Hæstiréttur íslands

Mál nr. 839/2015

Karl Emil Wernersson (Ólafur Eiríksson hrl.)
gegn
þrotabúi Háttar ehf. (Helgi Birgisson hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

H ehf. keypti alla hluti í Hrossaræktarbúinu F ehf. og lánaði K félaginu fyrir hluta af kaupverðinu en K var eini hluthafi H ehf. Vegna lánsins gaf H ehf. út tvö skuldabréf til K en til tryggingar bréfunum voru settir að veði allir eignarhlutir í F ehf. Í málinu krafðist þb. H ehf. að rift yrði ráðstöfun H ehf. sem fólst í samkomulagi um skuldauppgjör en með því hafði K gengið að veði í öllum eignarhlutum F ehf. og þess krafist að K yrði gert að afhenda þb. H ehf. þá eignarhluti. Fyrir Hæstarétti var fallið frá þeirri málsástæðu sem komið hafði fram í stefnu til héraðsdóms um að H ehf. hefði aldrei skuldað K þá fjáræð sem tilgreind var í skjölunum. Taldi Hæstiréttur að því gættu að þb. H ehf. hefði gengist við skuldinni, sem tilgreind var í fyrrgreindum skjölum og veðsetningin hefði tekið til, yrði ekki talið að lýsing málsástæðna og annarra atvika af hans hendi væru svo glögg sem þyrfti til þess að samhengi málsástæðna yrði ljós og var málinu því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2016. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu að hann verði sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 23. mars 2016. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem aðaláfrýjanda verði gert að greiða í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í héraðsdómi var aðaláfrýjandi eini hluthafi Háttar ehf., auk þess sem hann var eini stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins. Jafnframt ritaði hann firma þess og hafði prókúruumboð fyrir það.

Með kaupsamningi 10. apríl 2007 keypti félagið alla hluti í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. og nam kaupverðið 525.000.000 króna. Samkvæmt samningnum átti að greiða 225.000.000 krónur við afhendingu hins selda en sex mánuðum síðar átti að greiða 300.000.000 krónur. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að ágreiningslaust væri með aðilum að aðaláfrýjandi hefði lánað Hætti ehf. 395.000.000 krónur til að standa skil á kaupverðinu. Þetta hefði hann gert annars vegar með því að greiða beint til seljanda þá greiðslu sem inna átti af hendi við afhendingu hlutanna og hins vegar með því að leggja 170.000.000 krónur inn á reikning Háttar ehf. 4. janúar 2008. Aðaláfrýjandi heldur því fram að Háttur ehf. hafi af þessu tilefni gefið út tvö skuldabréf til sín, annars vegar 2. júní 2007 að fjárhæð 225.000.000 krónur og hins vegar 4. janúar 2008 að fjárhæð 170.000.000 krónur. Efni þessara bréfa samkvæmt ljósritum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi, en í þeim var tekið fram að til tryggingar bréfunum væru settir að veði allir eignarhlutir í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Jafnframt liggur fyrir í málinu yfirlýsing stjórnar þess félags 2. júní 2007 þar sem Hætti ehf. var veitt heimild til að veðsetja eignarhluti í fyrrgreinda félaginu, en áskilið var samkvæmt samþykktum þess að slík ráðstöfun væri bundin samþykki stjórnar.

  Samkvæmt yfirlýsingu, sem dagsett var 15. september 2011 og bar heitið samkomulag um skuldauppgjör, var öllum hlutum í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. ráðstafað til aðaláfrýjanda til greiðslu á fyrrgreindum skuldabréfum. Kom fram í skjali þessu að skuldin væri að fjárhæð 610.353.990 krónur, en andvirði hlutanna, sem kæmi til frádráttar, næmi 400.000.000 krónum eftir sameiginlegu mati Háttar ehf. og aðaláfrýjanda. Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn aðdragandi þess að bú Háttar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Þar er einnig greint frá dómum sem gengu um ógildingu skuldabréfanna.  

II

Aðaláfrýjandi krafðist þess í héraði að málinu yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu hafnaði héraðsdómur með úrskurði 20. desember 2013. Með áfrýjun sinni leitar aðaláfrýjandi meðal annars endurskoðunar á niðurstöðu úrskurðarins. Krafa hans um frávísun er reist á því að málatilbúnaðurinn af hálfu gagnáfrýjanda sé óglöggur og lýsingu málsástæðna svo áfátt að óhjákvæmilegt sé að vísa málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar.

Gagnáfrýjandi höfðaði málið til að fá rift ráðstöfun Háttar ehf. sem fólst í samkomulagi um skuldauppgjör 15. september 2011, en með því gekk aðaláfrýjandi að veði í öllum eignarhlutum í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Jafnframt var þess krafist að aðaláfrýjanda yrði gert að afhenda gagnáfrýjanda alla hluti í félaginu. Þessi málatilbúnaður var í stefnu til héraðsdóms reistur á því að samkomulagið hefði verið málamyndagerningur til að skjóta fjármunum undan fullnustugerðum skuldheimtumanna. Einnig var byggt á því að fyrrgreind skjöl 2. júní 2007 og 4. janúar 2008 væru hvorki skuldabréf né skuldaviðurkenning samkvæmt þeim efnis- og formreglum sem gerðar yrðu til slíkra skjala sökum þess að undirritun útgefanda væri ófullnægjandi. Þá var því haldið fram að Háttur ehf. hefði aldrei skuldað aðaláfrýjanda þá fjárhæð sem tilgreind var í skjölunum, en frá því hefur verið fallið fyrir Hæstarétti eins og áður greinir. Um lagarök var vísað til 139. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Án tillits til þess annmarka sem gagnáfrýjandi telur vera á umræddum skjölum var ekki vefengt sérstaklega í málatilbúnaðinum, eins og hann var lagður í stefnu, að hlutir í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. hefðu verið veðsettir aðaláfrýjanda að öllu leyti eða hluta. Að því gættu að gagnáfrýjandi hefur gengist við skuldinni, sem tilgreind er í fyrrgreindum skjölum og veðsetningin tekur til, verður ekki talið að lýsing málsástæðna og annarra atvika af hans hendi sé svo glögg sem þarf til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Samkvæmt þessu verður að fallast á það með aðaláfrýjanda að málið sé vanreifað og verður því að taka til greina kröfu hans um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Gagnáfrýjandi, þrotabú Háttar ehf., greiði aðaláfrýjanda, Karli Emil Wernerssyni, samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2015.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 2. apríl 2013 og dómtekið 25. ágúst sl. Stefnandi er þrotabú Háttar ehf., Hlíðasmára 6, Kópavogi. Stefndi er Karl Wernersson, Engihlíð 9, Reykjavík.

                Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að rift verði með dómi ráðstöfun Háttar ehf. með samkomulagi um skuldauppgjör 15. september 2011, þar sem stefndi gekk að veði í öllum eignahlutum í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. og jafnframt að stefndi verði dæmdur til að afhenda stefnanda alla eignahluti í félaginu. Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

                Með úrskurði héraðsdóms 20. desember 2013 var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað. Hinn 15. maí 2014 voru þingfest mál þar sem stefndi krafðist ógildingar veðskuldabréfa sem mál þetta lýtur að og síðar greinir. Með samþykki aðila var málinu þá frestað ótiltekið með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eða þar til niðurstaða í ógildingarmálunum lægi fyrir. Aðalmeðferð sem ákveðin hafði verið 19. maí 2015 féll niður vegna forfalla lögmanns stefnanda.

Málsatvik

Stefndi var eini hluthafi Háttar ehf. sem mun hafa stundað ýmsar fjárfestingar, meðal annars í fasteignum og með kaupum á hlutum í félögum. Samkvæmt gögnum úr hlutafélagaskrá var stefndi annar tveggja stjórnarmanna Háttar ehf. auk þess að vera framkvæmdastjóri og prókúruhafi á þeim tíma sem atvik málsins gerðust. Samkvæmt sömu gögnum hafði einn stjórnarmaður heimild til að rita firma félagsins.

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda var fjármögnun Háttar ehf. einkum tvenns konar; annars vegar í formi lána frá stefnda og hins vegar bankalán. Með kaupsamningi 10. apríl 2007 keypti Háttur ehf. alla hluti í Hrossaræktarbúinu Feti ehf., en meðal eigna félagsins voru jarðirnar Fet, Lindabær II og Syðri Rauðilækur auk hesta, húsa og tækja til búreksturs. Kaupverð hins selda félags var tilgreint 525 milljónir króna. Skyldu 225 milljónir króna greiðast við afhendingu og 300 milljónir króna sex mánuðum eftir afhendingu hins selda.

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda voru kaup Háttar ehf. á Hrossaræktarbúinu Feti ehf. fjármögnuð af stefnda persónulega. Lánaði stefndi Hætti ehf. þannig 225 milljónir króna með því að greiða sjálfur þá fjárhæð beint til seljanda bréfanna. Á móti gaf Háttur ehf. út skuldabréf til stefnda að þessari fjárhæð 2. júní 2007. Samkvæmt greinargerð stefnda fór fram frekari fjármögnun af hálfu stefnda síðar og gaf Háttur þá út annað skuldabréf að fjárhæð 170 milljónir króna.

Í málinu hafa verið lögð fram ljósrit umræddra tveggja skuldabréfa sem hafa að geyma samhljóða meginmál. Í texta bréfanna kemur fram að Háttur ehf. viðurkenni að skulda stefnda áðurgreindar fjárhæðir og er gjalddagi í báðum tilvikum sagður 1. desember 2010. Þá kemur fram að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu bréfsins, auk alls kostnaðar, séu stefnda settir að veði allir eignarhlutir í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Á báðum ljósritum kemur fram undirritun stefnda fyrir hönd Hrossaræktarbúsins auk vottunar lögmanns. Á ljósriti sem stefnandi hefur lagt fram er hins vegar ekki að finna neina undirritun undir útgáfustað og dagsetningu á bréfinu sem er að fjárhæð 225 milljónir króna. Á bréfinu að fjárhæð 170 milljónir króna kemur á þessum stað fram undirritun stefnda án þess þó að fram komi að ritað sé undir fyrir hönd Háttar ehf. eða undirritun hafi verið stimpluð með firma félagsins. Á ljósriti sem stefndi hefur lagt fram er undirritun stefnda hins vegar einnig að finna á bréfinu að fjárhæð 225 milljónir króna, þó án þess að fram komi að ritað sé undir fyrir hönd Háttar ehf. eða að stimpill með firma félagsins komi fram. Af hálfu stefnda hafa ekki komið fram skýringar á umræddu misræmi þessara skjala, en af hálfu stefnanda er því haldið fram að undirritun stefnda hafi verið bætt við eftir að skjalið var vottað, jafnvel eftir að beiðni um gjaldþrotaskipti Háttar ehf. var lögð fram.

Í greinargerð stefnda er rakið gengi Háttar ehf., afleiðingar hruns á fjármálamörkuðum haustið 2008 fyrir félagið, viðræður við viðskiptabanka félagsins og loks tildrög þess að bankinn krafðist að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kemur fram að 7. september 2011 hafi starfsmaður bankans tilkynnt um að frekari viðræðum væri hafnað og kröfu um gjaldþrotaskipti, sem lögð hafði verið fram í héraðsdómi 6. apríl þess árs, yrði haldið til streitu. Ekki er um það deilt að á þessum tíma hafi áðurlýst tvö skuldabréf verið í vanskilum.

Í málinu liggur fyrir skjal dagsett 15. september 2011, auðkennt „samkomulag um skuldauppgjör“ sem vísað er til í stefnukröfu. Þar segir að Háttur ehf. skuldi stefnda 610.353.990 krónur samkvæmt þeim tveimur skuldabréfum sem áður greinir. Þá segir að með vísan til þess að veðskuldin hafi ekki verið greidd á gjalddaga hafi veðhafi, stefndi, gjaldfellt skuldina og gengið að veðinu. Skuli breyta hlutaskrá félagsins með vísan til þess. Þá segir að það sé sameiginlegt mat þessara aðila að virði rekstrar og eigna umrædds félags nemi 400 milljónum króna að frádregnum skuldum. Með vísan til þess hafi aðilarnir gert með sér „samkomulag um að útistandandi skuld að fjárhæð 210.353.990 kr. með einni greiðslu eigi síðar en 31. desember 2013 ef ekki verði um annað samið“ (sic!). Skjalið ber þrjár undirritanir stefnda, þar af eina fyrir hönd Háttar ehf. og aðra fyrir hönd Hrossaræktarbúsins Fets ehf. Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að ýmis gögn málsins bendi til þess að umrætt samkomulag hafi verið gert mun síðar en 15. september 2011.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember  2011 var bú Háttar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt beiðni sem barst héraðsdómi 6. apríl þess árs og áður greinir. Með dómi Hæstaréttar 21. desember 2011 var þessi úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Ný beiðni um gjaldþrotaskipti barst héraðsdómi 14. janúar 2012. Var félagið að nýju tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2012. Kröfulýsingarfresti lauk 7. október þess árs. Samkvæmt kröfuskrá sem lögð hefur verið fram hafnaði skiptastjóri kröfum stefnda í þrotabúið sem byggðu á framangreindum skuldabréfum.

Eftir að málið var höfðað, eða 27. mars 2014, voru tvær réttarstefnur gefnar út að beiðni stefnda þar sem þess var krafist að ógilt yrðu með dómi tvö framangreind skuldabréf. Af hálfu stefnda var tekið til varna í málunum. Með dómum héraðsdóms 27. nóvember 2014 var fallist á kröfur stefnda, gegn mótmælum stefnanda, um ógildingu bréfanna.

Ekki var um munnlegar skýrslur að ræða við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi heldur því fram að áðurlýst skjöl, sem stefndi byggir kröfu sína í búið á, séu hvorki skuldabréf né skuldaviðurkenning samkvæmt þeim efnis- og formreglum sem gerðar eru til slíkra skjala og því sé kröfugerð sem á þeim byggir markleysa. Háttur ehf. hafi aldrei skuldað stefnda þá fjármuni sem tilgreindir eru í bréfunum þar sem félagið hafi aldrei gengist við því með undirritun réttbærra aðila að viðurkenna skuldina. Stefnandi vísar til þess að engin undirritun sé á skjölunum þar sem Háttur ehf. viðurkenni greiðsluskyldu sína. Einu undirskriftir á skjölunum, í upprunalegri mynd, virðist annars vegar vera undirskrift stefnda, þar sem hann samþykkir sem stjórnarmaður Hrossaræktarbúsins Fets ehf. að vera veðsali á bréfinu, og hins vegar vottun lögmanns á réttri dagsetningu, undirskrift og fjárræði. Alls óljóst sé hvenær undirskrift stefnda undir útgáfustað og dagsetningu hafi verið bætt inn á bréfið að fjárhæð 225 milljónir króna. Sú undirskrift sé hvort sem er þýðingarlaus um gildi bréfsins sem skuldabréfs eða skuldaviðurkenningar sökum þess að hún fullnægi ekki þeim kröfum sem gerðar eru til undirskriftar firma samkvæmt lögum nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð og lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Er einkum vísað til 8. og 4. mgr. 9. gr., og 2. mgr. 14. gr. fyrrnefndu laganna og 49. gr. síðarnefndu laganna. Þá telur stefnandi ósannað að stefndi hafi í reynd látið fjármuni renna til Háttar ehf. sem svari til fjárhæðar umræddra skuldabréfa.

Stefnandi byggir á því að stefndi  hafi í krafti stöðu sinnar í hinu gjaldþrota félagi Hætti ehf., bæði sem eigandi og forsvarsmaður, ákveðið að ráðstafa fjármunum félagsins, sem og að umrætt samkomulag 15. september hafi verið málamyndagerningur, til þess að skjóta fjármunum undan fullnustugerðum skuldheimtumanna. Þessar ráðstafanir hafi verið framkvæmdar honum sjálfum til hagsbóta. Telur hann líkur á að samkomulagið hafi verið útbúið eftir að Háttur ehf. var tekið til skipta í þeim tilgangi að koma verðmætum undan skiptum. Stefnandi vísar í þessu sambandi til 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um ráðstafanir eftir frestdag sem hann telur hafa verið 6. apríl 2011. Ráðstöfunin hafi átt sér stað rúmum fimm mánuðum eftir frestdag.  Skuldin hefði aldrei fengist greidd við gjaldþrotaskiptin, a.m.k. ekki nema að hluta. Engin nauðsyn hafi verið á þessari ráðstöfun til að komast hjá tjóni og stefnda hafi verið fullkomlega ljóst að beiðni hafði verið lögð inn um gjaldþrotaskipti þegar yfirlýsingin var rituð. Stefnandi byggir einnig á því að rifta beri ráðstöfuninni á grundvelli almennrar riftunarreglu 141. gr. laga nr. 21/1991. Háttur ehf. hafi verið ógjaldfært þegar stefndi færði hlutafé Hrossaræktarbúsins Fets ehf. til sjálfs sín með margnefndri yfirlýsingu frá 15. september 2011. Um þetta hafi forsvarsmanni félagsins stefnda verið fullkunnugt. Stefnda hafi einnig mátt vera fullljóst að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Krafan um skil á verðmætum er sögð grundvölluð á 144. gr. laga nr. 21/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi grundvallar sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að við höfðun málsins hafi meira en sex mánuðir verið liðnir frá því að kröfulýsingarfresti lauk, en í þessu efni eigi að miða þingfestingardag málsins þar eð birting stefnu 2. apríl 2013 hafi verið ólögmæt.

Í öðru lagi byggir stefndi á því að grundvöllur málatilbúnaðar stefnanda sé rangur. Stefndi hafnar því þannig alfarið að áðurlýst skuldabréf teljist ekki gild eða ekki hafi verið um neina skuld að ræða. Stefndi vísar til þess að í meginmáli bréfanna komi skýrt fram að viðurkennt sé fyrir hönd Háttar ehf. að félagið skuldi stefnda tilgreinda peningafjárhæð. Þegar af þessari ástæðu sé um skuldabréf að ræða. Skjölin séu undirrituð af þar til bærum aðila fyrir hönd útgefanda til staðfestingar á því sem þarna segi, m.a. nefndri yfirskrift, í votta viðurvist. Sé um að ræða sambærileg skuldabréf á stöðluðu formi sem notuð hafa verið í þúsundum viðskipta hér á landi um árabil.

Hvað undirritun annars bréfsins varðar komi skýrt fram í yfirskrift þess að bréfið sé undirritað fyrir hönd Háttar ehf. Er þess hvergi krafist í réttarheimildum að félagið sé tilgreint við undirskriftina sjálfa. Óumdeilt sé í málinu að stefndi hafi á þessum tíma haft heimild til að skuldbinda Hátt ehf. Er því mótmælt að þýðingu eigi að hafa að ekki var ritað undir bréfið „per prókúra“ eins og stefnandi virðist byggja á. Bendir hann meðal annars á að stefnandi virðist rugla saman ritun firma annars vegar og ritun prókúru hins vegar.

Jafnvel þótt umrætt skjal hafi ekki uppfyllt hugtaksskilyrði þess að teljast skuldabréf, telur stefndi það engu breyta um að útgefandi þess hafi skuldbundið sig til greiðslu þeirrar fjárhæðar sem þar um ræði. Fyrir liggi að stefndi hafi greitt umrædda fjármuni til Háttar ehf. Hafi skuldin ávallt komið fram í bókhaldi félagsins og ársreikningum þess og því verið öðrum kröfuhöfum ljós. Loks hafnar stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda að óljóst sé að fjármunir hafi runnið til Háttar ehf. sem endurgjald fyrir skuldabréfin sem rangri, ósannaðri og algerlega órökstuddri. Þvert á móti sé það sannað. Stefndi mótmælir einnig vangaveltum á þá leið samkomulag um skuldauppgjör dagsett 15. september 2011 hafi í reynd verið gert síðar. Þvert á móti hafi lögmaður vottað að hafa útbúið skjalið og verið viðstaddur undirritun þess. Telur stefndi að bréfaskipti eftir þetta tímamark þar sem áfram er vísað til eignar Háttar ehf. á hlutum í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. eigi sér eðlilegar skýringar, meðal annars þær að stefnda hafi engin skylda borið til að greina Arion banka hf. frá því að hann hefði gengið að veðinu.

Af framangreindu leiði að því hafi ekki verið hnekkt að samkomulag um skuldauppgjör þar sem stefndi gekk að veðum sínum í Hrossaræktatbúinu Feti ehf. sé réttilega dagsett. Í stefnu sé hvergi á því byggt að ekki hafi verið um lögmæta veðsetningu að ræða, heldur aðeins því að ekki hafi verið um skuldabréf í skilningi íslensks réttar að ræða. Með vísan til þess sem hér hafi verið rakið telji stefndi hins vegar ljóst að svo sé. Af því leiði að um gilda veðsetningu hafi verið að ræða og stefnda fyllilega heimilt að ganga að því veði.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að almenn skilyrði riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga séu ekki uppfyllt í málinu þar sem stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni við ráðstöfunina, sbr. meðal annars meginreglu 142. gr. laga nr. 21/1991. Vísar stefndi til þess að hefði ekki komið til hinnar ætluðu riftanlegu ráðstöfunar hefði krafa hans allt að einu notið stöðu sem veðkrafa við úthlutun úr búi stefnanda. Sé ljóst að verðmæti veðsins hafi aldrei getað komið til skipta milli annarra kröfuhafa. Þá séu skilyrði 139. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt í málinu þar sem ljóst sé að krafa stefnda hefði allt að einu fengist greidd. Stefndi leggur á það áherslu að í stefnu sé hvergi á því byggt að ekki hafi verið um lögmæta veðsetningu að ræða.

Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á fyrrgreindar röksemdir byggir stefndi jafnframt á því að eins og mál þetta er vaxið verði frestdagur ekki talinn 6. apríl 2011, eins og byggt sé á í stefnu. Vísar stefndi til þess að 139. gr. laga nr. 21/1991 sé verulega íþyngjandi og feli í reynd í sér að skuldari eigi að halda að sér höndum eftir að gjaldþrotaskiptabeiðni komi fram. Sú regla byggi aftur á því að almennt líði mjög skammur tími frá því að krafa komi fram þar til bú er tekið til gjaldþrotaskipta. Í málinu hafi hins vegar liðið yfir 15 mánuðir frá þeim frestdegi sem byggt sé á í stefnu þar til bú stefnanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Byggir stefndi á því að ótækt sé að miða frestdag við það tímamark við slíkar aðstæður. Ógerningur sé að reka félag í fullum rekstri í meira en ár eftir reglum 139. gr. laga nr. 21/1991. Skiptastjóri hafi og sjálfur tilgreint frestdag sem 16. janúar 2012 við innköllun í Lögbirtingarblaði og sé stefnandi bundinn við þá yfirlýsingu.

Stefndi byggir jafnframt á því að sýkna verði hann af riftunarkröfu stefnanda á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Hann bendir á að umfjöllun um skilyrði greinarinnar sé nánast engin í stefnu en stefndi telur engu þessara skilyrða fullnægt með vísan til þess sem áður hefur verið rakið, einkum þess að stefndi hafi gengið að gildu veði vegna skuldar sem stofnast hafði honum til handa með lögmætum hætti.

Niðurstaða

                Með vísan til dóms Hæstaréttar 11. nóvember 2013 í máli nr. 694/2013 verður ekki á það fallist að miða beri höfðun málsins við þingfestingardag þess, í stað birtingar stefnu á vinnustað stefnda. Var því ekki runninn út frestur til höfðunar málsins samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þegar málið var höfðað 2. apríl 2013. Með vísan til áðurlýstra atvika málsins og röksemda stefnanda telur dómurinn enn fremur að miða beri við að frestdagur við skipti Háttar ehf. hafi verið 6. apríl 2011.

Í máli þessu liggur fyrir samningur frá 10. apríl 2007 þar sem Háttur ehf. kaupir alla hluti í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. af tveimur nafngreindum mönnum. Samkvæmt 3. gr. samningsins nam kaupverðið 525 milljónum króna og skyldi greiða 225 milljónir króna við afhendingu hins selda. Af hálfu stefnanda er því ekki mótmælt að Háttur ehf. hafi orðið eigandi Hrossaræktarbúsins Fets ehf. með umræddum samningi. Samkvæmt skjali sem stefndi hefur lagt fram, og ber með sér að vera hreyfingarlisti úr bókhaldi Háttar ehf. um viðskipti félagsins við stefnda, stofnaðist 225 milljóna króna skuld við stefnda 10. apríl 2007, auðkennd sem „FET útborgun“. Af hálfu stefnanda hafa ekki verið leiddar að því líkur að greiðsla samkvæmt fyrrgreindum kaupsamningi hafi stafað frá félaginu sjálfu. Verður því að leggja til grundvallar að téð greiðsla félagsins hafi komið frá öðrum aðila og hafi þá jafnframt stofnast til skuldar félagsins vegna greiðslunnar, svo sem haldið er fram af stefnda.

                Samkvæmt ársreikningi Háttar ehf. fyrir árið 2007 skuldaði félagið stefnda 400 milljónir. Af hálfu stefnda er því haldið fram að sú skuld hafi stofnast með útgáfu tveggja áðurlýstra skuldabréfa, en á grundvelli þeirra hafi hann annars vegar greitt seljendum Hrossaræktarbúsins Fets ehf. milliliðalaust 225 milljónir og hins vegar hafi 170 milljónir króna verið greiddar inn á reikning Háttar ehf. fyrir hans tilstilli. Er því haldið fram af hálfu stefnda að síðari greiðslan hafi einnig tengst fjármögnun Háttar ehf. við kaup á áðurnefndu einkahlutafélagi.

Svo sem áður greinir bera téð skuldabréf með sér að Háttur ehf. skuldi stefnanda annars vegar 225 milljónir króna og hins vegar 170 milljónir króna. Þótt í málinu njóti ekki við gagna um hver hafi innt af hendi umrædda fjármuni, annars vegar til seljenda Hrossaræktarbúsins Fets ehf. og hins vegar inn á bankareikning Háttar ehf., telur dómurinn þessi atvik eindregið benda til þess að með umræddum færslum hafi Háttur ehf. stofnað til skuldar við stefnda sem svaraði samanlagt til 395 milljóna króna. Geta annmarkar á undirritun Háttar ehf. við útgáfu þeirra viðskiptabréfa, sem gefin voru út af þessu tilefni, ekki haggað skuld félagsins samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist að umrædd skuldabréf hafi verið til málamynda með því að í reynd hafi engir fjármunir á vegum stefnda runnið til Háttar ehf.

                Samkvæmt meginmáli áðurgreinds skuldabréfs að fjárhæð 225 milljónir króna eru stefnda settir til tryggingar skaðlausri greiðslu allir eignarhlutir Háttar ehf. í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Af ljósriti bréfsins, sem lagt hefur verið fram í málinu, verður ráðið að skuldabréfið hafi einungis verið undirritað af stefnda sem stjórnarmanni fyrir hönd Hrossaræktarbúsins Fets ehf. Verður að skilja þá áritun þannig að með henni fallist Hrossaræktarbúið Fet ehf. á veðsetningu hluta Háttar ehf. í hrossaræktarbúinu, en alkunna er að í samþykktum hlutafélaga kann framsal eða veðsetning hluta í eigu annarra að vera háð samþykki viðkomandi félagsstjórnar. Af framlögðu ljósriti kemur hins vegar ekki fram nein áritun fyrir hönd skuldara bréfsins, Háttar ehf. Hvað sem líður gildi bréfsins sem sönnunargagns um almenna skuld Háttar ehf. við stefnda, verður samkvæmt þessu að leggja til grundvallar að við útgáfu bréfsins 2. júlí 2007 hafi ekki legið fyrir samþykki þar til bærs fyrirsvarsmanns félagsins fyrir veðsetningu hluta þess í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Dómur héraðsdóms 27. nóvember 2014, þar sem umrætt veðskuldabréf var ógilt samkvæmt 120. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, getur ekki veitt stefnda meiri rétt en leiðir af efni skjalsins sjálfs. Haggar dómurinn þannig ekki þeirri niðurstöðu að hinn 2. júlí 2007 hafi ekki legið fyrir bindandi samþykki Háttar ehf. fyrir veðsetningu allra hluta félagsins í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. til handa stefnda.

                Gögn sem stefndi hefur lagt fram bera með sér að hann hafi síðar, fyrir hönd Háttar ehf., gefið formlega út umrætt skuldabréf og samþykkt veðsetningu bréfa félagsins í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. Í málinu hefur hins vegar ekkert komið fram um hvenær þessi undirritun fór fram og hvaða stöðu stefndi gegndi hjá félaginu á þeim tíma. Eins og málið liggur fyrir hefur þannig ekki verið sannað að stefndi hafi verið til þess bær að samþykkja umrædda veðsetningu á þeim tíma sem undirritun hans fór fram, en að mati dómsins kemur málsástæða þessu lútandi nægilega fram í málatilbúnaði stefnanda og þeim skjölum sem hann hefur lagt fram í málinu.

Þótt hluti þeirra krafna sem greiddar voru með nefndu samkomulagi 15. september 2011 hafi verið tryggðar með veði í bréfum Háttar ehf. í Hrossaræktarbúinu Feti ehf. með gildum hætti verður að líta á téð samkomulag heildstætt og sem eina ráðstöfun í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991. Að þessu virtu fól samkomulagið í sér ráðstöfun hagsmuna langt umfram þá skuld sem naut gildrar veðtryggingar og líklegt var að greiddist við skiptin. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að öðrum skilyrðum 139. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt til þess að umrædd ráðstöfun teljist ekki riftanleg samkvæmt greininni, en um þessi atriði ber hann sönnunarbyrðina.

Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu stefnanda um að fyrrgreindu samkomulagi verði í heild sinni rift með vísan til 139. gr. laga nr. 21/1991. Það athugast að stefnda er við þessar aðstæður heimilt að koma upphaflegum fjárkröfum sínum að við skipti stefnanda samkvæmt 143. gr. laganna, þ.á m. þeim hluta sem nýtur veðréttar samkvæmt 111. gr. laganna. Með vísan til 144. gr. laga nr. 21/1991 verður einnig fallist á kröfu stefnanda um skil bréfanna, en stefnandi hefur ekki uppi greiðslukröfu samkvæmt 142. gr. laganna.

                Það athugast að framlagning skjala af hálfu stefnanda er ekki eins skipuleg og æskilegt væri, meðal annars þannig að sum skjöl er að finna í fleiri eintökum sem fylgiskjöl annarra skjala. Þá fylgdi ekki stefnu málsins skrá yfir framlögð skjöl í samræmi við fyrirmæli 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Í ljósi vafaatriða málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhann Baldursson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Halldór Brynjar Halldórsson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Samkomulagi um skuldauppgjör 15. september 2011 milli stefnanda, þrotabús Háttar ehf., og stefnda, Karls Wernerssonar, þar sem stefndi fékk afhenta alla hluti Háttar ehf. í Hrossaræktarbúinu Feti ehf., er rift. Stefndi afhendi stefnanda, þrotabúi Háttar ehf., alla hluti í Hrossaræktarbúinu Feti ehf.

                Málskostnaður fellur niður.