Hæstiréttur íslands

Mál nr. 106/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Vitni
  • Framlagning skjals


Föstudaginn 23. mars 2012.

Nr. 106/2012.

Vingþór ehf.

(Eggert Páll Ólason hdl.)

gegn

VBS Fjárfestingabanka hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Kærumál. Aðfarargerð. Vitni. Framlagning skjala.

Með dómi Hæstaréttar 25. nóvember 2010 í máli nr. 715/2009, var félagið K dæmt til að greiða VF hf. skuld, á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar hins fyrrnefnda félags. Eftir að áðurgreindur dómur Hæstaréttar gekk lagði VF hf. fram aðfararbeiðni til sýslumanns, þar sem félagið krafðist fjárnáms hjá K á grundvelli dómsins. V ehf. mótmælti því, sem þriðji maður, að fjárnámsgerðin næði fram að ganga, með vísan til þess að VF hf. hefði framselt sér kröfuna. Sýslumaður lét gerðina engu að síður fram ganga og krafðist V ehf. við svo búið úrlausnar héraðsdóms um fjárnámsgerðina. Í því máli krefst V ehf. þess að leiða tiltekin vitni og VF hf. þess að tiltekin skjöl verði ekki lögð fram. Með úrskurði héraðsdóms var kröfum beggja hafnað. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að hafna kröfu VF hf. að tiltekin dómskjöl yrði ekki lögð fram í málinu. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að í málum sem þessum skyldu vitnaleiðslur- og mats- og skoðunargerðir að jafnaði ekki fara fram, sbr. 94. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989. Taldi rétturinn að V ehf. hefði sýnt fram á að sú hætta gæti verið fyrir hendi að fjárnámið kynni að skerða réttindi félagsins ranglega næði það fram að ganga. Stæði svo sérstaklega á í málinu að skilyrði væru til að víkja frá meginreglu 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989 og heimila félaginu að leiða vitnin.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 8. febrúar 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2012, þar sem hafnað var þeirri kröfu sóknaraðila að vitnaskýrslur verði heimilaðar í máli hans gegn varnaraðilum og þeirri kröfu varnaraðila „að framlögð dómskjöl 15, 17 og 19 verði ekki lögð fram.“ Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum heimilað að leiða sem vitni í málinu Rupinder Cheema, Ólaf Haraldsson, Högna Friðþjófsson og Dagmar Clausen Þórðardóttur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 22. febrúar 2012. Hann krefst þess að framlagningu sóknaraðila á skjölum nr. 15, 17 og 19 verði synjað og að sóknaraðila verði gert að greiða sér málskostnað „vegna þess hluta málsins sem úrskurðurinn varðaði.“ Að öðru leyti krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í héraði var Kcaj LLP stefnt til réttargæslu. Félagið hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Í hinum kærða úrskurði er málsatvikum skilmerkilega lýst, allt frá því Ghost Ltd. tók 2. ágúst 2007 lán að fjárhæð 5.000.000 bresk pund hjá varnaraðila með sjálfskuldarábyrgð Kevin Stanford og Kcaj LLP og þar til ágreiningur reis við fjárnám 14. júní 2011 hjá Kcaj LLP á grundvelli dóms Hæstaréttar 25. nóvember 2010 í máli nr. 715/2009. Eins og fram kemur í úrskurðinum hefur sóknaraðili krafist úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um fjárnámsgerðina og var málið þingfest 15. ágúst 2011. Í málinu krefst sóknaraðili þess að leiða hin tilgreindu vitni og varnaraðili að skjöl þau sem nánar er lýst í úrskurðinum verði ekki lögð fram, og er úrlausn héraðsdóms um þau atriði hér til endurskoðunar.

II

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða hans að ekki verði synjað um framlagningu skjala nr. 15, 17 og 19 í málinu.

III

Ágreiningur málsaðila snýst um hvort leiða megi fyrrgreind vitni fyrir dóm, sbr. 94. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessum ákvæðum skulu vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir að jafnaði ekki fara fram í málum sem rekin eru eftir 15. kafla laganna. Af því leiðir eins og greinir í forsendum hins kærða úrskurðar að í slíku máli skal hvorki leiða vitni né leggja fram mats- og skoðunargerðir nema í sérstökum undantekningartilvikum. Kemur þá til úrlausnar hvort svo sérstaklega standi á í máli þessu.

Fyrst er þess að geta að Ghost Ltd. tók 2. ágúst 2007 lán að fjárhæð 5.000.000 bresk pund hjá varnaraðila með sjálfskuldarábyrgð Kevin Stanford og Kcaj LLP. Lánið fór í vanskil á fyrsta gjalddaga og var gjaldfellt 21. október 2008 en bú Ghost Ltd. hafði þá verið tekið til skipta. Í kjölfarið kom upp deila um gildi ábyrgðarskuldbindingarinnar og höfðaði varnaraðili mál á hendur ábyrgðarmönnunum 6. janúar 2009. Með dómi Hæstaréttar 25. nóvember 2010 í máli nr. 715/2009 var gildi ábyrgðarinnar staðfest og ábyrgðarmennirnir dæmdir til að greiða hvor fyrir sig varnaraðila 2.500.000 sterlingspund.

Á tímabilinu frá því fyrrgreint mál um gildi ábyrgðarinnar var höfðað og þar til dómur Hæstaréttar gekk gerði varnaraðili tvo samninga um kröfu þá sem dómur Hæstaréttar varðaði. Annars vegar svokallað kröfuhafasamkomulag 29. janúar 2009 sem fól í sér fyrirkomulag um greiðslur Kcaj LLP á kröfum til þeirra lánardrottna sem aðild áttu að samkomulaginu, þar með talið til varnaraðila. Í gr. 8.1 í samkomulaginu sagði að kröfurnar skyldu greiddar af Kcaj LLP þegar eignasafni hans hefði verið ráðstafað eftir því sem þar var tiltekið. Í gr. 10.1 og 10.2 sagði að varnaraðili hefði höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Kcaj LLP og Kevin Stanford 8. janúar 2009 til að knýja á um að staðið yrði við skilmála ábyrgðar varnaraðila og að skorið yrði úr um gildi ábyrgðar hans af héraðsdómi í því máli. Þá sagði í gr. 10.3: „Ef niðurstaða [H]éraðsdóms Reykjavíkur (eða Hæstaréttar Íslands, ef málinu verður áfrýjað) verður sú að ábyrgð [varnaraðila] sé gild skulu réttindi [varnaraðila] samkvæmt ábyrgðinni fá stöðu kröfu í skilningi samnings þessa og [varnaraðili] skal fá það greitt sem [honum] ber samkvæmt grein 8, þ.m.t. það sem hefur verið lagt inn á geymslureikning vegna ábyrgðar [varnaraðila]. Í gr. 18.1 sagði að aðilar samningsins gætu hvenær sem er „framselt (að fullu eða sem tryggingu að öllu leyti eða að hluta) flutt, veðsett eða ráðstafað á annan hátt réttindum sem leiða af skuldbindingum annars samningsaðila eða réttindum sem felast í eða leiða af samningi þessum.“

Hins vegar er kaupsamningur 31. ágúst 2009 milli varnaraðila og sóknaraðila þar sem sá fyrrnefndi seldi hinum síðarnefnda nánar tilgreindar fjárkröfur. Í 1. gr. sagði meðal annars að sóknaraðili samþykkti að kaupa eftirtaldar fjárkröfur: „... 1.7. Fjárkrafa, í erlendum myntum, skv. ábyrgð sem Kcaj LLP., ... tókst á hendur sem ábyrgðaraðili ... á lánssamningi dags. 02.08.2007, milli [varnaraðila], sem lánveitanda, og Ghost Ltd., sem lántaka, um lán að fjárhæð upphaflega GBP 5.000.000 ... [Varnaraðili] hefur stefnt Kcaj til greiðslu ábyrgðarkröfunnar ... Kcaj LLP. hefur hafnað greiðsluskyldu skv. ábyrgðinni og hefur tekið til varna í áðurnefndu dómsmáli. ... [Varnaraðili] skuldbindur sig til þess að standa straum af öllum kostnaði sem hlýst af málarekstri Lex lögmannsstofu, í ofangreindu máli [varnaraðila] gegn Kcaj“.  Í gr. 2.1 kom meðal annars fram að kaupverðið væri 4.344.773.656 krónur og sundurliðaðist „með eftirfarandi hætti: ... Fjárkröfur á hendur Kcaj skv. greinum 1.5., 1.6. og 1.7. kr. 1.772.929.319.-“ 

Meðal gagna málsins er tilkynning varnaraðila til Lex lögmannsstofu 27. október 2009 þar sem segir: „Það tilkynnist hér með að [varnaraðili] ... hefur framselt [sóknaraðila] ... kröfu sína um greiðslu ábyrgðar samkvæmt lánssamningi, dags. 2.8.2007 að fjárhæð GBP 5.000.000,- milli Ghost Ltd. sem lántaka og Kcaj LLP og Kevin Stanford sem ábyrgðarmönnum, sem [varnaraðili] hefur falið Lex lögmannsstofu að innheimta fyrir sína hönd. Er þess óskað að Lex lögmannsstofa haldi áfram að vinna að innheimtu ofangreindrar kröfu og málarekstri vegna kröfunnar fyrir dómstólum, allt þar til málaferlum lýkur. [Varnaraðili] mun áfram vera Lex ... innan handar við vinnslu málsins og standa straum af kostnaði vegna innheimtu kröfunnar og málaferlanna.“ Um framsal krafnanna og tilkynningar til skuldara voru ákvæði í 3. gr. kaupsamningsins 31. ágúst 2009, og um framkvæmd framsals fjárkrafna samkvæmt greinum 1.5, 1.6 og 1.7 voru ákvæði í grein 4.5 samningsins.

Eins og áður segir var með dómi Hæstaréttar 25. nóvember 2010 í máli nr. 715/2009 staðfest gildi ábyrgðar þeirrar sem Kcaj LLP og Kevin Stanford höfðu undirgengist samkvæmt framansögðu. Voru ábyrgðarmennirnir í samræmi við það dæmdir til að greiða hvor fyrir sig varnaraðila 2.500.000 sterlingspund. 

Næst bar svo við að 6. maí 2011 var undirritaður samningur um geymslugreiðslu milli sóknaraðila, varnaraðila, Kcaj LLP og Logos slf. og Logos Legal Services Ltd. Þar sagði í gr. 1(D) að varnaraðili og sóknaraðili deildu um framsal ábyrgðarkröfunnar og haldi báðir því fram að þeir séu eigendur kröfu á hendur Kcaj LLP samkvæmt fyrrgreindum hæstaréttardómi. Í gr. 4.2 í samningnum lýstu málsaðilar yfir að greiðsla til annars hvors þeirra með fyrirvara um gr. 7.1 í samningnum „jafngildi fullu og endanlegu uppgjöri af hálfu Kcaj samkvæmt Ghost-dómnum.“ Í 7. gr. samningsins var ákvæði um við hvaða aðstæður Logos skyldi greiða annað hvort varnaraðila (gr. 7.1(ii)) eða sóknaraðila (gr. 7.1(iii)) geymslufjárhæðina. Var í því sambandi við það miðað að hvor aðili um sig legði fram skriflega sönnun þess að þar til bær dómstóll eða stjórnvald á Íslandi hefði veitt viðkomandi aðila heimild „til að fullnusta Ghost-dóminn án þess að um frekari áfrýjun sé að ræða [...].“ Í gr. 7.1(ii) sagði: „Til að taka af allan vafa þá skal ekkert í þessum hluta greinar 7.1. skilið sem svo að láta eigi geymslufjárhæðina lausa ef [varnaraðili] framvísar Ghost-dómnum við umsjónaraðila geymslureiknings án þess að heimild fyrir fullnustu Ghost-dómsins hafi verið veitt af viðeigandi dómstóli eða stjórnvaldi, eins og fyrr greinir.“ Þá sagði í gr. 7.1(iv): „Geymslufjárhæðin skal látin laus og afhent [sóknaraðila] hafi [varnaraðili] ekki, innan 180 daga frá undirritun samnings þessa, afhent umsjónaraðila geymslureiknings sannanir fyrir því að hann hafi hafið formlegar aðgerðir fyrir þar til bærum dómstól eða stjórnvaldi á Íslandi til að fullnusta Ghost-dóminn.“ Kcaj LLP reiddi af hendi við Logos geymslufjárhæðina 10. maí 2011.

Í framhaldi af þessu, eða 13. maí 2011, lagði varnaraðili fram aðfararbeiðni hjá sýslumanninum í Reykjavík og krafðist á grundvelli fyrrgreinds dóms Hæstaréttar fjárnáms hjá gerðarþola Kcaj LLP. Við fyrirtekt beiðninnar 14. júní 2011 benti lögmaður varnaraðila á innstæðuna á geymslureikningnum til fjárnáms. Sóknaraðili var viðstaddur fyrirtektina sem þriðji maður og mótmælti framgangi gerðarinnar. Í endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík af þeirri fyrirtekt segir meðal annars: „Lagt er fram: ... 3. Vörslureikningssamn. (Escsrow Agreement), dags. 06.05.2011 ... 5-13. Mótmæli [varnaraðila] og fylgiskjöl ... Lögmaður [varnaraðila] bendir á gr. 7.1 (ii) í skjali nr. 3, en þar komi fram að veita eigi frest á gerðinni undir þessum kringumstæðum. Einnig lýsir hann því hér með yfir að hann muni leita til Héraðsdóms til að fá gerðinni hnekkt. Sýslumaður ákveður að gerðinni verði framhaldið að kröfu gerðarbeiðanda ... Ari Karlsson hdl. mótmælir því fyrir hönd Logos slf. að hið fjárnumda verði tekið úr vörslum Logos slf. með vísan til Escrow Agreement skjal 3 þar sem gerðarbeiðandi og [sóknaraðili] meðal annarra sömdu um skilyrði útgreiðslu hins fjárnumda og þar sem Logos slf. voru fengnar vörslur hins fjárnumda.“

IV

Með dómi Hæstaréttar 25. september 2010 í máli nr. 715/2009 var eins og áður segir staðfest sjálfskuldarábyrgð sú sem Kcaj LLP og Kevin Stanford gengust í gagnvart  varnaraðila vegna lántöku Ghost Ltd. hjá hinum fyrrnefnda. Var Kcaj LLP á grundvelli þeirrar ábyrgðar dæmdur til að greiða varnaraðila 2.500.000 bresk sterlingspund með tilgreindum dráttarvöxtum. Varnaraðili var samkvæmt hljóðan dómsins eigandi þeirrar kröfu sem þar var dæmd að efni til og hann því að öðru jöfnu réttur aðili til að leita með aðför fullnustu dómkröfunnar, sbr. 1. töluliður 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.

Til þess er á hinn bóginn að líta að við aðfarargerðina 14. júní 2011 mætti sóknaraðili eins og fyrr greinir sem þriðji maður og andmælti framgangi hennar á þeim grundvelli að hann væri eigandi fjármuna á reikningi þeim sem fjárnáms var leitað í. Til stuðnings þeirri staðhæfingu vísaði sóknaraðili til og lagði fram meðal annars kröfuhafasamkomulagið 29. janúar 2009, kaupsamninginn 31. ágúst 2009 og samkomulagið um geymslugreiðsluna 6. maí 2011, en efni þessara samninga er rakið í kafla III hér að framan að því marki sem máli skiptir við úrlausn þess ágreinings sem hér er til umfjöllunar. Þá lagði sóknaraðili og fram við aðfarargerðina tilkynningu varnaraðila til Lex lögmannsstofu 27. október 2009 um framsal ábyrgðarkröfunnar en efni hennar er einnig áður rakið. Þegar efni tilkynningarinnar og framangreindra samninga er virt, það haft í huga að falsleysi þessara gagna er ekki vefengt og litið er til skýringa sóknaraðila á því af hverju hann lýsti ekki kröfu í bú varnaraðila, en sjónarmið sóknaraðila í þeim efnum eru rakin í hinum kærða úrskurði, þykir sóknaraðili nægjanlega hafa sýnt fram á að sú hætta geti verið fyrir hendi að fjárnámið 14. júní 2011 kunni að skerða réttindi hans ranglega nái það fram að ganga. Stendur samkvæmt þessu svo sérstaklega á í málinu að skilyrði eru til að víkja frá meginreglu 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989 og heimila sóknaraðila að leiða vitni þau sem hann hefur óskað.

Eftir þessum málsúrslitum verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Sóknaraðila, Vingþór ehf., er heimilt að leiða Rupinder Cheema, Ólaf Haraldsson, Högna Friðþjófsson og Dagmar Clausen Þórðardóttur sem vitni í máli þessu.

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um framlagningu skjala.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2012.

Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar 1. desember sl., um þá kröfu sóknaraðila að fá að leiða nánar tilgreind vitni, er höfðað af Vingþóri ehf., kt. 420709-0480, Aust­ur­stræti 16, Reykjavík, á hendur VBS fjárfestingarbanka, kt. 621096-3039, Suður­lands­braut 22, Reykjavík, til þess að fá fellda úr gildi fjárnámsgerð Sýslumannsins í Reykja­vík, nr. 011-2011-05273, sem fór fram, 14. júní 2011, að kröfu varnaraðila í innstæðu á fjár­vörslu­reikn­ingi nr. 515-29-500099 að fjárhæð 2.678.598,3 bresk pund.

Réttargæsluaðili, Kcaj LLP, breskt félags­númer OC 317991, 42 New Broad Street, London, Bretlandi, lætur málið ekki til sín taka að öðru leyti en því að hann krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málsatvik

Málavextir eru þeir að enska félagið Ghost Ltd. tók 5.000.000 breskra punda að láni hjá varnaraðila, 2. ágúst 2007. Að lánssamningnum voru tveir ábyrgðarmenn, annars vegar Kevin Stanford og hins vegar Kcaj LLP, sem hefur réttargæsluaðild að þessu dóms­máli en var gerðar­þoli hinnar umdeildu fjárnámsgerðar hjá sýslumanni.

Að sögn varnaraðila var fyrsta afborgun lánsins, á gjald­daga 30. september 2008, ekki greidd og gjald­felldi hann því allt lánið, 21. októ­ber 2008, og krafðist greiðslu. Þar sem greiðslan var ekki innt af hendi krafði varn­ar­aðili ábyrgðarmenn lánsins um greiðslu þess, en bú lán­tak­ans, Ghost Ltd., hafði þá verið tekið til skipta. Ágreiningur reis um greiðslu­skyldu ábyrgð­ar­mannanna og höfðaði varnaraðili mál á hendur þeim fyrir Héraðs­dómi Reykjavíkur, 6. janúar 2009. Með dómi héraðsdóms, 2. október 2009, var réttar­gæslu­aðili sýknaður. Varnaraðili áfrýjaði þeim dómi og með dómi Hæstaréttar, 25. nóvember 2010, í máli nr. 715/2009, var réttargæsluaðili dæmdur til að greiða varn­ar­aðila 2.500.000 bresk pund, ásamt 10,45% dráttar­vöxtum á ári frá 12. desember 2008 til greiðslu­dags, og 3.000.000 króna í máls­kostnað.

Á meðan málið var rekið fyrir dómi gerði varnaraðili tvo samninga sem varða þá kröfu sem dómur Hæstaréttar fjallar um. Annars vegar gerðu kröfuhafar réttar­gæslu­aðila, þar á meðal varnaraðili, sérstakt kröfuhafasamkomulag (e. Creditors Agree­ment), 29. janúar 2009, um greiðslur réttargæsluaðila, Kcaj LLP, á kröfum þeirra kröfu­hafa sem áttu aðild að samningnum. Hins vegar gerði varnaraðili kaup­samn­ing við sóknaraðila, 31. ágúst 2009, þar sem hann keypti af honum hluti í sókn­ar­aðila fyrir 4.344.773.656 krónur og greiddi fyrir þá með ýmsum kröfum og greiðslu­lof­orðum.

Að sögn sóknaraðila seldi varnaraðili honum, með kaup­samningnum, 31. ágúst 2009, nánar til­teknar eignir, þeirra á meðal fjárkröfur varnaraðila á hendur réttar­gæslu­aðila, þar með talið fjár­kröfu sem sé skilgreind þannig í samningnum, í gr. 1.7.:

Fjárkrafa, í erlendum myntum, skv. ábyrgð sem Kcaj LLP., [...], tókst á hendur sem ábyrgð­ar­aðili (e. guarantor) á lánssamningi dags. 02.08.2007, milli VBS [varn­ar­aðila], sem lánveitanda, og Ghost Ltd., sem lántaka, um lán að fjár­hæð upphaflega GBP 5.000.000.

Ábyrgð Kcaj LLP., skv. framagreindum lánssamningi takmarkast við GBP 2.500.000 auk áfallinna vaxta, en VBS hefur stefnt Kcaj til greiðslu ábyrgðar­kröfunnar, og nemur dóm­krafa skv. stefnu dags. 4. desember 2008 með drátt­ar­vöxtum GBP 2.618.238,93. Kcaj LLP. gekkst undir skuldbindingu sem ábyrgð­ar­aðili (e. guarantor) með undirritun á lánssamninginn, en ekki var gerð sérstök yfir­lýsing milli VBS og Kcaj vegna ábyrgð­ar­innar. Kcaj LLP. hefur hafnað greiðslu­skyldu skv. ábyrgðinni og hefur tekið til varna í áður­nefndu dómsmáli.

VBS skuldbindur sig til þess að standa straum af öllum kostnaði sem hlýst af mála­rekstri Lex lögmannsstofu, í ofangreindu máli VBS gegn Kcaj og Kevin Stan­ford, sem einnig er stefnt sem ábyrgðaraðila, vegna hinnar seldu ábyrgð­ar­kröfu, sbr. grein 1.7., sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og eftir atvikum, Hæstarétti Íslands.

Kaupverð framangreindrar fjárkröfu og annarra fjárkrafna á hendur réttar­gæslu­aðila sem varnaraðili hafi selt sóknaraðila samkvæmt gr. 1.5. og 1.6. í kaup­samn­ingum, hafi numið 1.772.929.319 krónum, sbr. gr. 2.1. í kaup­samn­ingnum. Sókn­ar­aðili hafi að fullu greitt fyrir þær eignir sem hann keypti með samn­ingnum, þar með talda margnefnda fjárkröfu samkvæmt gr. 1.7. Með kaup­samn­ingnum hafi varnaraðili einnig framselt sóknaraðila öll rétt­indi og skyldur samkvæmt framangreindu sam­komu­lagi kröfuhafa réttargæsluaðila, Kcaj LLP, sbr. gr. 1.5. í samn­ingnum. Rétt­ar­gæslu­aðila hafi verið tilkynnt um þetta framsal með sér­stakri til­kynn­ingu, dags. 27. október 2009, og einnig um fram­sal annarra seldra fjárkrafna.

Frá því að dómur Hæsta­réttar í framangreindu máli, nr. 715/2009, gekk, 25. nóvember 2010, hafi sóknar- og varnaraðili deilt um hvor þeirra eigi rétt til greiðslu á grund­velli sjálfskuldarábyrgðar réttargæsluaðila og hafi báðir gert til­kall til hennar, sbr. D-lið 1. gr. samkomulags um geymslu­greiðslu (e. Escrow Agreement). Í því skyni að skilgreina ágreininginn milli sóknar- og varnar­aðila og jafnframt að gera rétt­ar­gæsluaðila kleift að fullnægja greiðsluskyldu sam­kvæmt dóm­inum hafi sóknar-, varnar- og réttargæsluaðili, ásamt Logos slf., sem umsjónaraðila geymslu­reiknings (e. Escrow Agent), og Logos Legal Services Limited, gert með sér, 6. maí 2011, sérstakt sam­komu­lag um geymslu­greiðslu. Réttargæsluaðili hafi greitt geymslu­fjárhæðina (e. Escrow Amount), 10. maí 2011, samtals 2.676.918 bresk pund, inn á geymslu­reikn­ing­inn í samræmi við 6. gr. samkomulagsins. Í samkomulaginu lýsi sóknar- og varn­ar­aðili yfir að með því að greiða geymslu­fjár­hæðina hafi réttar­gæslu­aðili fullnægt greiðslu­skyldu sinni samkvæmt dóminum. Bæði sóknar- og varn­ar­aðili þessa máls hafi þannig samþykkt að með framangreindri greiðslu full­nægði réttar­gæslu­aðili greiðslu­skyldu sinni í peningum.

Hinn 9. apríl 2010 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sóknaraðili kveðst ekki hafa lýst kröfu í búið þar sem honum hafi, á þeim fresti sem hafi verið veittur til að lýsa kröfum í bú varnar­aðila, ekki verið kunnugt um afstöðu varnaraðila til þeirrar kröfu sem sóknar­aðili telur sig eiga samkvæmt kaupsamningi þeirra, gerðum 31. ágúst 2009. Hann hafi því ekki haft hug­mynd um að ástæða væri til að lýsa kröf­unni.

Hinn 13. maí 2011 hafi varnaraðili lagt fram aðfararbeiðni hjá Sýslumanninum í Reykjavík, þar sem hann hafi krafist þess að fjárnám yrði gert í nánar tilteknum reikn­ingi Logos, vegna kröfu sinnar á hendur réttargæsluaðila á grundvelli fram­an­greinds dóms. Með heimild í 28. gr. laga um aðför nr. 90/1989, sbr. 27. gr. sömu laga, hafi sóknar­aðili verið viðstaddur þegar aðfararbeiðni varnaraðila var tekin fyrir hjá sýslu­manni, 6. júní sl. Hann hafi mótmælt framgangi gerðar­innar og krafist þess að aðfarar­beiðni varnaraðila yrði hafnað. Sýslumaður hafi ákveðið að fresta aðfarar­gerð­inni til 14. júní 2011. Þann dag hafi sýslu­maður ákveðið að aðfarar­gerðin skyldi ná fram að ganga og hafi gert fjárnám í innstæðu á fjár­vörslu­reikn­ingi nr. 515-29-500099 að fjár­hæð 2.678.598,3 bresk pund eftir ábend­ingu varnaraðila. Sókn­ar­aðili hafi mót­mælt því að fjár­nám yrði gert og hafi farið fram á að aðfarargerð yrði frestað þar til leyst yrði úr ágreiningi um hana fyrir héraðs­dómi. Logos, sem umsjónar­aðili geymslu­reikn­ings hins fjárnumda, hafi mót­mælt því að hið fjárnumda yrði tekið úr sínum vörslum. Varnaraðili hafi mót­mælt því að aðfarar­gerð yrði frestað og hafi sýslu­maður ákveðið að aðfarargerð yrði fram haldið að kröfu varnaraðila. Þeirri ákvörðun sýslu­manns skaut sóknaraðili til héraðs­dóms, 13. júlí 2011, með kröfu um ógild­ingu hennar.

Ágreiningsmál vegna ákvörðunar sýslumanns var þingfest 15. ágúst sl. Á dóm­þingi 25. nóvember krafðist sóknaraðili þess að dómurinn heimilaði vitna­leiðslur í mál­inu og krafðist þess að fyrir dóminn kæmu til að gefa skýrslu Rupinder Cheema, fyrr­verandi framkvæmdastjóri réttargæsluaðila, Ólafur Haraldsson hrl., sem hafi rekið mál varnaraðila á hendur réttargæsluaðila, Högni Friðþjófsson, fyrr­verandi for­stöðu­maður lögfræðisviðs VBS fjár­fest­ingar­banka hf., og Dagmar Clausen Þórðardóttir, fyrr­verandi starfsmaður VBS fjár­fest­ingar­banka hf.

Varnaraðili mótmælti því að fallist yrði á vitnaleiðslur þar sem slíkt væri í and­stöðu við málsmeðferðarreglur laga nr. 90/1989 um aðför. Hann mótmælti því einnig að sóknaraðili fengi að leggja fram tiltekin skjöl. Málinu var þá frestað til 1. desember síðast­liðinn til mál­flutn­ings um þennan tvískipta ágreining málsaðila. Réttargæsluaðili lét þennan ágrein­ing ekki til sín taka en krafðist þess að tillit yrði tekið til þessarar fyrirtöku við ákvörðun endanlegs málskostnaðar.

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili krefst þess að fá að leiða áðurgreind vitni fyrir dóminn til að stað­festa skjöl sem hafi verið lögð fram í málinu og bera að öðru leyti um málsatvik eins og þeim sé um þau kunnugt. Þessa kröfu styður hann þeim rökum að í 90. gr. laga nr. 90/1989 um aðför segi aðeins að að jafnaði skuli vitnaleiðslur ekki fara fram en ákvæðið útiloki ekki að vitni séu kvödd til.

Þegar gerðarbeiðandi krefjist aðfarar byggi hann þá kröfu sína að jafnaði á aðfar­ar­hæfum kröfum sem að meginreglu eigi að vera það skýrar að tilvist og efni þeirra þarfnist ekki frekari sönnunargagna. Staðan sé þá jafnframt sú að gerðarþoli hafi haft tækifæri til að grípa til varna á fyrri stigum málsmeðferðarinnar og þar hafi óvissu um eignarrétt að kröfunum verið eytt. Í þessu tilviki séu málsatvik sérstök og skipti þar einkum tvennt máli.

Í fyrsta lagi sé það þriðji maður, en ekki gerðarþoli, sem mótmæli gerð­inni. Hann hafi ekki átt þess kost að koma við vitnaleiðslu á fyrri stigum málsins. Eðlilegt sé að takmarka rétt gerðarbeiðanda og gerðarþola til að leiða vitni en ekki sé tilefni til að takmarka rétt þriðja aðila til að leiða vitni þegar svona standi á.

Í öðru lagi fjalli sá dómur Hæsta­réttar, sem krafa varnaraðila um aðför byggist á, ekki um framsal kröfunnar milli aðila þessa ágreiningsmáls að neinu leyti, hvorki kaup­samn­inginn né fram­salið enda hafi málinu verið stefnt fyrir dómstóla áður en varn­ar­aðili seldi sóknaraðila kröfuna og sóknaraðili hafi ekki átt aðild að dómsmálinu.

Sóknaraðili bendir á að nái aðfarargerðin fram að ganga, án þess að hann fái að leiða vitni fyrir dóminn, hafi það ranglega skert réttindi hans. Enn hafi ekki verið úr því skorið hvort hann eigi þau réttindi sem séu grundvöllur kröfu varnar­aðila um aðför.

Í greinargerð sinni byggi varnaraðili á því að þar sem hann hafi aðeins lofað greiðslu hafi sóknaraðila borið að lýsa þeirri kröfu í slitabú varnar­aðila á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti. Það hafi hann ekki gert og því sé krafan fallin niður fyrir vanlýsingu, sbr. 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Með þessu sé varn­ar­aðili að segja að sóknaraðili hefði átt að eftirláta varnar­aðila að taka við peningunum og lýsa svo kröfu í búið. Þetta hafi sóknaraðili ekki gert vegna þess að réttargæsluaðila hefði verið tilkynnt um framsal kröf­unnar áður en bú varnaraðila hafi verið tekið til slita og sú afstaða varnaraðila að hann hefði ekki framselt sóknaraðila kröfuna hefði ekki komið fram fyrr en eftir að kröfu­lýs­ing­ar­frestur var runninn út. Kröfulýsing sókn­ar­aðila komist ekki lengur að í slitabú varnar­aðila. Eigi sókn­ar­aðili þessi réttindi í raun og veru og aðförin nái fram að ganga hafi hann glatað öllum rétti til greiðslunnar. Í raun yrði tjón hans margfalt á við það sem varnar­aðili viður­kenni.

Sóknaraðili hafi, með málatilbúnaði og gagnaframlagningu, sýnt fram á að hann eigi þá fjárkröfu sem sé grundvöllur aðfarar varnaraðila. Að minnsta kosti hafi sókn­ar­aðili byggt á því að það sé óvíst að varnaraðili eigi kröfuna.

Í greinargerð sinni mótmæli varnaraðili margítrekað sem rangri og ósannaðri þeirri full­yrð­ingu sóknaraðila að sú krafa sem Hæstaréttardómurinn fjalli um hafi einhvern tíma verið framseld sóknaraðila. Ekkert hafi verið lagt fram í málinu því til stuðnings og því verði að hafna þeirri máls­ástæðu. Þannig neiti varnaraðili því að skjölin séu til þótt þau hafi verið lögð fram ásamt tölvupóstum frá skuldaranum þess efnis að hann viti að sóknaraðili sé kröfuhafinn. Af þessum sökum sé sóknaraðila nauð­syn­legt að fá vitnin til að staðfesta að þessi skjöl séu til, til dæmis framlagða til­kynn­ingu um framsal (notifica­tion of assignment), og undir hvaða kringumstæðum þau hafi verið útbúin. Svo og að fá fyrirsvarsmann skuldarans til að staðfesta að sókn­ar­aðili sé rétt­mætur eigandi kröfunnar.

Einnig sé fullt tilefni til að spyrja þann lögmann, sem flutti málið fyrir Hæsta­rétti og í héraði, hvort einhver ákvörðun hafi verið tekin um að tilkynna ekki um breytta aðild í málinu og hver aðdragandi þess var en hann sé einn þeirra sem sókn­ar­aðili óski að leiða sem vitni.

Í ljósi þess að varnaraðili mótmæli ítrekað í greinargerð sinni staðhæfingum sóknaraðila um að gögn um framsalið séu til og framlögðum gögnum á þeim grunni að skjölin séu röng eða ósönnuð verði sóknaraðili einfaldlega að fá tækifæri til að leiða fyrir dóminn vitni sem geti staðfest þetta.

Sóknaraðili ítrekar að hann sé þriðji aðili sem hafi ekki haft tækifæri til að koma fyrr að umræddum málsástæðum enda hafi hann ekki verið aðili að dóms­mál­inu. Þar sem varnir hans hafi ekki komist að fyrr en á þessu stigi málsins telji sókn­ar­aðili að svigrúm sé til að leiða vitnin fyrir dóminn til að staðfesta þau skjöl sem liggja fyrir og jafnvel svara spurningum um málsatvik.

Vegna mótmæla varnaraðila við gagnaframlagningu sóknaraðila vísar sóknar­aðili til þess að bókanir hans séu ekki sönnunargögn heldur séu þær lagðar fram til að skýra samhengi framlagðra skjala. Í einni bókuninni endursegi sóknaraðili efni annars skjals sem sé á erlendu tungumáli. Verði framlagning bókunarinnar ekki heimiluð muni hann ein­fald­lega láta þýða skjalið. Í annarri tengi hann skjal, sem varnaraðili hafi samið, inn í málsástæður sínar og nauðsynlegt hafi verið að skýra, með framlögðum vitnalista, hvaða skjal hvert og eitt vitni ætti að staðfesta.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili krefst þess í fyrsta lagi að hafnað verði þeirri kröfu sóknaraðila að vitni verði leidd fyrir dóminn. Í öðru lagi krefst hann þess að þrjú tiltekin skjöl verði ekki lögð fram sem dómskjöl og í þriðja lagi krefst hann þess að tillit verði tekið til þessa hluta málsins við ákvörðun málskostnaður við efnislega niðurstöðu málsins.

Til stuðnings þeirri kröfu sinni að ekki verði heimilað að leiða vitni fyrir dóminn vísar varnaraðili til 1. mgr. 90 gr., sbr. 94 gr., laga nr. 90/1989 um aðför þar sem segi að vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skuli að jafnaði ekki fara fram. Þessi regla byggist á því að mál eins og þetta snúist um ákvarðanir sýslumanns og ekkert annað. Þau varði ekki þær efnislegu kröfur sem gerðarbeiðandi eigi á hendur gerð­ar­þola heldur sé þess einungis krafist að tiltekin ákvörðun sýslumanns verði ógilt eins og gert hafi verið í þessu máli. Til þess að sýslumaður fallist á að taka eign fjár­námi þurfi að leggja fyrir hann skýra aðfararheimild. Því eigi ekki að leika vafi á hvenær sé rétt að gera fjárnám og hvenær ekki.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um aðför sé áréttað að heimild til að leiða vitni fyrir dóminn beri að skýra mjög þröngt. Þannig sé aðilum til dæmis ekki heimilt að semja um það að falla frá þessu skilyrði. Því verði að vera mjög sterk rök til að fallist sé á kröfu sem þessa. Væri opnað fyrir vitnaleiðslur í málum eins og þessu, væri brotið gegn þeim grunn­hugmyndum sem lágu að baki málskotsúrræðunum, að máls­með­ferðin væri einföld og hröð og varðaði bara tilteknar ákvarðanir sýslu­manns. Með því að setja af stað flókið mál, um fullyrðingar sóknaraðila um framsal, sé brotið gegn þessum hugmyndum. Sóknaraðila hefði verið í lofa lagið að lýsa kröfu sinni í bú varnar­aðila hvort sem hann hefði talið sig eiga hana samkvæmt framsali eða á annan hátt. Hann hafi ekki neina afsökun fyrir því að lýsa ekki kröfunni. Telji sóknaraðili sig verða fyrir tjóni eða eiga rétt á framsali kröfunnar þá verði hann að reka það mál eftir öðrum leiðum gagnvart slitabúinu.

Framsal kröfu sé að öllum jafnaði sannað með skriflegum hætti eða afhend­ingu. Því eigi að vera unnt að sanna framsal með venjulegum sönnunargögnum eða skýrslum máls­aðila eða fyrirsvarsmanna þeirra. Sóknaraðili hafi ekki fært fram nein rök fyrir hinu gagnstæða. Fráleitt sé að leiða sem vitni þann lögmann sem hafi flutt málið. Hann geti ekki borið vitni um framsalið þar sem hann hafi ekki átt neinn þátt í því.

Varnaraðili haldi því ekki fram að framlögð skjöl séu fölsuð. Hins vegar sé ágreiningur um efni þeirra og túlkun, svo og hvort viss atvik hafi átt sér stað, með hvaða hætti og hvaða réttarstaða hafi skapast fyrir viðkomandi aðila. Það gefi ekki til­efni til að víkja frá meginreglunni enda sé það hlutverk dómara en ekki vitna að túlka efni löggerninga og réttaráhrif þeirra.

Þau vitni sem sóknaraðili vilji leiða hafi komið að málinu áður en Hæstiréttur hafi kveðið upp sinn dóm. Vandséð sé hvað þau eigi að staðfesta um framsöl og eign­ar­rétt yfir kröfunni þegar fyrir liggi dómur Hæstaréttar sem segi varnaraðila eiga kröf­una. Þá sé höggvið nærri 2. mgr. 88. gr. laga um aðför þar sem segi að kröfur verði ekki hafðar uppi í málum samkvæmt 14. kafla laganna í andstöðu við fyrri úrlausn dóm­stóls um málefni. Þetta þýði að liggi fyrir úrlausn dómstóls um kröfuna þá beri bæði sýslu­manni og héraðsdómi að leggja hana til grundvallar. Sú ráðagerð sóknar­aðila að ætla að leiða vitni til að sýna fram á að einhver annar en varnaraðili hafi átt kröfuna á þeim tíma þegar Hæstiréttur kvað upp sinn dóm sé andstæð fyrirmælum þessa laga­ákvæðis.

Vegna kröfu sinnar um að ekki verði heimilað að dómskjöl 15, 17 og 19 fái að komast að í málinu byggir varnaraðili á því að þessi skjöl séu ekki sönnunargögn í skiln­ingi réttarfarslaga heldur svokölluð málflutningssjöl þrátt fyrir að heita annars vegar bókun með framlögðu dómskjali og hins vegar listi yfir vitni sóknaraðila.

Hvorki eigi að viðgangast svona gagnaframlagning né málflutningur sem fari fram á þennan hátt. Það sé meginregla að málsmeðferð sé munnleg. Frá henni séu nokkrar lögmæltar undantekningar, svo sem stefna, greinargerð, sókn og þess háttar skjöl, þar sem sérstaklega sé heimilað að flytja málið skriflega. Að þeim skjölum frá­töldum eigi málflutningur að vera munnlegur.

Texti sóknaraðila í framlögðum skjölum sé ekkert annað en málflutningur þar sem hann leggi út af sönnunargögnum, fullyrði um efni þeirra, réttmæti og sönn­unar­gildi. Slíkur málflutningur sé ekki heldur hæfur til að bókast í þingbók. Bókanir í þing­bók varði mótmæli, sem sé nauðsynlegt að setja fram, eða breytingar á kröfugerð sem raunverulega þurfi að koma fram í þingbók viðkomandi máls. Þessi mál­flutn­ingur eigi ekki heima þar.

Niðurstaða

Hinn 14. júní 2011 gerði Sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnám, að kröfu varn­ar­aðila, í innistæðu á fjárvörslureikningi sem Logos slf. varðveitti. Sóknaraðili, sem þriðji maður að gerðinni, mótmælti framgangi hennar samkvæmt heimild í 28. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Með heimild í 15. kafla, einkum 1. mgr. 92. gr., laganna skaut hann ágreiningi um ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms. Samkvæmt 94. gr. lag­anna gilda ýmis ákvæði 14. kafla þeirra um meðferð ágreinings samkvæmt 15. kafla, þar á meðal 1. mgr. 90. gr. Sam­kvæmt því ákvæði skulu vitna­leiðslur og mats- og skoð­un­ar­gerðir að jafnaði ekki fara fram í málum samkvæmt 14. kafla. Í ágreiningsmáli sem þessu skal því hvorki leiða vitni né leggja fram mats- og skoðunargerðir nema í sér­stökum undan­tekn­ingartilvikum.

Fræðimenn, sem hafa ritað um þessa takmörkun á sönnunarfærslu, hafa einkum athugað hvernig hún horfi við gerðarbeiðanda. Hafa þeir miðað við að ekki skuli slaka á þeim kröfum sem gerðar séu til skýrleika réttinda hans og heimila honum að leiða vitni nema svo standi á að honum sé brýn nauðsyn að fá réttindum sínum full­nægt með mjög skjótum hætti, önnur úrræði standi honum ekki til boða í þessu skyni og honum sé ekki kleift að sýna nægilega fram á réttindi sín án þessarar gagna­öflunar. Þeir hafa hins vegar ekki fjallað um að hvaða marki gerðarþoli eða þriðji maður geti stuðst við vitnaleiðslur eða matsgerðir til þess að hnekkja þeim sönnunargögnum sem gerð­ar­beiðandi færir fyrir aðfararheimild sinni. Á móti hafa þeir bent á að dómari skuli hafna því að aðfararbeiðni nái fram að ganga telji hann raunhæfa hættu á að sú mynd sem gerðar­beiðandi dregur upp af rétt­indum sínum, með framlögðum skjölum, gæti skekkst, svo verulega að það hefði réttar­áhrif, yrði komið að framburði vitnis, mats­gerð eða annars ótæku sönnunargagni.

Í þessu máli styður varnaraðili, gerðarbeiðandi hjá sýslumanni, kröfu sína við dóm Hæstaréttar, 25. nóvember 2010, í máli nr. 715/2009, þar sem réttargæsluaðili var dæmdur til að greiða varn­ar­aðila 2.500.000 bresk pund. Með þessum dómi telur varn­ar­aðili sig hafa óvefengjanlega heimild til aðfarar á hendur réttargæsluaðila, sem var gerðarþoli hjá sýslumanni.

Hér stendur hins vegar svo á að þriðji maður, sóknaraðili, fullyrðir að hann hafi með samn­ingi, 31. ágúst 2009, keypt af varnaraðila þá kröfu sem Hæstiréttur dæmdi að réttargæsluaðila bæri að greiða varnaraðila. Varnaraðili hefur mótmælt full­yrðingu sóknaraðila um framsal kröfunnar sem rangri og ósannaðri og mót­mælt þeim gögnum, sem sóknar­aðili hefur lagt fram til stuðn­ings þessari full­yrð­ingu sinni, sem röngum og ósönn­uðum. Sóknaraðili telur sig því ekki hafa önnur úrræði til að sanna staðhæfingar sínar en að leiða vitni til að staðfesta þau gögn sem hann byggir mála­­tilbúnað sinn á.

Að mati dómsins verður að gera sambærilegar kröfur til sönnunarfærslu allra þeirra sem eiga aðild að ágreiningsmálum sem þessum. Þykir sóknaraðili ekki vera í svo þröngri stöðu, og hann hafi ekki önnur úrræði til að reyna á réttmæti þeirrar kröfu sem hann telur sig eiga, að víkja beri frá þeirri megin­reglu um sönnunarfærslu sem gildir í ágreiningsmálum sem þessum. Því verður að hafna þeirri kröfu hans að fá að leiða vitni í málinu.

Varnaraðili krafðist þess að þrjú tiltekin skjöl sem sóknaraðili hefur þegar lagt fram verði ekki lögð fram sem dómskjöl. Fallist er á það með varnaraðila að þau sjón­ar­mið sem sóknaraðili setur fram í tveimur framlögðum bókunum eigi fremur heima í málflutningsræðu. Hins vegar þykir sóknaraðila hafa verið rétt að gera dóminum stutt­lega grein fyrir því hvaða skjöl hvert þeirra vitna, sem hann óskaði að leiða fyrir dóm­inn, átti að staðfesta og um hvaða atvik hvert átti að bera. Þar sem öll þessi skjöl hafa þegar verið þingmerkt sem dómskjöl verður framlagningu þeirra ekki hafnað nú en hins vegar verður ekki tekið tillit til efnis bókananna tveggja, á dóm­skjölum nr. 15 og 17, við úrlausn málsins.

Ákvörðun málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins bíður efnislegrar niður­stöðu.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, Vingþórs ehf., að vitnaskýrslur verði heim­il­aðar í þessu máli hans gegn varnaraðila, VBS fjárfestingarbanka, og til réttar­gæslu, Kcaj LLP.

Hafnað er þeirri kröfu varnaraðila að framlögð dómskjöl 15, 17 og 19 verði ekki lögð fram.

Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnislegrar niðurstöðu.