Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2016

A (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur lögræði í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2016, þar sem sóknaraðili var samkvæmt kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu um sviptingu sjálfræðis verði hafnað, en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að þóknun verjanda síns verði greidd úr ríkissjóði. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2016.

Með beiðni, sem barst dóminum 25. maí sl. hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, a, kt. [...],[...],[...] verði, með vísan til a- og b-liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Varnaraðili mótmælir kröfunni eins og hún er fram sett. Af hans hálfu er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Krafa um sjálfræðissviptingu er sett fram í framhaldi af nauðungarvistun varnaraðila í 21 sólahring, sbr. samþykki sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 6. maí 2016. Málið var þingfest fyrr í dag og tekið samdægurs til úrskurðar.

Í kröfu sóknaraðila um sjálfræðissviptingu kemur m.a. fram að varnaraðili sé 25 ára gamall karlmaður sem sé greindur með ódæmigerða einhverfu, tornæmi, mjög skerta aðlögunarfærni og ósamræmi í vitsmunaþroska en auk þess glími hann við fíknivanda. Sem barn hafi hann verið greindur með ADHD en á unglingsárum hafi hann byrjað að neyta margs konar fíkniefna. Frá árinu 2012 hafi hann verið illa haldinn af geðrænum veikindum og fíknivanda. Af þeim sökum hafi hann verið sviptur sjálfræði í hálft ár í febrúar 2013 og í framhaldinu áfram í tvö ár.

Varnaraðili hafi verið útskrifaður frá sérhæfðri endurhæfingardeild á Kleppi þann 15. september 2014 og verið í ágætu jafnvægi, með íbúð til umráða og hafði ekki mælst jákvæður fyrir kannabisefnum í þrjá mánuði. Varnaraðili mætti í reglulegar lyfjagjafir í formi forðasprauta í kjölfarið en á árinu 2015 byrjaði hann að nota kannabisefni reglulega. Þegar sjálfræðissvipting hans rann út um haustið 2015 hætti hann hins vegar alfarið töku geðlyfjanna og vildi ekki mæta til meðferðar á Klepp. Í kjölfarið missti hann húsnæðið og fluttist til foreldra sinna. Í apríl 2016 var ljóst að ástand varnaraðila fór versnandi vegna aukinnar kannabisneyslu en geðrofseinkenni urðu þá áberandi. Í maí sl. hafi varnaraðili komið í fylgd lögreglu og borgarlæknis á bráðageðdeild 32C vegna geðrofseinkenna. Hann hafi samdægurs verið nauðungarvistaður í 72 klst. en strauk eftir að hafa verið fluttur á deild 33A og var færður aftur á sjúkrahúsið af lögreglu. Varnaraðili var nauðungarvistaður eins og áður segir frá 6. maí sl.

Krafa sóknaraðila um sjálfræðissviptingu byggir m.a. á læknisvottorði B, dagsettu 12. maí sl., en hún er geðlæknir hans í núverandi vistun. Í vottorðinu er nánar lýst geðrofseinkennum varnaraðila og áhrifum fíkniefna á geðheilsu hans. Þá er þeim aðgerðum lýst sem reyndar voru til þess að koma varnaraðila til hjálpar, bæði í kjölfar sjálfræðissviptingar á árinu 2013 og nú í kjölfar nauðungarvistunar. Í vottorðinu er ástandi varnaraðila lýst eftir komu á sjúkrahúsið en það sé þess eðlis að nauðsynlegt hafi verið að vista hann á bráðageðdeild 32C. Þá kemur fram það álit læknisins að varnaraðili sé í kláru geðrofsástandi með miklum hugsanatruflunum, óreiðu í hugsun og ranghugmyndum. Hann nærist illa og sé ekki fær um að annast sig. Sterkur grunur sé um undirliggjandi geðklofasjúkdóm en hann eigi að baki sögu um geðrof og mikla neyslu fíkniefna. Þá sé hann með þroskavanda, bæði ódæmigerða einhverfu, sé tornæmur og einnig með ADHD. Að mati læknisins sé nauðsynlegt að varnaraðili vistist áfram á geðdeild þar sem reynd verði endurhæfing. Þá sé óhjákvæmilegt að svipta hann sjálfræði þar sem hann hafi ekkert innsæi í veikindi sín og hafi sögu um að vera ekki til samvinnu um nokkra meðferð. Þá styður læknirinn sjálfræðissviptingu til tveggja ára.

Á meðal gagna málsins er læknisvottorð C geðlæknis, dagsett 5. maí sl., en ákvörðun um nauðungarvistun var m.a. byggð á mati hennar á ástandi varnaraðila. Í vottorðinu kemur fram lýsing á geðrænum einkennum varnaraðila sem er í samræmi við það sem fram kemur í vottorði B.

Við meðferð málsins gaf B símaskýrslu og staðfesti læknisvottorð sitt og það mat sem þar kemur fram en síðan vottorðið var skrifað hafi ástand varnaraðila sáralítið breyst. Telur hún að samspil alvarlegs geðræns vanda, andlegs vanþroska og fíknivanda varnaraðila geri það að verkum að brýn þörf sé á því að svipta hann tímabundið sjálfræði sínu. Hann hafi ekki nokkurt innsæi í sjúkdóm sinn eða þarfir sínar og hafni lyfjatöku. Vægari úrræði hafi verið reynd sem ekki hafi skilað árangri, m.a. á tímabili síðustu sjálfræðissviptingar. Varnaraðli hafi auk þess ekki taumhald á neyslu sinni. Þá hafi ástand varnaraðila versnað til mikilla muna þegar hvorki sé nokkurt utanumhald né nauðsynleg lyfjagjöf í formi forðasprautu. Skemmri tími en tveggja ára sjálfræðissvipting sé að mati læknisins algjörlega óraunhæft en það hafi sýnt sig að varnaraðili sé ekki fær um að bjarga sér sjálfur. Næstu skref í kjölfar núverandi innlagnar á 32C sé ætlunin að hann fari inn á lokaða endurhæfingardeild.

Niðurstaða

Varnaraðili var nú síðast nauðungarvistaður í 21 dag með ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 6. maí sl.

Eins og rakið hefur verið kemur fram í læknisvottorði og framburði B geðlæknis að ljóst sé að varnaraðili glími við alvarlegan geðsjúkdóm og fíknivanda en auk þess glími hann við ýmiss konar þroskavanda. Grunur leikur á undirliggjandi geðklofasjúkdómi en geðrofseinkenni séu bersýnileg.  Þurfi varnaraðili viðhlítandi lyfjagjöf og langtímameðferð eigi að vera unnt að ná tökum á ástandi hans og líðan. Þá beri hann ekkert skynbragð á ástand sitt eða þörf fyrir aðstoð. Taldi geðlæknirinn að svipting í tvö ár væri raunhæf tímalengd í þessu sambandi til þess að ná tökum á ástandi varnaraðila með viðeigandi meðferð og lyfjagjöf.      

Þá hefur verið sýnt fram á að vægari úrræði í formi aðstoðar hafa verið fullreynd án viðunandi árangurs. Einnig hafa verið færð fyrir því rök að nauðsynlegt sé að svipta varnaraðila sjálfræði um lengri tíma með hagsmuni hans í huga.

Að þessu virtu telur dómurinn að enn sé svo ástatt hjá varnaraðila að hann sé ekki fær vegna geðsjúkdóms og fíknivanda að ráðstafa persónulegum högum sínum. Telur dómurinn því að uppfyllt séu skilyrði a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 hvað ástand varnaraðila varðar. Þá er fallist á sjálfræðissviptingu hans í tvö ár í samræmi við fyrrgreindar röksemdir og þykja ekki efni til þess að marka sjálfræðissviptingunni skemmri tíma.

Dómurinn bendir á að samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 71/1997 getur varnaraðili, þegar liðnir eru sex mánuðir frá upphafi sviptingar, borið fram kröfu við héraðsdómara um að lögræðissvipting verði felld úr gildi að nokkru eða öllu leyti telji hann skilyrði sjálfræðissviptingar ekki lengur fyrir hendi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Leifs Runólfssonar hdl., eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðili, A, kt. [...],[...],[...],

er sviptur sjálfræði í tvö ár.

Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Leifs Runólfssonar hdl., 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.