Hæstiréttur íslands

Mál nr. 451/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnaöflun
  • Vitni


Miðvikudaginn 9

 

Miðvikudaginn 9. janúar 2002.

Nr. 451/2001.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

 

Kærumál. Gagnaöflun. Vitni.

X var ákærður fyrir að hafa sem flugstjóri flugvélar flutt tólf farþega í tiltekinni ferð en vélin var aðeins búin sætum og öryggisbeltum fyrir tíu farþega. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu ákæruvaldsins um að lögð yrði fram lögregluskýrsla af X ásamt þar til greindum fylgiskjölum, en hafnaði kröfu X um að honum yrði heimilað að leggja fram álitsgerð sálfræðingsins J um framburð vitna hjá lögreglunni og leiða hann fyrir dóm sem vitni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2001, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að leggja fram lögregluskýrslu af varnaraðila 5. janúar 2001 ásamt þar til greindum fylgiskjölum, en hafnað kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að leggja fram sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar 17. desember sama árs og leiða hann fyrir dóm sem vitni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að sér verði heimilað að leggja fram í málinu fyrrnefnda skýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar, svo og að leiða hann fyrir dóm sem vitni, en jafnframt að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að mega leggja fram áðurgreinda lögregluskýrslu. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2001.

Mál þetta var höfðað 3. október 2001 með með birtingu ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 28. ágúst 2001, á hendur X fyrir brot gegn löggjöf um loftferðir. Er ákærða gefið að sök að hafa sem flugstjóri flugvélarinnar [...] flutt tólf farþega í tiltekinni ferð en vélin er aðeins búin sætum og öryggisbeltum og skráð fyrir tíu farþega.

Málið var þingfest 10. október sl. og er dómur í málinu fjölskipaður.

Í þinghaldi 7. nóvember sl. óskaði verjandi ákærða eftir fresti til að afla álits læknis á hæfi vitna þeirra, sem voru farþegar í flugvélinni, til að muna atburði miðað við ástand þeirra og þann tíma sem leið frá fluginu þar til skýrsla var tekin af þeim hjá lögreglu. Af hálfu ákæruvaldsins er ekki gerð athugasemd við að frestur væri veittur í þessu skyni, en bent á að um þarflausa gagnaöflun væri að ræða.

Í þingbók stendur „Dómsformaður neitar að veita verjanda sérstakan frest í þessu skyni. Að öðru leyti lýsa sakflytjendur gagnaöflun lokið.“

Málið var tekið fyrir í þinghaldi 17. desember sl. þar sem báðir aðilar höfðu óskað eftir því að leggja fram viðbótargögn fyrir aðalmeðferð þess sem fara átti fram 19. desember 2001. Ágreiningur kom upp um framlagningu gagnanna og var hann tekinn til úrskurðar. Er ágreiningur aðila eftirfarandi:

I. Af hálfu ákæruvaldsins er óskað eftir að leggja fram lögregluskýrslu ákærða, dagsetta 5. janúar 2001 ásamt fylgiskjölum, þ.e. ljósritum úr skráningarbók flugfélagsins og ljósritum farþegalista og farmiða frá 5. ágúst 2000.

Verjandi ákærða hafnar því að þessi gögn verði lögð fram þar sem í þinghaldi 7. nóvember sl. hafi verið lýst lokið gagnaöflun. Þar að auki telur hann þessi gögn málinu óviðkomandi.

Af hálfu ákæruvaldsins er því mótmælt að gögn þessi séu málinu óviðkomandi. Þá er á því byggt að unnt sé að leggja fram gögn, þrátt fyrir að lýst hafi verið lokið öflun sýnilegra sönnunargagna, þar sem málsforræðisreglan gildi ekki að sama mæli í opinberum málum og í einkamálum.

II. Verjandi ákærða óskar að leggja fram sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings, dagsetta 17. desember 2001, þar sem fram kemur mat hans á trúverðugleika vitnisburða þeirra farþega sem borið hafa vitni í málinu ásamt fylgigögnum. Þess er jafnframt krafist að Jón Friðrik komi fyrir dóminn sem vitni við aðalmeðferð málsins.

Máli sínu til stuðnings vísar lögmaðurinn til Hæstaréttardóms 286/1999, þar sem heimilað hafi verið að leggja fram skýrslu sérfræðings við mat á framburði kæranda í því máli. Þá vísar hann til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Af hálfu ákæruvaldsins er mótmælt framlagningu þessara gagna og að vitnið, Jón Friðrik, verði leitt, þar sem slíkt sé í andstöðu við réttarfarslög, en skýrslan lúti að mati sálfræðingsins á framburði vitna fyrir lögreglu. Vitnin eigi eftir að gefa skýrslu fyrir dómi og það sé dómsins að meta framburð þeirra. Þá er því mótmælt af hálfu ákæruvaldsins að hliðstæða sé með máli þessu og máli í tilvitnuðum hæstaréttardómi.

Niðurstaða.

I. Í þinghaldi í málinu 7. nóvember sl. lýstu fulltrúi ákæruvaldsins og verjandi gagnaöflun lokið að því undanskildu að verjandi áskildi sér rétt til að leggja fram skýrslu um mat á vitnum ef slík skýrsla lægi þá fyrir.

Gögn þau sem ákæruvaldið óskar að leggja fram í málinu nú er skýrsla sem ákærði gaf hjá lögreglu vegna þess atviks er flugvélin TF-GTI fórst í Skerjafirði þann 7. ágúst 2000, auk gagna sem henni fylgdu, þ. e. ljósritum úr bókunarbók sem notuð var um verslunarmannahelgina vegna flugs frá Selfossi til Vestmannaeyja og ljósritum yfir farþegalista og farmiða frá 5. ágúst 2000. Af hálfu ákæruvaldsins var á það bent að umrædd skjöl hafi verið meðal umfangsmikilla fylgigagna rannsóknar slyssins og því afsakanlegt að þau hafi ekki komið fram fyrr en nú.

Samkvæmt 2. mgr. 128. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 skal dómari að jafnaði ekki ákveða þing til aðalmeðferðar máls fyrr en aðilar hafa lýst lokið öflun skjala og annarra sýnilegra sönnunargagna. Gögn þau sem hér um ræðir eru til upplýsinga og skýringa á málsatvikum og frá ákærða sjálfum komin. Raska þau í engu grundvelli málsins né vörn ákærða. Þykir rétt að gögn þessi verði lögð fram í málinu.

II. Í sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar, sálfræðings og sérfræðings í klíniskri sálfræði og réttarsálfræði, segir í upphafi að hann hafi að beiðni Baldvins Björns Haraldssonar hdl., verjanda ákærða, verið beðinn um að leggja mat á fjögur atriði.

Í fyrsta lagi hvort „vitni þau er gefið hafa vitnaskýrslur fyrir lögreglu við rannsókn málsins hafi haft getu til að greina í slíkum smáatriðum frá atvikum ofangreinds máls sem raun ber vitni, svo löngu eftir að atburðirnir áttu sér stað.“

Í öðru lagi „með tilliti til þeirra atvika sem vitni í málinu lýsa og með tilliti til fréttaflutnings og þjóðfélagslegrar umfjöllunar um málið, að slík umfjöllun sé líkleg til að hafa áhrif á vitnisburði þá sem liggja frammi í málinu og þá vitnisburði sem síðar eiga eftir að koma fram.“

Í þriðja lagi „hvort telja verði að meira ósamræmis gæti í vitnisburði milli ákveðinna hópa vitna í málinu, sem virðast þekkjast innbyrðis, en innan viðkomandi hópa" og að ef um ósamræmi er að ræða „að lýsa hvert slíkt ósamræmi er og hverjar ástæður gætu legið að baki.“

Í fjórða lagi „að lýsa því hvort misræmi er…um atvik málsins milli einstaka vitna“ og að ef svo sé hvort „slíkt misræmi sé í einhverjum eða öllum tilvikum eðlilegt… Eða hvort slíkt misræmi sé með þeim hætti að ólíklegt megi teljast… að vitnin hafi í raun öll upplifað atvik málsins “.

   Skýrslu sálfræðingsins fylgja fjöldi allur af ljósritum af blaðagreinum og útskriftum af sjónvarps- og útvarpsfréttum um málið.

Ráða má af ákvæðum VIII. kafla laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 36/1999 að aðilum opinbers máls sé almennt heimilt að leggja fram mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn til að færa sönnur á málsatvik svo og að leiða vitni í sama tilgangi. Dómara er þó rétt að meina ákæranda eða ákærða að leggja fram gögn í máli eða leiða vitni ef sú sönnunarfærsla er sýnilega þarflaus til upplýsingar málsins, sbr. 4. mgr. 128. gr. sömu laga.

Í 63. gr. laga nr. 19/1991 kemur fram að dómari geti, eftir ósk aðila eða af sjálfsdáðum, dómkvatt kunnáttumenn einn eða fleiri til að framkvæma mats- eða skoðunargerðir í opinberu máli. Af hálfu verjanda ákærða var ekki óskað eftir slíkri dómkvaðningu heldur leitaði hann álits áðurnefnds sérfræðings með tilteknar spurningar og liggur skýrsla hans nú fyrir. Í henni er fjallað efnislega um mat sálfræðingsins á trúverðugleika framburðar vitna byggðum á lögregluskýrslum þeirra sem töldust hafa verið farþegar í tiltekinni flugferð.

Hér á landi sem og víðast hvar annars staðar gildir sú meginregla í opinberu réttarfari að mat á sönnunargögnum er frjálst. Í því felst að dómari metur sjálfstætt sönnunargildi einstakra gagna málsins, þar með talið skýrslur vitna, svo og að hvaða marki þau nægja til að komast að tiltekinni niðurstöðu, sbr. 46 -47. gr. laga nr. 19/1991. Þá er það meginregla við meðferð opinbers máls að sönnunarfærsla skuli vera milliliðalaus, það er að dómur skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð málsins fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. sömu laga.

Sálfræðiskýrsla sú, sem hér um ræðir fjallar almennt um trúverðugleika umræddra vitna hjá lögreglu meðal annars í ljósi innbyrðis samræmis á framburði þeirra, fréttaflutnings og almennrar þjóðfélagsumræðu. Sálfræðingurinn var ekki viðstaddur skýrslutöku af vitnum hjá lögreglu eða hefur hlýtt á framburði þeirra. Það er augljóst að í dómi yrði ekki byggt á sálfræðiskýrslunni um trúverðugleika vitnanna enda í ósamræmi við áðurnefndar meginreglur. Þetta mat mun hins vegar dómurinn annast eftir að aðalmeðferð málsins hefur farið fram. Er skýrslan því sýnilega þarflaus og ber að hafna kröfu verjanda ákærða um framlagningu hennar, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991. Þar af leiðandi ber sömuleiðis að hafna kröfu hans um að leiða vitnið dr. Jón Friðrik.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð.

Ákæruvaldinu er heimilt að leggja fram lögregluskýrslu ákærða, dagsetta 5. janúar 2001, ásamt fylgiskjölum, þ.e. ljósritum úr skráningarbók flugfélagsins og ljósritum farþegalista og farmiða frá 5. ágúst 2000.

Hafnað er kröfum verjanda um að leggja fram sálfræðiskýrslu dr. Jón Friðriks Sigurðssonar dagsetta 17. desember 2001 og að dr. Jón Friðrik komi fyrir dóminn, sem vitni.