Hæstiréttur íslands
Mál nr. 504/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 3. nóvember 2015. |
|
Nr. 504/2015.
|
Hörður Jónsson (Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Ívar Pálsson hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.
H, sem kært hafði úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um hann yrði með beinni aðfaragerð settur inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt um baklóð sóknaraðila að Laugavegi 87 í Reykjavík, afturkallaði kæru sína. Var málið því fellt niður og H dæmdur, að kröfu R, til greiðslu kærumálskostnaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2015, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að hann yrði með beinni aðfarargerð settur inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt um baklóð sóknaraðila að Laugarvegi 87 í Reykjavík, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Með bréfi til Hæstaréttar 20. október 2015 lýsti sóknaraðili því yfir að hann afturkallaði kæru sínu og gerði því ekki lengur kröfur í málinu hér fyrir dómi.
Varnaraðili krefst kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 166. gr. laganna með áorðnum breytingum, er málið fellt niður fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Mál þetta er fellt niður.
Sóknaraðili, Hörður Jónsson, greiði varnaraðila, Reykjavíkurborg, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2015.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 29. júní sl., barst dóminum með aðfararbeiðni, sem móttekin var 19. nóvember sl.
Sóknaraðili er Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkurborgar v/Tjörnina, Reykjavík. Varnaraðili er Hörður Jónsson, Bakkaflöt 12, Garðabæ.
Sóknaraðili krefst þess að hann verði settur inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt um 42,24m2 af baklóð varnaraðila, að Laugavegi 87 (f.nr. 200-5358), Reykjavík sem er nyrst á lóðinni, 4 m á breidd og 10,55 m á lengd, samkvæmt þinglýstri kvöð á lóðina um umferð, dags. 15. júlí 2014, og að hindranir sem varnaraðili hefur lagt á kvöðina verði fjarlægðar á kostnað varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar og að fjárnám verði heimilað fyrir málskostnaði og kostnaði af væntanlegri gerð hjá varnaraðila í fasteigninni að Laugavegi 87.
Varnaraðili krefst þess að synjað verði kröfum sóknaraðila. Fallist héraðsdómur á kröfur sóknaraðila er þess krafist að kveðið verði á um það í úrskurði dómsins að málskot úrskurðarins fresti framkvæmd hans þar til dómur æðra dóms liggur fyrir. Þá er krafist málskostnaðar.
II
Málavextir
Hinn 11. ágúst 2005 tók gildi deiliskipulag sóknaraðila fyrir staðgreinireit 1.174.1. Nánar tiltekið er um að ræða svæði sem afmarkast af Barónsstíg, Hverfisgötu, Snorrabraut og Laugavegi. Með deiliskipulaginu var m.a. kveðið á um heimild til að stækka hús við Laugaveg 85 og 87 en varnaraðili er eigandi hins síðarnefnda húss og lóðar sem það stendur á. Samkvæmt deiliskipulaginu skyldi vera umferðarréttur yfir lóð varnaraðila að nærliggjandi lóð við Laugaveg 85. Eru aðstæður þarna nánar þannig að húsin nr. 85, 87, 89 og 91 við Laugaveg eru sambyggð en unnt er að komast meðfram húsi nr. 91 akandi og fara um baklóð þess inn á baklóð húsa nr. 89 og 87. Hús á lóð nr. 85 hefur verið stækkað í samræmi við fyrirætlanir í umræddu deiliskipulagi frá árinu 2005. Á lóð þess er gert ráð fyrir bílastæðum. Þar sem varnaraðili heimilaði ekki akstur um lóð sína, í samræmi við deiliskipulagið, höfðuðu eigendur húss nr. 85 mál á hendur honum til að koma á umræddum umferðarrétti. Með dómi Hæstaréttar 8. október 2009 í máli 118/2009 var varnaraðili sýknaður af kröfu þeirra. Vísaði rétturinn m.a. til þess að umræddur umferðarréttur hefði ekki verið keyptur af varnaraðila og heldur ekki tekinn eignarnámi og var ekki talið að deiliskipulagið gæti eitt og sér talið hafa þær réttarverkanir sem eigendur húss nr. 85 byggðu á.
Í júlí 2013 óskaði sóknaraðili eftir umsögn Skipulagsstofnunar um fyrirhugað eignarnám, sem hann hugðist gera á hluta af lóð varnaraðila, sbr 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Áður hafði sóknaraðila óskað eftir viðræðum við varnaraðila um greiðslu endurgjalds vegna umferðarkvaðarinnar. Varnaraðili var ekki tilbúinn til viðræðna um það atriði heldur vildi að sóknaraðili keypti fasteign hans í heilu lagi. Samkvæmt mati Skipulagsstofnunar, frá 14. ágúst 2013, var talið að sýnt hefði verið fram á að skilyrði 1. tl. 2. mgr. 50. gr. nefndra laga, væru uppfyllt til þess að sóknaraðili tæki eignarnámi hluta af lóð varnaraðila, enda væri það í samræmi við núgildandi deiliskipulag af svæðinu. Með bréfi til varnaraðila 23. ágúst 2013 veitti sóknaraðili varnaraðila frest til að tjá sig um niðurstöðu Skipulagsstofnunar og svohljóðandi tillögu sem mælt væri með að yrði lögð fyrir borgarráð sóknaraðila: Í ljósi þess að viðræður við lóðarhafa á lóðinni nr. 87 við Laugaveg hafa ekki borið árangur samþykkir borgarráð að taka 42,24 m2 nyrst á af lóðinni nr. 87 við Laugaveg eignarnámi fyrir umferðarkvöð fyrir akandi umferð. Er þetta í samræmi við þá umferðarkvöð sem kveðið er á um í deiliskipulagi svæðisins og nánar er gerð grein fyrir á mæliblaði Landupplýsingadeildar, dags. 4. febrúar 2013. Kvöðin er 4 m á breidd og 10,55 m á lengd eða 42,2 m2 að flatarmáli. Lóðarhlutinn tilheyrir lóðinni áfram en á honum hvíli kvöð um akstur. Varnaraðili mótmælti fyrirhugðu eignarnámi með bréfi 30. september 2013. Á fundi borgarstjórnar sóknaraðila 19. nóvember 2013 var framangreind tillaga samþykkt.
Sóknaraðili óskaði hinn 9. desember 2013 eftir mati Matsnefndar eignarnámsbóta vegna eignarnámsins, sbr. lög nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Með úrskurði 16. maí 2014 ákvað nefndin að sóknaraðila bæri að greiða varnaraðila 10.500.000 króna í bætur fyrir hið eignarnumda auk málskostnaðar.
Sóknaraðili hefur þinglýst yfirlýsingu, dags. 15. júlí 2014, um umferðarkvöðina á lóð varnaraðila. Þá leitaði hann eftir því við varnaraðila að fá umráð hins eignarnumda gegn greiðslu matsfjárhæðar. Þann 9. september 2014 tók varnaraðili við greiðslunni með fyrirvara. Varnaðili hefur hins vegar ekki, þrátt fyrir áskoranir sóknaraðila, fjarlægt hindranir (tvær númerslausar bifreiðar) sem eru á lóðinni og er því ekki unnt að nýta umferðarréttinn sem tekinn var eignarnámi.
Varnaraðili höfðaði einkamál á hendur sóknaraðila, til ógildingar á umræddri eignarnámsákvörðun með stefnu birtri 5. september 2014. Voru aðilar sammála um að aðfaramáli þessu yrði frestað þar til niðurstaða héraðsdóms í einkamálinu lægi fyrir. Með dómi uppkveðnum 16. mars 2015 í máli nr. E-3172/2014 var sóknaraðili sýknaður af kröfum varnaraðila. Varnaraðili hefur áfrýjað dóminum til Hæstaréttar en ekki liggur fyrir hvenær munnlegur málflutningur mun fara fram í því. Sóknaraðili mótmælti því að frekari frestir yrðu veittir og krafðist úrskurðar dómsins um það atriði. Var krafan tekin fyrir í þinghaldi 12. júní 2015. Varnaraðili krafðist þess að málinu yrði frestað þar til að dómur Hæstaréttar lægi fyrir. Með úrskurði dómsins uppkveðnum 15. sama mánaðar var þeirri kröfu varnaraðila hafnað. Í þinghaldi sama dag var ákveðið að munnlegur málflutningur færi fram 29. júní 2015.
Héraðsdómari og lögmenn gengu á vettvang við upphaf munnlegs málfutnings fyrir dóminum.
III
Málsástæður sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að 19. nóvember 2013 hafi borgarstjórn sóknaraðila samþykkt, á grundvelli 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að taka 42,24m2 af lóð gerðarþola nr. 87 við Laugaveg eignarnámi fyrir umferðarkvöð í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Samkvæmt 4. mgr. 50. gr. skipulagslaga fari eftir lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun um bætur. Með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, dags. 16. maí 2014 hafi sóknaraðila verið gert að greiða varnaraðila 10.500.000 krónur í eignarnámsbætur, auk 1.200.000 krónur í kostnað við rekstur matsmálsins. Yfirlýsingu um eignarnámið og kvöð um umferð hafi verið þinglýst á eign sóknaraðila 16. júlí 2014. Þann 9. september 2014 hafi sóknaraðili greitt varnaraðila 11.700.000 krónur til varnaraðila.
Sóknaraðili vísar til þess að í samræmi við 13. gr. nr. 11/1973 laga um framkvæmd eignarnáms geti hann tekið umráð hins eignarnumda lóðarhluta við Laugaveg 87 enda hafi sóknaraðili greitt varnaraðila bætur til varnaraðila samkvæmt mati matsnefndar eignarnámsbóta. Þrátt fyrir það hafi varnaraðili ekki viljað hlíta eignarnáminu og ekki fjarlægt bifreiðarnar af þeim lóðarhluta sem umferðarkvöðin liggur um. Sóknaraðili fari með aðild í málinu á grundvelli framangreinds ákvæðis og leit því aðfarargerðar í því skyni að fylgja eftir eignarnáminu og umferðarréttinum sem af því leiðir. Varnaraðili sé með athöfnum sína að aftra sóknaraðila, og þeim sem leiða rétt sinn frá honum vegna deiliskipulags svæðisins, ekki síst húseigenda á lóðinni við Laugaveg 85, að neyta umferðarréttarins í skilningi 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Sóknaraðili beini því til héraðsdóms að skylda varnaraðila til að þola umferð um lóð sína og til að fjarlægja allar hindranir á umferðarréttinum sem verði fullnægt með aðfarargerð, sbr. 73. gr. laga. nr. 90/1989. Umrædd réttindi séu svo ljós að sönnur verða færðar fyrir þeim með framlögðum gögnum í samræmi við 1. mgr. 78. gr. laganna. Þannig liggi fyrir þinglýst yfirlýsing um eignarnám og kvöð um umferðarrétt um lóð gerðarþola, dags. 15. júlí 2014, sbr. ákvörðun sóknaraðila um eignarnám frá 19. nóvember 2013. Þá sé til þess að líta að héraðsdómur hafi sýknað sóknaraðila af kröfum varnaraðila um ógildingu eignarnámsákvörðunarinnar.
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að réttur sóknaraðila til þess að krefjast þess að verða settur inn í umferðarréttinn á grundvelli eignarnámsákvörðunar hans sé ekki ljós og ótvíræður og þar með séu ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989. Þá sé að minnsta kosti uppi slíkur vafi um réttmæti umráðakröfu sóknaraðila að henni beri að hafna samkvæmt lokaákvæði 83. gr. sömu laga.
Varnaraðili telur að eignarnámsákvörðun sóknaraðila sé ólögmæt. Af því leiði að sóknaraðili eigi ekki rétt til innsetningar í umferðarrétt um eignarlóð varnaraðila. Hér þurfi því að skoða grundvöll greindrar ákvörðunar og lögmæti hennar, þ.e. hvort réttilega hafi verið lögð á slík kvöð um akstur ökutækja um eignarlóð varnaraðila, sem sóknaraðili heldur fram. Varnaraðili byggir á því að lagaskilyrðum eignarnáms hafi ekki verið fullnægt umrætt sinn auk þess sem fyrrgreind ákvörðun sé haldin margvíslegum öðrum annmörkum, bæði að formi og efni. Gerir varnaraðili í greinargerð sinni fjölmargar athugasemdir við form og efni ákvörðunarinnar.
Varnaraðili vísar til þess sóknaraðili leiti eftir innsetningu umferðarrétt um eignarlóð sóknaraðila samkvæmt þinglýstri kvöð á lóðina um umferð, sem byggir á hinni ólögmætu eignarnámsákvörðun frá 19. nóvember 2013. Óljóst sé hvaða umferðarrétt sóknaraðili, sem sé sveitarfélag, krefjist innsetningar í. Hingað til hafi eigandi húss nr. 85 við Laugaveg talið sig eiga meintan umferðarrétt um lóð varnaraðila en varla geti sóknaraðili verið að fylgja eftir þeim meintu réttindum fyrir hönd viðkomandi. Þá hljóti grundvöllur umferðarréttarins að vera deiliskipulag sóknaraðila frá ágúst 2005 og eignarnámsákvörðun sóknaraðila 19. nóvember 2013 en ekki yfirlýsing borgarstjórans í Reykjavík frá 15. júlí 2014, sem vísað sé til í kröfugerð sóknaraðila. Enn fremur sé vandséð hvernig kröfugerð sóknaraðila, um afléttingu hindrana sem varnaraðili hafi lagt á kvöðina, geti gengið upp.
Til stuðings kröfu sinni um kveðið verði á um það í úrskurði um innsetningu, ef krafan verður tekin til greina, að framkvæmd úrskurðarins frestist þar til dómur æðra dóms liggur fyrir vísar varnaraðili til þess að ef krafa sóknaraðila verði tekin til greina megi ætla að einhverjir á hans vegum muni aka um eignarlóð varnaraðila með tilheyrandi átroðningi og skemmdum. Einnig liggi fyrir að varnaraðili hafi áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. mars 2015 til Hæstaréttar.
IV
Niðurstaða
Sóknaraðili krefst í máli þessu að verða settur inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt að baklóð varnaraðila að Laugavegi 87. Eins og rakið er í málavöxtum hefur sóknaraðili tekið umferðarréttinn eignarnámi, sbr. ákvörðun borgarstjórnar hans frá 19. nóvember 2013, og greitt varnaraðila bætur og málskostnað samkvæmt mati matsnefndar eignarnámsbóta. Þá hefur hann í samræmi við 32. gr. þinglýsingalaga nr. 8/1978 þinglýst yfirlýsingu um eignarnámið og kvöð um umferð á fasteign varnaraðila.
Í 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms er kveðið á um að þegar mat matsnefndar eignarnámsbóta liggi fyrir geti eignarnemi tekið umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslu matsfjárhæðar og kostnaðar af mati. Sé eignarnema rétt að leita aðfarargerðar án undangengins dóms eða sáttar í þessu skyni. Fer því sóknaraðili, sem er eignarnemi í skilningi laganna, réttilega með aðild í aðfararmáli þessu. Skiptir engu máli í því samhengi þótt eignarnámið snúi að umferðarétti sem komi fyrst og fremst öðrum en sóknaraðila að notum.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði sóknaraðila af kröfu varnaraðila um ógildingu eignarnámsins með dómi uppkveðnum 19. mars 2015 í einkamálinu nr. E-3172/2014. Taldi héraðsdómari að við framkvæmd umrædds eignarnáms hafi verið gætti réttra málsmeðferðarreglna og að eignarnámið hafi verið lögmætt, málefnalegt og að gætt hafi verið andmælaréttar og meðalhófs. Varnir varnaraðila gegn aðfarabeiðni sóknaraðila, sem snúa að því að eignarnámið sé ólögmætt að formi og efni, eru þær sömu og hann hafði upp í einkamálinu. Í samræmi við almennar reglur réttarfars getur dómari aðfaramáli í þessu ekki haggað mati hliðsetts dómara um gildi eignarnámsins, sbr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Engu breytir þótt endalegur dómur sé ekki fallinn í einkamálinu enda getur varnaraðili ekki geti komið sér hjá að hlýða ákvörðun sóknaraðila um eignarnámið með því að skjóta málinu til dóms, sbr. síðari málsliður 60. gr. stjórnarskrár.
Samkvæmt framangreindu verður að telja að réttur sóknaraðila til þess að vera settur inn í umferðarréttinn sé fyllilega skýr. Ber því með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 að fallast á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett, þó þannig að ekki verður kveðið á um það að hindranir verði fjarlægðar „á kostnað varnaraðila“ enda getur sóknaraðili krafist fjárnáms fyrir kostnaði sem fellur til vegna gerðarinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr., sbr. 2. mgr. 36. laga nr. 90/1989. Með vísan til sömu lagaákvæða eru ekki eru efni til þess að mæla sérstaklega fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af væntanlegri gerð í fasteigninni að Laugavegi 87.
Hagsmunir þeir sem um ræðir í málinu eru fjárhagslegs eðlis og fengi varnaraðili mögulegt tjón vegna skemmda á lóð sinni bætt, með fégreiðslu úr hendi sóknaraðila, ef aðfaragerðin yrði framkvæmd í kjölfar úrskurðar þessa og æðri dómur kæmist síðar að gagnstæðri niðurstöðu um heimild sóknaraðila til aðfarar. Eru því ekki eru efni til að fallast á varakröfu varnaraðila um að málskot fresti aðför.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, ber að dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Gróa Björg Baldvinsdóttir hdl. vegna Ívars Pálssonar hrl. en af hálfu varnaraðila Snædís Björt Agnarsdóttir hdl. vegna Óskars Sigurðssonar hrl.
Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð en hún tók við meðferð málsins 24. apríl 2015.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Fallist er á kröfu sóknaraðila, Reykjavíkurborgar, að hann verði með beinni aðfaragerð settur inni í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt um 42,24m2 af baklóð varnaraðila, Harðar Jónssonar, að Laugavegi 87 (f.nr. 200-5358), Reykjavík sem er nyrst á lóðinni, 4 m á breidd og 10,55 m á lengd, samkvæmt þinglýstri kvöð á lóðina um umferð, dagsettri 15. júlí 2014, og að hindranir sem varnaraðili hefur lagt á kvöðina verði fjarlægðar.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.