Hæstiréttur íslands
Mál nr. 468/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Skipti
- Erfðaskrá
|
Þriðjudaginn 31. ágúst 2010. |
|
|
Nr. 468/2010. |
Barnaspítalasjóður Hringsins (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Landspítala (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Skipti. Erfðaskrá.
B kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem fallist var á að L skyldi taka arf samkvæmt erfðaskrá A. Talið var að af orðalagi erfðaskrárinnar og því sem fram hefði komið fyrir héraðsdómi væri hafið yfir allan vafa að vilji A hefi staðið til þess að styðja með andvirði eigna sinna við þá starfsemi í þágu barna sem fram fer á BH, en L hafi þá starfsemi með höndum. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að hann taki arf samkvæmt erfðaskrá A, dagsettri 14. júní 2004, og með því hafnað kröfu sóknaraðila um að hann eigi réttmætt tilkall til arfs samkvæmt erfðaskránni. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. Fyrir Hæstarétti krefst sóknaraðili að viðurkennt verði að hann taki arf samkvæmt umræddri erfðaskrá. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Þegar arfleifandi gerði erfðaskrá sína starfaði Barnaspítali Hringsins ekki sem sjálfstæð stofnun, svo sem hermir í úrskurði héraðsdóms, heldur var hann hluti af varnaraðila innan svonefnds barnasviðs hans. Kvennasvið og barnasvið varnaraðila voru síðar sameinuð sem stjórnunarleg eining innan hans.
Af orðalagi erfðaskrárinnar og því, sem fram er komið að öðru leyti og rakið er í úrskurði héraðsdóms, er hafið yfir vafa að vilji arfleifanda hafi staðið til þess að styðja með andvirði eigna sinna við þá starfsemi í þágu barna, sem fram fer á Barnaspítala Hringsins. Varnaraðili hefur þá starfsemi með höndum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem rétt er að aðilarnir beri hvor fyrir sig af rekstri málins fyrir héraðsdómi.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, sem verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Sóknaraðili, Barnaspítalasjóður Hringsins, greiði varnaraðila, Landspítala, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2010.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 9. desember 2009 var dánarbú A, kt. [...], sem andaðist [...] 2008, tekið til opinberra skipta. Með bréfi skiptastjóra mótteknu 9. mars 2010 var ágreiningsefni þessa máls skotið til úrlausnar dómsins. Málið, sem þingfest var 7. maí sl., var tekið til úrskurðar 30. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Sóknaraðili, Barnaspítalasjóður Hringsins, kt. 640169-4949, Nethyl 2, Reykjavík, krefst þess að staðfest verði með dómi að sóknaraðili einn taki arf eftir A samkvæmt eftirlátinni erfðaskrá útgefinni í Reykjavík 14. júní 2004.
Sóknaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu, auk virðisaukaskatts.
Varnaraðili, Landspítalinn, kt. 500300-2130, Eiríksgötu 5, Reykjavík, krefst þess að staðfest verði með dómi afstaða skiptastjóra dánarbús A, sem fram kom í bréfi dags. 25. febrúar 2010 um það að Landspítalinn teljist réttur erfingi búsins samkvæmt erfðaskrá útgefinni í Reykjavík 14. júní 2004.
Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér málskostnað að skaðlausu.
I
Í bréfi skiptastjóra til dómsins kemur fram að í erfðaskrá eftir hina látnu sem dagsett sé 14. júní 2004 standi svofellt ákvæði: „Allar mínar eignir sem ég kann að láta eftir mig skulu ganga í arf til Barnaspítala Hringsins.“ Aðilar þessa máls hafi gert kröfu um þennan arf. Við mat skiptastjóra samkvæmt 53. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 á því hvort kröfur ættu við rök að styðjast hafi það verið mat skiptastjóra að Landspítali, vegna Barnaspítala Hringsins, skyldi talinn erfingi samkvæmt erfðaskrá hinnar látnum. Með bréfi dags. 25. febrúar 2010 hafi þessi afstaða verið kynnt málsaðilum og með bréfi dags. 3. mars sl. hafi Barnaspítalasjóður Hringsins hafnað þessari afstöðu og krafist þess að ágreiningurinn yrði sendur héraðsdómi samkvæmt 122. gr. skiptalaga.
II
Í greinargerð sinni vísar sóknaraðili til þess að Hringurinn, sem hafi verið stofnaður 1904, sé kvenfélag sem samkvæmt lögum félagsins vinni að „að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna.“ Til þess að ná þessum markmiðum safni Hringurinn í sjóð sem beri nafnið Barnaspítalasjóður Hringsins. Stjórn Hringsins tilnefni fólk í stjórn sjóðsins.
Félagsfundir sóknaraðila úthluti fjármunum úr sjóðnum til verkefna er falli að tilgangi félagsins. Fjármunum sé úthlutað á grundvelli umsókna og eða ákvörðun funda. Félagið afli tekna með fjölþættum hætti. Gjafir og arfur sem falli til félagsins séu færð í sjóðinn og fylgt fyrirmælum arfláta um ráðstöfun sé þeim að skipta. Með þessum hætti sé tryggt að fjármunir séu nýttir skynsamlega og renni óskiptir til velferðar veikra barna.
Sóknaraðili vísar til þess að skráð félagsmerki Hringsins sé hringlaga og beri mynd af hjúkrunarkonu með barn. Á jaðri hringformsins sé áletrunin „Barnaspítali Hringsins“. Félagsmerki Hringsins sé þjóðþekkt og í huga sínum tengi fólk félagið og barnaspítalann órjúfanlegum böndum og samsami jafnvel hvort með öðru. Náin samvinna og tengsl Hringsins og Landspítalans hafi orðið til þess að spítalinn hafi auðnýtt sér félagsmerki Hringsins, m.a. til fjáröflunar án þess að fyrir því liggi formlegar heimildir. Þá hafi Hringurinn á hendi veitingasölu í húsnæði Barnaspítalans.
Sóknaraðili vísar til þess að tilgreindur erfingi í erfðaskrá sé „Barnaspítali Hringsins” og sé kennimerki (logo) Hringsins í þess eigu en sé ekki sjálfstæð lögpersóna og eigi ekki aðildarhæfi.
Landspítali sé ríkisstofnun sem samkvæmt lögum og skipuriti gegni fjölþættri heilbrigðisþjónustu, m.a. sé læknisþjónustu hans deilt niður á sex læknisfræðileg svið. Eitt þeirra sé kvenna- og barnasvið. Landspítalinn hafi tekið aðilastöðu og gerir kröfu til arfsins. Á skiptafundi 19. febrúar sl. hafi varnaraðili lýst því yfir að sérstakir sjóðir væru stofnaðir vegna þeirrar gjafa sem síðan séu lagðar inn í Landspítalasjóð og ráðstafað þaðan samkvæmt samþykktum sjóðsins.
Sóknaraðili telji að vilji og ætlan A verði ekki rétt metinn með öðrum hætti en að telja sóknaraðila réttan erfingja.
Sóknaraðili vísar í málatilbúnaði til erfðalaga, skiptalaga og einkamálalaga.
III
Varnaraðili vísar til þess að ekki sé til lögaðili sem beri heitið Barnaspítali Hringsins. Til að ákveða hver sé réttur erfingi sé því nauðsynlegt að ráða fram úr því hver vilji arfleiðanda hafi verið og til hvaða aðila megi vænta að hún vísi til í erfðaskrá sinni.
Afstaða skiptastjóra sé sú að Landspítali vegna Barnaspítala Hringsins skyldi talinn erfingi samkvæmt erfðaskrá hinnar látnu. Varnaraðili tekur undir þessa afstöðu skiptastjóra og gerir kröfu um að hún verði staðfest.
Eins og fram komi á vef varnaraðila, Landspítalans, starfi hann samkvæmt lögum nr. 40/2007. Þar sé starfsemi spítalans lýst svo:
„Landspítali er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Hann veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, m.a. á göngu- og dagdeildum fyrir alla landsmenn og almenna sjúkrahúsþjónustu fyrir íbúa heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins“
Innan spítalans starfi sex mismunandi svið, m.a. kvenna- og barnasvið. Þessi svið, og Landspítalinn í heild, starfi undir einni kennitölu á grundvelli lagabreytinga frá árinu 2007, sbr. lög nr. 40/2007. Fyrir þann tíma hafi Barnaspítali Hringsins starfað undir eigin kennitölu, 590793-2059, sem með lagabreytingunni hafi verið felld undir kennitölu Landspítalans. Kennitalan sé því óvirk en ljóst sé af framlögðum gögnum að hún hafi verið í notkun áður fyrir stofnunina Barnaspítala Hringsins.
Barnaspítali Hringsins tilheyri nú kvenna- og barnasviði spítalans og ávallt sé vísað til hans sem Barnaspítala Hringsins. Þannig segi á vefsíðu spítalans í lýsingu á kvenna- og barnasviði:
„Á Barnaspítala Hringsins er veitt fjölbreytt þjónusta við börn og unglinga að 18 ára aldri. Þverfagleg teymi, skipuð læknum, hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki .
Á Barnaspítala Hringsins er vökudeild sem er gjörgæsla fyrir nýbura og fyrirbura. Einnig er þar “
Um samband Barnaspítala Hringsins og sóknaraðila sé svohljóðandi texti á vefsíðu spítalans:
„Barnaspítali Hringsins nýtur stöðugt gjafmildi fólks og stuðnings. Kvenfélagið Hringurinn styður starfsemina af miklum krafti, eins og lengi hefur verið, og starfrækir veitingastofu í anddyrinu sem er opin virka daga.“
Af þessum tilvitnunum megi greinilega ráða að Barnaspítali Hringsins sé hluti af Landspítalanum. Vegna hinnar velmetnu gjafmildi sem spítalinn njóti sé sérstaklega vísað til Kvenfélagsins Hringsins enda verði því ekki neitað að félagið hafi átt stærstan þátt í því að reist var bygging fyrir Barnaspítalann.
Því verði hins vegar ekki heldur neitað að Hringurinn, sem reki Barnaspítalasjóð, sé kvenfélag sem hafi að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna. Sjóðurinn vinni því ekki eingöngu í þágu Barnaspítala Hringsins. Aðalverkefni félagsins, um áratugaskeið, hafi verið uppbygging Barnaspítala Hringsins. Mörg önnur verkefni, sem tengist veikum börnum, hafi verið styrkt. Þau stærstu séu uppbygging Barna- og unglingageðdeildar Landspítala og rekstur Sjónarhóls, ráðgjafamiðstöðvar barna með sérþarfir. Af lista yfir styrkveitingar sjóðsins árið 2009 megi hins vegar ráða að sjóðurinn veiti styrki til ýmissa annarra aðila en Barnaspítala Hringsins og sé þetta staðfest í greinargerð sóknaraðila. Sökum þessa sé ljóst að yrði Barnaspítalasjóður talinn réttur erfingi samkvæmt erfðaskrá þar sem tilgreint sé að Barnaspítali Hringsins skuli vera erfingi þá sé ljóst að ekki sé verið að framfylgja vilja arfleiðanda enda gæti svo farið að Barnaspítalasjóður veitti styrk úr sjóðnum, m.a. af fjármunum dánarbúsins, til annarra verkefna en til Barnaspítalans.
Það er mat varnaraðila að sú staðreynd að Barnaspítalasjóður Hringsins veiti styrki til annarra verkefna en til Barnaspítalans sjálfs sé nægileg til að hann teljist ekki réttur erfingi samkvæmt erfðaskrá. Á grundvelli þessa telji varnaraðili að umfjöllun um kennimerki Hringsins og hvernig það sé notað í tengslum við Barnaspítala Hringsins sé í raun ekki viðeigandi.
Varnaraðili vísar til þess að Landspítalinn sem Barnaspítali Hringsins réttilega tilheyri geti hins vegar séð til þess, með stofnun sérstaks sjóðs í nafni dánarbús A, að eignir hennar renni einungis til Barnaspítala Hringsins. Af þessu tilefni bendir varnaraðili á að hjá Landspítalanum sé starfræktur sjóður sem kallist Landspítalasjóður. Tilgangur hans samkvæmt stofnskrá, sé að halda utan um ýmsa sjóði innan spítalans sem hver um sig sé stofnaður vegna tiltekinnar gjafar og hafi sérstakar reglur. Verði niðurstaða dómsins að Landspítalinn sé réttur erfingi samkvæmt erfðaskrá þá muni í kjölfarið verða stofnaður sérstakur sjóður í nafni A, sem falli síðan undir Landspítalasjóð, en reglur í sjóði A muni gera ráð fyrir því að einungis sé hægt að ráðstafa eignum hennar til handa Barnaspítala Hringsins líkt og vilji hennar standi til. Með þessu móti yrðu fjármunirnir nægilega sérgreindir og myndu á endanum renna beint, og einungis til Barnaspítala Hringsins.
Þegar rætt sé um Barnaspítala Hringsins í daglegu tali sé ljóst að vísað sé til Barnaspítalans sem standi á horni Barónsstígs og Hringbrautar og sé hluti af Landspítalanum. Allar leitarsíður á netinu sem svari leitarorðunum „Barnaspítali Hringsins“ vísi á síður sem tengist Landspítalanum. Ein síða komi þó ofarlega upp en það sé síða kvenfélagsins Hringsins (www.hringurinn.is) þar sem fram komi að Barnaspítalasjóður Hringsins hafi veitt Barnaspítala Hringsins góða styrki í gegnum tíðina. Þarna sé í raun viðurkennt að þetta séu aðskildir aðilar, annars vegar Barnaspítalasjóður Hringsins og hins vegar Barnaspítali Hringsins sem gjarnan þiggi styrki frá fyrrnefnda aðilanum. Því sé ljóst að ekki geti verið um einn og sama aðilann að ræða og þannig útilokað að sóknaraðili þessa máls verði talinn réttur erfingi samkvæmt erfðaskrá A þar sem segi að Barnaspítali Hringsins skuli erfa allar hennar eigur.
Varnaraðili vísar að lokum til niðurstöðukafla afstöðubréfs skiptastjóra dánarbús A til þess hver réttur erfingi samkvæmt erfðaskránni skuli vera. Þar komist skiptastjóri að því að Landspítalinn skuli teljast réttur erfingi fyrir hönd Barnaspítala Hringsins. Í bréfinu, dagsettu 25. febrúar 2010, segi að ekki liggi fyrir upplýsingar um arfleiðsluvilja hinnar látnu að öðru leyti en orðalag erfðaskrárinnar og því byggi skiptastjóri afstöðu sína á beinni textaskýringu. Á grundvelli þess sé það mat skiptastjóra að réttur erfingi að dánarbúi hinnar látnu sé Landspítali vegna Barnaspítala Hringsins enda sé sá spítali sá eini sem kalli sig „Barnaspítala Hringsins“. Varnaraðili taki alfarið undir þennan rökstuðning skiptastjóra.
Þá sé það ráðandi í ákvörðun skiptastjóra að Landspítali geti tryggt að erfðafé samkvæmt erfðaskránni muni nýtt beinlínis til hagsbóta fyrir Barnaspítala Hringsins. Varnaraðili tekur einnig undir þessi sjónarmið og bendir á að með þessum hætti sé vilja arfleiðanda fullnægt.
Kröfum sínum til stuðnings vísar varnaraðili til erfðalaga nr. 8/1962 og skiptalaga nr. 20/1991. Þá er vísað til einkamálalaga þar sem það á við, málskostnaðarkrafa varnaraðila er t.a.m. byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Fyrir dóminn komu Valgerður Einarsdóttir, formaður Hringsins, og arfleiðsluvottarnir C og D.
Vitnið Valgerður kvaðst ekki kannast við arfleifanda, A. Hún kvað sér kunnugt um að merki kvenfélagsins Hringsins væri á bréfsefni Landspítalans en vissi ekki hvort kvenfélagið hefði veitt spítalanum leyfi til notkunar merkisins. Hún bar að helsta verkefni kvenfélagsins væri stuðningur við Barnaspítala Hringsins, á bilinu 80-90 ef ekki yfir 90% fjármuna sem kvenfélagið safni fari til spítalans. Til dæmis séu flest tæki á vökudeild Barnaspítalans komin frá Hringnum. Að öðru leyti leggi félagið áherslu á styrki við börn.
Flestar umsóknir um styrki komi frá Barnaspítala Hringsins en einnig frá Barna- og unglingageðdeildinni sem hafi um tíma verið hluti af Barnaspítala Hringsins en sé það ekki lengur. Stjórn Hringsins taki á móti styrkbeiðnum og geti tekið ákvörðun um lágar styrkbeiðnir en allar stærri beiðnir fara fyrir félagsfundi þar sem allar Hringskonur hafi atkvæðisrétt.
Vitnið bar að Barnaspítalasjóður Hringsins hafi verið stofnaður 1942 en þá hafi ekki verið hér á landi neinn barnaspítali og hafi það verið markmið Hringsins að byggja þennan spítala. Hafi Hringurinn lagt mjög margar milljónir í þá stofnun. Áður en byggingin við Hringbraut hafi risið hafi barnadeild Landspítalans verið á einni hæð í Landspítalabyggingunni
Þrátt fyrir að spítalinn sé risinn safni kvenfélagið Hringurinn eftir sem áður fjármunum barnaspítalasjóðinn. Fjármunir úr sjóðnum séu notaðir beint í þágu barna og heilbrigðisþjónustu við þau og fari langmest til Barnaspítala Hringsins.
Vitnið bar að félagsmerki kvenfélagsins hafi verið hannað af Ágústu Snæland 1943 í framhaldi af stofnun Barnaspítalasjóðs kvenfélagsins. Við stofnun Barnaspítalasjóðsins 1942 hafi höfuðmarkmið kvenfélagsins að reisa barnaspítala og hafi það markmið endurspeglast í félagsmerkinu en þar standi „Hringurinn Barnaspítali“. Því sé félagsmerki kvenfélagsins og Barnaspítalinn nátengt og margir samsami í huga sínum Barnaspítala Hringsins og kvenfélagið Hringinn. Hinsvegar sé Barnaspítalinn barnadeild innan Landspítalans sem hafi verið gefið þetta nafn til að sýna fórnfúsu starfi Hringskvenna virðingu.
Vitnið bar að kvenfélagið Hringurinn hafi áður fengið arf í þágu barnaspítalans. Kvað hún slíka fjármuni fara í Barnaspítalasjóðinn en taldi að þeir væru ekki eyrnamerktir sérstaklega. Séu sérstök fyrirmæli í erfðaskrám vegna arfs sem félaginu tæmist þá fylgi kvenfélagið þeim fyrirmælum til hins ítrasta.
Vitnið C, arfleiðsluvottur, staðfesti að hann hefði vottað erfðaskrána. Vitnið kvaðst einnig hafa ritað erfðaskrána eftir beiðni E móður A.
Vitnið kvaðst hafa unnið með föður A, F. Hafi hann borið mikið traust til vitnisins. F hafi hætt störfum og látist 1978. Á dánarbeðinu hafi hann beðið vitnið að hjálpa eiginkonu sinni, E, þar sem hún væri einstæðingur með dóttur sína en sonur þeirra hjóna hafi þá verið fluttur til Bandaríkjanna. Vitnið kvaðst eftir þetta hafa litið til E og hjálpað henni. A hafi verið talin 75% öryrki eftir bílslys í barnæsku og afleiðingar þess. Hafi hún búið áratugum saman hjá móður sinni en þegar móðir hennar gat ekki lengur annast hana hafi hún búið á [...]en hafi, eftir að starfsemi þar var breytt, flutt í [...]. A hafi verið við andlega góða heilsu og hafi vitað fullvel undir hvað hún var að rita þegar hún ritaði undir erfðaskrána.
Vegna þessarar örorku A hafi þær mæðgurnar verið mjög nánar og rætt saman um hvað skyldi standa í erfðaskrá A og beðið vitnið að útbúa erfðaskrána. Áður hafi E látið gera erfðaskrá fyrir sjálfa sig þar sem hún hafi einnig arfleitt Barnaspítala Hringsins að hluta eigna sinna.
Þegar vitnið hafi verið beðið að gera skrána hafi A og E rætt það saman að Barnaspítali Hringsins ætti að taka arf eftir A. Vitnið hafi ekki vitað annað um Barnaspítala Hringsins en að konur hafi stofnað spítalann en hafi að öðru leyti ekki vitað hverjir stóðu á bak við þá stofnun en það hafi verið að beiðni A og E að erfðaskráin var orðuð svona. Þegar E hafi verið orðin sátt við textann í erfðaskrá A hafi vitnið og E farið upp í [...]. Þar hafi A undirritað erfðaskrána og hinn arfleiðsluvotturinn.
Ástæða áhuga mæðgnanna á því að styrkja Barnaspítala Hringsins hafi verið sú að sonur E hafi fæðst holgóma. Hafi hann fengið lækningu við því og hafi Barnaspítali Hringsins greitt fyrir aðgerðina því fjölskyldan hafi ekki átt peninga fyrir aðgerðinni. Bróðir A hafi verið um 10 ára gamall þegar hann hafi farið í aðgerðina og hafi hann verið, að því er vitnið taldi, eldri en A en hann sé nú látinn. Uppfrá þessu hafi hugur E verið jákvæður gagnvart Barnaspítala Hringsins og hafi dóttir hennar smitast af áhuga hennar enda hafi það verið bróðir hennar sem naut þessa stuðnings.
Árið 2000 hafi E beðið vitnið að fara með sér á Barnaspítala Hringsins til að færa þeim, allháa fjárhæð, sem þakklætisvott fyrir það sem þeir gerðu fyrir son hennar. Hafi hún þá talað um að hún vildi færa Barnaspítala Hringsins peningagjöf fyrir tækjakaupum. Hafi Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir, tekið á móti vitninu og E.
Eftir það hafi E gert erfðaskrá þar sem hún hafi arfleitt Barnaspítalann að því hlutfalli eigna sinna sem hún mátti sjálf ráðstafa. Hafi hún falið það verk lögfræðingi þar sem hún varð að taka tillit til lögerfðareglna vegna barnabarna í Bandaríkjunum sem hún hafði aldrei séð. Hafi hún sjálf farið með þá erfðaskrá til sýslumanns.
Þegar til hafi staðið að gera erfðaskrá fyrir A hafi átt að skrifa í hana Barnaspítala Hringsins. Vitnið minnti að hugur mæðgnanna hafi staðið til þess að hjálpa Barnaspítala Hringsins að kaupa einhver tæki eða taldi þær hafa gert sér í hugarlund að fjármunirnir færu í einhver tækjakaup þó það væri ekki tilgreint í erfðaskránni. Augljóslega hafi átt að styrkja Barnaspítala Hringsins enda hafi E og vitnið farið til Ásgeirs yfirlæknis þar með peningana.
Vitnið bar að mæðgurnar hefðu aldrei talað um kvenfélagið Hringinn heldur alltaf Barnaspítala Hringsins. Vitnið taldi mæðgurnar ekki hafa tengt Barnaspítalann við Landspítalann. Þær hafi alltaf talað bara um Barnaspítalann, þar sem sé „konan í merkinu sem heldur á barninu.“
E hafi látist í [...]. Við uppgjör dánarbús hennar hafi vitnið þurft að finna kennitölu Barnaspítala Hringsins vegna fyrirmæla í erfðaskrá hennar um arf til spítalans. Hjá sýslumanni hafi vitninu verið bent á að fara upp á Landspítala við Eiríksgötu þar sem vitnið hafi fengið uppgefna kennitölu Barnaspítala Hringsins. Þetta hafi allt gengið upp og hafi Barnaspítali Hringsins fengið ávísun fyrir arfinum.
E hafi talað þannig að það hafi verið barnaspítali Hringskvenna sem hafi styrkt hana til að koma syni sínum í aðgerðina. Taldi vitnið Landspítalann ekki hafa styrkt hana. Vitnið kvaðst ekki vita hvort það hefði verið kvenfélagið Hringurinn sem styrkti fjölskylduna en kvaðst halda það. Hafi E talað um að það hafi verið Barnaspítali Hringsins sem hafi hjálpað henni að fá styrk fyrir aðgerðinni á syninum.
Vitnið kvaðst ekki gera neinn greinarmun á Barnaspítalasjóði Hringsins og kvenfélaginu Hringnum. Í huga vitnisins sé einnig eitt og hið sama Barnaspítali Hringsins og konurnar. Vitnið taldi E ekki hafa gert sér grein fyrir að málin væru óskýr að þessu leyti enda hefði hún þá efalaust gengið betur frá málum.
D, staðfesti að hún hefði vottað erfðaskrá A. Hún staðfesti að A hafi verið við góða andlega heilsu og hafi vitað hvað hún var að gera og vitað að hún væri að gera erfðaskrá. Vitnið bar að A hafi haft Barnaspítala Hringsins í huga þegar hún gerði erfðaskrána og taldi ástæðu þess vera aðgerð sem bróðir hennar hafi þurft að fara í sem barn.
Niðurstaða
Í erfðaskrá undirritaðri af A í votta viðurvist þann 14. júní 2004 stendur „Allar mínar eignir sem ég kann að láta eftir mig skulu ganga í arf til Barnaspítala Hringsins.“ Nú er deilt um hvort vilji arfleifanda hafi staðið til annars en þess sem lesa má úr hljóðan orða erfðaskrárinnar.
Nauðsynlegt þykir að rekja nokkur ártöl sem skipta máli fyrir samhengi málsins. Árið 1904 er kvenfélagið Hringurinn stofnað. Á árabilinu 1930 til 1940 fer bróðir arfleifanda í aðgerð vegna fæðingargalla í andliti og fá foreldrar arfleifanda styrk, mögulega frá kvenfélaginu Hringnum, af því tilefni. Árið 1942 setur kvenfélagið sér það markmið að koma á fót barnaspítala og stofnar til þess barnaspítalasjóð Hringsins. Árið eftir, 1943, lætur félagið gera félagsmerki þar sem þetta markmið er tilgreint „Hringurinn Barnaspítali“. Það er ekki fyrr en árið 1957 að opnuð er barnadeild innan veggja Landspítalans. Árið 1965 fer sú deild í sérstakt húsnæði og var henni þá gefið heitið Barnaspítali Hringsins í viðurkenningarskyni fyrir fórnfúst framlag kvenfélagsins í þágu barnadeildarinnar. Í maí 1994 gera heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið, Ríkisspítalar og Kvenfélagið Hringurinn samning um byggingu nýs barnaspítala, Barnaspítala Hringsins. Árið 2000 fer móðir arfleifanda með peningagjöf til tækjakaupa á Barnaspítala Hringsins við Eiríksgötu. Þann 26. janúar 2003 var nýbygging Barnaspítala Hringsins við Hringbraut opnuð og í júní 2004 er gerð sú erfðaskrá sem deilt er um í þessu máli. Í september 2007 er Barnaspítali Hringsins felldur undir Landspítala með lögum um heilbrigðisþjónustu. Ári síðar, [...] 2008, andast arfleifandi.
Ráða má af vitnisburði C að arfleifandi, A, hafi bæði verið háð og afar náin móður sinni E enda bjuggu þær saman í marga áratugi þar til móðurinni, þá á áttræðisaldri, var ekki lengur fært að annast dóttur sína. Þar sem A virðist hafa gert erfðaskrána að ráði móður sinnar og ákveðið efni hennar í nánu samráði við hana reyndu lögmenn við skýrslutöku að leiða fram vilja móður hennar enda má ætla, vegna forsögu málsins, að vilji þeirra beggja hafi staðið til hins sama.
Vitnið C kvaðst ekki gera neinn greinarmun á Barnaspítalasjóði Hringsins og kvenfélaginu Hringnum. Í huga vitnisins séu einnig Barnaspítali Hringsins og „konurnar“ eitt og hið sama. Vel kann að vera að arfleifandi og móðir hennar hafi ekki heldur gert greinarmun á kvenfélaginu og barnaspítalanum.
Af skýru og ótvíræðu orðalagi erfðaskrárinnar verður ekki annað séð en vilji arfleifanda hafi staðið til þess að stofnunin Barnaspítali Hringsins tæki allan arf eftir hana enda var spítalinn á þeim tíma þegar erfðaskráin er gerð, í júní 2004, sjálfstæð stofnun með eigin kennitölu. Barnaspítali Hringsins var, með lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, sem tóku gildi 1. september 2007, gerður að deild innan barna- og kvennasviðs Landspítala. Sú lagasetning, sem tekur gildi ríflega þremur árum eftir að erfðaskráin er gerð, hefur ekki áhrif á það hvernig túlka ber vilja arfleifanda.
Þrátt fyrir að mæðgurnar kunni að hafa samtvinnað í huga sínum kvenfélagið Hringinn og Barnaspítala Hringsins og þrátt fyrir að líkur hafi verið leiddar að því að fjölskyldan hafi notið fjárstuðnings kvenfélagsins Hringsins vegna þeirrar aðgerðar sem bróðir arfleifanda fór í á barnsaldri verður ekki annað ráðið af gjöf E til Barnaspítalans árið 2000 og skýru og ótvíræðu orðalagi erfðaskrár A en að stofnunin Barnaspítali Hringsins hafi átt að njóta þakklætis þeirra. Þykir forsaga málsins ekki geta varpað neinum vafa yfir þessa skýru, skrásettu yfirlýsingu um hinsta vilja arfleifanda.
Vitnið C bar að talað hafi verið um barnaspítalann, þar sem sé „konan í merkinu sem heldur á barninu.“ Gera má ráð fyrir að þarna sé vísað til félagsmerkis kvenfélagsins Hringsins sem greipt var í gler á barnadeild Landspítalans sem hafði í virðingarskyni við kvenfélagið verið gefið nafnið Barnaspítali Hringsins. Styður það enn frekar áðurnefnda niðurstöðu að rætt var að spítalinn, þar sem þetta auðkenni var, ætti að njóta arfsins.
Vegna hinna nýju laga um heilbrigðisþjónustu hefur Barnaspítali Hringsins ekki lengur sjálfstæða aðild heldur hefur Landspítalinn tekið við henni sbr. 23. gr. laga nr. 91/1991. Verður því að dæma að Landspítalinn taki arf samkvæmt erfðaskrá A.
Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur og er virðisaukaskattur þá meðtalinn.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, Landspítalinn, skal taka arf samkvæmt erfðaskrá A, útgefinni í Reykjavík 14. júní 2004.
Sóknaraðili, Barnaspítalasjóður Hringsins, greiði varnaraðila 300. 000 krónur í málskostnað þar með talinn virðisaukaskatt.