíma sem hin umdeilda ákvörðun var tekin, samþykktir félagsins frá 1978.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að rekstur veiðihúss sé ekki arðbær fjárfesting. Bendir hann á að rekstur veiðihúss félagsins við Svartá hafi samkvæmt ársreikningum 2004 kostað félagið yfir 4 milljónir króna en það sé talið til eignar á tæpar 5 milljónir króna. Leigutekjur af Svartá hafi verið rúmar 9 milljónir króna. Sóknaraðili byggir á því að varnaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að byggingin geti verið arðsöm.
Sóknaraðili heldur því fram að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 30/1990 um kyrrsetningu og lögbann sé fullnægt. Því beri að leggja lögbann við því að varnaraðili haldi áfram byggingu títtnefnds veiðihúss. Athöfnin sé byrjuð, hún brjóti sannanlega gegn lögvörðum rétti sóknaraðila eða muni gera það, varnaraðili hafi þegar hafist handa um athöfnina og réttur sóknaraðila muni fara forgörðum eða a.m.k. muni hann verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um kröfu sína.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að útilokað sé að hann geti tryggt hagsmuni sína með öðrum hætti en lögbanni og því eigi ákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 30/1990 ekki við. Bygging hússins sé þegar hafin og sóknaraðili geti ekki án lögbanns stöðvað hana eða tryggt á neinn hátt að hagsmunir hans verði tryggðir eftir að húsið hefur risið og sá mikli kostnaður sem byggingunni fylgir fallinn á félagið og hann þar með talinn.
Sóknaraðili heldur því fram að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna geti ekki tryggt hagsmuni hans. Þá heldur sóknaraðili því fram að hagsmunir varnaraðila af því að athöfnin fari fram séu ekki stórfellt meiri en hangsmuni hans af því að fyrirbyggja hana.
Sóknaraðili telur ákvörðun sýslumannsins á Blönduósi ekki byggða á réttum forsendum. Þar sé því m.a. haldið fram að varnaraðili eigi von á 8. milljóna króna greiðslu frá núverandi leigutaka Blöndu ef veiðihús verði tilbúið fyrir 20. maí n.k. Sóknaraðili telur að ekkert liggi fyrir um slíka greiðslu annað en fullyrðingar varnaraðila og þá verði ekki séð með hvaða hætti þetta raski hagsmunum eða hvaða skilyrði önnur kunni að vera fyrir slíkri greiðslu. Telur sóknaraðili að núverandi leigutaki sé að skapa sér betri stöðu en aðrir hugsanlegir leigutakar og að hann sé að reyna að koma í veg fyrir að veiðin verði boðin út. Sóknaraðili bendir á að núverandi leigutaki Svartár, Stangaveiðifélag Reykjavíkur, hafi gert formlegt tilboð til varnaraðila og þar séu boðnar 27 milljónir króna fyrir ána án þess að þar sé veiðihús. Þetta tilboð, sem komið var fram áður en mál þetta fór af stað, sé mun hagstæðar en tilboð núverandi leigutaka.
Sóknaraðila reiknast svo til að leiga verði að vera a.m.k. 38 milljónir króna á ári til þess að standa undir auknum kostnaði vegna veiðihúss miðað við að húsið kosti 140 milljónir eins og varnaraðili geri ráð fyrir. Þá hafi ekki verið tekið tillit til kostnaðar af rekstri hússins, fasteignagjöld, viðhald og annað.
Sóknaraðili heldur því fram að einu rök sýslumanns fyrir ákvörðun sinni hafi verið þau að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að arður hans af veiði í Blöndu muni lækka í kjölfar byggingar veiðihúss. Þessi rök séu ekki gild. Sóknaraðili hafnar því að niðurstaða um lögbann geti byggst á því að lagt sé á hann að sanna og færa fram með glöggum hætti að arðgreiðslur hans muni ekki lækka í kjölfar byggingar veiðihúss. Engir útreikningar hafi verið lagðir fram af varnaraðila sem geri sóknaraðila mögulegt að reikna slíkt út og því verði samkvæmt almennum reglum um sönnun ekki lagt á sóknaraðila að færa fram slíkar sönnur.
Sóknaraðili bendir á að lögbann sé bráðabirgðagerð sem hann þurfi að réttlæta eftir á með málsókn. Stöðvun byggingarinnar á þessu ári raski ekki hagsmunum varnaraðila auk þess sem gert er ráð fyrir að gerðarþoli lögbanns setji að öðru jöfnu tryggingu fyrir því tjóni sem athöfn kunni að baka gerðarbeiðanda. Varnaraðili hafi hafnað því að setja slíka tryggingu og því verði ekki á því byggt að stórfelldur munur sé á hagsmunum aðila skv. 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.
Loks vísar sóknaraðili til þess að skilyrði 24. gr. nefndra laga nr. 31/1990 um að athöfn sé byrjuð eða yfirvofandi hafi ekki breyst frá gildistíð eldri laga um lögbann og vísar hann til fordæma um að lagt sé lögbann við að byggingu sé haldið áfram, eftir að byggingaleyfi er gefið út sbr. dóm Hæstaréttar Íslands birtum í dómasafni réttarins árið 1946 á bls. 235. Sóknaraðili gerir ráð fyrir að varnaraðili hafi ekki haldið áfram byggingu hússins eftir að lögbannsbeiðni var sett fram enda sé ekkert sem bendi til að það hafi verið nauðsynlegt á meðan ágreiningur þessi er rekinn fyrir héraðsdómi.
Varnaraðili byggir á því, án tillits til lögmætis byggingarinnar, að ekki séu uppfyllt formskilyrði þess að lögbann verði lagt við byggingu veiðihússins eða að hann stofni til skuldbindinga í tengslum við bygginguna, samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990. Bendir varnaraðili á að lögbann er þrautarúrræði sem aðeins megi beita ef ekki eru aðrar leiðir færar fyrir þann sem telur brotið á rétti sínum. Úrræði þetta og beiting þess verði að skoða í því ljósi að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef skilyrði fyrir því eru ekki án vafa uppfyllt en varnaraðili telur að svo alls ekki í þessu tilfelli.
Varnaraðili bendir á að bygging hússins sé komin svo langt á veg að nú sé ekki tækt að leggja lögbann við framkvæmdum. Í 24. gr. laga nr. 31/1990 sé miðað við að lögbann verði lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn. Þetta verði ekki skilið á annan veg en þann að athöfnin megi ekki vera langt á veg komin. Þegar svo hátti til og þannig sé það í þessu máli þá verði að hafna kröfu um lögbann. Þá vísar varnaraðili til þess að á síðasta ári hafi allri jarðvinnu lokið auk þess sem allar lagnir hafi verið lagðar og sökkull og botnplata steypt. Nú standi yfir bygging hússins og gengið hafi verið frá samningum við verktaka. Þykir varnaraðila furðu sæta að sóknaraðili haldi þrátt fyrir þetta áfram með lögbannskröfu sína.
Varnaraðili áréttar sérstaklega það sem tekið er upp í ákvörðun sýslumanns að sóknaraðila mátti vera kunnugt um, á fyrri hluta síðasta árs, að framkvæmdin stæði fyrir dyrum. Hann hafi hins vegar ekki brugðist við fyrr en á áliðnum desembermánuði, þegar framkvæmdin og undirbúningur hennar var vel á veg kominn. Beiting þess neyðarúrræðis sem lögbann er verði að telja næsta fráleitt undir þessum kringumstæðum.
Varnaraðili telur einnig að reglur um skaðabætur fyrir ætlaða röskun á hagsmunum sóknaraðila tryggi hagsmuni hans nægilega sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Fyrir liggi að ef ákvörðun um byggingu hússins reynist ólögmæt þá kunni sóknaraðili að eiga rétt á skaðabótum úr hendi varnaraðila. Ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum varnaraðila sé ekki ótakmörkuð heldur greiði þeir kostnað af starfsemi félagsins í sama hlutfalli og þeir fá arð. Þannig geti sóknaraðili beint kröfum sínum að félaginu og þá beri félagsmenn kostnaðinn endanlega í sama hlutfalli og þeir taka arð. Þá telur varnaraðili ekki útilokað að sóknaraðili geti beint kröfum sínum að þeim félagsmönnum persónulega sem stóðu að hinni umþrættu ákvörðun yrði hún talin ólögmæt og þá bæru þeir solidariska ábyrgð á tjóni hans. Loks gæti hugsast að sóknaraðili ætti bótarétt á hendur einstaka stjórnarmönnum. Varnaraðili telur hagsmuni sóknaraðila með þessu tryggða, að uppfylltum skilyrðum almennu skaðabótareglunnar sem muni þá gera sóknaraðila eins settan eins og byggingin hefði ekki verið reist. Með því að réttarreglur um skaðabætur tryggi ætlaða röskun á hagsmunum sóknaraðila sé ekki tilefni til að verða við kröfu hans um lögbann.
Varnaraðili byggir einnig á því að við blasi að stórfelldur munur sé á hagsmunum hans af því að athöfnin fari fram og hagsmunum sóknaraðila fyrir því að fyrirbyggja hana. Miklir fjárhagslegir hagsmundi séu fólgnir í því fyrir varnaraðila og einstaka veiðiréttareigendur að bygging veiðihússins verði ekki stöðvuð enda sé byggingin fjármögnuð með lánsfé, sem tryggt er með veði í húsinu, auk þess sé töluverður fjárhagslegur ávinningur vegna hærri leigugreiðslna við tilkomu veiðihússins. Áætlað sé að byggingin kosti á bilinu 125 til 140 milljónir króna. Þá sé ljóst að stöðvun framkvæmda nú myndi hafa gríðarlegt tjón í för með sér fyrir varnaraðila. Hagsmundi sóknaraðila séu hins vegar stórfellt minni enda er arðskrárhlutfall hans aðeins 4,56% og hann greiði kostnað af starfsemi félagsins í samræmi við það sbr. 51. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Sóknaraðili hafi í málatilbúnaði sínum miðað við að hans hlutur í húsbyggingunni nemi 4 til 6,5 milljónum króna. Forsendur þessa útreiknings hans séu fráleitar enda sé ekkert tillit tekið til þess hagnaðar sem framkvæmdin hefur í för með sér. Varnaraðili bendir á að hann hafi fengið tilboð sem felur í sér um 90% hækkun á leigu. Stóran hluta þessarar hækkunar megi rekja til bætts aðbúnaðar með tilkomu nýs veiðihúss. Telur varnaraðili að ljóst sé að þrátt fyrir þær fjárskuldbindingar sem óhjákvæmilega hljótast af nýju veiðihúsi þá muni arðgreiðslur til félagsmanna hækka verulega frá því sem nú er á komandi árum.
Með vísan til þessa telur varnaraðili að formskilyrði þess að lögbann verði lagt við byggingu veiðihúss í óskiptri jörð Hólabæjar og Gunnsteinsstaða í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu séu ekki uppfyllt og því beri að hafna lögbanni.
Varnaraðili heldur því einnig fram að ekki sé uppfyllt það efnisskilyrði 14. gr. laga nr. 31/1990 að athöfn muni brjóta gegn rétti sóknaraðila enda hafi ákvörðun um byggingu veiðihússins verið fullkomlega lögmæt. Að ákvörðuninni hafi staðið mikill meirihluti þeirra sem sóttu aðalfund í varnaraðila og sama hafi verið uppi á teningnum á tveimur félagsfundum þar sem málið var rætt. Samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 56. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði ráði afl atkvæða úrslitum mála á fundum í veiðifélögum. Af því leiðir að lögin gera ekki þá kröfu að ákvörðun sem þessi þurfi að vera einróma samþykkt.
Varnaraðili byggir einnig á því að ákvörðunin hafi á engan hátt farið í bága við lög nr. 76/1970 eða samþykktir félagsins. Í lögum um lax- og silungsveiði sé ekkert sem kemur í veg fyrir eða bannar veiðifélagi að taka ákvörðun sem þessa. Varnaraðili heldur því fram að bygging veiðihúss rúmist innan þeirra verkefna sem talin eru upp í a-d liðum 1. mgr. 44. gr. laga 76/1970. Þá byggir varnaraðili á því að þó svo litið yrði svo á að bygging veiðihúss rúmaðist ekki skýrlega innan þeirra verka sem talin eru upp í fyrrnefndum stafliðum þá sé þar ekki um tæmandi talningu á leyfilegum verkefnum veiðifélaga að ræða. Í nefndum stafliðum a-d séu talin upp þau verkefni sem rétt sé að veiðifélag annist. Ákvæðið komi ekki í veg fyrir að veiðifélög grípi til annarra ráðstafana sem samrýmast tilgangi þeirra en hann er m.a. sá að hámarka arð af veiðiauðlindinni og koma í veg fyrir að skipulagsleysi ríki um nýtingu hennar. Það hafi sýnt sig hjá öðrum veiðifélögum að bygging veiðihúsa er arðsöm og hafi leitt til hærri arðgreiðslna. Sem dæmi nefnir varnaraðili Langá á Mýrum í þessu sambandi. Varnaraðili segir að fyrir liggi að fleiri en einn aðili hafi áhuga á að bjóða í leigu beggja ánna, Blöndu og Svartá, fyrir mun hærra verð ef veiðihús verður byggt. Allar líkur séu til þess að argreiðslur muni hækka eftir byggingu hússins og eingöngu hluti af hækkaðri leigugreiðslu muni fara í greiðslu lána vegna byggingarinnar. Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili fari rangt með tölur um rekstur veiðihúss við Svartá í málatilbúnaði sínum. Hið rétta sé að rekstur allra þriggja veiðihúsanna hafi verið nærri 4 milljónum króna en ekki eingöngu rekstur hússins við Svartá. Þá hafi mestur hluti þessa kostnaðar verið vegna endurbóta og viðhalds á árinu 2004 en ekki rekstrar.
Þessu til viðbótar bendir varnaraðili á að landbúnaðarráðuneytið, sem fer með yfirstjórn veiðimála hérlendis, hafi þann 7. apríl 2005 staðfest nýja samþykkt varnaraðila. Þessi samþykkt hafi áður eða þann 17. apríl 2004 verið samþykkt án andmæla á aðalfundi í varnaraðila. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi ekki greitt atkvæði á móti samþykktinni. Eftir staðfestingu ráðherra hafi samþykktin birst í Stjórnartíðindum þann 20. apríl 2005. Í samþykktinni sé tekið fram að verkefni varnaraðila séu m.a. að byggja og halda við veiðihúsum og bæta aðbúnað og aðgengi fyrir veiðimenn. Samkvæmt 1. málsl. 52. gr. laga 76/1970 þurfi ráðherra að staðfesta samþykkt fyrir veiðifélag til að hún öðlist gildi. Ef samþykkt er þannig úr garði gerð að ráðherra megi ekki staðfesta hana ber honum að endursenda slíka samþykkt með athugasemdum um það sem ábótavant þykir. Varnaraðili telur að með því að ráðherra staðfesti samþykkt varnaraðila hafi hann fallist á að bygging og viðhald veiðihúsa teljist til lögmæts verkefnis veiðifélaga. Ef svo hefði ekki verið hefði hann synjað um staðfestingu á samþykktinni sbr. 2. málsl. 52. gr. laganna. Telur varnaraðili að engu breyti hvenær hin nýja samþykkt tók gildi, ráðherra hafi staðfest að bygging og viðhald veiðihúsa sé meðal lögmætra verkefna varnaraðila. Verði litið svo á að tímamark gildistöku samþykktarinnar skipti máli þá bendir varnaraðili á að á tveimur félagsfundum eftir gildistöku samþykktarinnar, 25. apríl og 16. júní 2005, var staðfestur vilji félagsmanna til að byggja umrætt veiðihús og að endanleg ákvörðun í þeim efnum var í raun ekki tekin fyrr en staðsetning þess var ákveðin á fundinum 16. júní 2005. Varnaraðili byggir á því að ekki orki tvímælis að bygging veiðihússins sæki stoð í samþykkt varnaraðila og hún fari ekki í bága við lög.
Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til laga 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann, til laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, einkum ákvæða VIII. kafla laganna, svo og til reglna kröfu- og skaðabótaréttarins. Kröfu um málskostnað styður hann við XXI kafla laga nr. 91/1991.
IV
Niðurstaða
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að ákvörðun um byggingu veiðihússins hafi verið ólögmæt. Landbúnaðarráðherra staðfesti nýja samþykkt fyrir varnaraðila þann 7. apríl 2005. Þessi samþykkt hafði áður verið samþykkt á aðalfundi í stefnda þann 17. apríl 2004 án mótatkvæða. Samþykktin birtist síðan í Stjórnartíðindum þann 20. apríl 2005. Samkvæmt þessu hafði hún ekki formlega tekið gildi á aðalfundi varnaraðila þann 9. apríl 2005 en á þessum fundi var stjórn félagsins falið að hefja þegar undirbúning að byggingu veiðihúss við Blöndu. Fallast má á með sóknaraðila að í eldri samþykkt varnaraðila hafi ekki verið bein heimild fyrir rekstri veiðihúsa. Hins vegar hefur varnaraðili þrátt fyrir þetta rekið veiðihús um árabil. Ný samþykkt fyrir varnaraðila tók gildi þegar hún birtist í Stjórnartíðindum þann 20. apríl 2005. Eftir gildistöku hennar voru haldnir tveir félagsfundir í varnaraðila þar sem rætt var um byggingu veiðihúss við Blöndu. Á félagsfundi þann 25. apríl 2005 var samþykkt að kosin yrði þriggja manna nefnd til að vinna með stjórn að málefnum veiðihússins. Þann 16. júní 2005 var síðan kosið um staðsetningu hússins. Horfa verður til þeirra ákvarðana sem teknar voru á félagsfundum eftir að samþykkt varnaraðila hafði formlega öðlast gildi. Einnig ber að taka tillit til þess að samþykktin hafði áður verið samþykkt samhljóða á aðalfundi 2004. Loks ber að horfa til þess að varnaraðili hafði um áraraðir rekið veiðihús og bygging hins umdeilda veiðihúss er ekki svo kostnaðarsöm, miðað við tekjur varnaraðila, að hún geti af þeim sökum ekki samrýmst tilgangi félagsins. Með vísan til þessa verður ekki fallist á með sóknaraðila að ákvörðun um byggingu veiðihússins verið ólögmæt. Þá verður heldur ekki fallist á með sóknaraðila að ákvörðunin hafi verið ólögmæt vegna þess að fyrir lá að einhverjir félagsmenn voru á móti byggingunni. Engar réttarreglur leiða til þess að andmæli eins félagsmanns í skylduaðildarfélagi verði til þess að ákvörðun sem tekin er gegn andmælum hans teljist af þeim sökum einum ólögmæt.
Réttindi þau sem sóknaraðili hyggst tryggja eru eingöngu fjárhagsleg en fyrirhuguð bygging raskar ekki öðrum hagsmunum hans. Af hálfu sóknaraðila hefur því verið haldið fram að arðgreiðslur til hans muni lækka verulega ef af byggingunni verður og þar fyrir utan muni hann bera fjárhagslega ábyrgð á 4,65% af kostnaði við bygginguna. Sóknaraðili hefur á undanförnum árum fengið arðgreiðslur frá varnaraðila, um 360.000 krónur á árinu 2004.
Bygging veiðihússins getur haft áhrif á arðgreiðslur til sóknaraðila einkum ef leigutekjur og þar með arðgreiðslur hækka ekki til samræmis við kostnað af byggingu hússins og rekstri þess. Hins vegar eru hagsmunir sóknaraðila fyllilega tryggðir með rétti hans til skaðabóta úr hendi varnaraðila ef slíkur réttur er á annað borð til staðar. Þegar af þeirri ástæðu að réttindi sóknaraðila eru nægjanlega tryggð með rétti til skaðabóta, sbr. 1. tl. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 og því sem áður er rakið um lögmæti ákvörðunarinnar verður kröfu sóknaraðila hafnað. Ekki eru efni til að krefja varnaraðila um tryggingu fyrir hugsanlegu tjóni sóknaraðila enda ekkert sem bendir til annars en varnaraðili sé fyllilega borgunarmaður fyrir hugsanlegum skaðabótum.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma sóknaraðila til greiðslu málskostnaðar. Málskostnaður þykir hæfilega ákveðinn 325.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Kostnaður varnaraðila af rekstri málsins fyrir sýslumanni telst ekki til málskostnaðar í þessu máli.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Sif Konráðsdóttir hrl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Karl Axelsson hrl.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Blönduósi frá 20. desember 2005, um að hafna kröfu sóknaraðila þess efnis að lögbann verið lagt við því að varnaraðili, Veiðifélag Blöndu og Svartár, haldi áfram byggingu veiðihúss í óskiptri jörð Hólabæjar og Gunnsteinsstaða í Langadal, Austur-Húnavatnssýslu, samkvæmt deiliskipulagi samþykktu af hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps hinn 18. ágúst 2005 og byggingaleyfi útgefnu 23. nóvember 2005. Jafnframt að felld verði úr gildi synjun sýslumannsins á Blönduósi á að lagt verði lögbann við því að varnaraðili stofni til fjárskuldbindinga eða annarra skuldbindinga í tengslum við nefnda byggingu.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 325.000 krónur í málskostnað.