Hæstiréttur íslands
Mál nr. 542/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
|
|
Föstudaginn 15. ágúst 2014. |
|
Nr. 542/2014.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. ágúst 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. ágúst 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 27. ágúst 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. ágúst 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 27. ágúst 2014, kl. 16:00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kröfu sína byggir lögreglustjóri á a lið 1. mgr. 95. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Krafan er reist á því að kærði sé undir grun um brot gegn 1. og 2. mgr. 218. gr., 225. gr., 226. gr., 233. gr., og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verið markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra segir m.a. að þann 6. ágúst sl. hafi A komið á lögreglustöðina í [...] og tilkynnt lögreglu að hann hafi orðið fyrir líkamsárás af hendi Y. A hafi þá verið í mikilli geðshræringu og ekki skýrsluhæfur að mati lögreglu. A kvaðst hafa verið tekinn og farið með hann út á land þar sem hann hafi verið pyntaður og honum hótað. Lögreglan hafi flutt A á slysadeild þar sem læknir hafi tekið á móti honum. Að sögn læknisins hafi A haft þar sömu sögu að segja, hann kvaðst hafa verið tekinn af nokkrum mönnum og haldið föngnum í 6-8 klukkustundir. Hann kvað þá hafa kýlt hann, sparkað í hann, notað rafbyssu, bitið hann, hann neyddur til að drekka smjörsýru og látinn sleikja frunsu á öðrum manni. A hafi verið með litla rauða bletti á líkamanum sem að sögn læknis geti komið saman við frásögn hans um að beitt hafi verið rafbyssu. Þá hafi hann verið með marblett við vinstra auga, roða yfir andliti, rauða dökka rák á hálsi og marga blóðbletti. Þá hafi hann einnig verið með margar rauðar rákir víða um bakið eftir högg eða núning.
Þann 11. ágúst hafi A komið til skýrslutöku hjá lögreglu og lagt fram kæru í málinu. Hann kvað aðila að nafni Æ hafa tekið sig í leigubíl og látið aka suður í [...] til að ræða við Y. Hann kvaðst hafa labbað inn í húsið í [...] og þá hafi hann strax verið kýldur nokkrum sinnum í andlitið. Hann kvaðst hafa verið pyntaður í marga klukkutíma, þeir hafi m.a. notað rafbyssu á háls hans og kynfæri þannig að hann hafi misst þvag, og hafi látið hann drekka smjörsýru. Hann kvað þá hafa verið þrjá, Y, X og Z, þá kvað hann einnig stelpu hafa verið á staðnum sem heitir Þ. Þeir hafi hótað að nauðga honum, hafi tekið úlpuna hans og úr. Hann kvað þá hafa sparkað í hausinn á sér, skorið sig í magann og á bakið. Þá hafi hann verið sprautaður með efni í lærið. Y mun þá hafa sagt honum frá atburði sem Y kvað leiða til þess að A ætti að greiða honum hálfa milljón sem væri ástæða þessarar frelsissviptingar og líkamsmeiðinga. Þá hafi X tilkynnt honum að A skuldaði honum 100 þúsund krónur og sama gerði Þ og hafi sagt að skuld hans við hana væri 200 þúsund krónur.
Að barmsmíðunum loknum hafi Æ farið með A til [...] til að tryggja það að A myndi greiða skuldirnar. A hafi náð að flýja úr bifreiðinni þegar komið var til [...]. Í gær, þann 12. ágúst, hafi lögreglan farið að [...] í [...]. Í húsnæðinu hafi Y, Þ, Z og X verið, þau hafi öll verið handtekin. Við húsleit hafi eitthvað fundist af fíkniefnum, ætluð smjörsýra, haglabyssa, rafbyssa, meint þýfi, sprautunálar, blóðdropar á gólfi og úlpa eins og brotaþoli hafði lýst. Æ sé nú eftirlýstur af lögreglu.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu í gær hafi X játað sök að hluta til í málinu.
Kærði sé undir rökstuddum grun um alvarlega líkamsárás, frelsissviptingu, ólögmæta nauðung og hótanir. Brot þau sem til rannsóknar séu og kærðu séu grunuð um varði fangelsisrefsingu allt að 16 ára fangelsi og telji lögregla að brýnir rannsóknarhagsmunir séu í húfi. Lögregla leiti nú fimmta aðilans en hann sé ófundinn. Þá eigi eftir að taka frekari skýrslur af meðkærðu, vitnum, skýrslu af brotaþola og frekari skýrslur af kærða en rannsókn sé á frumstigi. Þyki því með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuddum grunsemdum lögreglu brýnt að tryggja rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif, á aðra samseka og eftir atvikum vitni og brotaþola ef hann fái að fara frjáls ferða sinna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Þegar litið er til gagna málsins er fallist á með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geti við allt að 16 ára fangelsi. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með sömu rökum verður tekin til greina krafa um að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu. Með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er því fallist á að kærði sæti gæsluvaðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Með vísan til 2. mgr. 98. gr., sbr. a lið 95. gr., sömu laga, er tekin til greina krafa um að kærði sæti einangrun.
Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 27. ágúst nk. kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.