Hæstiréttur íslands
Mál nr. 195/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
|
|
Mánudaginn 6. maí 2002. |
|
Nr. 195/2002. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson fulltrúi) gegn Trausta Aðalsteini Kristjánssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Frestun.
T kærði þá ákvörðun héraðsdómara að fresta ótiltekið máli ákæruvaldsins á hendur honum uns fyrir lægi hvort áfrýjað yrði dómi héraðsdóms í öðru opinberu máli gegn T og í því tilviki uns dómur Hæstaréttar lægi fyrir. Með hliðsjón af því að málin tvö voru efnislega hliðstæð og að fyrra málinu hafði eftir dómsuppsögu verið áfrýjað til Hæstaréttar, var hin kærða ákvörðun staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Vestfjarða 17. apríl 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var frestað ótiltekið, uns fyrir lægi hvort dómi Héraðsdóms Suðurlands 5. mars sama árs í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila yrði áfrýjað og í því tilviki uns dómur Hæstaréttar lægi fyrir. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili hefur skilað greinargerð til Hæstaréttar, en gerir ekki kröfur í málinu.
I.
Samkvæmt sakavottorði varnaraðila hefur hann margsinnis verið sviptur ökurétti ævilangt, fyrst með dómi 26. október 1981 og síðast með dómi 18. maí 1998. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 5. mars 2002 var varnaraðili dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot með því að hafa 8. nóvember 2001 ekið bifreið sviptur ökurétti. Við meðferð málsins hafði varnaraðili uppi þær varnir að hann hafi haft gilt ökuskírteini til að aka bifreiðinni, sem lögreglustjórinn í Reykjavík gaf út honum til handa 3. ágúst 1999. Í dóminum var þessu hafnað með vísan til þess að um væri að ræða samrit ökuskírteinis, sem lögreglustjóri gaf út á grundvelli rangra upplýsinga frá varnaraðila. Ekki hafi verið fyrir hendi skilyrði til útgáfu skírteinisins og útgáfa þess ekki getað endurvakið þau ökuréttindi sem varnaraðili hafi ítrekað verið sviptur með dómum.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila með ákæru 23. nóvember 2001 fyrir umferðarlagabrot með því að hafa 30. september sama árs ekið nánar tiltekinni bifreið á Ísafirði sviptur ökurétti ævilangt. Í þinghaldi 17. apríl 2002 ákvað héraðsdómari að fresta málinu ótiltekið, uns fyrir lægi hvort framangreindum dómi Héraðsdóms Suðurlands yrði áfrýjað og í því tilviki uns dómur Hæstaréttar lægi fyrir.
Með hliðsjón af því að mál þetta er efnislega hliðstætt því máli, sem leyst var úr með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Suðurlands og hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar, verður hin kærða ákvörðun staðfest.
Dómsorð:
Hin kærða ákvörðun er staðfest.
Hin kærða ákvörðun var ekki send Hæstarétti á tölvutæku formi.