Hæstiréttur íslands
Mál nr. 427/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Kærufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 9. nóvember 2004. |
|
Nr. 427/2004. |
M(Katrín Theodórsdóttir hdl.) gegn K(enginn) |
Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti.
Máli M var vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti þar sem kæra barst eftir að kærufrestur var liðinn. Tilkynning með tölvupósti til héraðsdóms innan kærufrests um að úrskurðurinn væri kærður taldist ekki fullnægjandi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2004, þar sem kröfu sóknaraðila um rétt hans til umgengni við son aðila og kröfu varnaraðila um meðlag með barninu til bráðabrigða var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur var sótt þing af hálfu aðila við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 11. október 2004. Sóknaraðili tilkynnti héraðsdómi um kæru á úrskurðinum með tölvupósti 25. október sama árs en kæra sóknaraðila 22. október barst héraðsdómi 26. sama mánaðar. Var þá liðinn tveggja vikna frestur til að kæra úrskurðinn sem áskilinn er í 144. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 5. mgr. 35. gr. barnalaga. Tilkynning með tölvupósti til héraðsdóms um að úrskurðurinn sé kærður telst ekki fullnægjandi. Samkvæmt því verður málinu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.