Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Aðild
|
|
Þriðjudaginn 1. apríl 2003. |
|
Nr. 93/2003. |
Íslenska ríkið(Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Hávirki sf. (Erlendur Gíslason hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Aðild.
Í kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem fallist var á beiðni H um dómkvaðningu tveggja matsmanna til að leggja mat á nánar tiltekin atriði, sem vörðuðu framkvæmdir við stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Í mótmælti kröfu H um dómkvaðningu matsmanna á þeirri forsendu að H gæti ekki að réttu lagi átt aðild að henni, en Í hafði gert verksamning við samstarfsfélag tveggja verktakafyrirtækja, H&S og M, um fyrrnefnda framkvæmd. Talið var að með verksamningnum hafi Í gengist undir þann skilmála að reikningar vegna verksins yrðu gefnir út af samstarfsfélaginu H og þannig viðurkennt að H væri réttur kröfuhafi gagnvart sér um greiðslu verklauna. Þótt krafa, sem kynni að verða gerð á hendur Í á grundvelli umbeðinnar matsgerðar, gæti orðið um annað en greiðslu verklauna með stoð í verksamningnum, tengdist H hvað sem öðru liði svo náið því réttarsambandi sem samningurinn myndaði, að honum yrði ekki meinað að leita matsgerðarinnar í eigin nafni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2003, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu tveggja matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að dómkvaddir verði tveir menn samkvæmt matsbeiðni. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði er mál þetta komið til vegna beiðni varnaraðila 28. nóvember 2002 um að dómkvaddir yrðu tveir menn til að leggja mat á atriði, sem tiltekin eru í matsbeiðni í tíu liðum og varða framkvæmdir við stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Verk þetta hafði Framkvæmdasýsla ríkisins boðið út í tvennu lagi í desember 1999. Lægsta tilboðið í annan hluta þess barst frá Højgaard & Schultz AS og Miðvangi ehf. í sameiningu og var því tekið 7. febrúar 2000. Skriflegur verksamningur var síðan undirritaður 9. júní og 19. júlí 2000, en fyrir þann tíma mun Ístak hf. hafa gengið til samstarfs við áðurnefnd tvö félög um framkvæmd verksins. Í upphafi samningsins sagði að hann væri gerður milli utanríkisráðuneytisins sem verkkaupa og verktaka, sem þar var nefndur „samstarfsfélag (Joint Venture) Højgaard & Schultz AS ... og Miðvangur ehf.“ Í 5. gr. samningsins var tekið fram að „samningsaðili verkkaupa í þessum samningi er samstarfsfélag Højgaard & Schultz AS og Miðvangur ehf. en reikningar verða gefnir út af sameignarfélagi ofangreindra aðila annars vegar og Ístak hf. hins vegar, Hávirki sf.“ Í málinu mótmælir sóknaraðili kröfu um dómkvaðningu matsmanna á þeirri forsendu að varnaraðili geti ekki að réttu lagi átt aðild að henni.
Í matsbeiðni varnaraðila er þess getið að með matsgerð hyggist hann sanna að fyrrgreint verk hafi aukist verulega að umfangi frá því, sem vænta mátti af útboðsgögnum, auk þess að sanna hversu kostnaður hans af framkvæmd verksins hafi aukist af þeim sökum. Þetta kostnaðarmat hyggist hann leggja til grundvallar fjárkröfu á hendur verkkaupa. Með framangreindu ákvæði í 5. gr. verksamningsins gekkst verkkaupi undir þann skilmála að reikningar vegna verksins yrðu gefnir út af varnaraðila. Viðurkenndi verkkaupinn á þann hátt að varnaraðili væri réttur kröfuhafi gagnvart sér um greiðslu verklauna. Þótt krafa, sem kynni að verða gerð á hendur sóknaraðila á grundvelli umbeðinnar matsgerðar, gæti orðið um annað en greiðslu verklauna með stoð í verksamningnum, tengist varnaraðili hvað sem öðru líður svo náið því réttarsambandi, sem leiddi af samningnum, að honum verður ekki meinað að leita matsgerðarinnar í eigin nafni. Með þessum athugasemdum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, íslenska ríkið, greiði varnaraðila, Hávirki sf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2003.
Með beiðni, dagsettri 28. nóvember 2002, hefur Hávirki sf., kt. 610300-4130, Hólmaslóð 4, Reykjavík, krafist þess að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að skoða og meta útboð, útboðsgögn, umfang verks, aukið vandastig verks og aukinn kostnað matsbeiðanda við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.
Varnaraðili utanríkisráðherra gerir athugasemd við aðild matsbeiðanda að málinu.
Varnaraðili Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. gerir ekki athugasemd við matsbeiðni.
Atvik þarf að rekja í stuttu máli. Í desember 1999 óskaði Framkvæmdasýsla ríkisins eftir tilboðum í tiltekinn verkþátt við stækkun Flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Var útboðið merkt nr. 12346. Verkið var stækkað áður en tilboðsfrestur rann út og var bjóðendum kynnt sú stækkun.
Fjögur boð bárust í verkið og var tilboði frá Højgaard & Schultz a/s og Miðvangi ehf. tekið í annan hluta verksins. Var þessi niðurstaða tilkynnt með bréfi dagsettu 7. febrúar 2000. Bréf þetta er stílað á Højgaard og Scultz/Miðvang ehf. Þar segir m.a.: “... Með þessari staðfestingu er kominn á verksamningur samkvæmt ákvæðum ÍST-30. Skriflegan samning þarf að gera áður en verktaki getur hafið störf á verkstað og til undirbúnings honum þurfið þér að leggja fram verkáætlun, greiðsluáætlun og framkvæmdartryggingu.”
Skriflegur verksamningur var gerður síðar. Eru undirritanir á hann dagsettar 9. júní og 16. júlí 2000.
Eins og áður segir er tilkynningu um að tilboði hafi verið tekið og að samningur sé kominn á beint til Højgaard og Schultz og Miðvangs ehf. Verksamningurinn sem undirritaður var í júní og júlí tilgreinir verktakann sem: “... samstarfsfélag (Joint Venture) Højgaard & Schultz AS kt. (CVR) 17173928 og Miðvangur ehf. kt. 491190-1329”.
Áður en gengið var frá hinum skriflega verksamningi hafði Framkvæmdasýslu ríkisins verið tilkynnt með bréfi, sem dagsett er 23. febrúar 2000, að áðurgreind tvö verktakafyrirtæki og Ístak hf. hefðu með sér samvinnu um verkið. Er þetta í fyrsta sinn í skjölum sem Ístak hf. kemur til sögunnar sem aðili, en það félag hafði boðið í verkið, en ekki fengið. Nánar segir í þessu bréfi, sem er sent í nafni Højgaard & Schultz og Miðvangs:
“... The contractual relation will still be between you as client and the Joint Venture “Højgaard & Schultz a/s /Miðvangur ehf” as contractor.
However the above mentioned Joint Venture “Højgaard & Schultz a/s /Miðvangur ehf” has passed on all its obligations and rights in relation to the contract with you to an underlying Joint Venture “Højgaard & Schultz a/s /Miðvangur ehf/Ístak hf”, and the three companies will jointly perform all works under the Contract.
The Joint Venture between the three companies will operate in the name of “Hávirki”.”
Þessu bréfi var svarað með bréfi Framkvæmdasýslu ríkisins 3. mars 2000. Þar segir að verkefnisstjórnin hafi móttekið bréfið og geri ekki athugasemdir við innihald þess.
Athugasemdir matsþola, utanríkisráðherra, lúta einkum að því að því hvort Hávirki sf. eigi með réttu aðild að matsmálinu. Verksamningur hafi verið gerður við Højgaard & Schultz a/s og Miðvang ehf. Hávirki sf. eða Ístak hf. eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af máli þessu.
Niðurstaða.
Tilboð í verkið var gert af Højgaard & Schultz a/s og Miðvangi ehf. Tilboði þeirra var tekið. Tilkynningu sem send var Framkvæmdasýslu ríkisins með bréfi 23. febrúar 2000 verður að skilja sem tilkynningu um breytta aðild að samningnum, að upphaflegir bjóðendur hefðu stofnað sameignarfélagið Hávirki til að vinna verkið og að Ístak hf. væri einn eigenda þess félags. Þessa breytingu á aðild samþykkti Framkvæmdasýsla ríkisins eins og áður greinir.
Að þessu virtu verður að telja að Hávirki sf. sé réttur aðili í máli þessu. Aðrar athugasemdir hafa ekki verið gerðar við matsbeiðnina og ber því að kveðja til matsmenn eins og krafist er.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kveðja skal til tvo matsmenn í samræmi við beiðni matsbeiðanda, Hávirkis sf.