Hæstiréttur íslands

Mál nr. 462/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfulýsing
  • Slit
  • Skuldajöfnuður
  • Fjármálafyrirtæki


                                                                                              

Þriðjudaginn 26. ágúst 2014.

Nr. 462/2014.

Lífeyrissjóður verkfræðinga

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Glitni hf.

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Kröfulýsing. Slit. Skuldajöfnuður. Fjármálafyrirtæki.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um kröfu L við slit G hf. Í málinu hafði G hf. samþykkt höfuðstól lýstrar kröfu L samkvæmt skuldabréfi sem almenna kröfu, en hafnað þeim hluta kröfunnar sem lýst var sem ávöxtunarkröfu. Fyrir lá að L hafði ekki mótmælt afstöðunni innan lögbundins frests 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. L lýsti síðan yfir skuldajöfnun vegna þess hluta kröfunnar sem hann hafði lýst sem ávöxtunarkröfu á móti kröfu G hf. á hendur honum. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kom fram að samkvæmt 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 teldist afstaða skiptastjóra til kröfu endanlega samþykkt við gjaldþrotaskipti af því leyti sem mótmæli kæmu ekki fram samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins gegn afstöðu hans til viðurkenningar hennar. Þar sem engar undantekningar væru gerðar frá þessu í lögunum yrði að líta svo á að bæði L og G hf. væru bundnir af þeirri afstöðu slitastjórnar að hafna ávöxtunarhluta umræddrar kröfu. Með hliðsjón af þessu gæti L ekki skuldajafnað þeim hluta kröfunnar við kröfu G hf.   

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júlí sama ár. Kærður er úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila að fjárhæð 12.300.000 krónur vegna verðbóta samkvæmt ákvæðum skuldabréfs útgefnu af varnaraðila 10. febrúar 2006 við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi þeirra á milli 27. júní 2006. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Lífeyrissjóður verkfræðinga, greiði varnaraðila, Glitni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2014 .

I.

Mál þetta, sem þingfest var 1. október 2012, var tekið til úrskurðar 14. maí sl. Sóknaraðili er Lífeyrissjóður verkfræðinga en varnaraðili er Glitnir hf. 

Sóknaraðili krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna 12.300.000 króna kröfu sinni á hendur varnaraðila, vegna verðbóta samkvæmt hækkun vísitölukörfu, samkvæmt ákvæðum skuldabréfs útgefnu af varnaraðila 10. febrúar 2006 (ISIN nr. XS0244886320 og með auðkennið ISB110210A), við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi sóknaraðila og varnaraðila, dags. 27. júní 2006, með auðkennið CIRS_1711. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að honum verði ákveðinn málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

                                                                                 II.

Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember sama ár. Með lögum nr. 44/2009 var varnaraðili síðan tekinn til slitameðferðar og miðast upphaf þeirra við 22. apríl 2009, þegar lögin öðluðust gildi. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna, sem birtist í Lögbirtingablaðinu 26. maí 2009, og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Samkvæmt 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda reglur laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um meðferð krafna við slitin, sbr. 2. tl. ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 44/2009.

Sóknaraðili lýsti við slitameðferðina almennri kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, sem móttekin var af slitastjórn varnaraðila 26. nóvember 2009, samtals að fjárhæð 75.360.000 krónur. Byggðist krafan á skuldabréfi, með auðkennið ISB110210A, útgefnu hinn 10. febrúar 2006 af Íslandsbanka hf., forvera varnaraðila. Sundurliðaðist krafan þannig að höfuðstóll var 50.000.000 króna og svokölluð ávöxtun, eða ávöxtunarkrafa, sem eru verðbætur á höfuðstól bréfsins vegna hækkunar á svokallaðri vísitölukörfu samkvæmt skilmálum sem giltu fyrir skuldabréfið, nam 25.360.000 krónum. Slitastjórn varnaraðila tilkynnti sóknaraðila með bréfi, dags. 16. nóvember 20010, að hún samþykkti höfuðstól kröfunnar en hafnaði henni að öðru leyti. Jafnframt kom fram í bréfinu að ef sóknaraðili samþykkti ekki afstöðu slitastjórnarinnar og vildi mótmæla henni bæri honum að leggja inn mótmæli eigi síðar en á kröfuhafafundi hinn 2. desember 2010. Að öðrum kosti væri afstaðan endanleg, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Engin mótmæli bárust frá sóknaraðila, hvorki fyrir fundinn né á fundinum sjálfum.

Með bréfi, dags. 7. maí 2012, lýsti sóknaraðili yfir skuldajöfnun vegna framangreinds hluta kröfu sóknaraðila, sem slitastjórn varnaraðila hafði hafnað, á móti kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila, með vísan til 118. gr., sbr. 100. gr., laga nr. 21/1991. Er sú krafa varnaraðila vegna skuldbindinga sóknaraðila samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi aðila, dags. 27. júní 2006, og er ágreiningslaust að hún sé að fjárhæð 20.762.290 krónur. Slitastjórnin hafnaði yfirlýsingu sóknaraðila um skuldajöfnuð með bréfi, dags. 8. maí 2012, með vísan til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, þar sem sóknaraðili hefði ekki mótmælt afstöðu slitastjórnar til kröfu hans.

Fundur til að reyna að jafna ágreining um kröfu sóknaraðila, í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, var haldinn 10. maí 2012. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining um kröfu sóknaraðila á fundinum ákvað slitastjórn varnaraðila í kjölfarið að beina ágreiningsefninu til úrlausnar héraðsdóms, í samræmi við ákv. 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr., laga nr. 21/1991.

III.

Krafa sóknaraðila um viðurkenningu á rétti sínum til skuldajöfnunar byggist á því að öll skilyrði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 fyrir skuldajöfnun séu uppfyllt. Þannig séu kröfur varnaraðila samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum og ávöxtunarkrafa varnaraðila samkvæmt skuldabréfinu gagnkvæmar og báðir aðilar hafi átt þessar kröfur við upphaf slitameðferðar sóknaraðila hinn 22. apríl 2009. Krafa sóknaraðila sé gild og skýr, enda sé krafan og fjárhæð hennar óumdeild. Ljóst sé að skilyrði ákvæðisins um tímamörk séu uppfyllt þar sem sóknaraðili hafi eignast kröfu sína 10. febrúar 2006 við kaup á skuldabréfinu og hafi átt skuldabréfið óslitið síðan þá. Ekkert annað sé komið fram en að varnaraðili hafi verið gjaldfær á þeim tíma og hafi varnaraðili sönnunarbyrði fyrir því að sóknaraðili hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni varnaraðila á þeim tíma. Þá hafi eini tilgangur sóknaraðila með kaupum á umræddu skuldabréfi varnaraðila eingöngu verið fjárhagslegur og byggst á væntingum um ávöxtun eigin fjár. Hann hafi því ekki eignast kröfu sína í þeim tilgangi að nota hana til skuldajöfnunar og hafi varnaraðili ekki sýnt fram á slíkan tilgang hans. Sóknaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnuði vegna ávöxtunarkröfunnar, við kröfu varnaraðila, með yfirlýsingu, dags. 7. maí 2012. Í yfirlýsingunni hafi fjárhæð kröfu sóknaraðila verið tiltekin 25.360.000 krónur, en aðilar hafi hins vegar komist að samkomulagi um að krafan nemi 12.300.000 krónum.

Sóknaraðili mótmæli þeirri afstöðu varnaraðila að umrædd ávöxtunarkrafa sé fallin niður fyrir vanlýsingu með því að afstöðu slitastjórnar til kröfunnar hafi ekki verið mótmælt á sínum tíma. Í 118. gr. laga nr. 21/1991 komi fram sú aðalregla að sé kröfu ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 85. gr. laganna, og ekki sé hægt að fylgja henni fram gagnvart því skv. 116. gr., falli hún niður gagnvart búinu. Hins vegar séu í ákvæðinu tilgreindar nokkrar undantekningar frá þessari reglu og komi þannig fram í 3. tl. ákvæðisins að þetta eigi ekki við sé krafan höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu þrotabúsins, að fullnægðum skilyrðum 110. gr. laganna. Þar sem sóknaraðili hafi ávöxtunarkröfu sína til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila og skilyrði skuldajöfnunar skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt, eins og fram sé komið, sé ljóst að krafa sóknaraðila sé ekki fallin niður gagnvart varnaraðila.

Sóknaraðili leggi áherslu á að reglur um réttaráhrif vanlýsingar kröfu snúist um að takmarka rétt viðkomandi kröfuhafa til úthlutunar af eignum viðkomandi bús. Þær hafi hins vegar engin áhrif á rétt kröfuhafans til skuldajöfnunar. Sá réttur falli ekki niður við vanlýsingu kröfunnar og sú staðreynd að kröfuhafi lýsi aðeins hluta kröfu sinnar í búið takmarki ekki rétt hans til að beita skuldajöfnuði með kröfuliðum sem ekki hafi verið lýst á kröfulýsingarfresti. Réttur til skuldajafnaðar sé afar víðtækur, eins og ráða megi af 100. gr. laga nr. 21/1991, hvernig sem skuld og gagnkröfu sé varið, eins og segi í ákvæðinu. Réttur til að beita skuldajöfnuði sé sérstaklega áréttaður í 118. gr. sömu laga, en áréttað skuli að reglur XVIII. kafla laga nr. 21/1991 fjalli í meginatriðum um meðferð krafna á hendur búinu, hvernig farið skuli með lýstar kröfur og við hvaða aðstæður kröfuhafar kunni að missa rétt til úthlutunar upp í kröfur sínar. Ávöxtunarkröfunni sem þetta mál snúist um hafi ekki verið fylgt eftir af hálfu kröfuhafans eftir að andmæli hafi komið fram gegn henni af hálfu varnaraðila og verði hún því ekki talin með kröfum sem lýst hafi verið í búið. Hafi rétturinn til að nýta hana til skuldajafnaðar ekki fallið niður af þeim sökum, sbr. 3. tl. 118. gr.

Sóknaraðili bendi og á að reglur um að kröfur falli niður fyrir vanlýsingu séu afar íþyngjandi fyrir kröfuhafa. Því megi gera þá kröfu til löggjafans að orða reglur um slíkt skýrt og ótvírætt. Engan veginn sé skýrt samkvæmt framangreindum reglum að krafan sem sóknaraðili hafi uppi til skuldajafnaðar sé fallin niður. Þvert á móti felist í 3. tl. 118. gr. að sóknaraðila hafi ekki borið skylda til að lýsa kröfunni, enda yrði hún höfð uppi til skuldajafnaðar. Réttaráhrif þess að afstöðu til lýstrar kröfu sé ekki mótmælt innan tilskilins tímafrests, sbr. 120. gr. laga nr. 21/1991, séu þau sömu og áhrif vanlýsingar, sbr. 118. gr. Sé á það bent að í ákvæðum 119. og 120. gr. laga nr. 21/1991 sé fjallað um skrá sem skiptastjóra sé ætlað að gera um lýstar kröfur. Fyrst afstöðu slitastjórnar varnaraðila til ávöxtunarkröfunnar hafi ekki verið mótmælt komist hún ekki á skrá yfir lýstar kröfur, en það haggi hins vegar ekki skuldajöfnunarrétti sóknaraðila.

IV.

Varnaraðili bendir á að ágreiningslaust sé með aðilum að mótmæli hafi ekki borist vegna afstöðu slitastjórnar til umþrættrar kröfu fyrir eða á kröfuhafafundinum hinn 2. desember 2010. Hafi sóknaraðila mátt vera ljóst, í ljósi afstöðubréfsins sem varnaraðili hafi sent honum, hverju það varðaði ef hann mótmælti ekki afstöðu til kröfunnar í síðasta lagi á fyrrgreindum kröfuhafafundi. Þar sem sóknaraðili hafi ekki mótmælt afstöðu varnaraðila til kröfunnar hafi varnaraðili mátt líta svo á að sóknaraðili samþykkti þá afstöðu hans að hafna kröfu hans að hluta og þar með endanlega fjárhæð kröfunnar. Samkvæmt 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 teljist afstaða skiptastjóra til viðurkenningar kröfu endanlega samþykkt komi ekki fram mótmæli við afstöðu hans á fundi sem haldinn sé til að fjalla um skrá um lýstar kröfur. Afleiðingar af tómlæti sóknaraðila í þessu sambandi séu þær samkvæmt lagaákvæðinu að afstaða til kröfunnar sé endanleg. Sé niðurstaðan ekki einungis bindandi fyrir sóknaraðila heldur einnig varnaraðila. Í ákvæðinu felist hlutlæg og ófrávíkjanleg lagaregla og verði sóknaraðili að bera hallann af eigin aðgerðarleysi. Engar undantekningar séu frá þessu fortakslausa ákvæði, eins og skýrt komi fram í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 116/2013.

Fyrir liggi að hefði sóknaraðili mótmælt kröfunni hefði ávöxtunarhluti hennar, að fjárhæð 12.300.000 krónur, verið tækur til skuldajöfnunar, á sama hátt og höfuðstóll hennar, í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 724/2012.

Því sé mótmælt, sem fram komi í greinargerð sóknaraðila, að varnaraðili hafi haldið því fram að krafan hafi fallið niður vegna vanlýsingar skv. 118. gr. laga nr. 21/1991, enda eigi það ákvæði ekki við í tilviki sóknaraðila. Kröfunni hafi ekki verið vanlýst samkvæmt ákvæðinu, og undantekningar ákvæðisins eigi því ekki við í tilviki sóknaraðila, heldur hafi engin mótmæli borist við afstöðu slitastjórnarinnar. Réttaráhrif þessa séu alveg skýr skv. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 og sé það endanleg afstaða til fjárkröfunnar. Sóknaraðili geti ekki síðar komið fram með fjárkröfu, sem áður hafi verið hafnað án hans mótmæla, og lýst henni á ný í bú varnaraðila, en nú til skuldajafnaðar. Væri slíkt heimilt myndi það leiða til ójafnræðis kröfuhafa þar sem framangreind réttaráhrif ættu þá einungis við um kröfuhafa sem ekki gætu nýtt kröfu sína til skuldajafnaðar.

V.

Niðurstaða

Fyrir liggur að slitastjórn varnaraðila samþykkti höfuðstólshluta lýstrar skuldabréfakröfu sóknaraðila sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og skuldajafnaði honum við kröfur varnaraðila gagnvart honum. Hún hafnaði hins vegar þeim hluta kröfunnar sem sóknaraðili lýsti sem ávöxtunarkröfu. Er ekki um það ágreiningur að sóknaraðili mótmælti ekki þessari afstöðu varnaraðila innan tilskilins frests, sbr. 1. mgr. 120. gr. sömu laga. Snýst ágreiningur aðilanna eingöngu um það hvort sóknaraðili eigi rétt á að skuldajafna ávöxtunarhluta skuldabréfsins við kröfu varnaraðila á hendur honum þrátt fyrir að hafa ekki mótmælt framangreindri afstöðu varnaraðila að samþykkja ekki þann hluta kröfunnar.

Eftir að dómur gekk í Hæstarétti í máli nr. 724/2012, í máli Lífeyrissjóðs verslunarmanna gegn varnaraðila, þar sem rétturinn féllst á réttmæti sambærilegrar ávöxtunarkröfu, náðu aðilar samkomulagi um fjárhæð þessa hluta kröfu sóknaraðila. Eftir stendur hins vegar að varnaraðili telur, með vísan til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, að ekki verði hróflað við fyrri afstöðu varnaraðila til kröfunnar þar sem henni hefði ekki verið mótmælt. Í ákvæði þessu kemur fram að afstaða skiptastjóra til kröfu teljist endanlega samþykkt við skiptin að því leyti sem mótmæli koma ekki fram skv. 1. mgr. gegn afstöðu hans til viðurkenningar hennar. Þar sem engar undantekningar eru gerðar frá þessu í lögunum verður að líta svo á að þar með séu báðir málsaðilar bundnir af þeirri afstöðu slitastjórnar að hafna ávöxtunarhluta kröfu sóknaraðila. Með hliðsjón af þessu gat sóknaraðili því ekki, svo gilt væri gagnvart varnaraðila, skuldajafnað þessum hluta kröfunnar við kröfu varnaraðila gagnvart honum með yfirlýsingu sinni hinn 7. maí 2012, enda verður ekki talið að undantekningarákvæði 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, um heimild til að koma vanlýstri kröfu að við skipti með skuldajöfnun, geti átt hér við þar sem umræddri kröfu sóknaraðila var sannarlega lýst við slitameðferð varnaraðila innan tilskilins frests. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu sóknaraðila.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 700.000 krónur.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila, Lífeyrissjóðs verkfræðinga, á hendur varnaraðila, Glitni hf., er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 700.000 krónur í málskostnað.