Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-53

A (Lilja Jónasdóttir lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Guðmundur Ómar Hafsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Bifreið
  • Vátrygging
  • Endurkrafa
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 5. apríl 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 8. mars sama ár í máli nr. 284/2023: Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðandi hafi valdið umferðarslysi af stórkostlegu gáleysi og því borið að endurgreiða gagnaðila, sem var vátryggjandi bifreiðarinnar, það tjón sem af hlaust.

4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu leyfisbeiðanda um endurgreiðslu fjárhæðar sem hann hafði greitt gagnaðila. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda. Talið var að leyfisbeiðandi hefði verið valdur að umferðarslysi þegar hann ók aftan á kyrrstæða bifreið sem leiddi til þess að fjórar bifreiðar, að meðtalinni bifreiðinni sem leyfisbeiðandi ók, urðu fyrir skemmdum og tveir voru fluttir á slysadeild. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að sannað væri að leyfisbeiðandi hefði ekið á eða yfir leyfðum hámarkshraða og alltof hratt miðað við aðstæður og á sama tíma beint athygli sinni að farsíma sínum. Hefði akstur hans því verið mjög háskalegur. Hann hefði þannig ekki gætt að varúðarreglum 1. mgr. og c-liðar 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og með notkun sinni á farsíma jafnframt brotið gegn 1. mgr. 57. gr. laganna. Var þessi háttsemi virt leyfisbeiðanda til stórkostlegs gáleysis og fallist á að gagnaðili hefði öðlast endurkröfurétt á hendur leyfisbeiðanda, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi fyrir sönnunarmat og sakarmat í sambærilegum málum. Með dómi Landsréttar hafi sönnunarbyrði verið snúið við og leyfisbeiðanda gert að sanna að hann hafi ekki valdið tjóninu af stórfelldu gáleysi. Þá sé niðurstaðan í ósamræmi við dómaframkvæmd. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til þess að málið varði mikilsverða hagsmuni sína. Loks telur hann dóm Landsréttar vera bersýnilega rangan að efni til.

6. Að virtum málavöxtum og gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.