Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2005
Lykilorð
- Manndráp
|
|
Fimmtudaginn 29. september 2005. |
|
Nr. 141/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn Hákoni Eydal(Brynjar Níelsson hrl. Benedikt Ólafsson hdl.) |
Manndráp.
H var ákærður fyrir manndráp með því að hafa veist að fyrrum sambýliskonu sinni, S, slegið hana fjögur högg með kúbeini í höfuðið svo af hlutust lífshættulegir höfuðáverkar, vafið taubelti þrívegis um háls hennar og þrengt að með þeim afleiðingum að hún lést af völdum kyrkingar. Viðurkenndi H að hafa framið verknaðinn en krafðist sýknu vegna ósakhæfis en til vara að hann yrði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfðu. Komist var að þeirri niðurstöðu að H væri fyllilega sakhæfur og hefði unnið sér til refsingar með broti sínu. Ekki væri upplýst að þær refsilækkunarástæður, sem fjallað væri um í 75. gr. og 4. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hefðu átt við þegar verknaðurinn var framinn. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að atlagan var heiftarleg og meðferð hans á líkinu smánarleg. Þá neitaði hann sök framan af og reyndi að villa um fyrir lögreglunni við rannsókn málsins. Var H dæmdur til fangelsisvistar í 16 ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 31. mars 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta hann.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærði, Hákon Eydal, greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 3.433.574 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 996.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2005.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 20. desember sl., á hendur ákærða, Hákoni Eydal, [...], Stórholti 19, Reykjavík, “fyrir manndráp með því að hafa, að morgni sunnudagsins 4. júlí 2004, á heimili sínu, veist að fyrrverandi sambýliskonu sinni A, [...], slegið hana fjögur högg með kúbeini í höfuð svo að af hlutust lífshættulegir höfuðáverkar, vafið taubelti þrívegis um háls hennar og þrengt að með þeim afleiðingum að hún lést af völdum kyrkingar.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu B, [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð 5.534.701 krónur, af hálfu C, [...], skaðabóta að fjárhæð 6.228.049 krónur og af hálfu D, [...], skaðabóta að fjárhæð 10.092.825 krónur, í öllum tilvikum auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti nr. 38, 2001, frá 4. júlí til 1. desember 2004, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.”
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Hann samþykkir bótakröfurnar.
Málavextir
Það er upphaf þessa máls að mánudagskvöldið 5. júlí sl. hafði samband við lögregluna bróðir ofannefndrar A, E að nafni. Kvaðst hann hafa áhyggjur af systur sinni, sem ekki hefði frést af frá því í vikunni á undan. Kom hann svo á lögreglustöðina síðar um kvöldið ásamt fleiri aðstandendum og sagði systur sína hafa farið með fyrrum sambýlismanni sínum, ákærða í málinu, í sumarbústað við Laugarvatn. Hóf lögreglan eftirgrennslan í málinu. Mágkona A, F, gaf skýrslu hjá lögreglunni daginn eftir og skýrði frá því að þær tvær hefðu farið út að skemmta sér laugardagskvöldið 3. júlí og verið að fram undir klukkan hálf sex um morguninn, að A ók henni heim. Þegar hún frétti að A hefði ekki komið heim til sín hefði hún farið að heimili ákærða og séð að bíll A stóð þar fyrir utan. Þriðjudaginn 6. júlí gaf sig fram vitnið G, sem býr skáhallt á móti ákærða. Hún kvaðst hafa verið úti við og séð mann koma út úr því húsi með stóran, brúnan poka og hefði maðurinn verið grunsamlegur í hátterni. Kvaðst hún hafa séð móta fyrir mannslíkama í pokanum, læri og fæti á konu, að því er henni sýndist. Maðurinn hefði sett pokann inn í jeppabíl sem stóð opinn þarna við húsið. Hefði henni orðið mikið um þetta og flýtt sér inn til sín. Fleiri vitni gáfu skýrslu hjá lögreglunni þennan dag og næstu daga en ekki eru efni til þess að rekja þær skýrslur hér.
Ákærði var yfirheyrður sama dag og kvaðst hann þá ekki vita hvað orðið hefði um A. Sagðist hann hafa hitt hana um nóttina að hún kom heim til hans um tvöleytið og fékk hjá honum 2500 krónur að skemmta sér fyrir, því hún ætlaði út með mágkonu sinni F. Hefði A skilið bílinn eftir heima hjá honum en hann farið að sofa. Um hálf sexleytið hefði A komið drukkin heim til hans. Hefðu þau haft samfarir og sofnað svo. Þegar hann vaknaði um hádegið hefði A verið farin. Ákærði var handtekinn síðar um daginn og leit gerð á heimili hans og í jeppabíl sem hann á. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhaldi vegna máls þessa 7. júlí sl. og næstu vikur á eftir var hann margsinnis yfirheyrður hjá lögreglu.
Úr ákærða var tekið blóð og þvag til rannsóknar sem fór fram í lyfjafræðistofnun Háskólans. Í rannsóknarniðurstöðu segir að alkóhól (etanól) og amfetamín hafi ekki mælst í blóði en í þvaginu hafi fundist amfetamín. Að fundist hafi amfetamín í þvagi, en ekki í blóði, bendi til þess að hlutaðeigandi hafi neytt amfetamíns, en ekki verið lengur undir áhrifum þess þegar blóðsýni var tekið.
Þriðjudaginn 27. júlí fór ákærði fram á að hann fengi að vísa á stað á Kjalarnesi þar sem hann varpaði líki A í sjóinn. Daginn eftir játaði hann í yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa banað konunni á heimili sínu 4. júlí. Hann kvaðst hafa gert það eftir að hún hótaði honum því að hann fengi hvorki að sjá hana né barn þeirra aftur og hún þannig gefið til kynna að sambandi þeirra væri lokið. Hefði hann banað henni með kúbeini sem hafi verið í herbergi hans. Hefði hann slegið hana í hnakkann með því og hún hálsbrotnað. Hann hefði svo sett líkið í sænskan póstpoka, drapplitan, og ekið með það út fyrir borgina og komið því í sjóinn á Kjalarnesi á stað sem hann hefði vísað lögreglunni á. Skýrslu þessa og þær skýrslur sem raktar verða hér á eftir gaf ákærði að viðstöddum verjanda og hann hefur staðfest þær fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá að þau A hefðu kynnst 1999 og farið að búa saman árið 2001 og eignast dóttur í ágústmánuði árið 2002. Sambúðin hefði verið erfið. Strax frá fyrstu kynnum hefði hún átt það til að hverfa og vera í burtu allt frá þremur dögum upp í þrjár vikur. Hefði hann farið að gruna að hún væri þá að afla sér fjár því að þegar hún birtist aftur hefði hún alltaf verið með peninga. Hann hefði í fyrstu reynt að komast að því hjá fjölskyldu hennar hvar hún væri niðurkominn en verið sagt að vera ekki að skipta sér af því sem honum kæmi ekki við. Hann kvaðst halda að hún stundaði vændi og hefðu austurlenskar vinkonur hennar ráðlagt honum að láta hana hafa peninga til þess að hún hætti að hverfa. Hann hefði ekki hætt á spyrja þær frekar út í þetta eða rekast í þessu þar sem hann hefði búist við að fá ekki að umgangast dóttur þeirra. Hann kvaðst alltaf hafa stefnt að því að stofna heimili með A, en hún ekki sýnt því neinn áhuga. Aftur á móti hefði hún sífellt suðað um meiri peninga og léti hann ekki undan, hefði hún horfið. Eftir að hún var genginn þrjá mánuði með barn þeirra hefði sífellt verið að hóta því að skaða fóstrið, að "drepa barnið og rífa það úr sér." Oft og iðulega, tvisvar til þrisvar í viku, hefði hún misst algerlega stjórn á sér og hann ekki getað tjónkað við hana. Hefði hún talað illa til hans þegar þetta gekk á og í nokkur skipti hefði hún hringt í lögreglu og kvartað undan ofbeldi, sem hefði ekki verið til að dreifa. Hefði hún svo alltaf horfið í framhaldi af þessum köstum. Rétt áður en dóttir þeirra fæddist hefði hún farið að heiman og slitið öllum samskiptum við hann. Hann hefði þó fengið að vera viðstaddur fæðingu dóttur sinnar og þau byrjað sambúð að nýju. Hefði hann gefið henni eina milljón króna í sængurgjöf og þau gert með sér samkomulag um að reyna allt sem hægt væri til þess að byggja upp samband þeirra. Þau hefðu ákveðið að reyna sambúð í þrjá mánuði og athuga þá með framhaldið. Eftir þrjár vikur hefði hann hins vegar fengið bréf frá sýslumanni um að A hefði farið fram á að hann greiddi henni meðlag. Hefði þetta komið frekar flatt upp á hann, þar sem þau voru þá í sambúð. Þegar hann krafði hana skýringa á þessu, hefði hún sagt að hún ætti rétt á þessu. Hann hefði ekki farið á fund hjá sýslumanni þótt hann hefði fengið boð um það. Hann hefði gert allt til þess að halda friðinn, en um fimm vikum eftir að barnið fæddist hefði farið í sama horf aftur. Hefði A farið að fá skapofsaköst og í eitt sinn hefði hann sjálfur hringt á lögreglu. Þegar lögreglan kom hefðu þeir sagt honum að hann skyldi halda sig frá A og dvalarstað hennar. Upp frá þessu hefði sambúð þeirra verið lokið. Frá þessum tíma, þ.e. í september 2002, hefði A farið að meina honum að umgangast dóttur þeirra, D. Þar sem hann hefði ekki verið fullviss um að vera faðir barnsins hefði hann látið rannsaka það og þegar svo reyndist vera, hefði hann krafist þess að fá forsjá þess. Meðan á þessu ferli stóð hefðu engin samskipti verið á milli þeirra. A hefði oft hótað því að hún myndi fara með D til Indónesíu og láta hana hverfa þar. Þegar honum var synjað um forsjá hefði hann óskað eftir því að fá að umgangast barnið á eðlilegan hátt en ekki fengið það. Hann hefði þá leitað til barnaverndarnefndar sem hefði snúist gegn honum. A hefði kært hann fyrir ofbeldi og verið marin í andliti, líklega eftir einhver átök sem hún hafði lent í og honum var ókunnugt um. Hann hefði leitað til ýmissa yfirvalda og lögmanna en þessar umleitanir hefðu ekki leitt til neins, enda verið litið á hann sem ofbeldismann og hann ekki fengið að skýra sinn málstað nægilega. Hefði þessi barátta hans leitt til þess, að hann varð þunglyndur og hugleiddi að fyrirfara sér. Hann hefði leitað sér læknishjálpar við þessu og verið frá vinnu allt árið 2003. Hann kvaðst ekki hafa fengið að sjá dóttur sína tímabilið apríl 2003 til maí 2004. Frá þeim tíma hefðu þau A farið að hittast og m.a. dvalist eina helgi í sumarbústað á Laugavatni í júní og hann þá fengið að umgangast barnið. Hefði hann þá þóst sjá fram á hamingjuríka og bjartari tíma. Hann sagði að þótt þau hefðu endurnýjað fyrri kynni hefði hann ekki fengið að umgangast dóttur þeirra nema þegar A var með eða þá undir eftirliti barnaverndarnefndar. Að vísu hefði hann haft barnið hjá sér í Stórholti í eitt skipti í einar þrjár klukkustundir.
Það hefði svo verið laugardagskvöldið 3. júlí s.l. að þau A hefðu ætlað saman út að skemmta sér, en af því hafi ekki orðið. Hefði A hætt við og farið í staðinn með mágkonu sinni, sem vildi ekki hafa samskipti við hann. Áður hefði hún komið við hjá honum og fengið hjá honum peninga og eftir það hefðu þau verið í símasambandi í nokkur skipti um nóttina og þá talast til, að hún kæmi til hans eftir að hún hefði skemmt sér, sem og varð klukkan rúmlega fimm um nóttina. Hefði hún verið glöð í bragði og komið beint upp í rúm til hans og þau rætt saman. Í framhaldi af því hefðu þau haft samfarir til klukkan um sex. Þau hefðu svo sofnað og sofið til klukkan um tíu að þau vöknuðu. Höfðu þau þá samfarir aftur og lágu í rúminu fram til klukkan ellefu og töluðu saman í vinsemd. Talið hefði svo borist að barni þeirra og hann sagt að honum hefði fundist það óréttlátt að fá ekki að hafa barnið hjá sér en hún sagt að hún réði því ein hver gætti barnsins. Hefði hann sagt henni að hann vildi að þau færu til sýslumanns og gengju frá samkomulagi um sameiginlega forsjá. Hefði hún þá orðið æst og sagt að hann gæti farið þangað sjálfur því ekki færi hún. Hefði frekara tal um þetta orðið til þess að hún varð æstari en hann hefði haldið ró sinni og beðið hana vingjarnlega um að koma til móts við hann, en hún þverneitað og staðið upp úr rúminu. Hann hefði þá sagt við hana að helst vildi hann fara einn með forsjá barnsins, enda hefði hún misbeitt foreldravaldinu gagnvart honum. Hefði hún þá sagt, að hann væri aumingi og fengi hann aldrei að sjá barnið framar. Hún hefði verið orðin mjög æst og sagst geta kært hann fyrir nauðgun og þá myndi hann aldrei sjá dóttur þeirra aftur. Hann sagði að þá hefði "sálin ... farið úr líkama hans", hann misst stjórn á sér og gripið kúbein sem var í opnum skáp við rúmið, en hann hefði oft verkfæri inni í herbergi sínu, þar sem hann væri iðnaðarmaður. Hefði hann slegið konuna í hnakkann með kúbeininu og hún við það fallið strax á gólfið við herbergishurðina. Hefði hún snúið hliðinni að honum þegar hann sló hana og því ekki vitað af högginu eða gefið frá sér hljóð. Hefði hann barið hana nokkrum sinnum í hnakkann á meðan hún lá á gólfinu, en áleit að fyrsta höggið hefði verið það þungt að hún að hún hefði dáið af því. Hann kvaðst halda að klukkan hefði verið um hálftólf þegar hér var komið. Mjög hefði blætt úr hnakka hennar og hann þá tekið belti af slopp sínum og sett við höfuð hennar til þess að reyna að stöðva blæðinguna. Hefði hann svo borið hana inn í sturtu þar sem hann hefði þvegið henni og sjálfum sér. Þá hefði hann skúrað gólfið í íbúðinni þar sem blóð var að sjá. Hann hefði sett líkama konunnar í drapplitan sænskan póstpoka sem hann átti í herbergi sínu og hafði átt lengi. Hann hefði bundið fyrir pokann með buxum og svo farið út og opnað bíl sinn að aftan tekið úr honum golfsett og farið með inn. Hann hefði svo borið pokann með líkinu út og sett í bílinn. Hann hefði séð konu með hund í bandi hinum megin við götuna og þau horfst í augu. Hann hefði farið inn aftur og haldið áfram að skúra gólfin í íbúðinni og fjarlægt handklæði sem hann hafði vafið um höfuð A. Hefði honum dvalist við þetta til klukkan um hálf tvö, að hann ók á brott með líkið.
Ákærði kvaðst hafa ekið að Álfsnesi á Kjalarnesi og ætlað að losa sig við líkið en þar hefðu öll hlið verið læst og hann þá ekið að Víðinesi að kanna aðstæður þar, en ekki litist á þær. Að lokum hefði hann ekið að sumarbústað í landi Nesvíkur og kastað líkinu í sjóinn fram af klettum. Hefði kúbeinið verið bundið við hálsinn á líkinu og föt hinnar látnu fylgt með í pokanum. Farsíma hennar hefði hann svo hent í sjóinn af Skúlagötu við Ingólfsgarð. Ákærði tók fram að hann hefði aldrei reiknað með því að komast upp með þetta brot. Hann hefði misst um stund alla stjórn á gerðum sínum og þess vegna orðið A að bana. Að hann dró svo lengi að játa á sig verknaðinn hefði verið til þess að láta tímann líða og þannig draga úr líkum þess að fjölskylda og vinir A hefndu sín á honum. Hann kvaðst reyndar enn óttast hefndir og það ekki að ástæðulausu.
Ákærði var yfirheyrður 3. ágúst en þá hafði leit að líkinu eftir tilvísan hans ekki borið árangur. Breytti hann þá framburði sínum og kvaðst hafa snúið við frá Álfsnesi og ekið sem leið lá suður í Hafnarfjörð, Reykjanesbraut suður fyrir álverið nokkra kílómetra og beygt til vinstri inn á afleggjara og ekið hann þar til hann kom að hraunhleðslu sem gengur undir nafninu Nornahringur. Þar hefði hann setti líkið í sprungu og hlaðið grjóti fyrir.
Tveim dögum síðar fannst líkið eftir tilvísan ákærða og var rannsókn gerð á því, svo og öðru sem með því fannst. Var ákærði þá yfirheyrður á ný og skorað á hann að lýsa atburðinum nánar en hann hafði gert. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa tekið upp kúbeinið sem hann banaði A með. Hann kvað hana þá hafa verið í svörtum nærbuxum en nakta að öðru leyti. Hefði ekki komið til átaka með þeim og hún fallið við fyrsta höggið sem hann veitti henni með kúbeininu. Hann hefði veitt henni nokkur högg þar sem hún lá á gólfinu, en hann kvaðst ekki vita hversu mörg. Mikið hafi blætt úr henni og hann notað beltið af sloppnum sínum til að reyna að stöðva blæðinguna. Hefði hann í þessu skyni vafið því þrisvar sinnum um háls hennar og bundið hnút fyrir. Hann hefði ekki gert þetta til þess að kæfa hana eða kyrkja, heldur einungis til þess að stöðva blóðrennslið, enda blóð verið um allt inni hjá honum. Hann hefði vafið handklæði utan um höfuð A og sett hana í póstpokann. Hann kvaðst ekki geta skýrt áverkana á höndum hennar og handlegg og stafi þeir ekki af því að hún hefði veitt honum viðnám. Hann kvaðst hafa sett allar eigur A sem hann fann heima hjá sér í pokann með líki hennar.
Gerð var rækileg rannsókn á íbúðinni í Stórholti 19 þar sem ákærði bjó ásamt föður sínum. Á ljósmyndum sem teknar voru þar inni má sjá að talsverð óreiða hefur verið þar og má sjá á myndunum, auk venjulegra húsmuna, rafgeymi og hleðslutæki, pappakassa og fleira. Þá er fram komið í málinu að lítið kúbein hafi verið í skáp í herbergi ákærða.
Við blóðleit með svo nefndum hemident- og luminol-aðferðum sást að blóð hafði slest og borist víða um íbúðina, einkum í herbergi ákærða, gangi, baðherbergi, eldhúsi og stofu. Greinilegt var að reynt hafði verið að þvo blóðið af vettvanginum. Sérstök blóðferlagreining var og gerð. Um það, sem hún leiddi í ljós í herbergi ákærða segir í staðfestri skýrslu Ragnars Jónssonar að greinileg ummerki hafi verið um að manni hefði blætt þar og veittir áverkar með barefli eða vopni. Hafi þetta verið fjórar atlögur með afli og sá sem fyrir varð hafi legið á gólfi við suðurvegg þegar minnst þrjár þeirra voru gerðar. Jeppabíll ákærða var einnig rannsakaður og fannst þar vottur af blóði á nokkrum stöðum. Sýnishorn af blóði úr íbúðinni voru látin í DNA-greiningu ásamt staðfestum sýnum úr A svo og sýni af blóði úr bíl ákærða. Reyndust blóðsýnin öll vera úr henni.
Auk jeppans, sem fyrr er nefndur, er vert að geta annars bíls sem ákærði á og hefur notað við atvinnu sína, múrverk. Er það sendiferðabíll sem stóð við hús hans. Var talsvert af ýmis konar verkfærum í honum til múrverks þegar lögreglan athugaði hann.
Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur, hefur krufið og rannsakað lík A. Í niðurlagi staðfestrar skýrslu hennar um krufninguna segir svo:
“SAMANTEKT:
I. Merki um kyrkingu:
a) Taubelti þrívafið fast um háls.
b) Far umhverfis allan hálsinn.
c) Miklar blæðingar í undirliggjandi mjúkvefjum.
II. Áverkar á höfði:
a) Fjögur höggsár með sprungum í höfuðkúpu, broti á hægra kinnbeini og lítilsháttar blæðingu milli heilahimna hægra megin.
b) Tveir marblettir í andliti.
c) Skurður á neðri vör.
III. Maráverkar á efri útlimum og herðum:
a) Mar ofan á báðum öxlum.
b) Tveir marblettir á vi. upphandlegg (varnaráverkar).
c) Tveir marblettir á vi. framhandlegg (varnaráverkar). d) Marblettir á báðum höndum (varnaráverkar).
IV. Mar á hægra brjósti.
ÁLYKTUN:
Dánarorsök [A] er kyrking og er um manndráp að ræða. Við krufningu kom í ljós taubelti sem var þrívafið fast um háls konunnar, og undir því var djúpt far á hálsi. Miklar innri blæðingar voru til staðar undir farinu. Þessar miklu innri blæðingar samrýmast því að [A] hafi verið á lífi er beltinu var vafið um háls hennar.
Auk þess voru til staðar fjögur höggsár á höfði og [tvö] þeirra höfðu valdið broti á undirliggjandi beinum. Ytra útlit áverkanna, svo og undirliggjandi brot samrýmast því að höggin hafi verið mjög þung. Lítil blæðing var til staðar milli heilahimna og engir áverkar á heila, sem samrýmist því að konan hafi látist af völdum kyrkingar mjög skömmu eftir að hún hlaut höfuðhöggin. Höfuðáverkarnir einir og sér eru það miklir að þeir hefðu getað valdið dauða konunnar, en þeir hefðu gert það í fyrsta lagi eftir einhverja klukkutíma en ekki mínútur, því tíma tekur fyrir innri blæðingar, heilamar og heilabjúg að myndast eftir höggin. Hvert og eitt högg um sig hefði að öllum líkindum getað nægt til að valda dauða konunnar. Ekki er hægt að segja til um í hvaða stellingu konan var er hún hlaut höfuðhöggin.
Höggsárin á höfði geta samrýmst því að hafa verið veitt með kúbeini (klaufarenda). Þeir marblettir er sáust á vinstri upphandlegg og framhandlegg, svo og á báðum höndum samrýmast svokölluðum varnaráverkum og eru einnig tilkomnir við högg. Samrýmist þetta því að konan hafi verið við meðvitund og meðvituð um hvað var að gerast þegar ráðist var að henni með bareflinu. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um í hvaða röð konan hlaut áverkana en ljóst er að varnaráverkarnir koma á undan höfuðhöggunum, þar sem konan hefur misst meðvitund við fyrsta höfuðhöggið.
Ekki er unnt að segja til um í hvaða röð hún hlaut höfuðhöggin. Þar sem a.m.k. tveir af varnaráverkunum voru veittir með kúbeini, svo og höggsárin á höfði, er líklegt að höfuðáverkarnir komi á undan kyrkingunni og að konan hafí verið kyrkt eftir að hún var orðin meðvitundarlaus af völdum höfuðáverkanna.
Engir sjúkdómar fundust í líkinu sem hefðu getað haft áhrif á dauða konunnar. Það etanól er mældist í blóði er mjög lítið og er líklega tilkomið vegna rotnunar. Engin merki sáust um hálsbrot.”
Meðal gagna málsins eru nokkur endurrit úr dagbók lögreglunnar í Reykjavík frá tímabilinu apríl 2002 til desember 2003. Varða þau kærur A á hendur ákærða fyrir ofbeldisverk og hótanir í hennar garð. Þá eru nokkur skjöl í málinu sem varða umgengnisdeilu ákærða og A vegna dóttur þeirra, og ennfremur gögn sem varða dvalarleyfi A heitinnar og tveggja eldri barna hennar af fyrra hjónabandi hér á landi. Ekki þykir vera ástæða til þess að rekja efni þessara skjala nánar.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærði hefur skýrt frá því að þau A hafi kynnst fyrst árið 2000 en síðar tekið upp sambúð og búið saman í 5 6 mánuði. Dóttir þeirra hafi fæðst í ágúst 2002 en þá hafi sambúðinni verið lokið. Sambúðin hafi gengið mjög vel fyrstu mánuðina en eftir það mjög illa. Hafi A verið með sífelldar hótanir að hún skyldi fyrirkoma fóstrinu og að hún myndi láta sig hverfa og reynt þannig að kúga út úr honum peninga. Þau hafi einnig átt í deilu um umgengni hans við barnið eftir sambúðarslitin og A notað þá deilu til þess að kúga af honum fé. Hafi hann borið mál sitt upp við barnaverndarnefnd og við sýslumann, fengið sér lögfræðing, borið sig upp við umboðsmann Alþingis, við dómsmálaráðuneytið og fleiri. Hafi þetta allt verið til einskis og haft svo mikil áhrif á hann að hann sturlaðist á endanum. Hafi A verið sífellt að kæra hann fyrir rangar sakir og beitt lögreglunni fyrir sig í deilum þeirra. Þá hafi hún rofið samkomulag við hann um að þau reyndu aftur sambúð í 3 mánuði og þess í stað gert á hendur honum kröfu um meðlag 5 vikum eftir að dóttir þeirra fæddist. Hafi hann orðið langþreyttur á þessum tiltækjum hennar og þá stundum í reiði látið þung orð falla um hana. Hann segist aðeins einu sinni hafa hótað A og það hafi verið í reiði vegna þess að hún meinaði honum að fara með barnið í fjölskyldufagnað. Hann segir A hafa verið sólgna í fjárhættuspil og hafi hún tapað 2 milljónum í því. Þá hafi hún boðið honum dóttur sína til sölu. Hann segir A hafa hótað honum lífláti og hann tekið þær hótanir mjög alvarlega. A hafi verið siðlaus vændiskona og verið stórhættuleg manneskja sem ekki hefði átt að hafa börn. Hann segist hafa leitað sér hjálpar hjá geðlækni enda hafi hann helst viljað deyja.
Um nóttina sem um ræðir segir ákærði svo frá að þau hafi verið búin að taka upp samband aftur. A hafi komið til hans um miðnættið og fengið peninga hjá honum og farið út að skemmta sér. Hafi hún sagt honum að hún myndi verða frá í klukkutíma en það hafi ekki staðist og hún komið til hans um klukkan fimm um morguninn. Hafi þau sofið saman í herberginu hans og allt verið í góðu með þeim. Um tíuleytið hafi þau vaknað þegar faðir hans fór út. Þau hafi farið að elskast aftur. Hann hafi svo farið að minnast á sýslumann og forsjá með barninu en þá hafi allt farið úr böndunum og hún farið að hóta því að hann fengi ekki að sjá barnið framar, að hún myndi kæra hann. Þá hafi hún kallað hann aumingja. Hann segist þá hafa skyndilega misst vitið. Hann muni ekki eftir því að hafa tekið upp kúbeinið og barið hana með því en þó viti hann að það hafi hann gert. Hafi einhver annar persónuleiki fæðst í honum og ráðið gerðum hans. Hann muni eftir því að hún hafi fallið í gólfið og steinlegið þar. Hann muni ekki eftir því að hafa slegið A en mikið hafi blætt úr henni. Hann hafi þá tekið belti af slopp sínum og bundið um hálsinn á henni til þess að stöðva blóðrennslið til höfuðsins. Ekki muni hann hvernig hann batt um hálsinn á henni. Aðspurður hvort hann hafi ekki óttast að konan kynni að deyja af þessu segir hann að hann hafi haldið að hún væri þegar dáin og það þótt henni héldi áfram að blæða, enda beri hann ekki skynbragð á slíkt. Hann hafi svo þvegið henni undir sturtunni og sett hana í poka sem hann átti og hafði m.a. notað undir sængurföt í sumarbústaðarferðir. Kúbeinið sem um ræðir hafi verið í opnum skáp í herberginu og hafi rifjast upp fyrir honum eftir að hann gaf skýrslur hjá lögreglunni, að hann hafi haft það inn með sér til þess að verja sig, eftir að honum fóru að berast hótanir frá fólki A heitinnar. Hafi hann reyndar haft hjá sér tvö kúbein í herberginu. Þessar hótanir hafi, að hann telur, verið þáttur í “kúgunarferli þeirra”. Hann segist hafa þrifið íbúðina eftir að hann hafði borið líkið út í bíl. Ekki muni hann að segja nánar frá þrifunum, enda verið í algeru sturlunarástandi, en hann hafi skúrað eitthvað þarna. Hann muni eftir því að hafa hent síma A í sjóinn. Þá hafi hann farið upp í Álfsnes til þess að losa sig við líkið á haugana en það ekki gengið. Hann hafi svo farið suður í Hafnarfjarðarhraun og fundið gjótu þar og komið líkinu þar fyrir. Ekki viti hann hvers vegna hann fór svona með líkið því hann hafi ekki verið með sjálfum sér og verið önnur persóna en hann sjálfur. Geti hann ekki sagt hvað hann hugsaði sér með þessu. Hann kveðst mörgum sinnum hafa gefið út “skipun um að hætta þessu” og hringja á lögregluna, en það hafi ekki komist til skila. Hann telur ástæðu þess, að hann vísaði lögreglu fyrst á rangan stað til að leita að líkinu hafi verið hræðsla, enda hafi hann ekki vitað hvað myndi gerast. Hann hafi verið í einangrun og ekki fengið að hitta lögmann sinn og verið með snert af ofsóknarkennd og engum treyst. Eins hafi lögreglan verið búin að misbjóða honum og hann verið reiður yfir því. Þá hafi hann verið hræddur við fólkið hennar A, við það sem það kynni að gera honum. Hafi fólkið verið búið að hóta því að koma og brjóta á honum “lappirnar”. Allt hafi verið óljóst fyrir honum og “í svo mikilli vitleysu” og hann einfaldlega verið hræddur. Ákærði segir A ekki hafa reynt að verjast honum og sé ályktun réttarmeinafræðingsins um það röng. Hann segir að sturlunin hafi ekki runnið af honum fyrr en síðar um daginn, að hann var staddur á Laugavegi. Hann hafi farið að gera sér ljóst að komast mundi upp um hann, en hann ákveðið að vera erfiður og ekki vitað hvað hann ætti til bragðs að taka og beðið þess að lögreglan kæmi að finna hann.
Ákærði kveðst iðrast þess að hafa gert það sem hann gerði og sjá mikið eftir því, enda sé þetta alveg búið að eyðileggja líf hans og barnanna. Hann hafi lengi verið reiður eftir atburðinn og sé hann ennþá reiður. Kerfið hafi “klikkað” og einnig A og fjölskylda hennar. Allt hafi einhvern veginn “klikkað”. Reiði hans beinist aðallega að “kerfinu”, að sýslumanni og barnaverndarnefnd, dómsmálaráðuneytinu og lögfræðingunum. Sérstaklega aðspurður segist hann að sjálfsögðu iðrast gagnvart A heitinni. Þá segist hann, einnig aðspurður, finna sök hjá sjálfum sér vegna verksins og finna til ábyrgðar á því. Hann segist ekki lengur vera reiður út í yfirvöld, a.m.k. ekki í þeim mæli sem hann hafi verið síðasta eina og hálfa árið sem hann hafi verið “að sturlast hægt og rólega”. Nú sé hann alveg rólegur og langt því frá að vera sturlaður. Hann hafi bara misst vitið.
Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur, hefur komið fyrir dóm og verið spurð út í rannsóknina. Hún segir höfuðáverka á líkinu vera eftir klaufina á kúbeini. Konan hafi misst meðvitund við fyrsta höfuðhöggið og áverkarnir á vinstri framhandlegg hafi komi á undan því og séu greinilega eftir kúbein. Þá samrýmist áverkar á upphandleggjum, ekki flutningsáverkum en ekki sé hægt að útiloka að áverkar á höndum séu eftir flutninga.
Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, var fenginn til þess að rannsaka geðheilbrigði ákærða með tilliti til sakhæfis hans. Hefur læknirinn samið rækilega skýrslu um þá rannsókn sem staðfest hefur verið fyrir dómi og liggur frammi í málinu. Verður gerð nánari grein fyrir henni hér á eftir.
Niðurstaða
Fyrir liggur að A hlaut fjögur þung högg á höfuðið með kúbeini og voru tvö þeirra svo þung að höfuðkúpan brotnaði undan þeim. Að áliti réttarmeinafræðings hefðu höfuðáverkarnir leitt konuna til dauða, ef hún hefði ekki verið kyrkt áður. Ákærði hefur viðurkennt að hafa ráðist á A með því að slá hana í höfuðið með kúbeini. Í yfirheyrslum hjá lögreglu kvaðst hann hafa slegið hana nokkur högg, fyrst eitt í höfuðið svo að hún féll og svo nokkur högg í höfuðið þar sem hún lá. Fyrir dómi hefur hann sagst ekki muna lengur eftir að hafa slegið konuna, en hann viti þó að hann hafi gert það. Hann hefur ennfremur viðurkennt að hafa eftir þetta brugðið belti um háls hennar og hert að. Hefur hann sagst hafa gert þetta til þess að stöðva blóðstreymi úr höfuðsárunum, en hann hafi þá haldið að konan væri ekki lengur á lífi.
Með játningu ákærða, sem studd er rækilegri tækni- og meinafræðirannsókn, er sannað að hann réðst á konuna og sló hana fjögur högg í höfuðið með kúbeininu, eins og rakið er og herti svo að hálsi hennar með beltinu að hún beið bana. Skýring ákærða á kyrkingunni þykir vera ótrúverðug og þykir ekki varhugavert að slá því föstu að hún hafi verið lokaatlaga hans í árásinni á A, sem öll hafi miðað að því að svipta hana lífi. Þá þykir dóminum mega byggja á því áliti réttarmeinafræðingsins að líkið beri þess merki að konan hafi reynt að verjast árásinni. Verknaður ákærða varðar við 211. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, hefur eins og áður segir, framkvæmt geðrannsókn á ákærða og gert um hana skýrslu, sem hann hefur staðfest fyrir dómi. Í samantekt um geðskoðun og viðtöl við ákærða segir, að lýsing hans á sjálfum sér stangist á við þann raunveruleika sem skráður sé í heimildum og lýst af nánum ættingjum. Ljóst sé að Hákon hafi neytt vímuefna með köflum og hann virðist frá barnsaldri hafa afneitað eða bælt mörg vandamál eða atburði sem yfirleitt trufli samvisku venjulegs fólks. Hann hafi skýr almenn skilmerki persónuleikatruflunar og lítið innsæi í eða skilning á hegðun sinni. Slíkir einstaklingar finni yfirleitt lítið fyrir annmörkum sínum en geti á köflum orðið þunglyndir. Yfirleitt sé það umhverfið, ættingjar, stofnanir, samfélagið sem fái að finna fyrir hegðun þeirra. Hugrænt mistúlki einstaklingar þessarar gerðar fólk, umhverfi og atburði sem leiði til misskilnings og tortryggni. Þá geti væntingar þessara einstaklinga orðið mjög miklar og geðbrigði þeirra geti verið afar sterk. Tilfinningasvörun geti, einkum undir álagi, orðið ýktari og meiri en áreitið ætti að framkalla. Stjórn á hvötum og þörfum sé almennt léleg og aðferðir við að tengjast og tjá sig við aðra sé oft óþroskuð og óörugg. Hegðunarvandi komi fram á flestum sviðum en þessir einstaklingar læri ekki af mistökum og séu stífir og ósveigjanlegir. Leiði það svo til frekari vandamála, bæði félagslegra og persónulegra. Atburðir endurtaki sig því reglulega og oftast sé það umhverfið sem líði fyrir það.
Niðurstöður læknisins eru þær, að ákærði sé sakhæfur og ábyrgur gerða sinna. Geðskoðun sýni ekki nein örugg einkenni sturlunar, rugls eða ranghugmynda. Skammvinn einkenni ofsóknarhugmynda og ofskynjanir virðist hafa komið fram á einstaka tímabilum er ákærði hafi örugglega verið í umtalsverðri neyslu. Engin merki hafi komið fram sem bendi til persónuleikabreytinga af völdum vefrænna skemmda. Ákærði eigi ekki við að stríða alvarlegan geðsjúkdóm en hann hafi verið þunglyndur á löngum tímabilum (þ. e. með dysthymiu, óyndi), en óljóst sé hvað valdið hafi því. Hann hafi notað á skaðlegan hátt áfengi, fíkniefni og læknislyf. Hann hafi greinst með örugg einkenni persónuleikatruflunar sem geti haft alvarlegar afleiðingar, sérstaklega með neyslu áfengis og fíkniefna. Ekkert hafi komið fram við rannsóknina sem bendi til þess að ákærði þoli ekki fangelsisvist sökum alvarlegrar geðröskunar.
Dómurinn álítur ákærða fyllilega sakhæfan í skilningi 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga og að hann hafi unnið sér til refsingar með broti sínu.
Ákærði var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals árið 1995, en hefur annars ekki verið refsað áður.
Fyrir liggur að samband ákærða og A heitinnar gekk erfiðlega og hefur ákærði borið henni illa söguna, eins og rakið hefur verið. Hefur því og verið haldið fram af hans hálfu að hann hafi sætt slíkum misgerðum og ranglæti af hálfu hennar, að 75. gr. almennra hegningarlaga eigi við um geðsmuni hans og ástæður þegar hann framdi brotið. Á þetta sjónarmið verður ekki fallist, enda styðja gögn málsins í engu þessar ásakanir. Þá verður ekki séð af skýrslum ákærða sjálfs, frekar en öðrum sakargögnum, að hún hafi misboðið ákærða þennan afdrifaríka morgun, og að 4. tl. 1. mgr. 74. gr. hegningarlaganna geti því átt við í málinu. Loks þykir útlistun ákærða á hugarástandi sínu þegar hann framdi brotið vera mótsagnakennd og því ósannfærandi. Atlaga hans að A var heiftarleg og bersýnilegt er, að hann ætlaði sér að svipta hana lífi. Ekki þykir þó sannað, að hann hafi ásett sér það fyrr en skömmu fyrir voðaverkið og verður að byggja á þeim framburði hans að hann hafi ráðist á konuna eftir að þeim varð sundurorða.
Eins og rakið hefur verið reyndi ákærði að afmá öll merki um brot sitt og meðferð hans á líkinu var smánarleg. Einnig er fram komið hjá honum að hann hafi einsett sér að vera lögreglunni erfiður, þótt hann vissi að upp um hann hlyti að komast. Ákærði neitaði sök framan af lögreglurannsókninni og fyrir liggur að hann reyndi um skeið, eftir að hann játaði verknaðinn, að villa um fyrir lögreglu í leitinni að líkinu. Þá er til þess að líta, að framganga ákærða við rannsókn málsins, þ. á m. undir geðrannsókninni, og skýrsla hans fyrir dómi gefa til kynna að hann sé ekki mjög sakbitinn eftir verkið.
Refsing ákærða þykir að öllu þessu athuguðu vera hæfilega ákveðin fangelsi 16 ár. Frá henni ber að draga gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 7. júlí sl., samtals 254 daga.
Ákærði hefur, eins og fram er komið, samþykkt bótakröfur barna A, þeirra B, C og D. Dæma ber hann til þess að greiða þeim kröfufjárhæðirnar sem þar eru settar fram ásamt vöxtum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001, eins og rakið er í dómsorðinu. Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 ber ennfremur að dæma ákærða til þess að greiða hverju þessara barna 25.000 krónur í bætur fyrir kostnað við að halda fram bótakröfunni, einnig ásamt vöxtum.
Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun til verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., 500.000 krónur. Dæmast laun þessi án virðisaukaskatts.
Héraðsdómararnir Pétur Guðgeirsson, dómsformaður, Sigrún Guðmundsdóttir og Helgi I. Jónsson dómstjóri kváðu upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Hákon Eydal, sæti fangelsi 16 ár. Frá refsingunni dregst 254 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði greiði skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 4. júlí til 1. desember 2004, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna til greiðsludags, sem hér segir:
B, [...], 5.559.701 krónu,
C, [...], 6.253.049 krónur og
D, [...], 10.117.825 krónur.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun til Brynjars Níelssonar hrl., 500.000 krónur.