Hæstiréttur íslands

Mál nr. 197/1999


Lykilorð

  • Víxill
  • Endurkrafa
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. nóvember 1999.

Nr. 197/1999.

Karl Diðrik Björnsson

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

Íslenska útvarpsfélaginu hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Víxill. Endurkrafa. Skaðabætur.

 

Í var stefnt til að greiða K víxilfjárhæð í víxilmáli. Varnir Í, sem reistar voru á viðskiptum að baki víxlinum, komust ekki að í málinu og var Í dæmt til greiðslu víxilsins. Í framhaldi af þessu höfðaði Í endurkröfumál gegn K og krafðist skaðabóta vegna þess að félagið hefði þurft að greiða víxilskuldbindingu, sem engin krafa hefði staðið á bak við. Í málinu bar Í fyrir sig að víxillinn, sem bar áletrunina tryggingarvíxill samkvæmt samkomulagi hinn 9. mars 1989, hefði aðeins verið til tryggingar efndum á tilteknu samkomulagi á milli Í og útgefanda víxilsins. Talið var ósannað að víxillinn hefði átt að vera til tryggingar öllum skuldum Í við útgefandann og var fallist á kröfu Í um skaðabætur, enda var talið að í ljósi áletrunarinnar hefði K ekki mátt treysta því að á Í hvíldu skuldbindingar, sem veittu honum heimild sem víxilhafa til að ganga að félaginu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Arnljótur Björnsson og Guðrún Erlendsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. maí 1999. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfum stefnda og þess að málskostnaður fyrir báðum dómstigum verði felldur niður. Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Mál þetta er risið af víxli að fjárhæð 2.500.000 krónur, útgefnum af Páli G. Jónssyni 21. desember 1992. Gjalddagi víxilsins var við sýningu og greiðslustaður í Íslandsbanka í Reykjavík. Víxillinn, sem var samþykktur af Jóni Sigurðssyni pr. pr. Íslenska sjónvarpsfélagið hf., var sýndur til greiðslu 17. desember 1993 og afsagður þann dag vegna greiðslufalls. Á víxlinum er eftirfarandi áritun: „Tryggingarvíxill samkvæmt samkomulagi hinn 9. mars 1989“.

Páll G. Jónsson afhenti áfrýjanda víxilinn eftir að hafa framselt hann með eyðuframsali. Segir áfrýjandi að með víxlinum hafi Páll verið að greiða sér skuld, meðal annars vegna vinnulauna, sem hann hafi átt inni hjá Páli og fyrirtækinu Pólaris hf. frá árunum 1991 til 1993.

Áfrýjandi höfðaði 16. desember 1996 mál til greiðslu víxilsins gegn stefnda, sem hafði þá tekið við réttindum og skyldum Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. Í því máli lagði stefndi fram ýmis gögn um viðskiptin að baki víxlinum, sem stefndi taldi sýna að útgefandinn hefði aldrei átt neina kröfu vegna viðskipta hans og samþykkjandans. Með vísun til þessara gagna krafðist stefndi sýknu af kröfu áfrýjanda um greiðslu víxilskuldarinnar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 1997 var stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda höfuðstól víxilsins ásamt dráttarvöxtum, stimpilkostnaði og málskostnaði. Var héraðsdómurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 28. maí 1998, sem birtur er í dómasafni 1998, bls. 2116. Hæstiréttur féllst ekki á að áðurnefndar mótbárur stefnda væru meðal varna, sem honum væri heimilt að hafa uppi í víxilmáli samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dóminum var tekið fram, að stefndi geti hins vegar borið fram slíkar málsástæður í endurkröfumáli vegna lögskipta að baki víxlinum.

II.

Eftir að dómur Hæstaréttar 28. maí 1998 var fallinn beiddist stefndi kyrrsetningar á eignum áfrýjanda til tryggingar fullnustu kröfu hans samkvæmt dóminum að fjárhæð 5.070.671 króna auk dráttarvaxta og kostnaðar af kyrrsetningargerð og eftirfarandi staðfestingarmáli. Féllst sýslumaðurinn í Reykjavík á beiðnina og kyrrsetti 5. júní 1998 kröfu áfrýjanda samkvæmt dóminum. Hinn 10. júní 1998 greiddi stefndi sýslumanninum kröfuna með 5.175.904 krónum, sem sýslumaður tók til varðveislu á bankareikningi, sbr. 19. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Með beiðni, sem móttekin var af sýslumanninum í Reykjavík 22. júní 1998 krafðist áfrýjandi fjárnáms í eignum stefnda til fullnustu kröfu sinni samkvæmt hæstaréttardóminum. Sýslumaðurinn taldi ekki forsendur til að verða við kröfu áfrýjanda um fjárnám. Í bókun í gerðabók 22. júlí 1998 segir meðal annars, að krafa gerðarbeiðanda hafi verið kyrrsett 5. júní 1998 og því geti gerðarbeiðandi ekki ráðstafað kröfunni með þeim hætti sem hér um ræðir.

 

 

III.

Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu útgefinni 11. júní 1998 og birtri 18. ágúst 1998 til staðfestingar kyrrsetningargerðinni og hafði jafnframt uppi endurkröfu á hendur áfrýjanda að fjárhæð 5.175.904 krónur auk dráttarvaxta frá 10. júní 1998 og málskostnaðar. Til stuðnings endurkröfunni vísaði stefndi til almennu skaðabóta-reglunnar og 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991.

Í málinu liggja fyrir tveir samningar milli Páls G. Jónssonar og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., sem báðir eru dagsettir 9. mars 1989 og bera fyrirsögnina „samkomulag“.

Annað samkomulagið var þess efnis að Íslenska sjónvarpsfélagið hf. taki á leigu hjá Páli „þrjá daga í Haffjarðará þann 9. til 12. ágúst“ og félagið greiði leiguna að fjárhæð 1.497.600 krónur með því að birta auglýsingar fyrir fyrirtæki Páls. Ritaði Jón Óttar Ragnarsson þáverandi sjónvarpsstjóri undir samkomulagið fyrir hönd félagsins. Í þessu samkomulagi var hvergi vikið að víxli.

Í hinu samkomulaginu, sem rakið er orðrétt í héraðsdómi, segir meðal annars að tryggingarvíxill að fjárhæð 2.500.000 krónur, sem Íslenska sjónvarpsfélagið hf. afhendi Páli „hér með“ sé til tryggingar vaxtafyrirkomulagi, sem nánar er rakið í samkomulaginu. Jón Sigurðsson, þáverandi framkvæmdastjóri Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., ritaði undir samkomulagið fyrir hönd félagsins með sama hætti og hann skrifaði á hinn umdeilda víxil sem samþykkjandi. Staðfesti hann undirritanir sínar fyrir dómi.

Svo sem greinir í héraðsdómi bar Páll að tryggingarvíxillinn, er áfrýjandi fékk framseldan, hafi verið sá eini, sem hann fékk í hendur frá Íslenska sjónvarpsfélaginu hf. Páll skýrði einnig frá því fyrir dómi, að víxillinn hefði átt að vera til tryggingar öllum skuldum félagsins við sig. Áfrýjandi lagði 7. janúar 1999 fram skriflega yfirlýsingu Jóns Óttars Ragnarssonar dagsetta 21. desember 1998 þess efnis að tryggingarvíxill að fjárhæð 2.500.000 krónur hafi verið afhentur Páli í mars 1989 „til tryggingar öllum viðskiptum Íslenska útvarpsfélagsins/Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. við Pál G. Jónsson og hans fyrirtæki.“ Bendir áfrýjandi á að þessi yfirlýsing styðji framburð Páls. Í skýrslu, sem vitnið Jón Óttar gaf fyrir héraðsdómi 20. janúar 1999 svaraði hann því að efni yfirlýsingarinnar væri rétt. Hann kvað sig minna að aðeins einn víxill hefði verið gerður. Þegar hann var nánar spurður um skipti Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. við Pál G. Jónsson og uppgjör á þeim, voru svör hans óskýr. Kvaðst hann ekki muna nákvæmlega eftir þeim í einstökum atriðum, þar sem langt væri um liðið.

Samkvæmt ótvíræðu orðalagi síðastnefnda samkomulagins frá 9. mars 1989 var víxill að fjárhæð 2.500.000 krónur til tryggingar því að Páll G. Jónsson yrði skaðlaus, ef á hann féllu vextir vegna þeirra skuldabréfa, sem getið var í samkomulaginu. Verður það ekki skýrt svo að víxillinn hafi átt að tryggja aðrar skuldbindingar.

Framburður Páls G. Jónssonar um að víxillinn hafi átt að vera til tryggingar öllum skuldum Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. við sig og áðurgreind yfirlýsing, sem Jón Óttar Ragnarsson gaf nærri tíu árum eftir að víxillinn var afhentur, eiga sér enga stoð í öðrum málsgögnum. Þegar litið er til þess og efnis og orðalags samninganna tveggja frá 9. mars 1989 er ósannað að víxlinum hafi verið ætlað að vera til tryggingar öðrum skuldbindingum en þeirri, sem getið er í þeim samningi, sem varðar vexti af skuldabréfum. Í skýrslu Páls G. Jónssonar fyrir dómi kom fram, að hann hefði hvorki greitt vexti né annað vegna skuldabréfa, sem síðastnefndi samningurinn frá 9. mars 1989 tók til.

Samkvæmt framansögðu er fallist á með héraðsdómi að ekki sé leitt í ljós að krafa hafi verið til að baki víxlinum á hendur Páli G. Jónssyni, sem framseldi hann til áfrýjanda.

IV.

Áfrýjandi segir að Páll hafi fullvissað sig um að skuld væri á bak við víxilinn þegar hann tók við honum. Kvaðst áfrýjandi ekki hafa séð neina ástæðu til að inna Pál eftir samkomulaginu, sem vísað var til á víxlinum. Áfrýjanda mátti vera fullljóst af frásögn Páls og því, sem ritað var á víxilskjalið, að það var tryggingarvíxill. Allt að einu leitaðist áfrýjandi ekki við að kanna hvaða lögskipti lægju að baki víxlinum. Gat áfrýjandi ekki treyst því að á stefnda hvíldu skuldbindingar, sem veittu honum heimild til að ganga að samþykkjanda á grundvelli víxilsins. Samkvæmt 18. gr., sbr. 19. gr. víxillaga nr. 93/1933 verður áfrýjandi sem framsalshafi að sæta sömu mótbárum frá stefnda og framseljandinn.

Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Karl Diðrik Björnsson, greiði stefnda, Íslenska útvarpsfélaginu hf., samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 1999.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 18. ágúst sl.

Stefnandi er Íslenska útvarpsfélagið hf. kt. 500685-0269, Lynghálsi 5, Reykjavík.

Stefndi er Karl Diðrik Björnsson, kt. 071253-5389, Krókabyggð 3a, Mosfellsbæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 5.175.904 krónur með hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum frá 10. júní 1998 til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn 10. júní 1999. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Þá gerir stefnandi þá kröfu að staðfest verði með dómi kyrrsetningargerð Sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. K-38/1998 sem gerð var 5. júní sl. í kröfu stefnda á hendur stefnanda samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 427/1997 sem upp var kveðinn þann 28. maí sl. þar sem stefnandi var dæmdur til að greiða stefnda 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum frá 17. desember 1993 til greiðsludags auk stimpilkostnaðar að fjárhæð 18.750 krónur og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti að fjárhæð 400.000 krónur, til tryggingar framangreindum fjárkröfum á hendur stefnda.

 

Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá er gerð krafa um að felld verði úr gildi kyrrsetningargerð Sýslumannsins í Reykjavík í málinu nr. K-38/1998 þar sem stefnandi lét kyrrsetja kröfu stefnda á hendur stefnanda samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 427/1997. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi.

 

Með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 28. maí 1998 var stefnandi máls þessa dæmdur til þess að greiða stefnda 2.500.000 krónur auk vaxta og málskostnaðar. Dómkrafa í málinu var reist á víxli en greiðandi hans var Íslenska Sjónvarpsfélagið hf, forveri stefnanda, og var víxillinn samþykktur til greiðslu við sýningu af Jóni Sigurðssyni, fjármálastjóra Íslenska Sjónvarpsfélagsins. Útgefandi víxilsins var Páll G. Jónsson og framseldi hann víxilinn eyðuframsali. Stefndi höfðaði víxilmál á hendur stefnanda sem víxilhafi og við meðferð víxilmálsins var synjað um að varnir er vörðuðu viðskiptin að baki víxlinum kæmust að. Stefnandi höfðaði síðan mál þetta í kjölfar kyrrsetningar á kröfu stefnda samkvæmt ofangreindum dómi Hæstaréttar og byggir á því að engar kröfur hafi verið að baki víxilskuldbindingu Íslenska sjónvarpsfélagsins hf og samkvæmt reglu 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála höfði hann mál til heimtu skaðabóta úr hendi stefnda með því að hann hefði ekki komið vörnum að í víxilmálinu.

Víxill sá sem hér er fjallað um er áritaður þannig: “Tryggingarvíxill samkvæmt samkomulagi (svo) hinn 9. mars 1989.” Stefnandi hefur lagt fram samkomulag dagsett 9. mars 1989, svohljóðandi:

“Í samræmi við ákvæði í 3.3. grein í samningi milli Páls G. Jónssonar og Stjórnar Íslenzka Sjónvarpsfélagsins h.f. sem dagsettur er hinn 1. maí 1988 afhendir Páll ISF nú 5 skuldabréf hvert að upphæð kr. 2.000.000.oo. Samtals kr. 10.000.000.- “ Tíu milljónir “

Skuldabréfin eru til fimm ára með gjalddaga hinn 1 september ár hvert og miðast við lánskjaravísitölu 2254 stig.

Í samkomulaginu er ekki gert ráð fyrir því að Páll greiði vexti af þessum bréfum en til að gera markaðssetningu þeirra auðveldari er hérmeð gert samkomulag um það að bréfin beri 5% vexti sem ISF mun greiða.

Til tryggingar þessu vaxtafyrirkomulagi afhendir Íslenzka Sjónvarpsfélagið h.f. Páli hérmeð tryggingarvíxil að upphæð kr. 2.500.000.oo “tvær milljónir og fimmhundruð þúsund”. sem Páll mun geyma til tryggingar geiðslum ISF.”

 

Samkomulag þetta hafi verið gert í framhaldi af samkomulagi dagsettu 1. maí 1988 milli Íslenska sjónvarpsfélagsins og Páls G. Jónssonar um kaup þess síðarnefnda á hlut í Íslenska Sjónvarpsfélaginu að nafnverði 555.556 krónur fyrir 70.000.000 króna. Hluta kaupverðsins eða 10.000.000 króna hefði átt að greiða með afhendingu hlutabréfa eða til vara með útgáfu á verðtryggðu skuldabréfi sömu fjárhæðar sem greiða skyldi á 5 árum án vaxta með árlegum greiðslum tækist ekki að afhenda hlutabréfin fyrir 1. september 1988. Þar sem hlutabréfin hafi ekki verið afhent hafi skuldabréf þau sem að framan greinir verið afhent. Hins vegar hafi þau aldrei verið seld. Með kaupsamningi 31. desember 1989 hafi Íslenska Sjónvarpsfélagið hf keypt hlut Páls G. Jónssonar og Pólaris hf og hafi kaupverðið m.a. verið greitt með því að afhenda skyldi skuldabréf að fjárhæð 10.000.000 króna fyrir 1. apríl 1990. Með samkomulagi þessu hafi stefnandi fallið frá öllum kröfum samkvæmt skuldabréfum þeim sem tryggingarvíxillinn hafi átt að tryggja. Engar vaxtakröfur hafi fallið á Pál G. Jónsson vegna skuldabréfanna né muni falla á hann.

Stefnandi beiddist kyrrsetningar sem fram fór í kröfu á hendur stefnanda samkvæmt dómi Hæstaréttar í víxilmáli þar sem stefndi fékk dóm á hendur stefnanda fyrir andvirði víxilsins auk stimpilgjalds, dráttarvaxta og málskostnaðar. Í framhaldi af því hafi stefnandi greitt dómkröfu þessa til sýslumannsins í Reykjavík samtals 5.175.904 krónur sem sundurliðist þannig:

 

Höfuðstóll dómkröfu

2.500.000

Dráttarvextir frá 17.12. 1993 til 10.06.1998

2.257.154

Stimpilkostnaður

18. 750

Málskostnaður

400.000

 

Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni sem nemi stefnufjárhæðinni með því að hann hafi orðið að greiða stefnda víxilkröfu þar sem engin skuld eða fjárkrafa stæði að baki. Engar kröfur hafi stofnast vegna lögskipta þeirra sem víxlinum var ætlað að tryggja og sé stefnanda því rétt að endurkrefja stefnda um þá fjárhæð sem honum hafi verið gert að greiða samkvæmt víxildómnum ásamt dráttarvöxtum frá greiðsludagi og málskostnaðar enda hafi hann ekki komið að vörnum um lögskipti að baki víxlinum í víxilmálinu vegna ákvæða 17. kafla laga um meðferð einkamála.

Með því að víxillinn hafi verið áritaður um tryggingu á áðurgreindu samkomulagi geti stefndi ekki borið fyrir sig grandleysi í endurkröfumáli og er á því byggt að stefnandi geti borið fyrir sig sömu mótbárur og málsástæður gagnvart stefnda og hann hefði getað borið fyrir sig gagnvart útgefanda og framseljanda víxilsins, Páli G. Jónssyni.

Þá er á því byggt að stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera það ljóst er hann fékk víxilinn framseldan að ekki stæði fjárkrafa á bak við víxilskuldbindinguna og hann hafi því með innheimtu víxilsins af ásettu ráði viljað baka stefnanda tjón.

 

Af hálfu stefnda er því haldið fram að kröfu um skaðabætur sé ranglega beint að stefnda þar sem milli hans og stefnanda sé ekkert viðskiptasamband. Stefnandi kunni að eiga kröfu á hendur Páli G. Jónssyni en honum hafi ekki verið stefnt í máli þessu. Þá hafi stefndi verið grandlaus um annað en að krafa væri að baki víxlinum og þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna hann af skaðabótakröfu stefnanda. Stefndi hafi hvorki verið kunnugur né haft með samningsgerð fyrir Pál G. Jónsson að gera enda slíkt ekki á verksviði stefnda. Algerlega sé ósannað að víxillinn hafi átt að tryggja samkomulag fjármálastjóra Íslenska Sjónvarpsfélagsins og Páls G. Jónssonar frá 9. mars 1989 enda liggi fyrir að gert hefði verið annað samkomulag við sjónvarpsstjóra sama dag og víxilinn kunni með sama hætti getað verið til tryggingar kröfum samkvæmt því en af hálfu stefnda er því haldið fram að Páll G. Jónsson og fyrirtæki á hans vegum eigi enn óuppgerðar kröfur á hendur stefnanda og forvera hans. Þá hafi stefnandi ekki beðið neitt tjón við að greiða dómskuld við stefnda þar sem hann hafi lagt tékka til geymslu hjá sýslumanninum í Reykjavík né heldur felist í því tjón stefnanda. Nær sé að stefndi hafi orðið fyrir tjóni með því að hann hefði ekki fengið kröfu sína samkvæmt dómi greidda vegna aðgerða stefnanda.

Þá er þess krafist að kyrrsetningargerðin verði felld úr gildi þar sem með henni hafi stefnandi fengið kyrrsetta eigin skuld.

 

Niðurstaða

Í málinu liggur frammi samkomulag Páls G. Jónssonar og fjármálastjóra Íslenska Sjónvarpsfélagsins Jóns Sigurðssonar dagsett 9. mars 1989 sem rakið er hér að framan. Fram kom hjá vitninu Páli G. Jónssyni að víxill sá sem stefndi fékk framseldan var sá eini sem vitnið fékk í hendur frá Íslenska Sjónvarpsfélaginu og kvað vitnið víxilinn hafa átt að vera til tryggingar öllum skuldum fyrirtækisins við vitnið. Fullyrðing vitnisins um að víxill þessi skyldi til tryggingar öllum kröfum vitnisins á hendur Íslenska Sjónvarpsfélaginu þykir ekki trúverðug enda bendir áritunin á víxlinum og frásögn vitnisins Jóns Sigurðssonar til þess að víxilinn ætti að tryggja skaðleysi vitnisins kæmi til vaxtakostnaðar vegna skuldabréfa þeirra sem um getur í málinu. Vitnið Páll G. Jónsson staðfesti í framburði sínum að hann hefði ekki þurft að greiða vexti vegna skuldabréfanna þannig að ekki er sýnt fram á það hér að krafa hafi verið til á hendur forvera stefnanda að baki víxlinum. Stefndi verður að hlíta mótbárum að þessu leyti enda þótt vitnið Páll G. Jónsson hafi framselt víxilinn til hans þar sem slíkt framsal hefur einungis gildi sem framsal til umboðs sbr. 1. mgr. 19. gr. víxillaga en ekki til eignar.

 

Samkvæmt þessu verður niðurstaða málsins sú að fallist er á það með stefnanda að stefnda beri að greiða honum víxilfjárhæð þá er hann var dæmdur til að greiða stefnda auk stimpilkostnaðar og dráttarvaxta en ekki er fallist á að stefnandi eigi rétt til greiðslu málskostnaðar sem honum var gert að greiða í því máli vegna þess að á honum hvíldi formlega skýlaus skylda til greiðslu kröfu samkvæmt víxlinum. Er stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 4.775.904 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III kafla vaxtalaga frá 10. júní 1998 til greiðsludags. Þá ber að staðfesta framangreinda kyrrsetningargerð í málinu nr. K-38/1998 sem fram fór 5. júní sl. í kröfu stefnda á hendur stefnanda til tryggingar framangreindum kröfum enda ekki sýnt fram á að á henni séu slíkir gallar að leiði til þess að hún verði ekki staðfest. Loks ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað og er þá litið til reglna um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, Karl Diðrik Björnsson, greiði stefnanda, Íslenska Útvarpsfélaginu, 4.775.904 krónur með dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga frá 10. júní 1998 til greiðsludags og 500.000 krónur í málskostnað. Framangreind kyrrsetningargerð er staðfest.