Hæstiréttur íslands

Mál nr. 135/2003


Lykilorð

  • Dómsuppkvaðning
  • Ómerking
  • Heimvísun


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. október 2003.

Nr. 135/2003.

Jórunn Anna Sigurðardóttir

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

og gagnsök

 

Dómsuppkvaðning. Ómerking. Heimvísun.

J krafði Í um skaðabætur vegna meintra mistaka við læknismeðferð á árinu 1991. Héraðsdómur var kveðinn upp rúmum fjórum vikum eftir að málið hafði verið dómtekið. Var ekki leitað eftir því hvort aðilarnir væru samþykkir því að dómur yrði felldur á málið án þess að það yrði munnlega flutt á ný. Varð því sjálfkrafa að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsuppsögu að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2003. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 22.635.963 krónur ásamt nánar tilgreindum ársvöxtum frá 23. ágúst 1991 til 29. júní 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi í báðum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 18. júní 2003. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðaláfrýjanda og að honum verði gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara krefst hann verulegrar lækkunar stefnufjárhæðarinnar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Málið var tekið til dóms í héraði við lok aðalmeðferðar 18. desember 2002. Dómur var kveðinn upp 20. janúar 2003. Samkvæmt þessu leið lengri tími en fjórar vikur frá því að málið var dómtekið þar til dómur var kveðinn upp. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála bar vegna þessa dráttar að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Málið var ekki flutt að nýju og verður ekkert ráðið af gögnum þess um að aðilum hafi verið gefinn kostur á því. Þá verður ekki séð að aðilarnir hafi lýst yfir að þess gerðist ekki þörf. Vegna þessa verður sjálfkrafa að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju.

Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu dóms að nýju.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2003.

Málið var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Róbert Árna Hreiðarssyni hdl. f.h. Jórunnar Önnu Sigurðardóttur, kt. 260257-7149, Ljósheimum 16b, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu sem birt var 29. júní 1999.  Það var upphaflega dómtekið 15. júní 2000 og dæmt í héraði 11. júlí sama ár.  Málinu var áfrýjað og með dómi Hæstaréttar 29. mars 2001 var dómur héraðsdóms ómerktur svo og málsmeðferð frá og með munnlegum málflutningi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, gagnaöflunar og dómsálagningar að nýju.

Málið var dómtekið að nýju 18. desember 2002.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru:  „Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 22.635.963 kr. ásamt ársvöxtum sem hér greinir: 5,8% af 17.982.600 kr. frá 23. ágúst 1991 til 1. september sama ár, 6,3% frá þeim degi til l. nóvember sama ár, 3,9% frá þeim degi til l. desember sama ár, 3,4% frá þeim degi til 1. janúar 1992, 2,6% frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1,6% frá þeim degi til l. apríl 1992, 1,1% frá þeim degi til l. júní sama ár, 1% frá þeim degi til l. september sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. janúar 1993, 0,9% af 18.063.527 kr. frá þeim degi til l. febrúar sama ár, 1,1% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1% frá þeim degi til 1. apríl sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% frá þeim degi til l. september sama ár, 0,9% frá þeim degi til l. desember sama ár, 0,5% frá þeim degi til 1. janúar 1994, 0,5%, af 18.180.774 kr. frá þeim degi til l. janúar 1995, 0,5% af 18.285.047 kr. frá þeim degi til 1. júní sama ár, 0,6% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til l. janúar 1996, 0,6% af 18.448.207 kr. frá þeim degi til l. mars sama ár, 0,9% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. júní sama ár, 0,7% frá þeim degi til l. nóvember sama ár, 0,8% frá þeim degi til l. janúar 1997, 0,8% af 18.711.253 kr. frá þeim degi til l. febrúar sama ár, 0.9% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til l. júní sama ár, 1% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 0,9% frá þeim degi til l. september sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% af 18.871.639 kr. frá þeim degi til l. mars sama ár, 0,8% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí sama ár, 0,7% frá þeim degi til l. nóvember sama ár, 0,6% frá þeim degi til 1. janúar 1999, 0,6% af 19.219.315 kr. frá þeim degi til l. apríl sama árs, 0,7% af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí sama árs, 0,8% frá þeim degi til 29. júní 1999.  Krafist er dráttarvaxta skv. 10. grein vaxtalaga 25/1987 af 19.266.505 kr. frá 29. júní 1999 til 1. júlí 2001 og skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafist, að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar og dráttarvextir reiknist af þeirri fjárhæð á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 25/1987 og 12. gr. laga nr. 38/2001, í fyrsta sinn 29. júní 2000.

Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun."

                Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.  Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins.  Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar, en málskostnaður þá látinn niður falla.

[...]

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir, Stefán Einar Matthíasson læknir og Þorvaldur Jónsson læknir, kveða upp dóminn, en dómsuppkvaðning hefur dregist um nokkra daga vegna anna dómara.

DÓMSORÐ:

                Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Jórunni Önnu Sigurðardóttur, 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 1995 til 29. júní 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

                Málskostnaður fellur niður.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með er talinn málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Róberts Árna Hreiðarssonar hdl., 1.000.000 krónur.