Hæstiréttur íslands
Mál nr. 284/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 26. maí 2006. |
|
Nr. 284/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. júní 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimililsfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. júní 2006, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint stórfellt fíkniefnabrot. Lagt hafi verið hald á 15.227,90 g af amfetamíni og 10.283,05 g af hassi sem falin hafi verið í bifreiðinni [...] sem flutt var til landsins frá Rotterdam í Hollandi. Fíkniefnin hafi fundist við leit tollgæslu þann 3. f.m. Bifreiðin hafi verið flutt inn á nafni meints vitorðsmanns kærða, A. Lögregla hafi haft eftirlit með bifreiðinni frá því fíkniefnin fundust og hafi hljóðupptökubúnaði og gerviefnum verið komið fyrir í bifreiðinni og símar grunaðra hlustaðir. A hafi leyst bifreiðina úr tolli og flutt á bifreiðastæði utan við heimili hans. B, C og D hafi bifreiðina á umrætt bifreiðastæði að kvöldi 13. f.m. Hafi þeir flutt bifreiðina í verkstæðishúsnæði við Y en þeir hafi verið handteknir skömmu síðar. Aðkoma á vettvangi og hljóðritað samtal við bifreiðina í húsnæðinu bendi eindregið til þess að umræddir þremenningar hafi verið að móttaka efnin með því að fjarlægja þau úr bifreiðinni. Kærði sé talinn hafa komið að innflutningi fíkniefnanna með því að hafa fengið nefndan A til að vera skráðan kaupanda og flytjanda bifreiðarinnar hingað til lands en þeir séu nágrannar í sama fjölbýlishúsi.
Fyrir liggi framburðarskýrslur A frá 25. og 27. f.m. auk skýrslu sem hann hafi gefið fyrir dómi þann 26. f.m., þar sem hann lýsti meintri aðild sinni og kærða að málinu, sbr. einnig bókun í þingbók þann 5. þ.m. í máli nr. R-253/2006. Fram hafi komið hjá A að kærði hafi fengið hann til að taka þátt í brotinu gegn þóknun, nánar tiltekið með því að taka að sér að vera innflytjandi bifreiðar sem í væru falin fíkniefni. A hafi greint frá tveimur ferðum sínum til Belgíu í þessu skyni sem hann hafi farið að beiðni kærða, móttöku hans á reiðufé frá kærða til farmiðakaupa auk þess að hafa fengið frá kærða upplýsingar um símanúmer hjá tengiliði í Belgíu sem hann hafi hitt. Einnig hafi A greint frá því að hann hafi verið í símasamskiptum við kærða í utanför sinni og móttekið þá frá honum 20 þúsund kr. sem kærði hafi lagt inn á bankareikning A. A hafi einnig lýst samskiptum við kærða eftir að bifreiðin var komin til landsins þar til farið var með hana af bifreiðastæðinu eins og áður greini. Hafi A nokkru síðar fengið 650 þúsund kr. frá kærða í reiðufé til að leysa bifreiðina út af tollsvæði í Sundahöfn sem A hafi lagt inn á bankareikning sinn. Sé nánar vísað til framburðarskýrslna A. Framburður A um meinta aðild kærða og annað sem tengist innflutningnum, þyki í samræmi við eftirlit lögreglu fyrir handtöku, sbr. skýrslu Þorbjörns Vals Jóhannssonar, rannsóknarlögreglumanns, dags. 26. f.m. Jafnframt þyki framburður A í samræmi við samtal hans við kærða sem hafi verið hljóðritað í bifreiðinni þann 12. f.m. Framburður A þyki einnig í samræmi við framburð sonar hans, E, en nánar sé vísað til framburðarskýrslu hans frá 12. þ.m. Fyrir liggur að nefndur C, einn þremenninganna sem sótti bifreiðina, hitti kærða áður sama kvöld en grunur leiki á því að kærði hafi þá látið C fá kveikjuláslykla bifreiðarinnar í umrætt skipti.
Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 26. f.m. á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 28. f.m. og 11. þ.m. í málum nr. 226/2006 og 253/2006. Grunur lögreglu þyki hafa styrkst á gæsluvarðhaldstímabilinu. Fyrir liggi símagögn sem staðfesti tíð símasamskipti kærða og A skömmu fyrir og skömmu eftir utanlandsferðirnar. Einnig liggi fyrir bankagögn sem staðfesti að kærði lagði fyrrnefndar 20 þús. kr. inn á bankareikning A og gögn sem sýni að A lagði kr. 650 þús. kr. inn á bankareikning sinn, um hálftíma eftir að kærði hafði hringt í A skv. fyrirliggjandi símagögnum. Að mati lögreglu sé ekkert fram komið sem hreki framburð A. Kærði neiti allri aðild að brotinu og hann hafi gefið sínar skýringar á símasamskiptunum, m.a. sagt þau tengjast ætluðum kaupum á radarvara í Fríhöfninni og 20 þús. kr. greiðslan hafi verið greiðsla á láni. Kærði leggi annan skilning en lögregla og A í fyrrnefnt hljóðritað samtal frá 12. f.m. og kærði neiti að hafa móttekið kveikjuláslykilinn frá A og segist ekki geta tjáð sig frekar um það. Kærði hafi gefur sínar skýringar á fyrrnefndri heimsókn C til sín en nánar sé vísað til framburðarskýrslna kærða frá 26. f.m. og 5. þ.m.
Rannsókninni miði áfram en nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu, tengsl þeirra innbyrðis og tengsl við aðra vitorðsmenn sem tengist málinu en ekki sé vitað um á þessu stigi hverjir séu en kunni að tengjast fjármögnun og kaupum á fíkniefnunum, ætlaðri móttöku og dreifingu þeirra hér á landi auk þess sem upplýsa þurfi nánar um seljendur og/eða sendendur efnanna erlendis. Unnið sé að gagnaöflun og gagnaúrvinnslu fjármála- og fjarskiptaupplýsinga í þessu skyni. Mikilvægar fjármálaupplýsingar hafi þegar fengist en tafir hafi orðið á afgreiðslu gagna frá tilteknum fjármálastofnunum og sé þessari vinnu ekki lokið, sbr. nánar tvær upplýsingaskýrslur Þorbjörns Vals Jóhannssonar, rannsóknarlögreglumanns, dags. 17. þ.m. og greinargerðir til Hæstaréttar frá 22. þ.m. í máli réttarins nr. 275/2006. Skv. fjármálagögnum sem fengist hafi þá liggi fyrir upplýsingar um að kærði hafi þann 21. febrúar sl. lagt háa peningafjárhæð í evrum inn á tiltekinn bankareikning á hollensku Antileyjum. Kærði neiti því að bankafærslan tengist hinu meinta fíkniefnabroti, sbr. framburð kærða frá 22. þ.m. Fyrir liggi fjármálagögn sem sýni fram á að aðrir sakborningar í sama máli hafi einnig lagt inn háar fjárhæðir á sama bankareikning á svipuðu tímabili. Öflun fjármálagagna sé ekki lokið og nýjar upplýsingar geti komið fram á næstu dögum sem skýrt geti þetta frekar. Framundan séu frekari yfirheyrslur af vitnum og sakborningum, þ.m.t. kærða. Nauðsynlegt sé að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda áfram rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Í greinargerð lögreglustjóra, sem rakin var hér að framan, kemur fram að kærði er grunaður um aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna. Rannsóknargögn bera með sér að grunur þessi sé rökstuddur og gæti brot kærða varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Rannsókn máls þessa er vel á veg komin en ekki lokið og verður að fallast á það með lögreglustjóra að kærði geti torveldað hana, fari hann frjáls ferða sinnai. Með vísun til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð :
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. júní 2006, kl. 16:00.