Hæstiréttur íslands

Mál nr. 202/2015

A (Bryndís Guðmundsdóttir hrl.)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl.)

Lykilorð

  • Ökutæki
  • Slysatrygging ökumanns
  • Börn
  • Líkamstjón
  • Stórkostlegt gáleysi


Ökutæki. Slysatrygging ökumanns. Börn. Líkamstjón. Stórkostlegt gáleysi.

A höfðaði mál gegn S hf. til greiðslu fjárhæðar sem á vantaði til að bæta að fullu líkamstjón hennar sem hún varð fyrir við akstur fjórhjóls á árinu 2008 og stóð ágreiningur aðilanna um það eitt hvort hún þyrfti að una því að bera tjón sitt sjálf að hálfu eða eftir atvikum í öðru lægra hlutfalli. Óumdeilt var að A, sem var 14 ára þegar umrætt atvik átti sér stað, hafði ekki fyrr ekið ökutæki sem þessu og hafði í undanfara þessa atviks aðeins notið takmarkaðs leiðsagnar jafnaldra síns, en þær hefðu haft heimild umráðamanns fjórhjólsins til að aka því. A hafði ekki réttindi til að stjórna vélknúnu ökutæki, en um nauðsyn slíkra réttinda var sérstakt ákvæði í skilmálum S hf. fyrir lögboðna slysatryggingu ökumanns. Þótti hún því hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi sem varðaði lækkun eða missi bóta samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Var talið að A hefði haft aldur og þroska til að gera sér grein fyrir því að sér væri óheimilt að aka fjórhjólinu án ökuréttar, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Að virtum atvikum málsins væri óhjákvæmilegt að líta svo á að A hefði einnig sýnt af sér stórfellt gáleysi sem hefði átt þátt í því að vátryggingaratburðurinn hefði orðið, enda hefði mátt ætlast til að hún gerði sér þrátt fyrir ungan aldur grein fyrir því að hún hefði enga kunnáttu til að stjórna vélknúnu ökutæki. Samkvæmt framansögðu ásamt því að A hefði ekki leitt líkur að því að ástandi fjórhjólsins hefði verið áfátt voru ekki talin efni til að dæma henni frekari bætur úr hendi S hf. en hann hafði þegar greitt. Var S hf. því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2015. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.107.433 krónur með 4,5% ársvöxtum af 807.898 krónum frá 22. júlí 2008 til 22. október sama ár og af 3.107.433 krónum frá þeim degi til 23. janúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi varð áfrýjandi, sem er fædd í […] 1994, fyrir líkamstjóni af völdum slyss þegar hún ók fjórhjóli 22. júlí 2008 eftir túni á jörðinni […] nærri […]. Óumdeilt er að áfrýjandi, sem þar var gestkomandi, hafi ekki fyrr ekið ökutæki sem þessu og hafi í undanfara þessa atviks aðeins notið takmarkaðrar leiðsagnar vinar síns, sem er fædd 1993 og var búsett að […], en þær hafi haft heimild umráðamanns fjórhjólsins til að aka því á þessum stað. Stefndi hafði veitt lögboðnar tryggingar fyrir ökutækið, þar á meðal slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Áfrýjandi leitaði 27. mars 2009 svars stefnda við því hvort hann viðurkenndi skyldu sína til að greiða henni bætur úr þeirri tryggingu vegna tjóns af slysinu. Því hafnaði stefndi samdægurs með vísan til þess að áfrýjandi hafi með akstri án ökuréttar valdið slysinu af stórfelldu gáleysi og nyti því ekki réttar til bóta, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Áfrýjandi beindi ágreiningi um þetta til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem komst að þeirri niðurstöðu 26. maí 2009 að stefnda bæri að bæta tjón áfrýjanda að hálfu úr slysatryggingunni. Að fenginni matsgerð dómkvaddra manna 19. desember 2013 um líkamstjón áfrýjanda stóð stefndi henni 9. janúar 2014 skil á bótum til samræmis við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 28. janúar 2014 til greiðslu fjárhæðar, sem á vantar til að bæta tjón hennar að fullu, og stendur ágreiningur aðilanna um það eitt hvort hún þurfi að una því að bera tjón sitt sjálf að hálfu eða eftir atvikum í öðru lægra hlutfalli.

Aðilana greinir ekki á um að fjórhjól af þeim toga, sem áfrýjandi ók umrætt sinn, teljist vera torfærutæki í skilningi 2. gr. umferðarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 55. gr. laganna má enginn stjórna slíku tæki nema hann hafi gilt ökuskírteini til að stjórna bifreið eða bifhjóli. Í skilmálum stefnda fyrir lögboðna slysatryggingu ökumanns og eiganda sem farþega er mælt svo fyrir að það sé forsenda fyrir greiðslu bóta að settum varúðarreglum sé ávallt fylgt, en meðal slíkra reglna í skilmálunum er ákvæði um að vátryggðum beri að gæta þess að hafa gild réttindi til að stjórna ökutæki. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 má lækka eða fella niður ábyrgð vátryggingafélags hafi vátryggður af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður hafi orðið með því að hlíta ekki varúðarreglum. Áfrýjandi braut gegn fyrrgreindri varúðarreglu með því að aka fjórhjólinu án ökuréttar og verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjandi hafi haft aldur og þroska til að gera sér grein fyrir því að sér væri aksturinn óheimill af þessum sökum, sbr. 3. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Auk þessa verður að gæta að því að áfrýjandi hafði sem fyrr segir ekki áður ekið fjórhjóli, hún fékk mjög litlar leiðbeiningar um hvernig hún ætti að standa að því og þær veitti að auki ungmenni, sem var nærri jafnaldri hennar og hefur vart haft nokkra þekkingu eða reynslu af akstri til að geta orðið til leiðsagnar. Áfrýjandi lýsti því jafnframt í skýrslu fyrir héraðsdómi að hún hafi ekki verið hrifin af því að aka fjórhjólinu og hafi hún sagt vini sínum að sér fyndist þetta ekki góð hugmynd, svo og að hún óttaðist að eitthvað myndi gerast. Er óhjákvæmilegt samkvæmt öllu framansögðu að líta svo á að áfrýjandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi sem hafi átt þátt í því að vátryggingaratburðurinn hafi orðið, en ætlast mátti til að hún gerði sér þrátt fyrir ungan aldur grein fyrir því að hún hefði enga kunnáttu til að stjórna vélknúnu ökutæki, sbr. 1. málslið 1. mgr. og 3. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Að þessu öllu virtu ásamt því að áfrýjandi hefur ekki leitt líkur að því að ástandi fjórhjólsins hafi verið áfátt eru ekki efni til að dæma henni frekari bætur úr hendi stefnda en hann hefur þegar greitt. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2014.

I.

Mál þetta var höfðað 28. janúar 2014 og dómtekið 3. desember 2014 að loknum munnlegum málflutningi.

   Stefnandi er A, til heimilis að […], en stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

   Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.107.433 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 807.898 krónum frá 22. júlí 2008 til 22. október 2008 og af 3.107.433 krónum frá þeim degi til 23. janúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

   Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

II.

Í máli þessu er deilt um það hvort stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hún slasaðist við akstur fjórhjóls á árinu 2008 og hvort það gáleysi eigi að leiða til lækkunar bóta úr slysatryggingu ökumanns hjá stefnda vegna eigin sakar stefnanda.

   Atvik málsins eru að stefnandi slasaðist á fæti þegar hún ók fjórhjólinu […] á túni við […] á […] þann 22. júlí 2008. Var hún þá 14 ára gömul og hafði ekki ökuréttindi til þess að aka fjórhjólinu. Var hjólið tryggt hjá stefnda.

   Lögregla var ekki kölluð til þegar slysið átti sér stað, en móðir stefnanda tilkynnti lögreglu um slysið þann 11. september 2008. Fram kemur í lögregluskýrslu að stefnandi hafi verið að aka hjólinu á túninu við […] þegar bensíngjöfin hafi fest inni og hjólið þá farið allt of hratt. Hafi hjólið stefnt á girðingarstaur á túninu en þá hafi stefnandi kastast af hjólinu og lent á staurnum með fyrrgreindum afleiðingum.

   Slysið var tilkynnt til stefnda, þann 24. mars 2009 og bóta krafist. Með tölvupósti stefnda, dags. 27. mars 2009, var bótaskyldu hafnað úr slysatryggingu ökumanns og eiganda fjórhjólsins. Var á því byggt af hálfu stefnda að hann teldi það stórkostlegt gáleysi að aðili sem hefði ekki öðlast ökuréttindi skylda aka hjólinu.

   Stefnandi bar ágreining sinn við stefnda undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 26. maí 2009, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að líkamstjón stefnanda skyldi bætast að hálfu úr slysatryggingu ökumanns fjórhjólsins hjá stefnda. Í úrskurði nefndarinnar er tekið fram að um brot á varúðarreglu samkvæmt gr. 8.2 í vátryggingarskilmálum stefnda fari eftir ákvæðum 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Megi því lækka eða fella niður ábyrgð félagsins ef vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Þegar metin sé ábyrgð félagsins í þessu sambandi skuli m.a. litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og til atvika að öðru leyti. Stefnandi hafi ekið án tilskilinna ökuréttinda og ekki getað brugðist við eða stöðvað hjólið er henni fannst bensíngjöf festast. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Þegar litið væri til þess að stefnandi hefði ekið hjólinu í umrætt sinn á túni utan alfaraleiðar og fullorðið fólk hefði veitt samþykki sitt fyrir því að hún æki því, og til atvika að öðru leyti, væri rétt að ábyrgð félagsins á líkamstjóni stefnanda skertist um helming.  

   Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags.19. desember 2013, var varanlegur miski stefnanda metinn 15% og varanleg örorka 12%. Var matsgerðin lögð til grundvallar bótauppgjöri stefnda gagnvart stefnda og greiddi stefndi bótakröfuna að hálfu. Er ekki deilt um niðurstöðu matsgerðarinnar.

   Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Þá kom fyrir dóminn vitnið B.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Dómkröfur stefnanda byggja á því að stefnanda beri fullar skaðabætur úr hendi stefnda. Stefndi hafi greitt bætur að fjáræð 3.912.766 krónur eða sem nemi 50% af umkrafinni kröfu stefnanda á hendur stefnda.

   Stefnandi telur ágreining aðila lúta að því hvort stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og hver sakaskipting skuli vera vegna meintrar eigin sakar.

   Stefnandi byggir á því að hún hafi hvorki sýnt af sér gáleysi né stórkostlegt gáleysi er slysið átti sér stað. Ekki sé samhengi á milli þess að aka án ökuréttinda og þess að sýna af sér stórkostlegt gáleysi við akstur. Stefnandi hafi verið 14 ára þegar slysið átti sér stað og því erfitt fyrir hana sökum aldurs og reynslu að gera sér grein fyrir að hún mátti ekki aka hjólinu. Stefnandi vísar til 3. mgr. 90. gr. vátryggingarsamningalaga sem mæli fyrir um að félag geti ekki borið fyrir sig ákvæði 1. mgr. 90. gr. laganna ef hinn vátryggði hefur ekki getað, vegna aldurs eða andlegs ástands, gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Þá byggir stefnandi á því að réttindaleysi hennar og reynsluleysi af akstri fjórhjóls sé ekki í neinu samhengi við slysið. Bensíngjöf fjórhjólsins hafi bilað og hafi fest inni en hjólið hafi þá stefnt á girðingarstaur. Stefnandi hafi reynt að koma sér af hjólinu en kveðst ekki muna hvort hún hafi stokkið eða fallið af því, en við fallið hafi hún lent á girðingarstaur. Eftir fallið hafi hjólið haldið stjórnlaust áfram. Telur stefnandi að hún hafi brugðist rétt við miðað við aðstæður.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi þegar greitt stefnanda þær bætur sem hún eigi lögvarinn rétt á. Stefnandi hafi ekið fjórhjólinu án ökuréttinda og þannig sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.

   Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að lækka beri bætur til stefnanda vegna stórkostlegs gáleysis hennar, með vísan til 1. mgr. 90. gr., sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þá vísar stefndi til 6. gr. skilmála slysatryggingar ökumanns. Vegna réttindaleysis stefnanda til þess að aka hjólinu megi ætla að hún hafi verið óvön akstri. Þá vísar stefndi til varúðarreglu vátryggingarskilmála stefnda sem fram kemur í 2. mgr. 8. gr. skilmálanna og ákvæða 7. gr. um brot á varúðarreglum. Í síðargreinda ákvæðinu komi fram að hafi vátryggður vanrækt að hlíta varúðarreglum eða öðrum fyrirmælum í vátryggingarsamningi megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins, sbr. 26. gr. laga nr. 30/2004. Gera megi þá kröfu til 14 ára barns að það viti að það megi ekki aka fjórhjóli rétt eins og það viti að það megi ekki aka bifreið. Samkvæmt þeirri breytingu sem gerð var með lögum nr. 30/2004, sbr. 3. mgr. 90. gr. laganna, sé heimilt að meta hvenær aldur eða andlegt ástand vátryggðs eigi að leiða til ábyrgðar fyrir vátryggingarfélag. Samkvæmt reglum skaðabótaréttar hafi börnum verið gert að bera tjón sitt að hluta vegna gáleysislegrar háttsemi sinnar.

   Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að fjórhjólið hafi bilað. Fullyrðingar stefnanda um að bensíngjöf hafi ekki virkað geti ekki talist sönnun um að eitthvað athugavert hafi verið við hjólið, enda hafi stefnandi ekki haft reynslu af akstri slíkra tækja. Þá hafi engar upplýsingar verið veittar um það hvort fjórhjólið hafi orðið fyrir tjóni eða hvort það hafi bilað síðar með sambærilegum hætti.

   Þá telur stefndi óljóst hvort hún hafi hent sér af hjólinu eða hvort hún hafi fallið af því. Ekki sé því hægt að taka til greina þær málsástæður stefnanda að viðbrögð hennar hafi verið eðlileg, þar sem óljóst sé hver viðbrögð hennar hafi verið þennan dag, auk þess sem haft hafi verið eftir henni að hún myndi ekki hvernig hún hafi farið af hjólinu.

   Þá hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem gefi til kynna að eitthvað annað en réttindaleysi og reynsluleysi stefnanda hafi verið orsök tjóns hennar. Háttsemi stefnanda verði að telja einu orsök slyssins, enda ósannað að það verði rakið til bilunar eða galla í fjórhjólinu.

IV.

Samkvæmt 55. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, má enginn stjórna torfærutæki nema hann hafi gilt ökuskírteini til að mega stjórna bifreið eða bifhjóli. Stefnandi var 14 ára gömul þegar hún ók fjórhjólinu […]. Um er að ræða hjól sem er skráð í ökutækjaskrá sem torfæruhjól IV.

   Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, er mælt fyrir um að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefðu orðið megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Hið sama eigi við ef vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Skal við úrlausn á þessum atriðum litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að félagið geti ekki borið fyrir sig reglur 1. mgr. ef hinn vátryggði gat ekki vegna aldurs eða andlegs ástands síns gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

   Í 6. gr. vátryggingarskilmála lögboðinnar ábyrgðartryggingar ökutækis er kveðið á um að hafi vátryggður valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefði orðið megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins, sbr. 2. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Við mat á því hvort háttsemi telst fela í sér stórkostlegt gáleysi er meðal annars litið til þess hvort vátryggður taldist ekki geta stjórnað ökutæki örugglega eða hafi verið óhæfur til þess samkvæmt ákvæðum umferðarlaga vegna undanfarandi neyslu áfengis, fíkniefna, örvandi eða deyfandi lyfja. Þá er mælt fyrir um svonefnda varúðarreglu í grein 9.2 í skilmálunum, þar sem segir að vátryggðum beri að gæta þess að hafa gild ökuréttindi við akstur ökutækisins.

   Heimild stefnda til að skerða rétt stefnanda til bóta er reist á ákvæðum 1. mgr. 90. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, sbr. einnig 6. og 9. gr. vátryggingarskilmála stefnda.

   Fyrir liggur að stefnandi ók torfæruhjólinu án ökuréttinda sem er andstætt ákvæðum 55. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í málinu liggja engin gögn fyrir um að bremsur ökutækisins eða önnur stjórntæki hafi verið biluð umrætt sinn. Einnig liggur ekkert fyrir um það á hvaða hraða stefnandi ók, en stefnandi bar fyrir dómi að hún hefði ekið rólega á um 30 km á klukkustund, enda hefði hún enga reynslu haft af akstri torfæruhjóls og að um fyrstu ökuferð hennar hefði verið að ræða þegar slysið varð.

   Dómurinn telur að gera megi þá kröfu til 14 ára barns að það geri sér grein fyrir að ökuréttindi þurfi til aksturs vélknúinna ökutækja. Telur dómurinn því að stefnanda, sem var 14 ára gömul þegar atvikið átti sér stað, hafi mátt vera ljóst að háttsemi hennar væri hættuleg bæði henni sjálfri og öðrum og það eigi einnig við þótt aksturinn hafi farið fram utan alfaraleiða.

   Af framangreindu leiðir að stefnandi telst með hátterni sínu hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hún ók torfæruhjólinu án ökuréttinda.

   Samkvæmt framangreindu er stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., sýknaður af kröfum stefnanda, A.

   Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Fríðu Bjarkar Teitsdóttur hdl., 600.000 krónur.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

   Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, A.

   Málskostnaður fellur niður.

   Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Fríðu Bjarkar Teitsdóttur hdl., 600.000 krónur.