Hæstiréttur íslands
Mál nr. 117/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Félagsslit
- Verðbréfafyrirtæki
- Skaðabætur
- Aðildarskortur
|
|
Fimmtudaginn 10. apríl 2003. |
|
Nr. 117/2003. |
Böðvar Valgeirsson(Ingólfur Hjartarson hrl.) gegn Burnham International á Íslandi hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Kærumál. Félagsslit. Verðbréfafyrirtæki. Skaðabætur. Aðildarskortur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var að viðurkenna við félagsslit B kröfu BV. Samkvæmt málatilbúnaði BV hafði B boðið honum að taka þátt í lokuðu útboði á hlutafé í bandarísku félagi. Hafi BV ákveðið að ráðast í þessi kaup en fé til þeirra hafi hann fengið af erlendum bankareikningi félags í sinni eigu, A. Fór svo að lögmaður BV krafðist þess að kaupin gengju til baka og kaupverðið yrði endurgreitt með vöxtum og kostnaði, þar sem brugðist hafi sú meginforsenda BV fyrir þeim að unnt yrði að selja hlutabréfin ef gengi þeirra myndi lækka. B var svipt starfsleyfi til verðbréfaviðskipta í nóvember 2001 og tekið til skipta eftir reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Á kröfulýsingarfresti kom m.a. fram krafa frá BV þar sem lýst var kröfu vegna fyrrgreindra viðskipta. Á skiptafundi í apríl 2002 hafnaði skiptastjóri kröfunni. Talið var að BV hafi ekki gegn andmælum B sýnt fram á að hann hafi í eigin nafni átt þau viðskipti við B, sem hann rakti kröfu sína í málinu til. Gat þar engu breytt að BV virtist skráður eigandi umræddra hlutabréfa, enda gæti hann ekki eingöngu með hugsanlegu framsali hlutabréfanna frá A hafa eignast skaðabótakröfu á hendur B vegna umræddra viðskipta. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu sóknaraðila, með því að hann væri ekki réttur aðili að málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2003, þar sem hafnað var að viðurkenna við félagsslit varnaraðila kröfu sóknaraðila að fjárhæð 23.188.708 krónur. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og áðurgildandi 59. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennd verði krafa hans með fyrrgreindri fjárhæð, en til vara annarri lægri fjárhæð, sem almenn krafa, svo og krafa um dráttarvexti frá 27. nóvember 2001 til greiðsludags sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður, en til vara að krafa sóknaraðila verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.
I.
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila bauð varnaraðili honum í byrjun september 2000 að taka þátt í lokuðu útboði á hlutafé í bandarísku félagi, Cereus Technology Partners Inc., þar sem þyrfti að lágmarki að kaupa hlutabréf fyrir 260.000 bandaríkjadali. Kveðst sóknaraðili hafa átt fund af þessu tilefni með tveimur nafngreindum starfsmönnum varnaraðila 8. september 2000. Hafi komið fram af hendi varnaraðila að ráðgert væri að þetta félag yrði í lok sama mánaðar sameinað öðru bandarísku félagi, Eltrax Systems Inc., og yrði þá til nýtt félag, Verso Technologies Inc. Hafi varnaraðili boðið til kaups hlutabréf í Cereus Technology Partners Inc. fyrir 6,50 bandaríkjadali á hlut, en lokaverð slíkra hlutabréfa hafi verið 9,75 bandaríkjadalir á verðbréfamarkaði, Nasdaq, 6. september 2000. Þessar sömu upplýsingar hafi einnig komið fram í auglýsingu frá varnaraðila, sem hafi verið birt í Morgunblaðinu 10. þess mánaðar. Starfsmenn varnaraðila hafi jafnframt greint sóknaraðila frá því að ákvarðanir um fyrrgreinda sameiningu félaga yrðu teknar á hluthafafundum 29. september 2000 og yrði þá ekkert því til fyrirstöðu að selja mætti hlutabréf í nýja félaginu um leið og það yrði skráð á verðbréfamarkaði. Sóknaraðili hafi ákveðið að ráðast í þessi kaup 12. september 2000, en fé til þeirra hafi hann fengið af erlendum bankareikningi félags í sinni eigu, Atlantic Ocean Tours Ltd. Í málinu liggur fyrir kvittun varnaraðila frá 13. sama mánaðar, þar sem kom fram að „Böðvar Valgeirsson/Atlantic Oc“ hafi keypt hlutabréf í Cereus Technology Partners Inc. að nafnverði 40.000 bandaríkjadalir fyrir 21.673.600 krónur. Einnig liggur fyrir skilagrein nafngreinds erlends banka 12. september 2000 um millifærslu til varnaraðila á 260.000 bandaríkjadölum af reikningi í eigu Atlantic Ocean Tours Ltd.
Óumdeilt er í málinu að varnaraðili skráði sig í eigin nafni fyrir kaupum á hlutabréfum í Cereus Technology Partners Inc. fyrir samtals 1.040.000 bandaríkjadali í þágu sóknaraðila og þriggja annarra viðskiptamanna sinna, en skjöl um þau kaup voru undirrituð af varnaraðila 25. september 2000. Í framhaldi af því voru teknar ákvarðanir um fyrrnefnda sameiningu félaga á þeim tíma, sem reiknað hafði verið með. Tafir urðu á hinn bóginn á því að hlutabréf lægju fyrir í nýja félaginu, Verso Technologies Inc., til ráðstöfunar fyrir hluthafa. Sóknaraðili kveðst hafa með áðurgreindum kaupum átt að eignast 70.000 hluti í þessu nýja félagi og hafi kaupverð hvers hlutar þannig numið rúmlega 3,70 bandaríkjadölum. Hann hefur lagt fram í málinu gögn, sem sýna að gangverð hvers hlutar hafi 2. október 2000 verið 3,875 bandaríkjadalir, sem hafi síðan lækkað í 3,625 bandaríkjadali um miðbik mánaðarins og 3,375 bandaríkjadali í lok hans. Sóknaraðili hefur einnig lagt fram útskrift af orðsendingum, sem fóru milli hans og starfsmanna varnaraðila á þessu tímabili, þar sem meðal annars kom fram að þeir síðastnefndu teldu ráðlegt að koma að minnsta kosti helmingi hlutabréfanna í verð, en þau lægju þó ekki enn fyrir til ráðstöfunar. Fór svo að lögmaður sóknaraðila krafðist þess með bréfi til varnaraðila 19. janúar 2001 að kaupin gengju til baka og kaupverðið yrði endurgreitt með vöxtum og kostnaði, þar sem brugðist hafi sú meginforsenda sóknaraðila fyrir þeim að unnt yrði að selja hlutabréfin ef gengi þeirra myndi lækka. Á þeim tíma var skráð gengi þeirra orðið 1,6875 bandaríkjadalir á hlut. Þessari kröfu hafnaði varnaraðili með bréfi 28. febrúar 2001. Deginum áður beindi lögmaður sóknaraðila kvörtun vegna þessara viðskipta til Fjármálaeftirlitsins, sem tók afstöðu til hennar í bréfi 21. desember 2001. Í niðurlagi bréfsins var ítarleg umfjöllun um kvörtunina dregin saman í því áliti Fjármálaeftirlitsins að „milliganga Burnham í umræddu útboði fyrir hönd fjárfesta hafi í tilteknum atriðum ekki verið í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Að öðru leyti tekur Fjármálaeftirlitið ekki afstöðu til ágreinings þess sem erindi yðar er sprottið af ...“.
Varnaraðili mun hafa verið sviptur starfsleyfi til verðbréfaviðskipta 27. nóvember 2001. Sama dag mun hafa gengið úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um að félagið væri tekið til skipta eftir reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sbr. áðurnefnda 59. gr. laga nr. 13/1996, eins og þeim hafði verið breytt með 7. gr. laga nr. 163/2000. Skiptastjóri, sem skipaður var til að fara með félagsslitin, gaf út innköllun vegna þeirra. Á kröfulýsingarfresti kom meðal annars fram krafa frá sóknaraðila í bréfi 15. febrúar 2002, þar sem fyrrgreind atvik voru rakin í meginatriðum. Var þeirri skoðun haldið fram að athugun Fjármálaeftirlitsins hafi sannað með ótvíræðum hætti að varnaraðili hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 13/1996 í samskiptum við sóknaraðila og bæri þannig ábyrgð á því tjóni, sem hann hafi orðið fyrir vegna áðurnefndra viðskipta. Hlutabréfin í Verso Technologies Inc. stæðu orðið til ráðstöfunar fyrir sóknaraðila og væri gengi þeirra á verðbréfamarkaði á bilinu 1,00 til 1,50 bandaríkjadalir á hlut. Hann hafi falið nafngreindu verðbréfafyrirtæki að reyna að selja hlutabréfin til að takmarka tjón sitt, en hugsanlegt söluverð kæmi þá til frádráttar lýstri kröfu hans, sem var alls að fjárhæð 32.306.908 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum og þóknun lögmanns. Kröfunni lýsti sóknaraðili sem forgangskröfu samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Í skrá um lýstar kröfur á hendur sóknaraðila, sem skiptastjóri gerði 14. mars 2002, greindi hann frá þeirri afstöðu að hafna ætti framangreindri kröfu sóknaraðila. Á skiptafundi, sem skiptastjóri hélt 22. sama mánaðar, komu fram mótmæli sóknaraðila gegn þessari afstöðu. Skiptafundur var haldinn á ný 19. apríl 2002 til að leitast við að jafna ágreining um lýstar kröfur, þar á meðal kröfu sóknaraðila, og enn 27. ágúst sama árs. Sú viðleitni bar ekki árangur og beindi skiptastjóri ágreiningsefninu síðastgreindan dag til Héraðsdóms Reykjavíkur. Af því tilefni var mál þetta þingfest þar fyrir dómi 20. september 2002.
Í greinargerð, sem sóknaraðila lagði fram í málinu fyrir héraðsdómi 4. október 2002, var fært til lækkunar á fyrrgreindri fjárhæð kröfunnar, sem hann lýsti fyrir skiptastjóra varnaraðila, áætlað söluverð hlutabréfanna í Verso Technologies Inc. fyrir sem svarar 1,30 bandaríkjadölum á hlut eða alls 9.118.200 krónur. Nam því fjárhæð kröfunnar 23.188.708 krónum. Sóknaraðili krafðist þess að krafa sín yrði viðurkennd sem almenn krafa á hendur varnaraðila og féll þannig frá kröfu um forgangsrétt fyrir henni samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Með bréfi 4. desember 2002 tilkynnti skiptastjóri Héraðsdómi Reykjavíkur að farið yrði með slit á varnaraðila eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, þar sem eignir félagsins muni ekki nægja til að efna viðurkenndar kröfur.
II.
Eins og áður greinir gaf varnaraðili út kvittun 13. september 2000 fyrir kaupverði hlutabréfanna, sem mál þetta varðar, þar sem greiðandi var sagður vera „Böðvar Valgeirsson/Atlantic Oc“. Þá liggur fyrir að greiðsla kaupverðsins barst varnaraðila með millifærslu erlends banka af reikningi í eigu Atlantic Ocean Tours Ltd. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, er það félag skráð á Bahamaeyjum og fer sóknaraðili með umboð til að skuldbinda það. Í kæru hans til Hæstaréttar segir að hann sé eigandi alls hlutafjár í félaginu og riti einn firma þess.
Í áðurnefndri kröfulýsingu sóknaraðila til skiptastjóra varnaraðila 15. febrúar 2002 var meðal annars greint frá kaupum á hlutabréfunum í Cereus Technology Partners Inc. í september 2000 og því að greiðsla kaupverðs hafi borist varnaraðila af erlendum bankareikningi Atlantic Ocean Tours Ltd., „en ætlunin var að það fyrirtæki yrði skráð fyrir hlutnum.“ Á fyrri stigum hafði lögmaður sóknaraðila borið fram í áðurnefndu bréfi 19. janúar 2001 erindi við varnaraðila vegna „Atlantic Ocean Tours í tengslum við kaup fyrirtækisins á hlut í Cereus Technology Partners Inc.“, þar sem lýst var yfir riftun þeirra. Í fyrrgreindri kvörtun til Fjármálaeftirlitsins 27. febrúar 2001 sagði einnig að hún væri borin fram af sóknaraðila vegna kaupa fyrirtækis hans, Atlantic Ocean Tours Ltd., á umræddum hlutabréfum.
Í málinu liggur fyrir viðskiptayfirlit frá varnaraðila, stílað á „Böðvar Valgeirsson/Atlantic Oc“, þar sem greint var meðal annars frá kaupum 13. júní 2000 á hlutabréfum í erlendu félagi, Riverside Management Group, og kaupunum, sem mál þetta varðar, 13. september sama árs. Aðspurður í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvað sóknaraðili Atlantic Ocean Tours Ltd. hafa staðið að fyrrnefndu kaupunum, en hann sjálfur að þeim síðarnefndu. Þá lagði sóknaraðili fram í héraði samkvæmt áskorun varnaraðila gögn varðandi verðbréfaviðskipti, sem greint hafi verið frá í skattframtölum hans fyrir árin 1999, 2000 og 2001. Þar er hvorki getið kaupa á hlutabréfum í Cereus Technology Partners Inc. né eignarhalds á hlutabréfum í Verso Technologies Inc., en í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvað sóknaraðili ástæðu þess vera þá að hann hafi á þeim tíma ekki enn fengið neitt í hendur um þessi kaup.
Sóknaraðili hefur ekki lagt fram í málinu gögn um hvernig áðurnefnd greiðsla af bankareikningi Atlantic Ocean Tours Ltd. 12. september 2000 hafi verið færð í bókum félagsins. Liggur því ekkert fyrir um hvort félagið hafi talið þetta fjárframlag sitt sóknaraðila til skuldar eða hvort hlutabréf í Cereus Technology Partners Inc. eða Verso Technologies Inc. hafi verið talin til eigna félagsins í bókum þess.
Þegar alls þess er gætt, sem að framan greinir, hefur sóknaraðili ekki gegn andmælum varnaraðila sýnt fram á að hann hafi í eigin nafni átt þau viðskipti við varnaraðila, sem hann rekur kröfu sína í málinu til. Getur þar engu breytt að sóknaraðili virðist af gögnum frá verðbréfafyrirtæki, sem tók við vörslu verðbréfa af varnaraðila þegar starfsemi hans var hætt, vera skráður eigandi hlutabréfanna í Verso Technologies Inc., enda gæti hann ekki eingöngu með hugsanlegu framsali hlutabréfanna frá Atlantic Ocean Tours Ltd. hafa eignast skaðabótakröfu á hendur varnaraðila vegna umræddra viðskipta. Verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu sóknaraðila með því að hann sé ekki réttur aðili að málinu.
Ákvæði úrskurðar héraðsdómara um málskostnað er staðfest. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Böðvar Valgeirsson, greiði varnaraðila, Burnham International á Íslandi hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2003.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 20. september 2002 og tekið til úrskurðar 7. febrúar sl.
Sóknaraðili er Böðvar Valgeirsson, kt. 060242-4969, Grundarlandi 13, Reykjavík, en varnaraðili þrotabú Burnham International á Íslandi hf., kt. 550191-1729, Vegmúla 2, Reykjavík.
Dómkrafa sóknaraðila er aðallega að krafa hans samkvæmt kröfulýsingu í bú varnaraðila að fjárhæð 23.188.708 kr. verði viðurkennd sem almenn krafa. Verði fallist á bótaskyldu en ekki bótafjárhæð er til vara krafist þess að lægri fjárhæð verði viðurkennd sem almenn krafa. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti. Svo og að viðurkenndir verði sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 dráttarvextir af viðurkenndri kröfu frá 27. nóvember 2001 til greiðsludags.
Dómkröfur varnaraðila eru aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að fjárhæð skaðabótakröfu sóknaraðila verði lækkuð en málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
Helstu málavextir eru að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2001 var bú varnaraðila tekið til opinberra skipta en félagið var svipt starfsleyfi sama dag, sbr. 62. gr. laga nr. 13/1996, sbr. 7. gr. laga nr. 163/2000. Sigurmar K. Albertsson hrl. var skipaður skiptastjóri.
Sóknaraðili lýsti kröfu að höfuðstól 28.711.800 kr. í búið 15. febrúar 2002. Kröfunni var lýst aðallega sem forgangskröfu skv. 7. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991 en til vara sem almennri kröfu. Jafnframt var því haldið fram að Burnham International á Íslandi hf. hefði sýnt af sér saknæma háttsemi og væri félagið bótaskylt.
Í bréfi skiptastjóra til lögmanns sóknaraðila 14. mars 2002 hafnaði hann kröfunni. Á skiptafundi 22. mars 2002 var sú afstaða áréttuð og var henni mótmælt af hálfu sóknaraðila. Þann 19. apríl 2002 var þess freistað að jafna þennan ágreining en skiptastjóri gat ekki fallist á sjónarmið sóknaraðila um bótaskyldu þrotabúsins. Á skiptafundi 28. ágúst taldi skiptastjóri ljóst að ekki tækist að jafna ágreininginn, var því í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms 27. ágúst 2002 krafist úrlausnar dómsins um bótaskyldu varnaraðila gagnvart sóknaraðila með vísun til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, en á skiptafundinum 22. mars 2002 hafði verið ákveðið að með skipti á búi varnaraðila skyldi fara samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991.
Upphaf umdeildra viðskipta sóknaraðila við Burnham International á Íslandi hf. eru, að sögn sóknaraðila, að í byrjun september 2000 hafi starfsmenn félagsins vakið athygli sóknaraðila að til stæði að sameina hátæknifyrirtækið Cereus Technology Partners Inc. við annað hátæknifyrirtæki að nafni Etrax og yrði viðskiptavinum félagsins boðið að taka þátt í lokuðu hlutafjárútboði í hinu sameinaða fyrirtæki sem fengi nafnið Verso Technologies, sem var sagt skráð á Nasdaq. Var lágmarksfjárfesting sögð USD 260.000 að markaðsvirði. Á fundi 8. september 2000 með tveimur starfsmönnum varnaraðila, Jóhanni Ólafssyni og Agnari Má Gunnarssyni, hafi honum verið tjáð að um væri að ræða sölu á hlutum í Cereus. Væri hægt að selja þann hlut strax en skynsamlegt væri að bíða eftir formlegum samruna félaganna Cereus og Eltrax. Væru hluthafafundir ákveðnir þann 29. september 2000 og strax eftir þá fundi væri ekkert því til fyrirstöðu að selja hlut sóknaraðila í hinu sameinaða félagi þar sem það væri skráð á Nasdaq. Þann 10. september 2000 birtist síðan auglýsing í Morgunblaðinu þar sem félagið kynnti lokað hlutafjárútboð í hátæknifyrirtækinu Cereus. Framundan væri samruni fyrirtækisins við annað hátæknifyrirtæki, Eltrax. „Hið nýja fyrirtæki, Verso Technologies, er skráð á Nasdaq, en viðskiptavinum Burnham International býðst að taka þátt í lokuðu hlutafjárútboði á USD 6,5 á hlut. Lokaverð á Nasdaq 6. sept. 2000 var USD 9,75 á hlut. - Hlutabréfin eru í takmörkuðu upplagi og lámarksfjárfesting er USD 260.000 að markaðsvirði."
Sóknaraðili kveðst hafa keypt hlut að nafnverði USD 40.000 í Cereus á gengi 6,5 og greiddi fyrir hlutinn þann 12. september 2000 með USD 260.000 af reikningi Atlantic Ocean Tours LTD í Luxembourg, sem sé í eigu hans. Kvittun var gefin út af varnaraðila 13. september 2000. Er söluverð á reikningnum skráð í íslenskum krónum 21.673.600. Í skýringum á kvittun varnaraðila frá 13. september 2000, sem stíluð er á „Böðvar Valgeirsson/Atlantic Oc", segir að keypt sé „Cereus Tec. skráð erl. hlbr". Þá er upplýst að sameining Cereus og Elrax var samþykkt í lok september 2000 og bréf í sameinuðu félagi voru skráð á reikning varnaraðila hjá Burnham Securites í desember sama ár. Frá þeim tíma munu þau hafa verið laus til ráðstöfunar fyrir eigendur þeirra.
Sóknaraðili byggir á því að forsenda fyrir kaupum hans á hlutnum í Cereus hafi m.a. verið sú staðhæfing forráðamanna Burnham International á Íslandi hf. að bréfin yrðu strax laus til ráðstöfunar þannig að hann gæti strax brugðist við breytingum á markaði með sölu á bréfunum. Í auglýsingu félagsins 10. september 2000 sé ekki vikið að hugsanlegum takmörkunum á endursölu en auglýsingin hafi verið eina skriflega gagnið sem sóknaraðili hafi fengið í hendur til upplýsinga um viðskiptin. Þá hafi starfsfólk félagsins tjáð honum að engin fyrirstaða væri varðandi endursölu eftir hluthafafundina í lok september 2000. Síðustu mánuði ársins 2000 hafi hann verið í stöðugu sambandi við Burnham International á Íslandi hf. til að leita skýringa á þeirri töf sem varð á því að hann fengi í hendur staðfestingu um eignarhald á hlutum í Verso Technologies svo hann gæti selt hlut sinn en gengi hafi verulega farið lækkandi. Og í byrjun árs 2001 hafi hann krafist þess að kaupin gengju til baka og félagið endurgreiddi kaupverðið með vöxtum og kostnaði. Þá hafi hann áskilið sér rétt til að gera kröfu um skaðabætur.
Með bréfi 27. febrúar 2001 til Fjármálaeftirlitsins kveðst sóknaðili hafa óskað eftir að kannað yrði hvort rétt hefði verið staðið að málum af hálfu Burnham International á Íslandi hf. við útboðið og viðskipti í kjölfar þess með þá hluti sem því tengdust. Eftir ítarlega gagnaöflun hafi svar Fjármálaeftirlitsins borist 21. desember 2001.
Sóknaraðili telur að athugun Fjármálaeftirlitsins hafi sannað með ótvíræðum hætti að varnaraðili hafi brotið ákvæði laga nr. 13/1996 í samskiptum sínum við sóknaraðila og milliganga varnaraðila ekki verið í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Ljóst sé að sóknaraðili hefði ekki keypt hluti í Cereus ef fyrir hefðu legið upplýsingar um væri að ræða verulega áhættufjárfestingu, svo sem hér hefði verið, sem aðeins væri hugsuð fyrir fagfjárfesta og sem langtímafjárfesting, enda hafi verið erfitt að endurselja bréfin og raunar alls ekki mögulegt fyrr en eftir marga mánuði. Byggir sóknaraðili á því að þessi viðskipti aðila falla undir gildissvið þágildandi kaupalög nr. 39/1922. Er vísað til 1. mgr. 1. gr. sem og 19. gr. og 20. gr. Hér hafi verið um tegundarkaup að ræða, sbr. 3. gr. laganna, og gildir því 3. mgr. 43. gr. laganna um ábyrgð varnaraðila á „galla" á þeim hlut sem sóknaraðili keypti. Geti sóknaraðili því krafið varnaraðila um bætur á hlutlægum grunni og þurfi ekki að sanna sök stjórnenda eða starfsmanna Burnham International á Íslandi hf.
Sóknaraðili telur einnig að forráðamenn félagsins hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í samskiptum við sig. Beri varnaraðili því einnig ábyrgð á því tjóni sem sóknaraðili hefur orðið fyrir vegna kaupa á hlut í Cereus þann 12. september 2000 á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og almennra bótareglna varðandi skaðabætur innan samninga, m.a. varðandi brostnar forsendur, sbr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Við sakarmat beri að hafa í huga að hér hafi verið um sérfræðing að ræða. Og jafnvel þó að saknæm og ólögmæt athöfn starfsmanna Burnham International á Íslandi hf. sé augljós í máli þessu, sé bent á að - með hliðsjón af eðli þeirrar starfsemi sem félagið rak og þeirrar kröfu sem gerðar eru til upplýsingagjafar og heiðarlegra viðskiptahátta í starfsgrein félagsins - að eðlilegt sé í slíkum málum sem þessum að snúa sönnunarbyrðinni við.
Sóknaraðili tilgreinir tölulega kröfu sína þannig:
Höfuðstóll USD 260.000 á gengi þann
27. nóv 2001 kr. 110, 43 kr. 28.711.800.-
Dráttarvextir frá 13. sept. 2000 til
27. nóv 2001, 8,05% að meðaltali,
USD 25.288 á gengi 110,43 kr. 2.792.553.-
Vinna lögmanns sóknaraðila í tengslum við
meðferð málsins hjá Fjármálaeftirlitinu og
bréfaskriftum við varnaraðila.
Samt. 71 klst. á kr. 9.000 kr. 639.000
Vsk. kr. 156.555 kr. 795.555.-
Þóknun fyrir ritun kröfulýsingar kr. 7.000.-
Samtals kr. 32.306.908.-
Verðmæti hluta þann 1. mars 2002.
$ 70.000 x 1,3 eða $ 91.000 á gengi
ísl. kr. 100,2 kr. 9.118.200.-
Samtals kr. 23.188.708.-
Varnaraðili byggir fyrst á því að um aðildarskort sé að ræða. Ráða megi af gögnum málsins að fyrirtækið Atlantic Tours Ltd. átti umdeild viðskipti með umrædd verðbréf og innti greiðslu af hendi, en ekki sóknaraðili máls þessa persónulega. Öll samskipti, bæði við varnaraðila og Fjármálaeftirlitið, bera það auk þess með sér að það sé fyrirtækið Atlantic Tours Ltd. sem ætti að vera sóknaraðili máls þessa en ekki Böðvar Valgeirsson. Þetta geti skipt máli við sakarmat í máli þessu og beri því þegar af þeirri ástæðu af hafna kröfum sóknaraðila með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Varðandi aðild varnaraðila þá er á því byggt að Burnham International á Íslandi hf. hafi eingöngu haft milligöngu um þau verðbréfaviðskipti sem hér er um ræðir. Félagið hafi hvorki verið seljandi né útgefandi þessara bréfa. Eins og gögn málsins beri með sér hafi fjórir aðilar haft samband við félagið og óskað eftir því að taka þátt í umræddu hlutafjárútboði. Eftir að hafa móttekið greiðslur frá þessum aðilum hafi félagið skráð sig fyrir þessum hlutum í eigin nafni, en fyrir þeirra reikning. Hlutirnir hafi síðar verið gefnir út á þeirra nafn. Af þessum sökum sé ljóst að sóknaraðili geti ekki byggt kröfur sínar á hendur honum á gallareglum eldri laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 eða ógildingarreglum samningalaga nr. 7/1936. Reglur um brostnar forsendur og ógildi samninga geta auk þess ekki átt við þar sem sóknaraðili hafi hug á að eiga þessi bréf áfram í þeirri von að þau hækki í verði á næstu árum, sbr. ummæli í greinargerð sóknaraðila. Sóknaraðili gæti, ef hann ætti aðild að málinu, einungis beint kröfum að varnaraðila sem reistar séu á þeirri málsástæðu að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna ætlaðrar saknæmrar háttsemi starfsmanna Burnham International á Íslandi hf. Taki eftirfarandi málsástæður varnaraðila mið af því.
Verði ekki fallist á kröfu varnaraðila að hafna beri kröfu sóknaraðila með vísan til ákvæða 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, þá er byggt á því að starfsmenn Burnham International á Íslandi hf. hafi ekki á neinn hátt brotið gegn ákvæðum þágildandi verðbréfaviðskiptalaga nr. 13/1996 í tengslum við undirbúning eða framkvæmd umræddra viðskipta og er því sérstaklega mótmælt að sóknaraðili hafi orðið fyrir nokkru tjóni sem rekja megi til saknæmrar hegðunar starfsmanna félagsins eða annarra aðila á þess vegum.
Fyrir það fyrsta sé það óumdeilanlegt að félaginu var heimilt að hafa milligöngu um sölu umræddra verðbréfa til sóknaraðila, sbr. 8. gr. laga nr. 13/1996. Í öðru lagi hafi engar takmarkanir gilt samkvæmt þágildandi lögum um sölu þessara bréfa í lokuðu útboði á þann hátt sem gert var. Eins og gögn máls bera með sér þurftu fjárfestar að kaupa hlutabréf fyrir fjárhæð sem var að lágmarki US$ 260.000 að markaðsvirði. Af því leiddi að ekki hafi þurft að gæta að þágildandi reglum reglugerðar nr. 505/1993 um almennt útboð þar sem fjárfesting var hærri en 5.000.000 kr., sbr. d-lið 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar og e-lið 1. mgr. 29. gr. laga nr. 13/1996 eftir að þeim var breytt þann 1. janúar 2001. Ástæðan fyrir þessari undanþágu sé sú að litið sé svo á að einstaklingar eða lögaðilar sem geta fjárfest fyrir svo háa fjárhæð séu fagfjárfestar og þurfi ekki þá vernd sem almenningur nýtur samkvæmd gildandi lögum. Teljist aðili til fagfjárfesta sé litið svo á að hann eigi sjálfur að geta metið þá áhættu sem ávallt er fólgin misjafnlega mikið í verðbréfaviðskiptum og beri sjálfum að afla sér þeirra upplýsinga sem hann telur þörf á til að taka ákvörðun. Þannig hafi starfsmönnum Burnham International á Íslandi hf. verið heimilt að treysta því að sóknaraðili hefði á fullnægjandi hátt gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólgin var í þessum viðskiptum.
Í þessu samhengi er staðhæft af hálfu varnaraðila að sóknaraðili hafi fengið öll nauðsynleg gögn um hlutafjárútboðið og mótmælt fullyrðingu sóknaraðila að svo hafi ekki verið. En raunar breyti það engu því hér hafi verið um fagfjárfesti að ræða sem átti og gat aflað sér þessara upplýsinga sjálfur. Sóknaraðili hafi því vafalaust verið bundinn við allar þá fyrirvara og takmarkanir sem greint er frá í útboðsgögnum um þessi verðbréf.
Þá er af hálfu varnaraðila bent á að sóknaraðili keypti umrædd verðbréf á genginu 6,5, þegar viðskipti með bréf í félaginu fóru fram á genginu 9,75. Að fyrra bragði hafi því sóknaraðila mátt vera ljóst að einhverjar kvaðir hvíldu á viðskiptum með þessi bréf, því fráleitt sé að ætla að geta keypt bréf, hvort sem það er af útgefanda bréfanna eða öðrum aðila, á lægra gengi en skráðu gengi, nema eitthvað hangi á spýtunni. Þá er því hafnað að varnaraðili verði gerður ábyrgur fyrir töfum á afgreiðslu hlutabréfa til sóknaraðila, enda hafi Burnham International á Íslandi hf. ekki ábyrgst endursölu bréfanna þó að þau hefðu verið gefin út fyrr. Sóknaraðila hafi verið kunnugt um fyrirhugaðan samruna fyrirtækjanna og verði sjálfur að bera áhættuna af því að bréfin voru ekki gefin fyrr út. Af auglýsingunni hafi mátt ráða að framundan væri samruni umræddra félaga, en eðli máls samkvæmt felst í því ákveðið ferli sem tekur einhvern tíma. Þetta hafi sóknaraðila mátt vera ljóst. Í öllu falli sé ljóst að starfsmenn varnaraðila gátu engin áhrif haft á þennan þátt málsins.
Þá er byggt á því að ekki sé hægt að leggja til grundvallar í máli þessu að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni þar sem hann hafi enn ekki selt umrædd hlutabréf. Hugsanlegt sé að gengi bréfa í félaginu eigi eftir að hækka á skömmum tíma með þeim afleiðingum að sóknaraðili hagnist á umræddum viðskiptum. Og verði ekki þess vegna fallist á að hafna beri kröfum sóknaraðila alfarið, þá beri í öllu falli að hafna kröfum hans að svo stöddu.
Af hálfu varnaraðila er mótmælt staðhæfingu sóknaraðila í þá veru að sóknaraðili hafi fyrst í febrúar árið 2002 getað selt eignarhluta sinn í Verso Technologies. Sóknaraðili hafi þegar í desember 2000 getað framselt bréfin. Upphafstíma dráttarvaxtakröfu sóknaraðila er mótmælt sem röngum sem og viðmiðunargengi á Bandaríkjadal.
Niðurstaða: Í gögnum málsins kemur fram að í millifærslukvittun frá Banque Carnegie Luxembourg S.A. er fært þar af reikningi Atlantic Ocean Tours Ltd. 260,030.00 USD eða 302.079.46 EUR - „TRSF TO BURNHAM" - 12. september 2000. Sóknaraðili bar fyrir réttinum að hafa þurft á þessum peningum að halda í skyndi til að kaupa hluti í félaginu Cereus Technology Partners Inc. Þetta hafi verið sú leið sem hann hefði séð til að leysa þá kvöð að þurfa að greiða strax þá fjárhæð sem farið var fram á, en verða af viðskiptunum að öðrum kosti. Hefði hann kallað þessa peninga frá Luxembourg „til þess að setja í þessa greiðslu."
Þá kemur fram í gögnum málsins að Atlantic Ocean Tours Ltd. er hlutafélag, skráð 8. nóvember 1995 í ríkinu Bahamaeyjum. Hér má því telja að um sjálfstæða lögpersónu eða lögaðila sé að ræða sem njóti fjárhagslegra réttinda, beri fjárhagslegar skyldur og hafi hæfi til að öðlast réttindi og baka sér skyldur.
Nú verður ekki ráðið af gögnum málsins með ótvíræðum hætti hvort eða hvernig eignaryfirfærsla varð á umræddum hlutum í Cereus Technology Partners Inc. frá Atlantic Ocean Tours Ltd. til sóknaraðila. Verður því að álykta að Atlantic Ocean Tours Ltd. sé eigandi og þar með réttur sóknaraðili á grundvelli þeirra málsástæðna, sem bornar eru fram af hálfu Böðvars Valgerissonar, sem sóknaraðila í máli þessu.
Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að kröfum sóknaraðila verði hafnað með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 kr. í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURAÐARORÐ:
Hafnað er kröfum sóknaraðila, Böðvars Valgeirssonar, í máli þessu.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, þrotabúi Burnham International á Íslandi hf., 350.000 kr. í málskostnað.