Hæstiréttur íslands

Mál nr. 344/2004


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Laun
  • Slys
  • Aðilaskipti


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. febrúar 2005.

Nr. 344/2004

Djúpiklettur ehf.

(Jón R. Pálsson hrl.)

gegn

Björgólfi Einarssyni

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Laun í slysaforföllum. Aðilaskipti að fyrirtækjum.

B, sem starfaði hjá H hf. meðal annars við löndun úr fiskiskipum félagsins, var sagt upp störfum eftir að D ehf. var falið að annast alla löndun fyrir H hf. B vann hjá H hf. út uppsagnarfrest, en hóf síðan störf hjá D ehf. Skömmu síðar varð B fyrir vinnuslysi við löndunarstörf á vegum D ehf. og var óvinnufær af þeim sökum. Nokkru eftir að B tók aftur til starfa hjá D ehf. var honum sagt upp störfum. Talið var að ákvæði laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum hafi ekki tekið til þeirra breytinga sem urðu á starfsemi H hf. í kjölfar þess að D ehf. var falið að sjá um löndun úr skipum félagsins. Eftir almennum reglum var B hins vegar talinn eiga rétt til launa í forföllum vegna veikinda eða slyss og til uppsagnarfrests við starfslok. Var D ehf. gert að greiða B það sem á vantaði í þessum efnum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

 Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi lét Haraldur Böðvarsson hf. frá sér fara tilkynningu 27. júní 2000 um hugsanlegar hópuppsagnir starfsmanna vegna skipulagsbreytinga í fiskvinnslu- og þjónustudeild félagsins á Akranesi. Sagði í tilkynningunni að ákveðið hafi verið meðal annars að fela sjálfstæðu löndunarfélagi að annast löndun úr fiskiskipum Haraldar Böðvarssonar hf., svo og að hætta vinnslu á saltfiskmarningi í þeirri mynd, sem hún hafi verið. Yrði sautján starfsmönnum sagt upp af þessum sökum, en tekið var fram að hluti þeirra ætti kost á að fá störf hjá félaginu, sem tæki að sér löndunarvinnu. Í samræmi við þetta var stefnda sagt upp störfum 28. sama mánaðar, en hann hafði þá verið í föstu starfi hjá félaginu frá árinu 1986, meðal annars við löndun úr skipum þess. Fyrir liggur að uppsagnarfrestur stefnda var fjórir mánuðir miðað við mánaðamót og var frestinum því lokið 1. desember 2000.

Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, samdi Haraldur Böðvarsson hf. við áfrýjanda sumarið 2000 um að sá síðarnefndi tæki að sér löndun úr skipum félagsins, en sá samningur var ekki skriflegur. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi bar stefndi að áfrýjandi hafi í júlí 2000 boðið sér starf við löndun og annað, sem til félli. Fyrir löndunarvinnu yrði greitt frá 25.000 til 35.000 krónur á hvert skip, en fyrir önnur verk yrðu launin um 1.400 krónur á klukkustund, hvort tveggja að öllu inniföldu, þar á meðal orlofi. Kvaðst stefndi hafa sagst vilja vinna út uppsagnarfrestinn hjá Haraldi Böðvarssyni hf. og ræða þetta síðar við áfrýjanda. Áfrýjandi byrjaði 8. ágúst 2000 að sinna löndun úr skipum Haraldar Böðvarssonar hf. Nokkru síðar munu félagið og áfrýjandi hafa sammælst um að einhverjir af starfsmönnum þess, sem þá voru á uppsagnarfresti og fengist höfðu við löndunarstörf, þar á meðal stefndi, myndu vinna slík verk á vegum áfrýjanda en á launum frá félaginu. Eftir þetta mun hafa verið bundið fastmælum að stefndi tæki fyrrgreindu boði áfrýjanda um starf að loknum uppsagnarfresti hjá Haraldi Böðvarssyni hf., en samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, tók stefndi laun hjá félaginu til 8. desember 2000.

Stefndi ber því við að hann hafi verið ráðinn til starfa hjá áfrýjanda með þeim launakjörum, sem áður var getið. Áfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram að samið hafi verið um að stefndi kæmi óreglulega til starfa við löndun eða önnur tilfallandi verkefni eftir því, sem hann sæi sér fært að verða við kvaðningu til þeirra. Hann fengi þá laun fyrir löndunarvinnu samkvæmt þeirri reglu áfrýjanda að 55% af fjárhæðinni, sem hann gerði verkkaupa reikning fyrir hverju sinni, kæmu til skipta jafnt milli þeirra, sem ynnu að verkinu. Áfrýjandi hafi þó ábyrgst þeim, sem gegndu störfum með þessum kjörum og sinntu kalli til allra löndunarstarfa á einum mánuði, lágmarkslaun að fjárhæð 110.000 krónur fyrir það tímabil. Fyrir önnur störf, sem tengdust loðnuvinnslu, yrðu á hinn bóginn greiddar 1.400 krónur á klukkustund.

Stefndi varð fyrir vinnuslysi við löndunarstörf á vegum áfrýjanda 13. desember 2000 og var óvinnufær af þeim sökum til 15. janúar 2001. Fyrir liggur að hann fékk síðar á því ári greiddar bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku vegna slyssins úr vátryggingu, sem áfrýjandi hafði tekið, en ekki fékk stefndi þar bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Hinn 2. janúar 2001 lagði áfrýjandi 73.950 krónur inn á bankareikning stefnda með þeirri skýringu að um væri að ræða „laun v/hluta af desember“. Kveðst áfrýjandi hafa þar reiknað stefnda það hlutfall af fyrrnefndum 110.000 króna lágmarkslaunum, sem svaraði til vinnudagafjölda hans í desember 2000 að meðtöldum þeim tíma, sem hann hafði forföll vegna slyssins, en að frádregnum launatengdum gjöldum og staðgreiðslu opinberra gjalda. Óumdeilt er að stefndi tók aftur til starfa hjá áfrýjanda um miðjan janúar 2001, en áfrýjandi kveður reiknuð laun löndunarmanna fyrir þann mánuð ekki hafa náð lágmarkslaununum. Hafi hann því greitt stefnda í laun 110.000 krónur, en að frádregnum sömu liðum og áður getur var útborgunin að fjárhæð 88.814 krónur. Laun stefnda fyrir febrúar 2001 námu alls 306.994 krónum, en af þeirri fjárhæð fékk hann útborgaðar 202.658 krónur. Óumdeilt er að stefndi var áfram við störf á vegum áfrýjanda í næsta mánuði þar til stefnda var tilkynnt við lok vinnu 10. mars 2001 að áfrýjandi óskaði ekki eftir frekara vinnuframlagi hans. Fyrir tímabilið, sem stefndi starfaði í þeim mánuði, reiknaði áfrýjandi honum 208.536 krónur í laun, en af þeim fékk hann útborgaðar 145.759 krónur. Eftir þetta var stefndi atvinnulaus um tíma og fékk frá 12. mars til 5. júní 2001 samtals 199.007 krónur í atvinnuleysisbætur. Samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti, tók stefndi aftur við föstu starfi hjá Haraldi Böðvarssyni hf. 26. maí 2001.

Áfrýjandi telur stefnda ekki eiga rétt á frekari greiðslum en hann hafi þegar fengið samkvæmt áðursögðu, enda hafi honum aðeins borið að fá laun fyrir ákvæðisvinnu, sem hann sinnti kalli til að gegna, og engan rétt átt til uppsagnarfrests við starfslok. Stefndi telur sig á hinn bóginn eiga rétt á greiðslu alls þess, sem hann fór á mis við í launum þegar hann var frá störfum vegna fyrrnefnds slyss, svo og launa í uppsagnarfresti, sem hann telur hafa staðið til loka júlí 2001. Í málinu leitar stefndi dóms um skyldu áfrýjanda til að greiða það, sem á skorti í þessum efnum.

II.

Í málinu ber stefndi aðallega fyrir sig að sú breyting, sem varð á tilhögun við löndun úr fiskiskipum Haraldar Böðvarssonar hf. sumarið 2000 þegar áfrýjandi tók við því verki af félaginu, hafi fallið undir reglur þágildandi laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Telur stefndi sig þannig hafa átt að njóta sömu réttinda gagnvart áfrýjanda og hann naut gagnvart Haraldi Böðvarssyni hf. að því er varðar laun í forföllum vegna vinnuslyssins 13. desember 2000, uppsagnarfrest úr starfi hjá áfrýjanda og laun meðan á þeim fresti stóð.

Með lögum nr. 77/1993 voru teknar upp reglur, sem svöruðu til tilskipunar ráðs Evrópubandalaganna 77/187/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar. Að því gættu verður í skilningi laganna rætt um aðilaskipti þegar nýr einstaklingur eða lögaðili verður lagalega ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækis, atvinnurekstrar eða hluta hans og fyrirtækið eða sá hluti þess, sem framseldur hefur verið, heldur áfram rekstri á sama eða svipaðan hátt og áður, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 8. maí 2003 í máli nr. 435/2002. Það, sem framselt sé, þurfi að vera varanleg efnahagsleg eining, sem skipulögð sé til að hafa með höndum starfsemi í ákveðnum tilgangi og takmarkist ekki við framkvæmd eins tiltekins verkefnis. Þessi eining þurfi við framsal að halda einkennum sínum, en við mat á því verði að líta heildstætt til þess hverrar tegundar fyrirtæki sé, hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld, hvers virði óhlutbundin verðmæti séu við framsalið, hvort meiri hluti starfsmanna flytjist til nýja vinnuveitandans og hvort framsalshafi haldi viðskiptatengslum framseljanda. Má hér einnig líta til þess að í 4. tölulið 2. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sem leystu lög nr. 77/1993 af hólmi, segir að hugtak þetta merki þar „aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi.”

Í áðurnefndri tilkynningu Haraldar Böðvarssonar hf. 27. júní 2000 kom fram að skipulagsbreytingar stæðu yfir í fiskvinnslu- og þjónustudeild félagsins, en við hana hafi starfað 22 menn, þar af sex lausráðnir. Stæði til sem fyrr greinir að segja sautján mönnum upp störfum í tengslum við þetta. Ráðið verður af gögnum málsins, meðal annars aðilaskýrslu stefnda fyrir héraðsdómi, fyrirliggjandi launaseðlum hans frá Haraldi Böðvarssyni hf. og vitnaskýrslu starfsmannastjóra félagsins, að vinna við löndun hafi aðeins verið hluti af störfum stefnda, sem að öðru leyti voru á almennu sviði fyrrnefndrar deildar. Áfrýjandi tók ekki í ágúst 2000 við starfsemi þessarar deildar innan Haraldar Böðvarssonar hf., heldur afmörkuðum þætti starfseminnar, sem virðist áður hafa verið sinnt af hluta starfsmanna deildarinnar með öðrum störfum. Verður því ekki séð að áfrýjandi hafi tekið við varanlegri efnahagslegri einingu úr hendi Haraldar Böðvarssonar hf. til að halda áfram rekstri hennar á sama eða svipaðan hátt og áður. Auk þessa liggur ekkert fyrir um að áfrýjandi hafi fengið áþreifanleg eða óhlutbundin verðmæti framseld frá Haraldi Böðvarssyni hf. þegar hann tók við löndun úr skipum félagsins. Hefur heldur ekkert komið fram um að aðrir starfsmenn þess en stefndi hafi gengið í þjónustu áfrýjanda. Einnig verður að gæta að því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafði áfrýjandi á árinu 2000 sinnt sambærilegum verkefnum fyrir útgerðarfélög annars staðar á landinu um nokkurra ára skeið og gerði það áfram, en ekkert er fram komið um að hann hafi í tengslum við þetta tekið upp frekari starfsemi á Akranesi en þá, sem um ræðir í málinu. Að þessu öllu virtu eru ekki skilyrði til að fallast á að ákvæði laga nr. 77/1993 hafi tekið til þeirra breytinga, sem urðu á starfsemi Haraldar Böðvarssonar hf. þegar áfrýjandi tók að sér að sjá um löndun úr skipum félagsins. Verður því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að stofnað hafi verið til nýs og sjálfstæðs réttarsambands þegar stefndi hóf störf hjá áfrýjanda.

III.

Sem fyrr segir heldur áfrýjandi því fram að hann hafi ekki ráðið stefnda til fastra starfa, heldur hafi verið samið um að stefndi ætti kost á óreglulegri ákvæðisvinnu við löndun úr fiskiskipum og önnur tilfallandi verkefni. Til slíkrar vinnu yrði stefndi kvaddur hverju sinni, sem verkefni stæðu til boða, en honum yrði óskylt að sinna kalli og frjálst að taka sér fyrir hendur hvers kyns önnur störf samhliða þessum. Fyrir þau verk, sem stefndi ynni, yrði greitt eftir áðurgreindu launakerfi, en að öðru leyti nyti hann engra réttinda gagnvart áfrýjanda. Áfrýjandi hefur ekki borið því við að gerður hafi verið verksamningur við stefnda með þessum kjörum. Verður því að líta svo á að óumdeilt sé í málinu að um vinnusamning hafi verið að ræða, en ágreiningur standi á hinn bóginn um efni hans.

Áfrýjandi hefur eins og áður greinir lýst því yfir í málatilbúnaði sínum að í samningum við stefnda og aðra, sem tóku að sér störf við löndun á hans vegum, hafi verið ráðgert að þeim yrðu tryggð tiltekin lágmarkslaun á mánuði að fullnægðu því skilyrði að þeir kæmu á tímabilinu til löndunarstarfa í hvert sinn, sem eftir því væri leitað. Þá greiddi áfrýjandi stefnda þessi lágmarkslaun að tiltölu þegar sá síðarnefndi hafði forföll í framhaldi af vinnuslysinu 13. desember 2000. Hvorugt þetta samrýmist þeirri almennu lýsingu áfrýjanda á launakjörum fyrir störf hjá sér að hann hafi engar frekari skyldur borið gagnvart starfsmanni en að greiða honum ákvæðisvinnulaun fyrir störf hans í þeim óreglubundnu tilvikum þegar honum væri gefinn kostur á að taka þátt í vinnu og hann tæki því boði. Vinnusamningur með slíkum kjörum væri óvenjulegs efnis. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að unnt hafi verið að víkja á þennan hátt frá lágmarkskjörum samkvæmt ákvæðum laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Verður því að leggja til grundvallar að í vinnusambandi aðilanna hafi stefndi notið réttinda eftir almennum reglum til launa í forföllum vegna veikinda eða slyss og til uppsagnarfrests við starfslok.

Samkvæmt ákvæði 8.1.5. í framlögðum kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Verkamannasambands Íslands frá 13. apríl 2000 átti verkafólk eftir fimm ára samfellt starf hjá sama vinnuveitanda rétt á að fá við forföll vegna veikinda eða slyss greidd í einn mánuð svokölluð staðgengilslaun, annan mánuð fullt dagvinnukaup og í tvo mánuði þar á eftir dagvinnulaun. Í ákvæði 8.1.6. var mælt svo fyrir að starfsmaður, sem öðlast hefði framangreindan rétt með fimm ára samfelldu starfi hjá sama vinnuveitanda og réði sig til starfa hjá öðrum vinnuveitanda innan tólf mánaða frá starfslokum hjá þeim fyrrnefnda, skyldi halda rétti til launa í tvo mánuði vegna slíkra forfalla, þar af staðgengilslaun í fyrri mánuðinum. Stefndi hafði unnið lengur en fimm ár hjá Haraldi Böðvarssyni hf. áður en hann tók í beinu framhaldi af starfslokum þar við starfi hjá áfrýjanda. Með því að ekkert er fram komið um að stefndi hafi ekki fullnægt öðrum skilyrðum þessara ákvæða verður að líta svo á að hann hafi notið réttar til að fá í laun sömu fjárhæð og sá fékk, sem gegndi störfum í hans stað hjá áfrýjanda í forföllum stefnda eftir vinnuslysið og þar til hann tók við störfum að nýju.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1979, sbr. ákvæði 12.2.1 í áðurnefndum kjarasamningi, átti stefndi rétt til eins mánaðar uppsagnarfrests í starfi hjá áfrýjanda og skyldi upphaf þess frests miðast við mánaðamót, sbr. 6. mgr. 1. gr. laganna og ákvæði 12.3. í kjarasamningnum. Áfrýjandi sleit ráðningu stefnda fyrirvaralaust 10. mars 2001 og gaf honum ekki kost á að starfa í uppsagnarfresti. Því hefur ekki verið borið við að stefndi hafi gerst sekur um ávirðingar í starfi, sem heimilað gátu áfrýjanda fyrirvaralaus ráðningarslit. Á stefndi því rétt á að fá greidda úr hendi áfrýjanda fjárhæð samsvarandi þeirri, sem hann hefði borið úr býtum með áframhaldandi störfum í þágu áfrýjanda frá 11. mars til loka apríl 2001.

Dómkrafa stefnda er sundurliðuð eftir tímabilum í hinum áfrýjaða dómi og er þar jafnframt greint frá skýringum hans á því hvernig hún er reiknuð. Áfrýjandi sinnti í engu áskorun, sem stefndi beindi til hans á dómþingi í héraði 20. janúar 2004 um að leggja fram gögn varðandi löndun úr skipum á þeim tímabilum, sem ágreiningur um rétt stefnda til launa varðar. Þá er og til þess að líta að áfrýjandi færði þau rök ein fyrir varakröfu sinni í héraði um lækkun dómkröfu stefnda að sá síðastnefndi gæti ekki átt rétt til lengri uppsagnarfrests úr starfi en eina viku. Að því virtu verður að leggja til grundvallar útreikning stefnda á kröfunni með þeim breytingum, sem hann gerði á henni við aðalmeðferð málsins í héraði, og að teknu tilliti til þeirrar lækkunar, sem krafan sætti í hinum áfrýjaða dómi, enda hefur stefndi ekki gagnáfrýjað dóminum.

Samkvæmt framansögðu bar stefnda vegna desember 2000 að fá greitt sem svaraði launum fyrir tvær landanir úr frystitogara og fjórar landanir úr ísfisktogara, samtals 196.800 krónur, auk launa að fjárhæð 32.100 krónur vegna löndunar úr ísfisktogara fyrir vinnuslysið 13. þess mánaðar, eða alls 228.900 krónur. Áfrýjandi greiddi honum 85.000 krónur í laun vegna desembermánaðar og telst hann því eiga ógreiddar 143.900 krónur.

Í endanlegri kröfugerð stefnda fyrir héraðsdómi var miðað við að hann hafi fyrri helming janúar 2001, þegar hann var enn óvinnufær, farið á mis við tvær landanir úr ísfisktogara, en fyrir þær hefðu laun numið 64.200 krónum. Seinni helming mánaðarins hafi hann tekið þátt í þremur sams konar löndunum og átt að fá að launum fyrir þær 96.300 krónur. Heildarlaun hefðu samkvæmt þessu átt að vera 160.500 krónur, en af þeirri fjárhæð greiddi áfrýjandi 110.000 krónur. Telst stefndi því eiga ógreiddar 50.500 krónur vegna þessa mánaðar.

Í málinu er ekki ágreiningur um laun stefnda á tímabilinu frá 1. febrúar til 10. mars 2001, sem hafa að fullu verið greidd. Á tímabilinu frá uppsögn stefnda síðastgreindan dag til loka mars 2001 telur hann sig hafa farið á mis við laun að fjárhæð alls 407.900 krónur fyrir vinnu við hrognatöku, tvær landanir úr frystitogara og fimm úr ísfisktogara. Fyrir þennan tíma fékk stefndi samkvæmt gögnum málsins atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 48.936 krónur, sem koma hér eftir kröfugerð hans til frádráttar. Standa því eftir 358.964 krónur vegna launa í uppsagnarfresti að því er varðar mars 2001.

Stefndi telur sig hafa farið á mis við eina löndun úr frystitogara og eina úr ísfisktogara í apríl 2001, en laun fyrir störf við þær mundu eftir útreikningum hans hafa orðið alls 66.300 krónur. Stefndi hefur ekki krafist þess að laun fyrir þennan mánuð verði látin taka mið af fyrrgreindum lágmarkskjörum. Fyrir liggur að stefndi fékk í þeim mánuði greidda hærri fjárhæð í atvinnuleysisbætur eða samtals 68.511 krónur. Á hann því ekki kröfu á hendur áfrýjanda vegna ógreiddra launa í uppsagnarfresti fyrir þennan mánuð.

Samkvæmt þessu ber áfrýjanda að greiða stefnda samtals 553.364 krónur. Um dráttarvexti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir. Verður áfrýjandi jafnframt dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Djúpiklettur ehf., greiði stefnda, Björgólfi Einarssyni, 553.364 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 143.900 krónum frá 1. janúar 2001 til 1. febrúar sama ár, af 194.400 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár og af 553.364 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 26. maí 2004.

Mál þetta var höfðað 22. september 2003 og dómtekið 26. maí 2004. Stefnandi er Björgólfur Einarsson, Grenigrund 14 á Akranesi, en stefnda er Djúpiklettur ehf., Grundargötu 84 í Grundarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.239.193 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 196.800 krónum frá 1. janúar 2001 til 1. febrúar sama ár, en af 247.300 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, en af 446.193 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, en af 521.493 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, en af 618.793 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en af 1.010.293 krónum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, en af höfuðstól frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefna.

Stefnda krefst þess aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda, en til vara að það verði einungis dæmt til að greiða stefnanda laun í einnar viku uppsagnarfresti. Í báðum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar.

I.

Sumarið 2000 var unnið að skipulagsbreytingum hjá Haraldi Böðvarssyni hf. á Akranesi. Af því tilefni var stefnanda ritað bréf 28. júní 2000, en þar kom fram að unnið væri að skipulagsbreytingum í fiskvinnslu- og þjónustudeild fyrirtækisins á Akranesi. Fyrir lægi meðal annars ákvörðun um að vinna við landanir úr skipum félagsins yrði framvegis í höndum sjálfstæðs löndunarfélags. Þá yrði vinnslu á saltfiskmarningi hætt í því formi sem hún hefði verið. Var stefnanda tjáð að af þessum sökum væri honum sagt upp störfum hjá félaginu frá og með 1. júlí 2000 með samningsbundnum uppsagnarfresti.

Uppsagnarbréfið kom í kjölfar bréfs 27. júní 2000, sem Haraldur Böðvarsson hf. hafði ritað stefnanda og Bjarna B. Jóhannssyni sem kjörnum trúnaðarmönnum og varðaði einnig áðurnefndar skipulagsbreytingar hjá félaginu. Í því bréfi sagði meðal annars að hluti þeirra starfsmanna, sem sagt yrði upp hjá félaginu vegna skipulagsbreytinganna, ætti þess kost að fá starf hjá því löndunarfélagi sem sjá myndi framvegis um landanir úr skipum Haraldar Böðvarssonar hf.

Í ágúst 2000 gerði stefnda Haraldi Böðvarssyni hf. tilboð í umrædd verk við löndun úr ísfisk- og frystitogurum félagsins og var tilboðinu tekið. Í kjölfarið gerði stefnda síðan stefnanda tilboð um að koma til starfa hjá félaginu við landanir úr skipum Haraldar Böðvarssonar hf., en því tilboði tók stefnandi ekki.

Stefnandi fór í sumarleyfi eftir að honum var sagt upp störfum. Kom hann aftur til starfa hjá Haraldi Böðvarssyni hf. í september 2000, en þá samdist stefnda og Haraldi Böðvarssyni hf. svo um að stefnandi ynni við landanir á vegum stefnda út uppsagnarfrest sinn, þ.e. til loka nóvember sama ár. Greiddi Haraldur Böðvarsson hf. stefnanda laun á þessu tímabili en sérstakt uppgjör fór fram á milli félagsins og stefnda vegna þessara starfa stefnanda í þágu stefnda.

Í byrjun desember 2000 hóf stefnandi að starfa hjá stefnda við löndun. Þegar stefnandi var við störf 13. þess mánaðar í annarri löndun sinni hjá stefnda varð hann fyrir slysi. Þar sem stefnda hafði keypt vátryggingu hjá Vátryggingarfélagi Íslands fékk stefnandi bætur vegna slyssins úr slysatryggingu launþega og ábyrgðartryggingu. Voru honum greiddar þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska, auk útlagðs kostnaðar.

Stefnandi var frá vinnu vegna slyssins frá slysdegi og þar til talsvert var liðið á janúarmánuð 2001. Þá fór hann aftur til starfa hjá stefnda og starfaði þar til 10. mars 2001. Þann dag var honum hins vegar tjáð að stefnda óskaði ekki frekara vinnuframlags frá honum. Eftir það var stefnandi atvinnulaus fram í júnímánuð 2001 er hann hóf störf í síldarverksmiðju Haraldar Böðvarssonar hf. þar sem hann starfar enn.

Í kjölfar starfsloka sinna hjá stefnda leitaði stefnandi til Verkalýðsfélags Akraness þar sem hann taldi sig eiga inni hjá stefnda laun í slysaforföllum og laun í uppsagnarfresti. Stéttarfélagið óskaði fyrir hönd stefnanda eftir því við stefnda að félagið gerði upp við stefnanda í samræmi við ráðningarsamning hans og gildandi kjarasamninga. Í símbréfi 2. maí 2001 hafnaði stefnda kröfum stefnanda. Hinn 22. maí sama ár ítrekaði stéttarfélagið kröfur stefnanda en því erindi var ekki svarað. Í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta.

II.

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hann hafi um árabil starfað við löndun hjá Haraldi Böðvarssyni hf. og með því áunnið sér réttindi í samræmi við ákvæði kjarasamninga og sérstakt samkomulag aðila vinnumarkaðarins um ákvæðisvinnu við löndun úr togurum. Þegar stefnda hafi tekið að sér löndun fyrir Harald Böðvarsson hf. árið 2000 hafi stefnda orðið bundið af þeim ráðningarkjörum sem gilt hafi við löndunarvinnu samkvæmt bókun við kjarasamning þar að lútandi, sbr. þágildandi lög nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Stefnandi vísar á bug þeirri mótbáru stefnda að um verktöku hafi verið að ræða af hálfu stefnanda. Þannig hafi hann ekki með neinum hætti borið þær skyldur sem almennt hvíli á verktökum. Hann hafi ekki útvegað verkfæri eða annað sem til löndunar þurfi og heldur ekki borið persónulega ábyrgð gagnvart þeim aðila sem landað hafi verið fyrir. Stefnandi segir einnig að líta verði til þess að hann hafi ekki ráðið vinnutíma sínum sjálfur, ekki verið skráður sem virðisaukaskattsskyldur aðili og þá hafi hann greitt skatta sem launamaður. Þessu til viðbótar liggi fyrir að hann hafi árum saman starfað sem launamaður og samhliða verið félagi í Verkalýðsfélagi Akraness, sem annast hafi um kjarasamningsgerð fyrir löndunarmenn. Á þessu kveður stefnandi enga breytingu hafa orðið við yfirtöku stefnda á löndun á Akranesi og tekur fram að stefnda hafi sérstaklega sóst eftir því að hann starfaði áfram við löndunarstörfin vegna áralangrar reynslu hans og þekkingar á verklagi og aðstæðum.

Kröfu sína um laun í slysaforföllum kveðst stefnandi byggja á grein 8.1.5. í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Samkvæmt þeirri grein hafi stefnda borið að greiða stefnanda staðgengilslaun fyrsta mánuð forfalla og full dagvinnulaun á öðrum mánuði forfalla.

Kröfu um laun í uppsagnarfresti reisir stefnandi hins vegar á grein 12.4. í fyrrgreindum kjarasamningi. Stefnanda hafi munnlega verið sagt upp störfum 10. mars 2001 og frekara vinnuframlags hans ekki verið óskað. Samkvæmt síðastnefndu kjarasamningsákvæði sé ótvírætt að uppsagnarfrestur stefnanda hafi verið fjórir mánuðir og beri honum því laun úr hendi stefnda fyrir þann tíma.

Til stuðnings kröfum sínum um vangoldin laun, laun í slysaforföllum og laun á uppsagnarfresti, vísar stefnandi til meginreglna vinnuréttar um greiðslu launa í slysatilvikum og einnig meginreglna samninga- og kröfuréttar um réttar samningsefndir. Þá vísar hann jafnframt til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og til laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, svo og laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

III.

Stefnda heldur því fram að 10. eða 11. desember 2000 hafi stefnandi falast eftir vinnu hjá félaginu við löndun. Við það tækifæri hafi stefnanda verið kynnt tilhögun við löndunarstörf hjá stefnda. Stefnandi hafi verið upplýstur um að slík verk féllu til óreglulega og ófyrirsjáanlega og að haft væri samband við menn þegar verkefni væru fyrir hendi. Jafnframt hafi stefnanda verið tjáð að löndunarmenn væru ekki mætingarskyldir og að ekki væru gerðar við það athugasemdir af hálfu stefnda að þeir réðu sig til annarra starfa. Þá hafi stefnanda verið kynnt hvað greitt yrði fyrir vinnuframlag hans, auk þess sem stefnandi hafi verið upplýstur um þá tilhögun að þeir menn sem mættu í allar tilkynntar landanir í hverjum mánuði fengju 110.000 krónur fyrir mánuðinn, jafnvel þó svo útreiknaðar greiðslur fyrir landanirnar næðu ekki þeirri fjárhæð.

Af framangreindu telur stefnda leiða að ekki hafi verið um fast vinnusamband milli aðila að ræða og mótmælir félagið þeirri fullyrðingu stefnanda að það hafi ráðið hann sem starfsmann. Stefnda segir liggja fyrir að ekki hafi verið gerður ráðningarsamningur við stefnanda og ýmiss atriði sem kveðið sé á um í kjarasamningum ráðinna starfsmanna hafi því ekki haft áhrif á réttarsamband málsaðila. Við stefnanda hafi verið gerður sami samningur og við aðra löndunarmenn á vegum stefnda, honum hafi borið greiðslur fyrir löndunarvinnu ef og þegar hann mætti til slíkrar vinnu. Löndunargengið hafi hverju sinni fengið greidda ákveðna upphæð fyrir hvert skip eftir fjölda tonna, kassa eða kara. Greiðslunni hafi síðan verið skipt jafnt milli löndunarmannanna.

Stefnda vísar til þess að löndunarvinna sé í eðli sínu tilfallandi starf sem sinna þurfi þegar þörf krefji og þar til verkinu sé lokið hverju sinni. Kjarasamningar ráðinna starfsmanna gildi því ekki um þau störf. Um sé að ræða ákvæðisvinnu eða akkorð og tillit tekið til launatengdra gjalda en ekki bætt við umbunina orlofi eða lífeyrissjóðsparti launamanna eins og gert sé þegar ráðningarsamband er milli aðila. Fullyrðir stefnda að sá háttur sem félagið hafi á greiðslum fyrir umrædd störf sé sá háttur sem algengastur sé hérlendis.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki haldið áfram að vinna sömu verk hjá stefnda og hann sinnti áður sem starfsmaður hjá Haraldi Böðvarssyni hf. Vísar stefnda til þess að löndunarvinna hafi aðeins verið hluti þeirra starfa sem stefnandi hafi unnið hjá Haraldi Böðvarssyni hf. Þar hafi hann starfað á föstu kaupi, á honum hvílt mætingarskylda á fyrirfram ákveðnum vinnutíma. Þá hafi Haraldi Böðvarssyni hf. verið heimilt að nýta starfskrafta stefnanda við öll almenn verkamannastörf. Stefnda telur lög nr. 77/1993 og 19/1979 ekki vera kröfum stefnanda til stuðnings. Í því tilliti vísar stefnda til þeirra skilyrða sem sett séu í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins fyrir slíkum réttindaflutningi er stefnandi haldi fram í málinu. Um það samkomulag um ákvæðisvinnu milli Haraldar Böðvarssonar hf. og Verkalýðsfélags Akraness sem stefnandi vísi til segir stefnda margt óljóst, en þó liggi fyrir að samkomulagið bindi stefnda ekki.

Hvað greiðslur til stefnanda varðar sérstaklega tekur stefnda fram að félagið hafi greitt stefnanda 85.000 krónur fyrir desember 2000. Á slysdegi hafi sautján dagar verið eftir af desembermánuði. Greiðslan hafi því verið reiknuð út sem 17/30 hlutar af áðurnefndri 110.000 króna tryggingu ásamt fullri greiðslu fyrir löndunina.

Stefnda kveður stefnanda hafa mætt að nýju í löndunarvinnu eftir miðjan janúar 2001. Í þeim mánuði hafi alls verið fimm landanir, stefnandi mætt í þrjár þeirra en misst af tveimur. Þar sem greiðslur fyrir landanir í janúar hafi ekki náð umsömdu lágmarki hafi stefnandi eins og aðrir fengið 110.000 greiðslu fyrir janúarmánuð. Tekur stefnda fram að ekki sé ótvírætt að stefnandi hafi átt rétt til greiðslna á meðan hann var að jafna sig af meiðslum sínum, en stefnda hafi hins vegar ákveðið að inna framangreindar greiðslur af hendi til að tryggja að staðið væri við allar skyldur gagnvart stefnanda.

Einnig kemur fram hjá stefnda að félagið hafi snemma árs 2001 tekið að sér að annast loðnufrystingu ef frystanleg loðna bærist. Þeirri vinnu segir stefnda, eins og löndunarvinnu, vera sinnt af lausamönnum í akkorði. Stefnandi hafi gefið kost á sér í þessa vinnu og hafi hann starfað við hana í einhverja daga á sambærilegum kjörum og við löndunarvinnuna. Tekur stefnda fram að stefnandi hafi ekki verið ráðinn til þessara starfa frekar en annarra. Stefnda hafi gert upp við stefnanda vegna þessarar vinnu að fullu.

Þann 10. mars 2001 segir stefnda stefnanda hafa verið tjáð að ekki væri óskað frekara vinnuframlags frá honum. Tekur stefnda hins vegar sérstaklega fram í þessu sambandi að með tilkynningunni hafi stefnanda ekki verið sagt upp í venjulegum vinnuréttarlegum skilningi því samkvæmt framansögðu hafi engu verið upp að segja. Stefnda byggir á því að lausamenn, sem starfi eins og að framan hefur verið lýst, eigi ekki tilkall til uppsagnar við endanleg lok starfssambands og njóti ekki uppsagnarfrest. Á móti komi að þeir fái jafnan mun hærra tímakaup en ráðnir starfsmenn. Umbun löndunarmanna á vegum stefnda taki fullt mið af tilhögun vinnunnar, þar á meðal að ekki sé um uppsagnarfrest að ræða eins og í venjulegu ráðningarsambandi.

Um varakröfu félagsins vísar stefnda til kafla 12.1. í þeim kjarasamningi er stefnandi byggi á í málinu. Samkvæmt greininni eigi verkamaður rétt til einnar viku uppsagnarfrests hafi hann öðlast rétt til fasts vikukaups.

IV.

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sem voru í gildi á þeim tíma er mál þetta tekur til, sagði að lögin giltu um aðilaskipti eða samruna fyrirtækja, atvinnurekstrar eða hluta atvinnurekstrar á hinu Evrópska efnahagssvæði að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heyrði undir íslenska lögsögu.

Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 77/1993 sagði meðal annars að frumvarpið væri lagt fyrir Alþingi vegna fullgildingar samnings um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Með samþykkt frumvarpsins væru lögfestar reglur sem settar væru fram í tilskipun Evrópubandalagsins nr. 77/187 EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar. Þá sagði í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins að með aðilaskiptum samkvæmt frumvarpinu væri átt við þau tilvik þegar nýr aðili, einstaklingur eða lögaðili, yrði lagalega ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækis, atvinnurekstrar eða hluta hans. Afgerandi væri einnig í því sambandi hvort fyrirtækið eða sá hluti þess, sem framseldur væri, héldi áfram rekstri með sama eða svipuðum hætti og áður.

Fram hefur komið í dómum og ráðgefandi álitum EFTA-dómstólsins, sbr. til dæmis ráðgefandi álit dómstólsins frá 25. september 1996 í máli nr. E-2/95 og frá 19. desember 1996 í máli nr. E-2/96, staðfesting á þeirri túlkun dómstóls Evrópubandalaganna að meginviðmiðið við úrlausn þess hvort um sé að ræða aðilaskipti í skilningi fyrrnefndrar tilskipunar Evrópubandalagsins sé hvort hið framselda fyrirtæki haldi einkennum sínum. Þá þurfi að líta til tegundar fyrirtækisins, þess hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld, lausafé eða fasteignir, og hvert sé virði óhlutbundinna verðmæta við aðilaskiptin. Jafnframt þurfi að líta til þess hvort meiri hluti starfsmanna flytjist til framsalshafans og hvort hann hafi haldið viðskiptavinum framseljandans. Öll þessi atriði þurfi að meta heildstætt.

V

Í málinu hefur verið lagt fram bréf Haraldar Böðvarssonar hf. 28. júní 2000 til stefnanda. Í bréfinu segir meðal annars svo: „Eins og fram hefur komið er unnið að skipulagsbreytingum í fiskvinnslu- og þjónustudeild fyrirtækisins á Akranesi. Fyrir liggur m.a. ákvörðun um að vinna við landanir úr skipum fyrirtækisins verði í höndum sjálfstæðs löndunarfélags.“ Í bréfi Haraldar Böðvarssonar hf. 27. júní 2000 til stefnanda og Bjarna B. Jóhannssonar, er þeim var ritað sem kjörnum trúnaðarmönnum, kemur fram þessu til viðbótar að hluti þeirra starfsmanna sem sagt yrði upp ætti kost á að fá störf hjá því löndunarfélagi sem sjá myndi framvegis um landanir úr skipum félagsins.

Framburður vitnisins Guðmundar Páls Jónssonar, starfsmannastjóra Haraldar Böðvarssonar hf., fyrir dómi var í samræmi við efni tilvitnaðra bréfa, enda eru þau rituð af vitninu. Þannig bar vitnið að komist hefði á samkomulag milli Haraldar Böðvarssonar hf. og stefnda, að hluta til munnlegt og að hluta til skriflegt, um að stefnda landaði úr skipum félagsins á Akranesi. Taldi vitnið Harald Böðvarsson hf. að óbreyttu bundið til að láta stefnda annast allar landanir úr skipum félagsins á Akranesi.

Óumdeilt er í málinu að stefnandi hóf störf hjá stefnda við löndun úr skipum Haraldar Böðvarssonar hf. á Akranesi í byrjun desembermánaðar 2000. Frá því í september sama ár þegar stefnda tók yfir þetta verk hafði stefnandi hins vegar sinnt löndun úr skipunum sem starfsmaður Haraldar Böðvarssonar hf. en undir stjórn stefnda.

Samkvæmt framburði forstjóra stefnda, Þórðar Áskels Magnússonar, föður hans og löndunarmanns hjá félaginu, Magnúsar Þórðarsonar og stefnanda sjálfs liggur fyrir að stefnandi slasaðist þegar hann var við störf í sinni annarri löndun eftir að hann hóf formlega störf hjá stefnda. Var stefnandi frá vinnu í nokkurn tíma en kom aftur til starfa hjá stefnda að áliðnum janúarmánuði 2001. Starfaði hann við löndun og hrognatöku hjá stefnda fram til 10. mars það ár en sá dagur var síðasti vinnudagur stefnanda hjá stefnda.

Af gögnum málsins og skýrslutökum fyrir dómi má ráða að vinna við löndun úr ísfisk- og frystitogurum Haraldar Böðvarssonar hf. á Akranesi hafi verið verulegur þáttur í starfi stefnanda hjá félaginu. Samkvæmt öllu framansögðu er ljóst að stefnandi hélt þeim störfum áfram eftir að stefnda tók umrædda starfsemi yfir, fyrst sem starfsmaður Haraldar Böðvarssonar hf., en síðan sem starfsmaður stefnda.

Við yfirfærslu umræddrar starfsemi frá Haraldi Böðvarssyni hf. til stefnda varð engin breyting á því í þágu hvaða aðila þau verk voru unnin sem undir hana féllu. Í því sambandi þykir mega horfa til áðurnefnds framburðar vitnisins Guðmundar Páls Jónssonar um að Haraldur Böðvarsson hf. hafi skuldbundið sig með samningi til að kaupa umrædda löndunarþjónustu af stefnda. Þá þykir jafnframt mega líta til þess að verkefni þau sem stefnda tók að sér fyrir Harald Böðvarsson hf. eru sambærileg verkefnum sem félagið vinnur fyrir ýmsa aðra útgerðaraðila, sbr. framburð Þórðar Áskels Magnússonar.

Í ljósi þeirra ummæla í frumvarpi til laga nr. 77/1993, sem vitnað var til hér að framan, og túlkunar dómstóla Evrópubandalaganna og EFTA-dómstólsins á tilskipun Evrópubandalagsins nr. 77/187 EBE, sem nefnd lög eru grundvölluð á, þykir verða að meta tilfærslu umrædds hluta starfsemi Haraldar Böðvarssonar hf. frá því félagi til stefnda sem aðilaskipti að hluta atvinnurekstrar í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 77/1993. Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum leiðir af þeirri niðurstöðu að áðurnefnd uppsögn stefnanda hjá Haraldi Böðvarssyni hf. var ólögmæt þar sem hún braut gegn 1. mgr. 3. gr. laganna. Þegar stefnandi hóf að starfa fyrir stefnda í desember 2000 tók stefnda því við réttindum og skyldum Haraldar Böðvarssonar hf. samkvæmt ráðningarsambandi félagsins við stefnanda.

VI.

Stefnandi hefur skýrt kröfugerð sína í málinu svo að hún byggi á upplýsingum frá Fiskistofu um landanir úr ísfisk- og frystitogurum Haraldar Böðvarssonar hf. á þeim tveimur tímabilum sem mál þetta varðar. Annars vegar því tímabili sem stefnandi var óvinnufær vegna slyss, frá 13. desember 2000 til 15. janúar 2001, og hins vegar á fjögurra mánaða uppsagnarfresti, frá 1. apríl til 31. júlí sama ár. Einnig byggi kröfugerðin á ákvæðum samkomulags um ákvæðisvinnu við löndun úr togurum og bátum á Akranesi milli Verkalýðsfélags Akraness og Haraldar Böðvarssonar hf. og gildandi kjarasamningi. Þá byggi hluti kröfugerðarinnar vegna hrognatöku á skráningu stefnanda sjálfs á þeim vinnustundum sem unnar hafi verið hjá stefnda eftir uppsögn stefnanda. Að endingu sé kröfugerðin reist á áætlun um vinnustundafjölda við löndun úr frystitogurum annars vegar og ísfisktogurum hins vegar.

Fyrir liggur að um kjör stefnanda síðustu mánuði starfstíma hans hjá Haraldi Böðvarssyni hf. fór samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Verkamannasambands Íslands (Starfsgreinasambands Íslands). Jafnframt gilti um kjör stefnanda áðurnefnt samkomulag um ákvæðisvinnu við löndun úr togurum og bátum á Akranesi, sem undirritað var 16. desember 1997.

Krafa stefnanda um laun í slysaforföllum er studd vottorði Brynjólfs Y. Jónssonar bæklunarlæknis, dags. 17. apríl 2001. Í vottorðinu kemur fram að stefnandi hafi verið óvinnufær frá slysdegi 13. desember 2000 til 15. janúar 2001. Samkvæmt grein 8.1.5. í áðurnefndum kjarasamningi skal greiða starfsmanni staðgengilslaun fyrsta mánuð slysaforfalla.

Samkvæmt framburði stefnanda og vitnisins Magnúsar Þórðarsonar var stefnanda tjáð 10. mars 2001 að stefnda óskaði ekki frekara vinnuframlags frá honum. Er því hafið yfir allan vafa að með þessari yfirlýsingu hafi stefnanda verið sagt upp störfum hjá stefnda. Samkvæmt grein 12.4. í fyrrgreindum kjarasamningi var uppsagnarfrestur stefnanda fjórir mánuðir.

Stefnandi hefur í málinu lagt fram áskorun samkvæmt 67. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, þess efnis að stefnda leggi fram löndunarskýrslur varðandi landanir úr þeim skipum sem kröfugerð stefnanda tekur til þar sem fram komi magn afla og önnur viðmið við útreikning uppgjörs við verkkaupa, sem jafnframt nýtist til uppgjörs launa. Stefnda hefur ekki orðið við þessari áskorun stefnanda. Hefur forstjóri félagsins vísað til þess að umbeðin gögn hafi verið ófullkomin og þeim verið hent er þau höfðu verið nýtt til uppgjörs.

Að áliti dómsins er stefnda ekkert hald í þeirri mótbáru að félagið geti ekki orðið við áskorun stefnanda um að leggja fram umbeðin gögn þar sem þeim hafi verið fargað. Við ákvörðun launa til stefnda, bæði í slysaforföllum og á uppsagnarfresti, þykir því mega miða við framlagðar upplýsingar frá Fiskistofu og áætlun stefnanda um vinnustundafjölda, enda hefur þeirri áætlun stefnanda ekki verið hnekkt af hálfu stefnda.

Óumdeilt er í málinu að umsamið jafnaðarkaup við hrognatöku hjá stefnda hafi verið 1.400 krónur fyrir hverja unna klukkustund. Við framsetningu krafna sinna hefur stefnandi á fyrrgreindum forsendum miðað við að hver löndun úr ísfisktogara hafi gefið 32.100 krónur en hver löndun úr frystitogara 34.200 krónur. Fjölda landana á umræddum tímabilum byggir hann á upplýsingum frá Fiskistofu. Samkvæmt þessu hefur stefnandi sundurliðað kröfu sína svo:

13.-31. des. 2000, tvær landanir úr frystitogara                     kr.        68.400

13.-31. des. 2000, fjórar landanir úr ísfisktogara                    kr.        128.400

1.-15. janúar 2001, tvær landanir úr ísfisktogara                   kr.        64.200

10.-19. mars 2001, laun fyrir hrognatöku                                kr.        179.200

11.-31. mars 2001, tvær landanir úr frystitogara                    kr.        68.200

11.-31. mars 2001, fimm landanir úr ísfisktogara                    kr.        160.500

1.-30. apríl 2001, ein löndun úr frystitogara                           kr.        34.200

1.-30. apríl 2001, ein löndun úr ísfisktogara                           kr.        32.100

1.-31. maí 2001, þrjár landanir úr ísfisktogara                        kr.        96.300

1.-30. júní 2001, þrjár landanir úr frystitogara                        kr.        102.600

1.-30. júní 2001, níu landanir úr ísfisktogara                          kr.        288.900

1.-31. júlí 2001, tvær landanir úr frystitogara                         kr.        68.400

1.-31. júlí 2001, fimm landanir úr ísfisktogara                         kr.        160.500

Samtals                        kr.        1.451.900

Við framsetningu dómkröfu hefur stefnandi síðan tekið tillit til greiðslu stefnda að fjárhæð 110.000 krónur vegna janúar 2001 sem og vinnu stefnanda í lok þess mánaðar við þrjár landanir úr ísfisktogara, en fyrir þá vinnu báru honum samkvæmt áðurgreindum forsendum 96.300 krónur (3 * 32.100 kr.). Til frádráttar frá kröfu stefnanda koma því 13.700 krónur. Jafnframt hefur verið tekið tillit til greiðslna atvinnuleysisbóta á tímabilinu eftir uppsögn stefnanda, samtals að fjárhæð 199.007 krónur. Samkvæmt þessu nemur höfuðstóll dómkröfu stefnanda því 1.239.193 krónur.

Til viðbótar ofangreindu ber að taka tillit til greiðslu stefnda að fjárhæð 85.000 krónur vegna desember 2000 og vinnu stefnanda við löndun úr ísfisktogara fyrir slysið 11. sama mánaðar, en fyrir hana báru stefnanda 32.100 krónur. Koma því 52.900 krónur til frádráttar frá kröfu stefnanda.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður stefnda dæmt til að greiða stefnanda 1.186.293 krónur með dráttarvöxtum, svo sem nánar er rakið í dómsorði.

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem hæfilega þykir ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.

Benedikt Bogason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, Djúpiklettur ehf., greiði stefnanda, Björgólfi Einarssyni, 1.186.293 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 196.800 krónum frá 1. janúar 2001 til 1. febrúar sama ár, en af 247.300 frá þeim degi til 1. apríl sama ár, en af 446.193 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, en af 521.493 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, en af 618.793 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en af 1.010.293 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, en af höfuðstól frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.