Hæstiréttur íslands

Mál nr. 611/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til mánudagsins 19. september 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. lag nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur gert þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fd. [...], verði gert að sæta farbanni, allt til mánudagsins 19. september 2016, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að upphaf málsins sé tilkynning sem lögreglu hafi borist aðfararnótt laugardagsins 3. september 2016 um að maður hafi verið nefbrotinn á Skólavörðustíg og að gerandi hafi hlaupið í átt að Arnarhóli.  Er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi þeir hitt fyrir A, árásarþola, sem talinn hafi verið nefbrotinn og hafi hann fundið til í andliti.  Hafi hann sagst hafa verið fyrir framan skemmtistaðinn B-5 þegar hann hafi verið kýldur í andlitið með krepptum hnefa en af hverju hafi hann ekki vitað. A hafi verið fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar.  Fram komi í frumskýrslu lögreglu að A hafi virst þjáður. Vitni hafi séð þegar A hafi verið kýldur.  Vitnið, dyravörður, hafi greint frá því að hann hafi séð tvo menn vera að rífast og verið að stíga á milli þeirra til að stía þeim í sundur þegar vinur annars mannsins hafi komið og kýlt hinn manninn í andlitið með krepptum hnefa þannig að hann hafi fallið á jörðina og steinrotast. Annað vitni hafi greint frá því að hafa heyrt þegar allt hafi brotnað í andliti brotaþola.

Í skýrslu B, varðstjóra, B, komi m.a. fram að upptökur sýni hvar árásarþoli sé kýldur af miklu afli í andlitið og að svo virðist sem árásarþoli hafi aldrei séð kærða koma að sér þar sem árásarþoli hafi verið með hendur niður með hliðum og horft í aðra átt.  Þá virðist sem árásarþoli hafi misst allan mátt í fótum og fallið í jörðina.

Kærði hafi verið handtekinn skömmu síðar að [...] og hafi lýsing á honum passað við lýsingu vitna.  Hann hafi verið færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu vegna rannsóknar málsins. 

Í bráðabirgðaáverkavottorði fyrir A komi fram að um sé að ræða 21 árs mann sem hafi verið kýldur hægra megin í andlit, og hafi vitni sagt að hann hafi dottið aftur fyrir sig og rotast.  Hann hafi verið nefbrotinn, veruleg tilfærsla hafi verið á nefi hægra megin.  Þá hafi miðnes einnig verið brotið (nasal septum).  Sömuleiðis hafi verið brot í vinstri framvegg kinnbeins. 

Ekki hafi kærði sagst muna eftir neinu því sem gerðist um nóttina.  Hann hafi verið mjög ölvaður og hafi verið búinn að drekka mikið og lengi.  Honum hafi verið sýnd upptaka af atvikinu og hafi hann talið að það væri ekki hann sem væri á upptökunni.   Þá hafi hann ekki kannast við að hafa slegið neinn.

Rannsókn lögreglu sé ekki að fullu lokið og enn eigi eftir að afla ganga vegna   málsins.

Sakborningur sé útlendingur og hafi engin sérstök tengsl við landið og telji því lögregla að ef hann gangi laus muni hann reyna að komast úr landi til að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar og telji lögregla því nauðsynlegt að tryggja nærveru hans á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans sé til lykta leitt. Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 218. gr. almennra hegningarlaga og b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 telji lögreglustjóri nauðsynlegt að sakborningi verði gert að sæta farbanni til mánudagsins 19. september 2016, kl. 16:00.

Niðurstaða

                Með vísan til þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu verður fallist á það með lögreglustjóranum að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um brot gegn 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn  ákvæði þessu getur varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn lögreglu er ekki að fullu lokið og enn á eftir að afla ganga vegna málsins.

Í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að séu uppfyllt skilyrði gæsluvarðhalds skv. 1. eða 2. mgr. 95. gr. laganna geti dómari, í stað þess að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald, bannað sakborningi brottför af landinu. Í 1. mgr. 95. gr. laganna segir að heimilt sé að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda hafi hann náð 15 ára aldri. Auk þess verði að vera fyrir hendi eitthvert af nokkrum skilyrðum, þ. á m. skv. b-lið ákvæðisins að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.

Samkvæmt framansögðu er varnaraðili, sem er eldri en 15 ára, undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Varnaraðili er erlendur ríkisborgari, sem hefur engin sérstök tengsl við Ísland. Eru skilyrði laga til þess að varnaraðili sæti farbanni þannig uppfyllt. Verður því fallist á kröfu um farbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja vera efni til þess að marka farbanni skemmri tíma en krafist er.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

X, fd. [...], skal sæta farbanni, allt til mánudagsins 19. september 2016, kl. 16:00.