Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Verjandi
  • Lögmaður


           

Fimmtudaginn 13. janúar 2000.

Nr. 3/2000.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Kristni Baldvinssyni

(Jóhann Halldórsson hdl.)

             

Kærumál. Vitni. Verjandi. Lögmenn.

Við meðferð opinbers máls krafðist ákæruvaldið þess að E, sem upphaflega hafði verið skipuð verjandi ákærða í málinu, yrði kvödd til að bera vitni. Ákærði og E mótmæltu kröfunni bæði. Talið var, að þótt E kynni að geta færst undan því að svara ákveðnum spurningum með vísan til þagnarskyldu  um það sem sakborningur hefði trúað henni fyrir um málsatvik, væri ekki hægt að útiloka fyrirfram að fram kæmu spurningar sem féllu utan þeirrar þagnarskyldu. Ekki var heldur talið unnt að fallast á þá kröfu E að það yrði afmarkað fyrir fram hvers efnis þær spurningar gætu verið, sem henni væri óskylt að svara. Var því fallist á kröfu ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 2000. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. desember 1999, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að Elín Árnadóttir héraðsdómslögmaður yrði leidd sem vitni við aðalmeðferð máls sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um vitnaleiðsluna verði hafnað og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Elín Árnadóttir héraðsdómslögmaður hefur látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Hún krefst þess aðallega að úrskurði héraðsdómara verði hrundið, en til vara að ákveðið verði að sóknaraðila sé ekki heimilt að leggja fyrir hana spurningar, sem varða samtöl hennar og varnaraðila á meðan hún var skipaður verjandi hans eða störf hennar sem verjanda. Til þrautavara krefst hún þess að sér verði ekki gert að svara neinni spurningu, sem lýtur að samtölum hennar og varnaraðila á þeim tíma, sem hún var verjandi hans, eða varða á annan hátt störf hennar sem verjanda. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 49. gr. laga nr. 19/1991 getur Elín Árnadóttir héraðsdómslögmaður ekki skorast undan því að koma fyrir dóm sem vitni í málinu, þótt hún hafi á fyrri stigum þess verið skipaður verjandi varnaraðila, enda telur sóknaraðili efni til að leiða hana fyrir dóm til að bera um ætluð atvik tengd því, sem hún þekki af eigin raun. Þótt á verjanda hvíli þagnarskylda um það, sem skjólstæðingur hans hefur trúað honum fyrir í skjóli þess starfs, sbr. a. lið 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991 og 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, verður ekki litið fram hjá því að í málinu hefur ekki enn komið fram nákvæmlega hvers efnis þær spurningar séu, sem sóknaraðili vill leggja fyrir lögmanninn. Er því ekki ljóst á þessu stigi hvort spurningarnar, allar eða einhverjar, séu slíkar að ákvæði 51. gr. eða áðurnefnds a. liðar 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991 eða eftir atvikum 2. mgr. sömu greinar geti átt við um þær. Úr því verður eðli málsins samkvæmt ekki leyst fyrr en spurningarnar hafa verið bornar fram á dómþingi. Fyrir fram verður heldur ekki mælt á almennan hátt fyrir um hvers efnis þær spurningar gætu verið, sem lögmanninum kynni að vera óskylt að svara, svo sem felst í varakröfum hennar. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. desember 1999.

Með ákæruskjali ríkissaksóknara, útgefnu 29. september s.l., var mál höfðað á hendur Kristni Baldvinssyni, kt. 300969-5509, P. Knudsens Gade 5, 2. t.v. 2450 Kaupmannahöfn, fyrir endurtekin kynferðisbrot gegn [...], drengnum A fæddum 1986, á árabilinu 1997-1998.  Er í ákæruskjali vísað til fyrri málsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.  Er og krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu skaðabóta. 

Dómari fékk málinu úthlutað hinn 4. október s.l.

Málsmeðferð.

Fyrirkall til ákærða var gefið út 11. október s.l. og var það birt 22. s.m.  Ákærði óskaði eftir því að Elín Árnadóttir, héraðsdómslögmaður, yrði skipaður verjandi hans, en hún hafði áður gegnt stöðu verjanda við lögreglurannsókn málsins.  Í samræmi við ósk ákærða var gefið út skipunarbréf, en með bréfi lögmannsins, dagsettu 28. október s.l., var upplýst að hún hefði látið af störfum sem sjálfstætt starfandi lögmaður.  Í samræmi við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 19/1991, og að ósk ákærða var núverandi verjandi skipaður með bréfi dagsettu 2. nóvember s.l. 

Ákærði kom fyrir dóm þann 9. nóvember s.l. og lýsti afstöðu til sakargifta.  Hann neitaði alfarið sök, en vísaði aðspurður til þess að hann hefði við yfirheyrslu hjá lögreglu ranglega játað að nokkru sakargiftir þar sem honum hefði skilist af orðum þáverandi verjanda, áðurgreindrar Elínar Árnadóttur, héraðsdómslögmanns, að með því móti fengi drengurinn A einhverja peningagreiðslu.  Vegna þessara orða ákærða lýsti ríkissaksóknari þeirri skoðun að nauðsynlegt væri að nefndur lögmaður yrði leiddur fyrir dóm sem vitni.  Þessum áformum andmælti skipaður verjandi ákærða ítrekað. 

Á dómþingi þann 21. desember s.l. áréttaði sóknaraðili ofangreinda skoðun og bar fram formlega kröfu þar um, en ákærði andmælti sem fyrr.  Fór í framhaldi af því fram munnlegur málflutningur um ágreiningsefnið, en að því búnu var málið tekið til úrskurðar skv. 61. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram, að fyrrgreindur framburður ákærða á dómþingi þann 9. nóvember s.l. verði ekki skilinn á annan veg en þann, að ákærði sé að segja að Elín Árnadóttir, sem hafi verið verjandi ákærða á rannsóknarstigi, hafi ráðlagt ákærða að játa á sig sakir í málinu í þeim tilgangi að drengurinn A fengi einhverjar bætur.  Vegna þessa telur sóknaraðili óhjákvæmilegt að leiða Elínu fyrir dóm sem vitni þannig að bera megi þennan framburð undir hana.  Vísar sóknaraðili til 49. gr. laga nr. 19/1991 svo og til skyldu ákæruvalds til að upplýsa mál.

Af hálfu ákærða er því andmælt að tekin verði til greina krafa sóknaraðila um að leiða fyrrverandi verjanda hans fyrir dóm sem vitni.  Vísar varnaraðili til trúnaðarskyldu, og að verjanda sé óheimilt samkvæmt 55. gr. laga nr. 19/1991 að svara spurningum um það sem sakborningur hefur trúað verjanda fyrir um málsatvik án leyfis hans.  Varnaraðili hafi ekki veitt slíkt leyfi og ætli ekki að gera það.  Þá vísar varnaraðili til yfirlýsingar Elínar Árnadóttur, héraðsdómslögmanns, sem dagsett er 17. desember s.l., sbr. dskj. nr. XXXVIII, en þar komi fram skýr andstaða hennar við að greina frá samskiptum þeirra.  Þá telur varnaraðili að fyrirætlun sóknaraðila sé brot á hlutlægniskyldu þar sem tilgangurinn sé að kasta rýrð á gildi framburðar hans fyrir dómi.  Loks vísar varnaraðili til undanþáguréttar vitna skv. 51. gr. áðurnefndra laga.

Niðurstaða.

Að áliti dómsins lýtur ágreiningur málsaðila að því hvort sóknaraðila sé fært að leiða fyrir dóm sem vitni Elínu Árnadóttur, héraðsdómslögmann, en hún var verjandi varnaraðila á rannsóknarstigi málsins.  Er ætlan sóknaraðila að bera undir lögmanninn eigin orð varnaraðila fyrir dómi um atriði sem hann heldur fram að farið hafi á milli þeirra við lögreglurannsókn málsins. 

Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála getur lögmaður verið undanskilinn því að svara ákveðnum spurningum.  Þá geta einnig komið til álita, vegna einstakra spurninga, efnisákvæði 51. gr. laganna, svo og andmælaréttur varnaraðila.  Þetta breytir hins vegar engu um það að samkvæmt 1. mgr. 49. gr. er lögmanni, líkt og öðrum þjóðfélagsþegnum, skylt að koma fyrir dóm.  Að þessu virtu verður fallist á að sóknaraðila sé heimilt að leiða fyrir dóm sem vitni Elínu Árnadóttur, héraðsdómslögmann. 

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Ríkissaksóknara er heimilt að leiða vitnið Elínu Árnadóttur, héraðsdómslögmann, fyrir dóm.