Hæstiréttur íslands
Mál nr. 152/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 11. mars 2013. |
|
Nr. 152/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn Þ (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem Þ var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. apríl 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að Þ, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. apríl 2013, kl. 16:00.
Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldskröfu verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Krafan er reist á því að kærði sé undir grun um brot gegn lögum nr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum.
Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að vana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar stórfelldan innflutning fíkniefna frá Kaupmannahöfn hingað til lands. Þann 21. og 24. janúar sl. hafi lögregla lagt hald á tæp 20 kíló af amfetamíni og tæpa 2 lítra af amfetamínvökva, sem flutt hafi verið hingað til lands með pósti.
Í þágu rannsóknar málsins hafi lögregla handtekið og yfirheyrt átta sakborninga, þ.m.t. kærða Þ, og sæti nú alls sex einstaklingar gæsluvarðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna málsins.
Lögregla hafi undir höndum myndbandsupptökur þar sem sjá megi kærða Þ, og meðkærðu, Z og Ö, póstleggja þann 18. janúar sl. þær sendingar er innihéldu umrædd 20 kíló af amfetamíni.
Mánudaginn 28. janúar sl. hafi meðkærði, Ý, sótt eina sendingu í póstafgreiðslu við [...] í [...]. Hafi lögregla fylgst með því hvar hann afhendi sendinguna ofangreindum Ö, við [...] við [...]. Hafi lögregla fylgst með hvar Ö gekk með póstsendinguna áleiðis að [...], þar sem hann hafi losað sig við hana og hann verið handtekinn strax í kjölfarið. Þá hafi lögregla einnig fylgst með því hvar meðkærði X hafi haldið sig í námunda við pósthúsið og virst fylgjast með afhendingu pakkans.
Kærði hafi verið handtekinn 24. janúar sl. grunaður um aðild að fíkniefnainnflutningnum og úrskurðaður í gæsluvarðhald nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 124/2013.
Í skýrslutökum hjá lögreglu hafi kærði lýst og viðurkennt aðild sína að málinu með þeim hætti að hann hafi þann 18. janúar sl. farið til Kaupmannahafnar til að hitta félaga sinn Y, en hann hafi þá vitað að til stóð að flytja hingað til lands mikið magn fíkniefna. Hans hlutverk hafi fyrst og fremst verið að aðstoða meðkærða Z við að koma sendingunum í póst. Hann kvað bróður sinn Y vera aðalskipuleggjanda innflutningsins. Y hafi afhent honum fjármuni til kaupa á flugmiðum og gistingu vegna. Kærði Þ hafi greint frá því að hann hafi hitt meðkærða Z á heimili þess síðarnefnda þann 23. janúar. Þar hafi Z upplýst hann um að lögregla væri búin að leggja hald á sendingarnar og að fylgst væri með ferðum þeirra. Hann kvaðst hafa í umrætt sinn móttekið úr hendi Z miða með trakkingnúmeri póstsendingarinnar sem innihélt amfetamínvökvann og að Z hafi beðið hann um að koma miðanum til meðkærða Ö. Þá hafi Z einnig beðið hann um að koma skilaboðum til meðkærða Y um að lögregla væri búin að haldleggja sendingarnar. Kvaðst Þ hafa gert hvoru tveggja.
Í ljósi framburðar kærða sjálfs um sína aðild að innflutningnum, gagna málsins og framburða annarra sakborninga sé kærði nú undir sterkum grun um aðild að stórfelldum fíkniefnainnflutningi, þar sem víst þykir að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi. Telst brot hans varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Rannsókn málsins er varði þátt kærða sé langt komin og því ekki lengur þörf á að hann sæti gæsluvarðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna. Hins vegar sér það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem varði allt að 12 ára fangelsi og þá sé brot hans svo svívirðilegt að almannahagsmunir krefjast þess að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 25. janúar sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Nú er krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Fallist verður á með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Verður talið að meint brot sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, Þ, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. apríl 2013, kl. 16:00.