Hæstiréttur íslands

Mál nr. 309/2014


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Hegningarauki
  • Ítrekun


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2014.

Nr. 309/2014.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Jóhanni Elvari Sveinbjörnssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Þjófnaður. Hegningarauki. Ítrekun.

J var sakfelldur fyrir þjófnað, sbr. 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brotið var framið fyrir uppsögu dóms þar sem hann var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot á grundvelli játningar. Var refsing J af þeim sökum tiltekin sem hegningarauki. Við ákvörðun refsingar var annars vegar litið til 255. gr. og 71. gr. almennra hegningarlaga og hins vegar þess að J játaði skýlaust sakargiftir fyrir dómi og hvernig hegðun hans hefði verið að undanförnu. Var refsing J ákveðin fangelsi í sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst refsimildunar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Jóhann Elvar Sveinbjörnsson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 278.727 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 28. mars 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. mars sl. höfðaði lögreglustjórinn á Akureyri hér fyrir dómi þann 25. nóvember 2013, með ákæru á hendur Jóhanni Elvari Sveinbjörnssyni, kt. [...], [...], [...];

,,fyrir þjófnað með því að hafa þriðjudaginn 27. ágúst 2013, brotist inn í íbúðarhúsið að [...], [...], og stolið þaðan, Kindle lestölvu, Garmin Oregon leiðsögutæki, Canon A1100 IS myndarvél, Acer fartölvu, Arcosy flakkara, fimm hálsfestum, þrettán armböndum, tvennum keðjum af hálsfestum, Reymond Weil skartgripaboxi með úri og perlum, ellefu skartgripaboxum með skartgripum, skartgripaskríni með skartgripum, fimm eyrnalokkum, tveimur brjóstnælum, skrefamæli, tvennum handfrjálsum símabúnaði, einni fjarstýringu, tólf pennum, lyfseðli, líkamsræktarkorti, sundkorti, afsláttarkorti, silfurkúlu, vasaljósi, silfurborðbúnaði, eldhúshníf, fimmtán heyrnatólum, þremur úrum, þremur hleðslutækjum, fjórum straumbreytum, þremur USB snúrum, einni vídeó-snúru, minniskorti, Champix pilluspjaldi, mortel úr steini, leðurjakka, tveimur beltum, Denim Co skyrtu, þremur peysum, buxum, sokkum, fimm gleraugum, tveimur kortaveskjum úr áli, átta öðrum veskjum, herrasnyrtisetti, tölvumús, reiknivél, tveimur 16GB minniskubbum, 32GB minniskorti, tveimur AA rafhlöðum, tvennum stökum hönskum, barmmerki frá Bleiku slaufunni, ýmiskonar pappírum og kvittunum, peningum að fjárhæð kr. 1713.-, erlendum gjaldeyri að fjárhæð 1175 US dollarar, debetkorti og evrópskt sjúkratryggingarkorti, tveimur vegabréfum, alþjóðlegu ökuskírteini, fjórum lyklakippum, tuttugu og einum lykli, tveimur DVD mynddiskum og einum geisladiski.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verið dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Skipaður verjandi ákærða krefst vægustu refsingar honum til handa.  Þá krefst verjandinn hæfilegra málflutningsþóknunar og útlagðs kostnaðar.

Fyrirkall í máli þessu var fyrst gefið út af dómara 26. nóvember á síðasta ári, en þar var þingfesting málsins tiltekin 10. desember sama ár.  Ekki varð af þingfestingunni þar sem fyrst tókst að birta ákærða fyrirkall 27. febrúar sl.  Ákærði mætti til dómþings, ásamt skipuðum verjanda sínum, 13. mars sl.

I.

Samkvæmt rannsóknargögnum barst lögreglunni á Akureyri tilkynning þriðjudaginn 27. ágúst 2013, kl. 11:15, um að karlmaður í annarlegu ástandi væri í [...] í [...], en jafnframt var sagt að skömmu áður hefði honum verið vísað út úr [...]skóla, sem er í næsta nágrenni.  Í tilkynningunni kom fram að umræddur aðili hefði verið með bakpoka og nokkrar töskur.

Af gögnum verður ráðið að lögregla hafi brugðist skjótt við, en jafnframt hafi henni borist til eyrna að umræddur aðili hefði farið inn í íbúð í [...] í nefndu hverfi.  Í frumskýrslu er greint frá því að lögreglumenn hafi án árangurs knúið dyra á umræddri íbúð í [...], en við þær aðstæður séð hvar karlmaður lá þar á stofugólfi hreyfingarlaus, klyfjaður bakpokum og töskum.  Segir að vegna þessara aðstæðna hafi lögreglumennirnir farið inn í íbúðina, en í framhaldi af því komist að raun um að þarna var um að ræða ákærða í máli þessu og að íbúðin var í eigu foreldra hans.

Í nefndri lögregluskýrslu segir frá því að ákærði hafi á vettvangi verið í mjög annarlegu ástandi og illa áttaður á stað og stund,  Hann hafi því verið handtekinn og færður á lögreglustöð.  Greint er frá því að við leit lögreglumanna á ákærða innanklæða, en einnig við leit þeirra í fyrrnefndum töskum, hafi þeir fundið þá muni sem lýst er í ákæru, og vegna merkinga hafi verið álitið að um þýfi væri að ræða og þá úr íbúðarhúsinu að [...] í [...].  Fram kemur að vegna þessa hafi verið haft samband við húsráðanda, og að eftir rannsókn á vettvangi hafi verið augljós ummerki um innbrot á neðri hæð, við glugga, en einnig hafi þar fundisti skófar, sem hafi verið í samræmi við skófatnað ákærða.

Fyrir liggur að umræddu þýfi var samdægurs komið til skila til eiganda.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 29. ágúst sl. lýsti ákærði yfir minnisleyfi um gjörðir sínar nefndan dag vegna fíkniefnaneyslu.

Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust játað sakagiftir, líkt og þeim er lýst í ákæru.

Með játningu ákærða, sem ekki þykir ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæmt, en einnig að virtum ofangreindum gögnum lögreglu, er að áliti dómsins lögfull sönnun komin fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst.  Verður ákærði því sakfelldur fyrir háttsemina.

Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr., heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88, 2008.

II.

Ákærði, sem er 33 ára, á að baki langan sakaferil. Árið 2002 var hann þrívegis dæmdur til að sæta skilorðsbundnu fangelsi fyrir refsiverða háttsemi, einkum þjófnaðarbrot og nytjastuld. Árið 2003 sætti hann tveimur refsidómum fyrir þjófnað og rán.  Með síðari dómunum var hann dæmdur til að sæta fangelsi í fimmtán mánuði, en þar af voru tólf mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára.  Árið 2005 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í tuttugu mánuði fyrir rán.  Árin 2006 og 2008 var ákærða gert að sæta sektum hjá lögreglustjórum vegna brota gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni, en einnig vegna brota á umferðalögum.  Samkvæmt sakavottorði var ákærða með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 30. október 2007, veitt reynslulausn í tvö ár á 200 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt fyrrnefndum dómi frá árinu 2005.  Í janúar 2009 var ákærði dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar, en með þeirri refsingu voru meðtaldir fyrrnefndir 200 dagar eftirstöðvar fyrri fangelsisvistar.  Í febrúar 2011, var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir þjófnaði, tilraunir til þjófnaða, skjalafals og fjársvik en einnig fyrir umferðalagabrot þ. á m. fíkniefnaakstur.  Samkvæmt sakavottorði var ákærða með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 19. október 2011, veitt reynslulausn í tvö ár á 210 daga eftirstöðvum refsinga sem hann hafði verið dæmdur til á árunum 2009 og 2011.  Ákærði rauf reynslulausnina 26. júlí 2012 og var honum í framhaldi af því gert að afplána refsivist sína.  Þann 15. október 2012 var ákærði dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar, en einnig fyrir fíkniefnaakstur.  Í janúar 2013 var ákærða með dómi gert að greiða sekt, m.a. fyrir brot gegn tollalögunum.  Með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 3. mars 2013 var ákærða veitt reynslulausn í eitt ár á 110 daga eftirstöðvum refsinga sem hann hafði verið dæmdur til með fyrrnefndum dómi frá árinu 2012.  Loks var ákærði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 3. mars sl. dæmdur í fimm mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir umferðalagabrot, þ.e. fyrir að aka þrívegis undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti, en með þeirri refsingu voru meðtaldir fyrrgreindir 110 dagar eftirstöðvar refsidómsins frá 2012.

Ákærði hefur í því máli sem hér er til umfjöllunar gerst sekur um þjófnað með því að brjótast inn í íbúðarhús í [...] í lok ágústmánaðar sl. og taka þá heimilismuni sem lýst er í ákæru.  Brotið framdi ákærði fyrir uppsögu þess dóms, sem kveðinn var upp 3. mars sl. og ber því að tiltaka refsingu hans sem hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 1940.  Við ákvörðun refsingarinnar ber að auki að horfa til þess að ákærði hefur á liðnum árum ítrekað gerst sekur um refsiverða háttsemi, þ. á m. auðgunarbrot, sbr. ákvæði 255. gr. og 71. gr. almennra hegningarlaga.  Til refsimildunar þykir mega líta til þess að ákærði játaði skýlaust sakargiftir fyrir dómi og að hann hefur að undanförnu, að því er virðist, gert raunhæfa tilraun til að vinna bug á fíkniefnamisnotkun sinni.  Að þessu virtu og með hliðsjón að viðeiganda ákvæðum 70. gr. hegningarlaganna þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, sem í ljós sakaferils þykir ekki fært að skilorðsbinda.

Mál þetta er höfðað á brotavarnarþingi.  Í ljósi málsúrslita ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs verjanda síns, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig ferðakostnað verjandans, eins og segir í dómsorði.  Engan sakarkostnaður leiddi af málarekstri ákæruvalds.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Jóhann Elvar Sveinbjörnsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði greiði sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl. 125.500 krónur, en einnig ferðakostnað hans 48.060 krónur.