Hæstiréttur íslands
Mál nr. 31/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Rannsókn
|
|
Föstudaginn 30. janúar 2009. |
|
Nr. 31/2009. |
Ríkislögreglustjóri(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn X(Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur. Rannsókn.
X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu um það aðallega að úrskurðað yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra vegna meintra brota X gegn lögum um tekjuskatt og fleiri lögum yrði dæmd ólögmæt en til vara að mælt yrði fyrir um að H yrði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kom m.a. fram að skilyrði þess að ágreinungur yrði borinn undir dómara væri að viðkomandi mál væri til rannsóknar hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Mál X var til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra þegar krafan barst dóminum en þeirri rannsókn var lokið og ákæra hafði verið gefin út þegar málið var tekið til úrskurðar í héraðsdómi. Var héraðsdómur því staðfestur um að vísa kröfum X frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009 þar sem vísað var frá dómi kröfum varnaraðila um það aðallega að úrskurðað yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra í máli nr. 006-2004-76 teldist ólögmæt, en til vara að mælt yrði fyrir um að Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra, yrði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka kröfur hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í því sakamáli sem höfðað hefur verið gegn varnaraðila á hann þess kost að láta reyna á þau atriði sem hér um ræðir. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009.
Með kröfu 10. nóvember 2008 sem barst Héraðsdómi 11. sama mánaðar krafðist sóknaraðili, , kt. [...], [heimilisfang], þess aðallega að úrskurðað yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 sé ólögmæt, en til vara að Helga Magnúsi Gunnarssyni saksóknara við embætti ríkislögreglustjóra sé skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Þá er þess krafist að ríkissjóður greiði málskostnað.
Af hálfu ríkislögreglustjóra er þess aðallega krafist að kröfunum verði vísað frá dómi, en til vara að þeim verði hafnað.
Krafan var tekin til úrskurðar að loknum flutningi 8. janúar síðast liðinn.
Þegar krafan barst Héraðsdómi voru til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra ætluð brot sóknaraðila gegn lögum um tekjuskatt og fleiri lögum. Aðalkrafan var í fyrsta lagi rökstudd með því að rannsókn á málum sóknaraðila, sem nefnd eru einu nafni [...] í kröfunni, hafi staðið óhæfilega lengi yfir, eða allt frá því húsleit var gerð hjá A 28. ágúst 2002. Hefði ríkislögreglustjóri brotið gegn rétti sóknaraðila til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að ljúka ekki rannsókn málsins fyrr. Í öðru lagi var krafan rökstudd með því að settur ríkislögreglustjóri hefði ekki lagt sjálfstætt mat á rannsóknina. Hinum reglulega ríkislögreglustjóra var gert að víkja sæti við rannsókn málsins og annar maður settur til að gegn störfum hans við hana.
Varakrafan var rökstudd með því að saksóknarinn hefði verið svo viðriðinn rannsókn svonefnds [...] allt frá upphafi þess að hann sé vanhæfur til að stýra rannsókn þessa máls.
Málið var þingfest 14. nóvember 2008 og fékk þá ríkislögreglustjóri frest til 8. desember til að skila greinargerð. Í þinghaldi þann dag kom ekki fram greinargerð þar eð framangreindur saksóknari hafði lögmæt forföll. Málinu var því frestað til 19. sama mánaðar og átti hann þá að skila greinargerð. Daginn áður, eða 18. desember, gaf settur ríkislögreglustjóri út ákæru í málinu. Byggir ríkislögreglustjóri kröfu sína á því að rannsókn málsins sé lokið og verði sóknaraðili að bera kröfur sínar undir þann dómara sem fari með málið samkvæmt ákærunni.
Í 75. gr. laga nr. 19/1991 var heimild til að bera undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, sbr. nú 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Skilyrði þess að ágreiningur verði borinn undir dómara er að viðkomandi mál sé til rannsóknar hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Málið sem hér um ræðir var til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra þegar krafan barst dóminum. Þeirri rannsókn er hins vegar lokið eins og að framan getur og hefur ákæra verið gefin út og falin ákveðnum dómara til meðferðar. Eftir þann tíma verður fjallað um allar kröfur sem varða rannsóknina og hæfi þeirra sem hana önnuðust í tengslum við meðferð málsins samkvæmt ákærunni. Öllum kröfum sóknaraðila verður þar af leiðandi vísað frá dómi.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfum sóknaraðila, X, er vísað frá dómi.