Hæstiréttur íslands

Mál nr. 687/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Þinghald


Mánudaginn 20. desember 2010.

Nr. 687/2010.

Lögreglustjórinn á Eskifirði

(Helgi Jensson fulltrúi)

gegn

X

(Eva Dís Pálmadóttir hrl.)

Kærumál. Vitni. Þinghöld.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að víkja úr þinghaldi þegar þrjú vitni gefa skýrslu, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 7. desember 2010, þar sem varnaraðila var gert að víkja úr þinghaldi þegar þrjú tilgreind vitni gefa skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Krafa um að ákærði víki úr þinghaldi þegar þrjú tilgreind vitni gefa skýrslu í málinu er gerð af sóknaraðila, sem fer með ákæruvald í málinu. Héraðsdómari hefur metið það svo að skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 séu fyrir hendi til þess að fallast eigi á kröfuna. Með tilliti til ungs aldurs vitnanna og þess fyrirkomulags, sem verður á skýrslutökum og lýst er í hinum kærða úrskurði, eru ekki næg efni til að breyta þessu mati héraðsdómara. Með kröfunni hefur ákæruvaldið látið í ljós að það sé reiðubúið að axla byrðina af því, að sönnunargildi skýrslna vitnanna verði ef til vill  ekki hið sama og ef þær hefðu verið gefnar að varnaraðila viðstöddum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 12. nóvember 1997 í málinu nr. 449/1997, sem birtur er á síðu 3231 í dómasafni réttarins það ár.

Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 7. desember 2010.

Mál þetta er höfðað af sýslumanninum á Eskifirði með ákæru 28. september 2010 og framhaldsákæru 27. október sama ár á hendur X, kt. [...], [...], Egilsstöðum, „fyrir líkamsárás og hótanir á [...], Egilsstöðum, laugardaginn 22. maí 2010, með því að hafa sparkað nokkrum sinnum í A, með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsl á vinstra læri og fyrir að hafa við sama tækifæri hótað honum lífláti og líkamsmeiðingum og ógnað honum með hafnarboltakylfu, sem ollu því að A óttaðist um líf sitt og heilbrigði.“

Er háttsemin í ákæruskjali talin varða við 1. mgr. 218. gr. [leiðr. dómara: Er svo í úrskurði en á að vera 1. mgr. 217. gr.] og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er þess þar krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Með framhaldsákæru 27. október 2010 sem þingfest var 28. sama mánaðar var aukið við málið eftirfarandi einkaréttarkröfu: „B, kt. [...], f.h. ófjárráða sonar síns, A, kt. [...], hefur krafist þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 1.053.935, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 28. maí 2010, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga, frá 18. október 2010 til greiðsludags. Þá er krafist kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að viðbættum virðisaukaskatti.“

Við þingfestingu framhaldsákæru 28. október sl. krafðist ákærði frávísunar hennar enda væru ekki skilyrði til útgáfu hennar. Var málið þá flutt um þennan ágreining og þeirri kröfu hafnað með úrskurði 2. nóvember 2010.

Ákærði tók afstöðu til ákæruatriða í þinghaldi 28. október sl. og var þar bókað eftir honum að hann viðurkenndi að hafa, eins og hann hafi greint frá hjá lögreglu, sparkað tvisvar eða þrisvar í læri og/eða síðu A, en hann hafni því að hafa hótað honum eða ógnað.

Hér er til úrskurðar ágreiningur um hvort ákærða verði gert að víkja úr dómsal meðan vitnin A, C og D bera vitni við aðalmeðferð málsins sem fyrirhuguð er 24. janúar nk.

Við aðalmeðferð málsins er einnig fyrirhugað, samkvæmt ákvörðun dómara, að taka skýrslur af fjórum vitnum sem yngri eru en 15 ára, en ekki er ágreiningur um framkvæmd þeirrar skýrslutöku. Mun skýrslutakan fara þannig fram að dómari mun einn spyrja vitnin í hliðarherbergi, en unnt verður að heyra og sjá skýrslutökuna í sjónvarpi í dómsalnum, þar sem ákærði getur fylgst með ásamt verjanda sínum.

Um framangreindan ágreining um hvort dómari neyti heimildar í 1. mgr. 123. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 um að ákærða verði gert að víkja úr dómssal meðan framangreind þrjú vitni gefi skýrslu við aðalmeðferð fór fram munnlegur málflutningur föstudaginn 3. desember sl. og var málið þá tekið til úrskurðar.

Af hálfu ákæruvalds er einkum byggt á því að þó umrædd vitni séu orðin 15 ára séu tvö þeirra nýlega orðin það og vitnið D aðeins ári eldri. Þetta séu ungir drengir og um hafi verið að ræða árás sem beinst hafi að einum þeirra og árásin hafi verið framkvæmd af fullorðnum manni og fyrir liggi í gögnum málsins að hann hafi komið þarna að þeim með hafnarboltakylfu. Hafi þeir því orðið mjög hræddir. Liggi fyrir í málinu læknisvottorð um þetta að því er varði brotaþola, A. Að því er varði hin vitnin tvö sem séu félagar brotaþola og hafi verið með honum þegar háttsemi sú sem ákært hafi verið fyrir hafi átt sér stað, vísi ákæruvaldið til þess að sjá megi af skýrslum sem teknar hafi verið af þeim tveimur að þeir hafi einnig orðið hræddir. Telji ákæruvaldið að það muni valda þeim óþarflega miklu hugarangri og geti haft áhrif á framburð þeirra að þurfa að bera vitni í dómsalnum augliti til auglitis við ákærða. Af hálfu ákæruvalds hafi verið leitað afstöðu forráðamanna framangreindra vitna til þessa og hafi forráðamenn A og D lýst þeirri afstöðu sinni að þau taki undir kröfu ákæruvaldsins um að ákærða verði gert að víkja úr þingsal meðan skýrsla verði tekin af þeirra börnum. Ákæruvaldinu hafi ekki tekist að afla afstöðu foreldra C. Telji ákæruvaldið að skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt þannig að verða eigi við kröfu ákæruvaldsins.

Af hálfu verjanda ákærða var einkum á því byggt að réttur ákærða til að vera viðstaddur aðalmeðferð og vera viðstaddur skýrslugjöf vitna sé skýlaus og hluti af grundvallarréttindum hans um að honum beri réttlát málsmeðferð fyrir dómi. Sé þessi réttur óumdeildur og varinn af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi lagagildi á Íslandi. Yrði ávallt að skýra heimild í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 þröngt enda beinlínis skerðing á framangreindum grundvallarréttindum ákærða. Byggði verjandinn á því að umrædd vitni væru öll orðin 15 ára og enginn greinarmunur væri gerður í lögum á stöðu vitna eftir aldri eftir að því aldursmarki væri náð, en breyting hefði verið gerð á því aldursmarki sem sérreglur um vitnaskýrslur hafi náð til með lögum nr. 88/2008. Verjandinn kvað ekkert liggja fyrir um að vitnin hafi ástæðu til að óttast ákærða og heldur ekki að vitnin geri það í raun. Þá hafnaði verjandinn því alfarið að ákærði hefði sýnt af sér einhverja þá háttsemi eftir umræddan atburð að þessum vitnum gæti með réttu stafað ógn af honum. Þá benti verjandinn á að umrædd þrjú vitni væru þau sem bæru ákærða hvað þyngstum sökum. Það sakarefni sem tekist væri á um í málinu væri hvort ákærði hafði haft í hótunum eða hafi ógnað vitninu A. Sönnunarfærsla um þetta atriði sé flókin og fjalli m.a. um ætlaða huglæga afstöðu bæði ákærða sem og brotaþola. Sé því enn meira áríðandi fyrir ákærða að geta fylgst með skýrslutökunni í dómsal.

Niðurstaða:

Í 70. gr. stjórnarskrárinnar, sem á sér einnig fyrirmyndir í mannréttindasáttmálum sem gildi hafa hér á landi, er m.a. mælt fyrir um það að menn eigi rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Í þeim rétti felst m.a. að menn eiga rétt á að vera sjálfir viðstaddir þinghöld þar sem fram fara skýrslutökur af vitnum í máli þar sem þeir eru bornir sökum. Heimilt er þó að gera á þessu undantekningar með lögum en slíkar undantekningar sæta ávallt þröngri lögskýringu. Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 er slíka undantekningu að finna. Er dómara þar heimilað að fallast á kröfu vitnis, eða ákæranda, um að ákærða verði gert að víkja úr þinghaldi, þegar skýrsla er tekin af vitni.

Í máli þessu liggur fyrir að ákærandi hefur gert slíka kröfu.

Fyrir beitingu heimildar 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 sem fyrr er nefnd eru sett tvö skilyrði sem bæði þurfa að vera uppfyllt, en það er lagt í mat dómara hvort svo geti talist. Er þar annars vegar um að ræða að nærvera ákærða geti orðið umræddu vitni sérstaklega til íþyngingar og hins vegar að nærvera ákærða geti haft áhrif á framburð vitnisins. Við mat á því hvort framangreind aðstaða sé uppi, þannig að víkja beri frá þeirri meginreglu um réttindi sakbornings sem fyrst var hér rakin, er að mati dómsins einkum til tveggja þátta að líta.

Fyrst ber að horfa til þess hvort umfjöllunarefni málsins, eða nánar tiltekið þær sakir sem bornar eru á ákærða, eru hlutlægt séð þess eðlis að það kunni að vera vitni til sérstakrar íþyngingar að þurfa að gefa skýrslu um þær að ákærða viðstöddum og þá einkum hvort þessi aðstaða er slík að það gæti haft áhrif á framburð vitnisins. Hinn síðari þáttur sem horfa þarf til varðar óhjákvæmilega  atriði er tengjast persónu og aðstæðum umrædds vitnis og leggja slík atriði grunninn að því mati sem fyrr var um rætt. Vitnin A og C eru fimmtán ára, en vitnið D er 16 ára. Eru þeir því allir börn í skilningi laga þó þeir hafi náð þeim aldri að þeim beri skylda til að mæta fyrir dóm og bera vitni um atburði sem þeir hafa skynjað af eigin raun. Sakarefni sem er til umfjöllunar í máli þessu er ítarlega rakið hér að framan þar sem gerð er orðrétt grein fyrir háttsemilýsingu í ákæru. Er þar gerð grein fyrir ofbeldi sem ákærða er gefið að sök að hafa beitt A. Kemur fram í öðrum gögnum að þetta eigi að hafa gerst að vitnunum C og D ásjáandi. Þá er ákærða gefið að sök að hafa hótað A líkamsmeiðingum og lífláti og ógnað honum með hafnarboltakylfu og hafi þetta valdið því að A hafi óttast um líf sitt og heilbrigði.

Sakarefni málsins lýtur að ofbeldi, sem ákærði hefur gengist við, og ætluðum hótunum og ógnunum ákærða í garð eins hinna þriggja vitna. Hefur ákærði neitað að hafa haft í frammi hótanir eða ógnanir. Er vitnunum ætlað að bera um þessa ætluðu háttsemi ákærða. Vitnin eru eins og fyrr segir börn að aldri. Sönnunarfærsla í máli þessu hefur ekki farið fram og getur niðurstaða þess ágreinings sem hér er til úrlausnar ekki ráðist af neins konar túlkun eða mati á réttmæti fyrirliggjandi sönnunargagna eða líkindum þess, af eða á, hvort sakir muni teljast sannaðar eða ekki í máli þessu, að lokinni aðalmeðferð. Verður niðurstaða því einungis byggð á hlutlægu mati á sakarefni málsins og aðstöðu þeirra vitna sem um ræðir, eins og þetta liggur fyrir dómnum á þessu stigi málsins. 

Það er mat dómsins, þegar framangreind atriði eru virt, að það geti verið að nærvera ákærða í þingsal meðan vitnin gefa skýrslu geti verið þeim til sérstakrar íþyngingar og að  það geti verið að það hafi áhrif á framburð þeirra. Að mati dómsins er ekki nauðsynlegt til stuðnings þessari niðurstöðu, eins og hún er rökstudd, að gera greinarmun á stöðu þeirra þriggja vitna sem um ræðir. Það er því niðurstaða dómsins að fallast á kröfu ákæruvaldsins.

Ákærði mun því víkja úr dómsal meðan skýrslur verða teknar af framangreindum vitnum. Verður fyrirkomulag skýrslutöku með þeim hætti að ákærða verður gert kleyft að heyra og sjá skýrslutökuna á sjónvarpsskjá í öðru herbergi í dómhúsinu. Aðrir mun geta verið í dómsal meðan skýrslutaka fer fram eins og venja er til við aðalmeðferð máls.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Ákærði, X, víkur úr dómsal þegar teknar eru skýrslur fyrir dómi af vitnunum A, C og D, við aðalmeðferð málsins.