Hæstiréttur íslands
Mál nr. 137/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 7. apríl 2004. |
|
Nr. 137/2004. |
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði (Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. apríl 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. apríl 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 29. apríl 2004 kl. 14. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. apríl 2004.
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með skýrskotun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans þó ekki lengur en til fimmtudagsins 29. apríl 2004 kl. 14:00.
Við fyrirtöku málsins í gær mótmælti kærði kröfu um gæsluvarðhald og krafðist þess að kröfunni yrði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi yrði markaður skemmri tími.
Í greinargerð sýslumanns kemur fram að gefin var út ákæra af lögreglustjóranum í Kópavogi þann 12. mars sl. þar sem kærði er ákærður í 8 liðum fyrir brot gegn 157., 244., 245., 248. og 259. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 auk þess sem hann er ákærður fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.
Kærði er auk þess grunaður um nokkur brot gegn 244., 246. og 249. gr. almennra hegningarlaga. [...]
[...]
Í kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði kemur og fram að kærði hafi alls 15 sinnum hlotið refsidóma, tvisvar sinnum gengist undir sátt fyrir dómi auk þess sem kærði hafi gengist undir nokkrar lögreglustjórasáttir en um sé að ræða brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og löggjöf um ávana og fíkniefni. Sérstaklega sé vísað til þess að kærði hafi verið dæmdur í 10 mánaða fangelsi með dómi héraðsdóms Reykjaness þann 27. september 2002 fyrir fjölmörg brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana og fíkniefni. Liggur fyrir að á því tímabili sem sú brotahrina hafi átt sér stað hafi kærði verið í mikilli neyslu fíkniefna og hafi hann fjármagnað neyslu sína með afbrotum. Kærða hafi verið veitt reynslulausn vegna umrædds dóms þann 5. apríl 2003 í 1 ár á eftirstöðvum refsingar 100 dögum og því ljóst að kærði hafi stundað framangreinda brotastarfsemi á reynslulausn. Þá hafi kærði frá þeim tíma sem honum hafi verið veitt reynslulausn í tvígang gengist undir sáttir hjá lögreglustjóranum í Reykjavík annars vegar fyrir brot gegn umferðarlögum og hinsvegar brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Í kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði kemur einnig fram að með vísan til greindrar brotastarfsemi virðist kærði aftur vera kominn í sama farið og hann hafi verið fyrir þann tíma sem hann hafi verið settur í gæsluvarðhald vegna þeirra brota sem dæmd hafi verið í áðurgreindum dómi hérðaðsdóms Reykjaness þann 27. september 2002. Ljóst sé með vísan til framangreinds að mikil hætta sé á að kærði haldi áfram afbrotum gangi hann laus. Telur lögreglustjóri því mikla hagsmuni vera af því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan málum hans sé ólokið fyrir dómi.
Sýslumaður vísar í kröfu sinni auk þess sem að framan greinir til þess að kærði sé vanaafbrotamaður og þeirrar hættu sem fyrir hendi sé á áframhaldandi afbrotum sem og þeirrar almanna og einstaklingsbundnu hagsmuna sem fyrir hendi séu.
Um lagarök hefur af hálfu sýslumanns verið vísað til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 eins og áður segir.
Kærði er grunaður um brot gegn 244., 246. og 249. gr. almennra hegningarlaga. Kærði hefur ekki látið af brotastarfsemi þrátt fyrir afskipti lögreglu af honum. Fyrir dómi í gær kom fram að kærði er fíkniefnaneytandi og að hann fjármagni fíkniefnaneyslu sína með afbrotum. Þegar þetta er virt verður að telja að komnar séu fram nægilegar líkur til þess að kærði muni halda uppteknum hætti gangi hann laus.
Í c. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 kemur fram það skilyrði fyrir því að setja megi mann í gæsluvarðhald að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ólokið. Í máli þessu liggur fyrir samfelld brotahrina kærða undanfarna mánuði og virðist ekkert lát þar á og engin ástæða til að ætla að kærði láti af þessari háttsemi ef hann verður látinn laus. Einkum þegar horft er til þess að kærði er fíkniefnaneytandi og hefur fjármagnað neyslu sína með þessum hætti. Það er því mat dómsins, með vísan til fyrirliggjandi gagna, að ekki sé á því vafi að fullnægt sé skilyrðum c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður því fallist á kröfu sýslumanns eins og hún er fram sett. Fallist verður á það að kærði sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 29. apríl 2004 kl. 14:00.
Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til klukkan 14:00 fimmtudaginn 29. apríl 2004.