Hæstiréttur íslands

Mál nr. 104/2002


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Tilraun
  • Eignaspjöll
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. maí 2002.

Nr. 104/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Sigurði Páli Guðjónssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)


Kynferðisbrot. Nauðgun. Tilraun. Eignaspjöll. Skaðabætur.

S var ákærður fyrir eignaspjöll, tilraun til nauðgunar og nauðgun. Hafði hann ruðst inn til konunnar A, sem hann hafði áður átt í sambandi við, brotið þar húsmuni, reynt að þröngva henni til kynmaka með ofbeldi í eldhúsi hennar, og þröngvað henni til holdlegs samræðis nokkru síðar í svefnherbergi íbúðarinnar. S játaði að hafa valdið spjöllum á húsmunum í íbúð A en kvaðst hafa átt munina sjálfur. Þeirri viðbáru S var hafnað og var hann sakfelldur fyrir eignaspjöll. S viðurkenndi einnig að hafa valdið A áverkum í eldhúsi íbúðarinnar og að hafa reynt að hafa þar við hana samræði. Staðhæfing S um að A hafi viljað hafa við hann kynmök í eldhúsinu þótti fjarstæð í ljósi þess sem fyrir lá um það sem á undan var gengið. Var frásögn A um að S hefði reynt að neyða sig til kynmaka talin trúverðug, og í samræmi við áverkana sem á henni voru og önnur sýnileg sönnunargögn. Var A sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar. Þá hafði S einnig viðurkennt að hafa haft samræði við A í svefnherbergi hennar nokkru síðar en bar að það hafi verið með fullum vilja A. Framburður S þótti að þessu leyti fjarstæður en frásögn A trúverðug í sjálfu sér og í samræmi við það sem vitni höfðu eftir henni um atvikið. Var því byggt á frásögn A og talið sannað að S hafi beitt hana ofbeldi og ofbeldishótunum og þröngvað henni með því til samræðis. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að S ruddist inn á A og 8 ára gamlan son hennar og braut gegn A þótt hann vissi af barninu á heimilinu. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest um tveggja ára fangelsisrefsingu. A voru dæmdar 500.000 krónur í miskabætur, auk bóta fyrir munatjón.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2002 að tilhlutan ákærða en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, þyngingar á refsingu og greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.120.000 krónur.

Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt II. og III. kafla ákæru og verði honum einvörðungu gerð vægasta refsing, er lög leyfa, fyrir brot í I. kafla ákærunnar. Þá verði skaðabótakröfu brotaþola vísað frá dómi. Til vara krefst ákærði mildunar á refsingu og lækkunar á bótakröfu.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á sakarmat hans og ákvörðun um refsingu ákærða, sbr. 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Með hliðsjón af málsgögnum og dómaframkvæmd þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Um bætur fyrir munatjón er þess að gæta, að í héraði virðist kröfu um þær ekki hafa verið andmælt tölulega af hálfu ákærða og verður niðurstaða héraðsdóms um þann þátt staðfest. Samtals nema skaðabætur því 620.000 krónum og skulu þær bera dráttarvexti frá 27. ágúst 2001, er mánuður var liðinn frá því að krafa var sett fram.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest að öðru leyti en því, að þóknun réttargæslumanns þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Páll Guðjónsson, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði A 620.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. ágúst 2001 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest að öðru leyti en því, að þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skal vera 100.000 krónur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

 

Héraðsdómur Reykjavíkur 18. janúar 2002.

Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 20. nóvember sl. á hendur ákærða, Sigurði Páli Guðjónssyni, Stekkjarhvammi 36, Hafnarfirði, “fyrir eftirgreind hegningarlagabrot framin í [ … ], Reykjavík, að morgni föstudagsins 29. júní 2001:

I

Eignaspjöll, með því að hafa, í íbúð A, brotið fót undan eldhúsborði og síðan brotið með borðfætinum glerplötu stofuborðs sem á stóð sjónvarpstæki sem einnig skemmdist.

II

Tilraun til nauðgunar, með því að hafa, í beinu framhaldi af eignaspjöllunum, í eldhúsi íbúðarinnar reynt að þröngva A til kynmaka með ofbeldi, fyrst til holdlegs samræðis en þegar ákærða reis ekki hold, til þess að sjúga á sér liminn.

III

Nauðgun, með því að hafa nokkru síðar í svefnherbergi íbúðarinnar, með ofbeldi og hótun um ofbeldi, þröngvað A til holdlegs samræðis.

Brot ákærða skv. I. kafla ákæru telst varða við 1. mgr. 257. gr., brot skv. II. kafla telst varða við 194. gr., sbr. 20. gr., og brot skv. III. kafla telst varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

A krefst skaðabóta að fjárhæð kr. 1.120.000 auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25, 1987 frá 29. júní 2001 til greiðsludags og þóknunar vegna réttargæslu.”

Málavextir

Kl. 12.35, föstudaginn 29. júní sl. voru lögreglumenn sendir í […] hér í borg vegna þess að maður hefði ruðst þar inn í íbúð og nauðgað konu sem þar býr.  Þegar þangað kom var þar fyrir kærandinn, A og sagði frá því að maður að nafni Sigurður Páll Guðjónsson, ákærði í máli þessu, hefði ruðst ölvaður inn á hana um sjöleytið þennan morgun.  Hefði hann brotið húsmuni og ráðist á hana, rifið af henni nærbuxurnar og reynt að nauðga henni í eldhúsinu.  Henni hefði þó tekist að tala hann til og róa hann og gefið honum að borða.  Hafi hún reynt að reita hann ekki til reiði því að 8 ára sonur hennar hefði vaknað og hún viljað hlífa honum.  Ákærði hefði svo tekið hana með sér inn í svefnherbergi og viljað hafa við hana samfarir og sagt að hún réði því hvort það yrði með góðu eða illu.  Þar sem hann væri mun sterkari en hún hefði hún ákveðið að berjast ekki á móti og hann komið fram vilja sínum við hana.  Hann hefði svo sofnað eftir á að giska 20 mínútur og hún þá farið fram og farið úr íbúðinni með son sinn og klukkan hefði þá verið um hálftíu.  Hún hefði farið í húsnæði SÁÁ í Síðumúla og eftir nokkra dvöl þar hefði hún farið heim og verið komin þangað um tólfleytið. 

Samkvæmt frumskýrslu Ríkharðs Arnar Steingrímssonar lögreglumanns er um að ræða þriggja herbergja íbúð á þriðju hæð til vinstri í fjölbýlishúsi.  Gengið er inn í forstofu og inn af henni til vinstri er eldhús, baðherbergi og barnaherbergi en til hægri eru tvær samliggjandi stofur og svefnherbergi.  Greinilegt var, segir í skýrslunni, að mikið hafði gengið á í íbúðinni.  Borðplata úr gleri hafði brotnað í stofunni, blómamold, glerbrot og ýmsir smámunir voru á gólfinu.  Borðfótur sem brotinn hafði verið undan eldhúsborðinu lá þar einnig.  Þá höfðu sjónvarps- og myndbandstæki fallið ofan á grindina sem glerplatan hafði hvílt á.  Í eldhúsinu var brotið borðið á hvolfi og rifnar nærbuxur lágu þar á stól.  Ljósmyndir voru teknar í búðinni og sýna þær m. a. að sími sem tengdur var í forstofunni hafði verið fluttur fram í eldhús og stóð við eldhúsvaskinn. 

A fór á neyðarmóttökuna í Fossvogsspítala rúmlega hálftvö þar sem hún var skoðuð og ræddi bæði við sálfræðing og lækni.  Hefur læknirinn, Rannveig Pálsdóttir, gert skýrslu um þetta og staðfest hana fyrir dómi.  Þar er haft eftir A að ákærði hefði komið drukkinn heim til hennar um morguninn og hefði hún, vegna fyrri ofbeldisreynslu af honum, ekki þorað annað en að hleypa honum inn þegar hann hringdi hjá henni.  Hún hefði reynt að róa hann niður, aðallega vegna ungs sonar sem þarna var.  Hann hefði gengið berserksgang í íbúðinni, brotið fót undan eldhúsborðinu og glerborð.  Hefði hann  kastað henni fram og aftur í eldhúskróknum, tekið fyrir munn henni og kverkar og reynt að hafa við hana samfarir en ekki tekist það þar sem honum stóð ekki.  Hún hefði reynt að tala hann til og gefið honum að borða.  Hefði það ekki borið árangur og hann dregið hana inn í svefnherbergi og slitið af henni nærbuxurnar.  Hefði hún ákveðið að láta þetta yfir sig ganga til þess að sonur hennar yrði ekki hræddur.  Ákærði hefði reynt að hafa við hana samfarir en ekki orðið sáðlát.  Þau mæðginin hefðu svo farið út þegar klukkan var um níuleytið og hún farið á AA-fund.  Þar hefði hún verið hvött til þess að kæra þetta til lögreglunnar.  Hún hefði svo farið heim til sín og verið komin þangað um hádegið og hefði ákærði þá verið farinn.  Í skýrsluni segir að A hefði verið róleg og yfirveguð og virst vera ákveðin í því að losna undan ofbeldi sem hún hefði lengi mátt þola.  Hefði hún ekki virst vera undir áhrifum áfengis eða lyfja.  Þá segir þar að konan hafi verið með rispu og marblett í andliti, rispur og marbletti á handleggjum, marbletti, hvorn á sinni lendinni og annan þeirra lófastóran.  Loks sáust tveir roðablettir á ytri kynfærum konunnar.  Ljósmyndir voru teknar að áverkunum á konunni og fylgja þær málinu.  Loks er þess að geta að tekin voru blóð- og þvagsýni úr konunni og fannst etanól ekki í þeim þegar þau voru rannsökuð hjá lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands.  Nærbuxurnar sem nefndar voru hér að framan hafa verið athugaðar í tæknideild lögreglunnar.  Eru þær úr bómullarefni og höfðu rifnað um klofbótina og annað stykki úr þeim auk þess rifið laust.

A gaf skýrslu hjá lögreglu þetta kvöld.  Sagði hún svo frá að hún hefði kynnst ákærða í febrúar árið 2000 og þau verið í sambandi fram í apríl sama ár að þau slitu því.  Hún kvaðst þó hafa hitt hann af og til eftir það í sambandi við óreglu og hefði hann notfært sér hana kynferðislega, þegar hún hafi drukkið yfir sig í nokkur skipti.  Hún kvaðst eiga þrjú börn og væru þau hjá henni öðru hverju.  Hún kvaðst hafa komið úr áfengismeðferð sl. þriðjudag.  Daginn eftir hefði ákærði komið til hennar að ná í afruglara sem hann átti hjá henni.  Kvaðst hún hafa gert honum ljóst að hún vildi ekki eiga í sambandi við hann og ráðlagði honum að hann leitaði sér aðstoðar vegna geðrænna vandamála.  Hann hefði reiðst þessu og farið.  Um atburði morgunsins sagði hún að hún hefði vaknað klukkan sjö við að einhver hamaðist á dyrabjöllunni.  Hefði hún opnað fram á stigagang, en um leið hefði ákærði ruðst óboðinn inn í íbúðina og virtist talsvert drukkinn.  Hefði hann rokið inn í eldhúsið og brotið fót undan eldhúsborðinu.  Hefði hann tekið borðfótinn með sér inn í stofu og brotið þar glerborð sem á voru  sjónvarpstæki og myndbandstæki.  Hefði hún farið fram í eldhús til þess að reyna að hringja í lögreglu.  Hefði ákærði  komið fram á eftir henni rifið af henni símann og lagt símtólið á hliðina.  Hann hefði svo ráðist á hana.  Hefði hann slegið ofan á hnakka hennar og keyrt höfuðið á henni niður svo það rakst ofan í eldhúsbekkinn og hefði þetta verið talsvert högg.  Hefði hann tekið hana kverkataki og sett aðra höndina fyrir vit hennar.  Hefði hún átt örðugt með andardrátt vegna kverkataksis en hún þá bitið hann í fingur þeirrar handar sem hélt fyrir vitin á henni.  Við það hefði hann sleppt henni og fært sig aðeins frá henni.  Hann hefði svo veist að henni aftur og lumbrað eitthvað á henni.  Hefði hún minnst þess að hafa fengið þung högg á báðar axlir og á hægra upphandlegg.  Hún kvaðst hafa verið klædd í bómullarnærbuxur og hnepptan stuttermabol.  Hefði ákærði rifið utan af henni nærbuxurnar í eldhúsinu og hrint henni aftur á bak á eldhúsbekkinn og hún einhvern veginn lent upp á bekknum.  Hefði hann þrýst henni upp að veggnum með því að halda fyrir kverkar henni með hægri hendi og girt niður um sig buxurnar, niður á mjaðmirnar.  Hefði hún séð að honum stóð ekki.  Hann hefði svo sleppt kverkatakinu, rifið hana á hárinu niður af bekknum, sest á stól og heimtað að hún sygi á honum liminn.  Hún hefði neitað og hann þá sagt orðrétt: "Þú getur bitið hann af mér ef þú vilt."  Hefði hann hrist hana til og rifið í hárið á henni og reynt að þvinga höfuð hennar niður að getnaðarlimnum.  Hefði hún streist á móti og honum því ekki orðið að ætlan sinni og hann sleppt henni.  Kvaðst hún hafa reynt að róa hann og sagt við hann m.a. að hann gæti ekki gert henni þetta þar sem 8 ára sonur hennar væri hjá henni.  Hefði hann þá róast og hún náð svo að tala eitthvað við hann og gefið honum m.a. kaffi og svaladrykk.  Hefði hann róast alveg við þetta svo að hægt var að tala við hann.  A kvaðst hafa veitt því athygli eftir þetta að sonur hennar var kominn fram í stofu og hafði skorið sig á glerbroti.  Hefði hún gert að þessu, klætt hann og gefið að borða.  Meðan á þessu stóð hefði ákærði setið í eldhúsinu og þagað.  Kvaðst hún hafa vitað að ekki þýddi að reka Sigurð út í þessu ástandi, því hann gæti fengið annað kast.  Taldi hún að klukkan hefði verið orðin hálfníu þegar hér var komið sögu.  Kvaðst hún hafa boðið Sigurði að leggja sig í rúmið hennar og ætlað að reyna að komast út með drenginn.  Hefði ákærði farið inn í herbergi hennar, háttað sig og kallað á hana.  Hún hefði talið óhætt að fara inn til hans þar sem hann hafði róast.  Um leið og hún hefði komið inn í herbergið hefði hann þrifið óþyrmilega í vinstri öxl hennar og skipað henni að leggjast upp í rúm.  Hún hefði sagt honum skýrum orðum að hún vildi ekki eiga við hann kynmök og að hún þyrfti að fara út með drenginn.  Hefði hann þá hrist hana og sagt henni að ekki skipti máli hvort hún vildi þetta eða ekki, hún réði því hvort  hún vildi gera þetta með slagsmálum eða ekki.  Hún kvaðst hafa verið orðin verulega hrædd og óttast að hann myndi beita hana frekara ofbeldi.  Hún hefði ekki viljað að sonur hennar yrði vitni að frekara ofbeldi og því ekki þorað annað en að afklæða sig og leggjast í rúmið.  Minnti hana að ákærði hefði lagst upp í rúm á eftir henni, allsnakinn.  Hann hefði heimtað aftur að hún sygi á honum liminn en hún neitað því.  Hann hefði farið að kyssa hana og káfað á brjóstum hennar og kynfærum.  Hefði hann einnig stungið fingrum upp í leggöng hennar.  Loks hefði hann lagst ofan á hana, stungið getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar og haft við hana samræði í alllangan tíma.  Hún minntist þess að sonur hennar hefði bankað þrisvar á herbergisdyrnar sem voru lokaðar en hún þá sagt honum að hún væri alveg að koma fram.  Í þriðja skiptið sem drengurinn bankaði hefði hún náð að smokra sér undan ákærða.  Hefði hún fundið á honum þreytumerki og að honum hafði ekki orðið sáðfall þrátt fyrir langt samræði.  Taldi hún að hann væri kominn að því að sofna og því árætt að smokra sér undan honum.  Hún hefði klætt sig strax, farið fram í stofu og tekið saman föggur fyrir þau mæðginin svo að þau kæmust út.  Hún hefði ekki þorað að fara strax út og hefði hún fyrst boðið ákærða að leggja sig til svefns og taldi hún að hann hefði gert það og þá fyrst þorað að fara út.  Hefðu þau mæðginin farið gangandi til göngudeildar SÁÁ í Síðumúla 3, en hún hefði átt pantaðan tíma þar klukkan ellefu til þess að koma á fund með stuðningshópi.  Þegar hún hefði sagt frá því þar sem í hafði skorist hefði henni verið ráðlagt að leita til lögreglunnar.  Eftir fundinn hefði hún gengið úr Síðumúla heim til sín og þá orðið þess vör að ákærði var farinn þaðan.  Hefði hún þá hringt í lögregluna sem svo hefði ekið henni í neyðarmóttökuna.  Hún kvað þetta ekki vera í fyrst sinn sem ákærði beitti hana ofbeldi og tilgreindi tvö dæmi um það.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 3. júlí sl. að viðstöddum verjanda sínum.  Skýrði hann frá því að hann hefði kynnst A u.þ.b. einu og hálfu ári áður.  Hefðu þau ekki búið saman, en verið í kynferðissambandi síðan þá.  Sambandi þeirra á milli hefði lokið í apríl en þau hefðu þó verið saman eina helgi fyrir nokkrum vikum.  Hefði hún sofið bæði hjá sér og tveimur öðrum mönnum sem hann þekkti.  Kvaðst hann hafa orðið mjög afbrýðisamur út af þessu og mjög reiður henni.  Þar að auki hefði hann farið að heyra sögur úr ýmsum áttum um það að hún svæfi hjá mörgum mönnum.  Kvöldið fyrir atburðinn hefði hann verið á fylliríi á “Grandrokk”.  Eftir lokun þar muni hann hafa farið á veitingastaðinn 22 og verið þar til um klukkan sex um morguninn.  Hefði hann þá fundið aðeins á sér áfengisáhrif.  Hann hefði farið heim til A þennan morgun til þess að skila henni silfurkrossi sem hann var búinn að vera með í fórum sínum.  Þegar hann kom í […] hefði húsið verið opið og hann gengið stigann upp á þriðju hæð þar sem hann barði að dyrum eða hringdi bjöllunni.  Hefði A komið til dyra og opnað fyrir honum. Minnti hann að hún hefði verið klædd pilsi og blússu, en kvaðst þó ekki geta fullyrt það.  Kvaðst hann hafa rétt henni silfurkrossinn.  Kvaðst hann hafa orðið æstur yfir því að hún skyldi ekki nota þá hluti sem hann hefði gefið henni.  Hefði hann farið fram í eldhús og brotið borðið þar, tekið einn borðfótinn og farið með hann inn í stofu og brotið glerborðið í stofunni, en á borðinu var sjónvarp og vídeótæki.  Í framhaldi af þessu hefðu þau farið fram í eldhús þar sem hann hefði viljað spjalla við hana frammi í eldhúsi án þess að sonur hennar heyrði tal þeirra.  Kvaðst hann hafa þrifið í hana þar í eldhúsi og tuskað hana til, en hann treysti sér ekki til að lýsa því nákvæmlega hvernig hann hefði gert það.  Hann kvaðst þó ekki hafa slegið hana.  Mundi hann ekki hvort hann tók A kverkataki, en útilokaði ekki að það gæti hafa gerst í reiðikastinu.  Kvaðst hann hafa rifið nærbuxurnar af henni í eldhúsinu.  Það hefði hann gert í reiði, en ekki í kynferðislegum tilgangi.  Honum hefði svo runnið reiðin og þau farið að spjalla.  Hefði hún sagt honum að hún væri nýhætt með einhverjum strák og að hún vildi ekki vera í sambandi við neinn karlmann næstu sex mánuðina.  Kvaðst hann hafa sagt henni að fara upp á borð þar sem þau skyldu gera eitthvað saman.  Hún hefði sest upp á eldhúsbekkinn og fært fæturna í sundur og hann farið að sleikja á henni kynfærin.  Hann hefði veitt því athygli að sonur hennar var kominn fram í stofu og því beðið hana um að koma með sér inn í svefnherbergi, svo hann yrði ekki vitni að mökum þeirra.  Hefðu þau farið inn í svefnhergi, afklæðst og lagst upp í rúm.  Honum hefði ekki staðið, en hún hefði beðið hann um að sleikja á sér brjóstin á meðan hann fiktaði í klofi hennar.  Hefði hún örvast öll kynferðislega og ástaratlot þeirra varað heillengi.  Honum hefði svo farið að standa og hann byrjað samfarir við hana.  Sonur hennar hefði bankað á herbergisdyrnar þegar hann var byrjaður að eiga ástaratlot við hana en hún sagt drengnum að fara fram.  Hún hefði svo farið fram og sinnt stráknum eitthvað frammi en svo komið aftur inn í svefnherbergi og þau byrjað aftur á kynmökunum.  Strákurinn hefði bankað í annað sinn á dyrnar og þau þá hætt samförunum og farið bæði fram í eldhús.  Hefði hann boðið henni borð í stað þess sem hann braut en hún ekki þegið það.  Þá hefðu þau spjallað þarna eitthvað við strákinn og einnig hefði A boðið sér að gista.  Hefði hún sagt  að hún þyrfti að fara út með strákinn og einnig þyrfti hún að fara í stuðningshóp hjá SÁÁ við Síðumúla.  Hefðu mæðginin farið en hann reynt að sofna en ekki tekist það.  Þá hefði hann farið að leita að kústi til þess að hreinsa til en engan fundið og þá farið.  Eftir þetta hefði hann margreynt að ná símasambandi við A til þess að biðja hana afsökunar á því að hafa brotið húsgögnin og bjóða henni bætur.  Ákærði kvað það rangt að A hefði reynt að hringja eftir að hann var kominn til hennar í íbúðina og neitaði því að hafa hindrað hana í því.  Þá væri það rangt hjá A að hann hefði reynt að þvinga hana til samræðis, eftir að hann reif af henni nærbuxurnar.  Það væri einnig rangt að hann hefði tekið hana kverkataki með annarri hendinni og ýtt henni þannig upp á eldhúsbekkinn og reynt að hafa samræði við hana þar.  Hið rétta væri að hún hefði farið sjálfviljug upp á borðið og hann sleikt á henni kynfærin þar.  Hefði hann ekki beitt hana ofbeldi til að eiga við hana samræði.  Þá væri það rangt að hann hefði reynt að fá hana til munnmaka við sig í eldhúsinu og frásögn hennar af því að hann hefði rifið í hárið á henni og reynt að beygja hana niður til þess væri röng.  Hann hefði hins vegar beðið hana um að gera þetta í svefnherberginu en hún ekki viljað það.

Ákærði gaf aðra skýrslu hjá lögreglunni 27. júlí, einnig að viðstöddum verjanda sínum.  Sagði hann þá að honum hefði varla risið hold en A hefði verið orðin kynferðislega örvuð og margreynt að troða limnum inn í leggöngin á sér.  Það hefði gengið illa, en tekist svo að lokum en þá hefði strákurinn hennar bankað og þau hætt kynmökunum.  Hann kvað það ekki vera ósennilegt að áverkarnir á A væru af hans völdum, þar sem hann hefði tekið á henni, þó án þess að slá hana.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins. 

Ákærði hefur skýrt frá því að hann hafi komið til A snemma að morgni í umrætt sinn til þess að skila henni hlut. Hann kvaðst hafa verið töluvert drukkinn eftir fyllirí um nóttina og hafi hann verið að bíða eftir því að barinn opnaði aftur.  Hafi hann ætlað að nota tímann þangað til og skila hlutnum.  Eftir að hann var kominn inn til hennar hafi orðið orðaskipti og ágreiningur með þeim.  Hafi hún ásakað hann um að hafa verið að blaðra við aðra um einkamál sem hún hefði trúað honum fyrir.  Hún hafi verið reið yfir þessu og orðið hafi átök sem hann kveðst hafa átt upptökin að.  Kveðst hann ekki hafa slegið hana en muna eftir því að hafa tekið utan um hana, utan um hálsinn á henni, um hárið á henni og rykkt höfðinu aftur, tekið um buxnastrenginn og rifið nærbuxur hennar.  Hann hafi gert þetta í reiðikasti en ekki í kynferðislegu skyni.  Hvort hún hafi dottið muni hann ekki.  Hann  kveðst svo hafa brotið borðið í eldhúsinu og sagt að hún skyldi ekki vera að nota muni sem hann ætti og hann hafi svo brotið borðstofuborðið sem hann hafi einnig átt.  A hafi ekki veitt honum neina áverka. Segir hann að þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn að þeim lenti saman en hún hafi aldrei veitt honum áverka.  Ekki muni hann hvernig hún var klædd þegar þetta gerðist.  Honum hafi runnið reiðin og þau farið að spjalla saman og hún gefið honum kaffi.  Hafi hún sagt honum að hún væri nýhætt með stráknum sem hún hafði verið með og eins hafi þau rætt um alkóhólismann og annað.  Hann kveðst hafa beðið hana afsökunar á framkomu sinni þarna á undan og boðist til þess að bæta henni tjónið.  Hann hafi svo farið að láta vel að henni og beðið hana um að “koma upp á borð”.  Hafi hún farið upp á borð, það er að segja “eldhúsbekkinn” af fúsum vilja en þó geti verið að hún hafi verið “frústrasjónuð” þegar hér var komið sögu, eins og hann orðar það, og sjálfsagt hafi hún verið hrædd við hann.  Hún eigi þó að vita af kynnum sínum við hann að þótt hann sé fljótur að reiðast, renni honum reiðin jafnfljótt aftur.  Hafi hann farið að sleikja á henni kynfærin og hafi hann þá verið búinn að renna niður buxnaklaufinni.  A hafi ekki reynt að fara niður af “bekknum” og hafi hún örvast kynferðislega.  Hins vegar hafi honum ekki risið hold þarna í eldhúsinu.  Hann kveðst hafa heyrt í drengnum og þá spurt hvort þau ættu ekki að færa sig inn í svefnherbergið.  Eftir að inn var komið hafi hún skroppið fram til þess að huga að drengnum.  Þarna inni hafi hann beðið hana um að hafa við sig munnmök.  Hún hafi verið orðin mjög kynæst og beðið hann um að sleikja á sér brjóstin og hafi hún reynt að koma limnum inn í leggöngin sem hafi tekist um síðir.   Hefði hann ekki getað það hjálparlaust.  Kveðst hann hafa verið nýkominn með hann inn í leggönginn þegar drengurinn hafi bankað hjá þeim og þau þá hætt kynmökunum.  Segir ákærði frásögn A hjá lögreglunni af atburðunum ekki vera sannleikanum samkvæma.  Ákærði segist ekki vita til þess að hún hafi reynt að hringja meðan hann var þarna.  Segir hann að það hefðu verið hæg heimatökin fyrir hana að gera það þegar hún skrapp fram og eins þegar hún bauð honum að gista á eftir og lokaði herbergisdyrunum.  Hann kveðst ekki neita því að áverkarnir á A séu af hans völdum, þó hann geti ekki skýrt þá nánar.   

Ákærði segir að þau hafi verið saman fram í mars á síðasta ári en um eiginlega sambúð hafi aldrei verið að ræða.  Hún hafi þó dvalið hjá sér af og til á þeim tíma sem þau voru saman.  Hafi hún oft verið sinnulítil um börn sín og það komið í hans hlut stundum að hugsa um þau meðan hún hafi verið í slarki.  Hann segir að A sé mjög lauslát og hafi hún t. d. átt kærasta eftir að þau hættu saman en samt hafi hún verið með sér um helgi stuttu áður en þetta gerðist.  Þá hafi hún verið með vinum hans meðan þau voru saman og í eitt skiptið hafi hún verið með þremur mönnum á sama sólarhringnum.  Þegar hann er spurður hvaða ástæðu hún geti þá haft til þess að kæra hann fyrir nauðgun segir hann að hún sé búin að sjá sér út “nýtt hlutverk sem fórnarlamb” og hugsanlega sjái hún einhverja fjárvon í því.  Sé þetta búið að vera eins og “heilt leikrit”.

A hefur komið fyrir dóminn.  Hún hefur sagt að samband þeirra, ef hægt sé að tala um samband, hafi byrjað með því að þau fóru að drekka saman í febrúar 2000. Hafi þau aðallega hist um helgar.  Hafi þetta varað fram í apríl það ár að hún sleit sambandinu og fór í áfengismeðferð.  Þau hafi aldrei búið saman. Eftir að sambandinu lauk hafi þau hist í nokkur skipti og eitthvað átt vingott saman og drukkið saman.  Í ágúst hafi hann misþyrmt henni og hún þá farið að gera sér grein fyrir því hvað þetta væri allt brenglað.  Daginn fyrir atburðinn hefði ákærði komið að sækja “afruglara” sem hann hafi átt hjá henni.  Kveðst hún þá hafa gert honum ljóst að hún vildi ekki eiga nein samskipti við hann.  Hún segist hafa verið sofandi þegar dyrabjöllunni að íbúðinni var hringt ákaft hjá henni.  Hún hafi opnað fram og þá hafi ákærði staðið þar, mjög drukkinn, og hafi svo ruðst inn. Hún hafi verið klædd í nærbuxur og bol.  Minnir hana að hún hafi reynt að stöðva för hans en hann hafi ætt inn í stofu og þaðan fram í eldhús þar sem hann braut eldhúsborðið.  Hún segir það rangt hjá ákærða að þau hafi farið að rífast út af einhverju blaðri um einkamál eða nokkð yfirleitt.  Hann hafi farið inn í stofu og gengið berserksgang þar og m.a. brotið stofuborðið.  Hún segist hafa tekið símann sem sé tengdur í forstofunni með langri snúru og farið með hann fram í eldhús til þess að hringja á lögregluna.  Hafi hann þá komið og tekið utan um hana og tekið af henni símann.  Hann hafi króað hana af í eldhúsinu og ýtt henni upp í eitt hornið og þrýst höfði hennar áfram og niður í “eldhúsbekkinn”.  Hann hafi tekið um hendurnar á henni.  Hann hafi svo snúið henni við og rifið nærbuxurnar sem hún var í.  Hann hafi girt niður um sig og hún séð að honum stóð ekki. Sé það rangt hjá ákærða að hann hafi sleikt á henni kynfærin.  Hann hafi tekið stól og sest á hann.  Hafi hann tekið í hnakkann á henni og ýtt höfði hennar niður og sagt henni að totta “hann” á sér.  Hafi hann sagt að hún gæti þá alla vega bitið hann af sér.  Hún kveðst sífellt hafa beðið ákærða um að hætta þessu, minnt hann á að drengurinn væri hjá henni og reynt að höfða til hans betri manns.  Eins hafi hún brotist um og barist gegn þessu.  Hafi hún bitið hann í fingur þegar hann hélt fyrir munninn á henni.  Hafi hann fljótlega róast niður og hún gefið honum kaffi og klætt sig.  Taldi hún að kastið væri liðið hjá.  Hún hafi farið að huga að drengnum sínum sem hafi þá verið kominn fram í stofu og setið þar skelfdur með glerbrot í fætinum.  Gerir hún ráð fyrir að hann hafi séð aðfarir ákærða.  Segist hún hafa sinnt drengnum smástund.  Hún hafi hugsað um það eitt að róa ákærða niður og að flýja svo út með drenginn. Af fyrri reynslu og vegna þess að sonur hennar var staddur hjá henni hafi hún viljað forðast læti.  Hafi hún vitað að ekki tjóaði að reyna að reka ákærða út eins og hann var stemmdur.  Hafi hún því spurt hann hvort hann vildi ekki bara leggja sig inni í svefnherberginu hennar og hann farið þangað inn.  Hún hafi fært honum vatnsglas að hana minnir og hann þá rétt henni kross sem hún átti hjá honum.  Hún hafi svo farið fram að undirbúa það að þau drengurinn forðuðu sér út.  Hafi ákærði kallað til hennar innan úr herberginu og hún farið inn til hans.  Hann hafi þá verið háttaður að einhverju leyti en staðinn upp aftur.  Þegar hún hafi ætlað fram aftur hafi hann tekið í öxlina og í hárið á henni og hrist hana til.  Hafi hann sagt:  “Komdu upp í rúm.”  Hún hafi neitað því en hann þá sagt að hún réði því hvort hún kæmi upp í rúm með góðu eða illu.  Hún segist hafa verið eins og písl í höndum hans og henni hafi verið efst í huga að forðast læti vegna drengsins.  Hafi hún því ákveðið að láta þetta yfir sig ganga, klætt sig úr og farið upp í rúmið.  Hafi hún lagst út af í rúmið og verið stíf.  Hann hafi eitthvað farið að strjúka hana og kyssa.  Hún man ekki hvernig limurinn var á honum en hann hafi komið honum inn í hana og hún ekki hjálpað til við það.  Hann hafi haft samræði við hana þarna í rúminu.  Fannst henni þetta taka alllanga stund en honum hafi ekki orðið sáðfall.  Meðan á þessu stóð hafi drengurinn bankað á herbergisdyrnar og hafi það gerst þrisvar sinnum.  Í tvö skipti hafi hún sagt honum að bíða og að hún kæmi fram aftur.  Þegar hann bankaði í þriðja sinnið hafi hún sagt “komdu inn” og drengurinn komið inn.  Þá hafi ákærði líka verið við það að sofna og hún getað smeygt sér undan honum.  Hafi þau drengurinn klætt sig og farið út og gengið í Síðumúla þar sem hún átti að mæta á stuðningsfund hjá SÁÁ.  Hafi hún ekki ætlað sér að kæra þetta en fólkið á fundinum og ráðgjafi samtakanna sem þarna var hafi hvatt hana til þess að kæra yfir þessu.  Drengurinn hafi beðið frammi meðan hún var á fundinum.  Hún hafi svo farið heim og hringt í lögregluna.  Hafi ákærði þá verið farinn.

Rannveig Pálsdóttir læknir hefur sagt frá því fyrir dómi að A hafi verið tiltölulega róleg og yfirveguð þegar hún kom á neyðarmóttökuna.  Hins vegar kveðst hún hafa fundið að það var mikið álag fyrir hana að koma.  Þá segist hún hafa fundið inn á það hjá konunni að henni hafði verið misboðið um langt tímabil.  Á henni hafi verið talsverðir ferskir áverkar sem líklegt hafi verið að stöfuðu af átökum.  Geti áverkarnir á konunni samrýmst frásögn hennar.  Að því er varðar roðann á kynfærunum þá sé einnig hugsanlegt að hann hafi komið til við það að konan hafi verið að troða getnaðarlimnum inn í leggöngin.  

Ríkarður Örn Steingrímsson lögreglumaður hefur skýrt frá því að þegar hann hafi komið í […] og hitt A hafi honum orðið ljóst að konunni var mikið niðri fyrir.  Eins hafi verið ljóst af ummerkjum í íbúðinni að mikið hafði gengið þar á.  Borð hafi verið brotin, bæði í eldhúsi og stofu.  Konan hafi skýrt þeim frá því sem gerst hafði og virtist hún vera gráti næst.  Hún hafi sagt að ákærði, sem hún sagði deili á, hefði komið fyrr um morguninn og verið með læti.  Hefði hún ekki þorað annað en að hleypa honum inn svo að látunum linnti hjá honum.  Hann hefði strax byrjað með læti eftir að hann var kominn inn.  Hefði hann reynt að hafa við hana mök en henni tekist að róað hann eitthvað niður.  Seinna hefði hann dregið hana inn í herbergi og getað þar komið fram vilja sínum við hana.

Kristín Ásgeirsdóttir er ráðgjafi hjá SÁÁ og hitti A þegar hún kom í húsnæði samtakanna umræddan morgun.  Segir hún A hafa verið beygða og liðið illa og verið greinilegt að eitthvað sérstakt bjátaði á hjá henni.  Hafi hún átt erfitt með að tjá sig.  Hún hafi þó sagt að maður sem hún hefði verið í tygjum við hefði ruðst inn til hennar, ekki í fyrsta sinn, og hefði hann beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.  Hún hafi ekki lýst þessu nánar og kveðst Kristín hafa ráðlagt henni að kæra til lögreglunnar.

Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur hitti A á neyðarmóttökunni þegar hún kom þangað þennan föstudag.  Hafi A verið í miklu tilfinningalegu uppnámi þegar hún kom.  Hafi hún sagt að maður sem hún hafði slitið sambandi við hefði ekki látið hana í friði.  Daginn áður hefði hann komið til hennar og hún þá sagt honum að hún vildi engin frekari samskipti við hann eiga.  Hann hefði áður beitt hana ofbeldi og hún því verið hrædd þegar hann kom til hennar þennan morgun.  Hún hefði ekki þorað annað en að hleypa honum inn.  Maðurinn hefði brotið húsgögn hjá henni og hún þá ætlað að hringja á lögregluna.  Maðurinn hefði tekið af henni símann og ráðist á hana.  Hefði hún ekki þorað að taka á móti því að þá myndi hann hafa orðið óður.  Hún hafi mest hugsað um forða því að sonur hennar yrði vitni að átökunum.  Hefði maðurinn rifið hana úr nærbuxunum og skellt henni upp á borð og ætlað að nauðga henni en ekki risið hold.  Hún hefði umfram allt reynt að róa hann niður vegna drengsins og fengið hann til þess að þiggja kaffi og morgunmat.  Hefði hún ætlað að sæta lagi og laumast út með drenginn.  Maðurinn hefði dregið hana inn í herbergi og nauðgað henni.  Eftir það hefði hún farið í Síðumúlann og hitt þar fólk.  Hefði hún grátið þar og fólkið ráðlagt henni að kæra manninn til lögreglunnar.  Vitnið kveðst svo hafa hitt A í sálfræðiviðtölum í fjögur skipti.

Niðurstaða

I.  Ákærði hefur viðurkennt að hafa unnið þau spjöll á húsmunum í íbúð A sem greinir í I. kafla ákærunnar.  Styðst sú játning hans við skýrslu A og önnur gögn í málinu.  Ákærði hefur sagt að hann hafi átt bæði borðin sem hann braut.  Borðin voru í vörslum A og hann hefur ekki leitt neinar líkur að því að hann hafi átt þau.  Verður að hafna þessari viðbáru ákærða og sakfella hann fyrir að hafa skemmt þau og brotið þannig gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.

II.  Ákærði hefur viðurkennt að hafa tekið um hálsinn á A, rifið og rykkt í hárið á henni og rifið utan af henni nærbuxurnar og tuskað hana til.  Stafi áverkarnir á henni af þessu.  Hann hefur einnig eins og fyrr segir viðurkennt að hafa brotið fyrir henni húsmuni. Hann viðurkennir að hafa reynt að hafa við hana samræði þarna í eldhúsinu en honum hafi ekki staðið þegar á reyndi.  Hann neitar því hins vegar að hafa reynt að neyða konuna til þess að sjúga á honum liminn.  Sú staðhæfing hans að konan hafi viljað hafa við hann kynferðismök í eldhúsinu er fjarstæð í ljósi þess sem fyrir liggur að á undan var gengið og hann hefur sagt um rifrildi þeirra í upphafi.  Þá er það einnig mótsagnarkennt í frásögn hans að hann hefur sagt að konan hafi bæði verið, eins og hann orðar það, “frústrasjónuð” og hún hafi sjálfsagt verið hrædd við hann en jafnframt fús til samfara við hann.  A hefur verið stöðug í frásögn sinni um gerðir ákærða í eldhúsinu allt frá upphafi.  Þykir frásögn hennar samrýmast áverkunum sem á henni voru og staðsetning símtækisins styður hana einnig.  Þá er frásögn hennar trúverðug í sjálfu sér og í samræmi við önnur sýnileg sönnunargögn í málinu.  Loks er frásögnin í samræmi við það sem vitni hafa eftir henni um atburðinn í eldhúsinu, einkum þau Ríkarður Örn Steingrímsson lögreglumaður, Rannveig Pálsdóttir læknir og Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur sem hittu hana um og upp úr hádeginu þennan dag.  Verður að leggja frásögn A til grundvallar og telja það vera sannað að ákærði hafi reynt að þröngva konunni til samræðis með ofbeldi og á sama hátt reynt að þröngva henni til þess að sjúga á sér getnaðarliminn.  Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

III.  Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft samræði við A inni í svefnherbergi hennar.  Hann hefur aftur á móti sagt að það hafi verið með fullum vilja hennar.  Segir hann að hún hafi verið orðin mjög örvuð kynferðislega og þar sem honum hafi ekki staðið hafi hún þurft að troða limnum inn í leggöngin.  Með vísan til þess sem segir hér næst á undan um það sem áður gekk á verður að telja að frásögn ákærða um að konan hafi verið fús til samfaranna og mjög örvuð kynferðislega sé einnig fjarstæð.  A hefur sagt að ákærði hafi tekið í öxlina og í hárið á henni og hrist hana til og sagt henni að koma upp í rúm.  Þegar hún hafi neitað hafi hann sagt hún réði því hvort hún kæmi upp í rúm með góðu eða illu.  A hefur verið stöðug í frásögn sinni um athæfi ákærða í svefnherberginu allt frá upphafi.  Þá er frásögn hennar trúverðug í sjálfu sér og í samræmi við það sem vitni hafa eftir henni um atvikið, einkum þau Ríkarður Örn Steingrímsson lögreglumaður, Rannveig Pálsdóttir læknir og Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur.  Verður að byggja á frásögn hennar og telja það vera sannað að hann hafi beitt hana ofbeldi með þeim hætti sem hún lýsti og einnig ofbeldishótun og þröngvaði henni með því til samræðis.  Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Sakferill ákærða skiptir ekki máli hér.  Þegar ákærða er ákvörðuð refsing verður að líta til þess að hann ruddist inn á A og 8 ára gamlan son hennar, braut húsmuni og braut tvisvar gegn henni kynferðislega.  Sérstaklega eykur það á sök ákærða að hann gerði þetta þótt hann vissi af barninu á heimilinu.  Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.

Helga Leifsdóttir hdl. gerir þá kröfu fyrir hönd A að ákærði verði dæmdur til þess að greiða henni 1.120.000 krónur í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum frá 29. júní 2001 til greiðsludags.  Krafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 og III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, nú III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001.  Hún sundurliðast sem hér segir:

miskabætur  1.000.000 króna

bætur fyrir ónýtt sjónvarpstæki     80.000 kr.

bætur fyrir ónýtt eldhúsborð     20.000 kr.

bætur fyrir ónýtt stofuborð     20.000 kr.

Bætur fyrir miska þykja vera hæfilega ákveðnar 800.000 krónur.  Þá þykir kröfunni um bætur fyrir fjárhagstjón vera í hóf stillt og ber að dæma ákærða til þess að greiða hana.  Þá ber að dæma hann til þess að greiða dráttarvexti af bótafjárhæðinni samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu frá 29. júní 2001 til greiðsludags.

Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin laun fyrir málsvörn hjá lögreglu og fyrir dómi til Arnar Clausen hrl., 250.000 krónur, og réttargæslulaun til Helgu Leifsdóttur hdl., 200.0000 krónur.  Ekki eru efni til þess að dæma dráttarvexti af réttargæslulaununum, eins og krafist er og málsvarnar- og réttargæslulaunin dæmast án virðisaukaskatts.

Pétur Guðgeirsson, Friðgeir Björnsson og Skúli J. Pálmason héraðsdómarar kváðu upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Sigurður Páll Guðjónsson, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði A 920.000 krónur í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum frá 29. júní 2001 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til Arnar Clausen hrl., 250.000 krónur, og réttargæslulaun til Helgu Leifsdóttur hdl., 200.0000 krónur.