Hæstiréttur íslands

Mál nr. 640/2017

Lögreglustjórinn á Austurlandi (Helgi Jensson fulltrúi)
gegn
X (Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 4. október 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. október 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 4. október 2017

Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur með beiðni, sem dagsett er og barst héraðsdómi í dag, krafist þess að X, kt. [...], pólskur ríkisborgari, búsettur í Póllandi, hér eftir nefndur kærði, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í fjórar vikur, eða þar til dómur gengur í máli hans, en ákæra verði gefin út í því eins fljótt og mögulegt sé. Þess er jafnframt krafist að kærði verði úrskurðaður til að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað, en til vara er þess krafist að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en lögreglustjóri krefst. Þá er kröfu um að kærði verði látinn sæta einangrunarvist sérstaklega mótmælt.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði sé grunaður um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum, sem teljist varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa nú í gærmorgun, flutt til landsins mikið magn af fíkniefnum, í félagi við Y, kt. [...], falið í bifreiðinni [...], sem þeir hafi komið til [...] með farþegaferjunni [...], frá Færeyjum.

Um kl. 10:00 í gærmorgun, hafi komið til hafnar á [...], farþegaferjan [...]. Eftirfarandi komi fram í skýrslu A, tollvarðar: „Þriðjudaginn 3. október 2017 kom ferjan [...] til [...] frá [...], Danmörku, með viðkomu í [...] í Færeyjum. Farþegarnir X fæddur [...], og Y, fæddur [...] komu á [...] bifreið, með skráningarnúmerið [...], á grænt tollhlið merkt ,,Enginn tollskyldur varningur“ og voru þeir valdir í úrtaksleit“.

Eftirfarandi komi einnig fram í skýrslu tollvarðarins: „Y sagðist  hafa keypt bifreiðina í maí á þessu ári. Hann var með handskrifaða pappíra um að hann væri eigandi bifreiðarinnar en samkvæmt skráningarskírteininu er B  eigandi bifreiðarinnar. X var sá sem keyrði bifreiðina út úr ferjunni og inn í leitarsal tollgæslunnar. Þeir sögðust vera að koma hingað í eina til tvær vikur þar sem þeir vildu sjá Reykjavík, jafnvel ætluðu þeir að leita sér að vinnu í byggingariðnaði. Þeir eiga ekki pantað far til baka með ferjunni. Þeir sögðust kannski ætla að selja bifreiðina hérlendis ef peningarnir þeirra myndu klárast. Þeir sögðust ekki hafa neina tengingar við Ísland, það er að þeir eiga ekki vini og ekki ættingja á Íslandi. Þeir sögðust ætla beint til Reykjavíkur því þeir höfðu heyrt að þar væri mikið af pólverjum. Leit hófst í bifreiðinni kl.10.42 og var byrjað á að tæma bílinn og gegnumlýsa farangurinn þeirra. Við leit í farangri þeirra kom í ljós að þeir höfðu ekki meðferðis fatnað sem passaði við það sem þeir sögðust ætla að gera hér. Þeir höfðu engan búnað til að stunda hér vinnu og engan fatnað sem gæti talist heppilegur fyrir byggingarvinnu. Í bifreiðinni var einnig að finna málningartrönur, brúnan pappír á rúllu og tréliti en Y sagðist vera áhugalistmálari. Þeir voru með glænýtt kort af Íslandi en þeir gátu ekki nefnt neitt sem þeir vildu sjá á Íslandi. Að öðru leyti var farangurinn nokkuð óáhugaverður, nema lítið magn af ósoðnu kjöti sem var haldlagt.  Við ítarlegri leit í bílnum kl. 11.31 tóku tollverðir upp aftursætissetuna en við það gaus upp mikil bensínlykt. Við frekar leit, þar sem lokið var opnað til að komast ofan í bensíntank bifreiðarinnar, mátti greinilega sjá í flöskur í tanknum. Í framhaldinu var ákveðið að hreyfa ekki við ætluðum efnum og loka tanknum aftur en halda áfram með leitina á og í bifreiðinni. Ekkert fleira athugavert fannst við þá leit. Haft var samband við lögreglu sem kom á staðinn og tók við málinu“. 

Í framhaldi af þessu hafi kærði verið handtekinn kl. 13.08 og færður í fangaklefa, en bifreiðin hafi verið tekin til nánari rannsóknar. Við nánari rannsókn hafi komið í ljós að í bensíntank bifreiðarinnar voru 23 stk. ½ lítra flöskur með glærum vökva sem við prófun tæknideildar LRH hafi reynst vera amfetamín í vökvaformi.

Búið sé að ræða stuttlega við kærða sem neiti að hafa vitað um fíkniefnin í bifreiðinni. Ekki hafi hann samt neinar trúverðugar skýringar á tilvist efnanna í bifreiðinni.

Krafa um gæsluvarðhald byggi á a. lið 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, en til vara á b. lið sömu lagagreinar.

Um sé að ræða rökstuddan grun um stórfellt fíkniefnabrot, sem geti varðað  allt að 12 ára fangelsi.

Aðallega sé á því byggt  að a. liður 1. mgr. 95. gr. eigi við, þ.e. að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins ef honum verður sleppt úr haldi, þ.e. rannsóknarhagsmunir lögreglu, en miklu máli skipti fyrir lögregluna að reyna að finna upplýsingar um þá aðila sem tengist málinu, bæði á Íslandi og erlendis. Til vara sé byggt á því að b. liður 1. mgr. 95. gr. eigi við, að ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi, enda um erlendan ríkisborgara að ræða.

Gerð sé krafa um einangrun kærða í varðhaldi í samræmi við  b. lið 1. mgr. 99. gr. laga 88/2008, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Krafa þessi sé sett fram vegna rannsóknarhagsmuna, af augljósum ástæðum, svo  kærði geti ekki spillt fyrir rannsókn málsins, sem sé á frumstigi.

Krafa um að gæsluvarðhald verði úrskurðað í fjórar vikur byggi á því að í málinu sé farin af stað talsvert viðamikil rannsókn, sem óhjákvæmilega taki tíma og telji lögreglan að ekki veiti af fjórum vikum til þess að klára þær tæknirannsóknir og aðrar  rannsóknaraðgerðir sem nauðsynlega þurfi að framkvæma.

                Niðurstaða:

                Með vísan framangreindra röksemda lögreglustjóra, og þess sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur leiki á um að kærði eigi aðild að innflutningi umtalsverðs magns fíkniefna hingað til lands og að ætlað brot kunni að varða allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en í öllu falli allt að sex ára fangelsi yrði það einungis heimfært til laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Rannsókn málsins er á frumstigi. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á það með lögreglustjóra að vegna rannsóknarhagsmuna sé nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi, enda gæti hann ella torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á hugsanleg vitni eða samseka eða skjóta undan sönnunargögnum. Ekki þykja þó efni til þess að marka gæsluvarðhaldi lengri tíma en greinir í úrskurðarorði. Þá er með sömu röksemdum fallist á það með lögreglustjóra að nauðsynlegt sé að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldsvistinni á meðan rannsóknarhagsmunir gefa tilefni til þess. Eins og kröfugerð lögreglustjóra er háttað er ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort jafnframt séu uppfyllt skilyrði til þess að úrskurða kærða í gæsluvarðhald á grundvelli b-liðar sömu málsgreinar.

Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. október nk., kl. 16.00. Heimilt er að láta kærða sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.