Hæstiréttur íslands

Mál nr. 260/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. júní 2002.

Nr. 260/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 16. júlí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X nú gæsluvarðhaldsfanga á Litla-Hrauni, verði á  grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 16. júlí 2002 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að kl. 5.48 aðfaranótt laugardagsins 25. maí 2002 hafi lögreglunni í Reykjavík borist tilkynning um að ráðist hefði verið á mann fyrir utan Hafnarstræti 15 í Reykjavík.  Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi maður legið meðvitundarlaus í götunni og hafi hann virst vera mikið slasaður.  Hafi lögreglumönnum verið tjáð að árásarmennirnir hefðu verið tveir en þeir hafi reynst vera farnir af vettvangi.  Maðurinn, sem hafi legið á götunni hafi reynst vera Y.  Y hafi látist á Landspítalanum í Fossvogi sunnudaginn 2. júní sl. af völdum þeirra áverka er hann hafi hlotið í líkamsárásinni.

Meintir árásarmenn hafi gefið sig fram hjá lögreglunni daginn eftir en þeir eru kærði, X og Z. Allmörg vitni hafi verið yfirheyrð í þágu rannsóknar þessa máls.  [...]. Í málinu liggi fyrir upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi miðborgarinnar og sjáist atburðarrás allvel á upptökunum og verði ekki annað ráðið af þeim en atlaga kærða, X, hafi verið svo sem flest vitnin lýsa.

Rannsókn máls þessa hafi staðið yfir nær sleitulaust frá því líkamsárás þessi átti sér stað.  Yfirheyrslum yfir þeim sjónarvottum sem lögreglunni sé kunnugt um sé lokið og þá hafi kærðu verið yfirheyrðir hvor um sig tvívegis.  Að beiðni lögreglu verði gerð krufningsskýrslu hraðað svo sem kostur er.

Kærða hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 26. maí sl. gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag.

Kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa veist að Y [...].  Af atlögu kærðu, X og Z, hafi Y hlotið áverka sem dregið hafi hann til dauða rúmri viku síðar.  Mál þetta varði mjög alvarlegt sakarefni sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi.  Með tilliti til alvarleika brotsins beri því brýna nauðsyn til að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi enda verði að telja að ríkir almannahagsmunir standi til þess.

Verið sé að rannsaka nú ætlað brot kærða sem talið sé varða við 2. mgr. 218. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19,1940.  Bani hafi hlotist af atlögu þessari og geti brot kærða varðað allt að 16 ára fangelsi.  Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

Kærði er undir sterkum grun um að hafa með hrottafengnum hætti veitt Y áverka og með því gerst brotlegur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, en refsing samkvæmt því ákvæði getur varðað allt að 16 ára fangelsi.  Þegar litið er til rannsóknargagna, þ.á m. myndum af atvikum þykja öll efni til þess að fella tilvik það sem hér er til úrlausnar undir ákv. 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991.  Verður krafa lögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhald því tekin til greina.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 16. júlí 2002 kl. 16.00.