Hæstiréttur íslands

Mál nr. 69/2007


Lykilorð

  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. október 2007.

Nr. 69/2007.

Kaupþing banki hf.

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.)

gegn

Borgarfjarðarhreppi

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

K hf. krafði B um greiðslu eftirstöðva skuldabréfs, sem B hafði gengist í einfalda ábyrgð á, ásamt bankakostnaði. Misræmi var milli gagna málsins og málflutnings K hf. fyrir Hæstarétti um hvenær bréfið hefði verið gjaldfellt. Þá lá ekki fyrir sundurliðun og útreikningur á eftirstöðvum skuldabréfsins, en það bar ekki sjálft með sér hverjar eftirstöðvar þess hefðu verið. Krafa K hf. um bankakostnað var heldur ekki sundurliðuð eða studd gögnum. Þóttu kröfur K hf. því svo vanreifaðar að ekki væri unnt að leggja á þær dóm og var málinu því vísað frá héraðsdómi án kröfu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2007. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 539.066 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann bankakostnaðar að fjárhæð 19.465 krónur auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í greinargerðum stefnda fyrir héraðsdómi og Hæstarétti er krafist sýknu þar sem krafa áfrýjanda sé vanreifuð enda sé hún hvorki sundurliðuð né grein fyrir því gerð hvernig hún sé út reiknuð. Þar sem vanreifun leiðir til frávísunar kemur þessi málsástæða ekki til úrlausnar varðandi sýknukröfu stefnda. Það kemur hins vegar til athugunar Hæstaréttar hvort annmarkar séu á málshöfðun áfrýjanda í héraði sem valda eigi frávísun frá héraðsdómi án kröfu.

Í stefnu er krafa málsins að fjárhæð 539.066 krónur sögð vera eftirstöðvar skuldabréfs sem stefndi gekkst upphaflega í einfalda ábyrgð á með samþykkt hreppsnefndar Borgarfjarðarhrepps 17. mars 1997. Stefndi samþykkti síðan á ný ábyrgð sína vegna breytinga á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 2. maí 2000. Með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 26. nóvember 2003 var bú útgefanda skuldabréfsins tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki fékkst neitt greitt úr búinu upp í kröfur áfrýjanda.

Í málinu liggur fyrir bréf frá áfrýjanda til stefnda 17. desember 2003 þar sem stefndi er krafinn um greiðslu gjaldfallinnar afborgunar auk áfallins kostnaðar. Í málflutningi fyrir Hæstarétti kom aftur á móti fram að krafa áfrýjanda um gjaldfellingu skuldabréfsins væri miðuð við 1. nóvember 2003. Í málinu liggur ekki fyrir sundurliðun og útreikningur á hinum umkröfðu eftirstöðvum skuldabréfsins. Þá hafa afborganir af skuldabréfinu heldur ekki verið færðar á það sjálft í samræmi við fyrirmæli 1. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf. Skuldabréfið ber því ekki sjálft með sér hverjar eftirstöðvar þess eru.

Þá gerir áfrýjandi kröfu um greiðslu bankakostnaðar að fjárhæð 19.465 krónur. Í málinu liggur ekki fyrir sundurliðaður útreikningur á þessum kostnaði með vísan til ákvæða skuldabréfsins og að öðru leyti þeirra heimilda sem hann er byggður á. Fyrir Hæstarétti gaf lögmaður áfrýjanda þá skýringu að hluti þessa kostnaðar væri þóknun innheimtufyrirtækis sem hefði reynt að innheimta kröfuna. Í málinu eru engin gögn er styðja þetta eða fela í sér sundurliðun á þeim kostnaði sem þannig hefur fallið til.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, eru kröfur áfrýjanda svo vanreifaðar að dómur verður ekki á þær felldur. Verður að þessu virtu ekki komist hjá því að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Málinu er vísað frá héraðsdómi.

          Áfrýjandi, Kaupþing banki hf., greiði stefnda, Borgarfjarðarhreppi, samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 10. nóvember 2006.

             Mál þetta, sem var dómtekið 6. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Austurlands af Kaupþingi banka hf., Fagradalsbraut 11, Egilsstöðum, á hendur Borgarfjarðarhreppi, Höfn, Borgarfirði eystri, með stefnu þingfestri 18. febrúar  2006.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 539.066  kr. ásamt dráttarvöxtum, frá 1. nóvember 2003 til greiðsludags. Auk þess er krafist bankakostnaðar að fjárhæð 19.465 kr. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Málavextir. 

Hinn 19. mars 1997 gaf Álfasteinn ehf. út til stefnanda skuldabréf að fjárhæð 2.000.000 kr. Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins skyldi Álfasteinn ehf. endurgreiða skuldina með 60 afborgunum á 5 árum, í fyrsta sinn 1. júlí 1997. Lánið bar vexti frá 19. mars 1997 skv. ákvörðun bankans á hverjum tíma, en við útgáfu bréfsins voru þeir 9,85%. Stefndi tókst á hendur einfalda ábyrgð með undirritun sinni á bréfið. 

Hinn 2. maí 2000 var skilmálum fyrrgreinds skuldabréfs breytt. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu skyldi Álfasteinn ehf. greiða stefnanda eftirstöðvar skuldarinnar 1.548.467,40 kr. á 5 árum, þ.e. með 40 afborgunum, átta á ári auk 16 vaxtagjalddaga sem greiðast skyldu þá mánuði sem ekki var greidd afborgun. Lánið bar nú vexti frá 1. maí 2000 skv. ákvörðun bankans á hverjum tíma, en við samþykkt skuldbreytingarinnar voru þeir 9,95%.  Eftirstöðvar skuldabréfsins, er það fór í vanskil hinn 1. nóvember 2003, voru 504.848 kr.  Áfallnir samningsvextir þann dag voru 34.218 kr. og bankakostnaður 19.465 kr. eða samtals 558.531 kr. sem er stefnufjárhæðin.

Bú Álfasteins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Austurlands uppkveðnum hinn 26. nóvember 2003 og lauk skiptum á búinu 8. júlí 2004. Ekki fékkst greitt upp í almennar kröfur við skipti á búi Álftasteins ehf.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Í upphafi tekur stefnandi fram að þegar skilmálum bréfsins var breytt árið 2000 voru greiðslur af skuldabréfinu í verulegum vanskilum og var það mat manna, jafnt fulltrúa skuldara, kröfuhafa og ábyrgðarmanns, að farsælast væri að framlengja ákvæði skuldabréfsins til þess að forða aðalskuldara frá greiðsluþroti. Eftir skilmálabreytinguna hefur aðalskuldari alls greitt 1.629.802 kr. Stefnandi kveðst hafa gert það að skilyrði fyrir framlengingu lánsins að ábyrgð stefnda héldist enda um einu tryggingu efnda sem veitt var. 

                Skilmálabreytingin var sem áður sagði gerð árið 2000. Þágildandi  6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga hljóðaði svo: „Eigi má binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins.“ Stefnandi telur að stefnda hafi þrátt fyrir þetta orðalag verið heimilt að gera umræddar breytingar á þeim skuldbindingum sem hann hafði þá þegar gengist undir. Í því sambandi bendi stefnandi á að framlenging lánsins var gerð eftir mikil vanskil af hálfu aðalskuldara og í þeim tilgangi einum að forða aðalskuldara frá greiðsluþroti sem hefði leitt til að ábyrgð stefnda yrði virk, enda er ábyrgð hans eina tryggingin sem gefin var fyrir greiðslu bréfsins.  Einungis sú fullvissa sem fólst í ábyrgð stefnda kom í veg fyrir að greiðsluskylda hans yrði virk strax í kjölfar vanskila aðalskuldara árið 2000. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 45/1998 eru nefndar tvær ástæður fyrir því að heimild sveitarfélaga til að gangast í einfalda ábyrgð gegn tryggingu sem metin hefur verið gild var felld út.  Fyrri ástæðan er hættan á að raskað sé jafnræði fyrirtækja og samkeppnisstöðu þegar veittar eru slíkar ábyrgðir og 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en þessi rök eiga augljóslega fyrst og fremst við um stofnun nýrra ábyrgða en ekki þegar eldri ábyrgðir eru framlengdar til að forða því að kröfur falli á ábyrgðaraðila. Hin ástæðan er að slæm reynsla hafi verið af þessu ákvæði og það hafi í ýmsum tilvikum stuðlað að áföllum í fjármálum einstakra sveitarfélaga. Það getur því ekki samræmst vilja löggjafans að takmarka heimildir sveitarfélaganna til að semja sig frá því að kröfur samkvæmt eldri ábyrgðum séu gjaldfelldar og beint að þeim. Hinu stefnda sveitarfélagi hlýtur að hafa verið heimilt að forðast áfall í fjármálum sínum með því að samþykkja umrædda skilmálabreytingu og framlengja þannig ábyrgð sína enda var framkvæmd skuldbreytingarinnar þegar á heildina er litið sveitarfélaginu í hag.

                Stefnandi bendir einnig á, að allur vafi um gildi ábyrgðarinnar hljóti að vera túlkaður honum í hag. Það sé eðlilegra að áhættan liggi fremur hjá þeim sem veitir ábyrgðina en þeim sem veitir henni viðtöku. Jafnframt telur stefndi að hagsmunum skuldara og viðskiptalífsins almennt sé kastað fyrir róða ef  kröfuhafi ætti að tapa rétti með því að koma til móts við óskir skuldara og ábyrgðarmanna um rýmkun á greiðslufresti.

                Sé litið svo á að samþykkt stefnda á umræddri skilmálabreytingu sé ógild ber sveitarfélagið samt sem áður ábyrgð samkvæmt upphaflegri ábyrgðaryfirlýsingu sinni. Sé undirritun sveitarfélagsins ógild er hún ógild frá upphafi, sbr. Hrd. nr. 168/1999, og hefur því engin áhrif á upphaflegar skuldbindingar stefnda. Sé hið upphaflega skuldabréf uppreiknað, miðað við greiddar innborganir og þá skilmála er giltu um samband stefnda, stefnanda og aðalskuldara bréfsins, er stefndi undirritaði ábyrgðaryfirlýsingu sína, eru eftirstöðvar þess nú, við útgáfu stefnu þessarar, 1.000.480 kr., sbr. framlagða útreikninga og er það sú fjárhæð sem stefndi hefur gengist undir að ábyrgjast skv. undirritun sinni á umrætt skuldabréf. Því er ljóst að stefnufjárhæðin rúmast innan ábyrgðar stefnda skv. upphaflegri ábyrgðaryfirlýsingu hans.            Samkvæmt 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, fyrnist ábyrgðaryfirlýsing á fjórum árum. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. sömu laga hefst fyrningarfrestur kröfu samkvæmt einfaldri ábyrgðarskuldbindingu á gjalddaga aðalkröfunnar. Það er því ljóst að ábyrgð stefnda samkvæmt eldri ábyrgðaryfirlýsingu sinni er enn í fullu gildi og ófyrnd.

                Um lagarök er vísað til meginreglna samningsréttarins um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936.  Einnig er vísað til vanefndaákvæða bréfsins sjálfs.  Varðandi fyrningu ábyrgðaryfirlýsingarinnar er vísað til 4. tl. 3. gr. og 3. mgr. 5. gr. laga. nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.  Málið er rekið skv. 17. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála.  Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.  Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.  Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.  Varðandi varnarþing vísast til 3. mgr.  33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir kröfu um sýknu á því að ógilt sé samþykki stefnda dags. 2. maí 2000 fyrir samkomulagi Álftasteins ehf. og stefnanda um breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfs útg. 19. mars 1997. Samkvæmt 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1988, sem voru í gildi þegar skilmálum skuldabréfsins var breytt, var sveitarfélaginu óheimilt að gangast í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Um var að ræða fortakslaust bann við veitingu ábyrgða í þágu annarra en stofnana sveitarfélagsins. Stefnda var því í maí 2000 ekki heimilt að samþykkja sem ábyrgðaraðili skilmálabreytingu skuldabréfsins en í þeirri skilmálabreytingu fólst að lán sem var með lokagjalddaga þann 1. júní 2002 var framlengt og lokagjalddagi ákveðinn þann 1. júní 2005. Stefndi bendir á að með skilmálabreytingunni var gerður nýr lánasamningur milli Álfasteins ehf. og stefnanda og var stefnda óheimilt að takast á hendur einfalda ábyrgð á efndum Álfasteins ehf. samkvæmt þeim nýja samningi. Stefndi ber því ekki einfalda ábyrgð á skuldbindingum Álfasteins ehf. samkvæmt samningi Álfasteins ehf. og stefnanda þann 2. maí 2000. Stefndi bar aðeins einfalda ábyrgð á skuldbindingum Álfasteins ehf. samkvæmt skuldabréfi útg. þann 19. mars 1997 og takmarkaðist einföld ábyrgð stefnda við þá skilmála sem greindir eru í því skuldabréfi. Stefndi ábyrgðist því aðeins endurgreiðslu Álfasteins ehf. á fjárhæð skuldabréfsins á tímabilinu 1. júlí 1997 til 1. júní 2002. Stefndi byggir á því að yfirlýsing hans um einfalda ábyrgð á endurgreiðslu skuldabréfsins hafi fallið úr gildi með því að Álfasteinn ehf. og stefnandi sömdu um nýja greiðsluskilmála, enda féllu úr gildi með því samkomulagi skilmálar skuldabréfsins um endurgreiðslu lánsins. Þá hafi fyrri yfirlýsing um einfalda ábyrgð fallið úr gildi eftir að liðinn var sá tími sem ábyrgðin skyldi vara, þ.e. í 5 ár eða til 1. júní 2002.

Í stefnu er á því byggt af hálfu stefnanda að það hafi ekki áhrif á skuldbindingar stefnda skv. upphaflegum ákvæðum skuldabréfsins enda þótt samþykki stefnda á skilmálabreytingu verði metið ógilt.   Þessu er mótmælt af hálfu stefnda. Stefndi telur að einföld ábyrgð hans á greiðslu skuldabréfs útg. 19. mars 1997 rakni ekki við þrátt fyrir að ógilt sé samþykki stefnda á skilmálabreytingu skuldabréfsins sem ábyrgðaraðili. Með skilmálabreytingunni féll úr gildi samningur aðila um greiðsluskilmála og getur fyrri samningur, sem niður var fallinn, ekki tekið gildi að nýju gagnvart stefnda en ekki milli aðila samningsins, Álfasteins ehf. og stefnanda. Í stefnu fullyrðir stefnandi að eftirstöðvar skuldabréfsins skv. upphaflegum skilmálum þess séu 1.000.480 kr. hinn 7. febrúar 2006 og kveður stefnandi það ljóst ,,að stefnufjárhæðin rúmast innan ábyrgðar stefnda skv. upphaflegri ábyrgðaryfirlýsingu hans.“ Stefndi mótmælir þessu sem röngu og órökstuddu. Stefndi bendir á að stefnandi byggi kröfu sína á hendur stefnda alfarið á samkomulagi um breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins og byggir stefnandi ekki kröfur sínar á hendur stefnda á upphaflegum greiðsluskilmálum skuldabréfsins. Verði niðurstaða dómsins sú að ógilt sé samþykki stefnda á skilmálabreytinguna ber því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda, enda byggist krafan aðeins á fyrrgreindri skilmálabreytingu, eins og fyrr greinir.

Verði hins vegar talið að við kunni að rakna ábyrgð stefnda skv. upphaflegum skilmálum skuldabréfsins og að sú krafa rúmist innan kröfugerðar stefnanda er á því byggt að krafa stefnanda á hendur stefnda skv. upphaflegum skilmálum skuldabréfsins sé fyrnd. Þá er á því byggt að ábyrgð stefnda hafi fallið niður að loknum 5 ára lánstíma og að krafa skv. upphaflegum skilmálum sé órökstudd og í raun vanreifuð.  Því beri að sýkna stefnda af kröfunni. Stefndi leggur áherslu á að skv. upphaflegum skilmálum skuldabréfsins skyldi endurgreiða skuldina með 60 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn þann 1. júlí 1997 og í síðasta sinn þann 1. júní 2002. Þegar stefna var birt fyrir stefnda í febrúar 2002 voru a.m.k. fyrndar kröfur skv. skuldabréfinu er féllu í gjalddaga til og með 1. febrúar 2002, sbr. 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Þá byggir stefndi kröfu um sýknu á því að krafa stefnanda sé vanreifuð. Stefndi bendir á að stefnandi sundurliði í stefnu ekki kröfu og geri ekki grein fyrir því hvernig krafan er reiknuð.

             Um lagarök vísar stefndi til reglna samninga- og kröfuréttar, til sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og jafnframt eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, til fyrningarlaga nr. 14/1905.  Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstöður.

             Óumdeilt er í málinu að stefndi, sem er sveitarfélag, hafði samkvæmt 89. gr. laga nr. 8/1986 heimild til að takast á hendur ábyrgð á láni hinn 19. mars 1997 samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 2.000.000 kr. Ágreiningurinn lýtur aftur á móti að ábyrgð stefnda, sveitarfélagins, þegar breyting varð á greiðsluskilmálum skuldabréfsins hinn 2. maí 2000.

Á baksíðu skuldabréfs frá 19. mars 1997, sem liggur frammi í málinu, stendur: „Viðfestur viðauki er hluti þessa skjals.  Breyting greiðsluskilmála dags. 02.05.00 Vanskilum bætt við höfuðstól.  Reiknaðir samningsvextir.  Bréfið greiðist með 40 afborgunum í júní til janúar ár hvert þess á milli greiðast vextir.“ aðalskuldara Undir þessa yfirlýsingu rita forsvarsmenn útibús Búnaðarbankans á Egilsstöðum. Skilmálabreytingin frá 2. maí 2005 fól í sér breytingu á lánstímanum, því samkvæmt skuldabréfinu var lokagjalddaginn 1. júní 2002, en með skilmálabreytingunni var lokagjalddaginn ákveðinn 1. júní 2005.  Þá myndaðist nýr höfuðstóll, þar sem vanskilum var bætt við eldri höfuðstól.  Dómurinn lítur því svo á að hér sé um svo veigamiklar breytingar á skilmálum að ræða, að nýr lánssamningur hafi orðið til.  Stefndi, sveitarfélagið, samþykkti ofangreindar skilmálabreytingar sem ábyrgðaraðili 2. maí 2000, en samkvæmt 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er sveitarfélagi óheimilt að gangast í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Lítur dómurinn því svo á, að undirritun stefnda á skilmálabreytinguna hinn 2. maí 2000 bindi ekki stefnda.  Með því að með skilmálabreytingunni varð til nýr lánssamningur á milli stefnanda og forsvarsmanns Álfasteins ehf., í stað hins eldri, þá geti stefnandi ekki byggt á þeirri ábyrgð sem stefndi veitti með undirritun sinni á skuldabréfið hinn 19. mars 1997.

             Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.  Rétt þykir með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 kr.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ragnar Baldursson hdl.

             Af hálfu stefnda flutti málið Þorsteinn Einarsson hrl.

             Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, Borgarfjarðarhreppur, skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Kaupþings banka hf. Stefnandi greiði stefnda 200.000 kr. í málskostnað.