Hæstiréttur íslands

Mál nr. 92/2006


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Íþrótt
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. október 2006.

Nr. 92/2006.

Aðalsteinn Svanur Grétarsson

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

Ísafjarðarbæ og

Súðavíkurhreppi

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Íþróttir. Gjafsókn.

A varð fyrir slysi á skíðasvæði Í er hann var í skíðaferð á vegum grunnskóla í S. Varð slysið með þeim hætti að A féll er hann stökk á skíðum af palli, sem gerður var fyrir skíðabrettaiðkendur. Ekki lágu fyrir í málinu greinargóðar upplýsingar um aðstæður á slysstað, en vitni höfðu borið að þau hafi talið umræddan pall hættulegan bæði með tilliti til gerðar hans og staðsetningar. Var Í látið bera hallann af framangreindum skorti á upplýsingum og var skaðabótaábyrgð á tjóni A lögð á sveitarfélagið, en vegna eigin sakar var A gert að bera helming tjóns síns sjálfur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 11.562.762 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.849.264 krónum frá 19. mars 2002 til 1. september sama ár, en af 11.562.762 krónum frá þeim degi til 26. febrúar 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að sök verði skipt í málinu og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi slasaðist 19. mars 2002 er hann féll eftir stökk af palli sem gerður var fyrir skíðabrettaiðkendur á skíðasvæði Ísafjarðabæjar í Tungudal. Hann var þátttakandi í ferð sem farin var á vegum Grunnskóla Súðavíkur.

 Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að ekki sé fyrir að fara saknæmri háttsemi starfsmanna stefnda Súðavíkurhrepps, þannig að skaðabótaábyrgð verði felld á hreppinn vegna slyss áfrýjanda.

Eins og fram kemur í héraðsdómi er ekki að finna í gögnum málsins myndir eða uppdrætti af vettvangi slyssins ef undan eru skilin mynddiskur með upptöku Sindra Vestfjörð Gunnarssonar af stökki áfrýjanda og loftmynd af hluta skíðasvæðisins, tekin að sumarlagi. Að beiðni annars lögreglumannanna sem komu á vettvang var palli þeim eða upphækkun sem áfrýjandi stökk af rutt niður af starfsmönnum stefnda Ísafjarðarbæjar strax eftir slysið. Taldi lögreglumaðurinn, eins og sum önnur vitni er skýrslur gáfu fyrir dómi, pallinn vera hættulegan bæði með tilliti til gerðar hans og staðsetningar. Ekki er fallist á með héraðsdómi að ófært sé að leggja hallann af því á stefnda að upplýsingar skorti um gerð pallsins. Þvert á móti stóð það stefnda Ísafjarðarbæ nær, sem umsjónaraðila skíðasvæðisins, að afla og leggja fram slíkar upplýsingar. Að auki verður ekki annað séð en að honum hafi verið í lófa lagið að leggja fram uppdrætti af skíðasvæðinu þar sem fram kæmu upplýsingar um staðsetningu skíðabrauta, skíðalyftu, afstöðu pallsins til almennra skíðaleiða á svæðinu, snjólag á staðnum og fleiri atriði sem nauðsynleg eru til að leggja mat á atvik að slysi áfrýjanda. Á framangreint einkum við þegar metin er þörf fyrir merkingar og hversu ljós sú hætta hafi verið sem fólst í að renna sér á skíðum að pallinum og stökkva af honum. Raunar er fram komið að sérstakar merkingar hafi verið einhvers staðar við umræddan pall en þær ekki verið fyrir hendi þann dag er slysið varð. Hvorki er upplýst hvar þær voru nákvæmilega staðsettar né hvernig þeim var að öðru leyti háttað. Að öllu þessu virtu verður stefndi Ísafjarðarbær talinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.

Fallist er á með héraðsdómi að áfrýjandi hafi sýnt af sér gáleysi er hann renndi sér fram af umræddum stökkpalli eða upphækkun án þess að kanna áður aðstæður, en á stöðum sem þessum má búast við ýmsum hættum. Af þeim sökum verður hann látinn bera helming tjóns síns sjálfur.

Ekki er tölulegur ágreiningur um útreikning kröfu áfrýjanda og verður stefndi Ísafjarðarbær því dæmdur til að greiða honum 5.781.381 krónu með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Rétt þykir að stefndi Ísafjarðarbær greiði áfrýjanda hluta af málskostnaði hans í héraði og einnig hluta af málskostnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði allt eins og í dómsorði greinir. Málskostnaður milli áfrýjanda og stefnda Súðavíkurhrepps fellur niður bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndi, Súðavíkurhreppur, er sýkn af kröfu áfrýjanda, Aðalsteins Svans Grétarssonar.

Stefndi, Ísafjarðarbær, greiði áfrýjanda 5.781.381 krónu, með 4,5 % ársvöxtum af 1.924.632 krónum frá 19. mars 2002 til 1. september sama ár, en af 5.781.381 krónu frá þeim degi til 26. febrúar 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi, Ísafjarðarbær, greiði áfrýjanda 300.000 krónur í málskostnað í héraði. Stefndi, Ísafjarðarbær, greiði 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 500.000 krónur. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur að öðru leyti niður.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 23. janúar 2006.

Mál þetta sem var dómtekið 17. þ.m. er höfðað við þingfestingu þess 19. janúar 2005.  Stefnandi er Aðalsteinn Svanur Grétarsson, Holtsgötu 13, Súðavíkurhreppi, en stefnt er Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér óskipt 11.562.762 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 3.849.264 krónum frá 19. mars 2002 til 1. september sama ár, af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til 26. febrúar 2004, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað.  Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Stefndu krefjast þess að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.  Til vara krefjast þeir þess að sök verði skipt og málskostnaður látinn falla niður.

Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar kröfur af sinni hálfu.

I.

Stefnandi var nemandi í Súðavíkurskóla í mars 2002, en þann 19. þess mánaðar var haldinn skíðadagur við skólann.  Var farið með nemendur á skíðasvæði sem stefndi Ísafjarðarbær rekur í Tungudal.  Stefnandi renndi sér þar á skíðum niður brekku og á snjópall sem hafði verið gerður þar og ætlaður snjóbrettaiðkendum.  Er hann kom á pallinn fór hann beint upp í loft og snerist og missti alla stjórn á því hvernig hann kæmi niður.  Hann lenti í brekkunni fyrir neðan með höfuð og herðar fyrst og fór nokkrar veltur niður hana.  Hann missti meðvitund, var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur og lagður inn á gjörgæsludeild.  Hann var útskrifaður af endurhæfingardeild (Grensásdeild) 19. júlí 2002.

Slysið hafði miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir stefnanda.  Í niðurstöðu matsgerðar læknanna Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar, sem þeir gerðu að ósk lögmanns stefnanda og réttargæslustefnda kemur fram að hann hafi vegna slyssins fengið alvarlegan dreifðan heilaáverka.  Af honum stafi breytt skapgerð, minnistruflun og lömun í hægra fæti.  Þá hafi hann einnig fengið lungnaáverka.  Vegna afleiðinga áverkanna hafi hann fitnað verulega.  Séu þrek og úthald verulega skert.  Kemur fram að ólíklegt sé að hann geti lokið bóklegu eða verklegu námi og að afleiðingar slyssins muni gera honum mjög erfitt um vik að stunda nokkra launaða vinnu.  Læknarnir meta varanlegan miska stefnanda vegna slyssins 60% og varanlega örorku 80%.  Hann hafi misst af sumarvinnu í júní, júlí og ágúst 2002 vegna slyssins. Teljist hann hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga frá 19. mars 2002 til 1. september sama ár og þar af rúmliggjandi frá 19. mars 2002 til 19. júlí sama ár.  Ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir 1. september 2002.

II.

Stefnandi byggir á því að stökkpallurinn hafi verið stórhættulegur.  Þrátt fyrir að hann hafi haft ágætis reynslu af skíðaiðkun hafi hann ekki átt möguleika á að bjarga sér eftir að hann kom í pallinn og slysið verið óumflýjanlegt.  Starfsmenn stefnda Ísafjarðarbæjar hafi rutt pallinum niður eftir slysið og hafi því ekki verið unnt að mæla hann á fullnægjandi hátt eða mynda.  Verði sá stefndi að bera hallann af því að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn á orsökum og ástæðum slyssins.  Þó verði ráðið af þeim myndum sem til eru af slysinu og slysstaðnum að ekki leiki vafi á því að óvarlegt hafi verið að hafa þennan pall opinn fyrir skólabörnunum og það án viðvarana eða öryggisráðstafana.  Starfsfólk stefnda Ísafjarðarbæjar beri ábyrgð á þeirri hættu sem stafaði af pallinum, þar sem það hafi ekki gætt þess að fjarlægja hann eða loka honum fyrir almennri umferð skíðafólks.  Þá hafi stefnandi, sem hafi verið barn að aldri, verið í umsjá Grunnskólans í Súðavík, enda skíðadagurinn verið hluti af starfi skólans.  Skólastjóra, kennara og öðrum starfsmönnum skólans hafi borið að tryggja öryggi barnanna eftir fremsta megni og vara þau við augljósum hættum á skíðasvæðinu.  Telur stefnandi stefndu því beri sameiginleg og óskipt sök á tjóni sínu.

III.

Í greinargerð stefndu er tekið fram að nemendur í skólaferðalagi á skíðasvæðið í Tungudal hafi verið 27, á aldrinum 6-15 ára og stefnandi verið annar tveggja nemenda í 10. bekk.  Með í för hafi verið fimm kennarar og þrír foreldrar auk húsvarðar.  Eldri nemendur hafi fengið að fara í lyftur í fylgd eins kennara er á svæðið var komið, eftir að brýnt hafi verið fyrir þeim hvar mætti renna sér og að það mætti aðeins á hefðbundnu skíðasvæði.  Slys það sem stefnandi varð fyrir hafi orðið nokkrum mínútum eftir að komið var á staðinn.  Virðist svo vera að eldri nemendur hafi verið búnir að ákveða að stefnandi stykki af pallinum og annar nemandi tæki stökkið upp á myndband.

Starfsmenn skíðasvæðisins hafi útbúið þennan stökkpall í samráði við snjóbrettaiðkendur.  Hafi hann einungis verið ætlaður þeim og verið nokkuð langt frá merktri svigskíðaleið.  Hafi hann ekki getað talist hættulegur til þeirra nota sem hann var ætlaður.  Að höfðu samráði við lögreglumenn á vettvangi hafi pallinum verið rutt niður.  Sams konar pallur hafi verið útbúinn tveimur dögum síðar og hann staðið til loka skíðavertíðarinnar.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi sjálfur lagt sig í mikla hættu með þeirri ákvörðun að stökkva af pallinum, sem ekki hafi verið ætlaður til nota á svigskíðum, án hjálms eða öryggisbúnaðar og að því er virðist án kunnáttu til að framkvæma stökk sem þetta.  Pallurinn hafi verið utan venjulegra skíðaleiða og stefnandi því hunsað fyrirmæli kennara.  Hann hafi verið 15 ára er slysið varð og því mátt gera sér grein fyrir því hve hættuleg hegðun hans væri.  Ekki hafi verið sýnt fram á að pallurinn hafi verið hættulegur eða falið í sér sérstaka hættu.  Hann og aðrir sambærilegir sem hafi verið gerðir á skíðasvæðinu hafi ekki sýnt að hætta stafaði af þeim.  Verði að gera þá kröfu til skíðamanna að þeir sýni aðgát og renni sér á merktum skíðaleiðum.  Þá sé ekki orsakasamband milli gerðar pallsins og slyss stefnanda, sem hafi misst vald á skíðunum áður en að pallinum kom, sem sé hin raunverulega ástæða slyssins. 

Hvað starfsmenn stefnda Súðavíkurhrepps varði sérstaklega, þá hafi þeim verið ómögulegt að koma í veg fyrir slysið eða gæta öryggis skólabarnanna betur en gert hafi verið.  Eðlilegt hafi verið að leyfa unglingunum að fara sjálfum í skíðalyfturnar og renna sér í hefðbundnum brekkum.  Einn kennari hafi fylgt þeim, en stefnandi hafi rennt sér út fyrir hefðbundna skíðaleið, og starfsmönnum skólans ekki verið unnt að koma í veg fyrir þá atburðarás.

IV.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kveðst ekki muna neitt eftir stökkinu og aðdraganda þess.  Hann kveðst hafa stundað skíðaíþróttina nokkuð meðan hann bjó í Hafnarfirði og æft hana þar með íþróttafélagi.  Hann kveðst hafa komið á skíðasvæðið í Tungudal áður.  Hann kveðst hafa stokkið af palli í Bláfjöllum.  Hann kveðst ekki muna hvort hann hafi skoðað pallinn sem hann slasaðist á.

Móðir stefnanda, Halldóra Pétursdóttir, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún kvað stefnanda hafa hætt reglubundinni skíðaiðkun eftir að þau fluttu hingað vestur árið 1996, en annað slagið hafi hann farið upp í fjall með krökkunum.  Hann hafi verið vel fær á skíðum.

Rósamunda Jóna Baldursdóttir lögregluvarðstjóri gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún kom á slysstað og var þá búið að flytja stefnanda niður að skíðaskálanum.  Hún kveðst hafa gengið að stökkpallinum en ekki gert rannsókn á honum.  Hún kveðst hafa gefið fyrirmæli um að pallinum yrði rutt niður.  Hefði sér sýnst hann hættulegur og yrði annað hvort að ryðja honum niður eða girða hann af.  Spurð um staðsetningu hans sagði hún að hann hefði verið þeim megin sem færri renna sér í brattri brekku.  Spurð hvort hún hefði metið það svo að pallurinn væri hættulegur fyrir brettafólk kvaðst hún ekki geta lagt mat á það.

Leifur Halldórsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kveðst ekki hafa farið að pallinum í fyrstu og farið með sjúkrabílnum til aðstoðar.  Hann hafi farið á vettvang síðar um daginn.  Ritaði hann um það minnisblað dagsett 8. maí 2002 sem liggur frammi í málinu.  Kemur fram í minnisblaðinu að hann og maður sem með honum var hafi metið pallinn hafa verið a.m.k. tveggja metra háan.  Er Leifur kom á vettvang var búið að ryðja pallinum niður.  Leifur lýsir staðsetningu pallsins þannig að hann hafi verið norðan við lyftuna og hafi verið auðvelt að renna sér að honum.  Hann hafi ekki getað séð að neinar merkingar eða viðvaranir væru þarna til að bægja skíðamönnum frá pallinum.

Baldur Ingi Jónasson kennari gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann var einn af starfsmönnum Grunnskólans í Súðavík sem fylgdu nemendum á skíðasvæðið.  Hann kveðst hafa verið á leið upp í neðstu skíðalyftunni er hann sá til stefnanda rétt áður en hann stökk.  Stefnandi hafi verið á mikilli ferð og of mikilli að mati vitnisins miðað við stærð pallsins.  Vitnið kveðst hafa verið búinn að vísa nemendum á snjóþotum frá pallinum skömmu áður.  Spurður hvort hann teldi pallinn hafa verið hættulegan skíðamönnum kvaðst hann telja að það færi sjálfsagt eftir því hve góðir skíðamenn þeir væru.  Hann nefndi að stefnandi hefði orðið með fyrstu mönnum af stað er á skíðasvæðið var komið.  Spurður hvort pallurinn hefði verið langt úr leið fyrir skíðamenn kvaðst hann ekki geta dæmt alveg um það.  Vitnið kveðst hafa heyrt það eftir á að það hefði verið fyrirfram ákveðið á leiðinni á skíðasvæðið að stefnandi stykki af pallinum.

Vitnið segir það hafa verið árlegan viðburð að fara á skíðasvæðið og hafi almennar öryggisreglur verið brýndar fyrir nemendum fyrirfram, þ.e. að gæta þess að fara ekki of nálægt öðrum, taka tillit til yngri nemenda og fara ekki í sviga í skíðalyftum.  Sjálfur hefði hann farið yfir þetta með elstu börnunum.  Mælst hefði verið til þess að börnin notuðu hjálma ef þau ættu, en hann myndi ekki hvort þeim hefðu verið útvegaðir hjálmar á svæðinu sjálfu.  Elstu nemendunum hefði verið heimilt að fara í efri lyftuna ef þeir treystu sér til.  Hann tók fram að starfsmenn skólans hefðu ekki vitað af tilvist pallsins fyrr en komið var á svæðið.

Vitnið Guðmundur Birgir Ragnarsson var einn af starfsmönnum Grunnskóla Súðavíkur í ferðinni.  Börnin hefðu verið komin inn á svæðið er hann kom þangað.  Aðstæður hafi verið nokkuð erfiðar og hafi yngri börn sem renndu sér á sleðum runnið alveg niður á bifreiðastæði.  Vitnið kveðst ekki hafa vitað til að stökkpallur væri á svæðinu fyrr en í þann svipinn er hann sá stefnanda stökkva.  Kveðst vitnið hafa athugað pallinn og talið hann hættulegan, nema þá brettafólki.  Spurður hvort þurft hefði að fara langt úr leið til að renna sér að pallinum sagði vitnið að þurft hefði að fara út úr skíðaleiðinni til þess.

Vitnið Sigurdís Samúelsdóttir var eitt þeirra foreldra sem fylgdi nemendum. Hún kvað engan hafa tekið á móti þeim af hálfu starfsmanna svæðisins.  Kennarar hafi sagt eldri nemendum að þeir mættu fara, en yngri nemendum hafi verið settar skorður um það hvar þeir færu.  Hún kveðst hafa séð stefnanda renna sér af stað og stökkva af pallinum.  Spurð hvort brekkan niður að pallinum hefði verið troðin kvað hún nei við.

Vitnið Sindri Vestfjörð Gunnarsson var nemandi í skólanum.  Hann segir að stúlka í skólanum hafi sagt þeim stefnanda frá því áður en ferðin var farin að stökkpallur væri kominn á skíðasvæðið.  Þeir stefnandi hafi þá þegar ákveðið að stökkva af pallinum.  Hefur hann eftir stefnanda að stefnandi hafi haft einhverja reynslu af skíðastökki.  Hann hafi tekið með sér myndavél til að taka mynd af stökkinu.  Stefnandi hafi haft símasamband við hann ofan úr brekkunni til að spyrja hvort hann væri tilbúinn að mynda og farið af stað er vitnið kvaðst vera tilbúinn að mynda.  Vitnið kveðst ekki hafa vitað að pallurinn væri eingöngu ætlaður brettafólki og engar merkingar hafi gefið það til kynna.  Þeir hafi ekki skoðað pallinn áður en stefnandi stökk, en virt hann fyrir sér neðan frá skíðaskálanum. 

Vitnið Jóhann Króknes Torfason er forstöðumaður skíðasvæðisins í Tungudal.  Hann kveðst ekki hafa verið staddur á svæðinu er hópurinn kom þangað um morguninn.  Hann kveður pallinn hafa verið byggðan um 10 dögum áður fyrir snjóbrettafólk og að beiðni þess.  Hafi forskrift að lögun hans og gerð verið í samráði við það og farið eftir ákveðnum reglum sem menn setji sér.  Þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem slíkur pallur var gerður.  Stökkpallur fyrir skíðafólk sé allt annarrar gerðar.  Spurður hvort pallurinn hafi verið hættulegur til að stökkva af honum á skíðum kvað hann það erfitt að segja, en það segi sig sjálft að það fari eftir getu manna.  Pallinum hafi verið rutt burtu áður en hann kom á staðinn.  Pallurinn hafi verið út úr leið skíðamanna.  Hafi því ekki verið settar upp sérstakar merkingar til að vara þá við honum.  Skíðabrautin sé merkt með svokölluðum leiðistöngum.  Pallurinn hafi verið hafður það nálægt skíðaskálanum að brettamenn ættu kost á að ganga upp fyrir hann og þyrftu ekki að taka lyftu.  Hafi þurft að renna sér þvert út úr skíðabrautinni til að renna sér á pallinn.  Vinnueftirliti ríkisins hafi ekki verið tilkynnt um slysið, þar sem það hafi ekki tengst vélbúnaði á neinn hátt.  Hann kveðst hafa fyrirskipað að nýr pallur yrði byggður og hafi svo verið gert, en sá hafi horfið fljótt í hláku.  Hann sagði að merki væri til um að svæði væru aðeins ætluð brettamönnum og hefði það verið sett upp þarna.  Hann kveðst ekki vita hvort merkið hafi verið uppi þegar slysið varð, enda geti skíða- eða brettamenn hafa fellt það niður.

V.

Í málinu liggur frammi á mynddiski framangreind mynd sem Sindri Vestfjörð Gunnarsson tók af stökki stefnanda.  Sést þar fyrst hvar stefnandi stendur á skíðum uppi í brekku.  Rennir hann síðan af stað eftir leið sem ekki hefur verið nýlega troðin svo séð verði, en virðist þó geta hafa verið svigskíðaleið.  Víkur hann síðan til vinstri af henni og rennir niður að stökkpallinum, sem frá því sjónarhorni sem myndin er tekin frá líkist helst hól eða upphækkun.  Er afar erfitt að gera sér grein fyrir stærð og gerð þessarar upphækkunar frá þessu sjónarhorni.  Í stökkinu fer stefnandi í loft upp og snýst við og kemur niður á höfuð og herðar.

Engar aðrar myndir eða uppdrættir liggja fyrir af vettvangi slyssins.  Eins og fram kemur hér að framan var palli þessum eða upphækkun rutt niður af starfsmönnum stefnda Ísafjarðarbæjar þegar eftir slysið, en þar sem það var gert að fyrirmælum lögreglu á vettvangi þykir ófært að leggja hallann af því á stefnda að ekki liggja fyrir betri upplýsingar um gerð pallsins.

Eins og málið liggur fyrir telur dómurinn að leggja verði til grundvallar, samanber framburð Jóhanns Krókness Torfasonar, að þessi pallur eða upphækkun hafi verið ætluð brettafólki.  Verður ekki miðað við að óforsvaranleg hætta hafi stafað af honum miðað við þau not.  Erfitt er af þeim gögnum sem fyrir liggja að átta sig á því hvort og þá hversu hættulegt hafi verið að reyna að stökkva af honum á svigskíðum, en óhætt þykir að miða við að það hafi verið varasamt nema þá fyrir færan skíðamann.

Í framburði vitnisins Guðmundar Birgis Ragnarssonar kemur fram að þurft hafi að fara út út svigskíðaleið til að stökkva af pallinum og í framburði Sigurdísar Samúelsdóttur kemur fram að brautin niður að honum hafi verið ótroðin.  Fer þetta saman við það sem ráðið verður af framangreindri myndbandsupptöku, þar sem stefnandi virðist fara af svigskíðaleið.  Styður þetta allt staðhæfingu Jóhanns Krókness Torfasonar um að upphækkunin eða pallurinn hafi verið utan slíkrar leiðar.  Erfitt er hins vegar að átta sig á því með vissu við skoðun á myndbandinu hve langt hafi þurft að víkja af henni til að renna að pallinum, en sú skoðun gefur helst til kynna að upphækkunin hafi ekki verið verulega langt frá svigskíðaleiðinni.

Af nefndri mynd verður ekki ráðið að svigskíðaleiðin hafi verið afmörkuð á þeim kafla hennar sem sést á myndbandinu á annan hátt að hún virðist hafa verið gerð með troðara, en eitthvert snjóföl verið fallið á hana.  Þótt hún hafi ekki verið afmörkuð með öðrum hætti verður að horfa til þess að stefnandi fór út af markaðri leið til að renna sér að pallinum.  Samkvæmt framburði Sindra Vestfjörð Gunnarssonar hafði stefnandi ákveðið það fyrir fram að stökkva af þessum palli og gerði það án þess að athuga hann fyrir fram nema úr fjarlægð.

Dómurinn telur að almennt verði að gera þá kröfu til þess sem fer á skíðasvæði, að hann geri sér ljóst að fari hann út fyrir afmarkaðar skíðabrautir geri hann það á eigin áhættu, enda eigi hann ekki að sæta sérstakri umsjá annarra með tilliti til aldurs og þroska.  Með tilliti til aldurs stefnanda og þess að hann hafði reynslu af skíðaiðkun, þykir þetta sjónarmið eiga við um hann.  Þar sem komist hefur verið að því að nefndur pallur hafi verið utan afmarkaðrar brautar þykir ekki verða lögð ábyrgð á starfsmenn stefnda Ísafjarðarbæjar á því að ekki var vakin sérstaklega athygli á því með merkingum eða öðrum ráðstöfunum að pallurinn væri ekki gerður fyrir menn á svigskíðum.  Ekki verður talið að mögulegt hafi verið að finna pallinum stað þar sem manni á svigskíðum hafi verið útilokað að renna sér að honum ef hann ætlaði sér það á annað borð. 

Samkvæmt þessu þykir ekki verða lögð sök á starfsmenn stefnda Ísafjarðarbæjar vegna gerðar þessarar upphækkunar eða palls, staðsetningar hennar eða þess að sérstakar aðvaranir hefðu átt að vera hafðar uppi. 

Stefnandi var í ferðalagi á skíðasvæðið sem var farið á vegum Grunnskóla Súðavíkur.  Samkvæmt framburði Baldurs Inga Jónassonar var unglingum heimilað að fara í efri lyftu ef þeir treystu sér til.  Þykir ekki eiga að meta starfsmönnum skólans það til gáleysis í tilviki stefnanda að heimila honum að fara í efri lyftu, þegar litið er til aldurs stefnanda og þess að hann hafði reynslu af skíðaiðkun.

Samkvæmt þessu þykir ekki verða fallist á að stefndu beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda af slysinu.  Ber því að sýkna þá af kröfum hans í málinu en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

Dómsorð:

Stefndu, Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur eiga að vera sýknir af kröfum stefnanda, Aðalsteins Svans Grétarssonar í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.