Hæstiréttur íslands

Mál nr. 274/2008


Lykilorð

  • Eignaspjöll
  • Skilorð


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. mars 2009.

Nr. 274/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

Ágústi Jóni Óskarssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Eignaspjöll. Skilorð.

Á var sakfelldur fyrir eignaspjöll með því að hafa sparkað í hægri hlið bifreiðar með þeim afleiðingum að hún dældaðist. Hann var hins vegar sýknaður af því að hafa slegið í bifreiðina með barefli. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Á hafði margsinnis gerst sekur um refsiverð brot og að um hegningarauka var að ræða. Þá var framferði hans töluvert ofsafengið. Var refsing Á ákveðin fangelsi í 4 mánuði, en þar sem ríflega 5 ár voru liðin frá því að hann var síðast dæmdur í skilorðsbundið fangelsi þótti unnt að skilorðsbinda refsinguna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfellur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms er í eitt skipti rætt um að ákærði hafi sparkað í vinstri hlið bifreiðar, sem hann er borinn sökum um að hafa valdið skemmdum á svo að refsingu varði samkvæmt 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þetta er augljós ritvilla, enda er ítrekað rætt að öðru leyti um skemmdir á hægri hlið bifreiðarinnar. Með þessari athugasemd verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ágúst Jón Óskarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 268.429 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2008.

                Mál þetta, sem dómtekið var 29. febrúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 24. ágúst 2007 á hendur Ágústi Jóni Óskarssyni, kt. 200782-5699, Furugrund 42, Kópavogi, fyrir eignaspjöll, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 17. febrúar 2007, á bifreiðastæði við myndbandaleiguna Videoheima að Fálkafeni 11 í Reykjavík, sparkað og slegið með barefli í hægri hlið bifreiðarinnar NG-019 með þeim afleiðingum að hægri hlið hennar dældaðist.

                Er þetta talið varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Í málinu gerir Sigrún Unnsteinsdóttir, kt. 220457-4009, kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða­bóta samtals að fjárhæð 75.702 krónur.

                Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð.

                Aðfaranótt laugardagsins 17. febrúar 2007 kl. 01.31 var óskað eftir aðstoð lögreglu að myndbandaleigunni Videoheimum í Fákafeni. Í frumskýrslu kemur fram að lögregla hafi á vettvangi rætt við Brynjar Sigurðsson. Hafi Brynjar verið stöðvaður við akstur bifreiðar með skráningarnúmerið YM-814. Hafi Brynjar gert grein fyrir því að hann, ásamt Ágústi Jóni Óskarssyni, ákærða í máli þessu, hafi séð vin ákærða, Vil­hjálm Sverri Pétursson, í rifrildi við mann við Toyota bifreið með skráningarnúmerið NG-019. Hafi Brynjar ekið að Toyota bifreiðinni en henni þá verið ekið utan í bifreið er Brynjar hafi ekið. Hafi ákærði þá sparkað í Toyota bifreiðina og Vilhjálmur brotið rúðu í henni.

                Ákærði var á biljarðbarnum í Fákafeni er lögregla náði tali af honum. Kvað hann Vilhjálm hafa hringt í sig til að biðja hann um aðstoð. Hafi Brynjar ekið ákærða að Fákafeni. Vilhjálmur hafi ætlað að hitta Stefán Brynjar Stefánsson vegna skuldar Vilhjálms við hann. Vilhjálmur og Stefán hafi verið að rífast þegar ákærði hafi komið þar að. Þegar Stefán hefði séð ákærða koma hafi hann farið inn í Toyota bifreiðina ásamt Önnu Rósu Nikulásdóttur. Anna Rósa hafi ætlað að aka í burtu en bílarnir lent saman. Þá hafi ákærði sparkað í Toyota bifreiðina og ógnað Stefáni og Önnu með plaströri. Hafi Vilhjálmur brotið rúðuna í bifreiðinni. 

                Lögregla ræddi á vettvangi við Stefán Brynjar og Önnu Rós. Stefán greindi frá því að bifreið hafi verið lagt í veg fyrir Toyota bifreiðina þegar hann og Anna hafi ætlað í burtu. Þrír strákar, ákærði, Vilhjálmur og Brynjar, hafi gert atlögu að bifreið­inni með kúbeini og kylfum. Rúða hafi verið brotin og skemmdir unnar á bifreiðinni. Anna Rósa greindi frá því að bifreið hafi verið ekið í veg fyrir bifreið hennar og bifreiðarnar lent saman. Þá hafi verið ráðist á bifreið hennar og hún skemmd. Ekkert hafi sést á bifreiðinni eftir áreksturinn en hún verið mikið skemmd eftir árásina.

                Sigrún E. Unnsteinsdóttir, eigandi bifreiðarinnar NG-019, lagði fram kæru vegna eignaspjalla 27. febrúar 2007. Kvað hún það vera mat tryggingafélags síns að ekki svaraði kostnaði að gera við bifreiðina. Anna Rósa Nikulásdóttir væri dóttir Sig­rúnar og hefði hún verið á bifreiðinni umrætt sinn.     

                Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi umrætt sinn komið á bifreiða­stæði fyrir utan Videoheima að Fákafeni vegna þess að Vilhjálmur Sverrir Pétursson hafi hringdi í hann. Stefán Brynjar Stefánsson hafi verið að valda Vilhjálmi ónæði og ákærði ætlað að tala við Stefán. Hafi Vilhjálmur verið hræddur við Stefán. Ákærði hafi ekið upp að bifreið sem Anna Rósa og Stefán hafi verið á. Hafi Anna þá bakkað bifreið sinni á bifreið ákærða og í framhaldinu ætlað að stinga af. Af þeim sökum hafi ákærði sparkað í þá bifreið er Anna Rósa hafi verið á. Hafi ákærði næstum orðið á milli bifreiðanna þegar hún hafi bakkað bifreiðinni. Anna Rósa hafi átt þess kost að bakka bifreið sinni beint aftur á bak án þess að lenda á bifreiðinni. Ákærði hafi sparkað einu sinni í bifreiðina en ekki sparkað í hliðina á henni. Ákærði kvað Vilhjálm hafa brotið rúðuna á bifreiðinni með golfkylfu og sparkað eitthvað í hana en kvaðst ekki vita hvar í bifreiðina Vilhjálmur hafi sparkað. Ákærði kvaðst hafa sparkað í rúðuna sem Vilhjálmur hafi brotið, eða hliðarrúðu farþegamegin. Hann kvaðst telja að engar skemmdir hafi hlotist á bifreiðinni af hans völdum.

                Stefán Brynjar Stefánsson gaf skýrslu hjá lögreglu 20. júní 2007. Kvað hann ákærða hafa stöðvað bifreið sína fyrir aftan bifreið Önnu Rósu Nikulásdóttur og hafa króað þau af þannig að þau gátu ekki ekið í burtu. Ákærði og Brynjar hafi stokkið út úr bifreið sinni og Vilhjálmur komið út úr sinni bifreið og verið með golfkylfu í hendi. Hafi Stefáni og Önnu Rósu brugðið við þetta og áttað sig á að nú ætti að hræða eða lemja Stefán vegna viðskipta við Vilhjálm. Hafi Anna reynt að bakka bifreiðinni, en bakkað á bifreið ákærða. Ákærði hafi orðið reiður og farið að berja og sparka í hægri hlið þeirrar bifreiðar er Stefán og Anna hafi verið á. Vilhjálmur hafi lamið með golfkylfu í rúðuna og Stefán rétt náð að víkja sér undan þegar golfkylfan hafi farið í gegnum rúðuna. Hafi ákærði og Vilhjálmur sparkað og slegið í hægri hlið og vélarhlíf bifreiðarinnar þar til fólk hafi komið út úr Videoheimum og sagt að lögregla væri á leiðinni. Brynjar hafi ekki tekið þátt í skemmdarverkunum. Vilhjálmur hafi verið með golfkylfu í hendi sem hann hafi slegið með í hægri hlið og vélarhlíf bifreiðarinnar. Kvaðst Stefán telja að ákærði hafi líka verið með golfkylfu. Að minnsta kosti hefði hann verið með eitthvert barefli í höndunum sem hann hafi notað til að slá í bifreiðina.

                Fyrir dómi greindi Stefán frá því að þrír menn hafi ráðist á bifreið sem hann og Anna Rósa Nikulásdóttir hafi verið á umrætt kvöld. Stefán kvaðst hins vegar ekki vera viss hver hafi gert hvað. Kvað hann rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að ákærði og Vilhjálmur hafi sparkað og slegið í hægri hlið og vélarhlíf bifreiðarinnar. Kvaðst hann ekki vissi eftir hvorn þeirra tjón á hægri hlið bifreiðarinnar væri. Stefán kvað Önnu Rósu hafa brugðið þegar strákarnir hafi komið hlaupandi að bifreið hennar. Hafi hún því bakkað á bifreið ákærða. Ákærði hafi orðið brjálaður vegna þess að bifreið hans hafi skemmst. Kvaðst hann ekki vita hvort einhver önnur ástæða hefði verið fyrir því að hann og félagar hans hafi ráðist að bifreiðinni. Stefán kvaðst telja að eitthvað væri til í því að drengirnir hafi ætlað að ná sér niðri á honum með árásinni. Hafi það að minnsta kosti átt við um Vilhjálm. Ákærði hafi hins vegar orðið reiður af því að bakkað hafi verið á bifreið hans. Stefán kvaðst telja að Brynjar Sigurðsson hefði einnig tekið þátt í árásinni. Ákærði hafi að minnsta kosti ekki staðið einn að henni. Hann kvaðst ekki vita hvort ákærði hefði slegið með barefli eða ekki. Hann kvaðst telja að Vilhjálmur hefði brotið rúðu með golfkylfu. Hægri hlið bifreiðarinnar hafi verið ónýt eftir árásina. Eitthvað af fólki hafi verið fyrir utan myndbandaleiguna.

                Anna Rósa Nikulásdóttir gaf skýrslu hjá lögreglu 19. febrúar 2007. Þar er haft eftir henni að þegar Stefán hafi séð ákærða koma á vettvang hafi hann beðið Önnu um að aka samstundis í burtu. Bifreið ákærða hafi þá verið ekið inn í farþegahliðina á bifreið hennar. Hópur pilta hafi komið út úr bifreiðinni, alla vega þrír, og verið með barefli. Kvaðst hún telja að ákærði hafi brotið rúðu farþegamegin í bifreiðinni og síðan teygt sig inn í bifreiðina og tekið kveikjuláslyklana úr bifreiðinni. Hafi ákærði öskrað að hann mundi drepa þau ef þau segðu eitthvað við lögregluna. Hafi ákærði og samferðamenn hans að svo búnu látið sig hverfa þegar maður sem kom út af myndbandaleigunni hafi sagt að lögregla væri á leiðinni. 

                Fyrir dómi greindi Anna frá því að hún hafi verið svo hrædd að hún hafi ekki mikið litið í kringum sig og ekki séð bifreið ákærða. Sennilega hafi ákærði og drengir með honum ætlað að taka í lurginn á Stefáni. Stefán hafi verið hræddur og allan tímann sagt henni að keyra í burtu. Hún hafi séð ákærða ráðast á bifreiðina. Ekki myndi hún alveg með hvaða hætti hann hafi gert það, en kvaðst muna að árásarmenn hafi verið nokkrir og einhverjir þeirra með kylfur. Hún kvaðst muna eftir einhverju barefli, sem sennilega hafi verið golfkylfa. Ekki hafi hún þorað að horfa mikið. Anna kvaðst ekki muna fyrir víst hvort ákærði hafi skemmt bifreiðina og þá hvaða hluta hennar og kvaðst ekki hafa séð hann sparka í hægri hlið bifreiðarinnar. Einhver hafi kýlt í gegnum rúðuna og tekið bíllykilinn og minnti hana að það hafi verið ákærði. Hún kvaðst telja að Brynjar hafi aldrei komið nálægt bifreiðinni. Hún kvaðst ekki viss um hver árásarmannanna hafi valdið dæld hægra megin á bifreiðinni. Einhver hafi kýlt ofan í vélarhlíf bifreiðarinnar. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða sparka í hægri hlið bifreiðarinnar.

                Brynjar Sigurðsson gaf skýrslu hjá lögreglu 19. júní 2007. Kvað hann ákærða hafa stöðvað bifreið sína nálægt afturenda bifreiðarinnar NG-019 til að loka hana inni. Fát hafi komið á stúlku sem ekið hafi bifreiðinni NG-019 og hún nærri því ekið á ákærða. Ákærði hafi reiðst við þetta og Brynjar séð hann sparka í hægri hlið bifreiðarinnar NG-019. Vilhjálmur hafi slegið með golfkylfu í hægri framrúðu. Hafi Vilhjálmur og ákærði sparkað margoft í bifreiðina eftir þetta og öskrað á fólkið í bifreiðinni að opna hurð bifreiðarinnar sem hafi verið læst. Brynjar kvaðst sjálfur ekki hafa komið nálægt því að skemma bifreiðina.  

                Fyrir dómi greindi Brynjar frá því að hann hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna á þeim tíma er bifreiðin var skemmd og þar af leiðandi ekki muna mikið eftir atvikum. Stúlka sem hafi verið á bifreiðinni NG-019 hafi næstum því klemmt ákærða á milli sinnar bifreiðar og bifreiðar ákærða. Þá hafi allt orðið vitlaust. Hafi ákærði lagt til bifreiðarinnar en Vilhjálmur komið á fleygiferð með kylfu, mölvað rúðu og sparkað eða barið með kylfunni í bifreiðina. Brynjar kvaðst ekki muna nákvæmlega hvernig ákærði hafi lagt til bifreiðarinnar. Ákærði hafi ekki verið með barefli. Ákærði hafi lagt til bifreiðarinnar farþegamegin. Brynjar hafi séð afleiðingar af spörkum þeirra beggja, ákærða og Vilhjálms. Bifreiðin hafi verið mjög skemmd. Brynjar minnti að Vilhjálmur hafi haft sig meira í frammi en ákærði. Brynjar hafi séð að hægri hlið bifreiðarinnar hafi verið skemmd, hliðarrúða brotin og dældir í hurðum. Ákærði hafi náttúrulega átt þátt í því að valda einhverjum af þeim dældum sem komið hafi á bifreiðina. Vilhjálmur hafi sennilega aðallega haft sig í frammi með golfkylfunni en hann og ákærði hafi auðvitað gert þetta báðir.

                Vilhjálmur Sverrir Pétursson gaf skýrslu hjá lögreglu 18. apríl 2007.  Kvað hann ákærða hafa skipað sér að brjóta rúðu í bifreiðinni NG-019. Hafi Vilhjálmur gert það, en hann ekki tekið þátt í skemmdarverkum á bifreiðinni að öðru leyti. Ástæða þess að þeir drengirnir hafi hist þetta kvöld hafi verið sú að Stefán Brynjar hafi ætlað að kúga út úr Vilhjálmi peninga vegna muna sem hann hafi selt Stefáni og lögregla síðar tekið. Anna Rósa hafi bakkað á bifreið ákærða sem við það hefði brjálast og hann og Vilhjálmur farið að skemma bifreiðina NG-019. Vilhjálmur kvaðst ekki muna hvort Brynjar hafi tekið þátt í að skemma bifreiðina en telja að hann hafi ekki gert það. Vilhjálmur kvað einungis ákærða hafa barið bifreiðina að utan með barefli, en kvaðst ekki muna hvaða barefli hann hafi verið með. 

                Fyrir dómi greindi Vilhjálmur frá því að hann myndi ekkert hvað hafi gerst og kvaðst ekki muna eftir neinni skýrslutöku hjá lögreglu. Hann ætti við minnisleysi að stríða vegna sjúkdóms. Kvaðst hann ekki telja að hann hafi séð ákærða berja með barefli í bifreiðina en hann minnti að ákærði hefði sparkað í bifreiðina. Kvaðst hann reikna með að það hafi verið farþegamegin. Ekki hafi hann séð neinar skemmdir hljótast af því er ákærði sparkaði í bifreiðina, en það hafi verið dimmt úti og Vilhjálmur undir áhrifum fíkniefna. Ekki gæti hann útilokað að það hafi orðið einhver skemmd af völdum ákærða. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa séð barefli í höndunum á neinum öðrum en honum sjálfum.

                Niðurstaða:

                Ákærða er gefið að sök að hafa aðfaranótt laugardagsins 17. febrúar 2007 á bifreiðastæði við myndbandaleiguna Videoheima í Fákafeni sparkað og slegið með barefli í hægri hlið bifreiðarinnar NG-019 með þeim afleiðingum að hægri hlið bifreiðarinnar dældaðist. Ákærði neitar sök. Kveðst hann hafa sparkað í rúðu bif­reiðar­innar án þess að hafa valdið á henni skemmdum.

                Fyrir liggur að ákærði, Vilhjálmur Sverrir Pétursson og Brynjar Sigurðsson komu að bifreiðinni NG-019 er Anna Rósa Nikulásdóttir hugðist aka bifreiðinni á brott, en farþegi í framsæti bifreiðarinnar var Stefán Brynjar Stefánsson. Í framhaldi hófst atburðarás sem leiddi til þess að umtalsverðar skemmdir voru unnar á bifreiðinni. Í málinu liggja fyrir ljósmyndir sem sýna þessar skemmdir. Framburðir í málinu eru ekki á einn veg um framhald málsins og þátt þessara einstaklinga. Framburðum ber þó að mestu leyti saman um að Brynjar Sigurðsson hafi ekki átt neinn þátt í að skemma bifreiðina. Vilhjálmur Sverrir Pétursson var með dómi í máli nr. S-1021/2007, sem upp var kveðinn 6. september 2007, m.a. sakfelldur fyrir eignaspjöll með því að brjóta rúðu í þessari bifreið með golfkylfu. Játaði ákærði sök í málinu. 

                Stefán Brynjar Stefánsson lýsti framferði ákærða og Vilhjálms þannig hjá lögreglu að Vilhjálmur hafi ráðist að bifreiðinni með golfkylfu. Ákærði hafi einnig ráðist að bifreiðinni og verið með eitthvað barefli í hendi. Fyrir dómi dró Stefán Brynjar úr þessu og kvaðst þá ekki viss um hvort ákærði hafi verið með barefli í hendi er hann hafi veist að bifreiðinni og sparkað í hana. Anna Rósa Nikulásdóttir kvaðst við skýrslugjöf hjá lögreglu telja að ákærði hafi brotið rúðu farþegamegin í bifreiðinni og síðan teygt sig inn í bifreiðina og tekið kveikjuláslyklana úr bifreiðinni. Hafi hann öskrað að hann mundi drepa þau ef þau segðu eitthvað við lögregluna. Fyrir dómi kvaðst hún ekki muna fyrir víst hvort ákærði hafi skemmt bifreiðina og þá hvaða hluta hennar og kvaðst ekki hafa séð hann sparka í hægri hlið bifreiðarinnar. Brynjar Sigurðsson lýsti þætti ákærða hjá lögreglu þannig að ákærði hafi reiðst og Brynjar séð hann sparka í hægri hlið bifreiðarinnar NG-019. Vilhjálmur hafi slegið með golfkylfu í hægri framrúðu. Hafi Vilhjálmur og ákærði sparkað margoft í bifreiðina eftir þetta og öskrað á fólkið í bifreiðinni að opna hurð bifreiðarinnar sem hafi verið læst. Fyrir dómi bar hann að ákærði hafi ekki verið með barefli. Ákærði hafi lagt til bifreiðarinnar farþegamegin. Brynjar hafi séð afleiðingar af spörkum þeirra beggja, ákærða og Vilhjálms. Bifreiðin hafi verið mjög skemmd. Ákærði hafi ,,náttúrulega átt þátt í því“ að valda einhverjum af þeim dældum sem komið hafi á bifreiðina. Vilhjálmur hafi sennilega aðallega haft sig í frammi með golfkylfunni en hann og ákærði hafi ,,auðvitað gert þetta báðir“. Er Vilhjálmur gaf skýrslu hjá lögreglu bar hann að einungis ákærði hafi barið bifreiðina að utan með barefli, en kvaðst ekki muna hvaða barefli hann hafi verið með. Fyrir dómi dró Vilhjálmur úr þessum framburði sínum. Kvaðst hann ekki telja að hann hafi séð ákærða berja með barefli í bifreiðina en hann minnti að ákærði hefði sparkað í bifreiðina. Kvaðst hann reikna með að það hafi verið farþegamegin. Ekki hafi hann séð neinar skemmdir hljótast af því er ákærði sparkaði í bifreiðina, en það hafi verið dimmt úti og Vilhjálmur undir áhrifum fíkniefna. Ekki gæti hann útilokað að það hafi orðið einhver skemmd af völdum ákærða.   

                Þegar virtir eru þeir framburðir sem hér að framan hefur verið gerð grein fyrir þykir, gegn eindreginni neitun ákærða, skorta á að lögfull sönnun sé fram komin um að ákærði hafi verið með barefli í hendi er hann hafi veist að bifreiðinni. Hins vegar verða framburðir vitna ekki metnir á annan veg en að ákærði hafi sparkað í vinstri hlið bifreiðarinnar og að þau spörk hafi miðast við fleiri staði en rúður bifreiðarinnar. Í rannsóknargögnum málsins eru ljósmyndir sem teknar voru á vettvangi af bifreiðinni NG-019. Eru myndir þessar ekki sérstaklega skýrar. Ákæruvald bætti úr þessu við meðferð málsins fyrir dómi og lagði fram frekari myndir af bifreiðinni. Sýna þær, svo ekki verður um villst, að verulegar skemmdir hafa orðið á hægri hlið bifreiðarinnar. Rúða í farþegahurð bifreiðarinnar er brotin, en hana hefur Vilhjálmur Sverrir viðurkennt að hafa brotið, svo sem áður var gerð grein fyrir. Mjög stór dæld er á hægra afturbretti bifreiðarinnar. Eru engin slík för í dældinni að talið verði að hún sé eftir barefli. Í ljósi framburða vitna þykir vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi tekið þátt í að skemma hægri hlið bifreiðarinnar með því að sparka í hana og valda með því þessari dæld. Ákoma er á brún hurðar farþegamegin nærri hurðarlæsingu. Er ákoma þessi með þeim hætti að virðist vera eftir að annarri bifreið hafi verið ekið utan í bifreiðina eða þessari bifreið utan í aðra bifreið. Verður ekki við annað miðað en að einhverjar skemmdir hafi verið á bifreiðinni fyrir þessa atlögu. Með hliðsjón af öllu þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir að valda dæld á hægri hlið bifreiðarinnar. Ekki telst sannað að hann hafi notað barefli við að skemma bifreiðina. Er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði er fæddur í júlí 1982. Samkvæmt sakavottorði hefur hann margsinnis gerst sekur um refsiverð brot. Hefur hann samtals 8 sinnum gengist undir sáttir vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Þá hefur hann 5 sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga og 2 sinnum fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Ákærði var síðast dæmdur 15. júní 2007 til greiðslu sektar fyrir umferðarlagabrot. Refsing ákærða nú er hegningarauki við dóminn og verður refsing ákveðin með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Framferði ákærða og Vilhjálms Sverris var töluvert ofsafengið. Réðust þeir með slíku offorsi gegn þeim einstaklingum sem voru inni í bifreiðinni NG-019 að miklar skemmdir voru unnar á bifreiðinni. Voru þær slíkar að tryggingarfélag eiganda bifreiðarinnar mat bifreiðina ónýta. Voru viðbrögð ákærða úr öllu horfi og langt umfram það sem efni stóðu til. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Ákærði var á árunum 2000 og 2001 ítrekað dæmdur í skilorðsbundna fangelsisrefsingu. Eru ríflega 5 ár liðin frá því svo var. Í því ljósi þykir unnt að skilorðsbinda refsingu ákærða, með þeim hætti er í dómsorði er kveðið nánar á um. 

                Eigandi bifreiðarinnar NG-019 hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Hefur kröfunni verið mótmælt. Eru skaðabætur rökstuddar með þeim hætti að á bifreiðinni, sem hafi verið húftryggð, hafi hvílt lán að fjárhæð 529.701 króna. Tryggingarfélag eiganda hafi greitt eiganda fyrir bifreiðina, sem metin hafi verið ónýt, 454.000 krónur. Eftirstöðvar af láninu nemi 75.702 krónum. Sé það sú fjárhæð sem eigandi bifreiðarinnar geri kröfu um. Ákærði ber, í félagi við Vilhjálm Sverri Pétursson, óskipt skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hann hefur valdið eiganda bifreiðarinnar. Hér er til þess að líta að eigandi bifreiðarinnar hefur fengið verðmæti hennar bætt að fullu úr húftryggingu bifreiðarinnar. Er bifreiðin og þar með tjónið bætt eiganda að fullu. Hefur tryggingarfélag eiganda bifreiðarinnar þar með eignast skaðabótakröfuna á hendur ákærða. Tekið er fram í skaðabótakröfunni að sjálfsáhætta vegna tjónsins hafi numið 48.800 krónum. Er það í reynd það tjón sem eigandi bifreiðarinnar hefur orðið fyrir. Krafan hefur hins vegar ekki verið rökstudd út frá þessari forsendu, auk þess sem engin önnur gögn en staðhæfing eiganda bifreiðarinnar liggur fyrir um þetta atriði. Samkvæmt þessu er skaðabótakrafan vanreifuð og verður henni vísað frá dómi til að eiganda hennar gefist færi á gera kröfuna þannig úr garði að unnt sé að dæma efnislega um hana.

                Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda, að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði er kveðið á um.

                Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Laufeyju Kristjánsdóttur fulltrúa lögreglustjóra.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, Ágúst Jón Óskarsson, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Skaðabótakröfu Sigrúnar Unnsteinsdóttur er vísað frá dómi.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 227.088 krónur.