Hæstiréttur íslands
Mál nr. 66/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 5. febrúar 2008. |
|
|
Nr. 66/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Stefán Eiríksson, lögreglustjóri) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
|
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 29. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsómur Reykjaness úrskurði um að X, [kt.], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó ekki lengur en til föstudagsins 29. febrúar nk. kl. 16.00.
Kærði hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni.
Í greinargerð með kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hinn 4. janúar sl. hafi ákærða með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 til dagsins í dag kl. 16. Með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 5/2008 hafi úrskurðurinn verið staðfestur.
Í dag hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðað opinbert mál á hendur kærða með útgáfu ákæru. Hann sé þar ákærður fyrir fjögur brot gegn 244. gr. og tvö gegn 246. gr. almennra hegningarlaga. Brot hans verði að teljast stórfelld enda nemi þjófnaðarandlögin og það sem hann hafi slegið eign sinni á rúmlega fjórum milljónum króna.
Þá kemur fram að ákærði eigi að baki töluverðan sakarferil. Hann hafi frá árinu 2001 hlotið sex dóma fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, nú síðast með dómi héraðsdóms Reykjaness frá 15. júní 2007, í máli nr. S-1504/2006 þar sem hann var dæmdur til að sæta fangelsi í 2 ár og 4 mánuði m.a. vegna fjölda þjófnaðarbrota. Dómur þessi sé ekki fullnustuhæfur, þar eð ákærði hafi áfrýjað honum til Hæstaréttar Íslands, en samkvæmt dagskrá réttarins verði málið flutt 20. febrúar nk.
Ákærði hafi að stærstum hluta viðurkennt aðild sína að þeim brotum sem hann sé ákærður fyrir og því ljóst að hann eigi nú yfir höfði sér fangelsisrefsingu.
Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að ákærði sé fíkniefnaneytandi og fjármagni fíkn sína með afbrotum. Með vísan til brotaferils ákærða síðustu mánuði, sé það mat lögreglu að hann muni halda áfram afbrotum gangi hann laus og því nauðsynlegt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans.
Í málinu liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að skilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt og hafi ekkert komið fram í málinu sem breytt geti því mati.
Við fyrirtöku málsins krafðist verjandi ákærða þess að kröfu lögreglustjórans yrði hafnað og til vara að henni yrði markaður skemmri tími. Ákærði lagði fyrir dómara vottorð frá [skóla] um námsástundun hans á vorönn 2008 og greinargerð sína um hagi sína og fjölskyldu sinnar.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, brotaferils ákærða og alls þess sem að framan greinir þykir rétt að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurða ákærða í gæsluvarðhald eins og krafist er.
Anna M. Karlsdóttir settur héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til föstudagsins 29. febrúar 2008 kl 16:00.