Hæstiréttur íslands

Mál nr. 4/2017

Ragnheiður Jóna Þorgrímsdóttir (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður, Diljá Mist Einarsdóttir lögmaður , 4. prófmál)
gegn
íslenska ríkinu, Umhverfisstofnun (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður) og Norðuráli Grundartanga ehf. (Árni Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Stjórnsýsla
  • Rannsóknarregla
  • Andmælaréttur
  • Lögmætisregla
  • Mengun

Reifun

Á árinu 2015 gaf U út starfsleyfi til N ehf. fyrir framleiðslu á allt að 350.000 tonnum af áli á ári í verksmiðju félagsins að Grundartanga. Höfðaði R mál á hendur Í, U og N ehf. og krafðist þess aðallega að starfsleyfið yrði ógilt, en til vara að viðurkennt yrði að N ehf. væri óheimilt að framleiða árlega meira en 300.000 tonn af áli. Hélt R því fram að starfsleyfið væri ólögmætt þar sem í 2. gr. laga nr. 62/1997 um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga kæmi fram að framleiðslugeta álversins skyldi vera allt að 300.000 tonn á ári. Kvæði starfsleyfið því á um framleiðslu á 50.000 tonnum af áli umfram það sem heimilt væri. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að starfsleyfi samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir væri og hefði verið gefið út án tillits til ákvæða laga nr. 62/1997 og lagaheimildar samkvæmt síðargreindu lögunum verið aflað eftir að starfsleyfið hefði verið gefið út. Þótt ekki hefði verið samþykkt breyting á lögum nr. 62/1997 til samræmis við starfsleyfið yrði það ekki talið valda ógildi þess. Var því ekki fallist á að þurft hefði að ákvarða heimilaða álframleiðslu í lögum nr. 62/1997 áður en leyfið var gefið út. Hélt R því jafnframt fram að ekki hefði verið gætt að formreglum stjórnsýsluréttar við veitingu starfsleyfisins. Taldi hún meðal annars að sérstakt tilefni hefði verið til rannsóknar vegna þeirrar staðreyndar að fjöldi hrossa í nágrenni verksmiðjunnar hefði veikst. Á sama tíma og ákvörðun hefði verið tekin um veitingu leyfisins hefði verið unnið að skýrslu um áhrif losunar flúors á hrossin og hún ekki legið fyrir þegar leyfið var veitt. Var það niðurstaða skýrslunnar að líklegt væri að veikindi þeirra mætti rekja til flúormengunar. Talið var að víðtæk rannsókn hefði farið fram á ætluðum áhrifum flúors á umhverfi og hefði Umhverfisráðuneytið samþykkt umhverfisvöktunaráætlun á svæðinu. Þá hefði fyrrgreind skýrsla ekki legið fyrir fyrr en rúmum sex mánuðum eftir að starfsleyfið var veitt. Talið var að miðað við alla þá rannsókn sem farið hefði fram allt frá árinu 2009 hefði ekki verið efni fyrir U til að bíða með útgáfu starfsleyfisins þar til skýrslan lá fyrir. Auk þess væru í starfsleyfinu ákvæði um heimild U til breytingar á því kæmu fram nýjar upplýsingar. Var því talið að málsmeðferð U hefði ekki verið í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá var hvorki fallist á með R að ekki hefði verið gætt að andmælarétti R né að starfsleyfið væri í andstöðu við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Voru Í, U og N ehf. því sýknaðir af kröfu R.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2017. Hún krefst þess aðallega að ógilt verði starfsleyfi stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. 16. desember 2015 en til vara að viðurkennt verði að honum sé óheimilt að framleiða árlega meira en 300.000 tonn af áli í verksmiðju sinni að Grundartanga. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilar beri sinn kostnað af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti.

Það athugast að ekki voru efni til að höfða mál þetta á hendur Umhverfisstofnun.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2016.

Mál þetta, sem var dómtekið 28. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ragnheiði Jónu Þorgrímsdóttur, Kúludalsá 1, Akranesi, á hendur íslenska ríkinu, Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík og Norðuráli Grundartanga ehf., Grundartanga, Akranesi, með stefnu birtri 19. apríl 2016.

Stefnandi krefst þess aðallega, að ógilt verði með dómi starfsleyfi Norðuráls Grundartanga ehf., dagsett 16. desember 2015.

Til vara er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Norðuráli Grundartanga ehf., sé óheimilt að framleiða árlega meira en 300.000 tonn af áli í verksmiðju sinni að Grundartanga.

Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndu, íslenska ríkið og Umhverfisstofnun, krefjast sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að málskostnaður verði látinn falla niður.

Stefndi, Norðurál Grundartangi ehf., krefst þess að stefndu verði sýknaðir af aðal- og varakröfu stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Með lögum nr. 62/1997 um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga var iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um byggingu álvers á Grundartanga og voru samningar þessa efnis milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Columbia Ventures Corporation og Norðuráls hf. hins vegar, undirritaðir 7. ágúst 1997. Lá þá fyrir mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi fyrir allt að 180.000 tonna álveri á Grundartanga. Við samning þennan hafa verið gerðir fjórir viðaukar, dagsettir 14. júní 2000, 9. febrúar 2005, 14. júlí 2008 og 8. janúar 2010.

Byggingu 1. áfanga álversins með um 60.000 tonna ársframleiðslugetu af áli lauk í júní árið 1998 og hófst þá framleiðsla í kerskálum álversins. Var álverið síðar stækkað í áföngum en eldra starfsleyfi Umhverfisstofnunar gilti til ársins 2020 og veitti heimild til að framleiða allt að 300.000 tonnum af áli á ári.

Stefnandi er bóndi og eigandi jarðarinnar Kúludalsár í Hvalfjarðarsveit sem er um það bil fimm km. vestan við iðnaðarsvæðið á Grundartanga. Þar stundar hún hrossabúskap og ræktun, auk þess að halda námskeið í hestamennsku fyrir börn og unglinga. Þá eru á bænum boðið upp á gistingu og leiðsögn fyrir ferðamenn og kynnisferðir á hestum. Stefnandi kveður að hrossabúskapur á jörðinni hafi gengið vel allt þangað til mengunarslys varð í Norðuráli í ágúst 2006. Eftir það hafa veikindi hrossa verið viðvarandi, allt til dagsins í dag.

Í gegnum tíðina hafa verið gerðar rannsóknir á heilsufari hrossanna. Var meðal annars leitað til Sigríðar Björnsdóttur, dýralæknis hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, og Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis Tilraunastöðvar HÍ á Keldum. Komist var að þeirri niðurstöðu að um svokallaða hófsperru væri að ræða og síðar efnaskiptasjúkdóm, sem kallast „Equine Metabolic Syndrome“ (EMS) og borið hefur á í vaxandi mæli bæði hér á landi og erlendis á síðari árum. Þeir töldu engar líkur á að um væri að ræða áhrif af flúormengun frá Grundartanga. EMS orsakast fyrst og fremst af offitu og hreyfingarleysi. Ekki sé hægt að lækna sjúkdóminn og eftir að hann hefur þróast verða hross sérlega viðkvæm fyrir auðleystum sykrum í fóðri.

Stefnandi vildi ekki una þessari greiningu og leitaði til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um frekari rannsóknir. Fól ráðuneytið Jakobi Kristinssyni, eiturefnafræðingi og prófessor í lyfjafræði, og Sigurði Sigurðarsyni dýralækni að rannsaka veikindi hrossanna. Beindist rannsóknin að því að kanna hvort flúormengun frá iðnaðarstarfseminni á Grundartanga gæti valdið veikindum hrossa á bænum. Skiluðu þeir ráðuneytinu áfangaskýrslu 14. júní 2016. Töldu þeir líklegt að veikindi hrossanna mætti rekja til flúormengunar. Í skýrslunni kom einnig fram að til að fá örugga mynd þyrfti miklum mun ítarlegri, víðtækari og dýrari rannsóknir, sem tæplega yrðu unnar nema á háskólastofnunum og gjarnan í samvinnu við sérhæfðar erlendar stofnanir. Áður en niðurstaða skýrslunnar var birt hafði stefndi, Umhverfisstofnun, gefið út hið umdeilda starfsleyfi. Þá hefur Matvælastofnun andmælt ályktun skýrsluhöfunda og telur að enn hafi ekkert komið fram sem gefi til kynna að samhengi sé á milli veikinda hrossanna á Kúludalsá og hugsanlegrar flúormengunar frá álverinu á Grundartanga. Þvert á móti sé það mat stofnunarinnar að veikindi hrossanna megi rekja til efnaskiptaröskunar í hrossunum sem orsakist fyrst og fremst af offitu og hreyfingarleysi.

Stefndi, Norðurál, sótti um nýtt starfsleyfi þar sem áform voru um meiri framleiðslu með straumhækkun. Starfsleyfistillaga var auglýst á tímabilinu 25. ágúst til 20. október 2015. Kynningarfundur var haldinn 31. ágúst sama ár í Fannahlíð, Hvalfjarðarsveit. Sjö umsagnir bárust um tillöguna, meðal annars frá stefnanda og vann stefndi, Umhverfisstofnun úr þeim umsögnum.

Hinn 16. desember 2015 gaf stefndi, Umhverfisstofnun, út nýtt starfsleyfi fyrir Norðurál Grundartanga ehf., til að framleiða allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs. Starfsleyfið er byggt á skilyrðum 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sem sett er með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Stefndi, Norðurál, kveður að á árinu 2015 hafi verið framleidd tæplega 312.000 tonn af áli í álveri stefnda. Framleiðsluaukningin fer fram án þess að fjölga kerum og felur ekki í sér stækkun á núverandi kerskálum. Starfsemi stefnda á svæðinu sé í samræmi við gildandi Aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 og uppfært deiliskipulag lóðar stefnda á Grundartanga.

Hinn 7. mars 2016 var kallað eftir upplýsingum frá stefnda, Umhverfisstofnun, um skýringar á því hvernig á því stæði að umrætt starfsleyfi væri umfram það hámark sem kveðið er á um í gildandi sérlögum um álverið nr. 85/2003. Svar stofnunarinnar er dagsett 15. mars 2016. Þar segir að það sé mat Umhverfisstofnunar að ákvæði laga nr. 62/1997 með síðari breytingum nái ekki yfir stjórnsýslu Umhverfisstofnunar við útgáfu starfsleyfis fyrir mengandi starfsemi.

Hinn 26. maí 2016 gekk úrskurður í úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var þar staðfest ákvörðun Skipulagsstofnunar 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Auk þess mun úrskurðarnefndin hafa tvær kærur til meðferðar vegna útgáfu stefnda Umhverfisstofnunar á starfsleyfi fyrir meðstefnda 16. desember 2015, aðra frá stefnanda og hina frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð.

II

Stefnandi telur að stefndi, Umhverfisstofnun, hafi tekið stjórnvaldsákvörðun um veitingu starfsleyfis sem sé ólögmæt.

Í fyrsta lagi vísar stefnandi til lögmætisreglunnar og telur að starfsleyfið frá 16. desember 2015 sem heimilar framleiðslu á 350.000 tonnum af áli á ári sé ólögmætt þar sem í 2. gr. laga nr. 62/1997 komi fram að framleiðslugeta álversins skuli vera allt að 300.000 tonnum af áli á ári. Starfsleyfið kveði því á um framleiðslu á 50.000 tonnum af áli umfram það sem heimilt sé samkvæmt sérlögum þeim sem um þetta álver gildi.

Stefnandi telur ljóst að lögbundnar samningsheimildir hins opinbera séu takmarkaðar við framangreint framleiðsluhámark, þ.e. 300.000 tonn. Það sé einnig sameiginlegur skilningur íslenska ríkisins og upprunalegs viðsemjanda þess, Norðuráls hf., að lög nr. 62/1997 hafi heimilað byggingu álbræðslunnar og sett um byggingu hennar og starfsemi tilteknar reglur. Enginn samningur um framleiðslu að 350.000 tonnum hafi verið gerður á milli þessara aðila og því ljóst að íslenska ríkið hafi ekki nýtt sér þá samningsheimild sem lögin kveði á um. Þannig komi þetta heimilaða hámark hvergi fram í gerðum samningum heldur aðeins fyrri takmarkanir.

Í annan stað sé ljóst að stjórnvaldið hafi ekki kannað að fullu þau umhverfisáhrif sem fyrirhuguð aukning á framleiðslugetu verksmiðju stefnda, Norðuráls, muni hafa á umhverfið. Brjóti það gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar.

Stefndi, Umhverfisstofnun, sé upplýst um rannsókn Jakobs Kristinssonar prófessors emerítus og Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis sem unnin sé að beiðni Atvinnuvegaráðuneytisins á óvenjulegum veikindum í hrossum á Kúludalsá. Stefndi, Umhverfisstofnun, láti hins vegar hjá líða við ákvörðunartöku sína að gefa niðurstöðum þeirra gaum. Þrátt fyrir að rannsóknir og niðurstöður þeirra hafi mikla þýðingu lét stefndi, Umhverfisstofnun, hjá líða að afla sér þeirra og rannsaka þær áður en sú ákvörðun um starfsleyfi, sem mál þetta taki til, hafi verið tekin. Þar með hafi stofnunin brotið gegn þeirri rannsóknarskyldu sem á henni hvíli. Sé ákvörðun hennar strax af þeirri ástæðu ólögmæt og sé krafist dóms þar um.

Stefnandi vísar til bréfs frá 6. apríl 2009 er hún sendi til stefndu, Norðuráls og Umhverfisstofnunar. Tilkynnti hún að áður óþekkt veikindi í hrossum hefðu gert vart við sig á bænum en báðum stefndu hafi verið kunnugt um það þar sem áður hafi verið gerð rannsókn á sýnum úr beinum hrossanna. Jafnframt tilkynnti hún að fimm hross hefðu veikst alvarlega og að flest benti til að hér væri um að ræða „bráða flúoreitrun sem staðið hafi yfir tímabundið og náð að trufla líkamsstarfsemi hrossanna“. Hafi hún farið fram á opinn fund með stefndu. Í svari Norðuráls frá 16. apríl 2009 kom fram að stefndi, Norðurál, myndi fara yfir þessi mál með stefnda, Umhverfisstofnun, en að svo stöddu sæju þeir ekki tilefni til að halda opinn fund. Stefnandi kveður að ekkert svar hafi borist frá stefnda, Umhverfisstofnun, og verði sú háttsemi stefnda, Umhverfisstofnunar, að teljast andstæð venjubundnum stjórnsýsluháttum og sér í lagi vera brot gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þar sem stefndi, Umhverfisstofnun, hafði ekki einu sinni fyrir því að svara framangreindu bréfi og þ.a.l. ekki að rannsaka efni þess, né taka til þess afstöðu sem svo síðar væri hægt að andmæla.

Þá telur stefnandi að hafa beri í huga við mat á rannsóknarskyldu stjórnvaldsins þær ríku kröfur sem til þess séu gerðar í lögum, m.a. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sér í lagi 5. gr. a, 6. gr. og 6. gr. b, auk markmiðs laganna sem komi fram í 1. gr. þeirra. Þá verði einnig að líta til reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun, og þeirrar ríku skyldu sem þar sé gerð til stjórnvaldsins við veitingu leyfa sem þeirra sem mál þetta taki til. Þeim markmiðum um takmörkun á mengun, bestu mögulegu mengunarvarnir, mælingar á mengun og þar fram eftir götum verði vart náð ef ekki eru rannsökuð ógnvekjandi og kvalarfull veikindi hrossa sem rakin séu til mengunar frá þeirri starfsemi sem veitt sé leyfi fyrir. Engin fullnægjandi rannsókn geti talist hafa farið fram án þess að umfang, ástæður og afleiðingar þeirrar mengunar liggi fyrir.

Allt leiði þetta til þess að aukin ástæða sé til að rannsaka umhverfisáhrif þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem krafist sé ógildingar á í máli þessu. Ekki hafi verið beðið niðurstöðu rannsóknar á vegum atvinnuvegaráðuneytis á óvenjulegum veikindum hrossa á Kúludalsá áður en ákvörðunin hafi verið tekin. Sé það sér í lagi ámælisvert þar sem frumathuganir þeirrar rannsóknar sýni verulega flúormengun og að hún hafi mikil og skaðlega áhrif á náttúru og heilsu dýra. Þá hafi lífríki sjávar ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti. Allt þetta brjóti gegn framangreindri rannsóknarreglu. Í því samhengi sé á það bent að það sé sérstök skylda stjórnvalda við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana, sem áhrif hafi á náttúruna, að taka mið af þeim meginreglum og sjónarmiðum með varúð og byggja ákvörðun sína á vísindalegum grundvelli. Sé í því samhengi einnig byggt á 7., 8. og 9. gr. laga nr. 60/2013. Strax af þeirri ástæðu beri að ógilda umrætt starfsleyfi.

Í þriðja lagi sé byggt á því að stefnandi hafi ekki fengið fullnægjandi tækifæri til að andmæla fyrirhugaðri stjórnvaldsákvörðun áður en hún hafi verið tekin.

Í fjórða lagi telur stefnandi að þær aðgerðir stefnda, Umhverfisstofnunar, að virða að vettugi það hámark sem kveðið sé á um í 2. gr. laga nr. 62/1997 og veita stefnda, Norðuráli, umframheimildir í starfsleyfi fari gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

III

Í upphafi greinargerðar sinnar getur stefndi, Norðurál, þess að hann hafi ekki staðið að útgáfu starfsleyfis fyrir álverið á Grundartanga og sjái þar með ekki á hvaða grundvelli krafa um ógildingu sé höfð uppi gagnvart honum. Hann krefst þó sýknu. Eiga stefndu í málinu samstöðu og verða málsástæður þeirra reifaðar saman í þessum kafla, samanber til hliðsjónar e-lið 114. gr. laga um meðferð einkamála með síðari breytingu.

Stefndu byggja á því að útgáfa starfsleyfis Norðuráls dags. 16. desember 2015 hafi verið lögmæt og tekin í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerða er gildi um útgáfu starfsleyfa.

Bent er á að samkvæmt nýja starfsleyfinu sé ekki heimild fyrir aukinni losun flúors frá starfseminni frá því sem var í fyrra starfsleyfi, þrátt fyrir heimild til þess að auka framleiðsluna. Fyrirhuguð framleiðsluaukning byggi á straumhækkun og tæknibreytingum. Ekki sé um að ræða fjölgun kera eða stækkun kerskála.

Samkvæmt gr. 3.9 í hinu nýja starfsleyfi gilda eftirfarandi losunarmörk fyrir heildarlosun flúors:

Ársframleiðsla undir 320.000 tonn – ársmeðaltal (kg/tonn Al) = 0,47

Ársframleiðsla undir 320.000 tonn – mánaðarmeðaltal (kg/tonn/Al) = 0,70

Ársframleiðsla yfir 320.000 tonn – ársmeðaltal (kg/tonn Al) = 0,43

Ársframleiðsla yfir 320.000 tonn – mánaðarmeðaltal (kg/tonn/Al) = 0,70

Í gr. 2.1.6 í hinu eldra starfsleyfi voru losunarmörkin eftirfarandi (sjá dómskjal nr. 4):

Ársframleiðsla undir 180.000 tonn – ársmeðaltal (kg/tonn Al) = 0,6

Ársframleiðsla undir 180.000 tonn – skammtímameðaltal (kg/tonn/Al) = 0,8

Ársframleiðsla yfir 180.000 tonn – ársmeðaltal (kg/tonn Al) = 0,5

Ársframleiðsla yfir 180.000 tonn – skammtímameðaltal (kg/tonn/Al) = 0,8

Samkvæmt hinu nýja starfsleyfi hefur heimild til losunar fyrir hvert tonn lækkað til samræmis við framleiðsluaukninguna. Ljóst sé því að heimild rekstraraðila til heildarlosunar á flúor hefur ekki aukist með nýju starfsleyfi þrátt fyrir að heimild sé til 50.000 tonna framleiðsluaukningar þar sem kröfur til losunar á hvert tonn hafa verið hertar.

                Í annan stað mótmæla stefndu því að veiting nýs starfsleyfis 16. desember 2015 hafi verið í ósamræmi við lög, þar sem heimild hafi verið veitt til að auka umfang starfseminnar umfram það sem kemur fram í 2. gr. laga nr. 62/1997. Stefndu leggja áherslu á að starfsleyfið sé veitt samkvæmt reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Komi þetta skýrt fram í gr. 6 í starfsleyfinu.

Lög nr. 62/1997 séu svokölluð heimildarlög. Þau veiti ráðherra heimild til að gera samninga vegna ákveðins verkefnis, það er álvers á Grundartanga. Í 2. gr. laga nr. 62/1997 sé að finna almenna lýsingu á verkefninu, þar sem kveðið sé á um framleiðslugetu álversins. Stefndu byggja á því að ekki beri að líta á þessi lög sem grundvöll starfsleyfis eða bindandi ramma um starfsemi álversins. Starfsemi álversins sé heimil samkvæmt almennum lögum. Ekki þurfi sérlög til þess að halda úti slíkri starfsemi en slík starfsemi þarf hins vegar starfsleyfi. Um starfsleyfi gilda almenn lög, einkum lög nr. 7/1998. Mat á því hvort skilyrði laganna um útgáfu starfleyfis séu uppfyllt sé á forræði stefndu, Umhverfisstofnunar, en ekki Alþingis.

Þá vísa stefndu í s-lið gr. 1.1 í fjárfestingarsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og Columbia Ventures Corporation og Norðuráls hf. en þar er starfsleyfi skilgreint sem leyfi sem Norðuráli hf. verði veitt samkvæmt lögum sem gildi um umhverfiseftirlit að því er varðar starfrækslu álbræðslunnar og hafnarmannvirkjanna og hvers kyns endurnýjun og framlengingu þess. Samkvæmt 5. gr. samningsins skal álbræðslan rekin í samræmi við starfsleyfi sem gefið er út til félagsins af umhverfisráðherra samkvæmt lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit (sjá nú lög nr. 7/1998) og tilheyrandi reglugerð. Sé því ljóst af fjárfestingarsamningnum að útgáfa starfsleyfis til starfseminnar sé ótengd heimildarlögunum.

Stefndu telja að 2. gr. laga nr. 62/1997 hafi ekki staðið í vegi fyrir því að stefndi, Umhverfisstofnun, gæti veitt starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998 umfram 300.000 tonn. Starfsleyfi sem gefin séu út af stofnuninni snúa að hollustuháttum og mengunarvörnum en ekki þeim atriðum sem lög nr. 62/1997 fjalla um.

Stefndu leggja áherslu á að ákvæði 2. gr. laga nr. 62/1997 hafi verið breytt með lögum nr. 85/2003 um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum. Var hámarksframleiðslugeta færð úr 180.000 tonnum í 300.000 tonn. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2003 er rakin uppbygging og starfsemi álvers Norðuráls á Grundartanga. Kemur þar fram að með lögum nr. 62/1997 hafi ráðherra verið veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnar um byggingu álvers á Grundartanga og hafi samningar þess efnis verið undirritaðir 7. ágúst 1997. Hafi þá legið fyrir mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi fyrir allt að 180.000 tonna álveri á Grundartanga Þá komi fram í athugasemdum með frumvarpinu að búið hafi verið að meta umhverfisáhrif og gefa út starfsleyfi fyrir stækkun í allt að 300.000 tonn áður en lögunum var breytt. Af frumvarpinu verði séð að starfsleyfið komi á undan og skilgreiningu í lögum verði breytt í kjölfarið.

Að þessu virtu telja stefndu að sýkna beri þá af aðalkröfu stefnanda þar sem útgáfa á starfsleyfi til handa Norðuráli sé ekki bundin af ákvæðum laga nr. 62/1997 eða fjárfestingasamningsins heldur ákvæðum laga nr. 7/1998 og reglugerða. Núgildandi starfsleyfi hafi verið gefið út með lögmætum hætti í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun.

                Í þriðja lagi sé því hafnað að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum rannsóknarregla 10. gr., hafi verið brotnar við veitingu starfsleyfisins í desember 2015. Stefndu leggja áherslu á að ekki hafi verið sýnt fram á tengsl á milli losunar flúors frá starfseminni á Grundartanga og veikinda í hrossum stefnanda. Stefnandi slær því hins vegar föstu að veikindi hrossanna á Kúludalsá megi rekja til flúormengunar. Sé því mótmælt sem ósönnuðu.

                Þá hafnar stefndi, Norðurál, því að slys og bilanir í starfsemi hans á Grundatanga hinn 24. ágúst 2006, er rafmagn fór af einu hreinsivirkja í 20 klst., hafi valdið aukinni mengun og sér í lagi vanheilsu dýra.

Stefndu benda á að niðurstöður rannsóknar Jakobs og Sigurðar hafi ekki legið fyrir fyrr en í júní 2016 eða rúmu hálfu ári eftir að starfsleyfið var veitt. Starfsleyfið var veitt á grundvelli fyrirliggjandi gagna, afdráttarlausra álita dýralækna og Matvælastofnunar um að veikindi hrossanna mætti ekki rekja til flúormengunar. Engin álit bentu í aðra átt. Starfsleyfið var því veitt. Leit stofnunin svo á að yrðu niðurstöður rannsóknar Jakobs og Sigurðar á annan veg yrði metið hvort þörf yrði á viðbótarvöktun eða hvort gripið yrði til annarra ráðstafana rétt eins og þegar nýjar upplýsingar koma fram sem gefa tilefni til viðbragða af hálfu stefnda, Umhverfisstofnunar, sbr. til dæmis gr. 1.6 í starfsleyfi. Niðurstöður rannsóknarinnar lágu ekki fyrir fyrr en 14. júní 2016 og hefur stefndi Umhverfisstofnun skýrsluna til skoðunar.

Stefndu leggja áherslu á að stofnunin hafi fjallað ítarlega um möguleg áhrif flúors á búfé í samræmi við athugasemdir sem bárust við starfsleyfisgerðina og höfðu borist fyrir þann tíma. Var rannsókn stofnunarinnar afar ítarleg og því fer fjarri að rannsóknarskyldan hafi verið brotin.

Stefndi, Umhverfisstofnun, hefur þekkingu á mengandi starfsemi og ber ábyrgð á samþykkt vöktunaráætlunar, yfirferð gagna um losun mengunarefna og eftirliti með starfseminni. Stofnunin leitar einnig eftir samvinnu við Matvælastofnun þegar þörf er á sérfræðiþekkingu vegna dýraheilbrigðis, en sú stofnun hefur forræði á málum er lúta að velferð dýra, sbr. lög nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Var sérstaklega óskað eftir áliti Matvælastofnunar vegna þessa máls og var það niðurstaða Matvælastofnunar að veikindi hrossanna á Kúludalsá væru ekki vegna flúormengunar.

Stefndu byggja á því að á Grundartangasvæðinu hafi hvorki flúortölur í grasi né loftgæðamælingar mælst yfir viðmiðunarmörkum flúors. Hingað til hafi ekki komið fram mælingar eða vísbendingar um umtalsverða flúormengun sem gefi til kynna álag vegna mengunar. Svæðið sé hins vegar vaktað, vöktunaráætlun á Grundartangasvæðinu sé endurskoðuð reglulega og slík endurskoðun standi nú yfir en heimild sé til endurskoðunar starfsleyfisins komi fram mælingar um að viðmiðum starfsleyfisins sé ekki fullnægt.

Varðandi rannsókn stefnda, Umhverfisstofnunar, þá hafði stofnunin undir höndum ítarleg gögn frá Matvælastofnun um rannsóknir sem gerðar höfðu verið á hrossum við Kúludalsá. Einnig var aflað annarra gagna við vinnslu starfsleyfisumsóknar Norðuráls og teljast þau því hluti af þeirri rannsókn sem stofnunin byggði á þegar ákvörðun var tekin um útgáfu starfsleyfis.

                Stefndi, Umhverfisstofnun, tekur sérstaklega fram að hann hafi svarað bréfi stefnanda 6. apríl 2009 með bréfi 19. maí 2011 því sé ekki um brot á rannsóknarreglu að ræða svo sem stefnandi heldur fram. Vinna vegna kvörtunar stefnanda hófst því strax í apríl 2009 en stefndu telja málið flókið og snúa að fleiri stofnunum en stefnda, Umhverfisstofnun. Stefndu benda á að fara hafi þurft í gegnum vöktunarskýrslur, eftirlitsskýrslur, mæliskýrslur og önnur gögn sem voru til hjá stofnuninni. Þá hafi stefnandi fengið með svarbréfi afrit af bréfi Matvælastofnunar vegna málsins.

                Þá hafi fleiri bréfaskipti farið fram en stefnda, Umhverfisstofnun, hafi hinn 16. ágúst 2011 borist ódagsett bréf stefnanda þar sem óskað er eftir frekari rannsóknum vegna mengunar frá iðjuverum á Grundartanga. Í kjölfarið skoðuðu Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir Tilraunastöðvar HÍ á Keldum, hross á Kúludalsá í Hvalfirði. Fór skoðunin fram 22. ágúst 2011. Meginniðurstöður voru þær að hrossin væru flest með töluverða og upp í mikla staðbundna fitusöfnun í makka sem er þekktur áhættuþáttur fyrir efnaskiptaröskun í hrossum (EMS) sem að mörgu leyti líkist sykursýki 2 í mönnum. Mörg þessara hrossa voru með einhver einkenni hófsperru, sum aðeins væg en önnur með krónískar breytingar. Engin önnur sjúkdómseinkenni sáust á hrossunum. Stefndu benda á að efnaskiptaröskun í hrossum (EMS) auki mjög hættuna á að hross fái hófsperru og hafi það samhengi komið vel í ljós við skoðun á hrossunum á Kúludalsá. Þau sjúkdómseinkenni sem hrossin hafi sýnt megi að mestu leyti rekja til langvinnrar hófsperru sem virtist hafa þjakað mörg hrossanna um lengri eða skemmri tíma.

Þá liggja fyrir fleiri bréfaskipti milli málsaðila. Einnig liggur fyrir afrit af bréfi Matvælastofnunar til stefnanda 19. mars 2012. Í bréfinu er farið yfir grun um eitrun í hrossum af völdum flúors og/eða þungmálma og niðurstöður úr rannsókn Matvælastofnunar, skoðun á líffærum og leggjum/hófum, mælingum á flúor í beinvef og öðrum þungmálmum í lifur. Sé greint frá því að niðurstöður þessara rannsókna gefi engar vísbendingar um að hrossin á Kúludalsá hafi orðið fyrir eitrun af völdum flúors eða þungmálma. Veikindi hrossanna megi rekja til efnaskiptaröskunar (EMS) og krónískrar hófsperru af þeim sökum.

                Þá hafi stefndi, Umhverfisstofnun, sent umhverfisráðuneytinu greinargerð í kjölfar fyrirspurnar ráðuneytisins. Var afrit sent til stefnanda. Stofnunin upplýsti ráðuneytið um gang mála er varðaði starfsleyfi, eftirlit og umhverfisvöktun við álverið á Grundartanga. Í greinargerðinni sé meðal annars mælt fyrir um undirbúningsvinnu að frekari rannsóknum á áhrifum flúors á grasbíta. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið sendi fyrirspurn til stofnunarinnar um stöðu rannsóknarinnar 6. desember 2013. Í svarbréfi 9. janúar 2014 kemur fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi skipað sérfræðinga til að yfirfara gögn um veikindi hrossa í nágrenni Grundartanga.

Haustið 2014 sendi stefndi, Umhverfisstofnun, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fyrirspurn um stöðu rannsóknarinnar. Ráðuneytið svaraði stofnuninni 10. október 2014 og er í bréfinu rakið að rannsókninni sé ekki lokið, beðið sé eftir efnagreiningum og stofnunin verði upplýst um niðurstöður þegar þær liggi fyrir. Rúmu ári síðar lágu niðurstöður rannsóknarinnar ekki fyrir og stefndu vissu ekki hvenær það yrði. Var starfsleyfið gefið út enda lágu fyrir rannsóknir fjölmargra annarra sérfræðinga, sem allir voru sammála um að veikindi hrossanna væri ekki að rekja til flúormengunar. Stefndi, Umhverfisstofnun, miðaði við fyrirliggjandi gögn og afdráttarlaus álit dýralækna og Matvælastofnunar. Rannsóknir starfsmanna Matvælastofnunar og Tilraunastöðvar HÍ á Keldum gáfu ekki tilefni til að ætla að veikindi hrossanna á Kúludalsá væru með nokkrum hætti tengd við starfsemi álversins. Rannsókn stefndu, Umhverfisstofnunar, var ítarleg eins og rakið hefur verið og er því hafnað að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin.

Stefndu byggja á því að niðurstaða áfangaskýrslu Jakobs Kristinssonar og Sigurðar Sigurðarsonar um veikindi hrossa á Kúludalsá, sem birt var 14. júní 2016, sé ekki afgerandi. Vísað var til vinnu þessara aðila í stefnu. Ljóst sé að skýrsluhöfundar telji líklegt að veikindi hrossanna á Kúludalsá megi rekja til flúormengunar, hins vegar þurfi ítarlegri og víðtækari rannsóknir að fara fram svo því verði slegið föstu.

Stefndu benda á að Matvælastofnun hafi tjáð sig opinberlega um niðurstöður skýrslunnar. Hefur stofnunin lýst því yfir að skýrsluhöfundar séu sammála áliti Matvælastofnunar um að veikindi hrossa á Kúludalsá megi rekja til efnaskiptaröskunar (EMS) eða „insulin resistence“ (IR). Stofnunin andmælir hins vegar ályktun skýrsluhöfunda um að nánast sé útilokað að rekja megi veikindi hrossanna á Kúludalsá til offóðrunar eða rangrar meðferðar og að orsök EMS/IR í hrossunum á Kúludalsá megi líklega rekja til flúormengunar.

                Í fjórða lagi mótmæla stefndu því að andmælaréttur stefnanda hafi ekki verið virtur þar sem hún hafi ekki fengið fullnægjandi tækifæri til að andmæla fyrirhugaðri stjórnvaldsákvörðun áður en hún var tekin. Tillaga að starfsleyfi stefnda var auglýst á tímabilinu 25. ágúst 2015 til 20. október sama ár. Kynningarfundur var haldinn 31. ágúst 2015 í Fannahlíð, Hvalfjarðarsveit. Sjö umsagnir bárust um tillöguna, þar með talið frá stefnanda. Ljóst sé því að stefnanda var kunnugt um undirbúning starfsleyfisins og kom andmælum sínum að.

Þá mótmæla stefndu fullyrðingum í stefnu um að veiting starfsleyfis vegna starfsemi stefnda hafi farið gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Þessi málsástæða stefnanda er að mati stefndu vanreifuð.

Með vísan til alls sem fyrr er rakið er málsástæðum stefnanda og kröfum á þeim reistum mótmælt. Hefur hvorki verið sýnt fram á neitt er leitt geti til þess að ógilda eigi starfsleyfi meðstefnda 16. desember 2015 né að stefnda, Norðuráli, sé óheimilt að framleiða árlega meira en 300.000 tonn af áli í verksmiðju sinni að Grundartanga. Verður því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

IV

Í málinu krefst stefnandi þess aðallega, að ógilt verði með dómi starfsleyfi Norðuráls Grundartanga ehf. dagsett 16. desember 2015. Til vara er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Norðuráli Grundartanga ehf., sé óheimilt að framleiða árlega meira en 300.000 tonn af áli í verksmiðju sinni að Grundartanga.

Stefndi, Umhverfisstofnun, gaf út starfsleyfi fyrir stefnda, Norðurál 16. desember 2015 þar sem stefnda var heimilt að framleiða í kerskálum álversins allt að 350.000 tonnum á ári af áli. Starfsleyfi stefnda frá 16. desember 2015 er veitt samkvæmt reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. lög nr. 7/1988 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar sem lög nr. 62/1997 um samninga um álbræðslu á Grundartanga gera einungis ráð fyrir 300.000 tonna framleiðslu á ári af áli, þá telur stefnandi að starfsleyfið sé ógilt. Stefnandi telur að á rekist sérlög, þ.e. lög nr. 62/1997 og almenn lög nr. 7/1988, auk þess sem sett lög gangi framar ákvörðunum stjórnsýslunnar.

Samkvæmt 5. gr. a laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, skal allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. og 6. gr. sömu laga. Umhverfisstofnun skal gefa út starfsleyfið. Í 5. gr. laga nr. 7/1998 er heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd mengunarvarna. Ákvæðið er mjög ítarlegt og tilgreinir í nítján liðum atriði sem reglugerðin á að taka til. Reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengum, er sömuleiðis mjög ítarleg.

Hið umdeilda starfsleyfi frá 16. desember 2015 er einnig ítarlegt. Í gr. 1.2 er heimild til að framleiða í kerskálum álversins allt að 350.000 tonnum af áli. Samkvæmt gr. 1.6 skal endurskoða starfsleyfið að jafnaði á fjögurra ára fresti, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Breytist forsendur skal einnig endurskoða starfsleyfið. Sérstaklega er nefnt í gr. 1.6 í starfsleyfinu, að endurskoða eigi starfsleyfið ef mengun af völdum rekstrarins sé meiri en búast megi við þegar starfsleyfið var gefið út eða ef vart verður við mengun sem ekki var gert ráð fyrir við útgáfu leyfisins. Í gr. 3.9 í starfsleyfinu er kveðið á um losunarmörk sem tengjast heildarframleiðslu. Er þar miðað við að heildarlosun flúors í útblásturslofti, þegar ársframleiðslan sé yfir 320.000 tonnum, sé 0,43 kg/tonn af áli í ársmeðaltali, en 0,47 kg/tonn af áli í ársmeðaltali sé framleiðslan undir 320.000 tonnum á ári. Stefndi, Norðurál, upplýsti fyrir dómi að framleiðslan væri um 312.000 tonn, það er þá 146.640 kg af flúori út í andrúmsloftið (312.000 tonn x 0,47 kg/tonn). Samkvæmt eldra starfsleyfinu var miðað við að heildarflúoríð í útblásturslofti skyldi vera 0,5 kg/tonn af áli, miðað við framleiðslu umfram 180.000 tonn á ári. Sé miðað við 300.000 tonna framleiðslu, eins og starfsleyfið gerir ráð fyrir, fara 150.000 kg af flúori út í andrúmsloftið (300.000 tonn x 0,5 kg/tonn). Því verður að telja að nýja starfsleyfið frá 16. desember 2015 hafi ekki heimilað meiri flúormengun, eins og framleiðslan er nú, en eldra starfsleyfið gerði ráð fyrir. Aukist framleiðslan þannig að mengunin fari fram úr heimildinni samkvæmt starfsleyfinu ber stefnda, Umhverfisstofnun, að bregðast við því samanber 2. mgr. 5. gr. a í lögum nr. 7/1988 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 21. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun,

Af 5. gr. fjárfestingarsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Columbia Ventures Corporation og Norðuráls hf. er ljóst að útgáfa starfsleyfis til starfsemi stefnda er ótengd heimildarlögunum nr. 62/1997. Starfsleyfi samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 er og hefur verið gefið út án tillits til ákvæða laga nr. 62/1997 og hefur lagaheimildar samkvæmt lögum nr. 62/1997 verið aflað eftir að starfsleyfið hefur verið gefið út. Sem dæmi má nefna að upphaflegt starfsleyfi til stefnda um álver með framleiðslugetu upp á 180.000 þúsund tonna ársframleiðslugetu var gefið út 26. mars 1997, en frumvarp til laga nr. 62/1997 var samþykkt 16. maí 1997 og tóku lögin gildi 30. maí 1997. Sama ferli átti sér stað þegar ársframleiðslugetan hjá Norðuráli fór í 300.000 tonn. Starfsleyfið var gefið út 24. febrúar 2003 en frumvarpið til breytingarlaga nr. 85/2003 var samþykkt á Alþingi 13. mars 2003 og tók gildi 10. apríl 2003. Þótt Alþingi hafi ekki enn samþykkt breytingu á lögum nr. 62/1997 til samræmis við starfsleyfið verður það ekki talið valda ógildi starfsleyfisins.

Að þessu virtu er ekki fallist á þau sjónarmið stefnanda að það þurfi að ákvarða heimilaða álframleiðslu í lögum nr. 62/1997 áður en starfsleyfið er gefið út.

Þá byggir stefnandi á því að ekki hafi verið gætt að formreglum stjórnsýsluréttar við ákvörðun stefnda, Umhverfisstofnunar, um útgáfu starfsleyfis til stefnda, Norðuráls, 16. desember 2015.

Stefnandi telur að stefnda, Umhverfisstofnun, hafi borið að fara eftir 10. gr. stjórnsýslulaga við ákvörðunina. Í stefnu er að finna almenna umfjöllun um að starfsemi stefnda, Norðuráls, valdi mengun sem skaðar bæði lífríki, möguleika til búskapar, framleiðslu hreinna landbúnaðarafurða og lífsgæða íbúanna. Við aðalmeðferð málsins tilgreinir stefnandi þó tvö atriði varðandi það að fullnægjandi rannsókn hafi ekki farið fram. Það er annars vegar að með starfsleyfinu frá 16. desember 2015 hafi verið auknar heimildir um 500 kg á ári. Samkvæmt eldra starfsleyfinu var miðað við 300.000 tonna framleiðslu og 0,5 kg/t af flúormengun eða 150.000 kg af flúori út í andrúmsloftið á ári. Samkvæmt hinu umdeilda leyfi sé heimilt að framleiða 350.000 tonn á ári og heildarflúoríð sem heimilt sé að losa út í andrúmsloftið að ársmeðaltali sé 0,43 kg/t. Því sé heimilt að losa að meðaltali 150.500 kg af flúori út í andrúmsloftið á ári. Með starfsleyfinu frá 16. desember 2016 séu því auknar heimildir flúormengunar um 500 kg á ári.

Stefndu, íslenska ríkið og Umhverfisstofnun, mótmælta málsástæðu þessari sem of seint fram kominni. Stefnandi taldi að hennar væri getið í stefnu. Um er að ræða einfalda margföldun á tölum sem getið er í framlögðum starfsleyfum. Með þessu er stefnandi að rökstyðja frekar málsástæðu sem fram kemur í stefnu um að aukin mengun fylgi nýja starfsleyfinu. Því er ekki fallist á að um nýja málsástæðu sé að ræða. Hins vegar, með vísan til þess sem að framan greinir, er ekki fallist á, miðað við núverandi framleiðslu, að nýja starfsleyfið veiti auknar heimildir til flúormengunar.

Í annan stað byggir stefnandi á því að það hafi verið sérstakt tilefni til rannsóknar vegna þeirrar staðreyndar að fjöldi hrossa á Kúludalsá hafði veikst á undanförnum árum og ekki hafi verið unnt að útiloka að veikindin mætti rekja til flúormengunar. Á sama tíma og ákvörðun var tekin um starfsleyfið hafi verið unnið að rannsókn á veikindum hrossanna. Því hafi ekki verið fullnægt skilyrðum 10. gr. stjórnsýslulaga.

Gögn málsins bera það með sér að víðtæk rannsókn hafi farið fram á ætluðum áhrifum flúors á umhverfi og hafði Umhverfisráðuneytið samþykkt umhverfisvöktunaráætlun á Grundartanga. Í niðurstöðu skýrslu árið 2014 kemur fram að í öllum tilvikum séu viðmiðunarmörk uppfyllt sem sett voru í starfsleyfum og reglugerðum fyrir loftgæði, ferskvatn, sjó og hey. Sama niðurstaða hafi verið vegna ársins 2015 að því er varðaði stefnda, Norðurál.

Með bréfi stefnanda frá 6. apríl 2009 til stefndu var formlega tilkynnt um veikindi hrossa í grennd við athafnasvæði stefnda, Norðuráls á Grundartanga. Taldi stefnandi að veikindin væru af völdum flúors í umhverfi hrossanna. Bréfi þessu var ekki svarað fyrr en 19. maí 2011 og þar segir að ítarlega hafi verið farið í gegnum vöktunarskýrslur, eftirlitsskýrslur, mæliskýrslur og önnur gögn hjá stofnuninni. Tilgreint er að mæligildin hafi yfirleitt verið innan settra marka. Þá kom fram í bréfinu að um umfangsmikið mál væri að ræða og leitað væri umsagnar annarra stofnana. Með bréfinu fylgdi svar Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með dýrum. Þar kemur fram að þau einkenni er stefnandi lýsi samrýmist ekki þekktum einkennum vegna flúormengunar.

Í kjölfarið urðu bréfaskipti milli stefnanda og stefnda, Umhverfisstofnunar, þar sem stefnandi óskaði eftir frekari rannsókn. Í greinargerð dýralæknanna Sigríðar Björnsdóttur og Vilhjálms Svanssonar kemur fram að í upphafi veikindanna hafi Hildur Edda Þórarinsdóttir dýralæknir skoðað hrossin og talið að um væri að ræða svonefnda hófsperru. Þau Sigríður og Vilhjálmur skoðuð hrossin 22. ágúst 2011 og í niðurstöðu þeirra kemur fram að hrossin hafi flest verið með töluverða og upp í mikla staðbundna fitusöfnun í makka en það einkenni bendi til þess að röskun hafi orðið á efnaskiptum hrossanna sem að mörgu leyti líkist sykursýki 2 hjá mönnum (EMS). Þá hafi mörg þessara hrossa verið með einkenni hófsperru, sum væg en önnur með krónískar breytingar. Þá segir að engin önnur sjúkdómseinkenni hafi sést á hrossunum. Frekari bréfaskipti urðu milli stefnanda og stjórnvalda og fór meðal annars fram sérstök rannsókn á líffærum þriggja hrossa frá Kúludalsá sem slátrað var á Hvammstanga 24. júní 2011. Niðurstöður þeirra rannsókna voru að engar vísbendingar væru um að hrossin hefðu orðið fyrir eitrun af völdum flúors eða þungmálma. Þá bera gögn málsins það með sér að stefnandi hefur einnig snúið sér til ráðuneytis þess er Umhverfistofnun heyrir með fyrirspurnir og óskir um frekari rannsókn. Af því tilefni fól ráðuneytið dýralæknunum Jakobi Kristinssyni og Sigurði Sigurðarsyni að annast rannsókn á áhrifum losunar flúors frá iðjuverum á stóra og langlífa grasbíta. Töldu þeir líklegt að veikindi hrossanna mætti rekja til flúormengunar. Hins vegar kom fram í skýrslunni að til að fá örugga mynd þyrfti miklum mun ítarlegri, víðtækari og dýrari rannsóknir, sem tæplega yrðu unnar nema á háskólastofnunum og gjarnan í samvinnu við sérhæfðar erlendar stofnanir.

Matvælastofnun hefur gagnrýnt niðurstöður skýrslunnar og telur að þær ályktanir skýrsluhöfunda séu rangar og sé það mat starfsmanna stofnunarinnar að enn hafi ekkert komið fram sem gefi til kynna að samhengi sé á milli veikinda hrossanna á Kúludalsá og hugsanlegrar flúormengunar frá álverinu á Grundartanga. Þvert á móti sé það mat stofnunarinnar að veikindi hrossanna megi rekja til efnaskiptaröskunar í þeim sem orsakist fyrst og fremst af offitu og hreyfingarleysi. Áfangaskýrsla þeirra Jakobs og Sigurðar er frá júní 2016 eða sex mánuðum eftir að hið umdeilda starfsleyfi var gefið. Miðað við alla þá rannsókn sem fram hafði farið allt frá 2009 var ekki efni fyrir stefnda, Umhverfisstofnun, til að bíða með útgáfu starfsleyfis þar til niðurstöður Jakobs og Sigurðar lágu fyrir. Auk þess eru í starfsleyfinu ákvæði um breytingar á því komi nýjar upplýsingar fram. Er það í verkahring stefnda, Umhverfisstofnunar.

Þá er ósönnuð sú málsástæða stefnanda þess efnis að slys og bilanir í starfsemi Norðuráls á Grundartanga hafi valdið aukinni mengun og reynst skaðleg fyrir heilsu dýra.

Að öllu þessu virtu er því hafnað að málsmeðferð stefnda, Umhverfisstofnunar hafi verið í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

                Þá eru haldlausar þær málsástæður stefnanda að ekki hafi verið gætt að andmælarétti stefnanda sem og að starfsleyfið hafi verið í andstöðu við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, en þessara málsástæðna var í engu getið við munnlegan málflutning, þótt ekki hafi verið fallið frá þeim. Svo sem að framan greinir og gögn málsins bera með sér var stefnanda fullkunnugt um fyrirhugaða breytingu á starfsleyfinu og kom sjónarmiðum sínum að samanber greinargerð Umhverfisstofnunar vegna athugasemda á auglýsingatíma vegna starfsleyfistillögu fyrir Norðurál á Grundartanga ehf.

Þá var starfsleyfi stefnda gefið út í samræmi við lög nr. 7/1998 og settra reglugerða eftir þeim skilyrðum sem þar er kveðið á um. Reglugerð nr. 785/1999 var sett með hliðsjón af tl. 2g, 2ab og 16 XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun 96/61/EB, tilskipun 84/360/EBE og ákvörðun 96/511/EB). Því er vanreifað á hvern hátt starfsleyfið sé í andstöðu við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

                Með vísan til þess sem að framan greinir eru stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að fella niður málskostnað.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndu, íslenska ríkið, Umhverfisstofnun, og Norðurál Grundartanga ehf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Ragnheiðar Jónu Þorgrímsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.