Hæstiréttur íslands
Mál nr. 445/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Hjón
- Fjárskipti
- Lífeyrisréttindi
|
|
Fimmtudaginn 10. október 2002. |
|
Nr. 445/2002. |
Baldur Oddsson(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) gegn Sigurhönnu Ernu Gísladóttur (Svala Thorlacius hrl.) |
Kærumál. Hjón. Fjárskipti. Lífeyrisréttindi.
M krafðist þess að lífeyrisréttindum hans yrði haldið utan skipta við fjárslit milli hans og K vegna hjónaskilnaðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. K krafðist á hinn bóginn fjárgreiðslu sem bóta úr hendi M, enda væri ósanngjarnt að þessum réttindum væri haldið utan skipta, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Hæstiréttur taldi að skýra yrði kröfugerð K svo að í raun leitaði hún í málinu úrlausnar um hvort og þá að hvaða marki andvirði lífeyrisréttinda M kæmu til skipta, eins og um hverja aðra hjúskapareign hans væri að ræða, sbr. 57. gr. hjúskaparlaga. Væru ekki skilyrði til að M fengi að halda lífeyrisréttindum sínum með öllu utan skiptanna. Við mat á höfuðstólsverðmæti þeirra lífeyrisréttinda, sem talin yrðu hjúskapareign M og kæmu sem slík til skipta við fjárslit milli hans og K, leit Hæstiréttur meðal annars til tekna K og möguleika hennar til að afla sér vinnutekna í framtíðinni. Hæstiréttur leit jafnframt til þess að réttur M til lífeyris úr Eftirlaunasjóði FÍA hefði ekki aðeins myndast með iðgjöldum hans sjálfs, sem næmi 4% af launum hans meðan hann gegndi enn störfum, heldur einnig og að verulegu leyti með framlagi vinnuveitanda, sem svaraði 16% af launum M. Að auki þyrfti M að greiða tekjuskatt og útsvar af mánaðarlegum lífeyri. Samkvæmt þessu taldi Hæstiréttur hæfilegt að lífeyrisréttindi M að höfuðstólsverðmæti 12.000.000 krónur yrðu talin hjúskapareign hans og kæmu sem slík til skipta við fjárslit milli hans og K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. ágúst 2002, þar sem sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila 12.000.000 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna skilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hann „verði sýknaður af kröfu varnaraðila“, en til vara að krafan verði lækkuð og beri ekki vexti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrr sitt leyti 20. september 2002. Hún krefst þess aðallega að sóknaraðila verði gert að greiða sér 27.695.000 krónur eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. september 2001 til greiðsludags. Til vara krefst hún þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gengu sóknaraðili, sem er fæddur 1936, og varnaraðili, fædd 1941, í hjúskap á árinu 1961 og eiga þau þrjú uppkomin börn. Aðilarnir munu hafa slitið samvistir í september 2000. Varnaraðili krafðist skilnaðar að borði og sæng 2. febrúar 2001 og varð sýslumaðurinn í Reykjavík við þeirri kröfu 19. desember sama ár. Meðan á hjúskap aðilanna stóð mun sóknaraðili hafa starfað sem flugmaður, síðast sem flugstjóri hjá Flugleiðum hf., en varnaraðili eingöngu sinnt heimilisstörfum að því frátöldu að hún virðist eftir gögnum málsins hafa verið í nokkur skipti við skammvinn störf utan heimilis á síðasta áratug.
Samkvæmt kröfu varnaraðila gekk úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. júní 2001 um að opinber skipti færu fram til fjárslita milli hennar og sóknaraðila vegna hjónaskilnaðar. Á skiptafundi 13. júlí sama ár var upplýst að aðilarnir ættu engar séreignir, en hjúskapareignir þeirra væru fasteign að Viðjugerði 4 í Reykjavík, sumarhús í landi Haga í Holtahreppi, helmingshluti í sumarhúsi á Spáni, hesthús í Víðidal, hestakerra, þrjár nánar tilgreindar bifreiðir, innistæður á bankareikningum, verðbréf og innbúsmunir. Er fram komið að við fjárslitin hafi þessar eignir, að undanskildum innbúsmunum, verið metnar af skiptastjóra á samtals 46.394.863 krónur. Á fyrrnefndum skiptafundi var getið skuldar að fjárhæð 500.000 krónur við Landsbanka Íslands hf., auk ógreiddra opinberra gjalda og skuldar varnaraðila vegna tannviðgerða, en frá fjárhæð tveggja síðastgreindu skuldanna var ekki greint. Við sama tækifæri var tekið fram af hálfu varnaraðila að sóknaraðili ætti veruleg lífeyrisréttindi hjá Eftirlaunasjóði FÍA, ásamt inneign hjá Íslenska lífeyrissjóðnum, og væri það krafa hennar að þessum réttindum yrði skipt milli aðilanna. Því var mótmælt af hendi sóknaraðila. Þegar skiptafundur var næst haldinn vegna fjárslitanna 24. september 2001 lagði skiptastjóri fram gögn, sem hann hafði aflað um þessi lífeyrisréttindi. Samkvæmt þeim höfðu greiðslur sóknaraðila með mótframlagi vinnuveitanda til Eftirlaunasjóðs FÍA myndað fyrir hann inneign, sem svaraði 35,535 stigum í lok ársins 2000, en að auki höfðu iðgjöld að fjárhæð 1.078.259 krónur verið greidd vegna hans til eftirlaunasjóðsins á tímabilinu frá ársbyrjun til 1. júlí 2001. Þá var staðfest að inneign sóknaraðila hjá Íslenska lífeyrissjóðnum hafi 2. febrúar 2001 numið 1.418.371 krónu. Á skiptafundinum ítrekaði varnaraðili kröfu sína um að þessi réttindi kæmu til skipta, en með því að skiptastjóra tókst ekki að ná sáttum milli aðilanna um þetta vísaði hann ágreiningnum til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2001. Af því tilefni var mál þetta þingfest þar fyrir dómi 2. nóvember 2001.
Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk varnaraðili dómkvaddan mann 30. nóvember 2001 til að meta verðgildi framangreindra lífeyrisréttinda sóknaraðila hjá Eftirlaunasjóði FÍA og Íslenska lífeyrissjóðnum. Í matsgerð 22. febrúar 2002 var lagt til grundvallar að þetta verðgildi yrði reiknað með tilliti til inneignar sóknaraðila í þessum sjóðum 2. febrúar 2001, en þann dag leitaði varnaraðili sem áður segir skilnaðar að borði og sæng. Miðað við inneign sóknaraðila hjá Eftirlaunasjóði FÍA, eins og hún stóð þá, var fjárhæð mánaðarlegs lífeyris handa honum talin nema 421.612 krónum. Var vísað til þess í matsgerðinni að komið hafi fram að sóknaraðili hafi byrjað að taka lífeyri úr eftirlaunasjóðnum 10. júlí 2001. Samkvæmt þessu öllu taldi matsmaðurinn að höfuðstólsverðmæti þessa lífeyris væri 53.972.000 krónur. Um inneign sóknaraðila hjá Íslenska lífeyrissjóðnum var í matsgerðinni vísað til þess að um séreignarsjóð væri að ræða og verðgildi réttinda sóknaraðila þar því talin sama fjárhæð og inneignin, eða 1.418.000 krónur. Lífeyrisréttindi sóknaraðila voru þannig samtals metin á 55.390.000 krónur. Á grundvelli þessarar niðurstöðu matsmanns krafðist varnaraðili þess fyrir héraðsdómi að sóknaraðili yrði dæmdur til að greiða henni helming þeirrar fjárhæðar, 27.695.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá þeim degi, sem skiptastjóri vísaði ágreiningi aðilanna til dómsins. Með hinum kærða úrskurði var sóknaraðila sem fyrr segir gert að greiða varnaraðila 12.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, sem falla skyldu á kröfuna frá því að mánuður var liðinn frá uppsögu úrskurðarins.
II.
Í málinu krefst sóknaraðili þess að lífeyrisréttindi hans, sem að framan er getið, komi ekki til skipta við fjárslit milli hans og varnaraðila. Reisir hann þessa kröfu á ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Varnaraðili krefst á hinn bóginn fjárgreiðslu sem bóta úr hendi sóknaraðila, enda sé ósanngjarnt að þessum réttindum verði haldið utan skipta, sbr. síðari málslið 2. mgr. sömu lagagreinar. Miðar varnaraðili við að framangreind fjárhæð, sem hún krefur sóknaraðila um og nemur sem áður segir helmingi af reiknuðu höfuðstólsverðmæti lífeyrisréttinda hans, sé hæfileg greiðsla bóta samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði.
Þótt krafa varnaraðila um greiðslu eigi sér samkvæmt framansögðu nokkra stoð í orðalagi 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga, verður ekki horft fram hjá því að ágreiningur aðilanna snýr í meginatriðum að andvirði lífeyrisréttinda varnaraðila hjá Eftirlaunasjóði FÍA, sem honum er ókleift að fénýta sér öðru vísi en með töku mánaðarlegs lífeyris meðan honum er lífdaga auðið. Verður jafnframt að taka tillit til þess að ágreiningur þessi varðar þátt í fjárhagslegu uppgjöri milli aðilanna við fjárslit vegna hjónaskilnaðar, en við úrlausn ágreiningsins verður meðal annars að líta heildstætt á allar aðstæður aðilanna, sbr. dóm Hæstaréttar 18. desember 2001 í máli nr. 253/2001, þar með talið hversu mikið hvort þeirra muni bera úr býtum við fjárslitin. Að þessu gættu er ekki fært að beita hér umræddu lagaákvæði þannig að varnaraðili geti fengið sér dæmda eingreiðslu með peningum úr hendi sóknaraðila án tengsla við afdrif fjárslitanna milli þeirra að öðru leyti. Verður þess í stað að skýra kröfugerð varnaraðila svo að í raun leiti hún í málinu úrlausnar um hvort og þá að hvaða marki andvirði lífeyrisréttinda sóknaraðila komi til skipta, eins og um hverja aðra hjúskapareign hans væri að ræða, sbr. 57. gr. hjúskaparlaga.
III.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að ekki séu skilyrði til að sóknaraðili fái að halda lífeyrisréttindum sínum, sem um ræðir í málinu, með öllu utan skipta við fjárslit milli hans og varnaraðila.
Þegar metið er að hversu miklu leyti taka verði tillit til þessara lífeyrisréttinda við fjárslitin verður að gæta sérstaklega að því að ákvæði síðari málsliðar 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga er undantekning frá þeirri almennu reglu 2. töluliðar 1. mgr. sömu lagagreinar að lífeyrisréttindi komi ekki til skipta við fjárslit vegna hjónaskilnaðar. Andvirði annarra eigna aðilanna að frádregnum skuldum nemur eftir áðurgreindu verðmati skiptastjóra að minnsta kosti 46.000.000 krónum, en óumdeilt er að þessar eignir muni koma til helmingaskipta. Sóknaraðili hefur sem fyrr segir þegar hafið töku lífeyris úr Eftirlaunasjóði FÍA og er fjárhæð hans nú um 466.000 krónur á mánuði. Þá virðist sóknaraðili eftir gögnum málsins geta hvort heldur leyst út í einu lagi inneign sína í Íslenska lífeyrissjóðnum þegar hann nær 67 ára aldri eða hafið strax úttekt á henni með jöfnum greiðslum á sjö árum. Eins og greinir í úrskurði héraðsdómara mun varnaraðili, sem ekki er útivinnandi, á hinn bóginn ekki njóta annarra tekna um þessar mundir en greiðslu lífeyris úr hendi sóknaraðila, sem lýkur í desember 2002. Um kosti varnaraðila á að afla sér vinnutekna í framtíðinni verður að taka tillit til aldurs hennar og þess að hún mun búa við nokkuð skerta starfsorku, hefur enga starfsmenntun og litla reynslu af störfum utan heimilis, en þegar hún nær 67 ára aldri á árinu 2008 gæti hún fyrirsjáanlega fengið greiddar úr almannatryggingum sem svarar 86.053 krónum mánaðarlega eftir núgildandi reglum. Til þess verður þó jafnframt að líta að réttur sóknaraðila til lífeyris úr Eftirlaunasjóði FÍA hefur ekki aðeins myndast með iðgjöldum úr hendi hans sjálfs, sem eftir gögnum málsins námu 4% af launum hans meðan hann gegndi enn störfum, heldur einnig og að verulegu leyti með framlagi vinnuveitanda, sem svaraði til 16% af launum sóknaraðila. Er hvorki unnt að líta svo á að þetta háa framlag vinnuveitanda hafi skert tekjur, sem sóknaraðili gat lagt til heimilis síns og varnaraðila, né að því hafi verið ætlað að koma sem uppbót fyrir fjarvistir og aðrar aðstæður í starfi sóknaraðila, sem kunna að hafa lagt auknar byrðar á varnaraðila meðan á hjúskap þeirra stóð. Að auki verður að gæta sérstaklega að því að við útreikning á höfuðstólsverðmæti lífeyrisréttinda sóknaraðila hefur ekki verið tekið tillit til þess að af mánaðarlegum lífeyri ber honum að greiða tekjuskatt og útsvar. Að öllu þessu athuguðu er hæfilegt að lífeyrisréttindi sóknaraðila að höfuðstólsverðmæti 12.000.000 krónur verði talin til hjúskapareigna hans og komi sem slík til skipta eftir almennum reglum við fjárslit milli hans og varnaraðila.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað varnaraðila verða staðfest. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu, en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar sóknaraðila, Baldurs Oddssonar, og varnaraðila, Sigurhönnu Ernu Gísladóttur, skulu lífeyrisréttindi sóknaraðila hjá Eftirlaunasjóði FÍA og Íslenska lífeyrissjóðnum að höfuðstólsverðmæti samtals 12.000.000 krónur koma til skipta sem hjúskapareign hans.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. ágúst 2002.
Mál þetta sem þingfest var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. nóvember sl. var tekið til úrskurðar 28. ágúst sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Sóknaraðili er Sigurhanna Erna Gísladóttir, kt. 180341-2509, Viðjugerði 4, Reykjavík.
Varnaraðili er Baldur Oddsson, kt. 100736-3579, Viðjugerði 4, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila 27.695.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 26. september 2001 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila aðra lægri fjárhæð að mati dómsins en með sömu dráttarvöxtum og greinir í aðalkröfu. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi. Málskostnaður verði ákvarðaður eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila og til ýtrustu varúðar að kröfur sóknaraðila verði stórlega lækkaðar og allir vextir felldir niður af kröfum hans. Bæði í aðalkröfu og varakröfu er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila, auk virðisaukaskatts af málskostnaði.
I
Málsatvik
Málsaðilar gengu í hjónaband í ágúst 1961. Þau áttu saman þrjú börn sem öll eru uppkomin, fædd 1960, 1964 og 1967. Á hjúskapartímanum var sóknaraðili heimavinnandi en varnaraðili starfaði sem flugstjóri hjá Flugleiðum hf. Samvistarslit urðu í september 2000 þegar sóknaraðili flutti í íbúð á neðri hæð í fasteign aðila að Viðjugerði 4, Reykjavík. Hinn 2. febrúar 2001 krafðist sóknaraðili skilnaðar að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík. Ekki tókst samkomulag um fjárskipti vegna skilnaðarins og var úrskurður um opinber skipti til fjárslita kveðinn upp 27. júní 2001. Jóhann H. Níelsson hrl. var sama dag skipaður skiptastjóri við skiptin. Er þetta mál rekið sem ágreiningsmál í tengslum við skiptin, en ágreiningurinn lýtur að því hvort sóknaraðili eigi rétt til hlutdeildar í lífeyrisréttindum varnaraðila hjá Eftirlaunasjóði félags íslenskra atvinnuflugmanna og í Íslenska lífeyrissjóðinum í formi fjárgreiðslu.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili er fædd árið 1941 og því 61 árs gömul. Hún kveðst engin lífeyrisréttindi eiga og muni ekki fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins fyrr en hún nái 67 ára aldri. Hún sé 20% öryrki og hafi ekki um langt skeið haft atvinnutekjur vegna starfa utan heimilis. Hún njóti ekki örorkubóta frá Tryggingastofnun. Með úrskurði sýslumannsins í Reykjavík, dagsettum 29. desember 2001, hafi varnaraðila verið gert að greiða sóknaraðila framfærslueyri fram að skilnaði að borði og sæng og makalífeyri í 12 mánuði meðan skilnaður að borði og sæng vari. Varnaraðili greiði sóknaraðila vegna þessa 100.000 kr. á mánuði. Sóknaraðili muni fá þessar greiðslur til 19. desember 2002. Eftir þann tíma sé hún algerlega tekjulaus þar til réttur stofnist til greiðslu ellilífeyris. Svo sem fram komi í læknisvottorði sé vinnugeta sóknaraðila skert og hún algerlega ófær um að vinna líkamleg áreynslustörf. Hún hafi enga möguleika á að afla sér tekna og hafi enga starfsmenntun sem tryggi henni stöðu á vinnumarkaði. Sóknaraðili hafi þurft að vera í meðferð og eftirliti hjá læknum og þurfi töluvert af lyfjum sem kosti mikla fjármuni.
Varnaraðili sé fæddur árið 1936 og sé því 66 ára gamall. Varnaraðili hafi starfað sem flugstjóri hjá Flugleiðum. Á hjúskapartímanum hafi hann áunnið sér réttindi í Eftirlaunasjóði Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA). Áunnin stigainneign varnaraðila hafi, á viðmiðunardegi skipta hinn 2. febrúar 2001, verið 35.668 stig sem gefi honum 421.612 kr. í laun á mánuði hefði hann þá hætt greiðslu í sjóðinn. Sjóðurinn sé samtryggingarsjóður sem tryggi sjóðfélögum ellilífeyri og mökum þeirra og börnum lífeyri falli sjóðfélagar frá. Öll inneign varnaraðila hafi orðið til á hjúskapartímanum. Þáttur sóknaraðila í myndum lífeyrisréttindanna hafi verið verulegur. Sóknaraðili hafi alfarið séð um rekstur sameiginlegs heimilis þeirra og uppeldi barna. Varnaraðili hafi getað einbeitt sér að starfi sínu og sinnt því óhindrað og með því áunnið sér lífeyrisréttindi. Varnaraðili hafi byrjað töku lífeyris í júlí 2001 og hafi fengið alls 2.619.201 kr. frá þeim tíma til desember 2001. Varnaraðili eigi jafnframt inneign í Íslenska lífeyrissjóðnum að fjárhæð 1.418.371 kr. Samkvæmt gr. 8.5. í samþykktum Íslenska lífeyrissjóðsins sé séreignin laus til útborgunar frá 60 ára aldri með jöfnum greiðslum á eigi skemmri tíma en 7 árum. Eftir að sjóðfélagi sé orðinn 67 ára sé inneignin laus til útborgunar án takmarkana.
Samkvæmt 9. gr. samþykkta eftirlaunasjóðs FÍA séu iðgjöld til sjóðsins a.m.k. 20% af launum sjóðfélaga. Starfandi flugmenn greiði 4% af launum sínum en hlutaðeigandi flugfélag greiði 16%. Eftirlaunasjóður FÍA hafi sérstöðu fyrir það að framlag vinnuveitanda sé hærra en tíðkist hjá öðrum sjóðum. Það breyti þó ekki því að öll inneignin hafi orðið til vegna starfa varnaraðila og sé greiðsla til hans. Framlag vinnuveitanda sé hluti af samningsbundnum launakjörum varnaraðila og ljóst að lífeyrisréttindin hefðu ekki orðið til nema fyrir vinnuframlag hans.
Samkvæmt framlögðum skattframtölum hjónanna skiptist tekjur þeirra á eftirfarandi hátt eftir árum:
Ártekjur varnaraðilatekjur sóknaraðila
1998 8.485.568 0
1999 8.554.426 0
2000 9.733.5290
Augljós munur sé á aflahæfi og tekjum sóknar- og varnaraðila. Varnaraðili hafi haft atvinnutekjur langt umfram meðallaun í landinu og njóti nú hárra greiðslna frá Eftirlaunasjóði FÍA. Varnaraðili starfi nú hjá flugfélaginu Atlanta og dvelji erlendis á þeirra vegum. Sóknaraðili hafi hins vegar engar launatekjur.
Sóknaraðili hafi óskað eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta til fjár verðgildi greindra lífeyrisréttinda varnaraðila. Svo sem að framan greini sé stigainneign varnaraðila í eftirlaunasjóði FÍA 35.668 stig. Miðað sé við stigafjölda á viðmiðunardegi skipta samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings, sem dómkvaddur hafi verið af Héraðsdómi Reykjavíkur 22. febrúar 2002, sé höfuðstólsverðmæti inneignar varnaraðila 53.972.000 kr. miðað við 4,5% ársvexti. Inneign varnaraðila í Íslenska lífeyrissjóðinum sé 1.418.371 kr. Heildarverðmæti lífeyrisréttinda varnaraðila nemi því 55.390.000 kr.
Samkvæmt 54. gr. laga nr. 31/1993 verði eign maka hjúskapareign hans og skiptist til helminga milli maka við slit hjúskapar, sbr. 103. gr. laganna. Í 57. gr. laga 31/1993 sé fjallað um persónubundin réttindi og kveðið á um það að reglur um hjúskapareignir eigi við um þau að svo miklu leyti sem þær brjóti ekki í bága við sérreglur sem gildi um réttindin. Um fjárskipti réttinda í lífeyrissjóðum séu sérreglur í 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993 þar sem heimilað sé að maki geti krafist þess að tiltekin réttindi komi ekki undir skiptin. Á grundvelli framangreinds ákvæðis hafi varnaraðili krafist þess að lífeyrisréttindum hans í Eftirlaunasjóði FÍA og Íslenska lífeyrissjóðnum yrði haldið utan við fjárskipti vegna skilnaðar hans og sóknaraðila.
Af hálfu sóknaraðila sé þess krafist með vísan til 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að henni verði dæmd fjárgreiðsla sem nemi helmingi af verðmæti lífeyrisinneignar varnaraðila eins og hún hafi verið á viðmiðunardegi skipta, sbr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Um fjárhæð kröfunnar sé vísað til mats Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingarstærðfræðings. Krafa sóknaraðila grundvallist á 2. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993. Ákvæðið setji það skilyrði að það sé ósanngjarnt gagnvart viðkomandi að réttindunum sé haldið utan skipta. Sóknaraðili haldi því fram að það sé ósanngjarnt í skilningi ákvæðisins að varnaraðili haldi réttindum sínum í Eftirlaunasjóði FÍA utan skipta, enda væru þá aðstæður málsaðila eftir fjárskiptin afar mismunandi, þannig að bersýnilega hallaði á sóknaraðila.
Í athugasemdum sem fylgt hafi 2. mgr. 102. gr. frumvarps að lögunum komi fram að í einstaka tilviki kunni að reynast ósanngjarnt að halda persónubundnum réttindum utan skipta. Vandséð sé í hvaða tilvikum ákvæðið eigi við nema í slíku tilviki sem hér sé til umfjöllunar. Staða aðila í dag sé sú að varnaraðili fái 466.936 kr. á mánuði frá eftirlaunasjóði FÍA auk tekna sinna frá flugfélaginu Atlanta. Hann eigi 1.418.371 kr. í Íslenska lífeyrissjóðinum. Ljóst sé að hann hafi alla möguleika á að koma sér upp verulegri eignamyndun. Sóknaraðili eigi engin lífeyrisréttindi og fái engar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Við ellilífeyrisaldur muni sóknaraðili njóta lögbundins ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins. Ef sóknaraðili búi ein og sé ógift þegar hún hefji töku ellilífeyris muni hún fá mánaðarlega 19.990 kr. í ellilífeyri, 34.372 kr. í tekjutryggingu, 15.257 kr. í tekjutryggingarauka og 16.434 kr. í heimilisuppbót. Sóknararðili muni samtals fá 86.053 kr. frá almannatryggingum.
Það sé réttlætismál og sanngjarnt að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. Aðilar málsins hafi báðir lagt sitt af mörkum til eignamyndunarinnar með ákveðinni verkaskiptingu í hjúskapnum. Í hjúskapnum hafi varnaraðili unnið fyrir tekjum heimilisins en sóknaraðili annast heimilið og börn aðila. Framlag sóknaraðila til eignamyndunarinnar hafi verið óbeint þannig að starf hennar á heimilinu hafi gert varnaraðila kleift að afla tekna og eigna. Það væri ósanngjarnt ef tekjuöflun ein réði úrslitum. Líta verði til þess að hjúskapurinn hafi varað alla starfsævi beggja, eða í 40 ár.
Sóknaraðili sé algerlega óvinnufær og aðstöðumunur milli hjónanna mikill. Varnaraðili njóti öruggra tekna frá lífeyrissjóði sínum en sóknaraðili sé tekjulaus og muni ekki geta aflað sér tekna í framtíðinni. Vísað er til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 253/2001 sem staðfesti m.a. að lífeyrisréttindi verði dregin undir skipti í einstaka tilviki og hljóti mál þetta að fullnægja þeim kröfum. Þá er einnig vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 170/2002.
Aðalkrafa sóknaraðila byggist á því að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila 27.695.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 26. september 2001 til greiðsludags. Gerð sé krafa um að fjárhæðin beri dráttarvexti frá 26. september 2001 þegar ágreiningsmáli þessu hafi verið vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar. Krafan sé grundvölluð á mati Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings, sem dómkvaddur hafi verið af Héraðsdómi Reykjavíkur.
Varakrafa sóknaraðila byggi á því að dómurinn ákveði fjárhæð sem nemi fjárgreiðslu sem gera myndi málsaðila jafnsetta í fjárhagslegu tilliti vegna skilnaðar þeirra m.v.t. 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Dráttarvaxtakrafa sé sú sama og í aðalkröfu.
Krafist sé málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Málskostnaður verði ákvarðaður eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Vísað sé til hjúskaparlaga nr. 31/1993 og laga um skipti á dánarbúum ofl. nr. 20/1991. Þá sé vísað til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Krafa um málskostnað sé reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyld og beri því nauðsyn til þess að fá varnaraðila dæmdan til greiðslu skattsins.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveður lagaákvæði, sem einkum kunni að reyna á í þessu máli, að finna í hjúskaparlögum nr. 31/1993 og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Enn fremur í samþykktum Lífeyrissjóðs FÍA. Samkvæmt 54. gr. hjúskaparlaganna verði eign maka hjúskapareign, nema sérstakar heimildir standi til annars og samkvæmt 103. gr. laganna eigi hvor maki um sig tilkall til helmings úr skýrri hjúskapareign hins nema annað leiði af ákvæðum laga.
Í þessu máli liggi nokkuð ljóst fyrir, hver hin skýra hjúskapareign sé, en deilt sé um kröfu konunnar um að draga réttindi mannsins í Eftirlaunasjóði FÍA og í Íslenska lífeyrissjóðinum inn í fjárskipti á hjúskapareign hjónanna. Í 57. gr. hjúskaparlaganna, sem fjalli um persónubundin réttindi, sé vísað til 102. gr. laganna um fjárskipti varðandi þessi réttindi. Í upphafi 102. gr. sé mælt fyrir um að maki geti krafist þess að verðmæti, sem síðar séu talin upp í greininni, komi ekki undir skiptin, hvort sem um sé að ræða hjúskapareign hans sjálfs eða hins hjóna. Í 2. t1. 1. mgr. 102. gr. sé síðan mælt fyrir um rétt maka til að krefjast þess, að þau persónubundnu réttindi, sem hér séu til umfjöllunar, lífeyrissjóðsréttindi, komi ekki til skipta, en málsgreinin hljóði svo: "Réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum, svo og krafa til lífeyris eða líftryggingarfjár sem hefur ekki endurkaupsvirði samkvæmt kröfu annars makans eða þeirra sameiginlega". Í þessari lagagrein komi fram meginreglan um hvernig með persónubundin lífeyrisréttindi skuli fara og hafi henni nánast undantekningalaust verið fylgt við fjárskipti hjóna við skilnað eftir gildistöku hjúskaparlaga 1993. Telur varnaraðili að þessi regla eigi tvímælalaust við í því máli sem hér sé til meðferðar, sérstaklega þegar það sé skoðað heildstætt. Krefst varnaraðili þess að farið verði eftir þessari meginreglu laganna.
Í 3. t1. l. mgr. 102. gr. sé þessi regla undirstrikuð og njóti þar enn frekari stuðnings, en þar segi um verðmæti sem maki geti krafist að komi ekki undir skipti: "Önnur verðmæti eða réttindi sem ekki er hægt að afhenda eða eru persónulegs eðlis". Ljóst sé að þau persónulegu réttindi sem hér séu til umfjöllunar séu ekki afhendanleg, hvorki til sóknaraðila né annarra. Þó geti varnaraðili samþykkt afhendingu persónulegra réttinda, sem tilheyri honum einum, með sérstökum samningi við viðtakanda, sbr. önnur lagaákvæði og samþykktir, sem um verði fjallað síðar.
Í niðurlagi 102. gr. sé undantekningarákvæði við aðra töluliði, þar sem segi: "Nú þykir ósanngjarnt gagnvart hinum makanum að verðmætum eða réttindum skv. 2., 3. og 4. tölulið sé haldið utan skipta og er þá heimilt að bæta honum það með fjárgreiðslum sem eftir atvikum má inna af hendi með nánar greindum afborgunum”. Þetta undantekningarákvæði frá meginreglunni verði að skýra mjög þröngt, svo sem dómstólar hafi gert, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá l8. desember 2001 í málinu nr. 253/2001, og líta heildstætt á málið og þá ekki síst hver eignarstaða maka sé eftir fjárskiptin.
Núgildandi hjúskaparlög séu frá árinu 1993, þar á meðal nefnt undantekningarákvæði 102. gr. Það sé ekki afturvirkt fremur en önnur lög og geti því ekki undir neinum kringumstæðum náð til þeirra lífeyrissjóðsréttinda sem varnaraðili hafði aflað sér fram til gildistöku laganna l. júlí 1993. Þá beri og að líta til annarra lagaákvæða um túlkun þessa undanþáguákvæðis, svo og reglna viðkomandi lífeyrissjóða og aðgerða og/eða aðgerðaleysis hjónanna varðandi þessi persónuréttindi, svo og óvissu um lífaldur þess, sem persónuréttindin tilheyri, í þessu tilfelli varnaraðila, sem sé að verða 66 ára.
Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eigi við um þau persónuréttindi sem hér séu til umfjöllunar, þar sem lífeyrissjóður FÍA sé í eðli sínu samtryggingasjóður sjóðfélaga og réttur til greiðslna úr sjóðnum bundinn við það að sjóðfélagar hafi náð ákveðnum aldri og greiðslur úr honum nefndar ellilífeyrir, samkvæmt 11. gr. samþykkta sjóðsins. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. þeirra laga geti sjóðfélagi og maki eða fyrrverandi maki hans gert með sér gagnkvæmt samkomulag um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna og áunninna ellilífeyrisréttinda meðan á hjúskap hafi staðið eða standi. Út frá þessu ákvæði verði að álykta að slíkt samkomulag á milli hjóna sé forsenda þess að annar aðilinn geti öðlast rétt til lífeyrisgreiðslna hins, ella væri þetta lagaákvæði tilgangs- og merkingarlaust. Ekkert slíkt samkomulag hafi verið gert á milli málsaðila í þessu tilviki. Þá beri að líta til þess að þetta ákvæði laga nr. 129/1997 sé yngra en hjúskaparlögin frá 1993 og hafi því þungt vægi í túlkun eldri laga og í þessu tilfelli undanþáguákvæðis 102. gr. hjúskaparlaganna.
Í 11. gr. samþykkta Eftirlaunasjóðs FÍA sé mælt fyrir um ellilífeyri. Í 4. tl. 11. gr. segi m.a. svo: "Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans, sbr. skilgr. í 13.3., getur sjóðfélagi ákveðið, að ellilífeyrisgreiðslur, sem renna eiga til hans, skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka". Í grein 13.3. sé m.a. skilgreining á því hver teljast skuli maki. Af þessu ákvæði megi ljóst vera að það sé á valdi sjóðfélaga, í þessu tilviki varnaraðila, að ákveða með samkomulagi hvort maki hans fær hlutdeild í ellilífeyrisgreiðslunum eða ekki. Ekkert slíkt samkomulag milli málsaðila sé til staðar, svo sem fyrr segi, en það sé skilyrði fyrir réttindasköpun sóknaraðila til persónuréttinda mannsins í lífeyrissjóði hans, sbr. og áður tilvitnaða 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997. Þessi ákvæði samþykkta lífeyrissjóðsins og laganna hafi augljóslega þann tilgang að tryggja ótvíræðan rétt sjóðfélaga sjálfra til persónubundinna lífeyrisréttinda. Vandséð sé að hægt sé að víkja þessum réttarveitandi og bindandi ákvæðum til hliðar með undantekningarákvæði í hjúskaparlögum. Varnaraðili telur líka að sóknaraðila hafi fyrir löngu verið kunnugt um að nauðsynlegt væri að þau hjón gerðu með sér samning um skiptingu lífeyrisréttinda ef hún ætlaði sér hlut í þeim. Þetta mál hafi komið áður á dagskrá við fyrri kröfur sóknaraðila um hjónaskilnað og þá þegar hafi bæði hjónin haft lögmenn sér til aðstoðar. Konan sé því ekki í góðri trú nú, þegar hún krefjist hlutdeildar í persónubundnum lífeyrisréttindum mannsins, enda hafi hún aldrei svo mikið sem farið fram á það að samkomulag yrði gert um þessi réttindi á milli hjónanna.
Eignir bús hjónanna séu miklar. Samkvæmt yfirliti, sem skiptastjóri búsins, Jóhann Nielsson hrl., hafi gert, sé hrein eign búsins 46.394.863 kr. Matið sé varkárt og ekki lagt mat á innbú og persónulega muni, þannig að telja verði verðmæti búsins þó nokkuð meira. Hlutur sóknaraðila og hjúskapareign sé helmingur eða miðað við eignaskrá skiptastjóra 23.197.431 kr., sem telja verði veruleg verðmæti. Í dómum sem gengið hafi um ágreiningsmál líkt og þetta sé lögð áhersla á að meta þurfi aðstæður heildstætt. Þar sé m.a. átt við að taka verði tillit til eignastöðu aðila eftir skilnað, möguleika þeirra til að koma sér fyrir við nýjar aðstæður, svo sem að kaupa íbúðarhúsnæði og annað því um líkt. Sóknaraðili muni fá næg húsgögn og búsáhöld við búskiptin og eigi auk þess kost á að fá einn eða tvo af þremur bílum búsins. Telja verði með tilliti til eigna búsins, að sóknaraðili hafi mjög góðar fjárhagsaðstæður eftir skilnaðinn og verði að sjálfsögðu að taka tillit til þess við heildstætt mat á öllum þáttum málsins.
Í undanþáguákvæði 102. gr. hjúskaparlaga sé kveðið á um að ósanngirni þurfi að vera til staðar, ef beita eigi ákvæðinu. Þegar litið sé til þeirra miklu verðmæta sem sóknaraðili fái í sinn hlut við búskiptin sé ekki hægt að segja að konan hafi verið beitt ósanngirni og því ekki hægt að byggja á undanþáguákvæðinu í þessu máli. Varnaraðili yrði hins vegar fyrir mikilli ósanngirni ef orðið yrði við kröfum sóknaraðila.
Varnaraðili hafi snemma á skilnaðarferlinum boðið, með bréfum lögmanns síns til lögmanns sóknaraðila, upp á sanngjörn og eðlileg skipti eignanna og hafi verið opinn fyrir tillögum sóknaraðila um tilhögun skiptanna. Sóknaraðili hafi hafnað öllu samkomulagi um skiptin og fljótlega krafist opinberra skipta á búinu. Skiptin hafi síðan verið í höndum skiptastjóra og mál lítt þokast í samkomulagsátt.
Mati Jóns Erlings Þorlákssonar á verðgildi lífeyrisréttinda varnaraðila sé algjörlega mótmælt sem röngu og ónothæfu í þessu máli, þar á meðal til að byggja á því kröfugerð. Eins og getið sé um hér að framan sé hrein eign búsins, samkvæmt yfirliti skiptastjóra, rúmar 46 milljónir króna og hlutur hvors aðila rúmar 23 milljónir. Lífeyrissjóðsréttindi varnaraðila telji matsmaður vera 55.390.000 kr. Helmingur af þeirri upphæð og krafa sóknaraðila sé 27.695.000 kr. Ef byggja ætti á niðurstöðu matsins væri hlutur sóknaraðila, búshelmingur og hluti í persónubundnum lífeyrissjóði mannsins samtals 50.892.431 kr., eða tölvert meiri en allar eignir búsins. Varnaraðili gengi slippur og snauður frá öllu saman og skuldaði sóknaraðila til viðbótar nokkrar milljónir. Slík niðurstaða væri að sjálfsögðu fráleit en sýni vel hversu gölluð niðurstaða dómkvadds matsmanns geti verið þar sem eingöngu sé byggt á stærðfræðilegum reiknilíkönum en ekkert tillit tekið til annarra þátta. Þá sýni fjárhæðin sem sóknaraðili krefjist hina miklu kröfuhörku konunnar og óbilgirni í garð mannsins.
Þegar sleppt sé margföldun á margföldunarstuðli, grundvallarlaunum og vísitöluhækkun skorti allar forsendur fyrir matinu. Ekki komi fram við hvaða lífaldur sé miðað hjá varnaraðila né neinir breytilegir möguleikar í þeim efnum. Þá sé ekkert tillit tekið til þess að við 67 ára aldur muni sóknaraðili geta hafið töku ellilífeyris og annarra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins, sem á núgildandi verðlagi myndi nema 86.053 kr. á mánuði samkvæmt upplýsingum, sem fram komi í greinargerð sóknaraðila.
Í matsgerðinni sé ekkert tillit tekið til tekjuskatts sem varnaraðili þurfi að greiða af lífeyrisgreiðslunum. Árið 2001, sem miðað sé við í máli þessu, hafi tekjuskattur einstaklinga verið 38,76% af fyrstu 3.359.899 kr. en af tekjum þar umfram hafi bæst við 7% hátekjuskattur og hafi skatthlutfallið þá orðið 45,76%. Miðað við 2. febrúar 2001, svo sem gert sé í matinu, hafi réttur varnaraðila til lífeyrisgreiðslna verið 421.612 kr. á mánuði, eða 5.059.344 kr. á ári. Tekjuskattur af fyrstu 3.359.899 kr. hafi því verið 1.302.396 kr. og hátekjuskattur af því sem umfram var, 1.699.445 kr., hafi verið 777.666 kr., eða tekjuskattur samtals 2.080.062 kr., og að frádregnum persónuafslætti 25.245 kr. hefði tekjuskattur alls numið 2.054.817 kr. Þá hefði til viðbótar komið útsvar sem sé nálægt 12% af heildartekjum. Í matinu sé ekkert tillit tekið til þessara gjalda varnaraðila sem geri, eins og fleira, viðmiðun við matsupphæðina marklausa.
Þá sé ekkert fjallað um þann mismun sem sé á greiðslum vinnuveitenda í Eftirlaunasjóð FÍA, en þar greiði vinnuveitandi varnaraðila 10% af launum til viðbótar þeim 6% sem vinnuveitendur greiði í aðra lífeyrissjóði eða samtals 16%. Þessi viðbótargreiðsla sé algjörlega persónubundin við sjóðfélagana og hafi varnaraðili áunnið sér þennan viðbótarrétt vegna starfa sinna, alveg óháð hjónabandinu.
Segja megi að matsmanni hafi verið nokkur vorkunn þar sem sjálf matsbeiðnin, og þar af leiðandi dómkvaðningin, sé mjög takmörkuð. Að vísu sé óskað eftir því að matsmaður rökstyðji niðurstöðuna, en það geri hann ekki, heldur láti einvörðungu nægja að margfalda saman þrjár tölur, svo sem áður sé getið. Telja verði að öll þessi atriði ómerki matsgerðina, enda sé niðurstaða hennar slík að í engu sé unnt að byggja á henni.
Í greinargerð sóknaraðila sé mikið gert úr erfiðri stöðu hennar. Af því tilefni vilji varnaraðili láta eftirfarandi koma fram:
a) Börn hjónanna séu öll löngu uppkomin. Dóttirin, sem lengi hafi starfað sem flugfreyja, hafi haft íbúð á neðri hæð að Viðjugerði 4 þann tíma sem hún hafi dvalist hér á landi, en verið mikið erlendis. Síðustu árin hafi hún ekki búið í íbúðinni. Eftir að börnin hafi verið uppkomin hafi sóknaraðila verið algjörlega í sjálfsvald sett hvort hún ynni utan heimilisins eða ekki. Hún hafi kosið sjálf að vinna ekki utan heimilisins fyrr en á síðasta áratug þar sem hún hafi búið við öryggi og gott atlæti. Hún hafi um tíma rekið veitingahúsið Grjótið í Hafnarstræti, hafi síðan verið verslunarstjóri í Búsáhöldum og gjafavörum í Hafnarfirði og loks unnið á sólbaðsstofunni Gullsól. Á þessum tíma hljóti sóknaraðili að hafa aflað sér einhverra lífeyrisréttinda.
b) Varnaraðili kveður það fjarri lagi að konan hafi ekki nýtt sér eftir því sem hún hafi viljað, aðgang að efri hæð hússins. Varnaraðili hafi sökum starfa sinna verið mikið erlendis undanfarna mánuði. Sóknaraðili hafi þá notað íbúðina á efri hæðinni að vild sinni, sbr. t.d. símreikninga fyrir undanfarna mánuði fyrir síma hans, sem staðsettur sé á efri hæðinni. Þar eigi sér stað mikil og stöðug notkun þrátt fyrir langvarandi fjarveru varnaraðila. Ljóst sé að sóknaraðili sé þá að nota síma varnaraðila á efri hæðinni, þar á meðal til símtala til útlanda og til að senda símskeyti. Símareikningarnir séu þá skráðir á númer varnaraðila og honum gert að greiða, svo sem hann hafi gert. Varnaraðili kveður sóknaraðila engu að síður hafa sinn eigin síma í íbúðinni á neðri hæðinni, auk GSM síma.
c) Íbúðin, sem sóknaraðili búi í að Viðjugerði 4 sé ekki kjallaraíbúð, eins og fram komi í greinargerð sóknaraðila. Enginn kjallari sé undir húsinu, heldur sé það tvær hæðir. Meira að segja séu þrep sé upp í neðri hæðina.
d) Sóknaraðili fjalli tölvert um veikindi sín í greinargerðinni. Varnaraðili viti ekki betur en að sóknaraðili hafi náð bata eftir þau veikindi sem hún hafi gengið í gegnum vegna krabbameins á síðasta áratug. Fram komi í greinargerð sóknaraðila að hún sé algerlega ófær um að vinna störf sem krefjist líkamlegrar áreynslu og sé 20% öryrki. Sem betur fer séu mörg störf í þjóðfélaginu sem ekki krefjist líkamlegrar áreynslu. Ætla verði að sóknaraðili eigi kost á slíkum störfum, en varnaraðila sé ekki kunnugt um að sóknaraðili hafi leitað eftir vinnu eftir að þetta skilnaðarmál kom upp og því ekki á atvinnumöguleika hennar reynt.
e) Fram komi í greinargerð sóknaraðila að hún sé 20% öryrki. Ekki sé upplýst hvenær þetta örorkumat hafi farið fram né hver hafi framkvæmt það. Ljóst sé að Tryggingastofnun telji örorku sóknaraðila það lága að hún greiði henni ekki örorkubætur, sbr. greinargerð sóknaraðila. Fólk með 80% starfsgetu sé víða á vinnumarkaði og sækist eftir að stunda vinnu. Varnaraðili telji að sóknaraðili ætti á sama hátt að geta fengið sér vinnu við hæfi, ef vilji sé fyrir hendi. Sóknaraðili aki bíl og fari allra sinna ferða.
f) Varnaraðila hafi, með úrskurði sýslumannsins í Reykjavík, verið gert að greiða sóknaraðila 100.000 kr. á mánuði frá l. nóvember 2000 til l9. desember 2002, eða í rúma 25 mánuði. Upp í greiðslurnar gangi 400.000 kr. sem varnaraðili hafi áður greitt beint til framfærslu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi einnig, eftir að hún hafi krafist skilnaðar, tekið bankalán til eigin þarfa 500.000 kr., sem koma muni í hlut búsins að greiða, og farið erlendis til dvalar á frímiða varnaraðila hjá Flugleiðum. Á sama tíma hafi varnaraðili greitt alla skatta og skyldur af tekjum og eignum búsins og séð um rekstur og viðhald eignanna. Þetta komi hvergi fram í greinargerð sóknaraðila.
Sóknaraðili skori á varnaraðila að leggja fram launaseðla frá flugfélaginu Atlanta um tekjur á árunum 2001 og 2002. Fjárfélagi hjónanna hafi verið lokið þegar skilnaðarmálið hafi fyrst verið tekið fyrir hjá sýslumanni 2. febrúar 2001, enda uppgjör miðað við þann dag. Varnaraðili telji því vinnu sína og launatekjur sóknaraðila óviðkomandi eftir þann tíma, en varnaraðili hafi síðan greitt margvísleg gjöld og sameiginlegan kostnað búsins. Varnaraðili hafi verið lausráðinn til kennslu flugmanna hjá Atlanta að undanförnu, en sú vinna sé með hléum á milli og óráðið með áframhaldið, enda varnaraðili að verða 66 ára, svo sem áður segi.
Í varakröfu, sem gerð sé til ítrustu varúðar, sé því mótmælt að krafa sóknaraðila eigi undir nokkrum kringumstæðum að bera vexti. Hér sé um eignarréttarkröfu að ræða, kröfu um að auka hlut annars aðila á kostnað hins við búskipti. Slíkar kröfur beri ekki vexti, fremur en önnur verðmæti búsins sem til skipta komi.
IV
Niðurstaða
Um eignir hjóna er fjallað í VIII. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993. Meginreglan kemur fram í 54. gr. þar sem segir að eign maka verði hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars. Í 57. gr. er fjallað um persónubundin réttindi. Samkvæmt ákvæðinu eiga reglurnar um hjúskapareignir við um þau, að svo miklu leyti sem þær fari ekki í bága við sérreglur sem um réttindin gilda, enda séu þau ekki séreign samkvæmt lögum. Fjallað er um fjárskipti þessara réttinda í 102. gr. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 102. gr. getur maki krafist þess að réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum komi ekki undir skiptin. Þó segir í 2. mgr. 102. gr. að þyki það ósanngjarnt gagnvart hinum makanum að verðmætum eða réttindum þessum sé haldið utan skipta sé heimilt að bæta honum það með fjárgreiðslum.
Eftirlaunasjóður FÍA og Íslenski lífeyrissjóðurinn starfa samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna er sjóðfélaga og maka hans eða fyrrverandi maka heimilt að gera með sér samkomulag um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna og verðmætis ellilífeyrisréttinda meðan hjúskapur eða sambúð hefur staðið eða stendur. Sambærileg ákvæði er einnig að finna í grein 11.6. í samþykktum eftirlaunasjóðs FÍA og í grein 14.1. í samþykktum fyrir Íslenska lífeyrissjóðinn segir að sjóðfélagi geti ákveðið að skipta lífeyrisréttindum á milli sín og maka síns í samræmi við 14. gr. laga 129/1997. Aðilar þessa máls hafa ekki gert með sér slíkt samkomulag. Af því leiðir að lífeyrisréttindi varnaraðila falla utan skipta nema talið verði að sú niðurstaða sé ósanngjörn gagnvart sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.
Varnaraðili hefur haldið því fram að fyrir gildistöku hjúskaparlaga 1993 hafi ekki verið nein heimild í lögum til þess að lífeyrisréttindi kæmu til skipta og vegna þess geti einungis komið til álita áunnin lífeyrisréttindi frá 1993. Á þessi rök verður ekki fallist. Í dómi Hæstaréttar 1972:544 var vísað til 2. mgr. 17. gr., 19. gr. og 53. gr. laga nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna og fallist á að varnaraðili ætti rétt til endurgjalds vegna lífeyriskaupa sóknaraðila. Þá var fallist á skiptingu lífeyrisréttinda vegna tímabils fyrir árið 1993 í dómi Hæstaréttar frá 26. apríl 2002.
Til þess að meta hvort ósanngjarnt yrði að halda lífeyrisréttindum varnaraðila utan skipta verður að meta allar aðstæður heildstætt. Aðilar málsins höfðu verið í hjúskap í u.þ.b. 40 ár þegar þau skildu að borði og sæng í febrúar 2001. Allan þann tíma starfaði varnaraðili hjá Flugleiðum hf. og aflaði sér lífeyrisréttinda, en sóknaraðili var heimavinnandi og sá um heimilisstörfin og uppeldi barnanna. Verður að fallast á að hlutur sóknaraðila í myndun lífeyrisréttindanna hafi verið talsverður, enda hefur varnaraðili getað sinnt starfi sínu og ferðast óhindrað. Sóknaraðili aflaði sér hins vegar nánast engra tekna eða lífeyrisréttinda, en var hún heimavinnandi allan hjúskapartímann fyrir utan skamman tíma eftir að börnin voru uppkomin.
Varnaraðili er nú 66 ára. Hann hefur hætt störfum hjá Flugleiðum og hafið töku lífeyris. Lífeyrisgreiðslur hans eru nú um 466.000 kr. á mánuði. Að auki hefur hann undanfarið starfað við kennslu á vegum Flugfélagsins Atlanta hf. og haft tekur af því, þó að óvíst sé hversu lengi það muni vara. Þá er innstæða hans, að fjárhæð 1.418.371 kr., hjá Íslenska lífeyrissjóðnum laus til útborgunar, samkvæmt hans eigin ákvörðun, eftir rúmlega eitt ár þegar hann hefur náð 67 ára aldri, sbr. grein 8.6. í samþykktum fyrir Íslenska lífeyrissjóðinn.
Sóknaraðili er ekki útivinnandi í dag. Hún er 61 árs að aldri, hefur skerta starfsorku, enga starfsmenntun og stutta starfsreynslu. Hún fær 100.000 kr. á mánuði í framfærslueyri frá varnaraðila þar til í desember á þessu ári. Þá mun hún engar tekjur hafa þar til á árinu 2008 þegar hún nær 67 ára aldri, en samkvæmt útreikningi aðila mun hún þá fá u.þ.b. 86.000 kr. á mánuði í ellilífeyri, tekjutryggingu, tekjutryggingarauka og heimilisuppbót.
Gert er ráð fyrir að eignum aðila verði skipt til helminga við opinber skipti á búi þeirra. Sé tekið mið af eignaskrá skiptastjóra munu rúmlega 23.000.000 kr. koma í hlut hvors um sig.
Þegar allar aðstæður eru virtar heildstætt verður að telja ósanngjarnt að lífeyrisréttindum varnaraðila sé haldið utan skipta. Lagaskilyrði til að beita 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga eru því uppfyllt og verður sóknaraðila ákvörðuð fjárgreiðsla til þess að jafna þann aðstöðumun sem verður milli aðila eftir skilnað þeirra. Við ákvörðun á fjárhæðinni verður miðað við áunnin lífeyrisréttindi á viðmiðunardegi skipta, 2. febrúar 2001, með hliðsjón af matsgerð Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings, sem ekki hefur verið hnekkt. Samkvæmt matinu nam höfuðstólsverðmæti réttindanna í Eftirlaunasjóði FÍA 53.972.000 kr. og í Íslenska lífeyrissjóðnum 1.418.000 kr., eða samtals 55.390.000, miðað við 4,5% ársvexti. Sóknaraðili hefur krafist þess að fá helming þeirrar fjárhæðar, eða 27.695.000 kr. Við ákvörðun fjárhæðarinnar verður að líta til þess að sóknaraðili hefur hagræði af eingreiðslu fjárhæðarinnar og að fjárhæðin myndar ekki stofn til tekjuskatts. Þá ber að líta til þess að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisréttinda úr Eftirlaunasjóði FÍA er bundin við þá óvissu að varnaraðili nái tilteknum aldri. Með hliðsjón af þessu og öllum aðstæðum þykir rétt að varnaraðili greiði sóknaraðila 12.000.000 kr. Fjárhæðin skal bera dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að liðnum mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Steinunnar Guðbjartsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 300.000 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður 45.000 kr.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Varnaraðili, Baldur Oddsson, greiði sóknaraðila, Sigurhönnu Ernu Gísladóttur, 12.000.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að liðnum mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Steinunnar Guðbjartsdóttur hdl., 300.000 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður 45.000 kr.