Hæstiréttur íslands
Mál nr. 57/2006
Lykilorð
- Einkaleyfi
- Lögbann
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
|
|
Fimmtudaginn 23. nóvember 2006. |
|
Nr. 57/2006. |
Style ehf. (Árni Vilhjálmsson hrl.) gegn 3X- Stáli ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Einkaleyfi. Lögbann. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.
Aðilar deildu um hvort framleiðsla og sala 3X á tiltekinni vél til hraðfrystihússins G bryti gegn einkaleyfi sem S hafði verið veitt. S krafðist þess að 3X yrði bannað að framleiða, bjóða til sölu, setja á markað og nota flokkunarvélar, sem væru eins og eða sambærilegar við þá vél sem S hefði sett upp hjá G. Þá krafðist hann staðfestingar á lögbanni sem lagt hafði verið við því að 3X aðhefðist það sem fyrrgreind krafa laut að. Hann krafðist þess jafnframt að 3X yrði dæmdur til að greiða sér skaðabætur eða endurgjald. Með vísan til fyrirliggjandi matsgerðar var ekki talið að sú tæknilega aðferð, sem beitt var með vél þeirri sem 3X hafði smíðað til að mata rækju inn í aðra hluta búnaðarins, væri sú sama eða jafngildi þeirrar sem fælist í einkaleyfi S. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hafnað kröfum S sem reistar voru á því að 3X hefði brotið gegn einkaleyfi hans. Kröfu S um staðfestingu á lögbanni var vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti þar sem lögbannið hafði fallið niður samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 1. desember 2005. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 18. janúar 2006 og var héraðsdómi áfrýjað öðru sinni 27. sama mánaðar. Áfrýjandi krefst þess í fyrsta lagi að stefnda verði „bannað að framleiða, bjóða til sölu, setja á markað og nota flokkunarvélar, sem eru eins og eða sambærilegar við þá vél sem stefndi hefur selt og sett upp hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. í Súðavík.“ Í annan stað krefst hann að staðfest verði lögbann, sem sýslumaðurinn á Ísafirði lagði 21. janúar 2005 við því að stefndi aðhefðist það, sem fyrsti liður kröfugerðar lýtur að. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.000.000 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem rakið er í héraðsdómi var Style-R.M. Magnússyni veitt einkaleyfi nr. 1774 þann 28. júní 2001. Ágreiningslaust er að áfrýjandi tók síðar við réttindum samkvæmt því. Í einkaleyfinu er uppfinning sögð vera „búnaður til flokkunar, einkum á viðkvæmum efnum s.s. fiski.“ Nánar segir síðan meðal annars að í honum sé innmötunarbúnaður, hryggbönd, leiðarar til flutnings og flokkunar efnisins, flokkunarhólf, drifbúnaður og stillibúnaður. Þetta sé sérstakt að því leyti að innmötunarbúnaðurinn, sem „samanstendur af einu eða fleiri samtengdum og stillanlegum þrepum ... sem efnið er flutt eftir, er þannig útbúinn að hraða efnisins er stýrt og það rétt af með til þess gerðum búnaði sem geta verið stýrispjöld ... eða stýrispjöld og snúningspinnar ... og raða og stýra efninu í kjörstöðu inn á hryggböndin.“
Með bréfi 20. apríl 2002 voru borin fram andmæli við útgáfu einkaleyfisins. Einkaleyfastofa kvað upp úrskurð af því tilefni 27. apríl 2004, þar sem niðurstaðan varð sú að einkaleyfið skyldi standa óbreytt. Í forsendum úrskurðarins sagði meðal annars að ljóst væri að einungis hafi verið veitt einkaleyfi fyrir innmötunarbúnaðinum, sem samanstandi af einu eða fleiri stillanlegum þrepum sem hvert um sig sé útbúið ýmist stýrispjöldum eða stýrispjöldum og snúningspinnum. Aðrir þættir búnaðarins hafi birst áður og teljist því að mati Einkaleyfastofu ekki nýir, en alþekkt sé að einkaleyfi byggi á áður fram komnum uppfinningum með nýrri útfærslu. Þessari niðurstöðu var skotið til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, sem staðfesti hana með úrskurði 24. júní 2005. Í forsendum hans sagði meðal annars að uppfinning sú, sem einkaleyfi áfrýjanda nr. 1774 var veitt fyrir, taki einungis til innmötunarbúnaðar, sem notaður sé í tengslum við hryggbönd, en veiti honum hvorki einkaleyfi til að nota hryggböndin ein sér eða í tengslum við annan innmötunarbúnað né útiloki aðra frá því.
Áfrýjandi reisir kröfur sínar á því, að með því að framleiða og selja Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. í Súðavík vél þá eða „rækjuflokkara“, sem vísað er til í dómkröfum, hafi stefndi brotið gegn áðurnefndu einkaleyfi. Áfrýjandi fékk lagt lögbann 21. janúar 2005 við því að stefndi framleiði, bjóði til sölu, setji á markað og noti flokkunarvélar, sem eru eins eða sambærilegar þeirri sem stefndi hafi selt og sett upp hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. Áfrýjandi gerir hins vegar engar kröfur á hendur síðastnefndu félagi. Stefndi mótmælir kröfum áfrýjanda og kveður þann innmötunarbúnað, sem sé á hans vél, vera ólíkan þeim, sem lýst sé í einkaleyfi áfrýjanda. Málsástæður aðilanna eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.
II.
Undir rekstri málsins í héraði óskaði áfrýjandi eftir því að maður yrði dómkvaddur til að meta „hvort og þá að hve miklu leyti við útfærslu þeirrar vélar sem matsþoli hefur selt Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. ... séu til staðar tilteknir tæknilegir þættir eða jafngildi þeirra, með vísan til skilgreiningar í einkaleyfiskröfum í íslensku einkaleyfi nr. 1774.“ Var tekið fram að með hinu umbeðna mati hygðist áfrýjandi sanna að útfærsla „rækjuflokkara“ stefnda væri brot á áðurnefndu einkaleyfi. Í beiðninni var síðan tekið fram að meta skyldi hvort „skilgreiningar“, sem greindi í fjórtán stafliðum, næðu „skv. orðanna hljóðan yfir einstaka tækilega þætti flokkunarvélar þeirrar sem matsþoli hefur selt og sett upp hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf.“ Ef ein eða fleiri þessara skilgreininga næði ekki yfir „einstaka tæknilega þætti“ væri óskað svars við því hvort jafngildi þeirra væri til staðar, en með því væri átt við hvort virkni væri í aðalatriðum hin sama, hvort þetta gerðist í aðalatriðum með sama hætti og hvort það væri í aðalatriðum til að ná sama markmiði.
Matsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors í vélaverkfræði er dagsett 16. júní 2005, en niðurstöður hennar eru teknar upp orðréttar í héraðsdómi. Svör við liðum l, m og n skipta hér máli, en í þeim er nákvæmlega lýst innmötunarbúnaði í flokkunarvélinni, sem stefndi smíðaði, og hann borinn saman við slíkan búnað í vél samkvæmt einkaleyfi áfrýjanda. Varð niðurstaða matsmannsins sú að í liðum m og n væri „virkni, sem skilgreiningar ná yfir í samræmi við flokkunarvélina, en markmið og aðferð er frábrugðið að einhverju leyti. Skilgreiningar ... og l eiga ekki við um flokkunarvélina.“
Sú tæknilega aðferð, sem beitt er með vélinni sem stefndi smíðaði til að mata rækju inn í aðra hluta búnaðarins, er samkvæmt þessu hvorki sú sama né jafngildi þeirrar, sem felst í einkaleyfi áfrýjanda. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hafnað kröfum áfrýjanda, sem eru reistar á því að stefndi hafi brotið gegn einkaleyfi hans.
Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. stendur lögbann í þrjár vikur frá dómsuppsögu í héraði þótt þar hafi verið synjað um staðfestingu gerðarinnar. Að loknum þeim fresti fellur lögbann niður nema gerðarbeiðandi fái áður gefna út stefnu til æðra dóms til að fá héraðsdómi hrundið. Áfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi innan þriggja vikna frá uppsögu hans og hélt lögbanni þar með í gildi. Málið var hins vegar ekki þingfest fyrir Hæstarétti og féll þannig niður. Héraðsdómi var áfrýjað í annað sinn, en þá voru löngu liðnar þrjár vikur frá uppkvaðningu héraðsdóms. Í 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 er mælt fyrir um hvernig fari ef staðfestingarmál er ekki þingfest í héraði, en þar er heimilað að halda lögbanni í gildi með því að fá réttarstefnu í staðfestingarmáli gefna út á nýjan leik innan einnar viku frá því að gerðarbeiðanda urðu málalok kunn. Samsvarandi regla er ekki sett um það þegar mál til staðfestingar á lögbanni er ekki þingfest fyrir Hæstarétti. Lögbannið, sem áfrýjandi fékk lagt á 21. janúar 2005, féll samkvæmt þessu niður 18. janúar 2006 og verður kröfu hans um staðfestingu þess því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Kröfu áfrýjanda, Style ehf., um staðfestingu lögbanns, sem hann fékk lagt á 21. janúar 2005, er vísað frá Hæstarétti.
Stefndi, 3X- Stál ehf., er sýkn af öðrum kröfum áfrýjanda.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2005.
Mál þetta höfðaði Style ehf., kt. 610397-5559, Miðhrauni 12, Garðabæ, með réttarstefnu útgefinni 28. janúar 2005, á hendur 3x stáli ehf., kt. 520494-3329, Sindragötu 5, Ísafirði. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 27. október sl.
Stefnandi krefst þessa:
1. Að stefnda verði með dómi bannað að framleiða, bjóða til sölu, setja á markað og nota flokkunarvélar sem eru eins og eða sambærilegar við þá vél sem stefndi hefur selt og sett upp hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. í Súðavík.
2. Að staðfest verði lögbann, sem sýslumaðurinn á Ísafirði lagði þann 21. janúar 2005 við því að 3X stál ehf. framleiði, bjóði til sölu, setji á markað og noti flokkunarvélar sem eru eins og eða sambærilegar við þá vél sem stefndi hefur selt og sett upp hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. í Súðavík.
3. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta og endurgjalds til handa stefnanda að fjárhæð 10.000.000 króna, en til vara aðra lægri fjárhæð að mati dómsins.
4. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda samkvæmt töluliðum 1, 3 og 4 í stefnu. Þá krefst hann þess að synjað verði kröfu um staðfestingu lögbanns samkvæmt tölulið 2. Loks krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
Veitt var einkaleyfi nr. 1774 þann 28. júní 2001. Ber leyfið heitið „Búnaður til flokkunar, einkum á viðkvæmum efnum svo sem fiski.” Umsækjandi er tilgreindur Style R. M. Magnússon. Undir rekstri málsins lagði stefnandi fram yfirlýsingu Ragnars M. Magnússonar þar sem segir að stefnandi hafi yfirtekið einkaleyfið. Samkvæmt gögnum málsins er Ragnar eigandi Style R. M. Magnússon, sem er skráð einstaklingsfyrirtæki, svo og framkvæmdastjóri stefnanda. Í tilkynningu Einkaleyfastofunnar eru raktar einkaleyfiskröfurnar (tilvísanir til teikninga eru felldar út):
„1. Búnaður til flokkunar efnis, svo sem fisks er samanstendur af innmötunarbúnaði, hryggböndum, leiðurum, flokkunarhólfum, drifbúnaði, stillibúnaði, þar sem efnið er matað inn á innmötunarbúnaðinn og þaðan inn á hryggböndin og eru þau samansett úr fjölda eininga sem í þversnið eru þríhyrningslaga og tengdar saman í endalaust band sem dregið er eftir leiðurunum og er afstaða leiðaranna og þar með hryggbandanna ákveðin þannig að fjarlægðin á milli þeirra verður meira við útendann en við innendann og einkennist af því að innmötunarbúnaðurinn nær til eins eða fleiri samtengdra og stillanlegra þrepa, og er hvert þrep útbúið með stýrispjöldum eða stýrispjöldum og snúningspinnum, þar sem stýrispjöldin skipta hverju þrepi upp í tvær eða fleiri rásir sem stýra rennsli og stefnu efnisins á hverju þrepi inn á hryggböndin sem fiytja og flokka efnið eftir þykkt í viðeigandi flokkunarhólf.
2. Búnaður skv. kröfu 1 er einkennist af því að stýringar eða stýrispjöld ganga hornrétt upp frá botnfleti innmötunarþrepanna og liggja samsíða rennslisstefnu efnisins.
3. Búnaður skv. kröfu 1 - 2, er einkennist af því að fjöldi stýrispjalda er minnstur í efsta þrepinu en mestur í neðsta þrepinu.
4. Búnaður skv. kröfu 1 - 3, er einkennist af því að halli innmötunarþrepanna er þannig stilltur að rennslishraði efnisins á neðsta þrepinu verði því sem næst sá sami og færsluhraði hryggbandanna.
5. Búnaður skv. einni eða fleiri af kröfunum 1 - 4, er einkennist af því að halli einstakra innmötunarþrepa er þannig stilltur að við færslu efnisins eftir þrepunum greiðist úr lagþykkt þess þannig að síðasta þrepið skilar í kjörstöðu því sem næst einföldu lagi flokkunarefnis inn á hryggböndin.
6. Búnaður skv. einni eða fleiri af undangengnum kröfum er einkennist af því að snúningspinnar sem ganga út frá neðri brún innmötunarþrepanna eru sveigðir upp á við þannig að endar þeirra mynda allt að 90° horn við botnflöt innmötunarþrepanna.
7. Búnaður skv. einni eða fleiri af kröfunum l-6 er einkennist af því að fjöldi snúningspinnanna er að hámarki jafn fjölda hryggbandanna.
8. Búnaður skv. einni eða fleiri af kröfunum l-7 er einkennist af því að snúningspinnunum er annaðhvort komið fyrir í botni eða toppi báru í botni innmötunarþrepanna.
9. Búnaður skv. kröfu 1, er einkennist af því að hryggböndin eru útbúin með stýrispjöldum sem komið er fyrir ofan við toppa þeirra og liggja þau samsíða þeim.
10. Búnaður skv. kröfu 1, er einkennist af því að fjarlægðin á milli hryggbandanna er þannig stillt að hún vex því sem næst eftir sporbaugsferli frá innenda að útenda hryggbandanna.
11. Búnaður skv. kröfu 1, er einkennist af því að hryggbandseiningarnar eru útbúnar með bárum sem ganga upp úr hliðarflötunum og liggja því sem næst hornréttar á hreyfistefnu hryggbandanna.
12. Búnaður skv. kröfu 1, er einkennist af því að hryggböndin halla uppávið í færslustefnu beltisins.
13. Búnaður skv. kröfu 12, er einkennist af því að halli hryggbandanna er á bilinu -3 til 25 ° í færslustefnuna.
14. Búnaður skv. kröfu 12 eða 13, er einkennist af því að halli hryggbandanna er því sem næst 4 - 8 °, nánar tiltekið 5 - 7° í færslustefnuna.”
Þann 20. apríl 2002 voru borin fram andmæli við einkaleyfinu. Kærandi var Trausti Eiríksson verkfræðingur og kom Faktor einkaleyfaskrifstofa fram fyrir hans hönd. Í andmælunum var annars vegar vísað til þess að skilyrðum 2. gr. laga nr. 17/1991 um nýnæmi og frumleika væru ekki uppfyllt og hins vegar að lýsing uppfinningarinnar væri ófullnægjandi. Að lokinni málsmeðferð var kveðinn upp úrskurður 27. apríl 2004 og skyldi einkaleyfið standa óbreytt.
Í úrskurðinum segir: „... Það er hins vegar mat Einkaleyfastofunnar að þau gögn [önnur einkaleyfisumsókn] skerði ekki nýnæmi einkaleyfis nr. 1774, þar sem í gögnunum er ekki minnst á þá útfærslu búnaðarins sem einkaleyfið tekur til, þ.e. stillanleg innmötunarþrep sem eru útbúin stýrispjöldum og/eða stýrispjöldum og snúningspinnum.”
Því næst er í úrskurðinum fjallað um það hvort sýnt hafi verið fram á að innmötunarrennur með stýrispjöldum hafi verið þekktar, en andmælandi lagði fram tvo auglýsingabæklinga máli sínu til stuðnings. Taldi Einkaleyfastofan að ekki hefði verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að um sams konar búnað væri að ræða og að mat á nýnæmi yrði ekki byggt á þessum gögnum.
Loks var komist að þeirri niðurstöðu að lýsing uppfinningarinnar í einkaleyfinu væri nógu skýr til að fagmaður gæti útfært hana.
Þessum úrskurði var skotið til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Var úrskurðurinn staðfestur 24. júní 2005.
Vél stefnanda var prófuð á tímabili í Hraðfrystihúsi Gunnvarar í Súðavík. Var hún sett þar upp í febrúar 2004. Var hún prófuð við rækjuvinnslu. Ekki varð af því að frystihúsið keypti vélina af stefnanda. Keypti frystihúsið rækjuflokkunarvél af stefnda. Stefnandi taldi að í rækjuflokkara stefnda væri brotið gegn einkaleyfi hans nr. 1774. Fór svo að hann beiddist lögbanns með erindi til sýslumannsins á Ísafirði. Beiðnin var tekin fyrir 20 janúar 2005 og mótmælti stefndi framgangi lögbannsins. Sýslumaður ákvað 21. janúar að lögbann skyldi lagt á.
Stefndi beiddist þess sama dag að lögbanninu yrði aflétt samkvæmt 1. mgr. 28. gr. kyrrsl. Var því hafnað 25. janúar.
Áður en mál þetta var höfðað fól stefnandi Gunnari Erni Harðarsyni véltæknifræðingi að rita álitsgerð um það hvort rækjuflokkari stefnda bryti í bága við einkaleyfið. Er álitsgerð hans dagsett 10. nóvember 2004. Þar segir: „... er það niðurstaða mín, að búnaðurinn skerði (brjóti á) á einkaleyfisrétti eins og hann er skilgreindur í sjálfstæðri aðalkröfu einkaleyfisins (kröfu 1) og auk þess a.m.k. fjórar ósjálfstæðar kröfur einkaleyfisins, nánar tiltekið kröfur 9,12,13 og 14”
Gunnar Örn gaf skýrslu fyrir dómi. Fram kom að hann starfar hjá A & P Árnason, sem annaðist umsókn um einkaleyfið fyrir stefnanda.
Stefndi leitaði til Ómars G. Ingvarssonar vélaverkfræðings, sem starfar hjá Faktor einkaleyfaskrifstofu. Ritaði hann álitsgerð sem stefndi lagði fram við meðferð lögbannsmálsins og aftur hér fyrir dómi. Í niðurstöðum hans segir m.a.: „... Í ljósi greindrar umfjöllunar í þessari álitsgerð er það faglegt mat undirritaðs, að öll þau atriði varðandi Rækjuflokkara 3X-Stáls ehf., sem liggja til ágreinings varðandi meinta skörun við einkaleyfi nr. 1774, séu annað hvort frábrugðin í verulegum atriðum þeim búnaði, sem skilgreindur er í ofangreindum kröfum einkaleyfisins, þ.e. í kröfum 1, 9, 12, 13 og 14, og skarist því ekki við eða brjóti á einkaleyfinu, þ.e. liggi utan verndarsviðs þess eða séu þess eðlis, að ekki er hægt að meta þau eða staðsetja gagnvart einkaleyfinu vegna marklausra krafna 12, 13 og 14, eins og áður hefur verið rökstutt.”
Ómar gaf skýrslu fyrir dómi. Eins og áður segir kom Faktor einkaleyfaskrifstofa fram fyrir hönd Tryggva Eiríkssonar í áðurnefndu andmælamáli hjá Einkaleyfastofu.
Undir rekstri málsins var dómkvaddur matsmaður, Magnús Þór Jónsson, prófessor í vélaverkfræði, að kröfu stefnanda. Matsspurningar voru svohljóðandi:
„1. Ná eftirfarandi skilgreiningar skv. orðanna hljóðan yfir einstaka tæknilega þætti flokkunarvélar þeirrar sem matsþoli hefur selt og sett upp hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf.? (Númer í svigum vísa til teikninganna í einkaleyfinu):
a) Búnaður til flokkunar efnis, svo sem fisks, er samanstendur af, b) innmötunarbúnaði, (4), c) hryggböndum (3), d) leiðurum (2), e) flokkunar-hólfum (78), f) drifbúnaði (6, 7) g) stillibúnaði (9, 12), þar sem h) efnið er matað inn á innmötunarbúnaðinn og i) þaðan inn á hryggböndin og eru þau j) samansett úr fjölda eininga sem í þversnið eru þríhyrningslaga og tengdar saman í endalaust band sem dregið er eftir leiðurunum (2) og er k) afstaða leiðaranna og þar með hryggbandanna ákveðin þannig, að fjarlægðin á milli þeirra verður meira við útendann (68) en við innendann (69) og 1) innmötunarbúnaðurinn (4) nær til eins eða fleiri samtengdra og stillanlegra þrepa (4a, 4b og 4c), og er m) hvert þrep útbúið með stýrispjöldum (67) eða stýrispjöldum og snúningspinnum (55), n) þar sem stýrispjöldin skipta hverju þrepi upp í tvær eða fleiri rásir sem stýra rennsli og stefnu efnisins á hverju þrepi inn á hryggböndin (3) sem flytja og flokka efnið eftir þykkt í viðeigandi flokkunarhólf?
2. Ef ein eða fleiri af ofangreindum skilgreiningum ná ekki, skv. orðanna hljóðan, yfir einstaka tæknilega þætti, er þá jafngildi þeirra til staðar? Með jafngildi er átt við hvort það sé: (i) í aðalatriðum sama virkni (function) (ii) í aðalatriðum með sama hætti (same way) og (iii) til að ná í aðalatriðum sama markmiði (same result).”
Matsgerð Magnúsar er dagsett 16. júní 2005. Þar segir m.a.:
„... Í niðurstöðum er bæði sett fram almennt mat á þeim atriðum flokkarans sem skilgreiningar ná yfir og jafnframt er mat á jafngildi þess með samanburði á virkni eða aðgerð (same function), hætti eða aðferð (same way) og markmiði eða útkomu (same result) fyrir einstaka liði í matsbeiðninni. Nánari skilgreining á þessum hugtökum felst í því að virkni segir til um hvað sé gert og er það víðtækt mat. Með hvaða hætti eða hvaða aðferð er notuð er þrengri skilgreining. Síðan segir markmiðið um það hvort sama útkoma náist. Til að athuga hvort sama virkni, sami háttur og sama markmið gildi fyrir skilgreiningar í matsbeiðninni og flokkaranum, er haft til hliðsjónar einkaleyfi 1774, sem fjallar um búnað til flokkunar, einkum á viðkvæmum efnum, svo sem fiski. Upplýsingar um búnað til flokkunar samkvæmt einkaleyfi 1774 eru í viðauka A. Það skal tekið fram, að hér er ekki lagt mat á það, hvort rækjuflokkarinn brjóti verndarsvið einkaleyfis 1774.
(a)Búnaður til flokkunar efnis svo sem fisks: Rækjuflokkarinn er hannaður og smíðaður til þess að flokka rækju og uppfyllir það skilgreininguna um flokkun efnis. Virkni, aðferð eða með hvaða hætti og markmið flokkarans er, í samræmi við almenna lýsingu uppfinningar, sem sett er fram í viðauka A.
(b)Samanstendur af innmötunarbúnaði: Rækjuflokkarinn samanstendur af innmötunarbúnaði og flokkunarbúnaði. Innmötunarbúnaður er annars vegar innmötunarfæriband og hins vegar innmötunarrenna sem leiðir rækjuna inn á flokkunarbandið eins og fram kemur á mynd 1. Með tilvísun í viðauka A, sést að virkni, aðferð og markmið innmötunarfæribands rækjuflokkarans er í samræmi við færibandið sem er sýnt á mynd 12 (74), þrátt fyrir að hallinn á því sé annar. Nánar verður fjallað um innmötunarrennuna (4) síðar.
(c)Samanstendur af hryggböndum: Eins og fram kemur á myndum 6 og 8 er flokkunarbandið gert úr samsettum böndum. Virkni flokkunarbandsins er í samræmi við hryggböndin sem sýnd eru á mynd 14 (3). Böndin í flokkunarbandi rækjuflokkarans hafa slétta fleti en hryggböndin hafa bárur (72) á milli sléttra hliðarflata (71) eins og fram kemur á mynd 16. Því er ekki beint samræmi í aðferð og markmiði hryggbanda og flokkunarbandsins í rækjuflokkaranum. Eins og fram kemur í viðauka A er með útfærslu hryggbanda, samkvæmt einkaleyfinu, hægt að þykktarflokka efni þó svo að einhverjir hlutir standi út fyrir.
(d)Samanstendur af leiðurum: Böndunum í flokkunarbandi rækjuflokkarans er stýrt af leiðurum. Leiðararnir, sem eru sýndir á mynd 9, eru boltaðir fastir við öxul sem er festur við burðargrindina. Leiðarar, sem sýndir eru í viðauka A, hafa sömu virkni, en það er að stýra fjarlægðinni á milli hryggbanda í flokkunarbandinu. Munur á aðferð og markmiði þeirra felst í stillanleika og formi. Leiðarar fyrir hryggböndin í viðauka A, (2) mynd 14, sitja á stillipinnum (12) sem hægt er að breyta afstöðu á milli með því að snúa. Formið á leiðurunum samkvæmt viðauka A er þannig að hryggböndin sitja ofan í leíðaranum en í flokkunarbandi rækjuflokkarans ná böndin yfir leiðarann.
(e)Samanstendur af flokkunarhólfum: Þegar rækjan fer í gegnum flokkunarbandið eru stýringar sem beina henni inn á þverstæð færibönd. Þessi færibönd flytja þá flokkaða rækju frá flokkaranum. Virkni þverbanda rækjuflokkarans er í samræmi víð flokkunarhólf, sern lýst er í viðauka A, mynd 12 (78). Markmið og aðferð gefa ekki sömu niðurstöðu og útfærslan, sem lýst er í viðauka A, þar sem þverböndin flytja rækjuna undan flokkunarbandinu.
(f)Samanstendur af drifbúnaði: Flokkunarbandið samkvæmt mynd 6 er drifið áfram með rafmótorum sem snúa driftromlu sem bandið er á. Sama virkni, aðferð og markmið er með þessum drifbúnaði og þeim sem lýst er í Viðauka A, mynd 12 (6, 7).
(g)Samanstendur af stillibúnaði: Stýrispjöld í innmötunarhólfi og leiðarar rækjuflokkarans eru ekki stillanleg. Ekki eru í flokkaranum neinir stilliboltar eða snúningsliðir eins og sett er fram á mynd 14 (9, 12). Því er ekki samræmi á milli markmiða, virkni og aðferða varðandi þennan stillibúnað.
(h) Efnið er matað inn á innmötunarbúnaðinn: Innmötunarfæriband matar rækjuna inn á innmötunarrennuna. Eins og fram hefur komið er virkni, aðferð og markmið innmötunarfæribands rækjuflokkarans í samræmi við bandið sem er sýnt í viðauka A, mynd 12 (76).
(i) Frá innmötunarbúnaði er efnið matað inn á hryggböndin: Innmötunarrennan stýrir rækjunni inn á flokkkunarbandið. Munurinn á innmötunarrennu rækjuflokkarans og innmötunarbúnaði, sem lýst er í viðauka A, felst aðallega í stillanleika og formi. Samkvæmt viðauka A, mynd 17, eru innmötunarhólfin (4) stillanleg. Við úttak hólfanna eru snúningspinnar sem stýra flæðinu. Með þessurn búnaði er bæði hægt að stýra hraða efnisins og stilla stefnuna inn á hryggböndin með snúningspinnum. Spjöldin í innmötunarhólfunum eru fest við botninn og eru slétt hornrétt frá honum eins og fram kemur á mynd 15. í rækjuflokkaranum sem 3X-Stál hefur selt og sett upp hjá hraðfrystihúsi Gunnvarar er markmið innmötunarhólfsins eingöngu að stýra rækjunni inn á flokkunarbandið. Eins og fram kemur á myndum 2 og 5 er enginn stillanleiki á hólfunum eða innmötunarspjöldunum. Innmötunarspjöldin í rækjuflokkaranum hafa allt annað form en spjöldin og stýripinnarnir sem lýst er í viðauka A. Þetta form get-ur haft áhrif á stýranleika eftir stærð rækjunnar. Þrátt fyrir að aðferðin og markmiðið sé frábrugðið, er virkni þeirra sambærileg, það felst í því að stýra rækjunni inn á milli banda í flokkunarbandinu.
(j) Hryggböndin eru samansett úr fjölda eininga sem í þversnið eru þríhyrn-ingslaga og tengdar saman í endalaust band sem dregið er eftir leiðurunum: Eins og fram kemur á mynd 8 er þversnið flokkunarbandsins ólíkt því sem sýnt er á mynd 16 í viðauka A, Bandið er samsett úr fjölda eininga sem tengdar eru saman með boltum. Bandið er dregið eftir leiðurunum og er virkni þess í samræmi vð hryggböndin samkvæmt viðauka A. Halli flokkunarbandsins á mynd 6 er 0° miðað við láréttan flöt.
(k) Afstaða leiðaranna og þar með hryggbandanna, er ákveðin þannig, að fjar-lgðin á milli þeirra verður meira við útendann en við innendann: Flokkunin felst í því að fjarlægðin á milli banda í flokkunarbandinu vex frá innendanum og að útendanum. í rækjuflokkaranum er þessi aðferð notuð við stærðarflokkun og því er virkni leiðaranna í samræmi við viðauka A.
(1) Innmötunarbúnaðurinn nær til eins eða fleiri samtengdra og stillanlegra þrepa: Innmötunarbúnaðurinn í rækjuflokkaranum er ekki stillanlegur. Þetta er renna sem stýrir rækjunni inn á flokkunarbandið. Hún er boltuð föst niður. Samkvæmt viðauka A mynd 17 (4) er innmötunarbúnaðurinn eitt eða flleiri þrep sem eru stillanleg. Þau geta verið með með breytilegum halla eða hæðarmun og þannig er hægt að stýra hraða flæðisins. Í rækjuflokkaranum sem 3X-Stál hefur selt og sett upp hjá hraðfrystihúsi Gunnvarar er markmið innmötunarhólfsins eingöngu að stýra rækjunni inn á flokkun-arbandið. Eins og fram kemur á myndum 2 og 5 er enginn stillanleiki á rennunni eða innmötunarspjöldunum.
(m) Hvert þrep er útbúið með stýrispjöldum eða stýrspjöldum og snúningspinnum:
Innmötunarrennan í rækjuflokkaranum er eitt þrep og er hún ekki búin snúningspinnum. Í innmötunarrennunni eru stýrispjöld sem eru fest við innmötunarhólfið. Hallinn á stýrispjöldunum er 27° en botn rennunar er með 30° halla. Samkvæmt viðauka A er innmötunarbúnaður þrepaskiptur, mynd 15 (4, 4a, 4b, 4c) og við úttak hverrar rennu eða hólfs eru snúningspinnar sem stýra flæðinu mynd 17 (55). Með þessum búnaði er bæði hægt að stýra hraða efnisins og stilla stefnuna inn á hryggböndin raeð snúningspinnum. Spjöldin í innmötunarhólfunum eru fest við botninn og eru slétt hornrétt frá honum eins og fram kemur á mynd 15.
(n) Stýrispjöldin skipta hverju þrepi upp í tvær eða fleiri rásir sem stýra rennsli og stefnu efnisins á hverju þrepi inn á hryggböndin sem flytja og flokka efn-ið eftir þykkt % viðeigandi flökkunarhólf: Í flokkaranum eru stýrispjöld sem stýra stefnu efnisins inn á flokkunarbandið en þau hafa hverfandi áhrif á rennslishraðann. Eins og fram hefur komið er formið á stýrispjöldum rækjuflokkarans samkvæmt mynd 3 og er það annað en form stýrispjalda sem eru á mynd 15.
Það er mat undirritaðs að skilgreiningar í liðum a), b), f) og h) nái yfir tæknilega þætti flokkunarvélar sem matsþoli hefur selt hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. í skilgreiningum c), d), e), i), j), k) m) og n) er virkni, sem skilgreiningar ná yfir í samræmi við flokkunarvélina, en markmið og aðferð er frábrugðið að einhverju leyti. Skilgreiningar g) og 1) eiga ekki við um flokkunarvélina.“
Matsmaður gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann sagði að við matsgerðina legði hann þann skilning í hugtakið jafngildi að virkni, aðferð og markmið þyrfti að vera hið sama.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að umrædd vél sem stefndi setti upp brjóti í bága við einkaleyfi sitt. Þessi rækjuflokkari feli í sér öll atriði í aðalkröfu einkaleyfisins. Segir hann að við samanburð megi sjá 8 atriði úr einkaleyfinu í rækjuflokkaranum. Telur hann þessa þætti:
1. Um er að ræða búnað til flokkunar efnis, m.a. rækju.
2. Innmötunarbúnaður sem er þrepaskiptur.
3. Hryggbönd sem eru í þversnið þríhyrningslaga og mynda endalaust band.
4. Drifbúnaður.
5. Flokkunarhólf.
6. Stillibúnaður.
7. Efnið er matað inn á innmötunarbúnaðinn og
þaðan inn á hryggböndin
sem flytja það áfram.
8. Innmötunarbúnaður er þannig að stýrisspjöld skipta honum upp í rásir sem stýrir efninu inn á flokkunarbúnaðinn.
Þar sem vélin brjóti í bága við einkaleyfið beri að banna framleiðslu hennar, svo sem stefnandi krefst með dómkröfu nr. 1. Byggist þetta á inntaki einkaleyfis, sbr. 3. gr. laga nr. 17/1991.
Stefnandi vísar til niðurstöðu Gunnars Arnar Harðarsonar. Hann telji vél stefnda skerða einkaleyfarétt stefnanda eins og hann sé skilgreindur í sjálfstæðri aðalkröfu einkaleyfisins og fjórum ósjálfstæðum kröfum, nr. 9, 12, 13 og 14.
Stefnandi segir að við mat á réttarvernd einkaleyfa verði að hafa í huga að einkaleyfi tryggi annað og meira en að eigandi þess sé verndaður fyrir því að nákvæmlega sams konar hlutur sé framleiddur. Það sé tæknileg verkan, áhrif og notkun hlutarins sem eigi að skera þar úr. Smávægilegar breytingar á útliti eða aðferð séu ekki nægilegar til þess að sambærilegur vélbúnaður teljist ekki brjóta á einkaleyfarétti.
Önnur dómkrafa stefnanda, um staðfestingu lögbannsins, er studd við sömu atriði og greinir hér að framan. Þá vísar hann til þess að skilyrði lögbanns hafi verið uppfyllt. Vísar hann til 24. gr. laga nr. 31/1990. Háttsemin hafi þegar átt sér stað og sé enn yfirvofandi. Ein vél hafi verið sett upp og stefndi hafi ætlað að setja upp aðra. Þá verði tjón sem leiði af broti gegn einkaleyfinu ekki nægilega bætt með skaðabótum. Réttarreglur um skaðabætur fyrir röskun hagsmuna í lögbannsmáli tryggi einungis hagsmuni nægilega þegar skaðabætur geti augljóslega bætt tjón að fullu. Það komi til greina þegar um sé að ræða tekju- eða ágóðamissi vegna tiltekinna athafna, sem skapi ekki varanlegt ástand og hægt sé að bæta að fullu. Vafasamt sé að ætla að réttindi á sviði hugverka- og auðkennaréttar séu nægilega tryggð með réttarreglum um skaðabætur.
Staðfesting lögbannsins myndi ekki takmarka atvinnufrelsi stefnda nema á takmörkuðu sviði. Starfsemi hans sé fjölbreytt og því yrði staðfesting ekki óhóflega íþyngjandi. Þá mótmælir stefnandi staðhæfingum um tap Hraðfrystihússins Gunnvarar vegna lögbannsins. Bendir hann á að frystihúsinu hafi verið boðið að takmarka tjón sitt með því að kaupa rækjuflokkara af stefnanda. Því boði hafi ekki verið tekið.
Skaðabótakröfu styður stefnandi við það að stefndi hafi með framleiðslu og sölu vélarinnar skert einkaleyfarétt sinn og valdið sér tjóni af ásetningi eða gáleysi. Við brotið hafi stefnandi misst af sölu sambærilegrar vélar. Telur stefnandi að skilyrði 58. gr. laga nr. 17/1991 séu uppfyllt. Stefndi hafi verið grandsamur um einkaleyfarétt stefnanda allt frá því í ársbyrjun 2004. Krefst stefnandi skaðabóta og endurgjalds að fjárhæð 10.000.000 króna, en til vara annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins. Vísar hann til meginreglna skaðabótaréttar og sakarreglunnar.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Í greinargerð stefnda er fullyrt að innmötunarbúnaður stefnanda, sem verndaður er af einkaleyfinu, henti ekki við rækjuvinnslu. Segir að stefnandi hafi fengið aðstöðu hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Súðavík í ársbyrjun 2004. Það hafi verið til að þróa flokkunarvél stefnanda þannig að hún hentaði til rækjuflokkunar. Sú fullyrðing í stefnu að flokka hafi átt rækju fyrir frystihúsið sé röng. Vélin hafi aldrei verið tengd flæðilínum í frystihúsinu. Stefnandi hafi aðeins fengið rækju að láni til að prófa flokkarann.
Þá mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu að hann hafi hafnað boði um samstarf við stefnanda með þeim orðum að hann tæki ekki mark á einkaleyfum.
Stefndi mótmælir bannkröfu stefnanda samkvæmt 1. lið. Hann bendir á í fyrsta lagi að þessi krafa sé óskýr og brjóti þannig gegn d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ekki sé reynt í stefnu eða þeim skjölum sem stefnandi hefur lagt fram að lýsa vél stefnda. Ekki verði séð af stefnu hvaða atriði það séu í vélinni sem brjóti gegn einkaleyfinu. Einungis sé skírskotað til vélar sem sett hafi verið upp á tilteknum stað. Þessi lýsing dómkröfu og sakarefnis sé ófullnægjandi. Þá yrði dómsorð sem byggi ekki á lýsingu heldur einungis skírskotun til forgengilegra muna í andstöðu við 4. mgr. 114. gr. eml.
Þá hafi stefnandi ekki lýst sinni eigin vél, sem vernduð sé af einkaleyfinu, eða hvað felist í einkaleyfinu.
Þá fullyrðir stefndi að hann hafi ekki brotið gegn einkaleyfi stefnanda. Bendir hann á að stefnandi beri hér sönnunarbyrðina. Krafa stefnanda sé hins vegar svo óskýr að nær ógjörningur sé að verjast henni. Einkaleyfinu sé ekki lýst og ekki heldur hvernig brotið sé gegn því.
Stefndi fullyrðir að einkaleyfi stefnanda verndi aðeins innmötunarbúnað vélarinnar. Byggir hann þetta á lýsingu einkaleyfisins. Í einkaleyfinu sé ein sjálfstæð krafa og þar sé einungis lýst innmötunarbúnaði flokkunarvélar og engu öðru. Það sama komi raunar fram í greinargerðum stefnanda til Einkaleyfastofu, við málarekstur vegna andmæla við einkaleyfinu. Loks vísar stefndi til niðurstöðu í úrskurði Einkaleyfastofu.
Stefndi segir að vernd einkaleyfis geti ekki náð til neins sem ekki verði leitt af einkaleyfiskröfunum. Skerðing einkaleyfis sé því aðeins til staðar að allir þættir einkaleyfiskröfu verði greindir í annarri uppfinningu.
Búnaður til flokkunar efnis eftir þykkt hafi verið þekkt í mörg hundruð ár. Grundvallaraðferðin sé sú sama bæði í vél stefnda og vél samkvæmt einkaleyfi stefnanda. Einstakir hlutar efnis séu dregnir eftir leiðurum sem víkki út í enda, þannig að einingar falla niður þegar rás leiðarans er orðin breiðari en efnið. Stefndi segir að hér nægi að vísa til bandarísks einkaleyfis nr. 1.204.685 frá 1916, sem varði flokkunarvél fyrir ávexti sem byggist á þessari grunntækni. Allar vélar sem flokki efni með framangreindum hætti eigi það sammerkt að flokkunarrásirnar séu fleiri en ein, til að auka afkastagetu. Efni verði að beina inn á flokkunarrásirnar með einum eða öðrum hætti. Að smíða innmötunarbúnað sem sinni þessu grunnhlutverki sé á færi hvaða meðalfagmanns sem er á viðkomandi sviði og því ekki einkaleyfisverndað.
Innmötunarbúnaður rækjuflokkunarvélar sinnar segir stefndi vera mjög einfaldan og að hann leysi einfalt verkefni. Þetta sé röðunargrind mynduð úr tuttugu aflöngum járnplötum. Plöturnar myndi jafnmörg hólf og séu í flokkunarfæribandi vélarinnar. Grindin sé stutt, jafnbreið flokkunarfæribandinu. Hlutverk hennar sé eingöngu að beina rækju af innmötunarfæribandi niður í hólf á flokkunarfæribandinu. Þetta eigi ekki að tryggja að rækja komi í einföldu lagi inn á flokkunarfæriböndin, sem virðist vera meginmarkmið búnaðar stefnanda. Stefndi segist tryggja einfalda röðun með því að plaststrimlar hangi yfir rásum flokkunarfæribandsins. Á þessari einföldu aðferð hafi stefnandi ekki einkaleyfi. Búnaðurinn sé hvorki þrepaskiptur né stillanlegur. Á honum séu hvorki stýrispjöld né snúningspinnar. Hann stýri ekki hraða eða stefnu efnisins, heldur beini eingöngu og dreifi rækju jafnt niður í flokkunarhólfin. Þannig vanti alla einkaleyfisverndaða hluta innmötunarbúnaðar stefnanda í vél stefnda og hlutverkum þessara tveggja véla verði ekki líkt saman.
Stefndi hefur lagt fram í málinu lýsingu á nokkrum flokkunarvélum. Engin þeirra hafi komið í veg fyrir útgáfu einkaleyfis til stefnanda. Í öllum tilvikum sé innmötunarbúnaður á vélunum. Innmötunarbúnaður verði því að hafa alla sömu eiginleika og búnað og lýst er í einkaleyfi stefnanda, til að um brot gegn einkaleyfinu sé að ræða. Af gögnum hjá Einkaleyfastofu verði séð að hugmyndin að baki einkaleyfi stefnanda sé að stýra rennsli og stefnu efnis. Stefndi segir að búnaður sinn nái ekki þessum árangri, enda ekki hannaður til þess.
Stefndi mótmælir því sem fullyrt er í stefnu að 8 liðir úr einkaleyfiskröfunum verði lesnir úr flokkunarbúnaði sínum. Tekur hann fram að krafa 1 sé eina sjálfstæða krafa einkaleyfis stefnanda. Ósjálfstæðar kröfur séu til þess að lýsa nánar tilgreindum útfærslum á uppfinningunni sem lýst er í sjálfstæðu kröfunni. Telur stefndi sig ekki hafa brotið gegn sjálfstæðu kröfunni og því hafi hann ekki brotið gegn ósjálfstæðu kröfunum, enda lýsi þær einungis útfærsluatriðum.
Nánar tekur stefndi fram varðandi kröfu nr. 9 að hryggbönd í búnaði sínum séu ekki búin stýrispjöldum. Varðandi kröfur 12-14 segir hann að hryggbönd í búnaðinum halli ekki, stefnandi hafi ekki einkaleyfi fyrir láréttum hryggböndum.
Í greinargerð krafðist stefndi þess að sakarefni málsins yrði skipt, þannig að fyrst yrði leyst úr um staðfestingu lögbanns. Ekki var fallist á þá kröfu og hafði stefndi ekki uppi sérstök andmæli við staðfestingu lögbanns við aðalmeðferð, önnur en þau er varða bannkröfu stefnanda og rakin hafa verið.
Stefndi mótmælir sérstaklega skýrslu Gunnars Arnar Harðarsonar, sem lögð var fram í lögbannsmálinu, og þeim niðurstöðum sem þar er komist að. Bendir hann sérstaklega á að skýrsluhöfundur sé umboðsmaður stefnanda og því ekki óvilhallur. Skýrslan geti því ekki haft sönnunargildi.
Mótmælt er sérstaklega ýmsum atriðum í skýrslu Gunnars. Sagt er rangt að hryggböndin í vél stefnda halli upp á við, þau séu sérstaklega stillt til að vera alveg lárétt. Þá mótmælir stefndi staðhæfingum í skýrslunni um brot gegn einkaleyfinu. Þær séu með öllu órökstuddar.
Stefndi vísar til skýrslu er hann fól Ómari G. Ingvarssyni, vélaverkfræðingi og ráðgjafa á sviði hugverkaréttinda, að gera. Þar sé komist að þeirri niðurstöðu að öll atriði í einkaleyfi stefnanda séu verulega frábrugðin rækjuflokkunarvél stefnda. Stefndi segir að með þessari skýrslu hafi hann sannað að vél sín brjóti ekki gegn einkaleyfinu, en sönnunarbyrðin hvíli þó alfarið á stefnanda.
Stefndi segir um skaðabóta- og endurgjaldskröfu stefnanda að ekki sé sannaður bótagrundvöllur, orsakasamhengi eða það að stefnandi hafi beðið fjárhagstjón. Stefndi vísar til þess að hann hafi ekki brotið gegn einkaleyfinu. Þó svo væri þá sé tjón ósannað. Skaðabætur verði ekki dæmdar að álitum. Stefnandi hefði ekki getað selt sína vél til Súðavíkur, innmötunarbúnaður hennar henti ekki til rækjuflokkunar. Þá sé krafa stefnanda ekki sundurliðuð.
Þá bendir stefndi á að verð hverrar vélar sé mun lægra en 10.000.000 króna. Þá sé hagnaður af sölu brot af þeirri fjárhæð.
Stefndi mótmælir því að tjón verði metið af því að hann hafi boðið öðrum aðilum sambærilegar vélar til kaups. Lögbannið hafi stöðvað þau viðskipti.
Loks gerir stefndi sérstaka athugasemd við málskostnaðarkröfu stefnanda. Stefnandi hafi aukið verulega kostnað af málarekstrinum.
Forsendur og niðurstaða.
Mál þetta er höfðað fyrir héraðsdómi í Reykjavík samkvæmt heimild í 5. tl. 1. mgr. 64. gr. laga um einkaleyfi.
Stefnandi hefur með áðurgreindri yfirlýsingu sýnt að hann má með réttu telja aðila málsins, þó hans sé ekki getið við einkaleyfisumsóknina.
Leysa verður úr því hvort stefndi hafi með smíði þeirrar vélar sem sett var upp hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Súðavík brotið gegn rétti stefnanda samkvæmt einkaleyfi nr. 1774. Verður að bera saman þær tæknilausnir sem stefndi notast við í vél sinni.
Samkvæmt einkaleyfinu er um að ræða búnað sem samanstendur af einu eða fleiri samtengdum og stillanlegum þrepum (rennum). Þrepin geta verið útbúin með snúningspinnum en það er aðallega hugsað til að snúa fiski á milli þrepa. Þá eru þrepin hólfuð í rennslisstefnu með stýrispjöldum og eru fleiri hólf á síðari þrepum. Þrepin eru þannig stillt að hraði efnisins eykst frá einu þrepi til annars og því verður efnislagið einnig þynnra frá einu þrepi til annars. Þessu er ætlað að ná að skammta sem næst einföldu lagi af efni inn á hryggböndin. Þegar um er að ræða nokkur þrep og þeim er ætlað að stilla efnisflæðið inn á hryggböndin má segja að það að geta haft þrepin stillt með mismunandi hætti sé eitt grundvallaratriða í þessari hönnun.
Hjá stefnda er um að ræða búnað sem festur er á grind flokkara og ekki er hægt að stilla án þess að stöðva vélina og taka hana í sundur að hluta. Búnaðurinn samanstendur af lóðréttum, samsíða bylgjuðum plötum sem stýra rækjunni niður á hryggböndin. Neðri bylgjurnar eru lengri en þær efri. Enginn botn er í búnaðinum. Þessum búnaði er einungis ætlað að stýra rækjunni inn á hryggböndin en ekki að tryggja einfalt lag rækju inn á þau. Það er gert með öðrum búnaði sem ekki er til umfjöllunar hér.
Dómurinn telur að hér sé um að ræða tæknilega ólíkar leiðir við lausn innmötunar fyrir rækju á hryggbönd stærðarflokkara. Því verður ekki talið að stefndi hafi með smíði rækjuflokkara síns brotið gegn einkaleyfi nr. 1774.
Kröfum stefnanda um bann við framleiðslu, staðfestingu lögbanns og greiðslu skaðabóta og endurgjalds verður því hafnað og ber að fella lögbannið úr gildi.
Stefnanda verður gert að greiða stefnda málskostnað. Er hann hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Sveinn V. Árnason vélaverkfræðingur.
D ó m s o r ð
Stefndi, 3x stál ehf., er sýknaður af öllu kröfum stefnanda, Style ehf.
Framangreint lögbann er fellt úr gildi.
Stefnandi greiði stefnda 2.000.000 króna í málskostnað.