Hæstiréttur íslands
Mál nr. 13/2014
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Stjórnvaldsákvörðun
- Andmælaréttur
- Endurupptaka
- Sératkvæði
Skaðabætur. Líkamstjón. Stjórnvaldsákvörðun. Andmælaréttur. Endurupptaka. Sératkvæði.
A höfðaði mál gegn V hf. og krafðist greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hún hafði hlotið í umferðarslysi. Ágreiningur aðila laut að því hvort unnt væri að byggja á álitsgerð örorkunefndar sem viðhlítandi sönnunargagni við ákvörðun bóta til A. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 giltu þegar örorkunefnd tæki afstöðu til örorku- eða miskastigs tjónþola. Viðbrögð V hf. við álitsgerð örorkunefndar höfðu verið að hafna henni þar sem nefndin hafði ekki gætt að rétti V hf. til að koma athugasemdum sínum fyrir matsfund. Á hinn bóginn hafði V hf. hafnað því, í óformlegum samskiptum við nefndina, að málið yrði í kjölfarið endurupptekið að beiðni A. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga hefði örorkunefnd borið að taka matsmálið formlega til meðferðar á ný um leið og henni barst beiðni A þar að lútandi. Þótt nefndin hefði ekki gert það, heldur leitað óformlega eftir afstöðu V hf. til erindis A, yrðu viðbrögð V hf. ekki skýrð á annan veg en þann að félagið hefði lagst gegn því að málið yrði endurupptekið þar sem nefndarmenn hefðu þá þegar myndað sér skoðun á málinu þannig að þeir væru vanhæfir til frekari meðferðar þess. Var talið að með þessari yfirlýsingu hefði V hf. firrt sig rétti til að koma að andmælum áður en örorkunefnd lagði endalegt mat á það hverjar hefðu verið varanlegar afleiðingar A af völdum slyssins. Voru A því dæmdar bætur í samræmi við kröfur hennar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram óskaði stefnda 12. október 2011, á grundvelli 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eftir mati örorkunefndar á varanlegum afleiðingum slyss sem hún varð fyrir 22. september 2007 á heilsufar sitt.
Samkvæmt 2. mgr. áðurnefndrar lagagreinar skipar ráðherra þrjá sérfróða menn í örorkunefnd og setur hann jafnframt reglugerð um starfsháttu nefndarinnar, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Nefndin telst því vera stjórnvald í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eftir þeirri málsgrein gilda þau lög þegar stjórnvöld taka einstakar ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, en eitt af einkennum slíkrar ákvörðunar er að hún hefur bindandi réttaráhrif fyrir þá sem henni er beint til jafnt og það stjórnvald er hana tók. Þótt í 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga sé vísað til álits örorkunefndar og í 4. mgr. til álitsgerðar hennar ræður það eitt og sér því ekki hvort 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga taki til nefndarinnar. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að skaðabótalögum, sagði meðal annars að niðurstaða örorkunefndar væri ekki bindandi, en gera mætti ráð fyrir að málsaðilar sættu sig yfirleitt við hana. Yndi aðili eða aðilar ekki niðurstöðunni yrði sá sem vildi fá henni breytt eða hrundið að leita til dómstóla. Með síðastgreindum orðum kom fram það viðhorf löggjafans að úrlausn örorkunefndar yrði ekki felld úr gildi eða breytt nema með atbeina dómstóla, en það á við um flestar þær ákvarðanir sem falla undir gildissvið stjórnsýslulaga og ekki verður skotið til æðri stjórnvalda. Samkvæmt athugasemdum er fylgdu frumvarpi til stjórnsýslulaga var tekið fram að vegna þess hve orðalag 1. gr. þeirra væri rúmt bæri í algjörum vafatilvikum að álykta á þann veg að lögin giltu um ákvarðanir stjórnvalda. Með skírskotun til alls þessa er litið svo á að ákvæði laganna gildi þegar örorkunefnd tekur afstöðu til örorku- eða miskastigs tjónþola, enda er full þörf á að veita aðilum að því stjórnsýslumáli sömu réttarstöðu og lögin gera.
Í 13. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um þá meginreglu að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því. Ennfremur segir í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 335/1993 um starfsháttu örorkunefndar, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 549/1996, að nefndin skuli kynna aðilum framkomna matsbeiðni og fylgigögn og gefa þeim kost á að koma skriflega á framfæri við nefndina gögnum og sjónarmiðum sínum varðandi matsmálið, innan hæfilegs frests. Þrátt fyrir þessi skýru fyrirmæli í lögum og reglugerð lét örorkunefnd undir höfuð leggjast að kynna áfrýjanda fyrrgreinda beiðni stefndu og gefa honum kost á að tjá sig um efni málsins, þar á meðal að koma á framfæri við nefndina gögnum og sjónarmiðum sínum það varðandi.
Með bréfi 3. febrúar 2012 krafðist stefnda bóta úr hendi áfrýjanda á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar 30. janúar 2012 og fékk áfrýjandi þá fyrst vitneskju um hana. Viðbrögð áfrýjanda voru þau að hafna álitsgerðinni þar sem örorkunefnd hefði ekki gætt að rétti hans til að koma að athugasemdum sínum fyrir matsfund, svo sem henni hefði borið skylda til. Af því tilefni fór stefnda þess á leit við nefndina með bréfi 12. mars 2012 að málið yrði endurupptekið. Í framhaldi af því mun nefndin hafa haft óformlegt samband við áfrýjanda og hann hafnað að koma athugasemdum sínum á framfæri við hana. Í tölvubréfi til áfrýjanda 15. sama mánaðar spurði lögmaður stefndu um ástæðuna fyrir þessari afstöðu. Í tölvubréfi 10. apríl 2012, sem undirritað var af löglærðum deildarstjóra hjá áfrýjanda, var afstaðan sögð sú „að brot á andmælarétti félagsins verði ekki leiðrétt með því að leyfa félaginu að koma að sínum athugasemdum eftir að nefndin hefur myndað sér skoðun í málinu.“ Svo fór að umrætt matsmál var ekki endurupptekið af örorkunefnd og stóð álitsgerð hennar því óbreytt.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort unnt sé að byggja á álitsgerð örorkunefndar sem viðhlítandi sönnunargagni við ákvörðun bóta til stefndu sökum þess að nefndin hafi sem áður greinir brugðist þeirri skyldu sinni að gæta að andmælarétti áfrýjanda. Fallist er á með honum að samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga hafi nefndinni borið að taka matsmálið formlega til meðferðar á ný um leið og henni barst bréf stefndu 3. febrúar 2012. Þótt nefndin hafi ekki gert það, heldur leitað óformlega eftir afstöðu áfrýjanda til erindis stefndu, verða viðbrögð hans ekki skýrð á annan veg en þann að hann hafi lagst gegn því að málið yrði endurupptekið þar sem nefndarmenn hefðu þá þegar myndað sér skoðun á málinu þannig að þeir væru vanhæfir til frekari meðferðar þess. Sú afstaða er ekki í samræmi við réttarframkvæmd hér á landi þar sem litið hefur verið svo á að starfsmenn og nefndarmenn í stjórnsýslunni séu að jafnaði hæfir til að fara með mál á ný við endurupptöku þess, enda þótt þeir hafi áður tekið ákvörðun í því. Eins og atvikum var háttað verður að líta svo á að með fyrrgreindri yfirlýsingu áfrýjanda í tölvubréfinu 10. apríl 2012, sem áréttuð var í greinargerð hans í héraði, hafi hann firrt sig rétti til að koma að andmælum áður en örorkunefnd lagði endanlegt mat á það hverjar hefðu verið varanlegar afleiðingar stefndu af völdum slyssins 22. september 2007.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði stefndu, A, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Ingveldar Einarsdóttur setts hæstaréttardómara
Bótaskylda áfrýjanda er óumdeild og hefur áfrýjandi þegar greitt bætur á grundvelli matsgerðar vegna slyss sem stefnda varð fyrir 22. september 2007. Ágreiningur málsins stendur einvörðungu um hvort áfrýjanda beri að greiða frekari bætur, byggðar á niðurstöðu álitsgerðar örorkunefndar. Ég er sammála umfjöllun meirihluta dómenda um stöðu örorkunefndar sem stjórnvalds og þau lög og málsmeðferðarreglur sem um nefndina gilda þegar hún tekur afstöðu til örorku- eða miskastigs tjónþola.
Ágreiningslaust er að áður en örorkunefnd skilaði áliti sínu 30. janúar 2012 kom stefnda á framfæri við nefndina athugasemdum við fyrrnefnda matsgerð, sem áfrýjanda var ekki kunnugt um, enda hafði honum hvorki verið kynnt framkomin beiðni stefndu um álitsgerð og fylgigögn með henni, né gefinn kostur á að koma á framfæri gögnum og sjónarmiðum sínum við örorkunefnd. Eftir að álit nefndarinnar lá fyrir og í ljós kom að andmælaréttar áfrýjanda hafði ekki verið gætt, óskaði stefnda eftir því með bréfi til örorkunefndar 12. mars 2012 að málið yrði endurupptekið og nefndin kallaði eftir athugasemdum áfrýjanda og ,,endurskoði álitsgerðina í ljósi þeirra athugasemda“. Fallist er á með meirihluta dómenda að nefndarmenn örorkunefndar voru ekki vanhæfir til að taka málið formlega til meðferðar á ný, eftir að þeim barst beiðni stefndu um endurupptöku þess, þótt þeir hefðu áður tekið ákvörðun í því. Fyrir liggur á hinn bóginn að örorkunefnd varð ekki við beiðni stefndu um endurupptöku málsins og kom sú ákvörðun nefndarinnar í veg fyrir að áfrýjanda gæfist kostur á að koma á framfæri athugsemdum eða gögnum við örorkunefnd áður en nefndin tæki endanlega ákvörðun um hverjar hefðu verið varanlegar afleiðingar stefndu af völdum slyssins sem hún varð fyrir 22. september 2007. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 335/1993 um starfsháttu örorkunefndar, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 549/1996 er mælt svo fyrir um að örorkunefnd skuli kynna aðilum fram komna beiðni og fylgigögn og gefa þeim kost á að koma skriflega á framfæri við nefndina gögnum og sjónarmiðum sínum varðandi matsmálið, innan hæfilegs frests. Þessarar fortakslausu skyldu gætti örorkunefnd ekki gagnvart áfrýjanda og verður af þeim sökum ekki byggt á álitsgerð örorkunefndar til sönnunar á tjóni stefndu, sbr. dóm Hæstaréttar 14. febrúar 2008 í máli nr. 252/2007. Ekki nýtur í málinu annarra gagna við um tjón stefndu og vegna þeirrar vanreifunar tel ég að óhjákvæmilegt sé að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi, en rétt þyki að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2013.
Mál þetta, sem höfðað var 19. desember 2012, var dómtekið 15. október 2013 að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er A, […], en stefndi er Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 4.724.010 króna með 4,5% vöxtum af 803.010 krónum frá 22. september 2007 til 1. mars 2008, en frá þeim degi af 4.724.010 krónum til 3. mars 2012, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 19. september 2011 að fjárhæð 97.600 krónur. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda auk málskostnaðar, þ. á m. vegna útlagðs kostnaðar við öflun álitsgerðar örorkunefndar að fjárhæð 225.000 krónur.
Við aðalmeðferð málsins áréttuðu aðilar þá afstöðu sína að ágreiningur þeirra snerist um lagaatriði og væri því ekki nauðsyn á sérfróðum meðdómsmönnum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsatvik
Málsatvik eru óumdeild.
Stefnandi varð fyrir umferðarslysi 22. september 2007 þegar hún var farþegi í fólksbíl sem var tryggður lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Við slysið kastaðist stefnandi til, fékk hnykk á mjóbak og var í framhaldinu skoðuð á slysadeild án þess þó að hún fengi sérstaka meðferð. Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi áfram haft verki í baki í framhaldi af slysinu, einnig eftir að hún fæddi barn sem hún gekk með við slysið.
Samkvæmt sameiginlegri matsbeiðni aðila 7. mars 2011 framkvæmdu læknarnir B og C örorkumat vegna afleiðinga slyssins svo og annars slyss frá árinu 2009 sem ekki er til umfjöllunnar í málinu. Í matsgerð læknanna 18. júlí 2011 eru talin upp heimildargögn í 16 liðum auk tveggja aðfenginna gagna, heilsufarssaga stefnanda rakin, nám og störf, tildrög umferðarslysana og einkenni eftir þau, bæði samkvæmt skoðun, frásögn stefnanda og fyrirliggjandi gögnum. Þá er samantekt og álit læknanna rökstutt. Var niðurstaða matsins sú að tímabil óvinnufærni stefnanda í kjölfar slyssins hefði verið 50% frá 25. október 2007 til 25. nóvember 2007 og 100% frá 26. nóvember 2007 til 25. desember 2007. Taldist stefnandi hafa verið veik í skilningi 3. gr. skaðabótalaga frá 25. október 2007 til 25. desember 2007. Samkvæmt matsgerðinni taldist stefnandi hins vegar hvorki hafa hlotið varanlegan miska né varanlega örorku vegna slyssins 22. september 2007. Á grundvelli matsgerðarinnar gerði stefnandi kröfu um greiðslu 97.500 króna með bréfi 23. ágúst 2011 en hafði jafnframt uppi fyrirvara við mat á afleiðingum slyssins. Í framhaldi af bréfinu gaf stefndi út fullnaðaruppgjör og greiddi umkrafða fjárhæð 19. september þess árs.
Með beiðni 12. október 2011 óskaði stefnandi eftir mati örorkunefndar vegna slyssins samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1999. Með beiðni stefnanda var einnig óskað eftir mati vegna fyrrgreinds slyss árið 2009 sem ekki er um deilt í málinu. Með matsbeiðni stefnanda fylgdu 22 fylgigögn, þar á meðal bréf stefnda til matsmanna 7. mars 2011 og fyrrgreint mat B og C. Þá fylgdu beiðninni einnig ljósmyndir af tjóni bifreiða. Við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir af lögmanni stefnda að síðastgreindu gögnin hefðu ekki áður komið fram í samskiptum aðila og hefðu verið stefnda ókunn.
Með beiðninni til örorkunefndar fylgdi skjal þar sem því var lýst yfir af hálfu beggja aðila, með vísan til 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 335/1993 um starfsháttu örorkunefnar, að þeir hefðu báðir undir höndum ljósrit af matsbeiðni og þeim skjölum sem henni fylgdu og þyrftu ekki að koma á framfæri við nefndina frekari sjónarmiðum um þessi gögn en þegar kæmu fram í beiðninni. Yfirlýsingin var þó einungis undirrituð af hálfu stefnanda.
Með tölvupósti, 12. desember 2011, óskaði lögmaður stefnanda eftir því að stefndi myndi ekki bera fyrir sig fyrningu vegna kröfu stefnanda. Kom jafnframt fram í skeyti lögmannsins að málið væri nú í „ferli hjá örorkunefnd“. Með tölvupósti 16. sama mánaðar féllst stefndi á frest í þessu efni til ársloka 2012.
Í málinu er ágreiningslaust að stefnda var, af hálfu örorkunefndar, ekki gert viðvart um fram komna matsbeiðni eða gefinn kostur á að koma fram sjónarmiðum sínum og leggja fram gögn þar að lútandi.
Í framhaldi af matsbeiðni stefnanda lét örorkunefnd uppi álitsgerð 30. janúar 2012. Í álitsgerðinni eru félagsleg atriði stefnanda rakin, fyrra heilsufar, atvik þeirra slysa sem um ræddi og frásögn stefnanda vegna óþæginda af völdum slysanna. Þá er gerð grein fyrir skoðun á stefnanda og talin upp gögn í 20 liðum sem byggt er á auk þess sem vísað er til þess að stefnandi hafi lagt fram eigin athugasemdir. Að lokum er álit nefndarinnar rökstutt. Var það niðurstaða nefndarinnar að stöðugleikapunktur stefnanda hefði verið 1. mars 2008, hún hefði verið veik, án þess að vera rúmliggjandi frá 22. september 2007 til 25. desember 2007 og tímabundið atvinnutjón hefði verið 50% frá 9. október 2007 til 25. desember þess árs. Þá hefði stefnandi hefði hlotið 7% varanlegan miska og 5% varanlega örorku vegna slyssins 22. september 2007.
Í framhaldi af álitsgerð nefndarinnar var stefnda sent kröfubréf 3. febrúar 2012. Með tölvuskeyti 7. mars 2012 hafnaði stefndi niðurstöðu örorkunefndar með þeim rökum að félaginu hefði ekki verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum fyrir matsfund hjá nefndinni. Væri því um að ræða einhliða matsgerð sem ekki gæti hnekkt fyrirliggjandi matsgerð sem uppgjör hefði byggst á.
Stefnandi fór þess á leit við örorkunefnd, með bréfi 12. mars 2012, að nefndin myndi taka málið upp á ný, þannig að stefndi gæti komið að athugasemdum. Í vitnaskýrslu formanns nefndarinnar, Sveins Sveinssonar hrl., fyrir dómi kom fram að fallist hefði verið á þessa beiðni stefnanda. Með tölvuskeyti 15. mars 2012 óskaði lögmaður stefnanda eftir skýringum stefnda á því að stefndi hefði hafnað því að koma að frekari athugasemdum til nefndarinnar þrátt fyrir áskoranir þar um. Í tölvuskeyti 10. apríl 2012 svaraði starfsmaður stefnda fyrirspurninni á þá leið að afstaða stefnda væri sú að brot á andmælarétti yrði ekki leiðrétt með endurupptöku málsins eftir að nefndin hefði þegar myndað sér skoðun á því. Ekki var aflað frekara mats á tjóni stefnanda af hálfu málsaðila.
Svo sem áður greinir gaf formaður örorkunefndar, Sveinn Sveinsson hrl., vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Ekki er ástæða til að rekja þá skýrslu sérstaklega.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á því að styðjast eigi við álitsgerð örorkunefndar við mat á afleiðingum slyssins. Telur stefnandi að annmarkar þeir sem stefndi beri fyrir sig séu ekki þess eðlis að honum sé heimilt að virða að vettugi niðurstöðu nefndarinnar. Hafa beri í huga að bótaskylda sé óumdeild í málinu og sé því eingöngu deilt um hverjar afleiðingar slyssins eru og hvort álitsgerð örorkunefndar verði lögð til grundvallar.
Stefnandi telur ljóst að þar sem stefndi neiti að koma að athugasemdum til örorkunefndar verði hann að lúta niðurstöðu nefndarinnar, en málið hafi verið endurupptekið þegar ljóst varð að stefndi hafði ekki fengið að koma að athugasemdum í málinu. Sú málsástæða, að nefndin hafi þegar verið búin að taka ákvörðun, sé með öllu óskiljanleg enda eðlileg stjórnsýsluframkvæmd við þessar aðstæður að taka mál upp á ný. Líta verði svo á að með því að hafna því að koma að athugasemdum við meðferð málsins hafi stefndi ákveðið að falla frá andmælarétti sínum. Í öllu falli verði að telja ótækt að stefndi geti með aðgerðaleysi komið sér undan greiðslu bóta fyrir tjón sem fyrir liggur að stefndi er bótaskyldur vegna. Í þessu samhengi sé vert að hafa í huga að slysið hafi haft miklar og alvarlegar afleiðingar á heilsu stefnanda.
Stefnandi telur fráleitt að hún sé látin bera hallann af því að við upphaflega málsmeðferð hjá örorkunefnd hafi ekki verið óskað eftir athugasemdum frá stefnda. Stefndi sé meðalstórt tryggingafélag sem þekki til málsmeðferðar í málum sem þessum og hafi stefndi vitað að málið væri til meðferðar fyrir örorkunefnd. Þrátt fyrir þetta hafi stefndi ekkert hlutast til um málið og beðið þar til orðið var of seint að koma að athugasemdum í málinu. Þá fyrst hafi stefndi vakið athygli á því að stefnda hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Þess beri jafnframt að geta að afstaða stefnda vegna fyrra mats hafi legið fyrir örorkunefndinni og verið horft til þeirra athugasemda við framkvæmd matsins. Því sé engan veginn hægt að fallast á að upphaflega álitsgerð nefndarinnar hafi verið einhliða.
Dómkröfur stefnanda eru grundvallaðar á niðurstöðu örorkunefndar. Tölulegur útreikningur krafnanna sætir ekki mótmælum og sundurliðast þær svo:
1. Bætur skv. 3. gr. skbl. (þjáningabætur)
94 x (700 x (7622/3282)) kr. 152.750
2. Bætur skv. 4. gr. skbl. (miskabætur)
4.000.000 x (7622/3282) x 7% kr. 650.260
3. Bætur skv. 5.-7. gr. skbl. (örorkubætur)
2004: (((3.059.787 / 9) x 12) x 1,07) x (337,6/251,4) = 5.862.068
2005: (((2.934.194 / 5) x 12) x 1,07) x (337,6/268,0) = 9.491.864
2006: (4.160.843 x 1,07) x (337,6/292,7) = 5.135.052
20.488.984
(20.488.984/3) x 11,482 x 5% kr. 3.921.000
Samtals kr. 4.724.010
Kröfur stefnanda styðjast við umferðarlög nr. 50/1987, einkum 91. gr. laganna um ábyrgðartryggingu ökutækis, og skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum, og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur. Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi vísar til þess að það sé stefnanda að færa sönnur á tjón sitt. Annars vegar liggi fyrir matsgerð þar sem báðir aðilar hafi haft jafngóð tækifæri til að koma að gögnum og koma sjónarmiðum á framfæri. Hins vegar liggi fyrir matsgerð örorkunefndar sem haldin sé göllum með tilliti til málsmeðferðar. Einnig hafi nefndin ekki tekið afstöðu til fyrirliggjandi matsgerðar eins og skylt sé samkvæmt 10. gr. laga nr. 50/1993.
Stefndi vísar til þess að örorkunefnd hafi brotið gegn 3. gr. reglugerðar nr. 335/1993 um starfsháttu nefndarinnar, sbr. reglugerð nr. 549/1996, um andmælarétt. Sérstaklega hafi þó verið brýnt að gæta andmælaréttar stefnda þar sem stefnandi kom ítarlegum sjónarmiðum á framfæri í matsbeiðni, þess efnis að fyrirliggjandi mat ætti ekki við rök að styðjast. Þá hafi stefnandi einnig tjáð slík sjónarmið á matsfundi.
Við svo búið verði matsgerð örorkunefndar ekki lögð til grundvallar. Um sé að ræða einhliða álit sem geti ekki hnekkt fyrrgreindri matsgerð tveggja lækna sem aðilar hafi sammælst um. Síðbúnar hugleiðingar stefnanda og tilraunir til að óska eftir endurupptöku fyrir örorkunefnd breyti engu hér um. Stefndi telur að engar forsendur hafi verið fyrir endurupptöku við þær aðstæður sem uppi voru. Ekki verði metið stefnda til tjóns að hafa ekki ljáð máls á slíkri málsmeðferð.
Samkvæmt þessu telur stefndi ósannað að tjón stefnanda sé umfram það sem þegar hafi verið bætt. Því beri að sýkna af kröfu stefnanda.
Niðurstaða
Í máli þessu er um það deilt, í ljósi þeirra annmarka á málsmeðferð örorkunefndar sem áður hefur verið gerð grein fyrir, hvort leggja megi álitsgerð nefndarinnar 30. janúar 2012 til grundvallar mati á afleiðingum umferðarslyss stefnanda 22. september 2007. Aðilar hafa sameiginlega lýst því yfir að ágreiningur þeirra snúist um lagaatriði og beri dómara því ekki nauðsyn til þess að kalla til sérfróða meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hefur stefndi ekki hlutast til um dómkvaðningu matsmanna, eða aflað annarra sérfræðilegra gagna, í þeim tilgangi að hnekkja efnislegri niðurstöðu örorkunefndar. Samkvæmt þessu verður að skilja málatilbúnað aðila á þá leið að ekki sé gerður ágreiningur um að álitsgerð örorkunefndar verði lögð til grundvallar fjárkröfu stefnanda í því tilviki að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að álitsgerðin verði talin tækur grundvöllur fyrir mati á tjóni stefnanda. Að þessu virtu fellst dómurinn á að leyst sé úr sakarefni málsins án þess að kallaðir séu til meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 með sérþekkingu á læknisfræðilegum afleiðingum umferðarslysa.
A
Með fyrri málslið 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1999, gefst tjónþola, eða þeim sem krafinn er bóta, kostur á að afla álits hjá örorkunefnd þegar fyrir liggur sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola. Er nefndinni, sem skipuð er tveimur læknum og einum lögfræðingi, sbr. 2. mgr. 10. gr., þannig ætlað það hlutverk að endurskoða matsgerðir um afleiðingar líkamsstjóns og einnig stuðla að ákveðnu samræmi á þessu sviði.
Örorkunefnd er ætlað að haga málsmeðferð sinni samkvæmt reglum um starfshætti sem ráðherra setur í reglugerð, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1993, en þær reglur er nú að finna í reglugerð nr. 335/1993 og síðari breytingarreglugerðum. Meðal þessara breytingarreglugerða er reglugerð nr. 549/1996 sem kveður á um það í 2. mgr. 1. gr. að örorkunefnd beri að kynna aðilum fram komna matsbeiðni og fylgigögn og gefa þeim kost á að koma skriflega á framfæri við nefndina gögnum og sjónarmiðum sínum innan hæfilegs frests.
Samkvæmt framangreindu verður reglum um skipun örorkunefndar og málsmeðferð fyrir henni í öllum meginatriðum jafnað til reglna IX. kafla laga nr. 91/1991 varðandi matsgerðir dómkvaddra manna. Af því leiðir meðal annars að matsgerð örorkunefndar samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1993 hefur almennt ríkara sönnunargildi en álit um afleiðingar líkamsstjóns sem aflað hefur verið án dómkvaðningar samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991.
B
Umrædd heimild til þess að afla álits örorkunefndar haggar ekki grunnreglu 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 þess efnis að sönnunarmatið er frjálst. Þótt matsgerð örorkunefndar liggi fyrir er því ekki fyrir það girt að leita megi annarra sönnunargagna um afleiðingar líkamstjóns, þar á meðal matsgerðar dómkvaddra manna samkvæmt fyrrgreindum reglum IX. kafla laga nr. 91/1991. Sé slíkra gagna aflað til viðbótar við álitsgerð örorkunefndar verða dómstólar að skera úr um sönnunargildi fyrirliggjandi gagna eftir almennum reglum. Er jafnframt ljóst að við mat á sönnunargildi gagna sem þessara er litið til allra atvika, þ. á m. málsmeðferðar og gagnaöflunar og rökstuðnings.
Við mat á sönnunargildi matsgerðar verður hins vegar einnig að horfa til þess hvort fylgt hefur verið réttum málsmeðferðarreglum við matsstörf og hvaða efnislegu áhrif brot á slíkum reglum kunna að hafa haft. Í þessu sambandi telur dómurinn að það hafi að jafnaði verulega þýðingu hvort aðilum hafi verið gefinn kostur á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og koma viðbótargögnum, sem og sjónarmiðum sínum, á framfæri, sbr. 3. gr. reglugerðar 335/1993, eins og henni var breytt með 1. gr. reglugerðar nr. 549/1996. Þótt annmarkar að þessu leyti rýri sönnunargildi mats geta þeir þó ekki sjálfkrafa leitt til þess að virða beri matsgerð alfarið að vettugi, enda væri önnur niðurstaða ósamrýmanleg fyrrgreindri meginreglu íslensks réttar um óformbundna sönnun. Verður því eftir sem áður að meta sönnunargildi matsgerðar með hliðsjón af öllum atvikum sem kunn að hafa þýðingu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 542/2012.
C
Í máli þessu er óumdeilt að örorkunefnd vanrækti að kynna stefnda matsbeiðni stefnanda og fylgigögn og gefa honum kost á að koma skriflega á framfæri gögnum og sjónarmiðum. Til þess verður þó að horfa að meðal þeirra gagna sem stefnandi lagði fram með matsbeiðni sinni var matsgerð læknanna B og C 18. júlí 2011, sem stefndi hafði byggt uppgjör sitt á, auk þeirra frumgagna sem þar hafði verið vísað til. Meðal þessara gagna voru athugasemdir stefnda til umræddra matsmanna, þar sem fram komu sjónarmið hans, meðal annars þau að með öllu væri ósannað að varanleg einkenni stefnanda í mjóbaki mætti rekja til slyssins 22. september 2007. Samkvæmt þessu verður að teja að stjónarmið stefnda hafi að verulegu leyti legið fyrir í þeim gögnum sem lágu fyrir örorkunefnd.
Til þess er einnig að líta að stefnandi óskaði eftir því að örorkunefnd tæki matsmálið upp að nýju í því skyni að gefa stefnda kost á andmælum. Er nægilega upplýst að nefndin gaf stefnda kost á andmælum, en stefndi hafnaði því að setja fram sjónarmið sín eða leggja fram gögn í þágu endurupptöku málsins. Þá ber að horfa til þess að stefndi hefur á engu stigi málsins bent á gögn sem hann telur að hafi skort við meðferð örorkunefndar eða bent á efnislega annmarka á rökstuðningi nefndarinnar að öðru leyti en því að hann telur nefndina ekki hafa tekið nægilega afstöðu matsgerðar læknanna B og C 18. júlí 2011. Að lokum hefur hann ekki hlutast til um öflun neinna viðbótargagna, svo sem hnekkt gætu áliti örorkunefndar.
Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að nægilega liggi fyrir að téðir annmarkar á málsmeðferð örorkunefndar hafi ekki slíka þýðingu fyrir efnislega niðurstöðu nefndarinnar að rétt sé að líta framhjá matsgerð nefndarinnar. Eru atvik málsins því ósambærileg því sakarefni sem leyst var úr með dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2008 í máli nr. 252/2007. Ekki verður heldur á það fallist að þýðingu hafi um gildi matsgerðar örorkunefndar að í rökstuðningi nefndarinnar er ekki tekin bein afstaða til matsgerðar læknanna B og C 18. júlí 2007, en af hálfu stefnda er því ekki haldið fram að matsgerð nefndarinnar sé haldin öðrum efnislegum annmörkum. Eins og málið liggur fyrir verður því matsgerð nefndarinnar 30. janúar 2012 lögð til grundvallar og fallist á fjárkröfur stefnanda á þeim grundvelli sem ekki sæta tölulegum mótmælum stefnda.
Eftir úrslitum málsins verður stefnda dæmt til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 627.500 krónur að viðbættum útlögðum kostnaði að fjárhæð 255.000 krónur, eða samtals 882.500 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Af hálfu stefnanda flutti málið Guðbjörg Benjamínsdóttir hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Helga María Pálsdóttir hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnanda, A, 4.724.010 krónur, með 4,5% vöxtum af 803.010 krónum frá 22. september 2007 til 1. mars 2008, en af 4.724.010 krónum frá þeim degi til 3. mars 2012, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 19. september 2011 að fjárhæð 97.600 krónur.
Stefndi greiði stefnanda 882.500 krónur í málskostnað.