Hæstiréttur íslands

Mál nr. 666/2010


Lykilorð

  • Samningsveð
  • Handveð


                                                                                              

Fimmtudaginn 20. október 2011.

Nr. 666/2010.

Halldór Þór Halldórsson

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

Samningsveð. Handveð.

G ehf. gerði á árinu 2000 lánsamning við Í hf. sem framlengdur var með nýjum samningi á  árinu 2005, til þriggja ára. H var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri G ehf. en félagið hlaut nafnið H ehf. í ársbyrjun 2009. Með samningnum setti G ehf. að handveði verðbréf í skráðum félögum sem varðveitt skyldu í vörslu lánveitanda. Með sérstakri handveðsyfirlýsingu voru tilgreind hlutabréf í K hf. sett að handveði fyrir skuldinni. Bréfin voru seld 3. október 2008 og færði Í hf. andvirði þeirra á sparisjóðsbók sem stofnuð hafði verið í nafni G ehf. Í hf. gjaldfelldi síðar skuldina og ráðstafaði til sín fjárhæð þeirri sem á reikningum var. Í málinu krafðist H þess að andvirði hlutabréfanna rynni til þb. H ehf. með þeim rökum að handveðréttur í bréfunum hefði fallið niður við sölu þeirra og söluandvirðið á bankareikningi í vörslu Í hf. væri kvaðalaust. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að samkvæmt fyrrnefndum veðsamningi hafi veðsala verið óheimilt að veðsetja öðrum eða framselja hin veðsettu hlutabréf án samþykkis veðhafa. Þá kæmi þar fram að veðhafa væri heimilt að ráðstafa arðgreiðslum af hinu veðsetta inn á sérstakan reikning er settur yrði að handveði fyrir skuld veðsala. Á hinn bóginn væri ekki kveðið á um að veðréttur skyldi færast yfir á andvirði hlutabréfanna ef til sölu þeirra kæmi. Að lögum þyrfti sérstaka yfirlýsingu af hálfu veðsala ef svo átti að verða. Slík yfirlýsing lægi ekki fyrir í málinu og ákvæði laga nr. 75/1997 um samningsveð ættu ekki við. Var því fallist á kröfu H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2010. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þrotabúi Hlutafjár ehf. 128.291.753 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsástæður og lagarök aðila eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram krefst áfrýjandi þess að andvirði hlutabréfa þeirra er um ræðir í málinu renni til þrotabús Hlutafjár ehf. með þeim rökum að handveðréttur í bréfunum hafi fallið niður við sölu þeirra og söluandvirðið á bankareikningi í vörslu stefnda sé kvaðalaust. Stefndi telur á hinn bóginn að veði hafi aldrei verið aflétt heldur hafi veðrétturinn flust yfir á bankainnstæðu á svokölluðum læstum reikningi sem ekki hafi verið unnt að ráðstafa án samþykkis stefnda. Auk þess hafi áfrýjandi fallist á þessa skilmála fyrir sölunni og jafnframt lofað að rita undir yfirlýsingu þar um. Við það hafi hann ekki staðið. Um lagarök vísar stefndi sérstaklega til 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.

Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi kom fram bæði hjá áfrýjanda og útibússtjóra stefnda að tekin hefði verið ákvörðun um að selja hlutabréfin vegna óróleika á hlutabréfamarkaði. Þótt fram kæmi hjá útibússtjóranum að bankinn hafi sett það skilyrði fyrir sölunni að andvirði bréfanna yrði veðsett honum og að áfrýjandi lofað að rita undir yfirlýsingu þess efnis kvaðst hún aðspurð þó myndu hafa samþykkt sölu bréfanna án þessa skilyrðis. Gegn andmælum áfrýjanda er ósannað að stefndi hafi sett þetta skilyrði fyrir sölu bréfanna.

Efni handveðsyfirlýsingarinnar er að nokkru lýst í hinum áfrýjaða dómi en samkvæmt henni var veðsala óheimilt að veðsetja öðrum eða framselja hin veðsettu hlutabréf án samþykkis veðhafa. Í yfirlýsingunni kom einnig fram að veðhafa væri heimilt að ráðstafa arðgreiðslum af hinu veðsetta inn á sérstakan reikning er settur yrði að handveði fyrir skuld veðsala, en á hinn bóginn var ekki kveðið á um að veðréttur skyldi færast yfir á andvirði hlutabréfanna ef til sölu þeirra kæmi. Þurfti að lögum sérstaka yfirlýsingu af hálfu veðsala ef svo átti að verða. Slík yfirlýsing liggur ekki fyrir í málinu, en framangreind ákvæði laga nr. 75/1997 sem stefndi vísar til eiga ekki við um tilvik það sem hér um ræðir. Samkvæmt framansögðu verður fallist á að stefnda sé skylt að greiða höfuðstól stefnufjárhæðar. Þá verður ekki fallist á andmæli stefnda við upphafstíma dráttarvaxta sem miðast við þann dag er liðinn var mánuður frá því að stefndi var fyrst krafinn greiðslu.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:    

Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði þrotabúi Hlutafjár hf. 128.291.753 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda, Halldóri Þór Halldórssyni, samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2010.

I.

Mál þetta var höfðað 22. janúar 2010 og dómtekið 30. ágúst sama ár.

Stefnandi er Halldór Þór Halldórsson, Steinavör 6 á Seltjarnarnesi. Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2 í Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði þrotabúi Hlutafjár ehf. 128.291.753 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 25. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.

Stefnandi hefur lýst kröfum í þrotabú Hlutafjár ehf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta með úrskurði 12. maí 2009. Þá liggur fyrir að stefnandi hefur tilkynnt skiptastjóra þrotabúsins að hann ætli að halda uppi hagsmunum þrotabúsins gagnvart stefnda með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og skiptastjóri staðfest heimild hans til þess. Með þessu er fullnægt skilyrðum ákvæðisins til að stefnandi megi reka mál þetta í eigin nafni til hagsbóta fyrir þrotabúið en á sinn kostnað og sína áhættu.

II.

Málsatvik

Málavextir eru þeir að stefnandi var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Hlutafjár ehf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2009. Félagið hét áður Garðar Gíslason ehf. en nafni þess var breytt í Hlutafé ehf. í ársbyrjun 2009.

Hinn 11. apríl 2000 gerði félagið lánasamning við Íslandsbanka hf. að fjárhæð „að jafngildi ISK 148.756 þús. krónur“ í nánar tilgreindum erlendum myntum. Lántakinn skuldbatt sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu 1. apríl 2005. Þessi samningur var framlengdur með nýjum lánasamningi 5. apríl 2005 til þriggja ára, þar sem félagið tók að láni „að jafnvirði kr. 120.500.000“ en andvirði þess skyldi notað til að greiða upp skuld félagsins samkvæmt eldri lánasamningnum. Gjalddagi nýja lánsins var 1. apríl 2008 en greiða skyldi vexti á þriggja mánaða fresti. Með viðaukasamningi 31. mars 2008 var gjalddagi lánsins færður til 1. apríl 2009 og breytingar á vaxtaálagi.

Í 6. gr. lánasamningsins frá 5. apríl 2005 kemur fram að til tryggingar á efndum setji lántaki að handveði verðbréf í skráðum félögum sem skyldu varðveitt á VS-reikningum í vörslu lánveitanda. Með sérstakri handveðsyfirlýsingu, dags. 17. október 2006, setti Garðar Gíslason ehf. hlutabréf í Kaupþingi banka hf. að nafnvirði 189.940 krónur að handveði til tryggingar á greiðslu á öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum við Glitni banka hf. Í yfirlýsingunni segir að meðan á veðsetningunni standi sé veðsala með öllu óheimilt að veðsetja öðrum eða framselja hin veðsettu hlutbréf nema með skriflegu samþykki veðhafa.

Hinn 3. október 2008 hafði stefnandi, sem þá var erlendis, samband símleiðis við útibússtjóra Glitnis hf. á Eiðistorgi, Hildi Kristmundsdóttur, og óskaði eftir því að bréf félagsins í Kaupþingi banka yrðu seld. Í kjölfarið voru bréfin seld og var andvirði þeirra, 122.622.156 krónur, að frádreginni þóknun að fjárhæð 735.733 krónur, eða 121.886.123 krónur, lagt inn á sparisjóðsbók nr. 512-04-250412 sem bankinn stofnaði í nafni Garðars Gíslasonar ehf. Aðila greinir á um með hvaða skilmálum þessi ráðstöfun fór fram.

Hinn 7. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf., víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum og skipa bankanum skilanefnd í samræmi við 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Hinn 14. sama mánaðar ráðstafaði Fjármálaeftirlitið eignum og skuldbindingum Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis hf. með heimild í sömu lagagrein og er það félag stefndi í máli þessu. Hinn 20. febrúar 2009 var tilkynnt að Nýi Glitnir hf. hefði tekið upp heitið Íslandsbanki hf.

Í málinu liggur fyrir að stefnandi kom í útibú stefnda á Eiðistorgi 24. október 2008 og fékk afhenta óundirritaða handveðsyfirlýsingu þar sem kveðið var á um að innstæða á reikningi nr. 0512-04-250409 í eigu Garðars Gíslasonar ehf. skyldi sett að handveði til tryggingar á greiðslu allra skulda félagsins við stefnda. Stefnandi undirritaði ekki þessa yfirlýsingu heldur ákvað að bera málið undir endurskoðanda sinn. Útibússtjórinn áréttaði með tölvupósti 30. október sama ár að beðið væri eftir undirritaðri handveðsyfirlýsingu frá stefnanda. Stefnandi mun hafa komið í útibúið 4. nóvember sama ár og tilkynnt að hann myndi ekki rita undir handveðsyfirlýsinguna. Í bréfi stefnda til stefnanda 7. janúar 2009 var málið rakið eins og það horfði við stefnda og óskað eftir því að stefnandi ritaði undir yfirlýsinguna. Ekki var orðið við því.

Gögn málsins bera með sér að vextir af skuldinni samkvæmt lánasamningi aðila frá 5. apríl 2005 hafi í ársbyrjun 2009 verið komnir í vanskil. Með bréfi, dags. 10. febrúar 2009, mun stefndi hafa sent Hlutafé ehf. tilkynningu um gjaldfellingu lánsins. Daginn eftir leysti stefndi til sín innstæðuna á umræddri sparisjóðsbók og mun hafa ráðstafað þeim fjármunum til greiðslu á hinu gjaldfellda láni.

Með bréfi 25. febrúar 2009 til útibússtjóra stefnda á Eiðistorgi 17 mótmælti lögmaður Hlutafjár ehf. gjaldfellingunni og því sem hann kallaði „heimildalausri töku fjármuna út af“ umræddum reikningi. Þar er því haldið fram að innstæðan hafi ekki verið veðsett bankanum og því kvaðalaus eign félagsins. Krafa um leiðréttingu var ítrekuð með tölvupósti 17. mars 2009. Í stefnu kemur fram að ekki hafi borist viðbrögð við þessari kröfu.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að við sölu hlutabréfanna í Kaupþingi banka hafi handveðréttur stefnda fallið brott. Enginn samningur hafi verið gerður við hann um að andvirði bréfanna yrði veðsett bankanum. Því hafi innstæðan á sparisjóðsbók nr. 512-04-250412 verið kvaðalaus eign Hlutfjár ehf. Stefndi hafi að vísu óskað eftir því að félagið veitti handveð í innstæðunum til tryggingar skuldum við bankann eftir að andvirði bréfanna hafði verið fært inn á sparisjóðsbókina. Stefnandi hafi hins vegar ekki veitt slíkt veð og því ljóst að bankinn hafi ekki haft samningsbundinn eða lögbundinn rétt til að ráðstafa innstæðunni með þeim hætti sem gert var. Því hafi stefndi með ólögmætum hætti fært fjármuni félagsins af reikningi þess og ráðstafað þeim alfarið án heimildar stefnanda.

Stefnandi telur að þessar ráðstafanir af hálfu stefnda séu þess eðlis að honum beri að endurgreiða umrædda fjármuni með dráttarvöxtum. Gera verði strangar kröfur til þess að stefndi sanni tilvist slíkrar veðsetningar. Stefnda hafi verið í lófa lagið að ráðstafa fjármununum inn á reikning í sinni eigu hafi hann litið svo á  að hann hefði rétt yfir þeim. Stefndi sé fjármálastofnun og beri sem slík ríka ábyrgð á meðferð fjármuna viðskiptamanna sinna og í ljósi hlutverks og aðstöðu stefnda verði að gera miklar kröfur til hans. Engu breyti þó að Hlutafé ehf. hafi skuldað stefnda talsverðar fjárhæðir enda hafði stefndi enga heimild til skuldajafnaðar án sérstaks samþykkis stefnanda. Ekkert slíkt samþykki hafði verið veitt af hálfu stefnanda. Þá hafi stefnandi ítrekað gert athugasemdir við ráðstafanir stefnda þegar honum urðu þær ljósar. Telur stefnandi að allar athafnir stefnda bendi til þess að hann hafi sjálfur litið svo á að hann hefði ekki haft ráðstöfunarrétt yfir innstæðunni á reikningnum. Að lokum vísar stefnandi til þess að úttektin hafi átt sér stað daginn eftir að stefndi tilkynnti stefnanda um gjaldfellingu lánsins sem hafi verið tæpum tveimur mánuðum fyrir gjalddaga þess.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og skaðabótaréttar innan og utan samninga. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá er tekið fram að stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og því beri nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi reisir kröfur sínar á því að eftir sölu hlutabréfanna í Kaupþingi banka hafi andvirði þeirra verið áfram handveðsett bankanum. Hann vísar til þess að óumdeilt sé að umrædd hlutabréf hafi verið veðsett stefnda til tryggingar fjárskuldbindingum Hlutafjár ehf. við stefnda. Þá sé ljóst að stefnanda eða félagi hans, Hlutafé ehf., hafi verið óheimilt að selja bréfin nema með skriflegu samþykki stefnda. Þegar stefnandi hafi óskað eftir því að bréfin yrðu seld, skömmu áður en Kaupþing banki féll, hafi verið á það fallist með ákveðnum skilyrðum. Hafi útibússtjóri stefnda á Eiðistorgi 17 gert stefnanda að skrifa undir sérstaka handveðsyfirlýsingu er tæki til andvirðisins af sölu bréfanna þegar stefnandi kæmi til landsins. Þá hafi honum verið gerð grein fyrir því að andvirðið færi inn á læstan reikning. Stefnandi hafi fallist á þessi skilyrði. Strax að loknu símtalinu hafi verið gengið frá sölunni og andvirði bréfanna lagt inn á læsta bók á nafni Garðars Gíslasonar ehf. nr. 512-04-250412.

Stefndi heldur því fram að eftir að stefnandi hafði sótt handveðsyfirlýsinguna 24. október 2008 hafi margoft verið hringt í hann og honum sendur tölvupóstur til að innheimta þessa yfirlýsingu. Þegar loks hafi tekist að ná í stefnanda 4. nóvember 2008 hafi hann tjáð útibússtjóranum að hann ætlaði, að ráði endurskoðanda félagsins, ekki að standa við loforð sitt um að skrifa undir handveðsyfirlýsinguna.

Stefndi byggir á því að frá upphafi hafi legið fyrir að andvirði bréfanna ætti að vera áfram veðsett bankanum, enda geymt á læstum reikningi, og hafi stefnandi samþykkt þá ráðstöfun. Með því að leggja andvirði bréfanna inn á reikning í eigu Hlutafjár ehf., sem var læstur þannig að stefndi einn gat tekið út af honum, var andvirði bréfanna áfram haldið að handveði líkt og verið hafði með bréfin sjálf. Stefndi hafi aldrei samþykkt að aflétta veðrétti sínum þrátt fyrir söluna á bréfunum.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að stefnanda hafi verið þetta fullljóst og verið samþykkur þessu fyrirkomulagi. Þá byggir stefndi einnig á því að þó að bankinn hafi talið snyrtilegast að gengið yrði frá undirritun sérstakrar handveðsyfirlýsingar í kjölfar sölunnar hafi hún ekki verið nauðsynleg. Að mati stefnda nægði í því sambandi að leggja andvirðið inn á læstan reikning þannig að veðhafi héldi vörslum fjármunanna auk þess sem stefndi vísar til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, í þessu sambandi. Þá telur stefndi að ef fjármunirnir hefðu verið afhentir stefnanda og veðinu þannig breytt í sjálfsvörsluveð, sem ekki hafi verið gert, hefði honum engu að síður verið óheimilt að hagnýta sér veðið samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1997 nema samið hefði verið sérstaklega um slíkt.

Stefndi byggir á því að í árslok 2008 hafi ekki verið innstæða til greiðslu lánasamningsins inni á veltureikningi Garðars Gíslasonar ehf. og því ekki hægt að skuldfæra fyrir láninu eins og áður hafði tíðkast. Útibússtjóri stefnda að Eiðistorgi hafi neitað að hækka heimild veltureiknings félagsins til greiðslu á láninu en í málflutningi kom fram af hálfu stefnda að yfirdráttarheimildin hafi numið 8.000.000 króna. Lánasamningurinn hafi því verið kominn í vanskil sem hafi 5. janúar 2009 numið 3.951.407 krónum. Í samræmi við gjaldfellingarheimild í lánasamningnum hafi lánið verið gjaldfellt og gengið að innstæðunni á sparisjóðsbók nr. 512-04-250412.

Stefnandi mótmælir enn fremur kröfum stefnanda um dráttarvexti og er upphafstíma þeirra mótmælt.

IV.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefndi hafi átt handveðrétt í innstæðu á reikningi nr. 512-04-250412, sem tilheyrði Garðari Gíslasyni ehf., síðar Hlutfé ehf. Inni á reikningnum voru fjármunir sem fengist höfðu við sölu á hlutabréfum í Kaupþingi banka en stefnandi, fyrir hönd Garðars Gíslasonar ehf., hafði sett bréfin að handveði til tryggingar greiðslu á öllum skuldum félagsins við bankann. Stefnandi telur að þar sem við sölu bréfanna hafi ekki verið áskilið að bankinn nyti veðréttar í andvirði þeirra hafi hvers konar veðréttur til tryggingar á greiðslu lánsins fallið niður og innstæðan því verið kvaðalaus eign félagsins. Af hálfu stefnda er því mótmælt að enginn áskilnaður hafi verið gerður um veðrétt bankans í andvirði bréfanna. Þá telur hann allt að einu að með aðgerðum bankans hafi handveðrétturinn færst yfir á andvirði bréfanna við sölu þeirra.

Við skýrslugjöf stefnanda fyrir dómi skýrði hann svo frá að hann hafi 3. október 2008 óskað eftir því í símtali við útibússtjóra stefnda á Seltjarnarnesi að hlutabréfin í Kaupþingi banka yrðu seld þar sem hann óttaðist að þau myndu falla í verði. Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að útibússtjórinn hafi sett það að skilyrði fyrir sölu bréfanna að hann undirritaði nýja handveðsyfirlýsingu eða að andvirði bréfanna færi inn á læstan reikning. Fyrir dóminn kom einnig Hildur Kristmundsdóttir, útibússtjóri stefnda á Eiðistorgi, og skýrði svo frá að í samtali sínu við stefnanda 3. október 2008 hafi hún tekið fram að andvirði bréfanna yrði lagt inn á „læstan“ reikning og að hann þyrfti að skrifa undir handveðsyfirlýsingu þegar hann kæmi til landsins. Það hefði hann samþykkt. Ekki væru til upptökur af þessu símtali þar sem einungis símtöl við verðbréfadeildina hefðu verið tekin upp en ekki við útibúin.

Í málinu liggur fyrir að stefnandi fékk afhenta óundirritaða handveðsyfirlýsingu þegar hann kom í útibúið 24. október 2008. Þar er kveðið á um að innstæða á reikningi nr. 0512-04-250409 í eigu Garðars Gíslasonar ehf. skuli sett að handveði til tryggingar á greiðslu allra skulda félagsins við stefnda. Af gögnum málsins má ráða að ætlunin hafi verið að ráðstafa innstæðunni á reikningi nr. 512-04-250412 inn á reikning nr. 0512-04-250409 þegar stefnandi hefði undirritað handveðsyfirlýsinguna. Stefnandi ritaði ekki undir þessa handveðsyfirlýsingu að ráði endurskoðanda félagsins og tjáði hann útibússtjóra stefnda um þá ákvörðun sína 4. nóvember 2008.

Ekkert liggur fyrir um að við þessi samskipti hafi verið gefið til kynna af hálfu stefnda eða forvera hans, Glitnis banka hf., að veðréttindi til að tryggja greiðslu á skuldbindingum Garðars Gíslasonar ehf., m.a. á láni samkvæmt lánasamningnum frá 5. apríl 2005, yrðu gefin eftir. Í ljósi framburðar útibússtjórans Hildar Kristmundsdóttur, og þess réttarsambands sem var á milli bankans og félagsins á þessum tíma, verður þvert á móti að ætla að stefnanda hafi ekki getað dulist að bankinn gengi út frá því að sala á hinum handveðsettu hlutabréfum væri háð því að bankinn nyti handveðréttar í andvirði bréfanna eftir sölu þeirra.

Upplýst er í málinu að þeir fjármunir sem fengust fyrir hin veðsettu bréf hafi verið lagðir inn á lokaðan reikning hjá bankanum sem ekki var til ráðstöfunar fyrir félagið. Ber að fallast á með stefnda að handveðréttur sá sem bankinn naut í hlutabréfunum hafi við það færst yfir á andvirði þeirra. Ekki verður talið að nauðsynlegt hafi verið að stefnandi samþykkti þá tilfærslu með undirritun sérstakrar handveðsyfirlýsingar. Á það sér stoð í meginreglu veðréttar en litið hefur verið svo á að veðréttindi geti við tilteknar aðstæður flust af veðsettri eign yfir á fjármuni sem komi í stað hennar án þess að leita þurfi samþykkis veðsala.

Ekki verður talið að sjónarmið um aðgæsluskyldu lánastofnana um að tryggja sér sönnur um tilvist veðréttinda sinna breyti framangreindri niðurstöðu. Atvik í máli þessu eru frábrugðin málsatvikum í dómum Hæstaréttar frá 1990 á bls. 1250 og frá 1992 á bls. 117 í dómasafni réttarins, sem stefnandi hefur vísað til, að því leyti að stefndi naut ótvíræðs handveðréttar í hlutabréfunum í Kaupþingi banka samkvæmt undirritaðri handveðsyfirlýsingu veðsala. Snýst ágreiningurinn því einungis um hvort veðrétturinn hafi flust yfir á andvirði bréfanna eftir að veðhafi hafði fallist á að selja þau að beiðni stefnanda. Salan fór fram við sérstakar aðstæður í miðju „bankahruni“ auk þess sem stefnandi var erlendis. Í því ljósi  verður stefndi ekki látinn gjalda þess þó að þess hafi ekki verið gætt, áður en bréfinu voru seld, að láta stefnanda rita undir handveðsyfirlýsingu um veðsetningu á þeim reikningi sem andvirðið átti að leggjast inn á. Þá verður ekki fram hjá því litið að stefndi reyndi ítrekað að fá formlega staðfestingu stefnanda á veðsetningu þeirra fjármuna sem fengust við sölu hinna veðsettu bréfa.

Með hliðsjón af framangreindu verður að fallast á með stefnda að hann hafi notið handveðréttar í innstæðu á reikningi nr. 512-04-250412. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu innstæðunnar. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Kristín Benediktsdóttir hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Jóna Björk Helgadóttir hdl.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Halldórs Þórs Halldórssonar.

Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.